Molar um málfar og miðla 2097

AÐ BLÓTA ÍSLENSKU

Molalesandi skrifaði Molum (19.01.2017): ,,Sæll vertu Molaskrifari.

Fyrir nokkrum dögum sá ég tvær afurðir íslensks kvikmyndaiðnaðar sama daginn: Kvikmyndina Hjartastein og þátt úr Föngum í sjónvarpinu.

Tvennt áttu þessar myndir sameiginlegt: 

  1. Óskýra framsögn sem álykta má að hljóti að vera sérstök námsgrein hjá leiklistarnemum nú um stundir.
  2. Mikla notkun á einu blótsyrði. Fokk eða fokking var notað í tíma og ótíma. Önnur blótsyrði virðast gleymd. Er ekki tímabært að kenna handritshöfundum að blóta á íslensku?“

Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er góð tillaga, sem skrifari styður heilshugar. Hann hefur að mestu gefist upp við að horfa á Fanga. Hljóð (og framsögn) ekki í lagi. Hann mun herða upp hugann til að fara í bíó og sjá Hjartastein. Ærandi auglýsingar (heyrnarskemmandi?) og truflandi söluhlé fæla skrifara frá því að fara í bíó.

 

Á

Notkun forsetninga í íslensku er stundum bundin föstum málvenjum en stundum nokkuð á reiki. Það er til dæmis allur gangur á því hvort fólk segist ætla í bíó eða á bíó. Þó hið fyrra sé sennilega talsvert algengara.

 Nú er eins og forsetningin á sé í nokkurri sókn. Þegar talað er um hafnir eða hafnarsvæði er æ algengara að heyra forsetninguna á notaða. Þannig var í morgunfréttum Ríkisútvarps (19.01.2017) sagt: ,,Gríðarlegur viðbúnaður var á höfninni  …“ . Átt var við höfnina í Hafnarfirði. Hér hefði Molaskrifari hiklaust sagt að mikill, , eða gríðarlegur, viðbúnaður hefði verið við höfnina eða á hafnarsvæðinu. Í Reykjavík hefur lengi verið sagt um skip, sem eru, eða liggja við festar, utan við mynni gömlu hafnarinnar í Reykjavík, að skipin séu á ytri höfninni í Reykjavík. Það er annar handleggur.

Í sama fréttatíma og vitnað er til hér að ofan var fjallað um embættistöku nýs forseta í Bandaríkjunum. Þar var talað um að mæta á athöfninni ( eða athöfnina) . Þetta orðalag er Molaskrifara framandi. Eðlilegra þætti honum að tala um að mæta við athöfnina eða vera viðstaddur athöfnina. Í fyrirsögn á mbl.is sama dag var sagt: Skattaundanskot mein á samfélaginu.

HRÓS

Talsmenn lögreglu og Landsbjargar eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðu sína í fjölmiðlum undanfarna daga. Þeir hafa komið fram af festu og ábyrgð og ekki látið aðgangsharða fréttamenn leiða sig í ógöngur. Molaskrifara hefur hinsvegar fundist að stundum hafi fjölmiðlaspyrlar verið að reyna að þjarma að fulltrúum lögreglu og Landsbjargar og verið óþarflega ágengir og dregið viðtöl á langinn eftir að fram var komið það sem máli skipti. En um þetta sýnist sjálfsagt sitt hverjum.

 

GESTGJAFARUGLIÐ ENN

Íþróttafréttamenn Ríkissjónvarps, sumir hverjir, virðast hvorki skilja né kunna að nota orðið gestgjafi. Þetta hefur oft verið nefnt í Molum. Gestgjafi , segir orðabókin, er sá sem tekur á móti gestum ( á heimili sínu), maður, sem rekur veitingasölu, veitingamaður.

Heimsmeistaramót í handbolta fer nú fram í Frakklandi. Frakkar eru gestgjafar þjóðanna, sem taka þátt í mótinu. Íslendingar eru meðal keppenda. Frakkar eru því gestgjafar Íslendinga.

Í tíu fréttum í Ríkissjónvarpi (18.01.2017) sagði íþróttafréttamaður: ,, …. ógnar sterku liði gestgjafa Frakka“. Hverjir eru gestgjafar Frakka á HM í Frakklandi? Þetta er vitleysa. Enn einu sinni er mælst til þess að gerðar séu þær kröfur til fréttamanna að þeir þekki og kunni að nota algeng íslensk orð eins og orðið gestgjafi. Geti þeir það ekki, á að finna þeim önnur störf. Þetta er ekki boðlegt. http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/tiufrettir/20170118 (12:45)

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband