Molar um málfar og miðla 2007

 

VISIR.IS SETUR MET

Sigurjón Skúlason skrifaði (22.08.2016) og notaði fyrirsögnina ,,Hræðilegt frétt” :

,,Heill og sæll Eiður.
Mig langaði að vekja athygli þína á frétt á Vísi.is sem birtist í dag, 22.08.2016.
Fréttin ber öll merki þess að hafa ekki verið lesin yfir en vafalaust hefur hún verið þýdd beint af einhverjum erlendum miðli.
Fyrsta setningin segir allt sem segja þarf: "Bandaríkin vann flest verðlaun á Ólympíuleikunum"!
Með réttu ætti fréttin að birtast á afþreyingarhluta síðunnar, undir heitinu; hvað finnur þú margar villur?
Hér er fréttin í heild sinni ásamt hlekk:
,,Bandaríkin vann flest verðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó sem lauk í gær. Er þetta í sautjánda skipti alls sem að Bandaríkin vinnur til flestra gullverðlauna en í þetta sinn urðu þau 43 talsins.

Alls fékk Bandaríkin 116 verðlaun sem er það mesta sem að þjóðin hefur unnið síðan að leikarnir fóru fram á heimavelli, í Los Angeles, árið 1984. Þá mættu Sovétmenn ekki til leiks og Bandaríkjamenn sópuðu til sín 174 verðlaunapeningum.

Bandaríkin ber af í bæði frjálsum íþróttum og sundi. Í fyrri greininni vann Bandaríkin til 31 verðalauna, þar af þrettán gullverðlauna. Jamaíka kom næst með sex gullverðlaun. Bandaríkin vann svo sextán gullverðlaun í sundlauginni, 33 verðlaun alls af þeim 104 sem í boði voru.

Með þessu á Bandaríkin nú meira en eitt þúsund gullverðlaun á Ólympíuleikum frá upphafi en Sovétríkin sálugu koma næst á listanum með 395 gullverðlaun. Bretland er í þriðja sæti með 261 gullverðlaun. Yfirburðirnir eru ótrúlegir.

Það kemur ekki á óvart Bandaríkin á sigursælustu íþróttamennina en Michael Phelps (6 gull, 1 silfur) vann flest verðlaun allra í Ríó en á eftir honum komu Katie Ledecky (5 gull, 1 silfur) og Simone Biles (5 gull, 1 brons.

Ísland er enn að bíða eftir sínum fyrstu gullverðlaunum á Ólympíuleikum en þrjár þjóðir unnu sitt fyrsta gull í Ríó. Fiji í sjö manna rúgbý, Jórdanía í taekwondo og Kosovo í júdó.
http://www.visir.is/bandarikin-enn-langsigursaelasta-olympiuthjodin/article/2016160829776

 

Kærar þakkir  fyrir ábendinguna, Sigurjón. Þarna slær visir.is nýtt met. Niður á við. Þetta er ótrúlegt. – Því er hér við, að bæta, að fréttina skrifaði Eiríkur Stefán Ásgeirsson. ,,Eiríkur Stefán er aðstoðarritstjóri fréttastofu 365 og hefur yfirumsjón með íþróttaumfjöllun, segir orðrétt á visir.is. Smakvæmt því  var  enginn viðvaningur að verki. Nema yfirmenn séu viðvaningar? Fréttin var sett á netið klukkan 12 15. Fimm klukkustundum síðar stóð þetta enn óbreytt.

En þetta er ekki eina fréttin á visir.is þar sem þetta orðalag  er notað: ,,Bandaríkin heldur áfram sigurgöngu sinni á Ólympíuleikunum í körfubolta karla, en þeir unnu 96-66 stórsigur á Serbíu í úrslitaleiknum í Ríó í kvöld.”  http://www.visir.is/bandarikin-burstadi-serbiu-og-vann-thridja-ol-gullid-i-rod/article/2016160829846 Kannski sami skrifari  að verki? -   Hvað getur maður sagt?

 

SÖMU VILLURNAR

Aftur og aftur heyrir maður sömu villurnar endurteknar í fréttum.

Eignarfall orðsins göng er ganga. Eignarfall orðsins göngur er gangna. Þessu er sífellt ruglað saman.

Í fréttum Stöðvar tvö var (19.08.2016)  fjallað um Norðfjarðargöng. Fréttamaður sagði: ,,Um fimmtíu manns vinna að gangnagerðinni og vinna þeir á sólarhringsvöktum”. Hér hefði átt að tala um gangagerð, ekki gangnagerð. Þetta er ekki flókið en til að hafa þetta rétt þurfa að kunna hvernig þessi orð, göng og göngur beygjast. Jarðgangamenn gera jarðgöng. Gangnamenn leita að fé um fjöll og firnindi að hausti.

Er erfitt að skila þetta?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Bloggfærslur 23. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband