Molar um málfar og miðla 2099

ÓSKÝR?

 Þessari spurningu varpaði Helgi Haraldsson, prófesssor emeritus í Osló fram í tölvupósti til Molaskrifara og vitnaði til ummæla í Ríkisútvarpinu (23.01.2017) þar sem sagt hefði verið:

Aðalstjarna danska landsliðsins í handbolta, Mikkel Hansen, var myrkur í máli eftir að Danir féllu úr keppni á HM í handbolta í Frakklandi. – Væntanlega var átt við að handboltakappinn hefði verið ómyrkur í máli, - hefði sagt skoðun sína umbúðalaust. Að vera myrkur í máli (sem Molaskrifari hefur reyndar ekki heyrt fyrr) þýðir þá væntanlega hið gagnstæða, að vera óskýr, tala þannig að þeim sem á hlýða sem talað er til, er ekki ljóst hvað verið er að segja. Eins og Helgi spyr réttilega. Þakka bréfið, Helgi.

 

SPJÓTIN

Molavin skrifaði (23.01.2017): - "Beindu spjótum að vegslóðum" skrifar Kolbeinn Tumi Daðason blaðamaður í millifyrirsögn fréttar um leitina að Birnu (Vísir 23.1.16). Samkvæmt fréttatexta er augljóst að átt er við að lögregla hafi beint leit sinni að vegaslóðum; beint sjónum sínum. Að beita spjótum sínum hefur allt aðra og herskárri merkingu. Það verður æ algengara að sjá rangt farið með orðtök í fréttum, trúlega vegna þekkingarleysis blaðamanna. Ef menn þekkja ekki merkingu þeirra er betra að sleppa þeim. – Það er satt og rétt. Þakka góða ábendingu, Molavin.

 

YFIRMAÐUR FORSETAEMBÆTTISINS !

Finnst fréttamönnum Ríkisútvarpsins ekkert athugavert við að tala um tiltekinn embættismann í Hvíta húsinu sem yfirmann forsetaembættisins ? Þetta heyrðu hlustendur í fréttum klukkan sjö að morgni laugardags (21.01.2017). Umræddur embættismaður er yfirmaður starfsliðs Hvíta hússins , ekki yfirmaður embættisins. Hann heitir á ensku chief of staff og er hægri hönd forsetans, ræður til dæmis mestu um það hverjir ná fundi forseta og hvaða mál ná til forsetans. Oft hefur verið að rætt að hann er EKKI starfsmannastjóri Hvíta hússins eins og stundum hefur verið sagt í fréttum. Hann er heldur ekki yfirmaður embættisins. Það virðist erfitt að hafa þetta rétt. Raunar heyrði skrifari þó ekki betur en þessi embættismaður væri réttilega kallaður yfirmaður starfsliðs Hvíta hússins í hádegisfréttum  (23.01.2017)

 

HEIMILISLAUSIR FÁ PELSA

Í tíu fréttum Ríkissjónvarps (23.01.2017) var sagt frá því að Fjölskylduhjálp Íslands ætlaði að gefa fátæku fólki, heimilislausu fólki, á Íslandi pelsa.  Pelsarnir verða samkvæmt fréttinni litmerktir svo ekki sé hægt að selja þá. Þannig verða þurfandi,  sem þiggja þessar flíkur, sérmerktir eins og fram kom í hádegisfréttum útvarps (24.01.2017)

Í fréttinni á vef Ríkisútvarpsins segir: ,,Dýraverndunarsamtökin PETA hafa gefið Fjölskylduhjálp Íslands 200 pelsa, sem á að úthluta heimilislausum Íslendingum“. Þetta er sagt gert svo fólk verði ekki úti í frosthörkum.

Pelsar, loðfeldir, eru auðvitað það sem fátæku fólki á Íslandi kemur best.  Liggur það ekki í augum uppi ?

 Í fréttinni er einnig sagt að þessi samtök berjist fyrir ,, vernd á dýrum“. http://www.ruv.is/frett/peta-gefur-heimilislausum-pelsa

 Það hefði verið skynsamlegt hjá fréttastofu Ríkissjónvarps að kanna hverskonar samtök PETA eru. https://en.wikipedia.org/wiki/Eco-terrorism#Groups_accused_of_eco-terrorism

PETA samtökin berjast meðal annars gegn kjötneyslu og fiskneyslu (fiskveiðum) og eru umdeild, að ekki sé meira sagt. Mikinn fróðleik um PETA er að finna á netinu. Samtökin eru sögð hafa þrjú hundruð manns í vinnu.

Sjá: http://www.huffingtonpost.com/nathan-j-winograd/peta-kills-puppies-kittens_b_2979220.html

Margt fleira fróðlegt má lesa um þessi umdeildu samtök með hjálp leitarvéla netsins.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband