Molar um málfar og miðla 1978

 

MÁLFARSKVILLI

Molavin skrifaði (11.07.2016) : "Íslenska liðinu vantaði heldur ekki mikið í viðbót til að vera ofar en Slóvakía..." segir í frétt á síðu RUV 11.7.16. Þágufallssýki er málfarskvilli, sem ætti ekki að sjást á vefsíðu Ríkisútvarpsins. "liðið vantaði ekki mikið..." ætti að standa. Enginn yfirlestur en málfarsráðunautur ætti vitaskuld að láta til sín taka. -  Þakka bréfið, Molavin.  Málfarsráðunaut skortir ekki verkefni.

 

HÖFUÐROTTAN!

Sveinn skrifaði (07.07.2016): Sæll Eiður og hafðu þökk fyrir þína þörfu pistla. Að mínu viti ætti að setja sumarstarfsmönnum fjölmiðla það fyrir að lesa molana, ef ekki bara öllum starfsmönnum.

Að þessu sinni stoppaði ég við fyrirsögn í Netmogga, Höfuðrotta stekkur frá sökkvandi skipi. Ekki hafði ég heyrt þetta áður, höfuðrotta, og fann engin dæmi heldur á vefnum timarit.is.

Það hefði kannski mátt þýða þetta á annan máta, að forystusauðurinn hyggist horfa á hjörð sína fara fyrir björg.

Eða hefði hreinlega ekki verið nóg að tala um rottu að flýja sökkvandi skip án þess að nota forskeyti? Hvað segir þú eða lesendur þínir?

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/07/06/hofudrotta_stekkur_fra_sokkvandi_skipi/

 Kærar þakkir, Sveinn, fyrir að kunna að meta þessa pistla mína. Þakka þér þessa ágætu ábendingu. Aldrei hefur skrifari heyrt orðið höfuðrotta. Þetta er auðvitað út í hött. En – hvað segja lesendur?

 

BORGA TIL BAKA

Í fyrirsögn á mbl.is (09.07.2016) segir: Vilja borga velvildina til baka. Kvikmyndagerðarfyrirtækið Pegasus vill launa íbúum Reyðafjarðar þá velveild sem fyrirtækið naut á staðnum þegar þar var unnið að kvikmyndagerð.

 Eðlilegra og fallegra ( að mati skrifara) er að tala um að launa, eða endurgjalda,  velvild tala um að borga velvild til baka.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/09/vilja_borga_velvildina_til_baka/

 

STÓRFRÉTTIN

Það er merkilegur fréttaheimur, sá íslenski, þar sem það er aðalfréttin í nær öllum fjölmiðlum heilan dag (08.07.2016) að sænsk tuskubúðakeðja (afsakið orðalagið) H&M skuli ætla að opna verslun, verslanir, á Íslandi. Ekki margt markvert að gerast.

 

FRESTUN FLOKKSÞINGS

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (10.07.2016) var vitnað í utanríkisráðherra og sagt: ,,.. segir að flokksþing Framsóknarflokksins verði hugsanlega flýtt.” Þetta las þulur án þess að hika. Þetta átti auðvitað að vera, - að flokksþingi Framsóknarflokksins yrði hugsanlega flýtt. Klukkunni var flýtt. Klukkan var ekki flýtt.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com .Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Bloggfærslur 12. júlí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband