Molar um málfar og miðla 2012

MYNDBIRTINGAR

Molavin skrifaði (29.08.2016): ,,Lögreglan lýsti í dag, mánudag eftir átta ára gamalli stúlku. Til að auðvelda almenningi að veita aðstoð var birt mynd af stúlkunni. Til allrar hamingju fannst hún skömmu síðar heil á húfi. Börn á þessum aldri eru viðkvæm fyrir umtali jafningja og það hefði verið við hæfi að draga til baka myndir af stúlkunni eftir að tilkynnt hafði verið að hún væri fundin. Enginn fjölmiðla né netmiðla gerði það heldur voru sömu myndir birtar á ný. Menn hljóta að spyrja sig hvaða tilgangi slíkar myndbirtingar þjóna. 

 

Áður fyrr giltu á fjölmiðlum vinnureglur um nafn- og myndbirtingar og var ætíð haft að leiðarljósi að valda hvorki sárindum né erfiðleikum. Mynd af týndu barni er birt í þeim tilgangi einum að auðvelda leit. Sú spurning vaknar nú hvern þroska þeir yfirmenn fréttamiðla hafa, sem nota myndbirtingar af þessu tagi til að veiða fleiri smelli á síður sínar. Er hægt að leggjast öllu lægra?”- Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er hverju orði sannara.

 

KRÖKKT AF MARGLYTTUM

Þetta var ágæt fyrirsögn á fréttvef Ríkisútvarpsins (29.08.2016) : http://www.ruv.is/frett/krokkt-af-marglyttum-a-isafirdi

Það var hinsvegar ekki jafngott orðalag í fréttinni um sama efni ,sem lesin var fyrir okkur í hádeginu sama dag. Í inngangi var talað um ókjörin öll af marglyttum , - sem er gott og gilt orðalag, en fréttamaður sagði okkur síðan að marglyttur í Skutulsfirði væru nú í ,, mun meira magni en áður hefði sést.” Það var ekki eins vel orðað. Orðið magn er ofnotað og oft rangt notað. Fréttamenn ættu að forðast það, - nema kunna með að fara.

 

SVONA-BAKTERÍAN

Vinur Molaskrifara sendi honum línu og sagði (29.08.2016): ,, Ég gerði mér það til dundurs hér um daginn að telja hversu oft einn veðurfræðinganna í sjónvarpinu skaut inn aukaorðinu svona í veðurfarslýsingu sína fyrir einn dag. Það reyndust 15 skipti. Nú sýnist mér fleiri veðurfræðingar vera að smitast af þessari svona-bakteríu. Hvað segir þú um að prófa sjálfur að telja ? “ – Molaskrifari gerði það og taldi tvisvar. Í öðrum fréttatímanum voru níu svona og í hinum átta. Það er auðvitað ástæðlaust og erfitt að gera orðið svona að einhverskonar bannorði, en eins og þar stendur , - en of mikið af öllu má þó gera. Þetta er svona vinsamleg ábending. - Eftir á að hyggja er Molaskrifari nokkuð viss um að hann notar þetta innskots- eða hikorð ansi oft í samtölum!

 

AÐ FJALLABAKI

Týnd á Fjallbaki, er fyrirsögn á mbl.is (30.08.2016) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/30/tynd_a_fjallabaki/

Fréttin er um leit að ferðmanni að Fjallabaki. Föst málvenja er að segja Fjallabaki. Þetta var rétt á fréttavefnum visir.is.

 

HEIMILI LÖGREGLU

Fyrirsögn af fréttavef Ríkisútvarpsins (29.08.2016): Sakaður um að hafa hótað íkveikju á heimili lögreglu. http://www.ruv.is/frett/sakadur-um-ad-hota-ikveikju-a-heimili-logreglu

Hér hefði fremur átt að tala um heimili lögreglumanns en heimili lögreglu.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2011

ÁHAFNARMEÐLIMIR OG FLEIRA

 Áhafnarmeðlimir hafa ítrekað komið við sögu í fréttum að undanförnu. Hálfgert leiðindaorð ( d. besætningsmedlem). Stöku sinnum hefur þó verið talað um flugliða, - betra.

 Í Speglinum (26.08. 2016) var sagt: ,, Einkenni sem þeir flugliðar, sem veikst hafa um borð í vélum Icelandair lýsa svipað ... afsakið, - svipar um margt til einkenna súrefnisskorts”. Rangt upphaf setningar. Hefði átt að vera: ,, Einkennum , sem ..... svipar um margt til ...” Of algeng villa. Það á ekki að þurfa neitt hugrekki til að hafa frumlag í réttu falli í upphafi setningar. Það þarf hinsvegar að kunna svolítið í málfræði.

Meira af sama úr fréttum og af fréttavef útvarps (28.06.2016): ,,Stjórnarandstaðan segir handtaka hans í nótt vera tilraun stjórnvalda til að bæla niður óánægjuraddir og sögðu Ceballos vera pólitískan fanga”. Hefði átt að vera: :,, Stjórnarandstaðan segir handtöku hans í nótt ...”. Hvað er til ráða? http://www.ruv.is/frett/leidtogi-stjornarandstaedinga-aftur-i-fangelsihttp://www.ruv.is/frett/leidtogi-stjornarandstaedinga-aftur-i-fangelsi

 Í morgunfréttum Ríkisútvarps (27.08.2016) var tvívegis talað um meðlimi hersins.  Eðlilegra hefði verið að tala um fulltrúa hersins eða hermenn, herforingja, ef því var að skipta. Ekki meðlimi hersins.

 

 

TÖLUR

,,Tvö hundruð níu tíu og einn létust í slysinu ....” var sagt í fréttum útvarps á sunnudagsmorgni (28.08.2016). Tvö hundurð níu tíu og einn lést í slysinu, hefði farið betur á að segja.

 

FÍLABEIN

Í síðdegisfréttum Ríkisútvarps (28.08.2016) fjallað um fíladráp og ólöglega verslun og smygl á fílabeini. Orðið fílabein var ítrekað notað í fleirtölu. Það stangaðist á við málkennd Molaskrifara. Talað var um smygl á fílabeinum. Fílabein segir orðabókin að sé fílstennur, tennur úr fíl. Í beygingarlýsingu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar er einungis að finna eintölumynd orðsins. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=f%C3%ADlabein

En sennilega er ekki hægt að segja það rangt að nota orðið í fleirtölu þótt það stangist á við rótgróna málvenju.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2010

 

FÖSTUDAGURINN LANGI

Ingibjörg skrifaði (24.08.2016): ,,Ekki er Moggafólkið betra í ensku en í íslensku! Það veit ekki að Good Friday er föstudagurinn langi.,, Erlent | AFP | 24.8.2016 | 14:56

,,Hermaður lagði á ráðin um hryðjuverk -

Breskur hermaður var handtekinn í morgun grunaður um að hafa lagt á ráðin um hryðjuverk. Handtakan ten ist rannsókn á hryðjuverkum í Norður-Írlandi skv. upplýsing um frá breskum lögregluyfirvöldum.

Árið 1998 var Good Friday friðarsáttmálinn undirritaður sem batt endi á þriggja ára tuga langt skeið ofbeldis í N-Írlandi þar sem um 3.500 manns létu lífið.”. Þakka bréfið, Ingibjörg.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/08/24/hermadur_lagdi_a_radin_um_hrydjuverk/

Fréttin var sett á vefinn rétt fyrir klukkan 15 00 . Undir kl 2100 var föstudagurinn langi enn ekki kominn til skjalanna í fréttinni. Les enginn á ritstjórn mbl.is fréttirnar, sem þar eru birtar?

 

SJOMLI - SJOMLA

Það var prýðilega vel til fundið og vel gert hjá Brodda Broddasyni í hádegisfréttum Ríkisútvarps (25.08.2016) að skýra fyrir okkur   (einkum okkur gamlingjum!) hvað orðið sjomli , kvk. sjomla þýðir. Orðið hafði komið fyrir í hljóðklippi í fréttum. Þetta er sem sagt slanguryrði, afbökun á orðinu gamli, gamla. Molaskrifari játar í fullri hreinskilni að þetta vissi hann ekki. Svo lengi lærir sem lifir.

 

BROTHÆTT ÁSTAND

Í fréttum Ríkissjónvarps um hörmungarnar í kjölfar jarðskjálftanna á Ítalíu (25.08.2016) var sagt að ástandið væri brothætt. Þetta er óíslenskulegt orðlag, enda sennilega hráþýðing úr ensku, sem ekki ætti að heyrast í fréttum, fragile situation, - getur brugðið til beggja vona. Ástandið var erfitt, mjög erfitt. Ástand getur ekki verið brothætt. Fréttin var annars vel unninn og vel fram sett.

 

 

ÁSMUNDUR

Þakkir fær Ríkissjónvarpið fyrir prýðilegan, stórgóðan, Íslendingaþátt um Ásmund Sveinsson, myndhöggvara, í vikunni. Ásmundur var einn okkar merkasti listamaður á liðinni öld. Molaskrifari sá hann svolítið í nýju ljósi í þessari ágætu samantekt Andrésar Indriðasonar. Takk.

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2009

ÞINGMANNAVIÐTÖL

 Í fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (23.08.2016) var rætt við tvo þingmenn, varaformann þingflokks Sjálfstæðisflokksins, Guðlaug Þór Þórðarson og formann Vinstri grænna, Katrínu Jakobsdóttur.

 Guðlaugur Þór var fyrst spurður hvort ósamstaða væri í ríkisstjórninni. Hann vék sér fimlega undan að svara. Aftur var hann spurður um þau ummæli Katrínar, að stjórnarflokkarnir væru að færast fjær hvor öðrum. Enn kom Guðlaugur sér snyrtilega undan því að svara spurningunni. Hann fylgdi þeirri  klókindareglu margra pólitíkusa að segja það sem hann vildi án þess að gefa  spurningunni of mikinn gaum !    Það merkilega var að fréttamaður lét sér þetta bara vel líka. Skondið   á sinn hátt. En þegar allir heyra að spurningu(m) er ekki svarað á auðvitað að ganga eftir svörum.   

Þingfundi var löngu lokið, en hversvegna var þetta viðtal  í beinni útsendingu úr þinghúsinu?

Það gaf því ekki aukið gildi eða vægi á neinn hátt.

 

VIRÐING FYRIR MÓÐURMÁLINU

 Í Morgunblaðinu rís virðingin fyrir móðurmálinu jafnan hæst í pistlunum sem kallaðir eru Smartland Mörtu Maríu. Þar voru þessar fyrirsagnir í vikunni (22.08.2016) ,, Mig dreymir um að verða ,,Wedding planner” ” , og ,, Kennir spinning sex sinnum í viku

Þarna fer ekki mikið fyrir metnaði til að skrifa vandaðan texta fyrir lesendur Morgunblaðsins.

 

KJÖRTÍMABILIÐ

Í fréttum Ríkissjónvarps (23.08.2016) var rætt við Eygló Harðardóttur félagsmálaráðherra. Hún sagði: ,,Við erum núna samtaka í því að klára þetta kjörtímabil”. Þetta var einnig haft eftir henni í inngangi að fréttinni.

Nú á að kjósa í lok október, en kjörtímabilinu lýkur ekki fyrr en næsta vor. Kjörtímabilið er fjögur ár. Ríkisstjórnin boðar til kosninga áður en kjörtímabilinu lýkur. Hún ,,klárar ekki kjörtímabilið”. Hvaða rugl er þetta?

 

 

 

ENDURTEKNINGAR

Mörgum finnst sjálfsagt að í þessum Molum um málfar sé nokkuð um endurtekningar. Ekki skal ég neita því. Það er vegna þess að sömu villurnar sjást aftur og aftur í fjölmiðlum og skrifari trúir enn hinu forna sannmæli að dropinn holi steininn.

 Það er hinsvegar dapurleg staðreynd að fjölmiðlar á heildina litið (Heilt yfir er víst tíska að segja !) virðast ekki hafa metnað til að gera vel og vanda málfar.

 Það vantar verklagsreglur og vönduð vinnubrögð. Mishæfir nýgræðingar, viðvaningar skrifa fréttir, sem síðan eru birtar okkur án þess að nokkur hafi lesið yfir eða leiðrétt augljósar villur.

 Sanngjarnt er að geta þess að við fjölmiðla starfar fjöldi vel menntaðra , vel skrifandi og vel talandi karla og kvenna. Skussarnir eru bara of margir. Þeir virðast ekki fá tilsögn eða leiðbeiningar. Það er miður. Það þarf að breytast. Það er alvarlegur stjórnunarvandi, fjölmiðlar glíma við.

 

.... Vegna tölvuvandræða verða Molar eitthvað strjálli á næstunni.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 2008

SLÆMT

Hvað segir það okkur hlustendum, þegar íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins les í aðalfréttatíma (22.08.2016): ,,LEIKUNUM í Ríó er nú borið saman við leikana í Atlanta 1996 og í Aþenu 2004, leikar sem gengu ekki alveg upp (!) ”. Það segir okkur, að viðkomandi hafi ekki gott vald á móðurmálinu. Ætti ekki að skrifa fréttir, nema undir leiðsögn þeirra, sem kunna íslensku til nokkurrar hlítar. Sami fréttamaður talaði um gestgjafana, Brasilíumenn, sem Brassana ! Það orð er kannski hægt að nota í hita leiksins í íþróttalýsingum. Ekki í fréttum.

 Þetta segir okkur líka, því miður, að þeir sem stjórna íþróttadeild og fréttastofu Ríkisútvarpsins ráða ekki vel við þau verkefni sem þeir hafa tekið að sér. Á þessari fjölmennustu fréttastofu landsins starfa margir hæfir og prýðilega máli farnir og ritfærir einstaklingar. En verkstjórn og gæðaeftirlit er ekki í lagi. Það ætti að vera æðstu stjórnendum í Efstaleiti umhugsunarefni. Alvarlegt umhugsunarefni.

 

RÉTT SKAL RÉTT VERA

Í fréttum Ríkisútvarps og sjónvarps (22.08.2016) var Ólafur Stephensen hvað eftir annað kallaður formaður Félags atvinnurekenda. Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnufrekenda. Það hefur komið hundrað sinnum fram í fréttum og kemur fram á heimasíðu félagsins. Formaður félagsins er Birgir S. Bjarnason, kosinn 2015 til tveggja ára. Það er alltaf betra, að vita við hvern er rætt. Enginn virtist taka eftir þessu. Engin leiðrétting. Engin afsökun.

 

ER AÐ .....

Sumir tala um er að sýki. Oft er er að notað að óþörfu og er til lýta. Í fréttum Stöðvar tvö (19.08.2016) var sagt frá listviðburðum á menningarnótt. Fréttamaður sagði: ,, ... vísa spurningunni áfram til konunnar sem er að bera ábyrgð á þessu öllu á morgun ....” . Hér hefði verið betra að tala um að vísa spurningunni áfram til konunnar , sem ber ábyrgð á þessu. Það þurfti ekkert er að.

 

 

 

BÆNDUR

Í fréttum er oft talað um svína- og kjúklingabændur. Molaskrifari hefur aldrei fellt sig við notkun orðsins bóndi um þessa kjötframleiðendur. Oftar en ekki, er þetta fremur verksmiðjuframleiðsla en búskapur í þess orðs eiginlegu og hefðbundnu merkingu.

 

FORSETAKOSNINGAR

,,Kosið verður um nýjan forseta a Bandaríkjanna 8. nóvember...” var sagt í fréttum Ríkisútvarps aðarfaranótt 23. 08.2016. Það verður ekki kosið um forseta. Nýr forseti Bandaríkjanna verður kosinn 8. nóvember, hefði verið betra orðalag.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eða einkaskilaboð á fasbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 2007

 

VISIR.IS SETUR MET

Sigurjón Skúlason skrifaði (22.08.2016) og notaði fyrirsögnina ,,Hræðilegt frétt” :

,,Heill og sæll Eiður.
Mig langaði að vekja athygli þína á frétt á Vísi.is sem birtist í dag, 22.08.2016.
Fréttin ber öll merki þess að hafa ekki verið lesin yfir en vafalaust hefur hún verið þýdd beint af einhverjum erlendum miðli.
Fyrsta setningin segir allt sem segja þarf: "Bandaríkin vann flest verðlaun á Ólympíuleikunum"!
Með réttu ætti fréttin að birtast á afþreyingarhluta síðunnar, undir heitinu; hvað finnur þú margar villur?
Hér er fréttin í heild sinni ásamt hlekk:
,,Bandaríkin vann flest verðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó sem lauk í gær. Er þetta í sautjánda skipti alls sem að Bandaríkin vinnur til flestra gullverðlauna en í þetta sinn urðu þau 43 talsins.

Alls fékk Bandaríkin 116 verðlaun sem er það mesta sem að þjóðin hefur unnið síðan að leikarnir fóru fram á heimavelli, í Los Angeles, árið 1984. Þá mættu Sovétmenn ekki til leiks og Bandaríkjamenn sópuðu til sín 174 verðlaunapeningum.

Bandaríkin ber af í bæði frjálsum íþróttum og sundi. Í fyrri greininni vann Bandaríkin til 31 verðalauna, þar af þrettán gullverðlauna. Jamaíka kom næst með sex gullverðlaun. Bandaríkin vann svo sextán gullverðlaun í sundlauginni, 33 verðlaun alls af þeim 104 sem í boði voru.

Með þessu á Bandaríkin nú meira en eitt þúsund gullverðlaun á Ólympíuleikum frá upphafi en Sovétríkin sálugu koma næst á listanum með 395 gullverðlaun. Bretland er í þriðja sæti með 261 gullverðlaun. Yfirburðirnir eru ótrúlegir.

Það kemur ekki á óvart Bandaríkin á sigursælustu íþróttamennina en Michael Phelps (6 gull, 1 silfur) vann flest verðlaun allra í Ríó en á eftir honum komu Katie Ledecky (5 gull, 1 silfur) og Simone Biles (5 gull, 1 brons.

Ísland er enn að bíða eftir sínum fyrstu gullverðlaunum á Ólympíuleikum en þrjár þjóðir unnu sitt fyrsta gull í Ríó. Fiji í sjö manna rúgbý, Jórdanía í taekwondo og Kosovo í júdó.
http://www.visir.is/bandarikin-enn-langsigursaelasta-olympiuthjodin/article/2016160829776

 

Kærar þakkir  fyrir ábendinguna, Sigurjón. Þarna slær visir.is nýtt met. Niður á við. Þetta er ótrúlegt. – Því er hér við, að bæta, að fréttina skrifaði Eiríkur Stefán Ásgeirsson. ,,Eiríkur Stefán er aðstoðarritstjóri fréttastofu 365 og hefur yfirumsjón með íþróttaumfjöllun, segir orðrétt á visir.is. Smakvæmt því  var  enginn viðvaningur að verki. Nema yfirmenn séu viðvaningar? Fréttin var sett á netið klukkan 12 15. Fimm klukkustundum síðar stóð þetta enn óbreytt.

En þetta er ekki eina fréttin á visir.is þar sem þetta orðalag  er notað: ,,Bandaríkin heldur áfram sigurgöngu sinni á Ólympíuleikunum í körfubolta karla, en þeir unnu 96-66 stórsigur á Serbíu í úrslitaleiknum í Ríó í kvöld.”  http://www.visir.is/bandarikin-burstadi-serbiu-og-vann-thridja-ol-gullid-i-rod/article/2016160829846 Kannski sami skrifari  að verki? -   Hvað getur maður sagt?

 

SÖMU VILLURNAR

Aftur og aftur heyrir maður sömu villurnar endurteknar í fréttum.

Eignarfall orðsins göng er ganga. Eignarfall orðsins göngur er gangna. Þessu er sífellt ruglað saman.

Í fréttum Stöðvar tvö var (19.08.2016)  fjallað um Norðfjarðargöng. Fréttamaður sagði: ,,Um fimmtíu manns vinna að gangnagerðinni og vinna þeir á sólarhringsvöktum”. Hér hefði átt að tala um gangagerð, ekki gangnagerð. Þetta er ekki flókið en til að hafa þetta rétt þurfa að kunna hvernig þessi orð, göng og göngur beygjast. Jarðgangamenn gera jarðgöng. Gangnamenn leita að fé um fjöll og firnindi að hausti.

Er erfitt að skila þetta?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2006

 

ENN OG AFTUR

 Af dv.is (19.08.2016): ,,Annar þeirra katta sem drapst í Hveragerði í byrjun mánaðarins var byrlað sama eitur og þeir kettir sem drápust skyndilega í bænum fyrir rúmu ári. “ Enginn sér eða skilur, að því er virðist, að þetta er málfræðilega rangt. Ætti að vera: ,,Öðrum þeirra katta, sem drápust í Hveragerði í byrjun mánaðarins, var byrlað sama eitur og ....”. Kæruleysi, eða kunnáttuleysi, - nema hvort tveggja sé. Einhverjum er byrlað eitur.

http://www.dv.is/frettir/2016/8/18/kattanidingsmalid-i-hveragerdi-nyjar-upplysingar-komnar-fram/

Reyndar kemur ekki skýrt fram í fréttinni hvaða nýjar upplýsingar þar séu á ferðinni.

 

Á STÓRBÚI

SS, Sláturfélag Suðurlands heldur áfram að kynna okkur bændur, sem ,,eigi félagið”. Um einn stórbónda er sagt að hann búi á stórbúi. Sláturfélagsmenn og textahöfundur auglýsingarinnar vita sennilega ekki að það er málvenja að tala um að búa stórbúi frekar en að menn búi á stórbúi, - það stríðir gegn málvenju.

 

GRÖFUM UNDAN HEILBRIGÐISKERFINU

Einkasjúkrahúsið grafi undan núverandi kerfi, sagði í fyrirsögn í Morgunblaðinu sl. föstudag (12.08.2016). Í fréttinni er ekki verið að hvetja til þess að einkarekið sjúkrahúsi grafi undan heilbrigðiskerfinu, eins og ætla mætti af lestri fyrirsagnarinnar. Þetta er bara enn eitt dæmið um að fyrirsagnasmiðir kunnan ekki að nota viðtengingarhátt. Það sem átt er við, er að rekstur einkasjúkrahúss mundi grafa undan heilbrigðiskerfinu. –  Svona fyrirsögn hefði ekki náð á prent, ekki komið fyrir augu lesenda hér á árum áður meðan enn var málfarslegur metnaður á Morgunblaðinu.

 

FÆREYJAR - VEÐUR

Enn tekst ekki að koma Færeyjum á Evrópukortið í veðurfregnum. Hefur verið nefnt áður í Molum. Molaskrifari veit að fleiri hafa  vakið máls á þessu við veðurfræðinga. Það getur ekki verið tæknilega erfitt að sýna okkur hitastigið í Þórshöfn. Athygli Molaskrifara hefur einnig verið vakin á því að ekki er lengur sýnt hitastig á Kanaríeyjum , en það mátti áður sjá neðst í vinstra skjáhorni.

Hvað veldur?

 

STÓRBRIMI

Af mbl.is (20.08.2016): ,, Feðgin­in stóðu ásamt þrem­ur öðrum fjöl­skyldumeðlim­um á grjóti við strönd­ina þegar mikið stór­brimi greip þau. “

Gæðaeftirlit, yfirlestur ekki til staðar.  Meðlimir koma víða við sögu.

Er stjórnendum fjölmiðla ekki kappsmál að skila okkur réttum og vönduðum texta?

 

 TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 2005

HANDLEGGUR OG BLÓÐ

Margir hafa vakið athygli Molaskrifara á einkennilegum fyrirsögnum í Fréttablaðinu í gær (18.08.2016). Árni Gunnarsson, áður starfsbróðir í fréttamennsku og þingbróðir, fjallar um þessi undarlegu skrif á fasbók. Árni segir:,, ÞARF EKKI AÐ KOSTA HANDLEGG OG ANÍTA ER KOMIN MEÐ BLÓÐ Á TENNURNAR. - Þetta eru tvö dæmi um fyrirsagnir í Fréttablaðinu í morgun. Þetta með handlegginn er í grein um tískustefnur fyrir skólafólk í vetur. Þar er bent á fatnað "sem þarf ekki endilega að kosta handlegg og óbærileg heilabrot á hverjum morgni". Í öðrum pistli á sömu síðu er talað um "Old school alla leið". Þar verða "brakandi hvítir skór enn í gangi". Síðan segir höfundur: "Annars myndi ég miða bara vel á öll old school snið og fjárfesta í síðum hlýrabolum til að nota í layer". Svo er það lúkkið, að fíla og ódýr beisikk föt. - Síðan kemur blóðið á tönnum Anítu, rétt eins og hún hafi fengið högg á andlitið. Hér er líklega verið að þýða danskt orðatiltæki "At faa blod paa tanden" þ.e. að árangur Anítu hafi vakið löngun hennar til frekari afreka. –“ Þakka Árna fyrir að fá að birta þetta. Hvað er hægt að segja, þegar svona birtist á prenti? Ekkert. Manni verður orðfall.  

 

TEPRUTAL

Ósköp var það teprulegt, eða pempíulegt, að segja eins og gert var í fréttum Ríkissjónvarps (16.08.2016): Hundur dó í brunanum. Seinna í fréttinni var okkur sagt, að hundur hefði dáið ... Hér hefði skrifara þótt eðlilegra að segja að hundur hefði drepist í brunanum eða hundur hefði brunnið inni í húsinu þar sem eldsvoðinn. varð.

 

VIRKAR SVÆÐIÐ?

Í fréttum Ríkissjónvarps (16.08.2016) var fjallað um könnum, sem Icelandair samsteypan ætlar að láta gera við Hvassahraun, eða í hraununum suðaustan við bæinn Hvassahraun til að kanna hvort þar séu heppilegar aðstæður til að gera flugvöll. Í fréttinni var sagt: ,, ... til að skoða hvort svæðið virki fyrir nýjan flugvöll.” Óboðlegt orðlag; hálfgert barnamál. Það á að kanna hvort svæðið sé hentugt, eða nothæft til að gera þar nýjan flugvöll. Enginn les yfir, áður en lesið er fyrir okkur.

 

AÐ VERA STADDUR

Hversvegna er alltaf verið að segja okkur að íþróttafréttamenn Ríkisútvarpsins (16.08.2016) séu staddir í Ríó ? Þeir eru í Ríó.

 

SMITANDI AMBÖGUR

Ambögur,sem íþróttafréttamenn hafa tileinkað sér, eru smitandi. Í Víkverjadálki Morgunblaðsins (17.08.2016) sagði í frétt um verðlaunaveitingar á Ólympíuleikunum í Ríó: Gestgjafar Brasilíu eru í 16. sæti með níu verðlaun. Hverjir eru gestgjafar Brasilíu? Brasilíumenn eru gestgjafar þjóðanna, sem taka þátt í Ólympíuleikunum. Veit ekki hve oft þetta hefur verið nefnt í Molum.- Svo væri betra að hafa samræmi í tölum í sömu setningu. Nota ekki bæði tölustafi og bókstafi.

 

KASTLJÓS

Gott að Kastljósið skuli komið aftur á dagskrá í Ríkissjónvarpinu. Kastljósið er þáttur, sem ætti að vera á dagskrá allan ársins hring.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 2004

AÐ AUSA OG PRJÓNA

 Þorvaldur skrifaði Molum (16.08.2016): ,,Sæll Eiður
Í vefmogga er sagt frá því að fjörurra ára drengur hafi fengið í höfuðið framhóf á hrossi sem jós og fór upp á afturfæturna. Sagt er að hross prjóni þegar þau lyfta framfótum en ausi þegar afturfótum er lyft.
Í viðtali við berjatínslumann fyrir nokkrum dögum var talað um skemmtilegt berjamó.
Íþróttasíða Mogga segir frá því að Skagamenn hafi í gær sigrað nágranna sína frá Ólafsvík. Ólsarar búa fjærst Skaganum allra liða í deildinni (sleppum því að leikmenn þeirra búa flestir í öðrum löndum eða jafnvel heimsálfum).

Talsvert virðist skorta á þekkingu ýmsa hjá blaðamönnum.” Þakka bréfið, Þorvaldur. Já, það er víða pottur brotinn og enn og aftur sannast að kunnátta í landafræði Íslands er ekki til staðar hjá sumum sem skrifa fréttir.

 

VINSÆLDIR AÐILA FARA VAXANDI

Orðið aðili nýtur ört vaxandi vinsælda hjá fréttaskrifurum. Á mbl. is (14.08.2016) var frétt um líkamsárás. Þar sagði : ,, Árás­araðili var hand­tek­inn og vistaður í fanga­geymslu.” Árásaraðili? Árasarmaðurinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu.

 

STOKKURINN ENN EINU SINNI

Enn tala menn í Ríkisútvarpinu um að stíga á stokk, þegar listamenn koma fram, flytja tónlist. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardaginn (13.08.2016) var sagt frá níræðisafmæli Fidels Castro. Fréttamaður sagði:,, Á miðnætti í gærkvöldi steig hljómsveit á stokk fyrir utan nýopnað sendiráð Bandaríkjamanna í Havana og tók afmælissönginn fyrir Kúbuleiðtogann fyrrverandi.” Menn stíga á stokk og strengja heit, það er gamalt og gott orðalag, en hefur hreint ekkert með tónlistarflutning að gera. Stokkur er ekki svið ætlað listamönnum.  Hljómsveitin tók ekki afmælissönginn, hún spilaði, lék afmælissönginn. Við tölum hins vegar um að taka lagið, en það er önnur saga. – Hér þarf málfarsráðunautur að láta til sín taka.

 

 

 

GERT AÐ GREIÐA

Í fréttum Stöðvar tvö (13.08.2016) var sagt frá deilum um gjöld og tollkvóta. Fréttamaður sagði: ,, ... þar sem íslenska ríkið var gert að greiða þremur fyrirtækjum 500 milljónir króna ...” Villur af þessu tagi heyrast nú og sjást einhverra hluta vegna æ oftar í fréttum fjölmiðla. Ríkið var ekki gert að greiða. Ríkinu var gert að greiða. Einhverjum er gert að gera eitthvað, einhver er skyldaður til að gera eitthvað. Enginn les yfir, - ekki frekar en annarsstaðar.

 

GOTT

Það var gott, þegar fréttaþulur leiðrétti í lestri í morgunfréttum Ríkisútvarps (14.08.2016). Í handriti (eins og á fréttavef Ríkisútvarpsins) var greinilega skrifað Wisconsin fylki í Bandaríkjunum. Þulur, sem skrifari veit því miður ekki hver var, leiðrétti sig og sagði réttilega Wisconsin ríki. Of sjaldan leiðrétta þulir vilur í handritum, - en þetta var gott.

Það var líka gott að heyra fréttamann/fréttaþul tala um Arnarhvál í þrjú fréttum á þriðjudag (16.08.2016) Það mun vera upprunalegt heiti hússins og orðið hváll er eldra í málinu en hvoll, - þó gamalt sé. Oftast er talað um Arnarhvol, en það var gaman að heyra sagt frá fundi í Arnarhváli. Takk fyrir það.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2003

ÚRSKURÐUR - EKKI DÓMUR

Molavin skrifaði (16.08.2016): ,, "Mennirnir voru báðir dæmdir í gæsluvarðhald til 9. september..." skrifar Hjálmar Friðriksson á fréttasíðu RUV (16.8.2016). Það er eins og sumir fréttamenn læri ekki af ítrekuðum leiðréttingum. Hæstiréttur úrskurðaði umrædda bræður í gæsluvarðhald en rannsókn málsins er ekki lokið og þar af leiðandi hefur ákæra ekki verið gefin út og því síður er fallinn dómur í málinu. Það hlýtur að vera gerð krafa til fréttamanna Ríkisútvarpsins um almenna grundvallarþekkingu. Sé hún ekki fyrir hendi mætti ætla að þeir þiggi leiðsögn.” – Þakka bréfið Molavin, - hverju orði sannara. Ekkert gæðaeftirlit á fréttastofunni.

 

LIGGJA VIÐ HÖFN - LIGGJA VIÐ KAJA

Í fréttum Stöðvar tvö (12.08.2016) var sagt, að tvær freigátur úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins lægju ,,við höfn í Reykjavík”. Þetta er ekki rétt orðalag. Freigáturnar eru í höfn í Reykjavík, - freigáturnar liggja við bryggju í Reykjavík. Skip liggja aldrei við höfn. Slíkt orðalag er út í hött.

Á mbl.is sama dag var einnig sagt frá þessari herskipaheimsókn. Þar sagði: ,,Einn fjög­urra viðbragðsflota Atlants­hafs­banda­lags­ins ligg­ur nú við kaja í Skarfa­bakka í Reykja­vík, þar sem hann verður þangað til haldið verður á haf út á mánu­dags­morg­un.” Það er ekki boðlegt orðalag að segja að skip liggi við kaja. Og ekki heldur að segja í Skarfabakka. Fréttin ber með sér að vera ekki skrifuð af vönum manni. – Og ekki lesin yfir af vönum manni. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/12/flotinn_reidubuinn_hvenaer_sem_er/

 

TÍMINN FYRIR FRAMAN OKKUR

Þegar verið var að ræða kosningarnar í haust,sem nú er ljóst að verða 29. október, sagði fjármálaráðherra oftar en einu sinni í fjölmiðlum, að ,,við hefðum góðan tíma fyrir framan okkur”. Þetta orðalag er Molaskrifara framandi. Hefur ekki heyrt það áður. Fjármálaráðherra átti við, að nægur tími væri til stefnu. Við værum ekki í tímaþröng.

 

 

 

HIN ERFIÐA LANDAFRÆÐI

Rafn skrifaði Molum (12.08.2016) og benti á frétt á mbl.is .08.2016). Fréttin er um slys, sem sagt er að orðið hafi í Krísuvíkurhrauni.

Rafn segir,, Á vefmogga má lesa þessa frétt. Spurningu vekur hvar greint atvik hefir orðið, því hvorki er vitað um kvartmílubraut í Krýsuvík né Krýsuvíkurhrauni.” Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/08/11/datt_illa_i_krisuvikurhrauni/

Molaskrifari bætir við,,að í fréttinni er sagt að slysið hafi orðið ,,aftan við kvartmílubratina”!

Rafn bendir á að á Vef Fjarðarfrétta hafi verið rétt frá þessu sagt undir fyrirsögninni Slasaðist við Hraun-krossstapa í Almenningi. :,, ,,Kona um fertugt sem var ásamt tveimur öðrum á gangi í Almenningum, á bæjarmörkum Grindavíkur og Hafnarfjarðar flæktist í trjágrein og datt fram fyrir sig og á grjót.”

 Rafn lýkur bréfinu á þessum orðum: ,, Atvikið hefir því hvorki orðið í Krýsuvík né Krýsuvíkurhrauni, heldur allmörgum kílómetrum norðar. Morgunblaðsfréttin er því aðeins enn eitt dæmið um kunnáttuleysi blaðabarna.”

Þakka ábendinguna , Rafn.

 

HÚN ALÞINGI

Í fréttum Stöðvar á sunnudagskvöld (14.08.2016) var sagt: ,, Það verður knappur tími, sem Alþingi hefur til þess að ljúka þeim málum, sem á borði hennar liggja fyrir kosningarnar 29. október ..” Það var og. Alþingi er hvorugkynsorð. Hvernig væri að vanda sig?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband