Molar um málfar og miðla 1972

 

MÁNAÐARLEG BRÚÐARGJÖF!

Rafn skrifaði (01.07.2016): ,,Þetta var á vef visir.is (30.06.2016). Er nokkur nema íslenzk fréttabörn, sem halda að brúðargjafir séu endurteknar mánaðarlega??

,,Nú gengur póstur um netið á arabísku þar sem segir að íslenskur ráðherra hafi lofað þeim útlendingum sem giftast Íslendingum fimmþúsund dollurum í brúðargjöf.,,Sjá: http://www.visir.is/telja-sig-fa-600-thusund-a-manudi-flytji-their-til-islands-og-giftist-islenskri-konu/article/2016160639860

Þakka bréfið, Rafn. Meira en lítið undarlegt.

 

EFTIRSPURNIR

Í fréttum Bylgjunnar (28.06.2016.) var talað um að ótrúlegt væri hve mikið væri af eftirpurnum eftir flugmiðum til Frakklands. Orðið eftirspurn er ekki til í fleirtölu. Sjá vef Árnastofnunar: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=eftirspurn

Hér hefði átt að tala um mikla eftirspurn.

 

VIÐTENGINGARHÁTTUR

Eitthvað hefur misfarist í skólakerfinu við að kenna rétta notkun viðtengingarháttar í íslensku. Þetta má sjá aftur og aftur í fjölmiðlum.

Á forsíðu Morgunblaðsins (01.07.2016) er svohljóðandi fyrirsögn: Nýtt hótel verði opnað. Þetta er kannski fremur boðháttur, tilmæli um að opna hótel,  hvatning til að opna nýtt hótel, eða hvað?  Fréttin hefst á þessum orðum: ,,Stefnt er að því að opna nýtt hótel í Icelandair-keðjunni á Hljómalindar-reitnum um helgina”. Þess vegna hefði fyrirsögnin mátt vera, til dæmis: Nýtt hótel verður opnað, eða, - Nýtt hótel opnað um helgina.

 

SPENNA

Molaskrifari er vanur því að talað sé um að maður haldi niðri í sér andanum á spennuaugnablikum, - eins og til dæmis í fótbolta. Hætti að anda eitt andartak. Í frétt á mbl.is (28.06.2012) sagði hinsvegar: ,,Á meðfylgj­andi mynd­skeiði má sjá hvernig lýður­inn ým­ist hélt niður í sér and­an­um eða fagnaði ákaft.” Nú má alveg vera að hvort tveggja sé jafn algengt, - ekki dæmir Molaskrifari um það, en hitt er honum tamara á tungu , að halda niðri í sér andanum og það hefur gerst nokkuð oft að undanförnu, -   fyrir framan sjónvarpið.    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/06/28/sjadu_fagnadarlaetin_a_arnarholi/

 

ÓMERKILEGT

Heldur er það ómerkilegt hjá Ríkissjónvarpinu að geta þess ekki þegar verið er að endursýna efni eins og til dæmis þáttaröðina Hamarinn. Þess er vandlega látið ógetið að þetta sé endursýnt. Eru dagskrárstjórar að reyna að villa um fyrir okkur áhorfendum? Þetta er svo sem ekki nýtt í Efstaleitinu. Heldur alsiða. Svona gera alvöru sjónvarpsstöðvar ekki. En íslenska Ríkissjónvarpið gerir þetta aftur og aftur.

 

EINKUNN, MISKUNN, FORKUNN OG VORKUNN

Fyrirsögn af fréttavefnum visir.is (02.07.2016): Útlendingastofnun fær tíu í einkun. Það er illa skrifandi fréttamaður, sem ekki kann  regluna einföldu um orðin fjögur í íslensku, sem enda á tveimur n-um. Einkunn, miskunn, forkunn og vorkunn. Kannski er þetta ekki lengur kennt í grunnskólum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .  Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Bloggfærslur 4. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband