Færsluflokkur: Bloggar
30.1.2017 | 14:50
Molar um málfar og miðla 2103
ÓÞAKKLÆTI
Ólafur Kristjánsson skrifaði Molum (26.01.2017) : ,,Á mbl.is 26/7 er sagt að Chelsea Manning sé óþakklát (e. ungrateful).Nafnorðið er þá væntanlega óþakklæti. Getur verið að þýðandi þekki ekki orðið vanþakklát?. Er það ekki augljóst, Ólafur? Þakka bréfið. Í gamla daga hefði orðið uppi fótur og fit á næsta ritstjórnarfundi hjá Mogga, ef svona texti hefði birst í blaðinu. Nú láta menn þetta líklega sem vind um eyru þjóta. Nýir siðir með nýjum herrum eru ekki alltaf góðs
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2017/01/26/trump_kallar_manning_svikara/
BARNAMÁL
Í morgunþætti Rásar tvö (27.01.2017) var rætt við tvo blaðamenn um fréttir vikunnar. Að sjálfsögðu var rætt um morðið á Birnu Brjánsdóttur, þann hörmulega atburð, sem hefur snortið okkur öll. Tvisvar sinnum, að minnsta kosti , sagði annar blaðamaðurinn: Hvað gerðist fyrir Birnu ?Þetta er barnamál, sem hvorki á heima í fréttum eða í viðræðuþáttum. Það vita þokkalega skrifandi og talandi blaðamenn.
LÖGGJAFIR
Í fréttum Ríkisútvarps klukkan tvö aðfaranótt föstudags (27.01.2016) var sagt um varaforseta Bandaríkjanna, að hann hefði sem ríkisstjóri Indiana ,,skrifað undir nokkrar hörðustu löggjafir gegn fóstureyðingum sem fyrirfinnast í Bandaríkjunum. Það ætti ekki að þurfa að taka það fram að orðið löggjöf er ekki til í fleirtölu. http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=L%C3%B6ggj%C3%B6f
Hér er fréttin af vef Ríkisútvarpsins: http://www.ruv.is/frett/pence-a-samkomu-andstaedinga-fostureydinga
Einhverskonar smitandi fleirtöluvæðing virðist um þessar mundir
vera á ferðinni, sbr. nefndaformennskur sem nefndar voru í Molum í lok síðustu viku.
MÁLALOK
Í síðdegisfréttum Ríkisútvarps (26.01.2017) var sagt um málaferli Ólafs Ólafssonar Samskipaforstjóra: Ólafur sættist ekki við þau málslok. Hér hefði betur verið sagt, til dæmis: Ólafur var ekki sáttur við þau málalok.
Enginn les yfir.
NÖFN
Í útvarpsfréttum (29.01.2017) var dr. Halldór Þorgeirsson yfirmaður hjá loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna ýmist kallaður Halldór eða Haraldur. Þegar farið er rangt með nöfn í fréttum á að leiðrétta það.
Það var ekki gert í útvarpsfréttum. Dr. Halldór er sennilega sá embættismaður íslenskur, sem mestan frama hefur hlotið hjá Sameinuðu þjóðunum og er það mjög að verðleikum. Hann er vísindamaður í fremstu röð.
UPP UPP
Úr Fréttablaðinu (26.01.2017): ,,Uppbygging 360 íbúða hverfis á svokölluðum RÚV-reitvið Efstaleiti í Reykjavík er hafin Og : ,,Tvær nýjar götur verða byggðar upp og hljóta þær heitin Lágaleiti og Jaðarleiti. Það er verið að reisa nýttíbúðahverfi og þar verða tvær nýjar götur.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2017 | 08:50
Molar um málfar og miðla 2102
SLÖK VINNUBRÖGÐ
Molavin skrifaði (26.01.2017):,, Frétt um nokkuð öflugan jarðskjálfta í Kötluöskjunni var eðlilega fyrsta frétt í síðdegisfréttum Ríkisútvarpsins (26.1.16) og svo var sagt: "við heyrum í honum Gunnari á skjálftavaktinni..." Ekkert föðurnafn eða nánari starfslýsing. Rétt eins og frétt í Kardimommubænum; "Við heyrum í honum Tóbíasi í turninum." Svo lauk viðtalinu með þessum orðum: "Þakka þér fyrir, Gunnar."
Það er augljóst að ráðið er til fréttaskrifa ungt fólk, sem kann ekkert til fréttamennsku. Yfirmenn virðast ekki hafa nokkuð eftirlit og fréttastofan fær á sig í vaxandi mæli yfirbragð barnatíma. Því miður er mikið til í þessu, Molavin. Vissulega er fagfólk á fréttastofunni, en viðvaningum virðist lítið eða ekki leiðbeint. Verkstjórn í molum.
LAFATREYJA SJAKKET
Í Morgunblaðinu (225.01.2017) eru rifjaðar upp fyrri heimsóknir íslenskra forseta til Danmerkur. Þar segir frá heimsókn forsetahjónanna Kristjáns og Halldóru Eldjárn í september 1970. Þar segir: ,, í umfjöllun Morgunblaðsins er þess getið að forsetinn hafi verið í röndóttum buxum og dökkum jakka. Þetta finnst sjálfsagt einhverjum skrítið nú um stundir. Forsetinn hefur að líkindum klæðst sjakket, lafatreyju, sem orðabókin lýsir svo: ,,Síður, grár eða svartur herrajakki með stéli, notaður við gráröndóttar buxur við hátíðleg tækifæri, þó ekki að kvöldi, sjakket. Enda stundum nefnt morning dress á ensku. Skrifari fjárfesti í samræmi við siðareglur í slíkum klæðnaði haustið 1993, er hann afhenti Haraldi Noregskonungi trúnaðarbréf sem sendiherra Íslands í því góða landi. Hefur sá búningur hangið óáreittur á herðatré síðan.
Það gladdi svolítið gamalt blaðamannshjarta að sjá, að fréttamaður Ríkissjónvarps við höllina í Kaupmannahöfn var klæddur við hæfi tilefnisins á fyrsta degi heimsóknar Guðna Th. Jóhannessonar forseta og Elizu konu hans til Danmerkur á þriðjudag (24.01.2017). Það er kurteisi og að sýna starfi sínu virðingu. Segi ekkert um aðra.
Íslendingar geta verið stoltir af framgöngu forsetahjónanna í þessari heimsókn. Landi og þjóð til sóma.
INNVIÐIR STJÓRNKERFISINS
Molalesandi hafði samband og sagði:,, Heyrði í sjónvarpinu að fjármálaráðherra nefndi inniviði stjórnkerfisins og taldi þá ráða við ákveðið verkefni. Getur þú skilgreint þessa innviði stjórnkerfisins fyrir mig? Ég átta mig ekki alveg á þessu. Molaskrifari treystir sér ekki til að skilgreina þetta, en heldur að innviðir stjórnkerfisins séu barasta stjórnkerfið. Eða hvað?
HANDRIT OG ÞOLMYND
Þorvaldur skrifaði Molum (25.01.2017):,, Sæll Eiður.
Enn vefjast þolmynd- germynd fyrir blaðamönnum. Í dag segir í vefmogga: "Guðna voru sýnd vel valin handrit af starfsmönnum Árnasafns". Sjálfsagt hefði verið merkilegt að sjá uppdrátt af slíkum mönnum en auðvitað sýndu starfsmenn safnsins Guðna handrit þótt óhönduglega sé sagt frá.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/01/25/hofdingslund_dana_ekki_sjalfgefin/
Þakka bréfið, Þorvaldur. Eins og hér er oft sagt: Germynd er alltaf betri.
FORMENNSKUR!
Flest orð er nú farið að nota í fleirtölu.,, En við vorum alveg tilbúin til að semja um þetta. Og hefðum sætt okkur við þrjár formennskur. Þetta var haft eftir formanni þingflokks Samfylkingarinnar á fréttavef Ríkisútvarpsins (25.01.2017). Orðið formennska er ekki til í fleirtölu. Stjórnarandstaðan hefði sætt sig við að fá formennsku eða að fá formenn í þremur nefndum.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2017 | 10:40
Molar um málfar og miðla 2101
LEITIR - KRAKKAFRÉTTIR RÍKISSJÓNVARPS
Molavin skrifaði (24.01.2017): ,, Fréttir fyrir börn í Sjónvarpinu (kallaðar því kauðalega nafni Krakkafréttir) hófust í kvöld (24.1.16) á því sem kallað var "leitir að fólki". Mikilvægt er að RUV vandi mjög til orðalags og málfars í þessum sérstaka fréttatíma fyrir yngstu kynslóðina. Eins og fram kom réttilega í máli viðmælanda er jafnan notað orðið *leit* í eintölu, jafnvel þótt leitað sé að fleirum eða á fleiri svæðum. Þó er fleirtölumynd til, annars vegar þegar talað er um að eitthvað finnist; komi í leitirnar. Eða þegar leit að sauðfé er skipt í svæði. Kærar þakkir, Molavin. Mjög mikilvægt er að í þessum þætti fyrir börn sé talað vandað mál. Mér finnst reyndar orka tvímælis að vera með sérstakar fréttir fyrir börn.
FRÁFARANDI FYRRVERANDI
Ragnar Torfi skrifaði Molum (25.01.2017): ,,Sæll Eiður
Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 16:00 í gær var fyrsta frétt um athugasemd sem Sigurður Ingi Jóhannsson hafði um ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.
Í fréttinni var Sigurður sagður fráfarandi forsætisráðherra.
Minn málskilningur er að Sigurður sé fyrrverandi forsætisráðherra, hann hætti að vera fráfarandi um leið og fyrsti ríkisráðsfundur var haldinn með Guðna forseta og nýju ríkisstjórninni.
Þessi frétt var síðan sett inn á vef ruv.is klukkan 16:09 og stendur enn.
Þakka bréfið, Ragnar Torfi. Ég skil þetta alveg á sama veg og þú.
http://ruv.is/frett/taepur-meirihluti-kalli-a-meiri-samvinnu
VEGNA
Við segjum vegna einhvers. Æ algengara er að heyra sagt: vegna uppbyggingu. Umhverfisráðherra notaði þetta orðalag í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á þriðjudagskvöld (24.01.2017). Vegna uppbyggingar á það að vera.
LEIKARASKAPUR
Ósköp er það kjánalegt í frétt um loftslagsbreytingar, hlýnun jarðar, að fréttamaður Ríkissjónvarps, skuli láta mynda sig berleggjaða sitjandi á bryggju með fæturna í sjónum eins og við sáum í kvöldfréttum (24.01.2017). Leikaraskapur á ekki heima í fréttum.
DÝR DREPAST
Það hefur lengi verið málvenja í íslensku að tala um að dýr drepist. Talað er um að fólk látist, andist eða falli frá. Nú er að verða æ algengara að sagt sé að dýr hafi látist eða andast. Á fasbók var nýlega skrifað um hund. ,,Nú í dag fannst Tinna okkar því miður látin við smábátahöfnina í Keflavík. . hún verið sett undir u.þ.b. 10 kg grjót og er greinilegt að andlát hennar sé af mannavöldum . Þessi breyting er andstæð rótgróinni málvenju, en endurspeglar þá staðreynd að margir líta á gæludýr sem hluta af fjölskyldunni og er sjálfsagt hluti af eðlilegri þróun málsins.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2017 | 07:15
Molar um málfar og miðla 2100
HITI
Víðast fjögur til átta stiga hiti á morgun. Þetta las reyndur fréttamaður í lok fjögur frétta á sunnudaginn var (22.01.2017). Heyrði greinilega ekkert athugavert við þetta orðalag, sem hefði átt að vera: Víðast fjögurra til átta stiga hiti á morgun.
ORÐTÖK
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (23.01.2017) var tekið svona til orða: Það þótti þó sæta til stórtíðinda þegar . Eins og hér hefur oft verið bent á , er betra að kunna að fara rétt með orðtök, eða sleppa notkun þeirra ella. Hér hefði betur verið sagt: Það þótti þó sæta stórtíðindum þegar
UPPSTOPPARI
Í Útsvari (20.01.2017) var sagt í einni spurningunni, ,, . en sá var uppstoppari að atvinnu. Maðurinn var hamskeri. Um það segir orðabókin: - Maður sem stoppar upp hami af dýrum til geymslu. Uppstoppari er svo sem ágætt orð, en hamskeri er það heiti sem lengst hefur verið notað á íslensku um þetta starf.
ÓLAG
Verkstjórn á fréttastofu Ríkisútvarpsins er ekki í lagi. Enginn virðist lesa fréttir og fréttapistla yfir áður en lesið er fyrir okkur. Þess vegna heyrum við samskonar ambögur næstum því dag eftir dag, eins og til dæmis í hádegisfréttum á fimmtudag(19.01.2017): Stór hluti af skýringunni er SÚ , að ..
Í hádegisfréttum daginn eftir var talað um ábendingar sem lögreglu hefur borist.
Á laugardagsmorgni (21.01.2017) var bæði í níu fréttum og tíu fréttum sagt um leitina að Birnu Brjánsdóttur: Björgunarsveitunum bíða á þriðja þúsund leitarverkefni. Björgunarsveitanna bíða Þetta var tvílesið.
Hlustar enginn? Eða heyrir enginn? Veit ekki hvort er verra. Hvernig sleppa svona villur út í loftið og heim til okkar dag eftir dag? Verkstjórn er í ólagi. Það sannaðist líka á sunnudag (22.01.2017), sbr. Mola 2098. Og var enn einu sinni staðfest í kvöldfréttum útvarps (23.01.2017): að samtök sem telja (svo!) næstum fimm þúsund manns hafi ekki verið kunnugt um samtökum, sem í eru næstum fimm þúsund manns var ekki kunnugt um . Hvers vegna les enginn yfir?
VÍÐA ER POTTUR BROTINN
Ambögur af sama tagi er víðar að finna en hjá Ríkisútvarpinu. Rafn benti á þessa frétt á mbl.is (23.01.2017): http://www.mbl.is/frettir/erlent/2017/01/23/bjargad_af_everest/
Í fréttinni segir: Spænskur fjallgöngumaður, sem ætlaði sér að komast á topp Everest án súrefnis, var bjargað af fjallinu á föstudag.
Rafn segir:- Honum bjargað eða hann bjargaður? Var manninum bjargað eða hvað? Þakka ábendinguna, Rafn. Svona villur eru að verða daglegt brauð í fjölmiðlum, sbr. hér að ofan. Hvað veldur? Fáfræði, - hroðvirkni? - Ljóst er að enginn les yfir.
STUÐNINGUR VIÐ KONUR
Í fréttum Stöðvar tvö (21.01.2017) var rætt við íslenska konu búsetta í Bandaríkjunum, sem tók þátt í mótmælum í Washington D.C. gegn embættistöku Donalds Trumps. Hún sagðist taka þátt í mótmælunum til að standa upp fyrir konum. Ekki er víst að allir hafi skilið þetta . Hún tók þátt í mótmælunum til stuðnings konum, til að styðja konur. Á ensku: To stand up for women. Enskan var konunni ofarlega í huga. Sem er kannski skiljanlegt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2017 | 13:16
Molar um málfar og miðla 2099
ÓSKÝR?
Þessari spurningu varpaði Helgi Haraldsson, prófesssor emeritus í Osló fram í tölvupósti til Molaskrifara og vitnaði til ummæla í Ríkisútvarpinu (23.01.2017) þar sem sagt hefði verið:
Aðalstjarna danska landsliðsins í handbolta, Mikkel Hansen, var myrkur í máli eftir að Danir féllu úr keppni á HM í handbolta í Frakklandi. Væntanlega var átt við að handboltakappinn hefði verið ómyrkur í máli, - hefði sagt skoðun sína umbúðalaust. Að vera myrkur í máli (sem Molaskrifari hefur reyndar ekki heyrt fyrr) þýðir þá væntanlega hið gagnstæða, að vera óskýr, tala þannig að þeim sem á hlýða sem talað er til, er ekki ljóst hvað verið er að segja. Eins og Helgi spyr réttilega. Þakka bréfið, Helgi.
SPJÓTIN
Molavin skrifaði (23.01.2017): - "Beindu spjótum að vegslóðum" skrifar Kolbeinn Tumi Daðason blaðamaður í millifyrirsögn fréttar um leitina að Birnu (Vísir 23.1.16). Samkvæmt fréttatexta er augljóst að átt er við að lögregla hafi beint leit sinni að vegaslóðum; beint sjónum sínum. Að beita spjótum sínum hefur allt aðra og herskárri merkingu. Það verður æ algengara að sjá rangt farið með orðtök í fréttum, trúlega vegna þekkingarleysis blaðamanna. Ef menn þekkja ekki merkingu þeirra er betra að sleppa þeim. Það er satt og rétt. Þakka góða ábendingu, Molavin.
YFIRMAÐUR FORSETAEMBÆTTISINS !
Finnst fréttamönnum Ríkisútvarpsins ekkert athugavert við að tala um tiltekinn embættismann í Hvíta húsinu sem yfirmann forsetaembættisins ? Þetta heyrðu hlustendur í fréttum klukkan sjö að morgni laugardags (21.01.2017). Umræddur embættismaður er yfirmaður starfsliðs Hvíta hússins , ekki yfirmaður embættisins. Hann heitir á ensku chief of staff og er hægri hönd forsetans, ræður til dæmis mestu um það hverjir ná fundi forseta og hvaða mál ná til forsetans. Oft hefur verið að rætt að hann er EKKI starfsmannastjóri Hvíta hússins eins og stundum hefur verið sagt í fréttum. Hann er heldur ekki yfirmaður embættisins. Það virðist erfitt að hafa þetta rétt. Raunar heyrði skrifari þó ekki betur en þessi embættismaður væri réttilega kallaður yfirmaður starfsliðs Hvíta hússins í hádegisfréttum (23.01.2017)
HEIMILISLAUSIR FÁ PELSA
Í tíu fréttum Ríkissjónvarps (23.01.2017) var sagt frá því að Fjölskylduhjálp Íslands ætlaði að gefa fátæku fólki, heimilislausu fólki, á Íslandi pelsa. Pelsarnir verða samkvæmt fréttinni litmerktir svo ekki sé hægt að selja þá. Þannig verða þurfandi, sem þiggja þessar flíkur, sérmerktir eins og fram kom í hádegisfréttum útvarps (24.01.2017)
Í fréttinni á vef Ríkisútvarpsins segir: ,,Dýraverndunarsamtökin PETA hafa gefið Fjölskylduhjálp Íslands 200 pelsa, sem á að úthluta heimilislausum Íslendingum. Þetta er sagt gert svo fólk verði ekki úti í frosthörkum.
Pelsar, loðfeldir, eru auðvitað það sem fátæku fólki á Íslandi kemur best. Liggur það ekki í augum uppi ?
Í fréttinni er einnig sagt að þessi samtök berjist fyrir ,, vernd á dýrum. http://www.ruv.is/frett/peta-gefur-heimilislausum-pelsa
Það hefði verið skynsamlegt hjá fréttastofu Ríkissjónvarps að kanna hverskonar samtök PETA eru. https://en.wikipedia.org/wiki/Eco-terrorism#Groups_accused_of_eco-terrorism
PETA samtökin berjast meðal annars gegn kjötneyslu og fiskneyslu (fiskveiðum) og eru umdeild, að ekki sé meira sagt. Mikinn fróðleik um PETA er að finna á netinu. Samtökin eru sögð hafa þrjú hundruð manns í vinnu.
Sjá: http://www.huffingtonpost.com/nathan-j-winograd/peta-kills-puppies-kittens_b_2979220.html
Margt fleira fróðlegt má lesa um þessi umdeildu samtök með hjálp leitarvéla netsins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2017 | 07:20
Molar um málfar og miðla 2098
HVAÐ ER AÐ?
Hér hefur stundum verið vikið að því hvernig dagskrárkynningar Ríkissjónvarpsins oft eru í skötulíki. Það sannaðist enn einu sinni í gær (22.01.2017). Þá boðaði lögreglan til blaðamannafundar með stuttum fyrirvara. Tilkynnt var í fjögur fréttum útvarps að fundurinn yrði í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu.
Á skjá Ríkissjónvarpsins stóð:
Dagskráin í dag:
16:49 Blaðamannafundur lögreglunnar.
16:50 Menningin 2017
Stöð tvö var byrjuð með beina fréttaútsendingu þeirra Eddu Andrésdóttur og Heimis Más Péturssonar fyrir klukkan 1700. Stöð tvö var komin með mynd frá blaðamannafundi lögreglunnar á undan Ríkissjónvarpinu. Maður fékk þá tilfinningu að beðið væri eftir Ríkissjónvarpinu, því blaðamannafundurinn hófst ekki á réttum tíma. Eftir blaðamannafundinn héldu þau Edda og Heimir Már áfram skamma stund og rýndu aðeins frekar í það sem fram kom á blaðamannafundinum og gerðu það vel. Ríkissjónvarpið fór bara orðalaust beint í eitthvað annað.
Þetta var léleg frammistaða í Efstaleiti. Eiginlega ótrúlega léleg, Hvað er að ?
Báðar stöðvar gerðu málinu góð skil í kvöldfréttum.
HÖFUÐBORÐ
Molavin skrifaði (20.01.2017):,, Í sjónvarpi mátti (20.1.16) sjá auglýsingu þar sem auglýst voru höfuðborð. Enska heitið "headboard" er á íslenzku "rúmgafl" eða "höfðagafl." Hráþýðingar úr ensku færast ört í vöxt og það er ekki aðeins illa máli farið fjölmiðlafólk, sem iðkar þær heldur og ekki síður auglýsingastofur. Hráþýðingar úr ensku og ensk setningaskipan er ein mesta vá, sem að móðurmálinu steðjar um þessar mundir. - Kærar þakkir, Molavin. Þetta er góð ábending. Sumar auglýsingastofur eru stórhættulegar og gera hverja atlöguna að tungunni á fætur annarri, eins og stundum hefur verið nefnt í þessum pistlum. En skylt er að geta þess, að þar eiga ekki allir jafna sök.
UMSTANG MÁLSINS
Eftirfarandi er úr frétt á visir.is (19.01.2017): Skipverjar gera sér vel grein fyrir umstangi málsins. Hér hefur eitthvað skolast til. Sennilega hefur sá sem fréttina skrifaði ætlað að segja að skipverjar gerðu sér grein fyrir umfangi, mikilvægi, málsins, - leitinni að Birnu Brjánsdóttur. Sjá: http://www.visir.is/skipstjori-regina-c-segir-ulfalda-gerdan-ur-myflugu/article/2017170118470
Enginn les yfir.
ÍÞRÓTTAMÁL
Það er kannski sérviska Molaskrifara (eins og svo margt annað!) að honum finnst einkennilegt þegar íþróttafréttamenn Ríkisútvarps tala um heimsmeistara Frakka (20.01.2017). Væri ekki eðlilegra og betra mál að tala um frönsku heimsmeistarana?
ENDURSÝNINGAR Í RÍKISSJÓNVARPI
Ríkisútvarpið er öðru hverju að endursýna efni af ýmsu tagi. Molaskrifari er ekki mikill þáttaraðamaður. En hvernig væri Ríkissjónvarpið endursýndi, - til dæmis síðdegis á virkum dögum - breska myndaflokkinn um Onedin skipafélagið, - (The Onedin Line) . Þetta voru mjög vel gerðir þættir ,sem skrifari er sannfærður um að staðist hafa tímans tönn.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2017 | 07:11
Molar um málfar og miðla 2097
AÐ BLÓTA ÍSLENSKU
Molalesandi skrifaði Molum (19.01.2017): ,,Sæll vertu Molaskrifari.
Fyrir nokkrum dögum sá ég tvær afurðir íslensks kvikmyndaiðnaðar sama daginn: Kvikmyndina Hjartastein og þátt úr Föngum í sjónvarpinu.
Tvennt áttu þessar myndir sameiginlegt:
- Óskýra framsögn sem álykta má að hljóti að vera sérstök námsgrein hjá leiklistarnemum nú um stundir.
- Mikla notkun á einu blótsyrði. Fokk eða fokking var notað í tíma og ótíma. Önnur blótsyrði virðast gleymd. Er ekki tímabært að kenna handritshöfundum að blóta á íslensku?
Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er góð tillaga, sem skrifari styður heilshugar. Hann hefur að mestu gefist upp við að horfa á Fanga. Hljóð (og framsögn) ekki í lagi. Hann mun herða upp hugann til að fara í bíó og sjá Hjartastein. Ærandi auglýsingar (heyrnarskemmandi?) og truflandi söluhlé fæla skrifara frá því að fara í bíó.
Á
Notkun forsetninga í íslensku er stundum bundin föstum málvenjum en stundum nokkuð á reiki. Það er til dæmis allur gangur á því hvort fólk segist ætla í bíó eða á bíó. Þó hið fyrra sé sennilega talsvert algengara.
Nú er eins og forsetningin á sé í nokkurri sókn. Þegar talað er um hafnir eða hafnarsvæði er æ algengara að heyra forsetninguna á notaða. Þannig var í morgunfréttum Ríkisútvarps (19.01.2017) sagt: ,,Gríðarlegur viðbúnaður var á höfninni . Átt var við höfnina í Hafnarfirði. Hér hefði Molaskrifari hiklaust sagt að mikill, , eða gríðarlegur, viðbúnaður hefði verið við höfnina eða á hafnarsvæðinu. Í Reykjavík hefur lengi verið sagt um skip, sem eru, eða liggja við festar, utan við mynni gömlu hafnarinnar í Reykjavík, að skipin séu á ytri höfninni í Reykjavík. Það er annar handleggur.
Í sama fréttatíma og vitnað er til hér að ofan var fjallað um embættistöku nýs forseta í Bandaríkjunum. Þar var talað um að mæta á athöfninni ( eða athöfnina) . Þetta orðalag er Molaskrifara framandi. Eðlilegra þætti honum að tala um að mæta við athöfnina eða vera viðstaddur athöfnina. Í fyrirsögn á mbl.is sama dag var sagt: Skattaundanskot mein á samfélaginu.
HRÓS
Talsmenn lögreglu og Landsbjargar eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðu sína í fjölmiðlum undanfarna daga. Þeir hafa komið fram af festu og ábyrgð og ekki látið aðgangsharða fréttamenn leiða sig í ógöngur. Molaskrifara hefur hinsvegar fundist að stundum hafi fjölmiðlaspyrlar verið að reyna að þjarma að fulltrúum lögreglu og Landsbjargar og verið óþarflega ágengir og dregið viðtöl á langinn eftir að fram var komið það sem máli skipti. En um þetta sýnist sjálfsagt sitt hverjum.
GESTGJAFARUGLIÐ ENN
Íþróttafréttamenn Ríkissjónvarps, sumir hverjir, virðast hvorki skilja né kunna að nota orðið gestgjafi. Þetta hefur oft verið nefnt í Molum. Gestgjafi , segir orðabókin, er sá sem tekur á móti gestum ( á heimili sínu), maður, sem rekur veitingasölu, veitingamaður.
Heimsmeistaramót í handbolta fer nú fram í Frakklandi. Frakkar eru gestgjafar þjóðanna, sem taka þátt í mótinu. Íslendingar eru meðal keppenda. Frakkar eru því gestgjafar Íslendinga.
Í tíu fréttum í Ríkissjónvarpi (18.01.2017) sagði íþróttafréttamaður: ,, . ógnar sterku liði gestgjafa Frakka. Hverjir eru gestgjafar Frakka á HM í Frakklandi? Þetta er vitleysa. Enn einu sinni er mælst til þess að gerðar séu þær kröfur til fréttamanna að þeir þekki og kunni að nota algeng íslensk orð eins og orðið gestgjafi. Geti þeir það ekki, á að finna þeim önnur störf. Þetta er ekki boðlegt. http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/tiufrettir/20170118 (12:45)
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2017 | 12:56
Molar um málfar og miðla 2096
Á TÁNUM
Molavin skrifaði (18.01.2017): ,,Ný mállýska virðist breiðast hratt út með hjálp fjölmiðla og netmiðla. Hún einkennist af samblandi af barnalegu málfari og hráum þýðingum úr ensku. Lítillar mótspyrnu gegn þessu gætir hjá yfirmönnum nefndra miðla. Dæmi um slíkt mátti heyra í Ríkisútvarpinu, Rás 1, í dag 18.01.16, þar sem viðmælandinn, læknir, talaði um mikilvægi þess við greiningu á kvíða að vera á varðbergi. Umsjónarkona þáttarins greip þá fram í fyrir honum og sagði; "sem sagt, að vera á tánum." Rétt eins og hún væri að þýða þetta vandræðalega málfar yfir á nútímalegra mál.
Þetta er góð ábending. Þakka bréfið vin. Molaskrifari hefur lengið látið það fara í taugarnar sér, þegar sífellt er talað um að vera á tánum, - að vera á varðbergi, hafa varann á gagnvart einhverju.
LANDSBJÖRG
Slysavarnafélagið Landsbjörg, landssamtök björgunarsveita og slysavarndeilda á Íslandi , kemur eðlilega mikið við sögu í fréttum þessa dagana. Sjaldan hefur hlutverk sveitanna verið sýnilegra og jafn mikilvægt. Oftar en ekki er nafn félagsins rangt beygt í fréttum , - sérstaklega í ljósvakamiðlum. Í beygingu orðsins Landsbjörg kemur aldrei neitt u við sögu. Þetta er alveg skýrt á vef Árnastofnunar, sem fréttamenn ættu að nota meira.
http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=Landsbj%C3%B6rg
Þar segir um orðið Landsbjörg:
Athugið: Orðið beygist eins og fingurbjörg ekki eins og kvennafnið Ingibjörg.
Það fær ekki endinguna -u í þolfalli og þágufalli.
Landsbjörg, um Landsbjörg frá Landsbjörg til Landsbjargar.
NEITA
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (18.01.2017) klukkan níu var sagt frá ásökunum kvenna gegn Donald Trump verðandi Bandaríkjaforseta um kynferðislega áreitni. Sagt var: Trump þverneitaði fyrir ásakanir kvennanna. Þetta er miður gott orðalag. Betra hefði verið til dæmis: Trump þverneitaði ásökunum kvennanna. Trump þvertók fyrir að ásakanir kvennanna ættu við rök að styðjast. Sem fyrr: Enginn les yfir.
AFTURFÖR
Þegar dagskrá Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (17.01.2017) var breytt með nokkrum fyrirvara, var breytingin aðeins kynnt á skjáskilti, ekki með lesnum texta eins og venjulega. Allar dagskrárkynningar sjónvarpsins eru niðursoðnar, teknar upp löngu fyrir fram og ekki tæknileg geta , eða vilji stjórnenda til staðar til að breyta kynningum um breytta dagskrá. Þetta er óboðlegt. Eins og oft hefur verið nefnt í þessum Molapistlum. Þetta hefði ekki verið óyfirstíganlegt vandamál á upphafsárum sjónvarpsins fyrir meira en 50 árum. Þá hefði þetta verið smámál . En nú er þetta óleysanlegt vandamál! Það er hart að það skuli nú vera Ríkissjónvarpinu ógerlegt, sem var sáraeinfalt fyrir hálfri öld.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2017 | 15:50
Molar um málfar og miðla 2095
MÁLSKOT
Ágæt umfjöllun um málið og málnotkun er á mánudögum í morgunútvarpi Rásar tvö, þegar rætt er við Önnu Sigríði Þráinsdóttur, málfarsráðunaut Ríkisútvarpsins . Í þættinum sl. mánudag (16.01.2016) nefndi hún notkun á orðinu umhleypingur , sem er karlkynsorð, oftast notað í fleirtölu um rysjótt tíðarfar. Fyrr í þættinum hafði umsjónarmaður talað um umhleypingarástandið.
Öllu lakara þótti Molaskrifara að heyra, að svo virðist sem málfarsráðunautur , - og þar með kannski Ríkisútvarpið sé að gefast upp í baráttunni gegn margumtalaðri þágufallssýki, - eða þágufallshneigð, eins og sumir málfræðingar segja. - Nú væru meira að segja ráðherrar, ekki bara þingmenn, farnir að segja mér langar. Stór hluti þjóðarinnar tali svona. Það má segja mér langar.
Nokkur huggun er að málfarsráðunautur sagðist ætla að halda áfram að andæfa gegn þágufallshneigðinni , sem birtist til dæmis í mér langar í Efstaleitinu. Þakkir fyrir það´.
http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/morgunutvarpid/20170116
(1:16:00) Viljum við hafa það þannig, að þegar nógu margir eru farnir að segja sömu vitleysuna þá verði hún rétt og gott mál? Nei, segir Molaskrifari.
VANKUNNÁTTA EÐA HROÐVIRKNI?
Svona hófst frétt á mbl.is (17.01.2017): ,,Grænlenska skipið Polar Nanoq hefur verið snúið við af leið sinni og er nú á leiðinni aftur til Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnarformanni fyrirtækisins Polar Seafood, sem skipið er í eigu, Grænlenska skipið var ekki snúið við. Grænlenska skipinu var snúið við. ,, stjórnarformanni fyrirtækisins, Polar Seafood,, sem skipið er í eigu! Hér hefði einfaldlega átt að segja ,, .. sem á skipið. Fleiri athugasemdir mætti gera við þessa stuttu frétt. Þetta eru ekki góð vinnubrögð. Og sem fyrr: Enginn les yfir. Enginn lagar augljósar villur eða leiðbeinir. Slök frammistaða. Vankunnátta? Já. Hroðvirkni? Já.
EKKI GÓÐ FYRIRSÖGN
Svohljóðandi fyrirsögn er á mbl.is (18.01.2017): Togarinn mun koma að höfn í Hafnarfirði.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/01/18/togarinn_mun_koma_ad_hofn_i_hafnarfirdi/
Við tölum ekki um að skip kom að höfn. Skip koma að landi. Við tölum um að skip komi í höfn eða til hafnar. Hér hefði einfaldlega mátt segja: Togarinn kemur til Hafnarfjarðar. Enginn las yfir.
Þetta var ágætlega orðað á visir.is: Grænlenski togarinn leggst að bryggju í Hafnarfjarðarhöfn. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/01/18/togarinn_mun_koma_ad_hofn_i_hafnarfirdi/
BJÖRGUNARSVEITIRNAR Í FÆREYJUM
Það er fallega hugsað að styrkja björgunarsveitirnar í Færeyjum, sem munu hafa orðið fyrir tjóni um hátíðarnar er búnaður þeirra laskaðist í vondu veðri. Upphaflega var sagt að safna ætti fé til að styðja Færeyinga, en utanríkisráðherra Færeyja Poul Michelsen sagði utanríkisráðherra okkar Lilju D. Alfreðsdóttur að ekki væri þörf á aðstoð stjórnvalda eins og fram kom á fréttavef Ríkisútvarpsins. Haft er eftir aðstandendum söfnunarinnar, að það sé ekki rétt.
Þetta stangast á. Ekki gott þegar fullyrðing stendur gegn fullyrðingu.
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (02.01.2017)
http://www.ruv.is/frett/faereyingar-afthakka-adstod-tjonid-var-tryggt
Mesta tjónið í óveðrinu varð þegar radarhjálmur fauk út í buskann, en það tjón greiða Færeyingar ekki, heldur danska ríkið eða Nató, samkvæmt færeyskum heimildum skrifara.
Molaskrifari er mikill velunnari Færeyinga, en honum sýnist á ýmsu, að hér hafi verið gengið fram af meira kappi en forsjá.
En auðvitað eiga færeyskar björgunarsveitir allt gott skilið.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2017 | 18:46
Molar um málfar og miðla 2094
MEÐ EINN TIL REIÐAR !
Athygli Molaskrifara var vakin á frétt á mbl.is (02.01.2017) um stjórnarmyndunarviðræður. Þar sagði :,, Þetta er einfaldlega liður í þessum stjórnarmyndunarviðræðum, segir Gylfi Ólafsson, aðstoðarmaður Benedikts Jóhannessonar formanns Viðreisnar, í samtali við mbl.is. Það er ekki gert ráð fyrir að þetta verði mjög fjölmennur fundur. Það verða formennirnir með í mesta lagi einn til reiðar. Ja, hérna. Að hafa einn til reiðar þýðir eftir málvitund Molaskrifara (sem er að vísu ekki mikill hestamaður) að ríða einhesta, en að hafa tvo til reiðar er að hafa hest til skiptanna.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/01/02/fyrsti_formlegi_fundurinn/
HÚSNÆÐI
Í fréttum Stöðvar tvö á sunnudagskvöld (15.01.2017) var fjallað um eld sem kviknaði í iðnaðarhúsnæði, sem í óleyfi hafði verið breytt í íbúðarhúsnæði. Ítrekað talaði fréttamaður um húsnæði í fleirtölu.
Orðið húsnæði er eintöluorð. Það er ekki til í fleirtölu. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0i
Það þarf að segja nýliðum til og lesa yfir. Það þarf líka að vera vilji til að vanda sig, gera vel.
SÓKN ENSKUNNAR
Móðurmálið á í vök að verjast gegn ásókn enskunnar. Þetta er
öllum ljóst og hefur oft borið á góma í þessum Molapistlum.
Vefmiðill Morgunblaðsins mbl.is lætur ekki sitt eftir liggja í þessum efnum. Þetta er fyrirsögn af mbl.is (14.01.2017): Svala Björgvins: ,,Með attitude og swag. Hversvegna í ósköpunum var verið þvæla íslensku orðunum með og og inn í þetta? Þarna var verið að fjalla um þátt í Sjónvarpi Símans sem kallaður er ónefninu The Voice Ísland. Síminn lætur heldur ekki sitt eftir liggja í baráttunni gegn íslenskri tungu.
http://www.mbl.is/folk/thevoice/2017/01/14/svala_bjorgvins_med_attitude_og_swag/
,,UNNIÐ Í SAMSTARFI VIÐ
Fréttatímanum sl. föstudag (14.01.2017) fylgdi 20 síðna blaðauki ,,Samfélagsábyrgð fyrirtækja. Þar er að finna greinar um fjölmörg fyrirtæki. Við greinarnar stendur svo dæmi séu tekin: Unnið í samstarfi við Eimskip, Unnið í samstarfi við HS Orku, Unnið í samstarfi við Nóa Síríus. Bara fá dæmi. Þetta þýðir í reynd að ekki er fjallað um fyrirtækin með gagnrýnum hætti, allt er jákvætt og gott. Í blaðamennskunni í gamla daga kölluðu blaðamenn svona skrif tekstreklame, upp á skandinavísku, texta auglýsingar og eiga lítið skylt við alvöru blaðamennsku.
Það er auðvitað algjör tilviljun að á síðunni á móti heilsíðugrein um Nóa Síríus er heilsíðuauglýsing frá Nóa Síríusi (bls. 8 og 9) . Algjör tilviljun. Ekki er víst að allir lesendur átti sig á því að orðin unnið í samstarfi við þýða í rauninni auglýsing frá Það ætti að segja það berum orðum.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)