Molar um málfar og miðla 2031

 

BROTTVÍSUN

Það kemur fyrir að reyndir þulir og fréttamenn lesi málvillur í fréttum án þess að hika, - hvað þá leiðrétta. Í átta fréttum Ríkisútvarps á föstudagsmorgni (07.10.2016) las fréttamaður: Hælisleitenda sem vísað var úr landi og sendur til Noregs á miðvikudag var sendur hingað aftur samdægurs. Þetta hefur Fréttablaðið eftir .... Þetta hefði átt að vera: Hælisleitandi,sem vísað var úr landi og sendur til Noregs á miðvikudag, var sendur hingað aftur samdægurs ..... Fyrst ætti að lesa yfir og svo þarf sá sem les að hlusta grannt.

 

AÐ KAUPA - AÐ VERSLA

Sæunn Gísladóttir,sem merkir sér þessa frétt á visir.is (07.10.2016). Henni, eins og ýmsum öðrum fréttaskrifurum, er ekki ljós merkingarmunurinn á sögnunum að kaupa og að versla.

http://www.visir.is/pundid-ekki-laegra-sidan-fyrir-hrun/article/2016161009017

 

Sæunn segir í fréttinni: Lækkun gengi pundsins hefur neikvæð áhrif á útflutning íslenskra sjávarafurða til Bretlands og gæti dregið úr neyslu breskra ferðamanna hér á landi. Aftur á móti er nú ódýrara fyrir Íslendinga að versla breskar vörur.

Það er rangt og út í hött að tala um að versla breskar vörur. Hér ætti að tala um að kaupa breskar vörur. Við kaupum breskar vörur í verslunum, sem versla með breskar vörur. Þetta er ekki flókið, eða hvað?

 

Einnig segir í fréttinni: Lækkun gengi pundsins .... Þetta er ekki rétt. Mætti til dæmis vera: Lækkun á gengi pundsins, gengislækkun pundsins eða lækkun gengis pundsins.

 

ENGIN HÆTTA BÚIN

Svohljóðandi fyrirsögn var á visir.is (07.10.2016): Dómarinn telur drengnum engin hætta búin í Noregi. Þetta hljómar ekki rétt í huga Molaskrifara. Kannski er það sérviska. Betra væri að mati Molaskrifara, til dæmis: Dómari telur að drengnum sé engin hætta búin í Noregi. Eða: Dómari telur drengnum enga hættu búna í Noregi.

http://www.visir.is/domarinn-telur-drengnum-engin-haetta-buin-i-noregi/article/2016161009180

 

 

 

ENN ER STAÐSETT.

Orðið staðsett, að staðsetja, er ofnotað og oftast óþarft. Í Augnabliksþættinum úr sögu Sjónvarpsins sl. föstudagskvöld (07.10.2016) var okkur sagt að Gestastofa Ríkisútvarpsins væri staðsett á fyrstu hæð útvarpshússins. Gestastofan er á fyrstu hæð útvarpshússins. Hún er ekki staðsett þar. Hún er þar.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2030

2030-16

FLOGIÐ Í GEGNUM EVRÓPU

Sérkennilegt orðalag í frétt á mbl.is (05.10.2016): Fjög­ur Evr­ópu­ríki sendu herþotur til móts við rúss­nesku Blackjack-herflug­vél­arn­ar sem flugu í gegn­um Evr­ópu til Spán­ar og til baka í lok síðasta mánaðar.

Það hlýtur að hafa verið mikill skellur, eða hvað?

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/10/05/flugu_herthotum_i_veg_fyrir_russa/

 

AFHENDING VETTVANGS

Annað dæmi um undarlegt orðalag í frétt á mbl.is (005.10.2016): Hef­ur slökkvilið því lokið störf­um og af­hent starfs­mönn­um hafn­ar­inn­ar vett­vang­inn. Hvernig afhenda menn vettvang? Sennilega er átt við að málið sé nú í höndum starfsmanna hafnarinnar.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/05/vikingaskipid_sokk_i_storminum/

 

BELGAR BJARGA SKIPI

Úr frétt af visir.is (05.10.2016) um skip,sem sökk í Reykjavíkurhöfn: Þegar þetta er skrifað vinna starfsmenn Köfunarmiðstöðvarinnar að því að koma belgum á skipið svo hægt verði að ná því upp og á þurrt. Það var og. Belgir voru notaðir til að lyfta skipinu, belgjum var komið á skipið.

http://www.visir.is/vikingaskipid-vesteinn-sokk-vid-bryggju/article/2016161009296

 

SPOR

Á baksíðu Morgunblaðsins (06.109.2016) er fyrirsögnin: Yfir Sprengisand í sporum langafa síns. Fréttin er um mann, Jón Þór Sturluson, sem fór gangandi suður Sprengisand, sömu leið og langafi hans hafði gengið fyrir réttum hundrað árum. – það er kannski sérviska, en Molaskrifari er ekki fullsáttur við þessa fyrirsögn. Finnst að hún hefði heldur átt að vera, til dæmis: Yfir Sprengisand í fótspor langafa síns. Jón Þór var ekki sporum langafa síns, aðstæður hans voru ekki þær sömu. Langafi hans hélt suður til að hitta unnustu sína og hefja búskap. Jón Þór  fór hinsvegar suður Sprengisand í fótspor langafa síns; hann fór í stórum dráttum sömu leið, þvert yfir landið. Skemmtileg frétt og talsvert afrek að ganga þessa leið.

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2029

GRÓUSÖGUR

 Fríða Björnsdóttir fyrrverandi blaðamaður skrifaði Molum (05.10.2016): ,,Sælir Eiður, þar sem máltilfinning mín er að hverfa langar mig að spyrja þig um eitt. Í gærkvöldi var rætt við forstöðumann Útlendingastofnunar um allan þann fjölda hælisleitenda sem hingað streymir frá Balkanskaganum. Sagði hún þá að það stafaði líklega af Gróusögum sem gengju þar um ágæti Íslands og allt sem mönnum býðst sem hingað koma. Mér finnst Gróusögur ekki geta orðið til þess að mann langi til að heimsækja eitthvert land, því i mínum huga er þetta svo neikvætt orð. Segðu mér hvort ég hef á réttu að standa eður ei. Takk, takk.”

 Kærar þakkir fyrir bréfið, Fríða. Máltilfinning þín er hreint ekkert að hverfa. Molaskrifari hjó eftir þessari orðnotkun líka. Orðið Gróusaga er neikvætt orð. Hér hefði verið nær að tala um sögusagnir eða orðróm.

 

Á ALÞINGI

Það er allur gangur því hve þingmönnum lætur vel að tjá sig í ræðustóli, eða hve vel þeir eru að sér um notkun móðurmálsins.- Svo kemur upp úr krafsinu, - sagði þingmaður Bjartrar framtíðar á þriðjudaginn (04.10.2016). Þingmaðurinn ætlaði væntanlega að segja: Svo kemur upp úr kafinu , - svo kemur í ljós, svo kemur það á daginn. Að hafa eitthvað upp úr krafsinu, er að fá umbun eða laun fyrir viðleitni. - Hann talaði við fjölmarga embættismenn og hafði það upp úr krafsinu, að sannað þótti að lög hefðu verið brotin á honum.

Næstur í ræðustól var ungur þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann hóf ræðu á sína á því að segja: Mér langar .... og sagði undir lokin: Ég vill líka taka fram ...

Meira um orðfæri þingmanna. Í útvarpi Sögu heyrði skrifari brot úr þætti (04.10.2016) þar sem þrístirnið, formaður fjárlaganefndar , útvarpsstjóri og stjórnarformaður Sögu bulluðu út í eitt. Formaður fjárlaganefndar sagði: Ég held að Sigurður Ingi hafi brostið kjarkur til að .... Það var og.

 

 

 

 

MÁLHEILSU HRAKAR

Þótt vissulega starfi margt vel skrifandi og vel málið farið fólk við Morgunblaðið er eins og málheilsu blaðsins fari hrakandi.

 Á miðvikudag (05.10.2016) var fjögurra dálka fyrirsögn á bls. 11: Griðarstaður ofbeldisþola. Þetta átti að vera Griðastaður ofbeldisþola. Griðarstaður er út í hött. Orðið grið, friður, er fleirtöluorð. Griðastaður, segir orðabókin, er staður þar sem einhver er óhultur, skjólshús, hæli. Þetta var rétt í fréttilkynningu og á mbl.is. Þar var réttilega talað um griðastað.

En hér er svo skondin fyrirsögn af mbl.is (05.10.2016): Pissaði á hús og var ógnandi.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/05/pissadi_a_hus_og_var_mjog_ognandi/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2028

AÐ BERA AÐ GARÐI

Að bera að garði. Einhvern bar að garði, - það kom einhver, það kom gestur. Þorvaldur skrifaði (03.10.2016): ,,Sæll enn Eiður.
Í fréttum sjónvarps áðan var sagt frá því að eftirvænting skólabarna á Patreksfirði hafi verið mikil þegar forsetahjónin "báru að garði". Ekki fylgdi sögunni hver byrði hjónanna var.” Þakka bréfið, Þorvaldur. Hér hefur einhver skrifað, (það er víst ekki lengur hægt að segja, - haldið á penna) , sem ekki kann að nota þetta orðtak.

 

ERLENDIS

Of oft heyrir maður talað um að fara erlendis. Ef við förum til útlanda, þá erum við erlendis. Erlendis er atviksorð, dvalarorð. Við förum ekki erlendis. Við förum út eða förum utan Þeir sem s eru í útlöndum eru erlendis. Áður var stundum sagt um þá sem komu til Íslands að þeir hefðu komið upp. Sem barni fannst Molaskrifara það mjög undarlega til orða tekið.

Þegar Færeyingar tala um að fara til Danmerkur tala þeir um að fara niður.

 

KRAKKAFRÉTTIR

Molaskrifari hefur orðið þess var að svokallaðar  Krakkafréttir Ríkissjónvarps njóta vinsælda. Auðvitað má um það deila hvort flytja eigi sérstakar fréttir fyrir börn. En í þessum þáttum ber að leggja sérstaka áherslu á vandað málfar og ekki tala um að sýning opni, þegar sýning er opnuð (03.10.2016).

 

KÚABRODDAMJÓLK

Í auglýsingu um einn af Kínalífselexírunum sem nú má lesa um í öllum blöðum og á netinu var talað um kraftaverkalyf sem búið væri til m.a. úr kúabroddamjólk. Molaskrifari hefur heyrt talað um brodd, ábrystir, kúabrodd. En orðið kúabroddamjólk hefur hann aldrei heyrt.

 

SKÆRINGAR

Í fréttum St0öðvar tvö var talað um  þessar miklu skæringar. Gott ef ekki var átt við deilurnar í Framsókn. Þarna hefur fréttamaður sennilega verð með orðið í huga, gamalt og gott orð yfir deilur og illindi.

EKKI HÆTTUR

Alltaf öðru hverju er þeirri spurningu beint til Molaskrifara hvort hann sé  hættur að skrifa um málfar ? - Nei, svara ég. Skrifa yfirleitt 4-5 sinnum í viku. -Hvar birtast skrifin, er þá stundum spurt. Á heimasíðunni minni www.eidur.is , á fasbók ,á moggabloggi, blog is, og á twitter.

 

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfa. Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2027

AÐ ÞRESKJAST

Í þættinum Samfélaginu á Rás eitt var prýðilegur pistill um matarsóun og áhrif hennar á loftslagsbreytingar (29.09.2016). Þar var meðal annars fjallað um banana,sem við flytjum inn, vistspor þeirra allt frá því regnskógur er ruddur og víkur fyrir bananaplantekru þar til þeir koma til okkar. Höfundur pistilsins sagði um bananana, sem eru  dökkgrænir, þegar klasarnir eru skornir af plöntunum: ,, ... þá þarf að þreskja þá, því enginn vill borða græna banana”. Þarna hefur eitthvað skolast til. Bananarnir þurfa að þroskast, verða gulir svo hægt sé að borða þá. Molaskrifari kannast ekki við að sögnin að þreskja sé til í merkingunni að þroskast. Sögnin að þreskja þýðir , - ,,að losa korn úr öxum (var gert með þúst, nú með þreskivél) og hreinsa það frá hálminum”, segir orðabókin. Til er sögnin að þreskjast, þreiskjast við, seiglast við, þybbast við.

 

RUGL

Sigurður Sigurðarson skrifaði (30.09.2016) : ,,Sæll,

Stundum er hægt að hafa gaman af ruglinu í fjölmiðlum. Rakst á þetta í dv.is, hér:

Forsetinn, sem er kvæntur Elizu Reid forsetafrú á fjögur börn með henni og eina dóttur úr fyrra hjónabandi.

Veit eiginlega ekki hvernig þá má vera öðru vísi en að forsetinn sé giftur forsetafrúnni. Það er nú ekki málið heldur er orðinu „forsetafrú“ ofaukið í textanum. Rugl.”  Þakka bréfið, Sigurður.

 

BRYGGJUFERRÐIR

Þorvaldur skrifaði (30.09.2016): ,, Sæll enn Eiður.

Ekki lagast notkun tilvísunarfornafna. Í Mogga í morgun má lesa að sérstakar varúðarráðstafanir séu hafðar uppi í Sundahöfn vegna ásóknar hælisleitenda þegar "skip liggur við bryggju sem er á leið til Ameríku".- Þakka bréfið, Þorvaldur. Það er auðvitað brýnt að stöðva þessi ferðalög á bryggjunum.

HA?

Af mbl.is (30.09.2016): ,, Þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar var kölluð á vett­vang og flutti kon­una með sjúkra­flugi til Reykja­vík­ur.” Þyrlan flutti konuna með sjúkraflugi!  Það var og.  http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/30/flutt_a_bradamottoku_eftir_arekstur/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 2026

 

KJÓSA - GREIÐA ATKVÆÐI

Bæði í átta fréttum Ríkisútvarps og á fréttavef Ríkisútvarpsins (29.09.2016) var talað og skrifað um að Bandaríkjaþing hefði kosið gegn lagafrumvarpi Obama forseta: Bandaríkjaþing kaus í gær gegn neitun Baracks Obama um að fjölskyldur fórnarlamba hryðjuverkanna 11. september geti höfðað mál gegn sádí-arabískum embættismönnum.

http://www.ruv.is/frett/thingid-visadi-neitun-obama-a-bug

 

 Á þjóðþingum er ekki kosið um lagafrumvörp. Það eru greidd atkvæði um lagafrumvörp. Alþingi Íslendinga kýs ekki um fjárlagafrumvarpið. Á Alþingi eru greidd atkvæði um fjárlagafrumvarpið.

 Vita menn á fréttastofu Ríkisútvarpsins ekki betur? Er þetta vankunnátta? Eða hefur Ríkisútvarpið einsett sér að breyta þessari rótgrónu íslensku málvenju? Málfarsráðunautur þarf að leiðbeina þeim sem ekki kunna. – Þetta hefur svo sem verið nefnt hér í Molum. Nokkrum sinnum. Talað hefur verið fyrir daufum eyrum, - enn sem komið er.

 

ENN UM AFMÆLISÞÆTTI

Molaskrifari horfði á afmælisþátt Ríkissjónvarps frá 17.09. í Sarpinum. Þar var ekki allt, sem sagt var, um upphafsár Sjónvarpsins mjög nákvæmt. Það var skautað heldur léttilega yfir byrjunarárin. Samstarfsmaður benti mér á, að meira hefði verið fjallað um fólk af Stöð tvö, en fyrstu árin og frumherjana á Laugaveginum.

 

 Fyrstu árin átti sjónvarpið ekki tækjabúnað til að senda efni frá stöðum utan sjónvarpsins, að Laugavegi 176. Fyrsta sending utan úr bæ var frá komu danska varðskipsins Vædderen með handritin 1971. Hluti þeirra tækja, sem þá var notaður var heimasmíð. Það voru margir tæknisnillingar á Laugavegi 176. Til að koma mynd og hljóði inn á Laugaveg var endurvarpssendi komið fyrir í turni Hallgrímskirkju. Gott ef hann var ekki á vinnupöllunum við turninn. Þegar sjónvarpað var frá þjóðhátíðinni á Þingvöllum 1974 voru fengin tæki að láni frá norska sjónvarpinu NRK. Það var löng og eftirminnileg bein útsending. Nýr, sérhannaður bíll til dagskrárgerðar og beinna útsendinga var keyptur 1986 og var strax notaður til upptöku á dagskrárefni víða um landið auk útsendinga frá stórviðburðum og íþróttaleikjum. – En við björguðum okkur sem best við gátum. Dæmi: Talning atkvæði í leikfimisal Austurbæjarskólans eftir þingkosningarnar 1967 er minnisstæð. Við fengum dagskrárlínu frá Símanum úr salnum upp í í Sjónvarp og Markús Örn hafði meðferðis hljóðnema til að nota í beinni hljóðútsendingu þaðan inn í kosningasjónvarpið.  Venjan hafði verið sú að fréttamaður útvarps í Austurbæjarskólanum skrifaði niður tölurnar, sem formaður yfirkjörstjórnar las upp, las þær síðan í síma fyrir fréttamann á Skúlagötunni þar sem útvarpið var til húsa  og þulur las þær svo upp í kosningaútvarpinu. Markús Örn bað Pál Líndal, kjörstjórnarformann, að koma að hljóðnemanum hjá sér, þegar hann hefði fyrstu tölur tilbúnar og flytja þær beint í sjónvarpinu, hvað hann og gerði. Þetta var mikið skúbb. Við vorum dálítið roggin með það. Þá var hörð samkeppni milli fréttastofanna á Laugavegi og Skúlagötu.

 

Ögmundur Jónasson rifjaði upp í þættinum um fréttirnar , að þegar hann kom til starfa hjá Sjónvarpinu haustið 1978 hafi erlendar fréttamyndir komið til landsins með flugvélum tvisvar í viku. Þetta er misminni hjá Ögmundi.

 Frá upphafi sjónvarps 1966 fékk sjónvarpið daglega erlendar fréttamyndir (16 mm filmur) frá CBS í New York og ITN í London, - seinna frá VisNews (BBC). Ekki tvisvar í viku, heldur daglega, sem og helstu erlendar fréttaljósmyndir dagsins símsendar frá AP í London, alla útsendingardaga.

En svo komst Ísland í gervihnattasamband við umheiminn. Það var mikil bylting í sjónvarpsmálum og um svipað leyti kom liturinn og filman hvarf úr fréttum og dagskrárgerð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband