Molar um málfar og miðla 2102

SLÖK VINNUBRÖGÐ

 Molavin skrifaði (26.01.2017):,, Frétt um nokkuð öflugan jarðskjálfta í Kötluöskjunni var eðlilega fyrsta frétt í síðdegisfréttum Ríkisútvarpsins (26.1.16) og svo var sagt: "við heyrum í honum Gunnari á skjálftavaktinni..." Ekkert föðurnafn eða nánari starfslýsing. Rétt eins og frétt í Kardimommubænum; "Við heyrum í honum Tóbíasi í turninum." Svo lauk viðtalinu með þessum orðum: "Þakka þér fyrir, Gunnar."

Það er augljóst að ráðið er til fréttaskrifa ungt fólk, sem kann ekkert til fréttamennsku. Yfirmenn virðast ekki hafa nokkuð eftirlit og fréttastofan fær á sig í vaxandi mæli yfirbragð barnatíma.“ Því miður er mikið til  í þessu, Molavin. Vissulega er fagfólk á fréttastofunni, en viðvaningum virðist lítið eða  ekki leiðbeint. Verkstjórn í molum.

 

LAFATREYJA – SJAKKET

Í Morgunblaðinu (225.01.2017) eru rifjaðar upp fyrri heimsóknir íslenskra forseta til Danmerkur.  Þar segir frá heimsókn forsetahjónanna Kristjáns og Halldóru Eldjárn í september 1970. Þar segir: ,, … í umfjöllun Morgunblaðsins er þess getið að forsetinn hafi verið í röndóttum buxum og dökkum jakka“. Þetta finnst sjálfsagt einhverjum skrítið nú um stundir. Forsetinn hefur að líkindum klæðst sjakket, lafatreyju, sem orðabókin lýsir svo: ,,Síður, grár eða svartur herrajakki með stéli, notaður við gráröndóttar buxur við hátíðleg tækifæri, þó ekki að kvöldi, sjakket“. Enda stundum nefnt morning dress á ensku. Skrifari fjárfesti í samræmi við siðareglur í slíkum klæðnaði haustið 1993, er hann afhenti  Haraldi Noregskonungi trúnaðarbréf sem sendiherra Íslands í því góða landi. Hefur sá búningur hangið óáreittur á herðatré síðan.

Það gladdi svolítið gamalt blaðamannshjarta að sjá, að fréttamaður Ríkissjónvarps við höllina í Kaupmannahöfn var klæddur við hæfi tilefnisins á fyrsta degi heimsóknar Guðna Th. Jóhannessonar forseta og Elizu konu hans til Danmerkur á þriðjudag (24.01.2017). Það er kurteisi og að sýna  starfi sínu virðingu. Segi ekkert um aðra.

 Íslendingar geta verið stoltir af framgöngu forsetahjónanna í þessari heimsókn. Landi og þjóð til sóma.

 

 

INNVIÐIR STJÓRNKERFISINS

Molalesandi hafði samband og sagði:,, Heyrði í sjónvarpinu að fjármálaráðherra nefndi inniviði stjórnkerfisins og taldi þá ráða við ákveðið verkefni. Getur þú skilgreint þessa innviði stjórnkerfisins fyrir mig? Ég átta mig ekki alveg á þessu“. Molaskrifari treystir sér ekki til að skilgreina þetta, en heldur að innviðir stjórnkerfisins séu barasta stjórnkerfið. Eða hvað?

 

 HANDRIT OG ÞOLMYND

  Þorvaldur skrifaði Molum (25.01.2017):,, Sæll Eiður.

Enn vefjast þolmynd- germynd fyrir blaðamönnum. Í dag segir í vefmogga: "Guðna voru sýnd vel valin handrit af starfsmönnum Árnasafns". Sjálfsagt hefði verið merkilegt að sjá uppdrátt af slíkum mönnum en auðvitað sýndu starfsmenn safnsins Guðna handrit þótt óhönduglega sé sagt frá.“

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2017/01/25/hofdingslund_dana_ekki_sjalfgefin/

Þakka bréfið, Þorvaldur. Eins og hér er oft sagt: Germynd er alltaf betri.

FORMENNSKUR!

Flest orð er nú farið að nota í fleirtölu.,, En við vorum alveg tilbúin til að semja um þetta. Og hefðum sætt okkur við þrjár formennskur.Þetta var haft eftir formanni þingflokks Samfylkingarinnar á fréttavef Ríkisútvarpsins (25.01.2017). Orðið formennska er ekki til í fleirtölu. Stjórnarandstaðan hefði sætt sig við að fá formennsku eða að fá formenn í þremur nefndum.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband