Molar um málfar og miðla 1977

ÓVANDVIRKNI

Molavin skrifaði (08.07.2016):,, Oft er fjallað um kunnáttuleysi blaðamanna og talað um fréttabörn. Það er ekki að ástæðulausu og varðar ekki aðeins málfar. Þekkingarskortur á umfjöllunarefni er oft átakanlegur. Í dag (8.7.16) er í Fréttablaðinu erlend frétt um formannsbaráttu í brezka Íhaldsflokknum. Þar er Andre Leadsom ítrekað, bæði í frétt og fyrirsögn, sögð Leadson að eftirnafni. Þarna er ljóst að sá sem skrifar erlendar fréttir er ekki vel að sér. Það er aðeins eðlileg krafa til fréttamanna að þeir séu vel að sér í þeim efnum, sem þeir segja frá og eiga að upplýsa þjóðina um. Það virðist liðin tíð að fréttir séu prófarkalesnar eða að yfirmenn lesi fréttir yfir áður en þær eru birtar. Allt þetta rýrir tiltrú fólks á fjölmiðlum og á sinn þátt í því að gera þá óþarfa.”.

Þetta er upphaf fréttarinnar: Bretland Annaðhvort Theresa May eða Andrea Leadson verður leiðtogi breska Íhaldsflokksins eftir að David Cameron hættir í haust. Fyrirsögnin er: Kosið verður milli May og Leadson. Þörf ábending Molavin, - kærar þakkir.

http://www.visir.is/kosid-verdur-milli-may-og-leadson/article/2016160709140

 

GRINDHVALAVEIÐAR

Rafn skrifaði (07.07. 2016):

 ,,Ætli það sé eins í Færeyjum og á Íslandi, að ríkisstjórnin setji lögin, en fái þau stimpluð í þinginu??

Annað mál. Hvert er það skip komið, sem ekki lætur sér nægja að fara inn í lögsögu ríkis, heldur fer inn fyrir hana??

Þetta er af vef Mbl.

 ,,Rík­is­stjórn Fær­ey­inga samþykkti fyrr á þessu ári laga­frum­varp sem kveður á um að skip­um sé óheim­ilt að sigla inn fyr­ir lög­sögu Fær­ey­inga í þeim til­gangi að koma í veg fyr­ir grinda­dráp.”

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/07/06/veiddu_50_grindhvali_i_faereyjum/

 Þakka Rafni bréfið. Molaskrifara finnst reyndar orka tvímælis að tala um grindhvalaveiðar. Hvalir eru reknir á land þar sem sandfjara er, - ekki víða í Færeyjum sem svo háttar til. Þar eru hvalirnir skornir og drepast á nokkrum sekúndum.

 

 

MÁLSKRÚÐ

Rosa sendi Molaskrifara línu fyrir helgina (07.07.2016) undir þessari fyrirsögn: ,, Málskrúð, - málskrúð er skrúðmælgi eða orðaglamur:

"Jákvæð þróun á stöðu biðlista eftir völdum aðgerðum"
= biðlistar styttast.” Kærar þakkir Rósa. Þetta er hallærislega upphafið orðalag um að biðlistar styttist.
http://www.dv.is/frettir/2016/7/7/jakvaed-throun-stodu-bidlista-eftir-voldum-adgerdum/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 11. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband