Molar um málfar og miðla 2103

 

ÓÞAKKLÆTI

Ólafur Kristjánsson skrifaði Molum (26.01.2017) : ,,Á mbl.is 26/7 er sagt að Chelsea Manning sé óþakklát (e. ungrateful).Nafnorðið er þá væntanlega óþakklæti. Getur verið að þýðandi þekki ekki orðið vanþakklát?“. Er það ekki augljóst, Ólafur? Þakka bréfið. Í gamla daga hefði orðið uppi fótur og fit á næsta ritstjórnarfundi hjá Mogga, ef svona texti hefði birst í blaðinu. Nú láta menn þetta líklega sem vind um eyru þjóta. Nýir siðir með nýjum herrum eru ekki alltaf góðs

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2017/01/26/trump_kallar_manning_svikara/

 

BARNAMÁL

Í morgunþætti Rásar tvö (27.01.2017) var rætt við tvo blaðamenn um fréttir vikunnar. Að sjálfsögðu var rætt um morðið á Birnu Brjánsdóttur, þann hörmulega atburð, sem hefur snortið okkur öll. Tvisvar sinnum, að minnsta kosti , sagði annar blaðamaðurinn: Hvað gerðist fyrir Birnu…?Þetta er barnamál, sem hvorki á heima í fréttum eða í viðræðuþáttum. Það vita þokkalega skrifandi og talandi blaðamenn.

 

LÖGGJAFIR

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan tvö aðfaranótt föstudags (27.01.2016) var sagt um varaforseta Bandaríkjanna, að hann hefði sem ríkisstjóri Indiana ,,skrifað undir nokkrar hörðustu löggjafir gegn fóstureyðingum sem fyrirfinnast í Bandaríkjunum.“ Það ætti ekki að þurfa að taka það fram að orðið löggjöf er ekki til í fleirtölu. http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=L%C3%B6ggj%C3%B6f

Hér er fréttin af vef Ríkisútvarpsins: http://www.ruv.is/frett/pence-a-samkomu-andstaedinga-fostureydinga

 

Einhverskonar smitandi fleirtöluvæðing  virðist um þessar mundir

vera á ferðinni, sbr. nefndaformennskur sem nefndar voru í Molum í lok síðustu viku.

 

 

 

MÁLALOK

Í síðdegisfréttum Ríkisútvarps (26.01.2017) var sagt um málaferli Ólafs Ólafssonar Samskipaforstjóra: Ólafur sættist ekki við þau málslok. Hér hefði betur verið sagt, til dæmis: Ólafur var ekki sáttur við þau málalok.

Enginn les yfir.

 

NÖFN

Í útvarpsfréttum (29.01.2017) var dr. Halldór Þorgeirsson yfirmaður hjá loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna ýmist kallaður Halldór eða Haraldur. Þegar farið er rangt með nöfn í fréttum á að leiðrétta það.

 Það var ekki gert í útvarpsfréttum. Dr. Halldór er sennilega sá embættismaður íslenskur, sem mestan frama hefur hlotið hjá Sameinuðu þjóðunum og er það mjög að verðleikum. Hann er vísindamaður í fremstu röð.

 

UPP …UPP

Úr Fréttablaðinu (26.01.2017): ,,Uppbygging 360 íbúða hverfis á svokölluðum RÚV-reitvið Efstaleiti í Reykjavík er hafin“ … Og : ,,Tvær nýjar götur verða byggðar upp og hljóta þær heitin Lágaleiti og Jaðarleiti“. Það er verið að reisa nýttíbúðahverfi og þar verða tvær nýjar götur.

 

TIL LESENDA

Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband