Molar um málfar og miðla 1993

TRÖPPUR EÐA STIGI?

  1. skrifaði (30.07.2016): ,,Mér finnst undarlegt þegar fréttamenn eru farnir að tala um, að núverandi forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafi komið niður tröppurnar í Alþingishúsinu og tilkynnt um stjórnarmyndun.

Í mínum huga eru tröppur alltaf utandyra. Útidyratröppur og kjallaratröppur, svo dæmi séu tekin; hann kom út á tröppur stjórnarráðsins.

Innandyra er alltaf talað um stiga. 

Eru fréttamenn hræddir um að það verði einhvers konar hugrenningartengsl milli orðsins stigamaður og stigamannastjórnin?

Er ekki of langt gengið að reyna að breyta sígildri notkun orðanna í þessu sambandi?” – Þakka bréfið S. Þetta hárrétt athugað hjá þér. Það er ekki nokkur ástæða til að breyta fastri og hefðbundinni notkun þessara orða. Góð ábending.

AKSTUR

Í lögreglufréttum í Ríkisúvarpinu á sunnudagsmorgni um verslunarmannahelgi (31.07.2016) um atburði næturinnar var sagt, að nokkuð hefði verið um ölvunarakstra. Nokkrir hefðu ekið undir áhrifum áfengis. Orðið akstur er ekki til í fleirtölu. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=akstur

Þetta gefur raunar tilefni til að rifja upp lokamálsgrein úr Morgunblaðsgrein (28. febrúar 1973) eftir Helga Hálfdanarson. Greinin heitir Meira magn af báðu. Helgi segir: ,,, Víst eru góð ráð dýr og á margt að líta. Flestir stafa þó kvíðarnir af þeim ólánum, að því fleiri sem kölin verða í túnunum, því lakari verða töðurnar hjá bændum; nema fleiri tilbúnir áburðir geri framleiðendum landbúnaðarafurða kleift að annast framkvæmdir í framleiðslu aukins magns af kjöti og mjólk með svo góðum högnuðum af báðu, að tök reynist á að afla kaupakvenna í nægilegu magni”.

Svo mörg voru þau orð! Greinin birtist seinna í bókinni Skynsamleg orð og skætingur. (Ljóðhús, Reykjavík 1985) – Þessi bók ætti að vera skyldulestur fyrir blaðamenn.

  1. og hún vinnur tvær vinnur, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarpsins við okkur á sunnudagskvöld (31.07.2016). Í Ríkisútvarpinu (02.08.2016) var rætt við sagnfræðing um það hvers vegna Bessastaðir hefðu orðið fyrir valinu sem bústaður fyrir þjóðhöfðingjann: ,,”. Bessastaðir urðu fyrir valinu því þar voru bestu húsnæðin . Gott ef ekki var tvisvar talað um húsnæðin í fleirtölu í þessu stutta samtali. Húsnæði er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu. http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0i

SVONA RANDOM!

Svona random eins og það er kallað, sagði útvarpsmaður á Rás tvö (31.07.2016). Hann átti við svona af handahófi. Mikið umburðarlyndi er gagnvart enskuslettum í Ríkisútvarpinu. Það er miður.

 Í SÍÐASTA SKIPTI

,,Ólafur Ragnar Grímsson gegndi embætti forseta Íslands í síðasta skipti í dag”, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (31.07.2016). Undarlega hugsunarsnautt orðalag. Þetta var síðasti dagur Ólafs Ragnars í embætti.

RÉTT ER

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (01.08.2016) var sagt um þjóðhátíð í Eyjum: ,, Samkvæmt venju fór Árni Johnsen fyrir fjöldasöng”. Í beinni útsendingu Stöðvar tvö (31.07.2016) var það Ingó veðurguð sem stjórnaði brekkusöngnum. Þingmanninum fyrrverandi var hleypt að hljóðnemanum, þegar þjóðsöngurinn var sunginn á miðnætti. Um ágæti þess má deila.

 

VINSAMLEG ÁBENDING

Í fréttum Stöðvar tvö (01.08.2016) var sagt, að innsetning nýs forseta hefði farið fram ,, á Alþingi”. Það er rangt. Athöfnin fór fram í Alþingishúsinu. Á þessu er reginmunur.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Bloggfærslur 3. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband