Molar um málfar og miðla 2053

 

DAGUR ÍSLENSKRAR TUNGU

Í dag. 16. nóvember, á fæðingardegi  Jónasar Hallgrímssonar er dagur íslenskrar tungu. Dagurinn er fánadagur.

Höfum hugfast að allir dagar eru dagar íslenskrar tungu.

Til hamingju með daginn, -  og móðurmálið.

 

ENN UM STARFSMANNASTJÓRA HVÍTA HÚSSINS

Molavin skrifaði (14.11.2016) um meinloku, sem aftur og aftur kemur upp í fréttum, og oftar en einu sinni hefur verið fjallað um í Molum. Molavin segir: ,, Enn vefst það fyrir fréttastofu Bylgjunnar (í hádegisfréttum 14.11.) hvert sé hlutverk æðsta embættismanns bandaríska forsætisembættisins, Chief of Staff. Bylgjan kallar hann starfsmannastjóra og segir hann annast ráðningar starfsfólks embættisins. Það sem nú er í tízku að kalla mannauðsstjóra. Þegar CNN birti þessa frétt fyrst í gærkvöld var vel útskýrt að þetta jafngildi einna helzt forsætisráðherraembætti. Heitið er komið úr hernum, yfirmaður herráðs, og Chief of Staff er milliliður forsetans við alla ráðherra, velur jafnvel í ráðherraembætti í samráði við forsetann og er hans hægri hönd. Við forsetaembættið starfar svo sérstök deild starfsmannamála og þar er yfirmaður sem mætti kalla starfsmannastjóra.“ Áður hefur verið vikið að þessu í Molum, sem fyrr segir, en skrifari þakkar Molavin þessar ágætu útskýringar.- Í seinni fréttum Rikissjónvarps þennan sama dag var enn og aftur talað um starfsmannastjóra Hvíta hússins. Út í hött. Þetta er ekki flókið mál. Chief of staff í Hvíta húsinu er ekki starfsmannastjóri.

 

STREITI

Aurskriða féll í lok síðustu viku á þjóðveg númer eitt, hringveginn, fyrir austan. Í hádegisfréttum Bylgjunnar (12.11.2016) var sagt: ,,... lokaðist vegurinn milli bæjanna Núps og Streits.“ Þetta er á nesinu milli Berufjarðar og Breiðdalsvíkur.  Þarna hefur eitthvað skolast til. Enginn bær er þarna, sem heitir Streitur. Þarna er hinsvegar jörðin Streiti, en síðast þegar Molaskrifari vissi til hafði hún verið í eyði í all mörg ár. Streitishvarf er ysti tanginn sunnan Breiðdalsvíkur. Þar var lengi, og er kannski enn viti, sæfarendum til leiðbeiningar. Tæknin hefur nú leyst vitana af hólmi að mestu.

 

RÉTTRITUN

Það þarf líka að lesa prófarkir þegar sjónvarpsauglýsingar eiga í hlut. Heilsuhúsið auglýsir uppskriftarbók í sjónvarpsauglýsingu (11.11.2016). Það hlýtur að eiga að vera uppskriftabók. Uppskriftirnar hljóta að vera fleiri en ein. Þeir sem semja auglýsingar verða að vanda sig og skila villulausum texta.

 

VERÐLAUN

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (14.11.2016) var sagt frá heildar útgáfu á ritverkum Einars Más Guðmundssonar í Danmörku. Sagt var verðlaunum og viðurkenningum, sem hann hefur hlotið. Meðal annars hefði hann verið sæmdur  bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs. Eðlilegra hefði verið að tala um að hann hefði hlotið bókmennntaverðlaun Norðurlandaráðs, eða honum hefðu verið veitt bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. – Kannski er þetta sérviska hjá Molaskrifara.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2052

ENN UM DAGSKRÁRKYNNINGAR Í RÍKISÚTVARPI/SJÓNVARPI

Nýlega var í Molum fjallað um dagskrárkynningar í Ríkissjónvarpinu. Kynningarnar eru teknar upp löngu fyrirfram og ekki hirt um að breyta þeim, þegar breytingar verða á dagskrá. Þetta er ókurteisi og subbuskapur.

 Af þessu tilefni skrifaði Ingibjörg (11.11.2016): ,,Sæll Eiður.

 

Í tilefni af því sem þú sagðir um dagskrárkynningar: Ævar Kjartansson er ekki lengur með Jón Ólafsson með sér í þáttunum Samtal á miðv.dögum. Í netdagskránni stendur réttilega nafn Gísla Sig. Samt er þar ennþá inni mynd af Jóni.

 

Við sunnudagsmessurnar á rás 1 í netdagskránni kemur alltaf upp mynd af dómkirkjunni í Rvík, jafnvel þótt viðkomandi messa sé alls ekki á vegum þjóðkirkjunnar.

 

Svo er annað - að það er alltaf verið að hnika dagskrá sjónvarpsins til í tíma. Þótt maður tékki á netdagskránni daginn áður, getur verið búið að breyta því daginn sem sent er út. 

………………………………………………………………………………………………………...

Sent til RÚV: Í gærkvöldi hófst ný þáttaröð: Versalir, og er frönsk skv. dagskrá. Samt var töluð enska í þættinum. Hvers vegna kaupir RÚV franska þætti talsetta á ensku?

Álítur það að Ísl. hafi svo viðkvæm eyru að þeir þoli ekki að hlusta á frönsku? Hve langt verður þangað til norrænir þættir verða líka fengnir hingað með ensku tali? 

Ég hef ekki fengið svar.

 

Svona er ekki bara e-ð prinsípmál. Það truflar listræna upplifun ef leikarar tala allt annað mál en persónurnar eiga að tala. Það er ekki hægt að trúa því að þeir séu franskt aðalsfólk ef þeir tala ensku. Rétt eins og það var truflandi í gömlum stríðsmyndum þegar nasistar töluðu ensku. En það er auðvitað ekki hægt að kvarta ef myndin er gerð á ensku, en fráleitt að kaupa talsetta útgáfu.

 

  1. Tarantino hlaut heilmikla gagnrýni fyrir stríðsmyndina “Inglorious Bastards” en eitt fékk hann þó hrós fyrir, hann lét hverja þjóð tala sitt mál, nasista þýsku, andspyrnumenn frönsku o.s.frv. Gott mál.“ Kærar þakkir fyrir bréfið, Ingibjörg. Það er víða pottur brotinn í þessum efnum í Efstaleitinu, - eins og þú réttilega bendir á. En Molaskrifari vill í lokin árétta, að dagskrárstundvísi í útvarpinu er til sérstakrar fyrirmyndar. Fréttir hér hefjast á sömu sekúndunni og hjá BBC og Sky eða CNN. Þess ber að geta sem vel gert. Ókurteisi stjórnenda Ríkissjónvarpsins gagnvart okkur er hinsvegar óþolandi.

 Á sunnudagskvöld (13.11.2016) náði fjas eftir fótboltaleik tíu mínútur inn í fréttatímann. Tímasetningar næstu daskrárliða stóðust ekki. Engar skýringar. Engin afsökun. Allt eins og venjulega.

 

KEMUR FRÁ ....

Það er hvimleið árátta (einkanlega í þróttafréttum ljósvakamiðla) að segja til dæmis, - markvörðurinn kemur frá Selfossi (11.11.2016). Markvörðurinn er frá Selfossi, eða var í íþróttaliði á Selfossi. Hann var ekkert að koma frá Selfossi.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 2051

YFIRMAÐUR FORSETAEMBÆTTISINS

Í fréttum Ríkisútvarps á föstudagskvöld voru nefnd nöfn ýmissa, sem kæmu til greina, sem ráðherrar eða valdamiklir embættismenn, þegar Donald Trump tekur við embætti. Þar og á vef útvarpsins var talað um yfirmann forseta embættisins. Þar sagði: ,, Þá þykir líklegt að Newt Gingrich, fyrrverandi forseti Fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, verði yfirmaður forsetaembættisins. Sú staða jafngildir ráðherraembætti“. Þetta er rugl. Hér er átt við yfirmann starfsliðs forsetans (e. Chief of staff), sem er valdamesti embættismaðurinn í Hvíta húsinu. Hann er ekki yfirmaður forsetaembættisins. Segir sig sjálft. Enn síður starfsmannastjóri eins og stundum hefur verið sagt í fréttum um þetta embætti.  

http://www.ruv.is/frett/trump-hugar-ad-stjornarmyndun-um-helgina

 

 

ENGINN ELDUR TIL STAÐAR !

Góður vinur og Molalesandi benti skrifara á þessa frétt á visir.is (10.11.2016): ,, Slökkviliðið var kallað út að Egilshöll í Grafarvogi núna á sjöunda tímanum í kvöld vegna íkveikju inni á baði. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu fór brunavarnarkerfi hallarinnar í gang þannig að úðari fór í gang en ekki liggur fyrir í hverju var kveikt. 

Enginn eldur var því til staðar þegar slökkviliðið kom á vettvang og er því aðeins um vatnstjón að ræða sem að öllum líkindum er minniháttar að sögn slökkviliðsins
.“

Enginn eldur var til staðar. Það var og !  Þakka ábendinguna.

 

http://www.visir.is/ikveikja-i-egilsholl/article/2016161119850

 

FRAMBURÐUR

Enn heyrist talað um ríkið ArkansaS í Bandaríkjunum í fréttum Ríkisútvarps. Síðast í tíu fréttum á fimmtudagskvöld (10.11.2016).Sama villa, sami fréttamaður í tíufréttum Ríkissjónvarps sama kvöld. Þetta orð er ekki, fremur en svo mörg önnur, kannski næstum öll orð í ensku , ekki borið fram eins og það er skrifað. Það er borið fram /aarkan so/ . Ekkert S í lokin. Þetta er með leik hægt að hlusta á á netinu, ef maður er í vafa. Stundum er eins og lítil leiðsögn sé til staðar fyrir nýtt fólk á fréttastofunni. Það er slæmt. Þar er nóg af góðu fólki, sem kann þetta, en verkstjórnin er ekki sem skyldi. Þetta hefur oft verið nefnt áður í Molum.

https://www.youtube.com/watch?v=U0e7js9LYsE

 

UNDIR FJALLI

Hvassviðri var um sunnan- og vestanvert landið á föstudag (11.11.2016), svo hvasst að loka þurfti vegum sumstaðar um tíma. Í níu fréttum Ríkisútvarps var sagt að veginum undir Hafnarfjall hefði verið lokað. Það liggur enginn vegur undir Hafnarfjall. Veginum undir Hafnarfjalli var lokað, þar er annálað veðravíti í vissum vindáttum. Þjóðvegur eitt liggur skammt frá fjallsrótunum. Þess vegna er sagt að vegurinn liggi undir fjallinu, ekki undir fjallið. Þetta var rétt í útvarpsfréttum klukkustundu síðar.

 

AÐ SIGRA KEPPNI

Úr frétt á mbl.is (11.11.2016): ,, Dan­sparið Sig­urður Pét­ur Gunn­ars­son og Pol­ina Oddr sigruðu danskeppn­ina Dutch Open í lat­in-döns­um í flokki 21 árs og yngri sem hald­in var í Assen í Hollandi.‘‘ Það var og. Það sigrar enginn keppni. Enda keppir enginn við keppni. Dansparið sigraði í keppninni. Mogginn á ekki að flaska á svona. En , - eins og áður, - enginn les yfir.

http://www.mbl.is/folk/frettir/2016/11/11/donsudu_sig_a_toppinn/

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2050

ÍÞRÓTTASKRIF

Sveinn skrifaði (10.11.2016):

,,Sæll Eiður, blaðamenn á íslenskum fréttamiðlum virðast oft og tíðum í erfiðleikum með móðurmálið. Gerir maður í þeim efnum ekki sömu kröfu til þeirra allra? En það hlýtur að vera ófrávíkjanleg krafa að á vef Ríkisútvarpsins finnist ekki fréttaskrif sem þessi.

http://www.ruv.is/frett/umspilsleikur-for-fram-um-midja-nott

Með von í brjósti reikna ég með að málfarið hafi verið lagað eftir að ég sendi þér þetta skeyti en til þess að öllu sé til haga haldið er hér að neðan texti fréttarinnar.
,,Leikurinn milli sænsku knattspyrnuliðanna Karlsberg og Luleå fór fram á heldur dramatískan hátt. Leikurinn átti að spilast klukkan 19:00 að staðartíma í Stokkhólmi en allt kom fyrir ekki.
Heimaliðið í leiknum, Karlsberg Ballklubb, sem spilar vanalega leiki sína á íþróttavellinum Stadshagen í Stokkhólmi, tóku á móti gestunum, Luleå, en sá bær er staðsettur í Norður-Svíþjóð. Gestirnir komu með flugi sem tekur u.þ.b einn og hálfan klukkutíma í framkvæmd, þegar þeir lentu sáu þeir hins vegar að líkurnar á því að leikurinn færi fram utandyra væru stjarnfræðilegar þar sem snjóað hefur í Stokkhólmi undanfarna daga og var völlurinn sem leikurinn átti að fara fram á fullur af snjó.

Var þá tekið á það ráð að flytja leikinn í innanhúshöll með gervigrasi sem staðsett er í Bosön, austurhluta Stokkhólms. 17:30 lögðu gestirnir því af stað með rútu frá Arlanda(alþjóðaflugvelli Stokkhólms) og til Bosön, rútuferð sem undir öllum venjulegum kringumstæðum ætti að taka tæpar 50 mínútur. Það var hins vegar ekki fyrr en 20 mínútum fyrir miðnætti sem lið Luleå komst á leiðarenda, fimm klukkutímum eftir að þeir lögðu af stað. „Ég hef upplifað skemmtilegri daga. Við erum búnir að sitja fimm klukkutíma í rútu,“ sagði Fredrik Waara þjálfari Luleå í samtali við NSD, bæjarblaðið í Luleå. Gestirnir kröfðust þess eftir allt þetta ferðalag að leikurinn yrði spilaður, 00:20 fengu þeir ósk sína uppfyllta og leikurinn var settur í gang.

Leikurinn var umspilsleikur, fyrri af tveimur, um hvort liðið myndi leika í 1. deildinni í Svíþjóð á næsta ári, sem er þriðja efsta deild þar í landi. Leikurinn vakti mikla athygli, svo mikla að John Guidetti framherji Svía tístaði um leikinn á meðan A-landsliðið er í París að undirbúa sig fyrir leik gegn Frakklandi sem fram fer á morgun í undankeppni HM 2018.“ - Þakka bréfið, Sveinn. Hér mætti margt um málfarið segja. Þó hefur maður séð það svartara í íþróttafréttum.

ÞOLMYNDIN ENN

Þetta er af forsíðu mbl.is (09.11.2016):

Meðfylgj­andi mynd­ir voru tekn­ar af sjó­manni á Vest­fjarðamiðum í gær. Þetta er ekki skýrt. Eru þetta myndir af sjómanni? Voru myndirnar teknar sjómanninum með valdi? Eða tók sjómaður myndirnar? Þetta voru myndir sem sjómaður tók. Fallegra, skiljanlegra og betra hefði verið að segja: Þessar myndir tók sjómaður á Vestfjarðamiðum í gær. Germynd er alltaf betri.

http://www.mbl.is/200milur/frettir/2016/11/09/myndaseria_svona_er_thetta_bara/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2049

2049-16

AÐ SAFNA FYRIR ...

Rósa S. Jónsdóttir skrifaði (08.11.2016): ,,Er þetta bara misskilningur hjá mér, eins og ég les þessa fyrirsögn, þá mætti ætla að það ætti að kaupa nýja móður fyrir börnin ? “

Þakka bréfið, Rósa, - þetta er ekki misskilningur. Þetta er villa í fyrirsögninni, - Safna fyrir ungri móður,sem lenti í alvarlega bílslysi á Reykjanebraut. Það er ekki verið að safna fyrir móðurinni. Það er verið að safna fé handa móðurinni, fyrir móðurina. Því miður sést  villa of oft og ber vott um vankunnáttu í íslensku.
http://stundin.is/frett/safna-fyrir-ungri-modur-sem-lenti-i-alvarlegu-bils/

 

EKKI FRÉTT

Í fréttatíma Bylgjunnar í hádeginu á sunnudag (06.11.2016) var tekið fram að Birgitta Jónsdóttir alþingismaður  og raunar borgarstjórinn í Reykjavík einnig, hefðu sótt tónleika í Hörpu. Hvaða máli skipti það þótt Birgitta og jafnvel borgarstjórinn hafi sótt tónleika? Hvað var fréttnæmt við það? Ekki neitt. Þetta var ekki frétt. Persónulega þætti mér nýnæmi að sjá þeim aðeins bregða  fyrir á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. En það hefði ekki verið frétt. Í gamla daga sá maður menntamálaráðherrann Gylfa Þ. Gíslason á öllum sinfóníu og Tónlistarfélagstónleikum, - en það var auðvitað í gamla daga.

 

ALLT KOMST UPP!

Úr frétt á mbl.is (08.11.20116):

Skýrsla Rauða kross­ins um aðstæður aðþrengds fólks í Reykja­vík hef­ur verið tekið út af vef sam­tak­anna, en unnið er að nokkr­um leiðrétt­ing­um í kjöl­far þess að upp komst um nokkr­ar vill­ur í henni. 

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/11/08/skyrsla_rauda_krossins_tekin_ut_og_lagfaerd/

Það komst ekki upp um villurnar. Það fundust nokkrar villur í skýrslunni.

 

 

 

 

HÆTTULEG AUGLÝSING

Olíusalinn Skeljungur heldur áfram að sýna okkur sjónvarpsauglýsingu  (08.og 09.11.2016) þar sem olíubílstjóri í akstri er að gefa lausum hundi að éta, hundurinn situr við hlið bílstjórans í olíubílnum. Þessi auglýsing er brot á öllum öryggisreglum eins og hér hefur áður verið nefnt. Olíubílar flytja hættulegan farm og bílstjórinn er ekki með hugann við aksturinn, heldur við hundinn, sem er í farþegasætinu. Hann gæti allt eins verið að tala í símann eða senda smáskilaboð undir stýri. Þetta er ekki betra,

 Hvað segir Samgöngustofa?

 Hvað segir lögreglan?

Skeljungur ætti að sjá sóma sinn í að hætta að nota þessa auglýsingu. Hún er hættuleg.

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2048

HEILU OG HÖLDNU

Molavin skrifaði (06.11.2016): ,,Rjúpnaskyttur fundust "heilir á höldnu" sagði í fréttayfirliti útvarps í kvöld (6.11.16). Þeir fundust semsagt heilir á húfi, eða komu til byggða heilu og höldnu eins og málvenja býður. Ríkisútvarpið ætti vitaskuld að vera fyrirmynd um meðferð móðurmálsins eins og það var lengst af. Það er ljóst hvar sú ábyrgð liggur og hverjir hafa brugðist. Yfirmenn.”

Þakka ágætt bréf, Molavin. Við þetta er engu að bæta.

 

UNDARLEG VILLA

Á bls. 16 í Morgunblaðinu á laugardag (05.11.2016) var svohljóðandi fyrirsögn þvert yfir síðuna, fimm dálka. Byrjað að hann nýja yfir Þverá við Odda. Áreiðanlega hafa fleiri en skrifari staldrað við. Nýja hvað? Fram kemur þegar lengra er lesið að byrjað er að hanna nýja brú yfir Þverá við Odda. – Gæðaeftirlit,- yfirlestur ekki alveg í lagi.

 

LJÁR Í ÞÚFU

Í tíu fréttum Ríkisútvarps á laugardagsmorgni (05.11.2016) var talað um að vera einhverjum óþægilegur ljár í þúfu. Þarna var, þótt kannski í smáu væri, farið rangt með orðtak. Við tölum um að einhver sé einhverjum óþægur ljár þúfu, erfiður viðureignar, ekki auðveldur í samskiptum,

 

SNILLD!

Þetta er af heimasíðu Útvarps Sögu (05.11.2016):

Afgerandi meirihluti þeirra sem þátt tóku í skoðanakönnun Útvarps Sögu vilja að láta eigi þingmenn undirgangast undir fíkniefnapróf. Þetta kemur fram í niðurstöðu könnunarinnar sem fram fór hér á vefsíðunni á síðasta sólarhring. 

Sá sem þetta skrifaði hefur verið annars hugar, - svona mildilega orðað!!!

http://utvarpsaga.is/vilja-ad-thingmenn-gangist-undir-fikniefnaprof/

 

SVALIR ÞJÓÐLEIKHÚSSINS

Sjálfsagt hafa fleiri en Molaskrifari hnotið um þessa frétt á visir.is (05.11.2016): http://www.visir.is/sersveit-kollud-til-vid-ad-na-olvudum-ferdamanni-af-svolum-thjodleikhussins/article/2016161109280

Þar segir meðal annars: Á sjötta tímanum veittu lögreglumenn í eftirliti í miðborginni karlmanni athygli en sá hafði klifrað upp á svalir Þjóðleikhússins.

Svalir Þjóðleikhússins? Maðurinn hafði komist út á dyraskyggni Þjóðleikhússins. Þar er að vísu einskonar grindverk, en Molaskrifara finnst fjarri lagi að kalla þetta svalir. Kannski finnst einhverjum að það sé gott og gilt orðalag.

 

ANNAÐ STARF

Molaskrifari gerir ekki mikið af því að nefna nöfn í fjölmiðlaumfjöllun. En hann leggur til að Krístínu Elísu Guðmundsdóttur verði fundið annað starf á Veðurstofu Íslands að lesa veðurfréttir. Hún getur örugglega margt vel gert, en hún getur ekki lesið veðurfréttir. Áherslur og hrynjandi óravegu frá því sem ætti að vera í íslensku máli.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2047

ERLENDIS

Mörgum útvarpsmönnum virðist algjörlega ofviða að nota  atviksorðið  erlendis rétt. Þetta orð er fyrst og fremst  notað um  dvöl erlendis. Hann var erlendis í tólf  ár. Við erum ekki á leiðinni  erlendis eins og útvarpsmaður talaði um í þáttarlok rétt fyrir hádegisfréttir á Bylgjunni (04.11.2016). Við förum til útlanda. Þegar við erum komin útlanda, erum við erlendis.

 

ALL I  WANT .....

Auglýsingableðli  frá  versluninni Ilvu  eða Ilva  var vafið utan um Moggann, sem Molaskrifara barst á föstudag. Efst á þessum bleðli stóð: All I want for  Christmas ... en þetta  er tilvitnun  í þekkt ameriskt jólalag. Hversvegna  hefur þessi verslun ekki meiri metnað en svo að nota ensku í  fyrirsögn á auglýsingu í íslenskum fjölmiðli? Ekki tekur betra við á baksíðunni.  Þar eru auglýstir Christmas- aðventuljósastjakar,   Christmas- kertaglös og þetta er kórónað með auglýsingu  um Christmas-jólatré.    CHRISTMAS – JÓLATRÉ Hvílíkt endemis  rugl!

 Þessi verslun ber ekki mikla  virðingu fyrir íslenskri tungu. Við ættum ekki að bera mikla  virðingu fyrir þessari verslun. Svo má líka spyrja: Hvaða auglýsingastofa leggst svo lágt að hanna svona auglýsingar?

 Molaskrifari hvetur  fleiri til að taka upp hanskann  fyrir móðurmálið og andmæla vaxandi notkun ensku í auglýsingum í íslenskum fjölmiðlum.

 

ÓBOÐLEGT

Það hefur stundum verið nefnt hér  að það er gjörsamlega óboðlegt að allar dagsrárkynningar  Ríkissjónvarpsins skuli teknar upp löngu áður en þær eru fluttar.

 Tvö  dæmi  frá  föstudeginum (04.11.2016). Sagt var í dagskrárkynningu að umsjónarmenn Útsvars  væru  Sigmar Guðmundsson og Þóra  Arnórsdóttir. Það var rangt. Áreiðanlega var vitað með margra daga fyrirvara að  þau yrðu ekki umsjónarmenn. Umsjón með Útsvari höfðu Einar Þorsteinsson og Þóra  Arnórsdóttir.

Annað dæmi. Verra.  Um miðbik vikunnar var skýrt frá því í fjölmiðlum að Gísli Marteinn mundi ekki  stjórna föstudagsþætti sínum. Var ógangfær vegna hásinaraðgerðar.  Samt var tönnlast á því í dagskrárkynningum  að Gísli Marteinn væri með þáttinn. Rétt áður en þátturinn hófst var sagt við okkur: Nú fara Gísli Marteinn og gestir hans yfir helstu efni vikunnar í beinni útsendingu

Bergsteinn Sigurðsson  stjórnaði þættinum.     Vitað var fyrir löngu að Gísli yrði ekki með þáttinn. Samt var haldið áfram að gefa okkur rangar upplýsingar, segja okkur ósatt.

Þetta er óboðlegt. Ókurteisi sem engin alvöru sjónvarpsstöð mundi leyfa sér að sýna áhorfendum. En Ríkissjónvarpið lætur sig hafa það. Til skammar.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2046

 

ÖMMUBÖRN OG LANGÖMMUBÖRN

 Jakob sendi Molum eftirfarandi (03.11.2016):

,,Heill og sæll,

Hlustaði í hádeginu á „dánarfregnir og jarðarfarir“ að venju. Tók þá enn eftir „smábarnanafnorðinu“ „ömmubörn“ og „langömmubörn“. Án þess ég hafi lagzt í rannsóknir, gæti ég trúað að þetta barnamál sé ekki nema svona þrjátíu til fjörutíu ára sem algengt mál. Á mér brennur spurningin, hvort einhver hefur hugsað út í það, hver séu tengsl „ömmubarns“ við börn konunnar, er „ömmubarnið“ ekki barn ömmunnar og þar af leiðandi systkini annarra barna hennar? Ef til vill væri rétt að spyrja  “Orðfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar“ eins og „Orðabók Háskólans“ mun heita núna um fyrstu þekkta notkun og tíðni þessara orða.”  Kærar þakkir  fyrir ábendinguna. Vissulega umhugsunarefni.

 

 FORSETINN Á FASBÓK

Blaðamaður á visir.is leggur forseta Íslands málvillu í munn , þegar blaðamaðurinn skrifar (02.11.2016): Hann nefnir hins vegar á Facebook að hann geri sér grein fyrir að meðlimir kjararáðs sé gefið ákveðið hlutverk. „Meðlimir kjararáðs eru ekki vont fólk.“

Þetta er ekki rétt. Forseti sagði:

Meðlimir kjararáðs eru ekki vont fólk. Þeim er gefið ákveðið hlutverk.

Hann sagði ekki að meðlimir kjararáðs sé .... eins og blaðamaðurinn Birgir Olgeirsson skrifar. Hroðvirkni eða vankunnátta í meðferð móðurmálsins.

http://www.visir.is/forsetinn-fer-a-facebook-til-ad-utskyra-hvad-hann-atti-vid-med-modir-teresu-ummaelunum/article/2016161109746

 

ENN OG AFTUR

Sífellt hnýtur maður um sömu villurnar. Eins og þessa af visir,is (03.11.2016): Jónas segir hóp sinn, sem er allur skipaður konum frá Ástralíu, Hong Kong, Bandaríkjunum og víðar, hafa verið brugðið í fyrstu en svo hafi uppákoman kryddað daginn þeirra. Þetta sé ekki eitthvað sem fólk sjái á hverjum degi. Það hafi í raun verið mögnuð sjón að fylgjast með bílnum í lóninu. Segir hóp sinn ... hafa verið brugðið! Segir hóp/hópi sínum hafa verið brugðið, hefði þetta átt að vera. – Það er svo auðvitað dálítið sérstakt að íslenskum fararstjóra þykir þessi óheppni, ógæfa, þessara erlendu ferðamanna hafa kryddað daginn hjá fólkinu sem hann var með. Undarlegur hugsunarháttur, að ekki sé meira sagt.

http://www.visir.is/omurlegur-endir-a-islandsdvol-i-jokulsarloni---is-it-our-car--/article/2016161109636

 

AFKOMA VIÐKOMA

Í fyrirsögn á bls. 14 í Morgunblaðinu (03.11.2016) segir: Léleg afkoma rjúpna á Austurlandi 2015. Í huga Molaskrifara ( og í orðabókinni) þýðir afkoma , arður, eða afrakstur.  Sérfræðingur Náttúrufræðistofnunar Íslands talar hinsvegar um viðkomuna hjá rjúpunni. Viðkoma, segir orðabókin meðal annars að þýði , frjósemi, fjöldi fæðinga, vöxtur, árleg fjölgun , aukning. Það orð hefði átt að nota í fyrirsögninni.

 

VEÐRIÐ – Í FÆREYJUM

Molaskrifari er áhugamaður um veður, - og veðurfréttir. Hann hrósaði því hér á dögunum, að nú væri farið að birta okkur hitastigið í Færeyjum á Evrópukortinu í veðurfréttum Ríkissjónvarps. Það var Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur sem það gerði. Síðan hefur Molaskrifari ekki haft neinar fréttir af veðri í Færeyjum fyrr en á miðvikudagskvöld (02.11.2016) og aftur í gærkvöldi og þá var Einar Sveinbjörnsson aftur á ferð. Hann sýndi líka hitastigið á Kanaríeyjum, sem margir Íslendingar  vilja gjarnan sjá. Einar á hrós skilið og þakkir , en Molaskrifari botnar eiginlega ekkert í því hversvegna hann er eini veðurfræðingurinn sem kemur vinum okkar og grönnum í Færeyjum á kortið.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2045

MBL.IS HVETUR TIL DAGDRYKKJU

Það er sérkennilegt, að ekki skuli nú meira sagt, að fjölmiðill eins og mbl.is skuli opinskátt hvetja til dagdrykkju. Fyrirsögn fréttar á mbl.is (31.10.2016) var: Airwaves bjór,sem hentar vel til dagdrykkju.

Í fréttinni er haft eftir bruggmeistara fyrirtækisins, sem framleiðir bjórinn: „Bryggj­an Sessi­on IPAirwaves hent­ar ein­stak­lega vel til dagdrykkju”  Og ennfremur : ,, .... seg­ir Berg­ur ánægður með út­kom­una og seg­ir gott út­lit fyr­ir dagdrykkju næstu daga.”

 Hvað gengur mbl.is til?  Varðar svona bjórauglýsing ekki við lög?

http://www.mbl.is/matur/frettir/2016/10/31/airwaves_bjor_sem_hentar_vel_til_dagdrykkju/

 

ÓHEPPILEGT ORÐALAG

 Í fréttum Ríkisútvarps klukkan sex á þriðjudagskvöld (01.11.2016) var fjallað um útbreiðslu kóleru og sagt að fólk væri grunað um að hafa smitast af sjúkdómnum. Vanhugsað orðalag. Betra hefði verið að tala um, að grunur léki á að fólkið, sem um var rætt, hefði smitast af sjúkdómnum.

 

ÞOLMYND

Úr frétt á mbl.is (31.10.2016): Sex öku­menn voru tekn­ir fyr­ir of hraðan akst­ur af lög­regl­unni á Suður­landi í dag. Hvers vegna þetta þolmyndarklúður? Hversvegna ekki germynd,-  alltaf betri? Lögreglan á Suðurlandi tók sex ökumen fyrir of hraðan akstur í dag. Viðvaningsleg skrif. Enginn les yfir.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/31/fimm_erlendir_ferdamenn_oku_of_hratt/

 

ENSKAN OG NORRÆN MENNING

Fagnaðarefni að íslensk barna- og unglingabók skyldi hljóta bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í þeim bókmenntaflokki. Til hamingju, Arnar Már Arngrímsson.

Umhugsunarefni eru heiti verðlaunakvikmyndarinnar Louder than Bombs, , verðlaunatónverksins Let Me Tell You, og verðlaunasmáforritsins Too Good to Go. Norræn verðlaunaveiting.

 

 

SENDA EFTIR – SENDA Á EFTIR

Af visir.is (02.11.2016): Farþegaþota var send á eftir rúmlega eitt hundrað Íslendingum sem biðu eftir að komast frá Kanaríeyjum í morgun. Bilun kom upp í farþegaþotunni sem átti að fljúga með farþegana frá flugvellinum í Las Palmas og var því önnur þota send á eftir þeim. 

Ekki einu sinni. Heldur tvisvar. Íslendingarnar höfðu ekkert farið eða flúið. Það var ekki verið að senda þotu á eftir þeim eins og tvísagt er í fréttinni. Það var verið að senda þotu eftir þeim, til að sækja þá.  Enginn les yfir. Reyndar rétt í fyrirsögn fréttarinnar.

http://www.visir.is/farthegathota-send-eftir-um-hundrad-islendingum-a-kanarieyjum-vegna-bilunar/article/2016161109791

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2044

 

ERFITT

Það reyndist enn einu sinni erfitt þetta með kjörstaðina núna um og fyrir helgina.. Ýmist voru kjörstaðir að opna eða loka. Í sjónvarpsfréttum (28.10.2016) sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins  ... þar til kjörstaðir opna. Sigríður Ingibjörg Samfylkingarþingmaður lét ekki sitt eftir liggja og sagði þegar kjörstaðir loka. Hjá fréttamönnum virtist  stundum svolítið tilviljanakennt hvernig orðalagið var. Skylt er þó að geta þess að í Ríkisútvarpinu var þetta yfirleitt rétt orðað, - það sem skrifari heyrði að minnsta kosti.

Kjörstaðir opna ekkert. Kjörstaðir loka engu.

Kjörstaðir eru opnaðir. Kjörstöðum er lokað. Þetta er ekkert flókið.

Enn um að opna. Í fréttum Bylgjunnar (25.10.2016) var sagt: Búið er að opna fyrir Þingvallaveg. Það var ekki búið að opna fyrir Þingvallaveg. Út í hött. Það var búið að opna Þingvallaveg fyrir umferð. Lögreglan hafði lokað veginum vegna þess að þar varð alvarlegt umferðarslys.

 

BLIKUR

 Það eru blikur í leikmannamálum, var sagt í íþróttafréttum Stöðvar tvö (31.10.2016).  Þetta orðalag er út í hött. Fréttamaður átti við að blikur væru á lofti í leikmannamálum. Þar væri að líkindum við ýmis vandamál að etja. Betra er að kunna orðtök sem notuð eru í fréttum.

 

FJÁRLÖG OG SÖGUÞEKKING

Athygli Molaskrifara var vakin á því að bæði fréttamenn og stjórnmálamenn væru nú að tuða um það að til vandræða horfði og í óefni stefndi þar sem ekki væri komið fram

fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 og kominn nóvember.  Rétt er að minnast þess að þrjú fjátrlaga frumvörp komu fram fyrir fjárlög ársins 1980.  Fyrsta frumvarpið lagði Tómas Árnason, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar fram strax í þingbyrjun.  Svo sprakk sú ríkisstjórn og við tók minnihlutastjórn Alþýðuflokksins þar sem Sighvatur Björgvinsson var fjármálaráðherra. Hann lagði fram fjárlagafrumvarp, sem borin von var að yrði samþykkt, en það var skylda hans sem fjármálaráðherra að leggja frumvarpið fram. Þegar sýnt var að það yrði ekki samþykkt fyrir áramót voru samþykkt lög um heimild til fjármálaráðherra til að greiða lögbundnar og samningsbundnar greiðslur úr ríkissjóði um áramót, en ekki mátti stofna til nýrra fjárskuldbindinga. Þetta var samþykkt. Þegar svo ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen var mynduð í byrjun febrúar á árinu 1980 lagði nýr fjármálaráðherra ,Ragnar Arnalds fram þriðja  fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1980 sem svo var samþykkt. Molaskrifara er þetta minnisstætt vegna þess að hann lenti í þeirri sérkennilegu stöðu að vera formaður fjárveitinganefndar, - sem nú heitir fjárlaganefnd, - en í minnihluta, - formannskjörið fór fram áður en  ríkisstjórn var mynduð.  Það gekk allt bærilega ekki síst vegna góðrar samvinnu við Geir Gunnarssonar, þingmann Alþýðubandalags ,sem fór fyrir meirihlutanum. Með honum var einstaklega gott að vinna og lærdómsríkt.  Þetta er rifjað hér upp að gefnu tilefni.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband