Molar um málfar og miðla 1981

 

NOTKUNARVALKOSTUR

Sigurður Sigurðarson skrifaði Molum (13.07.2016):

,,Ólafur Oddsson kenndi íslensku í MR. Ég notaði einhverju sinni orðið „valkostur“ í ritgerð. Hann fullyrti að það orð væri ekki til. Samsetningin er val og kostur og merkir nokkurn veginn hið sama, þó blæbrigðamunur sé á þeim. 

Við lestur á skýrslu um sæstreng milli Íslands og Bretlands rakst ég á þessa málsgrein:

Einnig er nauðsynlegt að nefna fónarkostnað auðlindanýtingar, þ.e. hagnað af besta notkunarvalkostinum sem ekki var valinn.

 

Þetta er stagl; val sem ekki var valið. Þarna hefði einfaldlega verið hægt að segja … það er hagnað af besta kostinum sem þó var ekki notaður. Tek það fram að það sem ég hef lesið í skýrslunni er ágætlega skrifað og á góðum máli ef frá eru dregin svona „smáatriði“.

Forðum daga tók ég mark á hinum ágæta íslenskukennara mínum og hef síðan ekki notað rassböguna „valkostur“. Orðið má kalla tvítekningarorð. Af öðrum álíka sem rekið hafa á fjörur mínar má nefna hið fræga „bílaleigubíll“, einnig „pönnukökupanna“, „borðstofuborð“ og „hestaleiguhestur“. Fróðlegt væri að fá að vita um fleiri álíka orð. Hægt er að búa til tvöfalt tvítekningarorð og segja „pönnukökupönnukaka“ en ef til vill er það of mikið af vitleysunni.”

Þakka bréfið, Sigurður. Rifjar upp fyrir Molaskrifara, að í MR talaði Ólafur Hansson, sá fjölfróði og frábæri lærifaðir, um ,,tátólógíu” og nefndi í því sambandi orð eins og halarófu og Vatnsskarðsvatn.

 

 

AÐ DETTA UM SÍNA EIGIN FÆTUR

Undarlega var að orðið komist um banaslys í Miklagljúfri í Bandaríkjunum, sem mbl.is sagði frá (13.07.2016): ,, .. að Burns hafi verið að færa sig til þess að ann­ar fjall­göngumaður kæm­ist fram hjá henni og náði þá ein­hvern veg­inn að detta um sína eig­in fæt­ur og féll aft­ur fyr­ir sig.” . Konunni varð fótaskortur, hún missti fótanna, hefði verið eðlilegra að segja.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/07/13/hrapadi_til_bana_i_miklagljufri/

 

 

EINKENNILEG FYRIRSÖGN

,,Mannskapurinn gjörsigraður”, segir í fyrirsögn á mbl.is (13.07.2016). Verið er að vitna í orð björgunarsveitarmanns um störf leitarmanna við mjög erfiðar aðstæður inni á öræfum.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/13/mannskapurinn_gjorsigradur/

Molaskrifari hallast að því að hér hefði fremur átt að segja að menn væru örmagna, úrvinda af þreytu, frekar en gjörsigraðir.

Fr´ttinni lýkur á þessum morðum: ,, Veðuraðstæður eru góðar á vett­vangi en um­hverfið er hins veg­ar þröngt og erfitt.” Hér hefði mátt segja , til dæmis: - Veður á staðnum er gott, en þrengsli þar sem áin rennur undir glerhart hjarn gera leitarmönnum erfitt fyrir

 Fram kom  að mennirnir ætluðu síðan að halda leit áfram eftir vel þegna og verðskuldaða hvíld. Maðurinn fannst vegna harðfylgi björgunarmanna, en var þá látinn. Íslenskir björgunarsveitarmenn vinna hvert þrekvirkið á fætur öðru. Þeir eru ávallt til taks, þegar kallað er eftir aðstoð. Almenningur hefur sýnt að hann metur sjálfboðaliðastörf þessa fólks mikils.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1980

ENDALAUS RUGLINGUR

Þeim fréttaskrifurum virðist fara fækkandi, sem kunna skil á því, að munur er á  að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað.

Í frétt um afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna til búvörusamninganna, sem birt á var á mbl.is (12.07.2016) sagði: ,,Stjórn­ar­and­stöðuflokk­arn­ir munu ekki kjósa með bú­vöru­samn­ing­un­um í óbreyttri mynd.”

Það verður ekki kosið með eða móti búvörusamningunum á Alþingi. Það verða greidd atkvæði um einstakar greinar samninganna, breytingartillögur og svo samningana í heild í formi lagafrumvarps, sem þá verður samþykkt sem lög frá Alþingi.

Furðulegt að þessi ruglingur skuli sjást og heyrast hvað eftir annað. Þjóðin kaus sér forseta. Alþingi kýs í ráð og nefndir og þar fara fram atkvæðagreiðslur um lagagreinar og lög.

Það starfa reyndir menn á Morgunblaðinu, sem ættu að geta útskýrt þetta fyrir nýliðum.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/12/stjornarandstadan_a_moti_samningunum/

 

EIGNARFALLS –S OG FLEIRA

Gylfi skrifaði eftirfarandi (13.07.2016): ,,Sæll Eiður og takk fyrir góða pistla. Af mbl-vefnum 13. júlí 2016. 
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/07/13/cameron_verdur_ekki_domari_i_strictly_come_dancing/ 
"Fyrsta spurning Corbyns sneri hins vegar að fjölda heimilislausra í Bretlandi og hvað Cameron vilji gera til að bæta úr fjölgun þeirra."

 

"Kunningjaleg skot flugu á milli Corbyns og Camerons í dag og var léttari stemning í salnum en oft áður."

Fréttabarn, geri ég ráð fyrir. 

Ég velti því jafnframt fyrir mér hvort rétt sé (hefð sé fyrir) að setja íslenskt eignafall (s) aftan við erlend eftirnöfn eins og þarna er gert. 
Væri t.d. rétt að tala um húsin þeirra Davids Camerons og Jeremys Corbins?" (húsið hans Jóns Jónssonar). - Þakka bréfið, Gylfi. – Það er talsvert á reiki, sýnist mér fljótt á litið, hvernig eignarfalls – s í íslensku eru notað með erlendum mannanöfnum.

 

 

 

BEYGINGAR

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (12.07.2016) sagði fréttamaður: ,,Suður Kínahaf spannar yfir þrjár milljónir ferkílómetra hafsvæði þar sem eru alþjóðlegar siglingaleiðir ...” Réttara hefði að mati Molaskrifara verið að segja, að Suður Kínahaf spannaði yfir þriggja milljón ferkílómetra hafsvæði ....

 

ÞJÁST AF MATARSKORTI

Á mbl.is var ( 12.07.2016) skrifað um ástandið í Venesúela: ,, Lands­menn þjást af mat­ar­skorti ...” Hefði ekki verið einfaldara að segja, að hungursneyð ríkti í landinu ? http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/07/12/hermenn_dreifa_mat_i_venesuela/

 

FYRIRSPURN

Í Molum 1262 fyrir 2-3 árum var nefnt, að glöggur lesandi hefði minnt á þá tillögu  Helga Hálfdanarsonar að kalla lögregluþjóna lögþjóna. Molaskrifara hefur verið inntur nánar eftir þessu, en finnur ekki tölvubréfið þar sem frá þessu var sagt. Sjálfsagt komið í glatkistu pósthólfsins fyrir löngu. Ef sá sem minnti á þetta, les þessar línur þætti skrifara vænt um að heyra frá honum/henni – netfangið er eidurgudnason@gmail.com eða skilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1979

AÐ SPYRNA SAMAN MÁLUM!

Í kvöldfréttum sjónvarps (11.07.2016) var rætt við talsmann kúabænda um stjórnvaldssektina, sem MS hefur hlotið og nýja búvörusamninga, sem koma til kasta Alþingis í sumar.

Fréttamaður sagði: ,, ... þannig að þingmenn spyrni saman tveimur ólíkum málum og greiði atkvæði gegn samningunum” – Búvörusamningunum.

 Hér óskiljanlegt rugl á ferð. Að spyrna saman málum! Molaskrifari hefur reyndar á tilfinningunni, að þetta hafi heyrst áður í Ríkisútvarpinu. Skyldu þetta vera áhrif frá íþróttadeildinni? Fréttamaður hefur hér ætlað að tala um a spyrða saman tvö mál, - tengja saman tvö mál, en ekki kunnað betur til verka svo, að úr verður hrein merkingarleysa, vitleysa.

Nafnorðið spyrða er notað um tvo fiska, sem bundnir eru saman á sporðunum eða , band, lykkju sem notuð er til verksins. Fiskur sem átti að láta síga eða herða var spyrtur og spyrðan hengd upp.

Málfarsnautur þarf að leiðbeina þeim sem hér átti hlut að máli.

 

PRÝÐILEG UMFJÖLLUN

 Prýðileg umfjöllun um nokkur mikið notuð sagnorð var í Málskoti málfarsráðunautar á Rás tvö á þriðjudagsmorgni (12.07.2016) . Meðal annars um sögnina að versla, sem er ekki áhrifssögn, tekur ekki með sér andlag. Þess vegna er ekki rétt að tala um að versla sér föt, eða mat. Við kaupum mat og kaupum okkur föt. Einnig var talað um ofnotkun sagnarinnar að elska og sögnina að drífa (sig). Ég verð að fara að drífa mig, - verð að fara að koma mér af stað. Þessir pistlar mættu vera oftar á dagskrá.

Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi talaði fréttamaður svo um að versla inn mjólkurvörur og versla inn í matinn. Það er til lítils fyrir Ríkisútvarpið að vera með málfarsleiðbeiningar, ef þeir sem mest þurfa á að halda , - eins og sumir starfsmenn stofnunarinnar, hlusta alls ekki á það sem verið er að segja. Hálf dapurlegt, - svona sama daginn.

Es. Og í seinni fréttum Ríkissjónvarps talaði formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna um frelsi til að versla drykkjarföng. Það er auðvitað dýrmætasta frelsið!

 

MEIRI REGLU

Það ætti ekki að vera Ríkissútvarpinu ofviða að vera með stutta fréttatíma á heila tímanum allan sólarhringinn. Fréttir á klukkutíma fresti. Erfitt er að sjá fasta reglu um fréttatíma í Ríkisútvarpinu.. Til dæmis gilda aðrar reglur um fréttatíma um helgar en virka daga. Frá því klukkan tvö að nóttu fram til klukkan fimm að morgni eru engar fréttir fluttar í útvarpi. Samt er fréttamaður/menn á vakt alla nóttina. Miklu frekar er þetta sennilega skipulagsatriði/verkstjórnarmál fremur en að þessu fylgi svo mikill kostnaður að Ríkisútvarpið ráði ekki við það.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1978

 

MÁLFARSKVILLI

Molavin skrifaði (11.07.2016) : "Íslenska liðinu vantaði heldur ekki mikið í viðbót til að vera ofar en Slóvakía..." segir í frétt á síðu RUV 11.7.16. Þágufallssýki er málfarskvilli, sem ætti ekki að sjást á vefsíðu Ríkisútvarpsins. "liðið vantaði ekki mikið..." ætti að standa. Enginn yfirlestur en málfarsráðunautur ætti vitaskuld að láta til sín taka. -  Þakka bréfið, Molavin.  Málfarsráðunaut skortir ekki verkefni.

 

HÖFUÐROTTAN!

Sveinn skrifaði (07.07.2016): Sæll Eiður og hafðu þökk fyrir þína þörfu pistla. Að mínu viti ætti að setja sumarstarfsmönnum fjölmiðla það fyrir að lesa molana, ef ekki bara öllum starfsmönnum.

Að þessu sinni stoppaði ég við fyrirsögn í Netmogga, Höfuðrotta stekkur frá sökkvandi skipi. Ekki hafði ég heyrt þetta áður, höfuðrotta, og fann engin dæmi heldur á vefnum timarit.is.

Það hefði kannski mátt þýða þetta á annan máta, að forystusauðurinn hyggist horfa á hjörð sína fara fyrir björg.

Eða hefði hreinlega ekki verið nóg að tala um rottu að flýja sökkvandi skip án þess að nota forskeyti? Hvað segir þú eða lesendur þínir?

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/07/06/hofudrotta_stekkur_fra_sokkvandi_skipi/

 Kærar þakkir, Sveinn, fyrir að kunna að meta þessa pistla mína. Þakka þér þessa ágætu ábendingu. Aldrei hefur skrifari heyrt orðið höfuðrotta. Þetta er auðvitað út í hött. En – hvað segja lesendur?

 

BORGA TIL BAKA

Í fyrirsögn á mbl.is (09.07.2016) segir: Vilja borga velvildina til baka. Kvikmyndagerðarfyrirtækið Pegasus vill launa íbúum Reyðafjarðar þá velveild sem fyrirtækið naut á staðnum þegar þar var unnið að kvikmyndagerð.

 Eðlilegra og fallegra ( að mati skrifara) er að tala um að launa, eða endurgjalda,  velvild tala um að borga velvild til baka.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/09/vilja_borga_velvildina_til_baka/

 

STÓRFRÉTTIN

Það er merkilegur fréttaheimur, sá íslenski, þar sem það er aðalfréttin í nær öllum fjölmiðlum heilan dag (08.07.2016) að sænsk tuskubúðakeðja (afsakið orðalagið) H&M skuli ætla að opna verslun, verslanir, á Íslandi. Ekki margt markvert að gerast.

 

FRESTUN FLOKKSÞINGS

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (10.07.2016) var vitnað í utanríkisráðherra og sagt: ,,.. segir að flokksþing Framsóknarflokksins verði hugsanlega flýtt.” Þetta las þulur án þess að hika. Þetta átti auðvitað að vera, - að flokksþingi Framsóknarflokksins yrði hugsanlega flýtt. Klukkunni var flýtt. Klukkan var ekki flýtt.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1977

ÓVANDVIRKNI

Molavin skrifaði (08.07.2016):,, Oft er fjallað um kunnáttuleysi blaðamanna og talað um fréttabörn. Það er ekki að ástæðulausu og varðar ekki aðeins málfar. Þekkingarskortur á umfjöllunarefni er oft átakanlegur. Í dag (8.7.16) er í Fréttablaðinu erlend frétt um formannsbaráttu í brezka Íhaldsflokknum. Þar er Andre Leadsom ítrekað, bæði í frétt og fyrirsögn, sögð Leadson að eftirnafni. Þarna er ljóst að sá sem skrifar erlendar fréttir er ekki vel að sér. Það er aðeins eðlileg krafa til fréttamanna að þeir séu vel að sér í þeim efnum, sem þeir segja frá og eiga að upplýsa þjóðina um. Það virðist liðin tíð að fréttir séu prófarkalesnar eða að yfirmenn lesi fréttir yfir áður en þær eru birtar. Allt þetta rýrir tiltrú fólks á fjölmiðlum og á sinn þátt í því að gera þá óþarfa.”.

Þetta er upphaf fréttarinnar: Bretland Annaðhvort Theresa May eða Andrea Leadson verður leiðtogi breska Íhaldsflokksins eftir að David Cameron hættir í haust. Fyrirsögnin er: Kosið verður milli May og Leadson. Þörf ábending Molavin, - kærar þakkir.

http://www.visir.is/kosid-verdur-milli-may-og-leadson/article/2016160709140

 

GRINDHVALAVEIÐAR

Rafn skrifaði (07.07. 2016):

 ,,Ætli það sé eins í Færeyjum og á Íslandi, að ríkisstjórnin setji lögin, en fái þau stimpluð í þinginu??

Annað mál. Hvert er það skip komið, sem ekki lætur sér nægja að fara inn í lögsögu ríkis, heldur fer inn fyrir hana??

Þetta er af vef Mbl.

 ,,Rík­is­stjórn Fær­ey­inga samþykkti fyrr á þessu ári laga­frum­varp sem kveður á um að skip­um sé óheim­ilt að sigla inn fyr­ir lög­sögu Fær­ey­inga í þeim til­gangi að koma í veg fyr­ir grinda­dráp.”

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/07/06/veiddu_50_grindhvali_i_faereyjum/

 Þakka Rafni bréfið. Molaskrifara finnst reyndar orka tvímælis að tala um grindhvalaveiðar. Hvalir eru reknir á land þar sem sandfjara er, - ekki víða í Færeyjum sem svo háttar til. Þar eru hvalirnir skornir og drepast á nokkrum sekúndum.

 

 

MÁLSKRÚÐ

Rosa sendi Molaskrifara línu fyrir helgina (07.07.2016) undir þessari fyrirsögn: ,, Málskrúð, - málskrúð er skrúðmælgi eða orðaglamur:

"Jákvæð þróun á stöðu biðlista eftir völdum aðgerðum"
= biðlistar styttast.” Kærar þakkir Rósa. Þetta er hallærislega upphafið orðalag um að biðlistar styttist.
http://www.dv.is/frettir/2016/7/7/jakvaed-throun-stodu-bidlista-eftir-voldum-adgerdum/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1976

GESTGJAFARUGL RÍKISSJÓNVARPSINS

Óhikað las ágætur fréttamaður í seinni fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (07.07.2016) ambögutexta, sem hin fjölmenna íþróttadeild Ríkisjónvarpsins hefur líklega rétt honum.

 

Fréttaþulur sagði: ,,Gestgjafar Frakka tóku á móti Þjóðverjum í Marseille”. Þetta er dæmalaust rugl eins og áður hefur nefnt hér í Molum. ,,Frönsku gestgjafarnir tóku á móti Þjóðverjum í Marseille.” Frakkar eru / voru gestgjafar þjóðanna ,sem tóku þátt í EM. Hverjir eru annars gestgjafar Frakka? Þetta er ekkert flókið. Þeir sem ekki vita hvað orðið gestgjafi þýðir og kunna ekki að nota það, eiga ekki að skrifa fréttir, sem lesnar eru fyrir þjóðina. Sennilega er málfarsráðunautur í sumarleyfi.

 

BARNAVEIÐISETT

Ekki kann Molaskrifari að meta orðið Barnaveiðisett, sem heyrðist hvað eftir annað í útvarpsauglýsingum á fimmtudag (07.07.2016). Veiðisett fyrir börn. Þetta er eiginlega í sama flokki og eldriborgara afsláttur, sem ærið oft er minnst á í auglýsingum. Það er afsláttur ætlaður eldri borgurum.

Kannski er þetta sérviska hjá Molaskrifara.

 

-LEGA

Flestir eru sjálfsagt orðnir vanir því að heyra íþróttafréttamenn segja sóknarlega og varnarlega. Nú er til siðs að bæta –lega við orð hvenær sem tækifæri gefst. Símstöðvarstjóri Útvarps Sögu sagði á fimmtudagsmorgni (07.07.2016): Prósentulega séð. Það var og!

 

SPJALLA VIÐ

Mjög er í tísku um þessar mundir í útvarpsþáttum að tala um taka spjall við einhvern, þegar ætlunin er að spjalla við einhvern. Ræða við einhvern. Þannig var til orða tekið í Sumarmálum á Rás 1 (07.07.2016). Þetta hefur verið nefnt í Molum áður,

Í þessum sama þætti þótti Molaskrifara það hæpið orðlag, þegar þess var minnst að þennan dag. 7. júlí 1941 hefðu Bandaríkjamenn tekið við vörnum Íslands úr höndum Breta. Þeir hurfu síðan heim nokkru eftir stríð, en komu aftur 1951 en fóru svo enn á ný árið 2006. Þáttarstjórnandi bætti við, efnislega – og vilja koma aftur núna. Hvar hefur sú beiðni komið fram?

 

LEIT AÐ MILLJÓNAMÆRINGI

Fram hefur komið í fjölmiðlum ( til dæmis í Morgunblaðinu 07.07.2016) að Íslensk getspá, fyrirtækið sem rekur Lottóið, sé að leita að heppnum einstaklingi sem fyrir nokkru síðan vann 54,8 milljónir króna. Vinningurinn hefur ekki verið sóttur. Eigandi vinningsmiðans veit ekki að hann vann. Þetta á ekki að geta gerst. Þetta er ríkisstyrkta fyrirtæki (einkaleyfið) kemur ekki heiðarlega fram gagnvart viðskiptavinum sínum.

 Ekki veit Molaskrifari betur en ,,stóru happdrættin” Happdrætti Háskólans, DAS og SÍBS tilkynni öllum miðaeigendum, sem hreppa vinning stóran eða smáan og leggi andvirðið inn á bankareikning hins heppna. .

 Þannig er það líka, að Molaskrifari best veit hjá norska lottóinu. Þegar keyptur er lottómiði fyrsta sinni, fær kaupandinn kort, á stærð við greiðslukort, sem hann sýnir, þegar hann seinna kaupir miða. Þar með er vitað hver keypti miðann og tryggt ef vinningur kemur á miðann þá ratar upphæðin til þess sem keypti. .

 Hversvegna gerir Íslensk getspá þetta ekki svona? Þá er tryggt að allir fá sitt. Engir ósóttir vinningar. Er hér verið, að spila á það að ef til vill verði vinningar ekki sóttir? Hver græðir á því? Hvað liggur mikið fé í ósóttum vinningum hjá Íslenskri getspá?

 

http://www.visir.is/islensk-getspa-leitar-ad-milljonamaeringi/article/2016160709344

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1975

HVER – HVOR

Sigurður Sigurðarson skrifaði (06.07.2016): ,,Sæll,

Þetta mátti lesa í frétt á visir.is. Höfundurinn er Jóhann Óli Eiðsson, blaðamaður, og hann verður að taka sig á:

 

Aðalvinningurinn gekk út en Finni og tveir Norðmenn skipta honum á milli sín. Þeir fá hver um sig tæpar 59 milljónir króna. 

 

Villan varðar málfræði og sker í augun. Annað hvort er blaðamaðurinn ekki betri í íslensku en þetta eða þá að enginn les yfir það sem birt er á þessum fréttavef rétt eins og Eiður hefur marg oft bent á. Engu skiptir hvor (ekki hver) ástæðan af þessum tveimur er rétt. Báðar benda til sorglegs ástands í íslenskri blaðamennsku.” Þakka bréfið. Það dapurlega er, að það virðist skorta allan metnað til að vanda sig og gera vel, skila lesendum villulausum texta á góðri íslensku. Á meðan svo er, er ekki við góðu að búast.

http://www.visir.is/akureyringur-fekk-sjo-milljona-bonusvinning/article/2016160709293

 

ÖRT STÆKKANDI ÞINGMENN

Ýmsir hafa orðið til að benda á meinlokuna, hugsunarvilluna, í þessari frétt á fréttavefnum visir.is (04.07.2016) en þar segir: ,, Vigdís Hauksdóttir þingmaður Framsóknarflokksins bættist í dag í hóp ört stækkandi þingmanna sem tilkynnt hafa að þeir ætli ekki að sækjast eftir endurkjöri í næstu þingkosningum sem fara fram í haust.”. Hér hefði að sjálfsögðu átt að tala um ört stækkandi hóp, ekki ört stækkandi þingmenn!

http://www.visir.is/segir-ordraeduna-a-althingi-jadra-vid-nidurbrot-politiskrar-umraedu-i-landinu/article/2016160709554

 

KIRKJUGRIÐ

Orðið kirkjugrið er ekki að finna í þeirri útgáfu Íslenskrar orðabókar, sem Molaskrifari jafnan hefur tiltæka. Ekki er það heldur að finna í Blöndal. Vísindavefur Háskóla Íslands skýrir orðið eins og hér má lesa: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=71089

Þetta orð hefur nokkuð oft komið við sögu í fréttum eftir að tveir hælisleitendur höfðu leitað kirkjugriða í Laugarneskirkju í boði sóknarprestsins þar að því er virðist. Lögreglan fjarlægði þá úr kirkjunni með valdi eins og oftlega er búið að sýna í fréttum.

Kirkjugrið voru nefnd í fréttum Ríkissjónvarps (05.07.2016) . Þá sagði fréttamaður: ,, Eftir að um þá hafði verið staðin kirkjugrið í Laugarneskirkju”. Þetta orðalag hefur skrifari aldrei heyrt, en það jafngildir auðvitað ekki því að eitthvað sé athugavert við orðalagið. Nú væri hinsvegar fróðlegt að heyra hvað málfróðir, eins til dæmis málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins segja um þetta orðalag. Er þetta gott og gilt? Leita menn ekki kirkjugriða, skjóls í kirkju, frekar en að staðin séu kirkjugrið um menn?

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1974

  

HVAÐ GERIR AÐ ....?

Molalesandi spyr Molaskrifara á netinu:

,,Má ekki svipta menn ríkisfangi fyrir svona fyrirsagnir?”

Fyrirsögnin er:,,Hvað gerir að Vigdís hyggst hætta?

Molaskrifara finnst það nú kannski full langt gengið, en alvarlegt tiltal ætti ritstjóri að veita þeim fréttamanni, sem ber ábyrgð á þessu.  

http://www.hringbraut.is/frettir/hvad-gerir-ad-vigdis-hyggst-haetta#.V3pTIeTsye8.facebook

 

FRANSKAR KARTÖFLUR

Á dögunum átti skrifari leið um stórmarkað þar sem verið var að bæta við vörum í grænmetisdeildinni. Þar á meðal voru stórar , tandurhreinar bökunarkartöflur. Þær komu í pappakössum og báru áletranir með sér að kartöflurnar voru frá Frakklandi.

Nokkru síðar þóttist skrifari heyra svohljóðandi auglýsingu í útvarpi: Nýuppteknar franskar kartöflur. Það gat auðvitað verið hárrétt.

En kannski var bara verið að auglýsa nýuppteknar danskar kartöflur? Misheyrn?.

En nýuppteknar franskar kartöflur eru óneitanlega afar áhugaverður kostur.

 

HJÓLREIÐAR Á GANGSTÍGUM Í sjónvarpi hefur að undanförnu verið sýnd stutt fræðslumynd frá Samgöngustofu ,aðallega um hjólreiðar á gangstígum, sem mjög hafa færst í vöxt að undanförnu. Myndin er vönduð og efninu gerð góð skil. Þorri hjólafólks er til fyrirmyndar. En litla von hefur skrifari um þessi mynd, þótt góð sé bæti framferði hjólafantanna á stígnum með Arnarnesvogi þar sem þeir stofna lífi og limum gangandi fólks í hættu á degi hverjum. Þar eru samt á tveggja km kafla fimm skilti, með reglum um hjólreiðar á stígnum. Molaskrifari forðast að ganga þarna á þeim tímum þegar  hjólaumferðin er mest. Það getur ekki verið að bæjarstjórn Garðabæjar skorti fjármagn  til að mála strik á stíginn. Þannig að glögg mörk verði milli gangandi og hjólandi. Það væri ódýr slysavörn.  Vonandi gerist það áður en fleiri  slys verða á stígnum.

 

 

 

SÍMANOTKUN UNDIR STÝRI

Lofsvert er framtak vátryggingafélagsins Sjóvár að birta auglýsingar, sem beinast gegn farsímanotkun undir stýri. Hrós fyrir það. Rannsóknir sýna að sá sem talar í síma í akstri er 23 sinnum líklegri til að lenda í óhappi, valda slysi en sá sem lætur þetta vera og einbeitir sér að akstrinum..

 Lögreglan þarf að fylgja banni gegn farsímanotkun undir stýri fast eftir. Hækka þarf sektir verulega. Sumir rannsakendur hafa sagt það sambærilegt því að aka undiráhrifum áfengis eða annarra vímuefna að tala í síma eða senda smáskilaboð undir stýri.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1973

TÍMAPUNKTUR OG FLEIRA

Sigurður Sigurðarson skrifaði (03.07.2016):

,,Sæll, Hvað finnst þér um þetta sem birtist á mbl.is?

„Ég vissi að ég yrði að taka víta­spyrnu á ein­hverj­um tíma­punkti og ég var með hjartað í munn­in­um. Það er erfitt að setja þetta í orð en ég var yfir mig ánægður að sjá bolt­ann fara inn,“ sagði þessi 26 ára gamli leikmaður Köln­ar.

 

Líklega hefur blaðamaðurinn þýtt erlenda frétt en ræður ekki við að orða hana á íslensku. Hvernig líður þeim sem er „með hjartað í munninum“? Varla er hann að japla á hjörtum að íslenskum sið? Orðalagið er ekki þekkt á íslensku en er til á ensku og getur merkt í þessu tilviki að vera kvíðinn eða hálfhræddur.

… erfitt að setja í orð …“ 

Mjög erumk tregt tungu að hræra ... sagði Egill Skallagrímsson forðum í upphafi Sonartorreks. Í fornsögnum segir frá þeim orðvana mönnum sem vefst tunga um höfuð. Nú á tímum eru margir orðlausir yfir góðum árangri fótboltaliðs. Enn aðrir vita ekki hvað skal segja og jafnvel eru þeir til sem eiga erfitt með að orða hugsanir sínar eða tilfinningar fyrir geðshræringu eða einhvers annars. Ekki er mikil reisn yfir þessu orðalagi á mbl.is og bendir til kæruleysis þess sem skrifar.” Þakka bréfið, Sigurður. Þú spyrð hvað Molaskrifara finnist um þetta. Því er einfalt að svara. Þetta er ógott. Enginn metnaður til að vanda sig. Hjartanu í munninum var reyndar seinna breytt í lífið í lúkunum. Einhver fullorðinn komist í textann, en hefði þó getað gert betur.

 


ÓYFIRLESINN TEXTI

Molavin skrifaði (002.07.2016)

,, Tryggvi Páll Tryggvason skrifar á Vísi (visir.is - 2.7.2016): "Innanríkisráðherra Serbíu að gestir kaffihússins hafi að lokum tekist að yfirbuga manninn..." Fúsk af þessu tagi er orðið tíðara en daglegt brauð. Þegar blaðamenn lesa ekki yfir sinn eigin texta er varla að vænta að yfirmenn geri það. Lesendur sjá þetta hins vegar og ekki eykst orðspor fjölmiðils við þrálátt fúsk.” Þakka bréfið, Molavin. Satt segirðu. Óttalegt fúsk.

NÝYRÐI?

Geir Magnússon skrifaði (02.07.2016): ,,Kæri Eiður

Í viðtali við utanríkisráðherra í mbl.is í dag rakst ég á tvö orð, sem ég man ekki til að hafa séð fyrr.

Hið fyrra er sögnin að formgera og hið seinna nafnorðið viðvera.

Er þetta hinn nýi kansellístíll eða hef ég gleymt að hafa séð þetta áður?” – Þakka bréfið, Geir. Ekki eru þetta nýyrði. Bæði orðin hafa sést áður, en sjálfsagt má kalla þetta  hinn nýja kansellístíl. Tek undir það.

 

ENN VERIÐ AÐ SKILJA

Á fréttavefnum visir.is var (01.07.2016) sagt frá konu, sem varð fyrir því að farpöntun hennar og greiðslukvittun fannst ekki í bókunarkerfi WOW flugfélagsins. Konan komst því ekki um borð í flugvélina þar sem hún átti pantað far og  missti af mikilvægum fundi í London. Flugfélagið vildi ekkert fyrir hana gera fyrr en hægt var að ná sambandi við þjónustuver þess, en þá var flugvélin löngu farin.

Rætt var við talsmann WOOW flugfélagsins,sem sagði: ,, „Þetta var þannig að bókunin hennar fannst ekki í kerfinu hjá okkur. Það er enn verið að skilja hvernig það gat gerst því þetta hefur ekki gerst áður en við höfum endurgreitt henni miðann ....” Æskilegt væri að fyrirtæki veldu sér talsmenn, sem væru betur máli farnir, en þetta dæmi ber vitni um.

http://www.visir.is/missti-af-mikilvaegum-fundi-thvi-bokunin-fannst-ekki-i-kerfi-wow-air/article/2016160709909

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1972

 

MÁNAÐARLEG BRÚÐARGJÖF!

Rafn skrifaði (01.07.2016): ,,Þetta var á vef visir.is (30.06.2016). Er nokkur nema íslenzk fréttabörn, sem halda að brúðargjafir séu endurteknar mánaðarlega??

,,Nú gengur póstur um netið á arabísku þar sem segir að íslenskur ráðherra hafi lofað þeim útlendingum sem giftast Íslendingum fimmþúsund dollurum í brúðargjöf.,,Sjá: http://www.visir.is/telja-sig-fa-600-thusund-a-manudi-flytji-their-til-islands-og-giftist-islenskri-konu/article/2016160639860

Þakka bréfið, Rafn. Meira en lítið undarlegt.

 

EFTIRSPURNIR

Í fréttum Bylgjunnar (28.06.2016.) var talað um að ótrúlegt væri hve mikið væri af eftirpurnum eftir flugmiðum til Frakklands. Orðið eftirspurn er ekki til í fleirtölu. Sjá vef Árnastofnunar: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=eftirspurn

Hér hefði átt að tala um mikla eftirspurn.

 

VIÐTENGINGARHÁTTUR

Eitthvað hefur misfarist í skólakerfinu við að kenna rétta notkun viðtengingarháttar í íslensku. Þetta má sjá aftur og aftur í fjölmiðlum.

Á forsíðu Morgunblaðsins (01.07.2016) er svohljóðandi fyrirsögn: Nýtt hótel verði opnað. Þetta er kannski fremur boðháttur, tilmæli um að opna hótel,  hvatning til að opna nýtt hótel, eða hvað?  Fréttin hefst á þessum orðum: ,,Stefnt er að því að opna nýtt hótel í Icelandair-keðjunni á Hljómalindar-reitnum um helgina”. Þess vegna hefði fyrirsögnin mátt vera, til dæmis: Nýtt hótel verður opnað, eða, - Nýtt hótel opnað um helgina.

 

SPENNA

Molaskrifari er vanur því að talað sé um að maður haldi niðri í sér andanum á spennuaugnablikum, - eins og til dæmis í fótbolta. Hætti að anda eitt andartak. Í frétt á mbl.is (28.06.2012) sagði hinsvegar: ,,Á meðfylgj­andi mynd­skeiði má sjá hvernig lýður­inn ým­ist hélt niður í sér and­an­um eða fagnaði ákaft.” Nú má alveg vera að hvort tveggja sé jafn algengt, - ekki dæmir Molaskrifari um það, en hitt er honum tamara á tungu , að halda niðri í sér andanum og það hefur gerst nokkuð oft að undanförnu, -   fyrir framan sjónvarpið.    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/28/sjadu_fagnadarlaetin_a_arnarholi/

 

ÓMERKILEGT

Heldur er það ómerkilegt hjá Ríkissjónvarpinu að geta þess ekki þegar verið er að endursýna efni eins og til dæmis þáttaröðina Hamarinn. Þess er vandlega látið ógetið að þetta sé endursýnt. Eru dagskrárstjórar að reyna að villa um fyrir okkur áhorfendum? Þetta er svo sem ekki nýtt í Efstaleitinu. Heldur alsiða. Svona gera alvöru sjónvarpsstöðvar ekki. En íslenska Ríkissjónvarpið gerir þetta aftur og aftur.

 

EINKUNN, MISKUNN, FORKUNN OG VORKUNN

Fyrirsögn af fréttavefnum visir.is (02.07.2016): Útlendingastofnun fær tíu í einkun. Það er illa skrifandi fréttamaður, sem ekki kann  regluna einföldu um orðin fjögur í íslensku, sem enda á tveimur n-um. Einkunn, miskunn, forkunn og vorkunn. Kannski er þetta ekki lengur kennt í grunnskólum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .  Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband