Molar um málfar og miðla 2027

AÐ ÞRESKJAST

Í þættinum Samfélaginu á Rás eitt var prýðilegur pistill um matarsóun og áhrif hennar á loftslagsbreytingar (29.09.2016). Þar var meðal annars fjallað um banana,sem við flytjum inn, vistspor þeirra allt frá því regnskógur er ruddur og víkur fyrir bananaplantekru þar til þeir koma til okkar. Höfundur pistilsins sagði um bananana, sem eru  dökkgrænir, þegar klasarnir eru skornir af plöntunum: ,, ... þá þarf að þreskja þá, því enginn vill borða græna banana”. Þarna hefur eitthvað skolast til. Bananarnir þurfa að þroskast, verða gulir svo hægt sé að borða þá. Molaskrifari kannast ekki við að sögnin að þreskja sé til í merkingunni að þroskast. Sögnin að þreskja þýðir , - ,,að losa korn úr öxum (var gert með þúst, nú með þreskivél) og hreinsa það frá hálminum”, segir orðabókin. Til er sögnin að þreskjast, þreiskjast við, seiglast við, þybbast við.

 

RUGL

Sigurður Sigurðarson skrifaði (30.09.2016) : ,,Sæll,

Stundum er hægt að hafa gaman af ruglinu í fjölmiðlum. Rakst á þetta í dv.is, hér:

Forsetinn, sem er kvæntur Elizu Reid forsetafrú á fjögur börn með henni og eina dóttur úr fyrra hjónabandi.

Veit eiginlega ekki hvernig þá má vera öðru vísi en að forsetinn sé giftur forsetafrúnni. Það er nú ekki málið heldur er orðinu „forsetafrú“ ofaukið í textanum. Rugl.”  Þakka bréfið, Sigurður.

 

BRYGGJUFERRÐIR

Þorvaldur skrifaði (30.09.2016): ,, Sæll enn Eiður.

Ekki lagast notkun tilvísunarfornafna. Í Mogga í morgun má lesa að sérstakar varúðarráðstafanir séu hafðar uppi í Sundahöfn vegna ásóknar hælisleitenda þegar "skip liggur við bryggju sem er á leið til Ameríku".- Þakka bréfið, Þorvaldur. Það er auðvitað brýnt að stöðva þessi ferðalög á bryggjunum.

HA?

Af mbl.is (30.09.2016): ,, Þyrla Land­helg­is­gæsl­unn­ar var kölluð á vett­vang og flutti kon­una með sjúkra­flugi til Reykja­vík­ur.” Þyrlan flutti konuna með sjúkraflugi!  Það var og.  http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/30/flutt_a_bradamottoku_eftir_arekstur/

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Bloggfærslur 4. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband