4.2.2014 | 09:49
Molar um málfar og miðla 1404
Molavin skrifaði (03.02.2014): ,,Eins og fram hefur komið í dag er engum bát saknað." Þannig er orðuð Fasbókarkynning Vísis á frétt um leit að báti á Faxaflóa á sunnudagskvöldi, en í fréttinni sjálfri á visir.is er þetta orðað þannig: "Eins og fram hefur komið í dag er einskyns bát saknað" Erfitt er að sjá hvor setningin á að vera leiðrétting á hinni. Þarna leiðir haltur blindan eins og svo oft áður. Þau láta ekki að sér hæða fréttabörnin sem taka vísisvaktir um helgar. Þakka bréfið, Molavin.
Á mbl.is (02.02.2014) segir: Töluverður erill var á lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og í gærkvöldi. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/02/toluverdur_erill_a_logreglunni/
Molaskrifari hefði sagt að töluverður erill hafi verið hjá lögreglunni. Vel má vera að hvort tveggja sé gott og gilt.
Þrír fjórðu landsmanna vill, sagði Telma Tómasson, fréttaþulur á Stöð tvö á sunnudagskvöld (01.02.2014). Þrír fjórðu landsmanna vilja ... hefði hún betur sagt.
Ekki heyrði Molaskrifari betur sagt væri í dagskrárauglýsingu á Stöð tvö á sunnudagskvöld (02.02.2014). Ég vissi að það mundi eitthvað skemmtilegt henda fyrir mig í kvöld. Klúðurslegt og óvandað orðalag.
KÞ spyr (02.02.2014): Hvað er ,,gærnótt"?
http://www.dv.is/frettir/2014/2/2/thu-sagdir-sigri-hrosandi-vid-vini-thina-ad-thu-hefdir-lamid-einhverja-gellu-sem-hefdi-verid-fyrir-ther/ Ekki getur Molaskrifari svarað því svo óyggjandi sé. Líklega síðastliðin nótt. Kannski fyrrinótt. Þetta bjálfalega orðaleg heyrist æ oftar í fjölmiðlum og étur þar hver eftir öðrum eins og svo oft.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.2.2014 | 09:38
Molar um málfar og miðla 1403
Molalesandi skrifaði (31.01.2014): ,,Sat við skriftir í nótt og hafði útvarpið opið dágóða stund, Rás 2. Rödd kom inn á heila tímanum og sagði skilmerkilega að ég væri að hlusta á Rás 2 og hvað klukkan var. (þetta gerði viðkomandi á heila tímanum kl. 4, 5 og 6) - Sama rödd kynnti veðurfréttir. Undarlegt að viðkomandi skuli ekki lesa fréttir á heila tímanum. - Já, það er meira en undarlegt. Það er óskiljanlegt. Það var liður í niðurskurði Páls Magnússonar að hætt yrði að segja fréttir frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Felldir voru niður fjórir stuttir fréttatímar, klukkan eitt, tvö, fimm og sex. Það er óskiljanlegt að fjölmennasta fréttastofa landsins, fréttastofa Ríkisútvarpsins, skuli ekki hafa döngun í sér til að vera með fréttir á klukkutíma fresti allan sólarhringinn. Ríkisútvarpið er kostað af almannafé. Það sinnir ekki þjónustuhlutverki sínu. Ekki vegna fjárskorts. Heldur vegna vondrar stjórnunar. Vonandi breytist þetta með nýjum útvarpsstjóra.
Molaskrifara var verulega brugðið er hann hlustaði á upphaf Víðsjár í Ríkisútvarpinu eftir miðnætti á sunnudagskvöld (02.02.2014). Þátturinn hófst með því að afskræma og misþyrma sálminum Heyr himnasmiður og undurfallegu lagi Þorkels Sigurbjörnssonar sem sálmurinn er sunginn við.(Nær fullviss þess að sá var sálmurinn) Annar stjórnenda sagðist hafa heyrt sálminn við jarðarför. Þetta var með ólíkindum. Síðan fjölluðu þáttar stjórnendur um það sem þeir kölluðu ,,Tussu vikunnar. Þá slökkti Molaskrifari fljótlega á útvarpinu. Ég hlusta ekki á útvarpið fyrir svefninn til að heyra trúarljóðum og trúarlegri tónlist misþyrmt eða til að hlusta á klám. Á hvaða vegferð er Ríkisútvarpið og hverjir stýra þeirri för? Þetta var næstum verra en nasistaslátrara ummæli íþróttaaulans á dögunum.
Velkominn í sjónvarpssal og heima í stofu sagði stjórnandi Gettu betur í Ríkissjónvarpi á föstudagskvöld (31.01.2014). Hann sagði einnig: Fyrst ætlum við að fá örstutt skilaboð. Hversvegna sagði Björn Bragi ekki að gera ætti auglýsingahlé? Hvers vegna að bulla um skilaboð? Í þessum þætti var spurt: Við hvaða borg stendur Gardermoen flugvöllur. Sagt var að Gardermoen flugvöllur stæði við Osló. Það er rangt. Gardermoen flugvöllur er tæpa 50 kílómetra frá Osló. Þetta er álíka bull og að segja að Keflavíkurflugvöllur sé við Reykjavík. Spurningahöfundar verða að vita um hvað þeir eru að spyrja.
Í fjögur fréttum Ríkisútvarps á föstudag (31.01.2014) talaði fréttamaður um þrjátíu og þrjár og hálfa milljónir !
Á vef Ríkisútvarpsins (01.02.2014) segir sjávarútvegsráðherra að hótanir Evrópusambandsins séu einskis virði! Molaskrifari er ekki hrifinn af þessu orðalagi. Getur verið að hótanir einhverra annarra séu mikils virði? Líklega á maðurinn við að hótanir Evrópusambandsins séu marklausar eða lítilvægar. http://www.ruv.is/frett/hotanir-um-refsiadgerdir-einskis-virdi
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.2.2014 | 09:11
Molar um málfar og miðla 1402
http://visir.is/brynjolfur-haettir-hja-framtakssjodnum/article/2014140139896
Í fréttinni segir:
,,Brynjólfur Bjarnason, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands mun láta frá störfum eftir aðalfund sjóðsins þann 27. mars næstkomandi. Brynjólfur óskaði eftir því við stjórnina að láta að störfum og hefur hún fallist á beiðni hans. Brynjólfur ætlar að láta af störfum, - hætta störfum. Fréttabarnið talar ýmist um að láta frá störfum eða láta að störfum. Ótrúlegt og þessum miðli ekki til sóma, - er þá vægt til orða tekið.
Gunnar skrifaði (31.01.2014): ,,Samúel Karl Ólason skrifar frétt á visir.is:
hefur höfðað mál á hendur Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu
Þarna er vitlaust beygt, en hér má sjá rétta beygingu: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=landsbjörg
Á sama vef skrifar Kjartan Atli Kjartansson: Fangar á Litla-Hrauni þurfa eftir mánaðarmótin að koma með eigin sængur og kodda. Það var og. Mót hvaða mánaðar? Þegar tveir mánuðir mætast, er talað um mánaðamót, ekki mánaðarmót. (Sama vitleysan kom svo í annarri frétt um þetta á vefnum)
Og enn af sama vef: Ekkert samræmi er á beygingum í frétt Hönnu Rúnar Sveinsdóttur um Edduverðlaunin. Fyrirsögnin er: Fimm fengu tilnefningu fyrir leik sinn í Málmhaus en rétt væri fyrirsögnin: Fimm fengu tilnefningu fyrir leik sinn í Málmhausi. Ef höfundi greinarinnar finnst ómögulegt að beygja nafn myndarinnar, hvers vegna skrifar hún þá: Ilmur Kristjánsdóttir fyrir Ástríði 2 en ekki
fyrir Ástríður 2? Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið.
Í morgunþætti Rásar tvö á föstudagsmorgni (31.01.2014) talaði Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður snöfurmannlega og tæpitungulaust um klúður innanríkisráðherra í svokölluðu lekamáli.
Molaskrifara finnst stórfyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins (31.01.2014) svolítið skrítin: Lækkun verðbólgu gefur fögur fyrirheit. Betra hefði verið að segja: Lækkun verðbólgu lofar góðu.
Hvenær fáum við dagskrárkynningar í Ríkissjónvarpinu sem eru lausar við tilgerð og annarlegar áherslur? Það er nóg til af fólki hjá Ríkisútvarpinu sem getur gert þetta vel.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.1.2014 | 09:17
Molar um málfar og miðla 1401
Af vef mbl.is (30.01.2014): Bókmenntaverðlaun Íslands fyrir árið 2013, sem afhent voru á Bessastöðum í dag,... Verðlaunin heita Íslensku bókmenntaverðlaunin , að því Molaskrifari best veit. Hér er fréttin: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/01/30/hlutu_bokmenntaverdlaun_slands/
Á fimmtudagskvöldið sýndi færeyska sjónvarpið (Kringvarp (Føroya) þátt í þáttaröðinni Spískamarið. Þátturinn var frá Mykinesi. Ríkissjónvarpið okkar mætti gjarnan fá þessa ágætu þætti um færeyska matargerð , - meðal annars, - til að bregða á skjáinn hjá okkur, í stað þess að mata þjóðina á síbylju boltaleikja og amerísku annars og þriðja flokks afþreyingarefni. Í Mykinesi er náttúrufegurð mikil. Þangað er ævintýri að koma á fallegum sumardegi.
Á vef Ríkisútvarpsins (30.01.2014) var sagt að dýraeftirlitsmaður hefði verið vikið frá störfum. Þetta var leiðrétt síðar. Dýraeftirlitsmanni var vikið frá störfum. Gott er þegar menn sjá villur í fréttum og leiðrétta. Það er reyndar of sjaldgæft.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (30.01.2014) var sagt að ekki hefði tekist að ná tökum á eldunum á norsku eyjunni Frøya. Rúmlega hálfri stundu áður horfði Molaskrifari á fréttir norska sjónvarpsins (NRK 1) þar sem fram komið að búið væri að hemja eldana. Rætt var við settan bæjarstjóra,sem var glaður í bragði, enda ástæða til.
Morgunspjall Boga gott að vanda á Rás tvö á fimmtudagsmorgni (30.01.2014). Ekki gat hann séð fyrir frekar en aðrir að SF (sem hann kallaði ,,gólandi komma, - svona í hálfkæringi eða gríni) mundi hlaupa úr stjórninni hálftíma seinna!
Tvær amerískar þáttaraðir í beit í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi, á fimmtudagskvöld (30.01.2014), Frankie og Criminal Minds (enn einu sinni). Það eru slakir dagskrárstjórar sem ekki geta boðið þjóðinni upp á neitt betra en þetta.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2014 | 09:15
Molar um málfar og miðla 1400
Í fréttum Stöðvar tvö (28.01.2014) var talað um þrjú gatnamót við Miklubraut. Fleiri tóku eftir þessu. Gunnar skrifaði (28.01.2014): ,,Í fréttum Stöðvar 2, 28. janúar sl. talaði Þorbjörn Þórðarson um þrjú gatnamót, en það er ambaga. Gatnamótin eru þrenn. Orðið gatnamót er ekki til í eintölu, aðeins í fleirtölu.
Í sama fréttatíma talaði fréttamaðurinn Jón Júlíus Karlsson um bílslys við Kúagarð, en rétta heitið er Kúagerði. Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið. Illu heilli eyðilagði Vegagerð ríkisins Kúagerði á sínum tíma við lagningu Reykjanesbrautar. Það var óþarfi.
Í DV (28.-30.2014) er haft eftir ,,baráttukonunni Hildi Lilliendahl:,,Það eru Gevalia-auglýsingar í sjónvarpinu,kona og karl að smalltalka. ,,Baráttukonan sem svo er kölluð er greinilega frekar illa að sér í móðurmálinu. Að smalltalka, - er ljót enskusletta.
Af mbl.is (28.04.2014): ,,Anders Anundsen, dómsmálaráðherra Noregs, er nú staddur í Flatanger. Hann lýsir ástandinu sem sorglegu. Ég er kominn hingað til að fylgjast með því hvernig unnið er úr málum, en það sem skiptir mestu máli er að sýna þeim, sem þetta snertir mest, samlíðan, sagði Anundsen ... Sá sem þetta skrifaði þekkir ekki hið fallega íslenska orð samúð. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/01/28/faerri_hus_brunnu_en_talid_var/ Medfølelse var orðið sem norski ráðherrann notaði.
Góð fréttaskýring hjá Arnari Páli um makríldeiluna í Speglinum (29.01.2014). Norðmenn eru ekki og hafa aldrei verið neinir frændur eða vinir okkar þegar að fiskveiðum kemur. Þá eru þeir okkur erfiðastir allra.
Í Kiljunni (29.01.2014) var ágæt umfjöllun um listakonuna Karólínu Lársdóttur hjá Agli og dr. Aðalsteini Ingólfssyni. Verk Karólínu hafa alla tíð verið eftirsótt á Íslandi. Fólk hefur svo sannarlega kunnað að meta þau. Myndir hennar seljast dýrum dómum í Bretlandi. Þeir sem báru ábyrgð á á sögu íslenskrar myndlistar sem kom út í fimm bindum fyrir fáeinum árum þekktu ekki til Karólínu. Hennar var þar að engu getið. Öndvegisdæmi um þröngsýni og kannski klíkuskap. Aðstandendum listasögunnar til skammar. Og ekki brást Bragi í Kiljunni frekar en fyrri daginn. Og svona í lokin, - takk fyrir frábæra tónleika Vínarfílharmóníunnar í Peking sem voru á dagskrá Ríkissjónvarps í gærkveldi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2014 | 09:01
Molar um málfar og miðla 1399
Gunnar skrifaði (27.01.2014): Bragi Kárason er Bæjarlistamaður stendur í fyrirsögn á baksíðu Morgunblaðsins mánudaginn 27. janúar. Þetta er ekki rétt. Bragi er bæjarlistamaður. Titillinn á að sjálfsögðu að vera með litlum staf.
Ég sá kynningu um þátt með íslensku hæfileikafólki, sem er víst á Stöð 2. Þar sagði einn dómarinn: Ég vill að þú sleppir svona soldið ljónynjunni út
Það vakti ekki áhuga á að sjá meira af þættinum. Lágmark að fólk beygi einföldustu orðin rétt. Ég vil
Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið
Úr frétt á mbl.is (27.01.2014): Talið er að fleiri en sex hundruð farþegar skemmtiferðaskipsins Explorer of the Seas veiktust þegar hugsanleg nóróveirusýking kom upp. Og: Farþegar og áhöfn skipsins hefur kastað upp og er með niðurgang. Heldur er þetta nú óhönduglega skrifað! Hvar er gæðaeftirlitið, prófarkalesturinn mbl.is? http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/01/27/600_veikir_a_skemmtiferdaskipi/ Eitthvað var þetta lagfært síðar meir.
Nú er búið að sýna okkur að það er hægt að setja borganöfn á veðurkortin í Ríkissjónvarpinu eins og gert er hjá öðrum sjónvarpsstöðum. Hversvegna er það ekki gert?
Í fésbókarfærslu (27.01.2014) segir nemandi frá því að hann hafi fengið inngöngu í meistaranám í London School of Economics og tekur þannig til orða: Stundum uppskerir maður eins og maður sáir. Molaskrifari vonar að nemandinn sé betri í ensku en íslensku.
Hrafnkell sendi eftirfarandi (27.01.2014):
http://www.visir.is/fotobombadur-a-grammy-hatidinni/article/2014140129006
Textinn í þessari ,,frétt" er ekki langur. En ég get með hreinni samvisku sagt að hann er sá versti sem ég hef séð lengi.
Fyrirsögn:
Fótóbombaður á Grammy-hátíðinni
Meginmál:
How I Met Your Mother-stjarnan Neil Patrick Harris fer ekki varhluta af fótóbombbylgjunni sem tröllríður nú fræga fólkinu.
Hann ákvað að fótóbomba stjörnuparið John Legend og Chrissy Teigen á Grammy-verðlaunahátíðinni í nótt er þau tóku af sér sjálfsmynd.
Stjörnurnar hafa verið duglegar að fótóbomba á verðlaunahátíðum uppá síðkastið. - Molaskrifari þakkar sendinguna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.1.2014 | 09:55
Molar um málfar og miðla 1398
Í fréttum Ríkissjónvarps (25.01.2014) var talað um feitan íþróttapakka. Hvað er feitur íþróttapakki? Í sama fréttatíma var sagt frá listviðburðum í Garðinum. Þar var talað um að listamenn héldu vinnustofur. Ekki áttar Molaskrifari sig á því orðalagi.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (26.01.2014) talaði fréttamaður um hærri verð fyrir tapaða orku. Viðmælandi hans talaði um magn tapanna. Þetta þykir sjálfsagt gott og eðlilegt málfar. Molaskrifari kann þó ekki meta að svona sé tekið til orða.
Hversvegna tala íþróttamenn um að opna markareikninginn?
Orðið viðhlítandi var tvívegis rangt skrifað í skjátexta í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (26.01.2014). Var enginn á vaktinni sem vissi betur?
Ljót og óþörf þolmyndarnotkun hjá fréttamanni Stöðvar tvö í upphafi frétta á sunnudagskvöld (26.01.2014). Fréttamaður sagði: Telpan var flutt hingað til lands seinnihluta árs 2012 af móðurafa sínum. Betra hefði verið: Móðurafi telpunnar kom með hana hingað til lands á seinni hluta ársins 2012. Germynd er alltaf betri. Ekki mikil máltilfinning til staðar þarna. Þessi þolmyndarnotkun var endurtekin í frétt um sama efni í gærkveldi (27.01.2014)
Hversvegna var lýsi stundum kallað fiskiolía í fréttum Ríkisvarps (26.01.2014)? Var annars ekki verið að tala um það sama?
Handboltaveislunni er lokið , sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps (26.01.2014). Molaskrifara fannst þetta nú á stundum fremur plága en veisla. Sök sér að sýna leiki íslenska liðsins og útslitaleikinn,ekkert að því, en ótækt að láta íþróttastjóra komast upp með að riðla dagskránni kvöld eftir kvöld. Þessi skoðun Molaskrifara kallar sjálfsagt á mótmæli! Treysti nýjum útvarpsstjóra til að stöðva yfirgang íþróttastjóra og íþróttadeildar í dagskrá Ríkissjónvarpsins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.1.2014 | 09:25
Molar um málfar og miðla 1397
Félag íslenskra bókaútgefenda auglýsir væntanlegan bókamarkað í næsta mánuði í blöðum þessa dagana og þar segir, orðrétt: ,,Útgefendur sem vilja bjóða bækur sínar á markaðinum er bent á að hafa samband...." Hér er sitthvað athugavert en einkum er átakanlegt er menn ráða ekki við aukasetningar, né afmarka þær með kommum. Oft má sleppa þeim alveg og það hefði til dæmis dugað að segja: ,,Útgefendum er bent á að hafa samband... -- Molaskrifari þakkar bréfið.
Það sýnist vel ráðið að stjórn Ríkisútvarpsins skuli hafa valið Magnús Geir Þórðarson í starf útvarpsstjóra. Honum er árnað allra heilla í erfiðu starfi. Í Efstaleiti þarf að taka til hendinni eftir langa óstjórn. Margir hæfir sóttu um starfið og ekki efast Molaskrifari um að til dæmis Salvör Nordal eða Stefán Jón Hafstein hefðu bæði getað gegnt þessu mikilvæga starfi með sóma.
Í fréttum Ríkissjónvarps (24.01.2014) talaði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um að gera ætti öllum kleift að eignast heimili. Hann ruglaði hér greinilega saman húsnæði og heimili sem er sitthvað.
Í sama fréttatíma Ríkissjónvarps kom rangt nafn á skjáinn þegar rætt var við Björgólf Jóhannsson, formann Samtaka atvinnulífsins. Engin afsökun. Engin skýring. Stundum er eins og enginn horfi á fréttirnar í útvarpshöllinni við Efstaleiti, eða það að rangt sé farið með nafn þess sem við er rætt skipti bara engu máli. Það er fúsk.
Gamall þáttur Jökuls Jakobssonar sem endurfluttur var á laugardagsmorgni (25.01.2014) um Áfanga Jóns Helgasonar var sannkölluð útvarpsperla. Ætti að nýtast sem ítarefni, þegar fjallað er um Áfanga í bókmenntakennslu í íslenskum skólum. Vonandi er staldrað við þetta einstaka ljóð í bókmenntakennslu einhversstaðar á leiðinni til stúdentsprófs. Eitt af öndvegisljóðum íslenskra bókmennta. Molalesari kynntist Áföngum í öðrum bekk í gagnfræðaskóla, þá 14 eða 15 ára.
Í veðurfréttum Ríkissjónvarps (25.01.2014) voru nokkur borganöfn komin á Norður Ameríkukortið. Takk fyrir það. Vonandi fer þeim fjölgandi, - einnig á Evrópukortinu. Hvaða regla gildir annars um veðurkort frá öðrum svæðum heims en Evrópu? Ræður hver veðurfræðingur því hvaða kort hann sýnir okkur?
Stundum er gaman að fréttamatinu. Á miðnætti á föstudagskvöld (24.01.2014) var fyrsta frétt í Ríkisútvarpinu um eld í bíl undir Hafnarfjalli. Eldurinn lognaðist útaf af sjálfu sér. Næsta frétt var um eld í potti á veitingastað í Reykjavík. Svo leyfir Ríkisútvarpið sér að flytja engar fréttir fyrr en sjö klukkutímum síðar, - klukkan sjö næsta morgun. Lélegt hjá þjónustustofnun í eigu þjóðarinnar sem jafnframt á að sinna öryggishlutverki. Með þessum hætti er því alls ekki sinnt svo sem skyldi.
Þeir voru prýðilegir Bogi Ágústsson og Þórður Snær Júlíusson í Sunnudagsmorgni Gísla Marteins (26.01.2014). Elín Hirst einbeitti sér að því auglýsa Sjálfstæðisflokkinn. Það er sjálfsagt skylda þingmanna Sjálfstæðisflokksins þegar Gísli Marteinn, fyrrum borgarfulltrúi flokksins, boðar þá á sinn fund.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.1.2014 | 08:26
Molar um málfar og miðla 1396
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (23.1.2014) var í þingfréttum talað um skattaívilnanir fyrir hátekjuhópum. Hefði átt að vera: Skattaívilnanir fyrir hátekjuhópa.
Fréttabarn á vaktinni á mbl.is (23.01.2014): En fólk sem tók lestina sem sýnd er í þessu myndskeiði var ekki skemmt þegar inn var komið því snjórinn hafði blásið inn í einhverja vagna með tilheyrandi kulda. Fólk var ekki skemmt! Alveg óskemmt. Snjórinn hafði blásið inn í einhverja vagna ! Þetta er með ólíkindum. Enginn les yfir. Enginn metnaður til þess að gera vel. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/01/23/thvilikur_kuldi_i_lestinni/
Meira af mbl.is sama dag: Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er ökumaðurinn komin út úr bílnum og er lítið slösuð. Ekki batnar það!
Gunnar nefnir þetta einnig í tölvubréfi (24.01.2014): Kanínukjöt á boðstólnum á Íslandi fyrir næstu jól er fyrirsögn á vefsíðunni visir.is. Boðstóll er ekki til í eintölu. Fleirtöluorðið er boðstólar svo kjötið verður á boðstólum.
Og á mbl.is er hin kostulega setning: Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er ökumaðurinn komin út úr bílnum og er lítið slösuð. Í tvígang er ökumaður fólksbíls nefndur til sögunnar. Hvernig getur ökumaður verið komin úr bílnum og verið lítið slösuð? Ökumaðurinn er kominn úr bílnum og er lítið slasaður, hvort sem hann er karlmaður eða kvenmaður. (Hann kvenmaðurinn) - Molaskrifari þakkar bréfið.
Enn er spurt, því aldrei hefur verið svarað: Hversvegna eru ekki birt bæja- og borganöfn á veðurkortunum í Ríkissjónvarpinu? Á veðurkortum færeyska sjónvarpsins eru birt borganöfn. Hvað veldur þessu?
Sá ágæti fréttanmaður Stöðvar tvö, Þorbjörn Þórðarson, má til með að læra að bera fram orðið saksóknari. Hætta að segja sífellt saksónari. Þetta var einkar áberandi í fréttum á föstudagskvöld (24.01.2014).
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.1.2014 | 09:33
Molar um málfar og miðla 1395
Bæði félögin skrifuðu ekki undir samningana, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar 22. janúar. Eðlilegra hefði verið að segja að hvorugt félagið hafi skrifað undir.
Örn skrifaði Molum eftirfarandi um nafnháttarnotkun (22.012014): ,,Vísir skrifar í dag: http://visir.is/vodafone-harmar-vistun-gagnanna--gognin-attu-ekki-ad-vera-geymd-/article/2014140129695.
Það er árátta að nota nafnhátt hjá yngra fólki:,,að vera geymd" í stað þess að segja,,að geymast" Sama á við um frásagnir af liðnum atburðum, þær eru flestar sagðar í nútíð, þótt nokkuð sé um liðið frá atburði. Þakka bréfið.
Fyrsta frétt í átta fréttum Ríkisútvarps á miðvikudag (22.01.2014) var ofurlöng frásögn af kerfishremmingum konu með geðræn vandamál. Hremmingarnar tengdust nauðungarvistun. Fréttin var endurtekið efni úr morgunútvarpinu. Megintilgangur fréttarinnar virtist vera að vekja athygli á fyrirhugaðri ráðstefnu. Leikurinn var endurtekinn daginn eftir. Viðtal í morgunútvarpi og endurtekið efni aftur fyrsta frétt, nú klukkan níu, muni Molaskrifari rétt. Þetta voru hreinar auglýsingar og fólk að vinna sér hlutina létt.
Á fullu gazi - Saga Garðars klessir á, (22.01.2014). Fyrirsögn á visir.is. Fréttabarn hefur fengið að semja fyrirsögn.
Það var skemmtileg tilbreyting að fá fína óperettutónleika í Ríkissjónvarpið á miðvikudagskvöld (22.1.2014). Takk fyrir það. Skiptir engu þótt upptakan hafi verið frá 2007. Þetta efni eldist ekki svo glatt. Skyldi Ríkissjónvarpið manna sig upp í að sýna okkur eins og einn þátt með Wynton Marsalis áður en höfðinginn heimsækir Ísland með fríðu föruneyti í sumar?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)