23.1.2014 | 09:54
Molar um málfar og miðla 1394
Þorvaldur G. skrifaði eftirfarandi við Molana á blog.is (21.04.2014): ,,Sæll Eiður og þakkir fyrir gullmolana
Í gær var minnst á fyrirbærið Justin Bieber hér á vefsíu Mogga. Þar stóð: Hann innbirgði (tiltekið magn) af hóstasaft. Gott væri ef skrifarar kynntu sér stafsetningu. Rétt er það, Þorvaldur. Kærarþakkir.
Það verður engu til sparað var sagt í fréttum Ríkissjónvarpsins (21.01.2014) um kostnað við vetrarólympíuleikana í Rússlandi. Endalaust rugla menn saman: Ekkert til sparað og engu til kostað. Einfalt mál, - ef menn kunna það.
Árangur íslenskra nemenda fari hrakandi var sagt í fréttum Stöðvar tvö (21.01.2014). Árangri íslenskra fari hrakanandi hefði verið betra. Einhverju fer hrakandi.
Rafn skrifaði (21.10.2014): ,,Sæll Eiður
Bæði í þínum pistlum og víðar hefir verið fjallað um heimskuleg og óheppileg ummæli forstöðumanns EM-stofu ríkissjónvarpsins. Hins vegar hafa litlar athugasemdir komið fram um til hvers hann var að vísa. Eftir því, sem ég tel mig hafa lesið, því þetta gerðist áður en ég fæddist, þá var innlimun Austurríkis í Stórþýzka ríkið, der Anscluß, án blóðsúthellinga eða slátrunar. Innlimunin var gerð samkvæmt austurrískum lögum (þó settum af stjórninni án aðkomu þingsins) um endursameiningu Austurríkis við Hið þýzka ríki.
Þótt líklegt sé, að einhverjir hafi verið teknir af lífi eftir endursameininguna, þá var aðgerðin sjálf án slátrunar og afar hæpið að nota það orðalag um aðgerðina. Þakka bréfið, Rafn.
Alls 31 fyrrverandi yfirmenn í Bandaríska hernum hafa skorað á Barack Obama ... Þannig hófst frétt í morgun fréttum Ríkisútvarps (22.01.2014- tekið af vef Ríkisútvarpsins) . Molaskrifari hefði byrjað fréttina svona: Alls hefur þrjátíu og einn yfirmaður í bandaríska hernum... Lítið b er í bandarískur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2014 | 08:52
Molar um málfar og miðla 1393
Þarna hefur einhver flýtt sér of mikið. Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið.
Úr frétt Ríkisútvarpsins (20.01.2014) um nasistamálið: ,,Einar segir að þeir hjá HSÍ vilji heyra hvernig Austurríkismönnum líði með þetta og það verði síðan séð til eftir fundinn hvernig þetta mál verði matreitt. Nýr matreiðsluþáttur í uppsiglingu í sjónvarpinu? Ja, hérna, - hvílík snilld. . http://www.ruv.is/frett/atlar-ad-hitta-austurrikismenn-i-dag
Enskuslettur útvarpsmannsins Andra Freys Viðarssonar í Virkum morgnum á Rás tvö í Ríkisútvarpinu eru ef til vill til marks um það að hann er ekki nægilega vel að sér í íslensku. Eða vilji sanna fyrir hlustendum að hann kunni hrafl í ensku. Enskuslettur eiga ekki heima í töluðu máli í Ríkisútvarpinu.
Gunnar skrifaði (20.01.2014):
að greina hvert og eitt skilaboð
var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins 17. janúar sl. Skilaboð er fleirtöluorð og því ekki hægt að segja svona.
Á dv.is er frétt um tvo menn sem fóru í kappakstur, en þar segir: Þeim er einnig gert að greiða allan málskostnað, hver um sig 627 þúsund krónur. En þar sem þeir voru tveir, ætti að standa hvor um sig. Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið.
Fréttamönnum ljósvakamiðlanna virðist fyrirmunað að bera rétt fram heiti norska smábæjarins Lærdal, þar sem eldsvoðinn mikli varð. Undarlegt að reyna ekki einu sinni að hafa þetta rétt.
Í tíufréttum Ríkissjónvarps (20.01.2014) var sagt frá verðlaunum sem sænsk kvikmynd hefur hlotið. Fréttaþulur sagði að myndin hefði verið tilnefnd til ellefu verðlauna en hlotið fjögur. Myndin hlaut fern verðlaun, ekki fjögur verðlaun. Svo því sé til haga haldið, þá var þetta leiðrétt í hádegisfréttum og talað um fern verðlaun. Gott.
Í frétt um megrunartískubólur á Stöð tvö (20.01.2014) talaði Þórhildur Þorkelsdóttir fréttamaður um megrunartrend. Það er ekki íslenska.
Það er mikið tilhlökkunarefni að fá trompetleikarann Wynton Marsalis í Hörpu í sumar. Hann hefur gert marga góða sjónvarpsþætti. Hvað skyldi Ríkissjónvarpið okkar hafa sýnt marga af þáttunum hans?
Nýr veðurfræðingur var á skjá Ríkissjónvarpsins í kvöld (21.01.2014), Guðrún Nína Petersen. Hún var eins og hún hefði aldrei gert annað en segja okkur veðurfréttir.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.1.2014 | 10:24
Molar um málfar og miðla 1392
Svo heillum horfin virðist íslenska þjóðin vera - og stjórnendur Ríkisútvarpsins - að það þyki barasta allt í lagi að opinber starfsmaður láti slík orð falla í ríkisútvarpi Nóg sé að segja:,, Fyrirgefðu, góurinn, þetta var bara sagt í hita leiksins".
Hvers er þá að vænta, ef svo skyldi fara að íslenska landsliðið bæri sigurorð af því spænska? Mun þá starfsmaður Ríkisútvarpsins líkja því afreki við þegar Íslendingar undir forystu Ara frá Ögri slátruðu óvopnuðum og hröktum spænskum fiskiönnunum í fjörðum vestur? Gera hvorki umræddur fréttamaður, stjórnendur Ríkisútvarpsins né þorri íslensku þjóðarinnar sér grein fyrir því, að þessi ,,uppákoma" var og er þjóð okkar til háborinnar skammar og enn fremur til skammar að sami einstaklingur skuli halda áfram þáttastjórnun sinni á sama vettvangi. Það hlýtur að þýða að ef þessi opinberi starfsmaður hefði látið sér það um munn fara áður en hann var ráðinn til starfa að íslenska landsliðið myndi slátra því austurríska líkt og nasistar slátruðu Austurríkismönnum þá hefði hann engu að síður verið ráðinn til starfsins? Ummælin eru ekki talin valda því að honum sé ekki lengur sætt í starfi. Þá hefðu þau ekki heldur valdið því að honum hefði ekki verið treyst til starfsins af ráðamönnum Ríkisútvarpsins ef hann hefði látið sér þau um munn fara áður en hann var ráðinn til starfans.
Gerir fólk sér virkilega ekki grein fyrir þeim skammarbletti, sem þessi ummæli hafa sett á íslensku þjóðina, íslenska ríkisútvarpið - og íslenska íþróttafréttamenn? Að ,,sigra keppni" er hjóm eitt samanborið við það að sigra í keppni - svona. Molaskrifari þakkar bréfið.
Úr frétt Ríkisútvarpsins (19.01.2014) um eldsvoðann í Lærdal í Noregi: ... því hvort tveggja hiti og rafmagn eru úti vegna eldsvoðans. Ekki verður sagt að þetta sé vel orðað. Þarna var sem sagt rafmagnslaust og enginn hiti í húsum.
http://www.ruv.is/frett/snua-heim-i-kold-hus-og-rafmagnslaus
Í fréttum Ríkisútvarps og í fleiri fjölmiðlum, reyndar (20.01.2014) var sagt frá innbroti. Tekið var þannig til orða að þjófurinn hefði farið í gegnum svalahurð. Af mbl.is (20.01.2014) : Þá var farið inn um svalahurð í öðru íbúðarhúsnæði og þaðan stolið Dell fartölvu og síma. Hann hefur væntanlega verið illa útleikinn eftir að hafa farið í gegnum hurðina, eða inn um hurðina! Hurð er nefnilega flekinn sem lokar dyraopi. Þjófurinn fór inn um svaladyr. Þetta hefur verið nefnt í Molum áður. Orðalagið er sennilega ættað úr dagbók lögreglunnar og svo étur hver fjölmiðillinn á fætur öðrum það upp, - athugasemdalaust.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.1.2014 | 10:47
Molar um málfar og miðla 1391
Úr frétt um villikött á mbl.is (18.01.2014): Eyrun á honum bera merki þess að vera frostbitin auk þess sem hann er með eyrnarmaur og mikil óhreinindi í eyrum. Það sem á ensku er kallað frostbite heitir kal á íslensku. Kötturinn var kalinn á eyrum. Svo er ekkert til sem eyrnarmaur, eins og talað um í fréttinni. Réttara væri að tala um eyrnamaur.
Í fréttum Stöðvar tvö (17.01.2014) var sagt: ...var háttaður upp í rúm af móður sinni. Leiðinleg þolmyndarnotkun. Germynd alltaf betri. Móðir hans hafði háttað hann upp í rúm.
Þetta er ekki að fara koma fyrir aftur. .. Þetta var haft eftir ungri telpu á visir.is (18.01.2014). sennilega er þetta algengur talsmáti hjá ungu fólki nú um stundir.
Í íþróttafréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (18.01.2014) var sagt að lið hefði spilað mjög vel, eða frábærlega, varnarlega. Orðskrípin sóknarlega og varnarlega virðast orðin föst í máli íþróttafréttamanna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.1.2014 | 09:51
Molar um málfar og miðla 1390
Ólafur Þórir skrifar (16.0001.2014): http://www.visir.is/telur-ad-fleiri-hafi-misnotad-modur-sina/article/2014140119069
Mér finnst þetta frekar fáránlegt. "Telur að móðir sín hafi verið misnotuð af fleiri mönnum" held ég að sé betra. Hvað finnst þér? Molaskrifari er Ólafi Þóri sammála.
Molalesandi skrifar um tvöfalda neitun (16.01.2014): ,,Sæll Eiður.
Öðru hvoru rekst ég á texta sem fer í taugarnar á mér. Áhrifin eru svipuð og þegar klórað er í krítartöflu.
Eitt a mínum ,,uppáhalds-pirringsefnum" er tvöföld neitun þegar notuð er sögnin að sakna. Eins og í grein Týs á vef viðskiptablaðsins. http://www.vb.is/skodun/100697/
"Týr saknar þess að Helgi Magnússon útskýri ekki betur afstöðu sína til Icesave í bók sinni."
Ég hef nú svona vanist því að þegar maður segist sakna einhvers, þá er það eitthvað sem var og er ekki lengur. Maður saknar kattarins Mosa, sem er dáinn, eða maður kynni að sakna þess að hafa ekkert sjónvarp á fimmtudögum.
Þá myndi ég skilja það á fyrirsögn Týs að hann líti til þess tíma með söknuði þegar Helgi Magnússon útskýri illa afstöðu sína til Icesave í bók sinni. Og þá er spurningin hvort til var önnur bók eftir Helga, þar sem afstaðan er illa útskýrð og sú bók sé þá kannski betri.
Og í þriðju málsgrein kemur þetta aftur: "Týr saknar þess að meðal ... skýringa í bókinni sé þetta atriði ekki útskýrt betur."
Á Týr þá við að betra hefði verið að skýra alls ekkert út um téð atriði?
Skrýtinn fýr, Týr. Molaskrifari þakkar bréfið..
Þórhallur skrifaði (17.01.2014): ,,Ég tek undir eftirfarandi í Molum dagsins: "Mikill fjöldi pappírs , sagði Jóhann Hlíðar Harðarson í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (15.01.2014): ,, Það gefur því auga leið að mikill fjöldi pappírs fer til spillis í þessu ferli.,, Mikið magn pappírs, hefði hann fremur átt að segja."
Hins vegar vil ég bæta enn um betur og leggja til: ,,.... mikill pappír ...." eða ,, ... mikið af pappír ..." Réttmæt ábending. Molaskrifari þakkar bréfið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.1.2014 | 08:52
Molar um málfar og miðla 1389
Er ekki hægt að takmarka endalaust og innihaldslaust fjas um handbolta við íþróttarás Ríkissjónvarpsins. Hvers eiga allir þeir að gjalda sem engan áhuga hafa á þessu rausi sjálfskipaðra sérfræðinga?
Það er lofsvert þegar í veðurfréttum Ríkissjónvarps er sagt frá veðri og hitafari í fjarlægum heimshlutum - Ástralíu á miðvikudagskvöldið (15.01.2014), en enn er spurt: Hversvegna er ekki hægt að birta borgaheiti þaðan sem hitatölur eru sýndar eins og gert er í veðurfréttum Stöðvar tvö?
Magnús skrifaði (15.01.2014): ,,Mbl.is og dv.is bjuggu til sögnina að hópnauðga í dag: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/01/15/danskri_konu_hopnaudgad/
Ég sendi þeim mbl.is eftirfarandi athugasemd en það hafði engin áhrif:
"Sögnin að hópnauðga er ekki til, ekki frekar en að hóphlaupa, að hópavinna, að hópsyngja eða að hópkaupa. Ef ég fæ hóp af fólki í heimsókn er ég þá hópheimsóttur?". Molaskrifari þakkar Magnúsi sendinguna og réttmæta athugasemd.
Haukur Örvar Weihe skrifaði (16.01.2014): ,,Sæll Eiður og þakka þér fyrir pistlana þína.
Í mörg ár hefur heyrst auglýsing frá Lyfjum og heilsu á Bylgjunni.
Þar er lesið upp: ,,Vöknum með Lyf og heilsu á morgnana, í stað þess að segja vöknum með Lyfjum og heilsu.....
Ég hafði samband við starfsmann á Bylgjunni sem hafði með auglýsingalestur að gera og sagði hann að það hljómaði svo asnalega að segja ,,vöknum með Lyfjum og heilsu" . Molaskrifari þakkar Hauki bréfið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.1.2014 | 09:58
Molar um málfar og miðla 1388
Rafn benti á eftirfarandi frétt á mbl.is (15.01.2014) : http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/01/14/vilja_ibudir_i_othokk_meirihlutans/ Fyrirsögnin er: ,, Vilja kaupa íbúðir í óþökk meirihlutans. Rafn segir: ,,Ég á bágt með að skilja hugsun í þessari frétt. Þegar meira en helmingur hóps greiðir atkvæði á sama veg, þá hélt ég í einfeldni minni, að það væri meirihluti hópsins. " Það er að sjálfsögðu rétt. Þakka bréfið.
,,... hlægilegt að fólk skuli hafa dottið þetta í hug. Svona tók Freyr Gígja Gunnarsson til orða í kvöldfréttum Ríkisútvarps (15.01.2014). Slæm villa. Fólk dettur ekki í hug. Fólki dettur í hug.
Leiðari Morgunblaðsins í dag, fimmtudag (16.01.2014) ber fyrirsögnina: Alltaf sami söngurinn. Rétt er að taka fram að þar er verið að skrifa um einn anga hins sjúklega haturs Morgunblaðsins á samstarfi Evrópuþjóða innan ESB, - hatur sem blaðið ber á borð fyrir lesendur sína á hverjum einasta degi. Þar er alltaf sami söngurinn.
Fyrirsögn í Morgunblaðinu (16.01.2015): Flogið á stærstu verslunarmiðstöð í Norður - Ameríku. Áréttað skal að fréttin er ekki um flugslys. Heldur er í fréttinni greint frá því að Icelandair ætli að hefja áætlunarflug til Edmonton í Kanada, en þar er að finna eina stærstu verslanamiðstöð, eða Kringlu, í Norður Ameríku.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2014 | 09:17
Molar um málfar og miðla 1387
Það er allt gott og blessað, en er ekki nóg að konan fái eitt sæti á listanum? Er nokkur þörf á að sama manneskjan fái þrjú til fjögur sæti þar?
Eða eru raðtölur að hverfa úr skrifuðu máli í dag? - Molaskrifari þakkar bréfið. Raðtölur í rituðu máli eru sennilega á undanhaldi, - því miður.
Dyggur lesandi Molanna, fyrrverandi blaðamaður, sendi eftirfarandi (13.01.2014): ,,Rétt í þessu sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins, Benedikt Grétarsson, að þjálfari norska handknattleiksliðsins væri geðþekkur. Hvaða erindi á persónuleg skoðun fréttamanns á manninum í fréttir? Molaskrifari þakkar bréfið. Okkur hlustendum kemur þetta að sjálfsögðu ekkert við. Fréttamaðurinn á að halda sínum skoðunum frá fréttum, - hafa þær fyrir sig.
Dálítið undarlegt orðalag í frétt á mbl.is (13.01.2014): ,, Mastrið er það hæsta af sinni tegund í Evrópu, eða 412 metra hátt, og er rekið af Ríkisútvarpinu. Einkennilegt að tala um að reka mastur. Kannski hefði verið eðlilegra að segja að Ríkisútvarpið bæri ábyrgð á mastrinu, eða að mastrið væri í umsjá Ríkisútvarpsins. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/01/13/412_metra_hatt_mastur_ljoslaust/
Í fréttum Stöðvar tvö var sagt (13.01.2014),, ... þar sem stjörnurnar blönduðu geði. Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag. Þarna hefði þurft að bæta við: ... þar sem stjörnurnar blönduðu geði við gesti.
Andartak hlustaði Molaskrifarin á Virka Morgna á Rás tvö (14.01.2014) og heyrði Andra Frey Viðarsson tala um að öppgreida (e. upgrade). Hvernig væri að tala íslensku við hlustendur? Hvar er málfarsráðunautur?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2014 | 09:53
Molar um málfar og miðla 1386
Enn reka dauðar kýr á land í Danmörku og Svíþjóð, sagði í fyrirsögn á pressan.is (11.01.2014): http://www.pressan.is/Frettir/Lesa_Erlent/enn-reka-daudar-kyr-a-land-i-danmorku-og-svithjod Ekki fylgdi það sögunni hvað kýrnar ráku á landi. Fyrirsögnin hefði átt að vera: Enn rekur dauðar kýr á land í Danmörku og Svíþjóð.
Úr frétt á mbl.is (11.01.2014) um öryggismál á Litla Hrauni: Þá segir hann að verið sé að steypa fyrir nýju girðingunum. Þetta finnst Molaskrifara ekki mjög skýrt orðað.
Við erum að fjölga, sagði landbúnaðarráðherra í drottningarviðtali við Gísla Martein Baldursson Á sunnudagsmorgni í Ríkissjónvarpinu (123.01.2014). Okkur er að fjölga, vildi ráðherra sagt hafa. Rúsínan í pylsuenda viðtalsins var þegar Gísli Marteinn þakkaði ráðherra skýr svör!
Arnbjörn skrifaði í athugasemdadálk Molanna (12.01.2014): ,, Í kveri sínu Íslenzkri setningafræði / Íslenzk setningafræði bls. 21 ræðir Björn Guðfinnsson um óbeygða einkunn. Hann er að vanda reglufastur en viðurkennir engu að síður gildi málvenju sem stangast á við regluna sem hann boðar. Þetta hefur hann að segja um óbeygða einkunn:
[Grein] 65. Algengt er nú [formáli 2. útgáfu er skrifaður 1943] orðið að nota einkunnir óbeygðar, þegar þær eru heiti.
Dæmi: Greinin birtist í dagblaðinu Vísir. Ég keypti þetta í verzluninni Baldur. Hann vinnur í vélsmiðjunni Héðinn.
Sérstaklega tíðkast óbeygð einkunn, þegar heitið er orðasamband, tvö eða fleiri samhliða orð.
Dæmi: Þessar vörur eru úr verzluninni Kjöt og fiskur. Hann er meðlimur í bókmenntafélaginu Mál og menning. Þetta er úr verzluninni Blóm og ávextir.
[Grein] 66. Notkun óbeygðrar einkunnar er málfræðilega röng. Hún er og að jafnaði óþörf og til lýta. . Þó mundu sumir kunna illa við þessar setningar:
Þessar vörur eru úr verzluninni Kjöti og fiski. Þetta er úr verzluninni Blómum og ávöxtum.
Hins vegar er ekki hægt að finna neitt að beygðri einkunn, þegar hún er eitt orð:
Greinin birtist í dagblaðinu Vísi. Hann vinnur í vélsmiðjunni Héðni.
Kannski eru menn nú sáttir við að svo sé tekið til orða: Hvaða hugrenningar skyldu vakna við lestur skáldsögunnar Sjálfstæðs fólks? Molaskrifari þakkar bréfið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.12.2013 | 18:18
Taka fyrirtækin ekkert mark á aðvörunum?
![]() |
Rúta fauk út af veginum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)