Molar um málfar og miðla 1985

EFTIRLITSLEYSI

T.H. skrifaði Molum (20.07.2016) og benti á þessa frétt á mbl.is: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/07/20/engin_sprengja_i_brussel/

"Maður­inn sem grunaður var um að hafa sprengju innan­k­læða í miðborg Brus­sel var ekki hafa neitt slíkt á sér." Hann spyr:
,,Æ, æ, eru börnin alveg eftirlitslaus á fréttastofu mbl.is?”

Í þetta skiptið hefur sennilega enginn fullorðinn verið nærstaddur. Þakka ábendinguna, T.H. Eitthvað mun fréttin hafa verið lagfærð síðar.

 

TAKA SÉR TAKI

Af fréttavefnum visir.is (19.07.2016), en þar segir í fyrirsögn:

,,Verðum að fara að taka okkur taki” – þetta mun vera bein tilvitnun í dagbók lögreglunnar á Suðurnesjum. Molaskrifari hefur talið að það væri málvenja að tala um að taka sér tak (ekki taki) ætli maður að taka sig á, gera betur, bæta sig.

http://www.visir.is/-verdum-ad-fara-ad-taka-okkur-taki-/article/2016160718969

 

VERÐA SÉR AÐ VOÐA

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (19.07.2016): ,, Lögreglan á Norður-Sjálandi í Danmörku biðlar til fólks að líta upp úr snjalltækjunum til þess að verða sér ekki að voða.” Það er nokkuð fast í málinu að tala um að fara sér ekki að voða, skaða sig ekki, slasa sig ekki. – Enginn les yfir.

 http://www.ruv.is/frett/bent-a-ad-syna-adgat-a-pokemon-veidum

 

VATNSSKARÐSVATN OG PÖNNUKÖKUPANNA

Á dögunum bar á góma í Molum orð eins og Vatnsskarðsvatn, pönnukökupanna og bílaleigubíll. Af því tilefni skrifaði Geir Magnússon (15.07.2016):,, Kæri Eiður.
Las blogg þitt og hafði ánægju af eins og alltaf.
Tátólógían veldur mér vanda, en hver er lausnin?
Vatnið í Vatnsskarði þarf að heita eitthvað. Skarðið er kennt við vatnið, en hvað er hægt að kalla vatnið annað en Vatnsskarðsvatn?
Skarðsvatn dugar ekki því það er ekkert Skarð þarna. Bílaleigubíll er ekki það sama og leigubíll í venjulegu máli, það orð er notað um það, sem kallað er taxi á ensku.(Og nú er kominn vandi þar, með tilkomu Uber, hvað á að kalla þá bíla?)
Eins með pönnukökupönnu. Hvaða orð annað getur lýst þessu
búsáhaldi?
Ég er hræddur um að þessi orð, þótt tátólógiísk séu að útliti, séu nauðsynleg, að minnsta kosti þangað til við komum okkur saman um nýyrði fyrir þessa hluti.
Ættir þú núna að stofna til keppni um nýyrði. Má byrja á bílaleigu-bílum og pönnukökupönnum. Mitt tillag til þeirra eru “farvagn” og “flatpanna”. Skora ég á aðra að gera betur.” Þakka bréfið, Geir. Hef engar tillögur um betri orð, - þetta var eiginlega nefnt svona í hálfkæringi.

 

SEINKUN

Seinni fréttir Ríkissjónvarps hófust ekki á auglýstum tíma í gærkvöldi (20.07.2016). Þeim seinkaði. Ekki þótti ástæða til að biðjast afsökunar eða skýra seinkunina.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Bloggfærslur 21. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband