Molar um málfar og miðla 2005

HANDLEGGUR OG BLÓÐ

Margir hafa vakið athygli Molaskrifara á einkennilegum fyrirsögnum í Fréttablaðinu í gær (18.08.2016). Árni Gunnarsson, áður starfsbróðir í fréttamennsku og þingbróðir, fjallar um þessi undarlegu skrif á fasbók. Árni segir:,, ÞARF EKKI AÐ KOSTA HANDLEGG OG ANÍTA ER KOMIN MEÐ BLÓÐ Á TENNURNAR. - Þetta eru tvö dæmi um fyrirsagnir í Fréttablaðinu í morgun. Þetta með handlegginn er í grein um tískustefnur fyrir skólafólk í vetur. Þar er bent á fatnað "sem þarf ekki endilega að kosta handlegg og óbærileg heilabrot á hverjum morgni". Í öðrum pistli á sömu síðu er talað um "Old school alla leið". Þar verða "brakandi hvítir skór enn í gangi". Síðan segir höfundur: "Annars myndi ég miða bara vel á öll old school snið og fjárfesta í síðum hlýrabolum til að nota í layer". Svo er það lúkkið, að fíla og ódýr beisikk föt. - Síðan kemur blóðið á tönnum Anítu, rétt eins og hún hafi fengið högg á andlitið. Hér er líklega verið að þýða danskt orðatiltæki "At faa blod paa tanden" þ.e. að árangur Anítu hafi vakið löngun hennar til frekari afreka. –“ Þakka Árna fyrir að fá að birta þetta. Hvað er hægt að segja, þegar svona birtist á prenti? Ekkert. Manni verður orðfall.  

 

TEPRUTAL

Ósköp var það teprulegt, eða pempíulegt, að segja eins og gert var í fréttum Ríkissjónvarps (16.08.2016): Hundur dó í brunanum. Seinna í fréttinni var okkur sagt, að hundur hefði dáið ... Hér hefði skrifara þótt eðlilegra að segja að hundur hefði drepist í brunanum eða hundur hefði brunnið inni í húsinu þar sem eldsvoðinn. varð.

 

VIRKAR SVÆÐIÐ?

Í fréttum Ríkissjónvarps (16.08.2016) var fjallað um könnum, sem Icelandair samsteypan ætlar að láta gera við Hvassahraun, eða í hraununum suðaustan við bæinn Hvassahraun til að kanna hvort þar séu heppilegar aðstæður til að gera flugvöll. Í fréttinni var sagt: ,, ... til að skoða hvort svæðið virki fyrir nýjan flugvöll.” Óboðlegt orðlag; hálfgert barnamál. Það á að kanna hvort svæðið sé hentugt, eða nothæft til að gera þar nýjan flugvöll. Enginn les yfir, áður en lesið er fyrir okkur.

 

AÐ VERA STADDUR

Hversvegna er alltaf verið að segja okkur að íþróttafréttamenn Ríkisútvarpsins (16.08.2016) séu staddir í Ríó ? Þeir eru í Ríó.

 

SMITANDI AMBÖGUR

Ambögur,sem íþróttafréttamenn hafa tileinkað sér, eru smitandi. Í Víkverjadálki Morgunblaðsins (17.08.2016) sagði í frétt um verðlaunaveitingar á Ólympíuleikunum í Ríó: Gestgjafar Brasilíu eru í 16. sæti með níu verðlaun. Hverjir eru gestgjafar Brasilíu? Brasilíumenn eru gestgjafar þjóðanna, sem taka þátt í Ólympíuleikunum. Veit ekki hve oft þetta hefur verið nefnt í Molum.- Svo væri betra að hafa samræmi í tölum í sömu setningu. Nota ekki bæði tölustafi og bókstafi.

 

KASTLJÓS

Gott að Kastljósið skuli komið aftur á dagskrá í Ríkissjónvarpinu. Kastljósið er þáttur, sem ætti að vera á dagskrá allan ársins hring.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband