Molar um málfar og miðla 1998

AÐ FLÝJA - AÐ FLYKKJAST

Sveinn skrifaði (05.08.2016): ,, Sæll Eiður,
þakka þér fyrir að taka ábendingar mínar til birtingar. Eitthvað er þá til í þeim.
Að þessu sinni vakti athygli mína fyrirsögn í Netmogga, Fjárfestar flýja til Tyrklands. Fyrsta málsgreinin er eftirfarandi: ,,Hryðjuverkaárásir, blóðug valdaránstilraun, pólitískar hreinsanir. Flestir myndu halda að nú væri ekki góður tími til þess að fjárfesta­
í Tyrklandi. Engu að síður flýja fjárfestar nú unnvörpum til landsins”
Hvergi í fréttinni kemur fram hvað það er sem fjárfestar eru að flýja. Ég ákvað að gamni að athuga hvort ég gæti fundið heimildina, þar sem blaðamaður gefur hana ekki upp, og leitaði að Investors og Turkey í leitarvél Google. 
Þá kom upp frétt New York Times sem hráþýdd var svo gott sem orð frá orði, eins langt og þýðingin nú náði hjá blaðamanni. Í fyrirsögn fréttar NYT segir nefnilega Investors Rush to Turkey en blaðamaður Netmogga gerir ekki greinarmun á því að flykkjast og flýja. Og það verður að teljast með nokkrum ólíkindum.
Hér er frétt Netmogga: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/08/04/fjarfestar_flyja_til_tyrklands/

Hér er frétt NYT: http://www.nytimes.com/2016/08/04/business/dealbook/a-coup-terrorists-and-inflation-yet-investors-rush-to-turkey.html?_r=0

Kærar þakkir fyrir bréfið, Sveinn. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð. Engin ritstjórn.

 

UM BÚSKAP

Í sjónvarps auglýsingu frá Sláturfélagi Suðurlands er nefndur til sögunnar bóndi sem búi á stóru búi. Er það rangt hjá Molaskrifara að betra væri að segja, að þessi bóndi búi stórbúi? Hljómar réttara í eyrum skrifara.

 

KLUKKAN

Í níu fréttum Ríkisútvarpsins á sunnudagsmorgni ( (07.08.2016) var sagt frá því að tvær íslenskar sundkonur mundu keppa í sundi í Ríó síðar um daginn. Þulur sagði: ,,Útsending frá sundi Eyglóar hefst klukkan fjögur en frá sundi Hrafnhildar klukkan sextán fimmtíu.” Þarna skorti samræmi, vandvirkni. Þetta var hins vegar rétt á fréttavefnum, þegar að var gáð.

,,Útsending frá sundi Eyglóar hefst klukkan fjögur, klukkan 16 en frá sundi Hrafnhildar klukkan 16:50”. Enginn les yfir.

 

HEIMSÓTTU DAGINN

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (08.08.2016) um mannfjölda á Dalvík á ,,Fiskideginum mikla” var tvísagt, að aldrei hefðu fleiri heimsótt daginn. Heimsótt Dalvík á ,,Fiskideginum mikla” hefði verið betra, en í þá veru var frétt Ríkisútvarpsins, réttilega..

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Bloggfærslur 10. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband