Molar um málfar og miðla 2045

MBL.IS HVETUR TIL DAGDRYKKJU

Það er sérkennilegt, að ekki skuli nú meira sagt, að fjölmiðill eins og mbl.is skuli opinskátt hvetja til dagdrykkju. Fyrirsögn fréttar á mbl.is (31.10.2016) var: Airwaves bjór,sem hentar vel til dagdrykkju.

Í fréttinni er haft eftir bruggmeistara fyrirtækisins, sem framleiðir bjórinn: „Bryggj­an Sessi­on IPAirwaves hent­ar ein­stak­lega vel til dagdrykkju”  Og ennfremur : ,, .... seg­ir Berg­ur ánægður með út­kom­una og seg­ir gott út­lit fyr­ir dagdrykkju næstu daga.”

 Hvað gengur mbl.is til?  Varðar svona bjórauglýsing ekki við lög?

http://www.mbl.is/matur/frettir/2016/10/31/airwaves_bjor_sem_hentar_vel_til_dagdrykkju/

 

ÓHEPPILEGT ORÐALAG

 Í fréttum Ríkisútvarps klukkan sex á þriðjudagskvöld (01.11.2016) var fjallað um útbreiðslu kóleru og sagt að fólk væri grunað um að hafa smitast af sjúkdómnum. Vanhugsað orðalag. Betra hefði verið að tala um, að grunur léki á að fólkið, sem um var rætt, hefði smitast af sjúkdómnum.

 

ÞOLMYND

Úr frétt á mbl.is (31.10.2016): Sex öku­menn voru tekn­ir fyr­ir of hraðan akst­ur af lög­regl­unni á Suður­landi í dag. Hvers vegna þetta þolmyndarklúður? Hversvegna ekki germynd,-  alltaf betri? Lögreglan á Suðurlandi tók sex ökumen fyrir of hraðan akstur í dag. Viðvaningsleg skrif. Enginn les yfir.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/31/fimm_erlendir_ferdamenn_oku_of_hratt/

 

ENSKAN OG NORRÆN MENNING

Fagnaðarefni að íslensk barna- og unglingabók skyldi hljóta bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í þeim bókmenntaflokki. Til hamingju, Arnar Már Arngrímsson.

Umhugsunarefni eru heiti verðlaunakvikmyndarinnar Louder than Bombs, , verðlaunatónverksins Let Me Tell You, og verðlaunasmáforritsins Too Good to Go. Norræn verðlaunaveiting.

 

 

SENDA EFTIR – SENDA Á EFTIR

Af visir.is (02.11.2016): Farþegaþota var send á eftir rúmlega eitt hundrað Íslendingum sem biðu eftir að komast frá Kanaríeyjum í morgun. Bilun kom upp í farþegaþotunni sem átti að fljúga með farþegana frá flugvellinum í Las Palmas og var því önnur þota send á eftir þeim. 

Ekki einu sinni. Heldur tvisvar. Íslendingarnar höfðu ekkert farið eða flúið. Það var ekki verið að senda þotu á eftir þeim eins og tvísagt er í fréttinni. Það var verið að senda þotu eftir þeim, til að sækja þá.  Enginn les yfir. Reyndar rétt í fyrirsögn fréttarinnar.

http://www.visir.is/farthegathota-send-eftir-um-hundrad-islendingum-a-kanarieyjum-vegna-bilunar/article/2016161109791

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Bloggfærslur 3. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband