Molar um málfar og miðla 1991

 

DÆMALAUS HROÐVIRKNI

Eftirfarandi er úr frétt á visir.is (27.07.2016): ,, Bilun kom upp í fluggagnakerfi í flugstöðinni í Reykjavík í dag. ....Búið er að gera við kerfið og nú er unnið að því að koma umferð í eðlilegar horfur á ný.
Þær vélar sem voru á flugi og á leið inn í flugstjórnarsvæðið var beint annað á meðan á viðgerðum stóð. Þær vélar sem þegar voru komnar inn á svæðið og voru að undirbúa lendingu var heimilað að gera svo.

Það er ekki nein flugstöð í Reykjavík. Kumbaldarnir frá  stríðsárunum þar er sem afgreiðsla Flugfélags Íslands er, standa ekki undir því nafni. Hér er sennilega átt við flugstjórnarmiðstöðina  í Reykjavík, sem er allt annað en flugstöð! Úr þeirri miðstöð er flugumferð á íslenska flugstjórnarsvæðinu stjórnað. Meira bullið.

Ýmislegt fleiri mætti gera athugasemdir við í þessari illa skrifuðu frétt. Enginn metnaður? Enginn yfirlestur? Engin vandvirkni?

http://www.visir.is/flugumferd-a-keflavikurflugvelli-raskadist-eftir-bilun-i-fluggagnakerfi/article/2016160729102

 

RISASTÖKK!

Helgi Haraldsson , prófessor emerítus í Osló benti skrifara á frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins. Risastökk segir Helgi. ,, Meðalhæðin óx um 10 sm á tveim árum! Lægst er meðalhæðin í Austur-Tímor og Gvatemala. Karlmenn í Austur-Tímor eru 160 sentimetra háir að meðaltali og í Gvatemala eru konur rétt undir 150 sentimetrum að meðaltali. Þær eru þó nærri tíu sentimetrum hærri en þær voru þegar mælingar hófust árið 2014”. Þakka bréfið Helgi, þarna hefur greinilega eitthvað skolast til !

 

http://www.ruv.is/frett/hollenskir-karlmenn-haestir-allra

 

LÖGREGLAN FANN FÉÞÚFU

Sveinn benti á eftirfarandi orðalag á fréttavef Ríkisútvarpsins (27.07.2016) : ,,Sæll Eiður, nú er ég ekki sérfræðingur í íslensku máli en eitthvað finnst mér samt bogið við þetta orðalag Ríkisútvarpsins: ,,Bræðurnir, sem eru rúmlega tvítugir, eru sakaðir um að hafa fært til fé til að fjármagna ferðir evrópskra vígamanna til Sýrlands. Lögreglan fann féþúfu á heimili bræðranna.http://www.ruv.is/frett/braedur-tengdir-isis-handteknir-a-spani

Kærar þakkir, Sveinn. Þetta orðalag er út í hött. Sá sem skrifaði hefur ekki hugmynd hvað orðið féþúfa þýðir eða hvernig á að nota það. Það er alvarlegt mál þegar svona ambaga birtist á fréttavef Ríkisútvarpsins. Verklag og verkstjórn ekki eins og á að vera.


HVAÐ ÞÝÐIR ÞETTA?

Í dagskrárkynningum í sjónvarpi er stundum sagt: ,,Atriði í þættinum eru ekki við hæfi við ungra barna”. Hvað á Ríkissjónvarpið við þegar talað er um ung börn? Er átt við börn yngri en 10 ára, 12 ára eða 14 ára?

Í gamla daga var þetta alveg skýrt í bíóunum. Kvikmyndir voru ýmist bannaðar börnum yngri en 12 ára, yngri en 14 ára eða yngri en 16 ára. Stundum tókst manni að svindla sér inn, eins og sagt var. Erfiðastur í þeim efnum var Einar frændi minn Þórðarson, sem lengi var dyravörður í Nýja bíói í aukavinnu. Það var eins og hann vissi nákvæmlega hvað við guttarnir vorum gamlir. Maður gafst fljótlega upp við að reyna!

ÍTREKUÐ SPURNING

Hversvegna er Færeyjum alltaf sleppt á Evrópukortinu í veðurfregnum Ríkissjónvarpsins? Óskiljanlegt.

 

Góða skemmtun um helgina og akið varlega!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 29. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband