Molar um málfar og miðla 2008

SLÆMT

Hvað segir það okkur hlustendum, þegar íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins les í aðalfréttatíma (22.08.2016): ,,LEIKUNUM í Ríó er nú borið saman við leikana í Atlanta 1996 og í Aþenu 2004, leikar sem gengu ekki alveg upp (!) ”. Það segir okkur, að viðkomandi hafi ekki gott vald á móðurmálinu. Ætti ekki að skrifa fréttir, nema undir leiðsögn þeirra, sem kunna íslensku til nokkurrar hlítar. Sami fréttamaður talaði um gestgjafana, Brasilíumenn, sem Brassana ! Það orð er kannski hægt að nota í hita leiksins í íþróttalýsingum. Ekki í fréttum.

 Þetta segir okkur líka, því miður, að þeir sem stjórna íþróttadeild og fréttastofu Ríkisútvarpsins ráða ekki vel við þau verkefni sem þeir hafa tekið að sér. Á þessari fjölmennustu fréttastofu landsins starfa margir hæfir og prýðilega máli farnir og ritfærir einstaklingar. En verkstjórn og gæðaeftirlit er ekki í lagi. Það ætti að vera æðstu stjórnendum í Efstaleiti umhugsunarefni. Alvarlegt umhugsunarefni.

 

RÉTT SKAL RÉTT VERA

Í fréttum Ríkisútvarps og sjónvarps (22.08.2016) var Ólafur Stephensen hvað eftir annað kallaður formaður Félags atvinnurekenda. Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnufrekenda. Það hefur komið hundrað sinnum fram í fréttum og kemur fram á heimasíðu félagsins. Formaður félagsins er Birgir S. Bjarnason, kosinn 2015 til tveggja ára. Það er alltaf betra, að vita við hvern er rætt. Enginn virtist taka eftir þessu. Engin leiðrétting. Engin afsökun.

 

ER AÐ .....

Sumir tala um er að sýki. Oft er er að notað að óþörfu og er til lýta. Í fréttum Stöðvar tvö (19.08.2016) var sagt frá listviðburðum á menningarnótt. Fréttamaður sagði: ,, ... vísa spurningunni áfram til konunnar sem er að bera ábyrgð á þessu öllu á morgun ....” . Hér hefði verið betra að tala um að vísa spurningunni áfram til konunnar , sem ber ábyrgð á þessu. Það þurfti ekkert er að.

 

 

 

BÆNDUR

Í fréttum er oft talað um svína- og kjúklingabændur. Molaskrifari hefur aldrei fellt sig við notkun orðsins bóndi um þessa kjötframleiðendur. Oftar en ekki, er þetta fremur verksmiðjuframleiðsla en búskapur í þess orðs eiginlegu og hefðbundnu merkingu.

 

FORSETAKOSNINGAR

,,Kosið verður um nýjan forseta a Bandaríkjanna 8. nóvember...” var sagt í fréttum Ríkisútvarps aðarfaranótt 23. 08.2016. Það verður ekki kosið um forseta. Nýr forseti Bandaríkjanna verður kosinn 8. nóvember, hefði verið betra orðalag.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eða einkaskilaboð á fasbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband