Molar um málfar og miðla 2026

 

KJÓSA - GREIÐA ATKVÆÐI

Bæði í átta fréttum Ríkisútvarps og á fréttavef Ríkisútvarpsins (29.09.2016) var talað og skrifað um að Bandaríkjaþing hefði kosið gegn lagafrumvarpi Obama forseta: Bandaríkjaþing kaus í gær gegn neitun Baracks Obama um að fjölskyldur fórnarlamba hryðjuverkanna 11. september geti höfðað mál gegn sádí-arabískum embættismönnum.

http://www.ruv.is/frett/thingid-visadi-neitun-obama-a-bug

 

 Á þjóðþingum er ekki kosið um lagafrumvörp. Það eru greidd atkvæði um lagafrumvörp. Alþingi Íslendinga kýs ekki um fjárlagafrumvarpið. Á Alþingi eru greidd atkvæði um fjárlagafrumvarpið.

 Vita menn á fréttastofu Ríkisútvarpsins ekki betur? Er þetta vankunnátta? Eða hefur Ríkisútvarpið einsett sér að breyta þessari rótgrónu íslensku málvenju? Málfarsráðunautur þarf að leiðbeina þeim sem ekki kunna. – Þetta hefur svo sem verið nefnt hér í Molum. Nokkrum sinnum. Talað hefur verið fyrir daufum eyrum, - enn sem komið er.

 

ENN UM AFMÆLISÞÆTTI

Molaskrifari horfði á afmælisþátt Ríkissjónvarps frá 17.09. í Sarpinum. Þar var ekki allt, sem sagt var, um upphafsár Sjónvarpsins mjög nákvæmt. Það var skautað heldur léttilega yfir byrjunarárin. Samstarfsmaður benti mér á, að meira hefði verið fjallað um fólk af Stöð tvö, en fyrstu árin og frumherjana á Laugaveginum.

 

 Fyrstu árin átti sjónvarpið ekki tækjabúnað til að senda efni frá stöðum utan sjónvarpsins, að Laugavegi 176. Fyrsta sending utan úr bæ var frá komu danska varðskipsins Vædderen með handritin 1971. Hluti þeirra tækja, sem þá var notaður var heimasmíð. Það voru margir tæknisnillingar á Laugavegi 176. Til að koma mynd og hljóði inn á Laugaveg var endurvarpssendi komið fyrir í turni Hallgrímskirkju. Gott ef hann var ekki á vinnupöllunum við turninn. Þegar sjónvarpað var frá þjóðhátíðinni á Þingvöllum 1974 voru fengin tæki að láni frá norska sjónvarpinu NRK. Það var löng og eftirminnileg bein útsending. Nýr, sérhannaður bíll til dagskrárgerðar og beinna útsendinga var keyptur 1986 og var strax notaður til upptöku á dagskrárefni víða um landið auk útsendinga frá stórviðburðum og íþróttaleikjum. – En við björguðum okkur sem best við gátum. Dæmi: Talning atkvæði í leikfimisal Austurbæjarskólans eftir þingkosningarnar 1967 er minnisstæð. Við fengum dagskrárlínu frá Símanum úr salnum upp í í Sjónvarp og Markús Örn hafði meðferðis hljóðnema til að nota í beinni hljóðútsendingu þaðan inn í kosningasjónvarpið.  Venjan hafði verið sú að fréttamaður útvarps í Austurbæjarskólanum skrifaði niður tölurnar, sem formaður yfirkjörstjórnar las upp, las þær síðan í síma fyrir fréttamann á Skúlagötunni þar sem útvarpið var til húsa  og þulur las þær svo upp í kosningaútvarpinu. Markús Örn bað Pál Líndal, kjörstjórnarformann, að koma að hljóðnemanum hjá sér, þegar hann hefði fyrstu tölur tilbúnar og flytja þær beint í sjónvarpinu, hvað hann og gerði. Þetta var mikið skúbb. Við vorum dálítið roggin með það. Þá var hörð samkeppni milli fréttastofanna á Laugavegi og Skúlagötu.

 

Ögmundur Jónasson rifjaði upp í þættinum um fréttirnar , að þegar hann kom til starfa hjá Sjónvarpinu haustið 1978 hafi erlendar fréttamyndir komið til landsins með flugvélum tvisvar í viku. Þetta er misminni hjá Ögmundi.

 Frá upphafi sjónvarps 1966 fékk sjónvarpið daglega erlendar fréttamyndir (16 mm filmur) frá CBS í New York og ITN í London, - seinna frá VisNews (BBC). Ekki tvisvar í viku, heldur daglega, sem og helstu erlendar fréttaljósmyndir dagsins símsendar frá AP í London, alla útsendingardaga.

En svo komst Ísland í gervihnattasamband við umheiminn. Það var mikil bylting í sjónvarpsmálum og um svipað leyti kom liturinn og filman hvarf úr fréttum og dagskrárgerð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Bloggfærslur 3. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband