Molar um málfar og miðla 1989

SKYNDIBITASALERNI

Veturliði Þór Stefánsson sendi Molum eftirfarandi (23.07.2016):

Sæll Eiður: 
Ég bara varð að benda þér á þessa sérkennilegu fyrirsögn í frétt hjá Ríkisútvarpinu:
"Líkfundur á skyndibitasalerni í Ástralíu". 
http://ruv.is/frett/likfundur-a-skyndibitasalerni-i-astraliu

Ég kannast ekki við þetta nýyrði "skyndibitasalerni", nema það sé ástralskur siður að neyta skyndibita samhliða salernisheimsókn.”

Molaskrifari þakkar ábendinguna. Hann kannast heldur ekki við þetta nýyrði. Kannski er salernið einöngu ætlað þeim sem neytt hafa skyndibita með skyndilegum afleiðingum?

 

ENN OG AFTUR UM VIÐTENGINGARHÁTT

 Þetta er fyrirsögn af fréttavef Ríkisútvarpsins (23.07.2016):

Færeyingar fái mun meiri arð af auðlindinni. Verið er að vitna í samtal við Þorkel Helgason, stærðfræðing og prófessor emerítus. Þarna hefur viðtengingarháttur ekkert að gera. Fyrirsögnin ætti að vera. Færeyingar fá mun meiri arð af auðlindinni.  Á fréttavef Ríkisútvarpsins sama dag var einnig þessi fyrirsögn: Veiðigjald henti betur en uppboðsleið. http://www.ruv.is/frett/veidigjald-henti-betur-en-uppbodsleid Hvers vegna ekki: Veiðigjald hentar betur en uppboðsleið?

 Málfarsráðunautur ætti að flytja svolítið erindi fyrir fréttamenn um notkun viðteningarháttar. Það væri þarft verk.

http://www.ruv.is/frett/faereyingar-fai-mun-meiri-ard-af-audlindinni

 

 

BATNA - BÆTAST

Mun þá netsamband í bænum bætast til muna, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (23.07.2016). Hefði ekki verið eðlilegra að segja: Mun þá netsamband í bænum batna til muna ? Molaskrifari hallast að því.

 

ÚRHELLI Í KÍNA

Áttatíu og sjö manns hafa beðið bana í flóðum og aurskriðum í Hebeihéraði í Kína. Um þetta var notað skrítið orðalag á fréttavef Ríkisútvarpsins (23.07.2016): Úrhelli í Kína hefur dregið í það minnsta 87 manns til dauða. Varla er Molaskrifari einn um að þykja orðalag fremur undarlegt. Þá er það nýlunda að tala um fylki í Kína eins og gert er í fréttinni. http://www.ruv.is/frett/tugir-farast-vegna-rigningar-i-kina

 

AÐ TAKA ÁKVÖRÐUN

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (26.07.2016) sagði fréttamaður: ,, .... þá komst Innanríkisráðuneytið að þeirri ákvörðun, að lögreglustjórinn ....” Hér hefur eitthvað skolast til. Við tölum ekki um að komast að ákvörðun. Við tökum ákvörðun.  Hinsvegar er talað um að komast að niðurstöðu. Enginn las yfir, - ekki frekar en fyrri daginn.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Bloggfærslur 27. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband