27.2.2014 | 22:44
Molar um málfar og miðla 1424
Vegna lagningu (raflínu) var sagt í fréttayfirliti í sex fréttum Ríkisútvarps (26.02.2014). í fréttinni var hinsvegar réttilega sagt: Vegna lagningar raflínu.
GÓG benti á eftirfarandi frétt af visir.is: http://www.visir.is/startadi--selfie--trendinu/article/2014140229105
Hann segir:
,,Ég held að það sé farsælast fyrir Lilju Katrínu Gunnarsdóttur að finna sér annan starfa. Hún ræður augljóslega ekki við að skrifa íslensku.
Fyrirsögnin Startaði selfie trendi ber þess glöggt merki. Það er eiginlega ekkert annað en hneisa að fyrirsögn sem þessi skuli sjást á íslenskum fréttamiðli. Hann er ekki hægt að tala alvarlega.
Molaskrifari þakkar sendinguna og er hjartanlega sammála.
Nefnt hefur verið í Molum að heiti sjónvarpsþáttarins Ísland got talent á Stöð tvö sé vondur hrærigrautur ensku og íslensku. Önnur sjónvarpsþáttaröð er nú sýnd á Skjá einum þar sem svipað heiti kemur við sögu. Þáttaröðin heitir: The Biggest Loser Ísland. Þessi þáttaheiti eru málfarslegur subbuskapur. Fagfólk hefur einnig gagnrýnt efni þessara þátta með gildum rökum.
Bílasalinn BL ehf auglýsir í Fréttablaðinu (27.02.2014): Þú tankar sjaldnar á Renault. Er þá átt við að sjaldnar þurfi að fylla eldsneytisgeyminn á Renault en öðrum bílum. Sögnin að tanka er ekki til í málinu. Í orðabókinni er hinsvegar nafnorðið tanka. Það er japanskt ljóðform, fimm órímaðar braglínur með ákveðnum atkvæðafjölda í hverri.
Í frétt á dv.is (27.02.2014) segir frá tillögu Framsóknarmanna um áburðaverksmiðju í Helguvík. Villan er bæði í fyrirsögn og í fréttinni. http://www.dv.is/frettir/2014/2/27/vilja-blasa-ungu-folki-von-i-brjost-med-aburdaverksmidju/
Hverskonar áburði ætli Framsóknarmenn vilji framleiða í Helguvík? Þetta á auðvitað að vera áburðarverksmiðja.
Bjarni Benediktsson var mjög góður í Hraðfréttadelluþætti Ríkissjónvarpsins (27.02.2014). Hann sagði ekki neitt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2014 | 21:34
Molar um málfar og miðla 1423
Morgunblaðið gætti þess vel að birta ekki yfirlitsmynd af Austurvelli frá mótmælafundinum á mánudag (24.02.2014) þar sem hefði sést allur manngrúinn, sem þar var saman kominn. Það hentaði ekki ritstjórnarstefnu blaðsins, sem stundum tekur völdum af fagmönnum í fréttamennsku, sem þar vissulega starfa. Þetta minnir á þá gömlu daga, þegar sá víðkunni ljósmyndari Morgunblaðsins, Ólafur K. Magnússon á að hafa spurt, þegar hann var gerður út af örkinni til að taka mynd af fundum: Á að vera margt á fundinum ? Ritstjórum Morgunblaðsins þótti sennilega ekki við hæfi að margt væri á fundinum á Austurvelli.
Í ljósvakamiðlum verður að gera þá kröfu að framburður sé skýr og rétt sé farið með grundvallaratriði móðurmálsins. Molaskrifari hefur sennilega hlustað á símaþættina í Útvarpi Sögu á morgnana í samtals 15 mínútur frá því snemma í haust. Alltaf sömu símavinir á sömu nótum. Þessi hlustun dugði þó til þess að hann heyrði útvarpsstjórann segja við símavin: Þú ert alveg meda. Molaskrifari játar að hann skildi þetta ekki í fyrstu. Svo rann það upp fyrir honum að útvarpsstjórinn var að reyna að segja: Þú ert alveg með þetta. Í morgun (25.02.2014) var svo Pétur stjórnarformaður við símann og talaði um stjórnarskránna. Æ algengara er orðið að heyra talað um frúnna, brúnna og tánna. Í stað þess að tala um frúna, brúna og tána.
Vinsamleg ábending til Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur, sem sagði í seinni fréttum Ríkissjónvarps (25.02.2014), ... rétt áður en klukkan sló tuttugu tvö. Klukkan slær aldrei tuttugu og tvö. Það væru nú meiri lætin! Klukkan slær tíu.
Önnur vinsamleg ábending. Nú til Björns J. Malmquists fréttamanns hjá Ríkisútvarpinu. Vítti, áminnti, ávítaði, ekki vítaði. Í fréttum á miðnætti á þriðjudagskvöld og aftur á miðvikudagsmorgni (26.02.2014).
.Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.2.2014 | 22:50
Molar um málfar og miðla 1422
Hann segir:
,,Nú um stundir eru milljarðamæringar annaðhvort teknir höndum eða þeim tekið opnum örmum. Vonandi ákveður RÚV sig áður en langt um líður. Molaskrifari þakkar sendinguna.
NN skrifaði Molum eftir fund á Austurvelli (24.02.2014) ,,Veit ekkert hvort ég á að vera fylgjandi ESB eða ekki. Segi pass. Finnst
hins vegar alltaf gaman að vera þar sem sagan verður til. Austurvöllur í dag var þannig staðar. Molaskrifari tekur undir. Hann sótti einnig fundinn á Austurvelli. Það var merkileg upplifun.
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (23.02.2014) var talað um lið sem kepptu í ísknattleik á vetrarólympíuleikunum. Ekki heyrði Molaskrifari betur en fréttamaður segði: Þessir leikmenn þekkja hvorn annan. Hann átti við að keppendur þekktu hverjir aðra vel. Þekktust vel. Molaskrifari gat ekki haft tölu á því hve oft sami fréttamaður sagði, algjörlega, algjörlega, á örfáum mínútum.
Viðtal Helga Seljan við Bjarna Benediktsson í Kastljósi (24.02.2014) verður mörgum sjálfsagt eftirminnilegt. Formaður Sjálfstæðisflokksins svaraði nánast engu, sem um var spurt. Frammistaða staða Helga var óaðfinnanleg. Hann spurði og spurði, en Bjarni Benediktsson fór í eilífa hringi eins og flugvél sem ekki getur lent vegna þoku. Ekki skal því spáð, en gæti það verið að formaður Sjálfstæðisflokksins ætti eftir að upplifa pólitíska brotlendingu? Hann er búinn að fá næstum allt atvinnulífið (nema LÍÚ) á móti sér og Sjálfstæðisflokknum. Það er undarleg staða, sagði fyrrum Sjálfstæðismaður við Molaskrifara, þegar forsætisráðherrann stöðugt talar niður til atvinnulífsins og formaður Sjálfstæðisflokksins, fjármálaráðherrann, hlustar ekki á atvinnulífið.
Strjálir Molar næstu daga.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.2.2014 | 23:17
Molar um málfar og miðla 1421
Á laugardag (22.02.2014) birtist í Fréttablaðinu heilsíðu auglýsing frá Brimborg þar sem auglýstir eru Volvo bílar. Þvert yfir síðuna stendur: Made by Sweden ( sem er reyndar dálitið einkennilega til orða tekið). Aftur er spurt: Hversvegna ávarpar Brimborg, íslenskt fyrirtæki, okkur, íslenska lesendur, á ensku? Þeir gætu reyndar alveg eins sagt um Volvobílana: Made by the Chinese. Framleiddir af Kínverjum. Kínverjar eiga nefnilega Volvo bílaverksmiðjurnar. Hvað rugl er þetta eiginlega? Hversvegna er alltaf verið að tala við okkur á ensku í íslenskum auglýsingum?
Í bílaauglýsingu frá Heklu sem sýnd er kvöld eftir kvöld í sjónvarpi er talað um Bandalag íslenskra blaðamanna. Molaskrifari veit ekki til þess að slíkt bandalag sé til. Til er Blaðamannafélag Íslands og Bandalag íslenskra bílablaðamanna. Hversvegna er þetta ekki lagfært?
Okjökull er að hverfa, sagði í fyrirsögn á mbl.is (23.02.2014) : Molaskrifari á því ekki að venjast að talað sé um Okjökul, heldur Ok eða Okið. Jón Helgason orti:
Handan við Okið er hafið grátt,
heiðarfugl stefnir í suðurátt,
langt mun hans flug áður dagur dvín,
drýgri er þó spölurinn heim til mín.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/02/23/okjokull_er_ad_hverfa/
Linnulaust fer Ríkisútvarpið á svig við lögin í landinu og birtir ódulbúnar áfengisauglýsingar og mærir bjórþamb. Hversvegna þurfti að byrja svo kallaðar Hraðfréttir á laugardagskvöldi með tilgangslausu bjórþambi? Þá fannst Molaskrifara taka í hnúkana. Stjórnendur Ríkisútvarpsins kunna sér ekki hóf og kunna heldur ekki að skammast sín. Hversvegna lætur menntamálráðherra það viðgangast að lög séu brotin í Efstaleiti? Er honum alveg sama?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2014 | 22:39
Molar um málfar og miðla 1420
Hann segir:
,,Kári hefur stefnt Lex og Karli Axelssyni, einum af eigendum stofunnar, vegna reikninga í tengslum við vinnu lögmannsstofunnar fyrir hann við málsvörn hans í dómsmáli verktakans Fonsa ehf gegn Kára vegna steypun á glæsihýsi hans við Fagraþing nærri Elliðavatni."
Hvað er ,,steypun"? Veist þú það Eiður?
Molaskrifari verður að játa að orðið steypun hefur hann aldrei heyrt. Er þetta ekki bara steypa hjá dv.is eins og stundum er sagt á ekki mjög vönduðu máli?
Úr DV (21.02.2014). Millifyrirsögn í grein á bls. 14: Óljóst hvort undirmenn bróðurs rannsaki. Eignarfallið er að sjálfsögðu bróður. Grunnskólavilla. Meira úr sama blaði: Á bls. 51 er talað um Geneva-borg. Það skyldi þó ekki vera Genf? Kannski er til Genever- borg. Hún er þá líklega í Hollandi.
Margrét Sig. benti á eftirfarandi á fésbók (20.02.2014), - Molaskrifari hafði reyndar hnotið um þessa fyrri sögn fyrr um daginn: Í Fréttablaðinu gefur að líta fyrirsögnina, Pussy Riot konur svipaðar í Sotsjí......( þær voru barðar með svipum ). Þetta er auðvitað fáránleg fyrirsögn!
Molaskrifari vill meiri festu í flutning veðurfregna í Ríkissjónvarpinu. Stundum eru okkur sýnd veðurkort af Evrópu og stundum kort af Norður Ameríku. Sára sjaldan sjáum við veðurkort af öðrum heimshlutum. Það er eins og duttlungar veðurfræðinga ráði því hverju sinni hvaða kort eru sýnd, - eða hvað? Birta Líf veðurfræðingur þarf að huga að áherslum. Henni hættir til að flytja áherslur á seinni hluta orða. Tala um suðurSTRÖNDINA. Í íslensku er áhersla jafnan á fyrsta atkvæði.
Og svo skal enn einu sinni þráspurt: Hversvegna eru ekki borgaheiti á veðurkortum Ríkissjónvarpsins? Ræður tækni sjónvarps allra landsmanna ekki við svo einfalt atriði?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2014 | 09:03
Molar um málfar og miðla 1419
Hann segir: Kostnaður við gerð gangnanna verður á bilinu 26 milljarða Bandaríkjadala.
Hér er ekkert bil í kostnaðaráætlun.
Kostnaðurinn er áætlaður 26 milljarðar USD!
Molaskrifari þakkar Trausta og bætir við. Svo á þetta auðvitað að vera: Kostnaður við gerð ganganna, ekki gangnanna!
Af mbl.is (19.02.2014): Slit varð á ljósleiðara Mílu milli Flúða og Laugaráss fyrr í dag. Undarlegt orðalag. Ljósleiðari slitnaði, fór í sundur. Hafi það verið vinnuvél sem sleit ljósleiðarann hefði mátt segja það.
Meira af mbl.is sama dag: Geir er menntaður vélvirki frá Vélsmiðjunni Héðni hf., menntaður lögreglumaður frá Lögregluskóla ríkisins og menntaður í stjórnunarfræðum frá Háskóla Íslands. Þetta er vissulega mikil menntun, en ekki er orðaforðinn mikill hjá þeim sem skrifaði.
Molalesandi spyr: Hversvegna virðast menn hafa gleymt hinu ágæta orði ókeypis og tala þess í stað um að eitt og annað sé frítt? Molaskrifari tekur undir með spyrjanda og þakkar ábendinguna.
Úr frétt á visir.is (14.02.2014): Gífurlegt magn svifryks hefur þyrlað um alla Reykjavík í dag. Hér hefði nægt að segja: Gífurlegt magn svifryks hefur verið í Reykjavík í dag, eða í loftinu í Reykjavík í dag. Ekki þyrlað um alla Reykjavík. http://www.visir.is/folk-hvatt-til-ad-halda-sig-innandyra-/article/2014140218609
Hverjum langar ekki í kjúkling marinereðan á Portúgalskan hátt? Svona auglýsir fyrirtækið Portugalgrill á fésbók (19.02.2014). Tvær villur í stuttri setningu. Ætti að vera: Hvern langar ekki í kjúkling marineraðan á portúgalskan hátt? Ef matreiðslan er í stíl við málfræðina gefur Molaskrifari ekki mikið fyrir þetta.
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (19.02.2014) var talað um fjórfættan senuþjóf (hund sem gerði stykki sín á vellinum í miðjum knattspyrnuleik í Argentínu) og sagt hann hefði svo spássérað agalega lukkulegur út af vellinum. Ja hérna!
Á fésbók var bent á þessa villu í fyrirsögn á dv.is (20.02.2014): Húðskammar keppenda fyrir að skrópa. Sjá: http://www.dv.is/lifsstill/2014/2/19/hudskammar-keppenda-fyrir-ad-skropa/ Húðskammar keppanda, á þetta að vera.
Molaskrifara finnst mælirinn fullur og skekinn, þegar Kastljósið í Ríkissjónvarpinu er líka lagt undir íþróttir að loknum fyrri íþróttafréttum kvöldsins, - á fimmtudagskvöld (20.02.2014). Kastljós um íþróttir milli tveggja íþróttafréttatíma !
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.2.2014 | 09:34
Molar um málfar og miðla 1418
Í sömu frétt var sagt að viðræðum við ESB hefði verið slitið. Það er ekki rétt eins og þeir vita sem fylgjast sæmilega með. Viðræðum var hætt, þær liggja niðri. Þeim hefur ekki verið formlega slitið.
Furðulegt er oft fréttamatið hjá fréttastofu Ríkisútvarpsins. Í seinni fréttum í gærkvöldi (19.02.2014) var nokkuð löng frétt og viðtal við Vigdísi Hauksdóttur, Framsóknarþingmann, sem var að messa á á 10-15 manna fundi (eftir myndunum að dæma) á Sauðárkróki. Er þá Jón Bjarnason meðtalinn. Þetta var mikil ekki-frétt, eins og stundum er sagt. Ekki-frétt sjónvarpsins var svo öll endurtekin í miðnæturfréttum Ríkisútvarps. Þetta er að líkindum í fyrsta sinn sem fimmtán manna fundur verður svo mikið fréttaefni í Efstaleitinu. Hvað veldur?
Í auglýsingu frá fyrirtækjum á Ísafirði í Ríkisútvarpinu á miðvikudag (19.02.2014) var þrástagast á - Hvað er að gerast á helginni? Er enginn á auglýsingadeild Ríkisútvarpsins lengur sem hefur snefil af tilfinningu fyrir íslensku máli? Hvar er málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins? Eðlilegt og venjulegt væri að spyrja: Hvað er að gerast um helgina?
Í ellefu fréttum Ríkisútvarps (18.02.2014) var fjallað var um ESB aðild og styrki til landbúnaðar. Þar var talað um kjúklingabændur og svínabændur. Nútíma framleiðsla á svínakjöti, kjúklingum og eggjum á ákaflega lítið skylt við landbúnað. Er í rauninni óravegu frá landbúnaði. Þetta er hálfgerð verksmiðjuframleiðsla, oft í eigu stórfyrirtækja. Í næstu frétt var svo fjallað um innflutningshömlur á landbúnaðarvörum á Íslandi. Það var mjög við hæfi!
Þegar Morgunblaðið segir í fimm dálka forsíðufyrirsögn (18.04.2014) Engar varanlegar undanþágur, (um samning við ESB) er það í besta falli að bera hálfsannleik á borð fyrir lesendur sína, ef ekki beinlínis að reyna villa um fyrir fólki. Það er engin tilviljun að Morgunblaðið fékk skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá ríkisstjórninni áður en þingmenn fengu skýrsluna í hendur. Það var til þess gert að blaðið gæti matreitt hana, túlkað, að vild áður en hún var gerð opinber. Það eru líka vond vinnubrögð hjá ríkisstjórn Íslands.
Finnar sömdu um sérlausnir fyrir finnskan landbúnað. Þær sérlausnir fela í sér varanlegar undanþágur og eru staðfestar í aðildarsamningi. Þessvegna er þetta leikur að orðum, og heldur ljótur leikur því tilgangur hans er að villa um fyrir lesendum Morgunblaðsins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fékk silkihanska viðtal í morgunþætti Bylgjunnar í morgun (20.02.2014).Ekki mikið á því að græða.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.2.2014 | 09:34
Molar um málfar og miðla 1417
Viðskiptajöfnuðurinn hefur aldrei verið meiri en hann nam 133,9 milljörðum danskra króna 2013 sem er 24,7 milljörðum meira en árið áður. Sjá: http://www.pressan.is/Vidskipti/Lesavidskiptafrettir/danmork-vidskiptajofnudurinn-slo-oll-met-2013
Rafn segir: ,,Er þessi frétt ekki dæmi um ójöfnuð fremur en jöfnuð?? Fréttin er af vef Pressunnar.
Þetta minnir mig á þegar fyrrverandi ráðherra tók til marks um fullan jöfnuð kynja í nýrri ríkisstjórn Íslands, að það voru sendar 3 konur og 1 karl til að kynna hina þá nýju ríkisstjórn. Slíkt hefði seint verið talið fullur jöfnuður í minni sveit.
Í mínum huga getur misvægi aldrei orðið jafnvægi, þótt það sé á þann veg sem er viðkomandi þóknanlegur. Molaskrifari þakkar bréfið.
KÞ vakti athygli Molaskrifara á meiri snilld á vefnum pressan.is (17.02.2014): Það kemur væntanlega ekki mörgum á óvart að mannréttindabrot eru algeng í einræðisríkinu Norður-Kóreu en umfang þeirra og hryllilegar aðferðir stjórnvalda við að kúga almenning virðast ekki eiga sér engin takmörk. Enginn yfirlestur eða gæðaeftirlit með því sem birt er. http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/02/17/ny-skyrsla-sth-hryllileg-mannrettindabrot-i-nordur-koreu/
Fréttabarn hefur verið á vaktinni á mbl.is síðdegis mánudag (17.02.2014). Þar var svohljóðandi fyrirsögn: Hótaði að klessa vélinni. Fréttin var um flugmann sem hótaði að brotlenda farþegaflugvél. Fyrirsögnin var lagfærð um kvöldið.
Molalesandi, HH, vakti athygli á auglýsingu frá ProOptik á vefsíðunni http://www.hun.is/. Þar segir: 18 ára og yngri eiga rétt á endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa , við útbúum gleraugu sem nemur upphæð endurgreiðslunnar. Það er svo sannarlega ekki fyrir alla að skilja hvað hér er átt við.
Í fyrirsögn á forsíðu DV (18.-20.02.2104) stendur: Óbreyttir starfsmenn voru sendir í sprengjuhættu. Hversvegna þarf að taka fram að þetta hafi verið óbreyttir starfsmenn? Molaskrifari hefði notað orðið sprengihætta ekki talað um sprengjuhættu. Heldur ekki að senda menn í hættu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.2.2014 | 07:47
Molar um málfar og miðla 1416
Meira af mbl.is (16.02.2014): Á þessari leið braut hann fjölda umferðarlaga auk þess sem hann var undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Fréttin var um ökuníðing. Það eru aðeins ein umferðarlög en í þeim er margar umferðarreglur.
Það kom mér svolítið á óvart að hann væri að eiga við mig. Ótrúleg dellufyrirsögn á dv.is. Látið er líta svo út að þetta sé tilvitnun í orð prófessors Þórólfs Matthíassonar. Tilvitnaða setningu er hinsvegar hvergi að finna í fréttinni. Sjá: http://www.dv.is/frettir/2014/2/16/thad-kom-mer-svolitid-ovart-ad-heyra-thessi-ord/
,,... að hann væri að eiga við mig, hefur auk þess aðra merkingu eins og sjálfsagt flestir vita.
Hversvegna auglýsir Ferðafélag Íslands, íslenskasta félag af öllum félögum á Íslandi, eins og Jóhannes Reykdal orðaði svo ágætlega á fésbók, á heilli síðu í Morgunblaðinu (16.02.2014) undir fyrirsögninni: The Biggest Winner! Hversvegna þarf Ferðafélag ÍSLANDS að ávarp okkur Íslendinga á ensku. Það er Molaskrifara fyrirmunað að skilja.
Alveg dæmalaust hvað fréttastofu Ríkisútvarpsins hefur orðið mikið úr svokallaðri Söngvakeppni. Úrslitin tilkynnt aftur og aftur í hverjum fréttatímanum á fætur öðrum um helgina. Það er stundum einkennilegt fréttamatið í Efstaleiti.
Það er óþarfi hjá Gísla Marteini Baldurssyni í Ríkissjónvarpinu að herma það eftir Telmu Tómasson á Stöð tvö að segja okkur hlustendum að fara ekki langt, þegar gert er stutt auglýsingahlé. Við erum alveg einfær um að ákveða þetta sjálf og þurfum enga ráðgjöf í þeim efnum.
Eirberg auglýsir barnahálkubrodda (16.02.2014). Hvað er barnahálka?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2014 | 08:55
Molar um málfar og miðla 1415
Meira úr sama fréttatíma um þá sem dæmdir voru í hinu svokallaða Stokkseyrarmáli. Sagt var um þrjá sakborninga, að þeir hefðu fengið tveggja og hálfs árs til þriggja og hálfs ára fangelsisdóma. Þriggja og hálfs árs fangelsisdóma hefði þetta átt að vera. Sagt var að fimm menn hefðu samtals hlotið 12 ára fangelsisdóma. Það segir okkur ósköp lítið hver árafjöldinn var samtals hjá dæmdum sakamönnum. Máli skiptir dómurinn yfir hverjum og einum.
Í þessari frétt á mbl.is (13.02.2014) um að Edda Hermannsdóttir fari til starfa á nýrri sjónvarpsstöð, Miklagarði, notar hún orðið skemmtilegur þrisvar sinnum í fimm línum! Það verður skemmtilegt að fylgjast með því hvort orðgnóttin verður meiri þegar nýja sjónvarpsstöðin tekur til starfa. Vonandi. http://www.mbl.is/smartland/stars/2014/02/13/edda_hermannsdottir_fer_yfir_a_miklagard/
Sigurgeir skrifaði (14.02.2014): ,,Í netútgáfu Viðskiptablaðsins 14. feb. 2014 segir svo:
-Athafnamaður hlaut tveggja og hálfs árs dóm í fyrra fyrir að hafa snuprað bankana um hundruð milljóna í fasteignaviðskiptum.
Er það ekki nokkuð þungur dómur að fá tvö og hálft ár fyrir að snupra banka? Ég hélt að sögnin að snupra merkti hið sama og að ávíta eða skamma. En kannski er manni hollara að gæta orða sinna ef bankastofnanir komast til tals. Þetta er rétt, Sigurgeir. Skrifari virðist hafa ruglað saman sögnunum að snupra og að snuða (d. snyde), svíkja, plata , svindla á.
Í fréttum Ríkisútvarps var sagt fyrir helgina að þingmenn á tyrkneska þinginu hefðu látið hnefana tala, þegar til slagsmála kom í þinginu. Molaskrifari hefði kunnað því betur, að sagt hefði verið að þingmenn hefðu látið hendur skipta, eða hreinlega að þingmenn hefðu slegist.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)