15.2.2014 | 08:54
Molar um málfar og miðla 1414
Æ fleiri sjá ýmislegt athugavert við sagnfræðina í Eimskipafélagsþáttunum sem Ríkissjónvarpið nýlega sýndi. Í nýjustu útgáfu vefritsins Kjarnans sl. fimmtudag (13.02.2014) er til dæmis bent á að hrikalegs gjaldþrots Eimskipafélagsins er að engu getið. En félagið varð gjaldþrota eftir að hafa komist í hendur fjárglæfra- og ævintýramanna. Einnig er nefnt í Kjarnanum að félagið sem nú starfar er rekið á tíu ára gamalli kennitölu. Því sé félagið í raun aðeins tíu ára gamalt. Þá má einnig benda á að þetta félagi sem lengi var kallað ,,óskabarn þjóðarinnar er nú að verulegu leyti eigu erlendra aðila og ,,Fossarnir skráðir í erlendum höfnum. Sagnfræðin var þarna ekki í lagi. Þótt myndefnið væri gott, spillti það fyrir að textinn var gagnrýnilaus lofgerðarrolla.
Hvar er prófarkalesturinn á Viðskiptablaðinu (13.02.2014)? ... sagði ummæli hans um beina erlenda fjárfestingu geta verið skaðlega.
Ríkisútvarpið flytur engar fréttir frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Það er undarleg skammsýni. Þetta sparar varla mikið fé, þegar maður er vakt og segir hlustendum hvað klukkan er á klukkutíma fresti alla nóttina! Óskiljanleg ráðstöfun. Skortur á þjónustuvilja og einkennileg forgangsröðun hjá yfirmönnum þessarar þjóðarstofnunar.
Af netinu (14.02.2014): ... sem sagði henni hreinskilningslega.... Algeng misritun. Ætti að mati Molaskrifara að vera hreinskilnislega. Orðið hreinskilningslega er ekki að finna á vef Árnastofnunar.
Ekki kannaðist Molaskrifari við jassleikarann (skrifað eftir framburði) vændon Marsalis sem nefndur var oftar en einu sinni í auglýsingu í Ríkisútvarpinu í hádeginu á föstudag (14.02.2014) Sá heimsfrægi tónlistarmaður, sem átt var við og hingað kemur í sumar heitir Wynton ( frb. úvinton) Marsalis.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
cti� 'sy`�% �� ne: 0px;">
Flokkar
- Blaða- og tímaritsgreinar
- Fréttir
- Minningargreinar
- Molar
- Ræður
- Skrifað og skrafað
- Stjórnmál
Efnisorð
Sérkennis Mynd
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2014 | 08:28
Molar um málfar og miðla 1413
Molavin skrifaði (13.02.2014): "Formaður Viðskiptaráðs þykir heppilegra að ljúka aðildarviðræðum..." segir í undirfyrirsögn viðskiptablaðs Mbl. í dag 13. feb. Mistök af þessu tagi, sem enginn virðist prófarkalesa, eru að verða daglegt brauð í fjölmiðlum. Er hugsanleg skýring sú að fréttaskrif séu að mestu að verða í höndum ungs fólks, sem er vanast því að skrifa stutt símboð - eða að "texta" á símann sinn, og fæst því sjaldnast við samsettar setningar? Það er lágmarkskrafa að sá sem skrifar lesi sinn eigin texta með gagnrýnum huga áður en hann er settur í blaðið (á Netið).
Í tónleikaauglýsingu á Bylgjunni (12.02.2104), frá ,,Dúndurfréttum og Bylgjunni var sagt: Engu verður til sparað. Endalaust rugla menn saman orðtökunum ekkert til sparað og engu til kostað. Er það í raun þannig að fréttaskrifarar geti ekki tileinkað sér jafn einfalt atriði og þetta? Í fréttum Ríkissjónvarps þetta sama kvöld sagði fréttamaður einnig engu til sparað. Smitandi.
Enn tala fréttabörnin á visir. is leikskólamál og tala um að klessa á (12.04.2014): Bíllinn stóð skáhalt á veginum og klessti rútan, sem var á leið frá Osló, á hann. Enginn yfirlestur engin barnagæsla. Var ekki bíllinn þversum á veginum?
Rannsóknin stóð yfir í um nokkurra mánaða skeið, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (12.02.2014). Hér hefði nægt að segja að rannsóknin hefði staðið í nokkra mánuði.
Rafn sendi eftirfarandi (1.202.2014): ,,Hvað er athugavert við að kalla svarta menn negra? Það orð á ekkert sameiginlegt með ameríska bannorðinu nigger, heldur er það þýðing á orðinu negro, sem býr ekki við sömu bannhelgi og nigger. Þetta er af DV.is.
Kveðja Rafn
Börnum kennt að svartir menn séu kallaðir negrar
Mennirnir á jörðinni eru ekki allir eins. Svartir menn eru kallaðir negrar. Þeir búa flestir í Afríku. Þetta eru íslensk börn í öðrum bekk látin lesa og læra í bókinni Við lesum. Trommuleikarinn Jón Geir Jóhannsson úr hljómsveitinni Skálmöld tók meðfylgjandi mynd ( Ekki tókst að færa myndina inn í Mola)eftir að hann var að hjálpa dóttur sinni með heimanámið.
Birtir hann myndina á Facebook og hefur hún farið sem eldur í sinu um netheima í kvöld. Virðast flestir furða sig á því að svona orðfæri skuli notað í kennslubók fyrir börn árið 2014 líkt og Jón Geir sem spyr hvort ekki sé kominn tími til að uppfæra kennsluefni grunnskólanna.
Eins og sjá má er því haldið að börnunum að gulir menn séu kallaðir mongólar og búi flestir í Asíu. Rauðir menn séu kallaðir rauðskinnar eða indíánar og þeir búi í Ameríku.
Kennari einn bendir á í athugasemd við frétt Vísis af málinu að umrædd bók, Við lesum -Lestrar- og vinnubók C, hafi verið afskrifuð fyrir mörgum árum síðan hjá Námsgagnastofnun. Lestrar- og vinnubækur A og B í sömu seríu eru hins vegar enn notaðar. Ekki er að finna C-bækurnar á vef Námsgagnastofnunar og virðist því sem umrædd bók sem greinilega er notuð í Varmárskóla sé hugsanlega löngu úrelt ljósrit sem enn er í umferð. - Molaskrifari þakkar bréfið. Um þetta sýnist sjálfsagt sitt hverjum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2014 | 09:51
Molar um málfar og miðla 1412
http://www.dv.is/frettir/2014/1/30/logreglan-med-lysingu-manni-sem-grunadur-er-um-ad-byrla-fyrir-stulkum/
,, Blaðamaður á við að umræddur aðili hafi eitrað fyrir stúlkum. Eða byrlað þeim eitthvað. Ekki byrla fyrir þeim.
Annað, þessu skylt. Ekki rétt að taka svo til orða að tilkynnt hafi verið UM eitthvað. Heldur að eitthvað hafi verið tilkynnt. Fallegri íslenska.
Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta eru réttmætar ábendingar
Tóm tjara (eins og stundum er sagt) á mbl. is (10.02.2014). ,, Þota færeyska flugfélagsins Atlantic Airways lenti á Keflavíkurflugvelli í hádeginu í dag. Þetta er fyrsta ferðin í áætlunarflugi félagsins á milli Færeyja og Íslands og er lent í Keflavík á meðan beðið er svara íslenskra flugmálayfirvalda hvort lenda megi þotunni á Reykjavíkurflugvelli. Atlantic Airways hefur flogið áætlunarflug til Íslands árum saman. Furðuleg fáfræði á stórum fjölmiðli. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/10/faereyingar_fljuga_til_keflavikur/
Síðan ástandið brast á, sagði fréttamaður í Spegli Ríkisútvarps (11.02.2014). Allt brestur nú á ! Síðan þessi staða kom upp, síðan þetta varð svona ....
Íþróttafréttamenn Ríkissjónvarpsins bera saman kostnað við vetrarleikana í Sochi og sumarleikana til dæmis í Peking( Beijing) og London. Slíkur samanburður er út í hött eins og Kristín M. Jóhannsdóttir hefur bent á á fésbók. Kristín starfaði við vetrarleikana í Vancouver og þekkir vel til þessara mála. Hún sagði á fésbók: ,,Merkilegt hversu oft maður heyrir íslenska fréttamenn bera kostnaðinn við leikana í Sochi saman við kostnaðinn í Bejing eða í London. Þetta er hins vegar ekki eðlilegur samanburður því sumarleikar eru alltaf miklu dýrari en vetrarleikar. Það að þessir leikar eru þrefalt dýrari en þeir í London segir því bara hálfa sögu. Það þarf að bera þessa leika við vetrarleika og það að þeir eru tíu sinnum dýrari en leikarnir í Vancouver segir okkur mun meira.
Molaskrifari dáist alltaf svolítið að því hvað Eygló Harðardóttir , félagsmálaráðherra kemur vel fyrir í sjónvarpi og hvað hún er mælsk og getur talað lengi án þess að segja nokkurn skapaðan hlut sem máli skiptir. Það er alveg sérstakur hæfileiki.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2014 | 09:17
Molar um málfar og miðla 1411
Trausti benti á eftirfarandi (10.02.2014): http://www.visir.is/vatnid-i-thames-vex-og-vex/article/2014140219992
Og segir:
,,Áin er í vexti og þá EYKST vatnið Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta hefur komið fréttabarninu alveg í opna skjöldu!
Í frétt á sunnudagsmorgni í Ríkisútvarpinu (09.02.2014) var sagt frá banaslysum í Tókýó vegna hálku. Sagt var, að slysin hefðu orðið eftir hálku. Slysin urðu í hálku, ekki eftir hálku.
Í fyrirsögn á visir.is (09.02.2014) segir: Bandaríkin fékk aftur gull í brekkufimi. Ja, hérna.
http://www.visir.is/bandarikin-fekk-aftur-gull-i-brekkufimi---myndband/article/2014140209071
Svo fengum við að heyra í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins að Skúla Helgasyni hefði aðeins vantað 13 atkvæði í prófkjörinu til að ná 3. sæti. Pest á ferðum í Efstaleiti. Hvar er málfarsráðunauturinn? Hann á að lækna svona lagað.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (10.02.2014) var sagt að flest ný hótel mundu opna í miðborginni. Opna hvað? Flest ný hótel verða í miðborginni.
Ingibjörg vakti athygli Molaskrifara (10.002.2014) á viðtali úr fréttum Stöðvar tvö: ,,Langaði að vekja athygli þína á þessu viðtali. Mér finnst það óábyrgt að senda svona lagað út.
http://www.visir.is/vaettir-og-afturgongur-i-arbaejarsafni/article/2014140209024 - Þetta er auðvitað með endemum: - Miklabæjar Sólveig var höfnuð af presti, heyrist sagt þarna !
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2014 | 09:07
Molar um málfar og miðla 1410
,,En mikið hefur þá forsetann og nafna minn sett ofan við að taka þátt í þessu leikriti Pútins.
Kannski er ekkert athugavert við þetta, en mér hefði þótt eðlilegra að segja að ÞEIR hafi sett ofan. Það er rétt athugað. Þakka bréfið.
Molalesandi skrifaði (09.02.2014): ,Blaðamenn grípa í skrifum sínum æ oftar til orðasambandsins ,,að ná" í stað,,að takast" sem er fallegri íslenska. Hugsanlega er skýringin fælni í að beygja persónufornöfn s.s ,,Hann náði að koma sér út úr húsinu" í stað ,,honum tókst að.."
Hér í tilvitnaðri frétt er heldur léleg íslenska þar sem segir frá manni sem ,,náði að komast yfir auð" og spurt hvernig hann hafi ,,náð að gera það".
Ýmislegt fleira í fréttinni vitnar um slappa málnotkun, s.s. ,,...landið er mesta kaffiframleiðsluland heims." (..stærsti kaffiframleiðandi/-ræktandi)
,,Fáir hafa orðið mjög ríkir..." (fáir hafa auðgast)
,,...en þeir eru þó til." Óþarfi að taka það fram.
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/02/08/a_fimm_bentley_og_tiu_ferrari_2/ Molaskrifari þakkar bréfið.
Á fréttavefnum visir.is var sagt (07.02.2014): Aðalsteinn segir að með þessu sé risinn upp alvarlegur trúnaðarbrestur í hreyfingunni.
Lesendur hljóta sumir hverjir að hafa velt því fyrir sér, hvernig brestur rísi upp. Nægt hefði að segja að trúnaðarbrestur hefði komið upp. http://www.visir.is/starfsgreinasambandid-klofnar/article/2014140209253
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins (09.02.2014) var talað um kostnað við greiðsluseðla og sagt að ,,.... upphæðin hlaupi á einhverjum hundraðköllum í hvert sinn. Þetta orðalag verður æ algengara, - væntanlega eru þetta áhrif úr ensku. Hér hefði til dæmis ekkert verið að því að tala um að þetta kostaði nokkur hundruð krónur í hverju tilviki.
Af dv.is (08.02.2014): Þar segist Sigurður ekki reka minni til þess að ráðuneyti hafi áður sætt lögreglurannsókn. Hér hefði átt að segja, til dæmis. Sigurður segir að sig reki ekki minni til þess að ....
Stór ljósmynd á baksíðu Morgunblaðsins á laugardag er af þúsund þjalasmiðnum Jóni H. Karlssyni í Sandgerði sem smíðar skipslíkön. Á myndinni er einnig smíðisgripur eftir Jón, vélbátur eins og algengir voru hér á árum áður. Í myndatextanum er báturinn sagður gamall togari! Fjarri lagi. Sá sem textann skrifaði veit ekki hvernig togari lítur út. Hefur sjálfsagt vakið furðu margra.
Fróðlegt og athyglisvert viðtal Boga Ágústssonar við dr. Michael Byers í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi um norðurslóðir (10.02.2014).
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2014 | 09:15
Molar um málfar og miðla 1409
http://www.dv.is/folk/2014/2/8/stritt-vegna-augnanna-NV6LPS/
Molaskrifari þakkar Helga sendinguna.
Það var góð tilbreyting á laugardagskvöldið (08.02.2014) þegar Birta Líf Kristinsdóttir veðurfræðingur í Ríkissjónvarpinu sagði okkur veðurfréttir frá Grænlandi og birti staðanöfn á Grænlandskortinu. Enn spyr Molaskrifari hversvegna eru ekki alltaf birt borganöfn á veðurkortunum, - eins og gert hjá Stöð tvö? Ræður tölvutækni Ríkissjónvarpsins ekki við það? Þetta virðast allar sjónvarpsstöðvar geta gert.
Ólafur Ragnar fór yfir málin með Pútín, segir í frétt á visir.is (07.02.2014) http://m.visir.is/Sport/Frett?ArticleID=2014140209180
Í þessari frétt er ekki eitt einasta orð um að þeir hafi rætt einhver mál. Aðeins sagt að vel hafi farið á með þeim.
Vafasöm sagnfræði og smeðjulegur texti spilltu svolítið þætti um sögu Eimskipafélagsins,sem Ríkissjónvarpið sýndi á sunnudagskvöld (09.02.2014) . Þætti sem um margt var annars ágætur. Sá góði listamaður, Egill Ólafsson, sem las textann ætti heldur að halda sig við tónlistina. Þar skáka honum fáir.
Í fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (07.02.2014) var sagt: ... að ítarleg rannsókn fari fram um málið. Rannsóknir fara ekki fram um mál. Mál eru rannsökuð eða rannsókn fer fram á málum eða í málum.
Af mbl.is (07.02.2014): ,,Innanríkisráðuneytið hefur veitt ríkissaksóknara öll þau gögn sem til eru í ráðuneytinu ... Hér er talað um að ,,veita gögn. Eðlilegra að tala um að afhenda gögn, veita aðgang að gögnum.
Er að / erum að sýkinnar sér víða stað. Í Kastljósi (06.02.2014) sagði Helgi Seljan, að Pólverjar væru að fá talsveert lægri laun, en .... Betra hefði verið að segja að Pólverjar fengju talsvert lægri laun , en ....
Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan sjö og átta á laugardagsmorgni (08.02.20145) var sagt frá slysi þar sem hestur hafði ,,sparkað í mann. Ekki rangt orðalag, en venjulega er talað að hestar sem slasa fólk slái, séu slægir. Sagt var að slysið hefði orðið í Reykholti. Reykholtin á landinu eru ekki bara eitt eða tvö. Þetta mun hafa gerst í Reykholti í Biskupstungum. Í sjö fréttunum var sagt að lögregla hefði keyrt manninum að Minni Borg. Lára Ómarsdóttir lagfærði þetta og færði til betra máls í fréttum klukkan átta, - lögreglan ók manninum að Minni Borg. Upp á síðkastið hefur Molaskrifari á tilfinningunni að óreyndir og stundum stirðlæsir nýliðar annist, eftirlitslausir, fréttatímana á miðnætti og klukkan sjö að morgni. Engin verkstjórn. Það verður einhver fullorðinn líka að vera á vaktinni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.2.2014 | 08:34
Molar um málfar og miðla 1408
Molaskrifari þakkar Ólafi Sindra bréfið. Ekki er nema von að spurt sé.
Meira um sama: Í fréttum Stöðvar tvö (06.02.20145) var sagt frá sýningu á munum úr eigu Vigdísar Finnbogadóttur. Okkur var sagt: Sýningin opnar á morgun. Þess var ekki getið hvað sýningin mundi opna. Ekki frekar en fyrri daginn í þessu óvandaða orðalagi sem, hver fjölmiðillinn étur upp eftir öðrum.
Í nýrri rannsókn birtri af norrænu ráðherranefndinni ..., var sagt í fréttum Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (06.02.2014). Dæmi um óþarfa, ljóta þolmyndarnotkun.- Í nýrri rannsókn sem norræna ráðherra nefndin hefur birt ... Germynd er alltaf betri.
Í fréttum Ríkissjónvarps (06.02.2014) var sagt frá kjaradeilu framhaldsskólakennara. Í skjátexta var hins vegar talað um Félag framhaldsskólanema, ekki Félag framhaldsskólakennara. Það tekur því auðvitað ekki að leiðrétta svona smámuni enda var það ekki gert.
KÞ spyr vegna fyrirsagnar á vef Ríkisútvarpsins (05.02.2014): Hagar ætla í hart yfir osti. Kristján segir: Væri ekki nær að gera þetta yfir kaffibolla? http://www.ruv.is/frett/hagar-aetla-i-hart-yfir-osti
Í fréttum Ríkisvarpsins (06.02.2014) var sagt að Bandaríkjamenn hefðu lagt tveimur herskipum á Svartahafi. Molaskrifari hefði orðað þetta á annan veg og sagt til dæmis, að Bandaríkjamenn hefðu sent tvö herskip inn á Svartahaf, - eða að tvö bandarísk herskip væru nú á Svartahafi. Í sömu frétt var talað um flugfélög á leið til Rússlands.
Líklega var átt við flugfélög sem fljúga til Rússlands.
Á baksíðu DV (06.02.2014) í dálki sem nefndur er Fréttir af fólki er svohljóðandi fyrirsögn: Masteraði Björk. Í klausunni þar undir er talað um að mastera lag og mastera plötu. Þetta er ekkert skýrt nánar. Eiga allir lesendur Fréttablaðsins að skilja þetta? Molaskrifari skildi þetta ekki. Það skal játað hér í fullri hreinskilni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2014 | 08:04
Molar um málfar og miðla 1407
Aldeilis dæmalaus villa á vefnum visir.is í gær (06.02.2014): ,,WOW air verður að hætta við flug til Stykkishólms. Fyrirtækið verður að fylgja reglum Flugmálastjórnar varðandi breytingar á flugáætlunum. Hér hefur eitthvert fréttabarnið verið að basla við að íslenska heiti Stokkhólms !!!
Rússar hafa engu til sparað, sagði Benedikt Grétarsson íþróttafréttamaður í sérstökum íþróttafréttatíma Ríkissjónvarpsins á miðvikudagskvöld (05.02.2014). Makalaust að menn skuli endalaust rugla saman engu til kostað og ekkert til sparað. Þetta er ekkert flókið. Málfarsráðunautur þyrfti að starfa við Ríkisútvarpið og leiða menn í allan sannleika um einföld atriði í málnotkun.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (005.02.2014) var sagt: ... aðstoðarframkvæmdastjóri lyflækningadeild Landspítalans. Beygingafælni. Aðstoðarframkvæmdastjóri lyflækningadeildar Landspítalans.
Af mbl.is (05.02.2014): ,,Landhelgisgæslunni barst í morgun tilkynning um að tundurdufl hefði borist í vörpu BERGEYJAR VE 544 úti fyrir Austfjörðum. Molaskrifari hefði orðað þetta á annan veg. Sagt að tundurdufl hefði komið í vörpu Bergeyjar. Duflið hefur væntanlega legið á hafsbotni og hvorki borist eitt né neitt, heldur komið í vörpuna þegar hún var dregin eftir botninum þar sem það lá. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/05/tundurdufl_barst_i_vorpu_bergeyjar/
Þorvaldur nefndi þetta í athugasemd við Mola gærdagsins og sagði: ,, Í fréttum Mogga síðustu daga er sagt frá því að þýskt tundurdufl hafi borist í vörpu Bergeyjar VE á austfjarðamiðum. Helst er á þessu að skilja að duflið hafi komið aðvífandi og sest að í vörpunni. Skipið dregur vörpuna eftir botninum og fær í hana fisk og aðskotahluti en slíkir hlutir berast ekki í hana á einhvern óútskýrðan hátt. Rétt athugað, Þorvaldur.
Niðursoðna konuröddin, sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins er búin að segja okkur svona tvö hundruð sinnum, að Nigella hafi kolfallið fyrir ítalskri matargerð þegar hún var ung. Dagskrárkynningar Ríkissjónvarpsins hafa lengi verið óþolandi með annarlegum áherslum og undarlegri tilgerð. Þetta er eitt af mörgu sem nýr útvarpsstjóri verður að breyta, - hluti af ásýnd sjónvarpsins.
Þýsk-íslenska samvinnuverkefnið var ýtt úr vör, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (06.02.2014) . Verkefninu var ýtt úr vör. Verkefnið var ekki ýtt úr vör.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.2.2014 | 07:39
Molar um málfar og miðla 1406
Danska sjónvarpið DR 2 sýndi á þriðjudagskvöld (04.02.2014) afar athyglisverða heimildamynd, Leikar Pútíns um undirbúning vetrarólympíuleikanna í Sochi eða Sotji. Um sukkið, sviínaríð og spillinguna í kringum undirbúningsframkvæmdirnar og sitthvað fleira. Meðal annars var rætt við andófsmanninn Gary Kasparov. Ekki varð betur séð en sjónvarpsstöðvar í mörgum löndum hefðu komið að gerð myndarinnar.
Sama kvöld sýndi norska ríkissjónvarpið NRK2 þrjár heimildamyndir um Rússland, Pussy Riot og pönkmótmælin, Pútín Rússland og vestrið. Sú þriðja hét Stórveldisdraumar. Sýning heimildamynda sem tengjast því sem er að gerast í heiminum er yfirleitt ekki á dagskrá hjá Ríkissjónvarpinu. Það bar þess vegna nýrra við í gærkveldi (05.02.2014) þegar á dagskrá var hálftíma mynd um sukkið í Sotji, sem Ólafur Ragnar ætlar nú að fara að skoða, og líklega lofa og prísa, fái hann að hitta sinn einkavin, Pútín. Það er mikil nýlunda að Ríkissjónvarpið bjóði okkur að sjá heimildamyndir um það sem efst er á baugi í veröldinni. Vonandi verður hægt að segja að batnandi mönnum sé best að lifa. Þetta var prýðilegur og upplýsandi Panorama þáttur. Þessir vönduðu fréttaskýringaþættir, Panorama, hafa verið á dagskrá BBC síðan 1953. Ríkissjónvarpið sýndi Panorama fyrr á árum. Einhverra hluta vegna var því hætt. Ekki kann Molaskrifari skýringu á því. Annað kvöld sýnir BBC merkilegan Panorama þátt frá Norður Kóreu. Vonandi verður hann líka sýndur hér.
Hversvegna þurfti íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps að tala um fjögur íslensk handboltalið, sem leika munu til úrslita, sem the final four í íþróttafréttum á þriðjudagskvöld? Hversvegna var ekki töluð íslenska við okkur?
Á þriðjudagskvöld (04.02.2014) voru tvö tilefnislaus viðtöl í sama fréttatíma Ríkissjónvarpsins við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Er búið að virkja fréttastofuna til að lappa upp á ímynd ráðherrans vegna lekans úr ráðuneyti hennar? Eru einhver tengsl milli fréttastofunnar og ráðuneytisins? Allt var þetta fremur undarlegt. Tvö tilefnislaus viðtöl og hluti annars viðtalsins endurtekinn í seinni fréttum. Enn var viðtal við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í seinni fréttum Ríkissjónvarps í gærkveldi. étin upp gömul ummæli um aðkomu einkaframtaks að Keflavíkurflugvelli. Þetta ber mikinn keim af því að verið sé að beita fréttastofu Ríkissjónvarpsins fyrir vagn þessa ráðherra, sem nú á mjög í vök að verjast vegna lekaklúðurs og skýringaskorts. Þetta eru vond vinnubrögð. Afspyrnu vond. Rétt er að geta þess, að Morgunblaðið hefur ekki skammað fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir öll þessi viðtöl við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
Ítrekað var talað um Garð á Reykjanesi í Djöflaeyjunni í Ríkissjónvarpinu (04.02.2014). Garðurinn er ekki á Reykjanesi. Mælt er með því að ágætur umsjónarmaður þessa þáttar líti á landakort. Garðurinn er á Rosmhvalanesi. Reykjanesið er annarsstaðar.
Nú eru í Ríkissjónvarpinu íþróttafréttir í fréttatímum. Svo er sérstakur fréttatími alla daga helgaður íþróttum. Eru íþróttadekri Ríkissjónvarpsins engin takmörk sett?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.2.2014 | 10:52
Molar um málfar og miðla 1405
Molaskrifari þakkar bréfið.
Gestastofa í Snæfellsþjóðgarði opnar á morgun, var sagt í morgunþætti Rásar tvö (04.02.2014). Ekki var frá því greint hvað gestastofan mundi opna. Fréttastofan er alveg búin að ná þessu og hætt að láta kjörstaði opna. Betur má ef duga skal.
Rafn sendi Molum dæmi um sama af mbl.is (04.02.2014): ,,Ríkiskaup, fyrir hönd RKÍ, hafa óskað eftir tilboðum í 13 nýjar sjúkrabifreiðar, sem eru í tveimur stærðarflokkum, til afhendingar fyrir 10. desember 2014. Útboðið opnar 11. febrúar nk. Og Rafn spyr: ,,Hvað skyldi útboðið eiga að opna??? - Ekki er nema von að spurt sé. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.
Gunnar skrifaði Molum (02.02.2014): ,, Og í kvöld erum við að fara að sjá viðureign Menntaskólans á Akureyri og Fjölbrautaskóla Vesturlands, Akranesi, sagði Björn Arnarsson, kynnir í Gettu betur. Mun betra hefði verið að segja: Í kvöld sjáum við
Við erum allavega ekki að fara að sjá eitthvað markalausa viðureign hérna í kvöld, spurði hann dómarana. Markalaus spurningakeppni? Fá liðin mörk í stað stiga eða er spyrillinn fastur í handboltaumfjöllun?
Hér þarf vanda sig betur. - Molaskrifari þakkar Gunnari bréfið.
Bæði í fréttum Ríkisútvarps og á mbl.is (04.02.2014) var sagt að verið væri að leita að manni í sjónum við norðurenda Reykjavíkurhafnar. Molaskrifari hnaut um þetta og velti fyrir sér hvort fréttaskrifarar vissu hvar norðurendi Reykjavíkurhafnar væri. Rafn skrifaði Molum um þetta og vitnar í fréttina:
,,Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu leita nú manns sem talið er að hafi farið í sjóinn við norðurenda Reykjavíkurhafnar í kvöld. Sást til hans fara út á varnargarðinn um klukkan 21.00 en hann kom ekki til baka. Óskað var eftir aðstoð björgunarsveita um 45 mínútum síðar.
Rafn spyr:,,Hvar er norðurendi þess sem liggur milli austurs og vesturs?? Rafn sendi mynd af hafnarmynni Reykjavíkurhafnar, en Molaskrifara tókst ekki að koma henni hér fyrir.
Hann segir svo: PS: Trúlega er hér vísað til Norðurgarðs, eða jafnvel olíubryggjunnar sem er utan hafnar. Þótt strandlengjan snúi mót norðri, þá eru Örfirisey og uppfyllingar henni tengdar norðan við strandlínuna, þótt hæpið sé að tala um enda. Molaskrifari þakkar bréfið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)