11.10.2016 | 14:29
Molar um málfar og miðla 2032
AÐILAR ENN OG AFTUR
Aðilar komu mjög við sögu í lögreglufréttum Bylgjunnar á hádegi á laugardag (08.10.2016), - aldrei þessu vant. Ellefu aðilar voru á staðnum , - aðili féll í götuna. Er þessu fréttaskrifurum ekki sjálfrátt? Hallast eiginlega að því.
RÖKRÉTT HUGSUN
Skólabróðir, sem er áhugamaður um velferð móðurmálsins, og Molaskrifari hafa verið að skrifast á í tölvupósti um móðurmálið. Síðast ræddum við þá málvilllu og rökvillu sem felst í því að tala um að sýning opni eða verslun opni. Skólabróðir skrifara sagði í bréfi fyrir helgina: ,, Sæll, já þetta er frjótt umræðuefni, þ.e. málfarið, en þetta síðast nefnda (verslanir opna, sýningar opna) er leiðinlegt vegna hins áberandi skorts á rökréttri hugsun og ekki bara vöntunar á íslenskukunnáttu. Ég man að í gamla daga bentu góðir kennarar okkar á að góð íslenskukunnátta væri nauðsynleg forsenda þess að ná viðunandi tökum á erlendum tungumálum. Ég gæti trúað að þú hefðir fundið sönnur fyrir þeirri staðhæfingu. Ég veit ekkert hvað kennarar segja nú orðið. Spakir menn hafa bent á samband máls og hugsunar, sem auðvitað liggur að nokkru leyti i augum uppi, en þeir hafa haft uppi fróðlegar athugasemdir og jafnvel uppgötvanir í því efni. Skarpur skilningur krefst skarprar málkenndar held ég að þeir vísu menn boði og það með réttu. Mér hefur oft dottið í hug að útlenskukunnátta Íslendinga almennt sé minni en menn halda; hún er svo yfirborðsleg og tengd dægurmenningu, verslun og viðskiptum. Ef við bætist að menn hafa ekki lengur viðunandi kunnáttu í móðurmálinu til tjáningar og skilnings getur svo farið að menn verði málvana en e.t.v. ekki alveg mállausir!. Þakka þessa þörfu hugvekju.
GAMLAR AUGLÝSINGAR
Að gefnu tilefni var Molaskrifari að skoða Morgunblaðið frá 19. nóvember 1947. Þar var margan fróðleik að finna. Þar voru smáauglýsingar á heilli síðu. Auglýsingarnar segja margt um íslenskt samfélag í nóvember 1947.
Þar auglýsti Herrabúðin, Skólavörustíg 2, sími 7575: Án skömmtunar, Kuldahúfur.
Söluskálinn Klapparstíg 11, sími 2926 auglýsti frakka og föt án skömmtunarseðla.
Einhvern vanhagaði um upphlutsmillur, annar vildi kaupa nýjan amerískan ísskáp og sá þriðji vildi kaupa nýjan Chevrolet 1947.
Já, þarna kennir margra grasa.
Liverpool auglýsti olíuvjelar eins og tveggja hólfa og svo var til sölu svört, falleg kápa meða persian skinni nr 42.
En skemmtilegasta auglýsingin var þessi:
Bílstjórinn, sem talaði við mig í versluninni Ræsir mánudaginn 17. nóv. og ætlaði að láta mig hafa spindilbolta fyrir bremsuvökva, gjöri svo vel að tala við mig sem fyrst. Júlíus Jóhannesson , Þverholt 18b. - Þessi auglýsing segir mikið um lífið á Íslandi haustið1947.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
AÐILAR ENN OG AFTUR
Aðilar komu mjög við sögu í lögreglufréttum Bylgjunnar á hádegi á laugardag (08.10.2016), - aldrei þessu vant. Ellefu aðilar voru á staðnum , - aðili féll í götuna. Er þessu fréttaskrifurum ekki sjálfrátt? Hallast eiginlega að því.
RÖKRÉTT HUGSUN
Skólabróðir, sem er áhugamaður um velferð móðurmálsins, og Molaskrifari hafa verið að skrifast á í tölvupósti um móðurmálið. Síðast ræddum við þá málvilllu og rökvillu sem felst í því að tala um að sýning opni eða verslun opni. Skólabróðir skrifara sagði í bréfi fyrir helgina: ,, Sæll, já þetta er frjótt umræðuefni, þ.e. málfarið, en þetta síðast nefnda (verslanir opna, sýningar opna) er leiðinlegt vegna hins áberandi skorts á rökréttri hugsun og ekki bara vöntunar á íslenskukunnáttu. Ég man að í gamla daga bentu góðir kennarar okkar á að góð íslenskukunnátta væri nauðsynleg forsenda þess að ná viðunandi tökum á erlendum tungumálum. Ég gæti trúað að þú hefðir fundið sönnur fyrir þeirri staðhæfingu. Ég veit ekkert hvað kennarar segja nú orðið. Spakir menn hafa bent á samband máls og hugsunar, sem auðvitað liggur að nokkru leyti i augum uppi, en þeir hafa haft uppi fróðlegar athugasemdir og jafnvel uppgötvanir í því efni. Skarpur skilningur krefst skarprar málkenndar held ég að þeir vísu menn boði og það með réttu. Mér hefur oft dottið í hug að útlenskukunnátta Íslendinga almennt sé minni en menn halda; hún er svo yfirborðsleg og tengd dægurmenningu, verslun og viðskiptum. Ef við bætist að menn hafa ekki lengur viðunandi kunnáttu í móðurmálinu til tjáningar og skilnings getur svo farið að menn verði málvana en e.t.v. ekki alveg mállausir!. Þakka þessa þörfu hugvekju.
GAMLAR AUGLÝSINGAR
Að gefnu tilefni var Molaskrifari að skoða Morgunblaðið frá 19. nóvember 1947. Þar var margan fróðleik að finna. Þar voru smáauglýsingar á heilli síðu. Auglýsingarnar segja margt um íslenskt samfélag í nóvember 1947.
Þar auglýsti Herrabúðin, Skólavörustíg 2, sími 7575: Án skömmtunar, Kuldahúfur.
Söluskálinn Klapparstíg 11, sími 2926 auglýsti frakka og föt án skömmtunarseðla.
Einhvern vanhagaði um upphlutsmillur, annar vildi kaupa nýjan amerískan ísskáp og sá þriðji vildi kaupa nýjan Chevrolet 1947.
Já, þarna kennir margra grasa.
Liverpool auglýsti olíuvjelar eins og tveggja hólfa og svo var til sölu svört, falleg kápa meða persian skinni nr 42.
En skemmtilegasta auglýsingin var þessi:
Bílstjórinn, sem talaði við mig í versluninni Ræsir mánudaginn 17. nóv. og ætlaði að láta mig hafa spindilbolta fyrir bremsuvökva, gjöri svo vel að tala við mig sem fyrst. Júlíus Jóhannesson , Þverholt 18b. - Þessi auglýsing segir mikið um lífið á Íslandi haustið1947.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2016 | 12:04
Molar um málfar og miðla 2031
BROTTVÍSUN
Það kemur fyrir að reyndir þulir og fréttamenn lesi málvillur í fréttum án þess að hika, - hvað þá leiðrétta. Í átta fréttum Ríkisútvarps á föstudagsmorgni (07.10.2016) las fréttamaður: Hælisleitenda sem vísað var úr landi og sendur til Noregs á miðvikudag var sendur hingað aftur samdægurs. Þetta hefur Fréttablaðið eftir .... Þetta hefði átt að vera: Hælisleitandi,sem vísað var úr landi og sendur til Noregs á miðvikudag, var sendur hingað aftur samdægurs ..... Fyrst ætti að lesa yfir og svo þarf sá sem les að hlusta grannt.
AÐ KAUPA - AÐ VERSLA
Sæunn Gísladóttir,sem merkir sér þessa frétt á visir.is (07.10.2016). Henni, eins og ýmsum öðrum fréttaskrifurum, er ekki ljós merkingarmunurinn á sögnunum að kaupa og að versla.
http://www.visir.is/pundid-ekki-laegra-sidan-fyrir-hrun/article/2016161009017
Sæunn segir í fréttinni: Lækkun gengi pundsins hefur neikvæð áhrif á útflutning íslenskra sjávarafurða til Bretlands og gæti dregið úr neyslu breskra ferðamanna hér á landi. Aftur á móti er nú ódýrara fyrir Íslendinga að versla breskar vörur.
Það er rangt og út í hött að tala um að versla breskar vörur. Hér ætti að tala um að kaupa breskar vörur. Við kaupum breskar vörur í verslunum, sem versla með breskar vörur. Þetta er ekki flókið, eða hvað?
Einnig segir í fréttinni: Lækkun gengi pundsins .... Þetta er ekki rétt. Mætti til dæmis vera: Lækkun á gengi pundsins, gengislækkun pundsins eða lækkun gengis pundsins.
ENGIN HÆTTA BÚIN
Svohljóðandi fyrirsögn var á visir.is (07.10.2016): Dómarinn telur drengnum engin hætta búin í Noregi. Þetta hljómar ekki rétt í huga Molaskrifara. Kannski er það sérviska. Betra væri að mati Molaskrifara, til dæmis: Dómari telur að drengnum sé engin hætta búin í Noregi. Eða: Dómari telur drengnum enga hættu búna í Noregi.
http://www.visir.is/domarinn-telur-drengnum-engin-haetta-buin-i-noregi/article/2016161009180
ENN ER STAÐSETT.
Orðið staðsett, að staðsetja, er ofnotað og oftast óþarft. Í Augnabliksþættinum úr sögu Sjónvarpsins sl. föstudagskvöld (07.10.2016) var okkur sagt að Gestastofa Ríkisútvarpsins væri staðsett á fyrstu hæð útvarpshússins. Gestastofan er á fyrstu hæð útvarpshússins. Hún er ekki staðsett þar. Hún er þar.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Breytt 11.10.2016 kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2016 | 10:03
Molar um málfar og miðla 2030
2030-16
FLOGIÐ Í GEGNUM EVRÓPU
Sérkennilegt orðalag í frétt á mbl.is (05.10.2016): Fjögur Evrópuríki sendu herþotur til móts við rússnesku Blackjack-herflugvélarnar sem flugu í gegnum Evrópu til Spánar og til baka í lok síðasta mánaðar.
Það hlýtur að hafa verið mikill skellur, eða hvað?
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/10/05/flugu_herthotum_i_veg_fyrir_russa/
AFHENDING VETTVANGS
Annað dæmi um undarlegt orðalag í frétt á mbl.is (005.10.2016): Hefur slökkvilið því lokið störfum og afhent starfsmönnum hafnarinnar vettvanginn. Hvernig afhenda menn vettvang? Sennilega er átt við að málið sé nú í höndum starfsmanna hafnarinnar.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/05/vikingaskipid_sokk_i_storminum/
BELGAR BJARGA SKIPI
Úr frétt af visir.is (05.10.2016) um skip,sem sökk í Reykjavíkurhöfn: Þegar þetta er skrifað vinna starfsmenn Köfunarmiðstöðvarinnar að því að koma belgum á skipið svo hægt verði að ná því upp og á þurrt. Það var og. Belgir voru notaðir til að lyfta skipinu, belgjum var komið á skipið.
http://www.visir.is/vikingaskipid-vesteinn-sokk-vid-bryggju/article/2016161009296
SPOR
Á baksíðu Morgunblaðsins (06.109.2016) er fyrirsögnin: Yfir Sprengisand í sporum langafa síns. Fréttin er um mann, Jón Þór Sturluson, sem fór gangandi suður Sprengisand, sömu leið og langafi hans hafði gengið fyrir réttum hundrað árum. það er kannski sérviska, en Molaskrifari er ekki fullsáttur við þessa fyrirsögn. Finnst að hún hefði heldur átt að vera, til dæmis: Yfir Sprengisand í fótspor langafa síns. Jón Þór var ekki sporum langafa síns, aðstæður hans voru ekki þær sömu. Langafi hans hélt suður til að hitta unnustu sína og hefja búskap. Jón Þór fór hinsvegar suður Sprengisand í fótspor langafa síns; hann fór í stórum dráttum sömu leið, þvert yfir landið. Skemmtileg frétt og talsvert afrek að ganga þessa leið.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2016 | 09:43
Molar um málfar og miðla 2029
GRÓUSÖGUR
Fríða Björnsdóttir fyrrverandi blaðamaður skrifaði Molum (05.10.2016): ,,Sælir Eiður, þar sem máltilfinning mín er að hverfa langar mig að spyrja þig um eitt. Í gærkvöldi var rætt við forstöðumann Útlendingastofnunar um allan þann fjölda hælisleitenda sem hingað streymir frá Balkanskaganum. Sagði hún þá að það stafaði líklega af Gróusögum sem gengju þar um ágæti Íslands og allt sem mönnum býðst sem hingað koma. Mér finnst Gróusögur ekki geta orðið til þess að mann langi til að heimsækja eitthvert land, því i mínum huga er þetta svo neikvætt orð. Segðu mér hvort ég hef á réttu að standa eður ei. Takk, takk.
Kærar þakkir fyrir bréfið, Fríða. Máltilfinning þín er hreint ekkert að hverfa. Molaskrifari hjó eftir þessari orðnotkun líka. Orðið Gróusaga er neikvætt orð. Hér hefði verið nær að tala um sögusagnir eða orðróm.
Á ALÞINGI
Það er allur gangur því hve þingmönnum lætur vel að tjá sig í ræðustóli, eða hve vel þeir eru að sér um notkun móðurmálsins.- Svo kemur upp úr krafsinu, - sagði þingmaður Bjartrar framtíðar á þriðjudaginn (04.10.2016). Þingmaðurinn ætlaði væntanlega að segja: Svo kemur upp úr kafinu , - svo kemur í ljós, svo kemur það á daginn. Að hafa eitthvað upp úr krafsinu, er að fá umbun eða laun fyrir viðleitni. - Hann talaði við fjölmarga embættismenn og hafði það upp úr krafsinu, að sannað þótti að lög hefðu verið brotin á honum.
Næstur í ræðustól var ungur þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann hóf ræðu á sína á því að segja: Mér langar .... og sagði undir lokin: Ég vill líka taka fram ...
Meira um orðfæri þingmanna. Í útvarpi Sögu heyrði skrifari brot úr þætti (04.10.2016) þar sem þrístirnið, formaður fjárlaganefndar , útvarpsstjóri og stjórnarformaður Sögu bulluðu út í eitt. Formaður fjárlaganefndar sagði: Ég held að Sigurður Ingi hafi brostið kjarkur til að .... Það var og.
MÁLHEILSU HRAKAR
Þótt vissulega starfi margt vel skrifandi og vel málið farið fólk við Morgunblaðið er eins og málheilsu blaðsins fari hrakandi.
Á miðvikudag (05.10.2016) var fjögurra dálka fyrirsögn á bls. 11: Griðarstaður ofbeldisþola. Þetta átti að vera Griðastaður ofbeldisþola. Griðarstaður er út í hött. Orðið grið, friður, er fleirtöluorð. Griðastaður, segir orðabókin, er staður þar sem einhver er óhultur, skjólshús, hæli. Þetta var rétt í fréttilkynningu og á mbl.is. Þar var réttilega talað um griðastað.
En hér er svo skondin fyrirsögn af mbl.is (05.10.2016): Pissaði á hús og var ógnandi.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/05/pissadi_a_hus_og_var_mjog_ognandi/
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2016 | 11:17
Molar um málfar og miðla 2028
AÐ BERA AÐ GARÐI
Að bera að garði. Einhvern bar að garði, - það kom einhver, það kom gestur. Þorvaldur skrifaði (03.10.2016): ,,Sæll enn Eiður.
Í fréttum sjónvarps áðan var sagt frá því að eftirvænting skólabarna á Patreksfirði hafi verið mikil þegar forsetahjónin "báru að garði". Ekki fylgdi sögunni hver byrði hjónanna var. Þakka bréfið, Þorvaldur. Hér hefur einhver skrifað, (það er víst ekki lengur hægt að segja, - haldið á penna) , sem ekki kann að nota þetta orðtak.
ERLENDIS
Of oft heyrir maður talað um að fara erlendis. Ef við förum til útlanda, þá erum við erlendis. Erlendis er atviksorð, dvalarorð. Við förum ekki erlendis. Við förum út eða förum utan Þeir sem s eru í útlöndum eru erlendis. Áður var stundum sagt um þá sem komu til Íslands að þeir hefðu komið upp. Sem barni fannst Molaskrifara það mjög undarlega til orða tekið.
Þegar Færeyingar tala um að fara til Danmerkur tala þeir um að fara niður.
KRAKKAFRÉTTIR
Molaskrifari hefur orðið þess var að svokallaðar Krakkafréttir Ríkissjónvarps njóta vinsælda. Auðvitað má um það deila hvort flytja eigi sérstakar fréttir fyrir börn. En í þessum þáttum ber að leggja sérstaka áherslu á vandað málfar og ekki tala um að sýning opni, þegar sýning er opnuð (03.10.2016).
KÚABRODDAMJÓLK
Í auglýsingu um einn af Kínalífselexírunum sem nú má lesa um í öllum blöðum og á netinu var talað um kraftaverkalyf sem búið væri til m.a. úr kúabroddamjólk. Molaskrifari hefur heyrt talað um brodd, ábrystir, kúabrodd. En orðið kúabroddamjólk hefur hann aldrei heyrt.
SKÆRINGAR
Í fréttum St0öðvar tvö var talað um þessar miklu skæringar. Gott ef ekki var átt við deilurnar í Framsókn. Þarna hefur fréttamaður sennilega verð með orðið í huga, gamalt og gott orð yfir deilur og illindi.
EKKI HÆTTUR
Alltaf öðru hverju er þeirri spurningu beint til Molaskrifara hvort hann sé hættur að skrifa um málfar ? - Nei, svara ég. Skrifa yfirleitt 4-5 sinnum í viku. -Hvar birtast skrifin, er þá stundum spurt. Á heimasíðunni minni www.eidur.is , á fasbók ,á moggabloggi, blog is, og á twitter.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfa. Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2016 | 08:44
Molar um málfar og miðla 2027
AÐ ÞRESKJAST
Í þættinum Samfélaginu á Rás eitt var prýðilegur pistill um matarsóun og áhrif hennar á loftslagsbreytingar (29.09.2016). Þar var meðal annars fjallað um banana,sem við flytjum inn, vistspor þeirra allt frá því regnskógur er ruddur og víkur fyrir bananaplantekru þar til þeir koma til okkar. Höfundur pistilsins sagði um bananana, sem eru dökkgrænir, þegar klasarnir eru skornir af plöntunum: ,, ... þá þarf að þreskja þá, því enginn vill borða græna banana. Þarna hefur eitthvað skolast til. Bananarnir þurfa að þroskast, verða gulir svo hægt sé að borða þá. Molaskrifari kannast ekki við að sögnin að þreskja sé til í merkingunni að þroskast. Sögnin að þreskja þýðir , - ,,að losa korn úr öxum (var gert með þúst, nú með þreskivél) og hreinsa það frá hálminum, segir orðabókin. Til er sögnin að þreskjast, þreiskjast við, seiglast við, þybbast við.
RUGL
Sigurður Sigurðarson skrifaði (30.09.2016) : ,,Sæll,
Stundum er hægt að hafa gaman af ruglinu í fjölmiðlum. Rakst á þetta í dv.is, hér:
Forsetinn, sem er kvæntur Elizu Reid forsetafrú á fjögur börn með henni og eina dóttur úr fyrra hjónabandi.
Veit eiginlega ekki hvernig þá má vera öðru vísi en að forsetinn sé giftur forsetafrúnni. Það er nú ekki málið heldur er orðinu forsetafrú ofaukið í textanum. Rugl. Þakka bréfið, Sigurður.
BRYGGJUFERRÐIR
Þorvaldur skrifaði (30.09.2016): ,, Sæll enn Eiður.
Ekki lagast notkun tilvísunarfornafna. Í Mogga í morgun má lesa að sérstakar varúðarráðstafanir séu hafðar uppi í Sundahöfn vegna ásóknar hælisleitenda þegar "skip liggur við bryggju sem er á leið til Ameríku".- Þakka bréfið, Þorvaldur. Það er auðvitað brýnt að stöðva þessi ferðalög á bryggjunum.
HA?
Af mbl.is (30.09.2016): ,, Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð á vettvang og flutti konuna með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Þyrlan flutti konuna með sjúkraflugi! Það var og. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/30/flutt_a_bradamottoku_eftir_arekstur/
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2016 | 09:36
Molar um málfar og miðla 2026
KJÓSA - GREIÐA ATKVÆÐI
Bæði í átta fréttum Ríkisútvarps og á fréttavef Ríkisútvarpsins (29.09.2016) var talað og skrifað um að Bandaríkjaþing hefði kosið gegn lagafrumvarpi Obama forseta: Bandaríkjaþing kaus í gær gegn neitun Baracks Obama um að fjölskyldur fórnarlamba hryðjuverkanna 11. september geti höfðað mál gegn sádí-arabískum embættismönnum.
http://www.ruv.is/frett/thingid-visadi-neitun-obama-a-bug
Á þjóðþingum er ekki kosið um lagafrumvörp. Það eru greidd atkvæði um lagafrumvörp. Alþingi Íslendinga kýs ekki um fjárlagafrumvarpið. Á Alþingi eru greidd atkvæði um fjárlagafrumvarpið.
Vita menn á fréttastofu Ríkisútvarpsins ekki betur? Er þetta vankunnátta? Eða hefur Ríkisútvarpið einsett sér að breyta þessari rótgrónu íslensku málvenju? Málfarsráðunautur þarf að leiðbeina þeim sem ekki kunna. Þetta hefur svo sem verið nefnt hér í Molum. Nokkrum sinnum. Talað hefur verið fyrir daufum eyrum, - enn sem komið er.
ENN UM AFMÆLISÞÆTTI
Molaskrifari horfði á afmælisþátt Ríkissjónvarps frá 17.09. í Sarpinum. Þar var ekki allt, sem sagt var, um upphafsár Sjónvarpsins mjög nákvæmt. Það var skautað heldur léttilega yfir byrjunarárin. Samstarfsmaður benti mér á, að meira hefði verið fjallað um fólk af Stöð tvö, en fyrstu árin og frumherjana á Laugaveginum.
Fyrstu árin átti sjónvarpið ekki tækjabúnað til að senda efni frá stöðum utan sjónvarpsins, að Laugavegi 176. Fyrsta sending utan úr bæ var frá komu danska varðskipsins Vædderen með handritin 1971. Hluti þeirra tækja, sem þá var notaður var heimasmíð. Það voru margir tæknisnillingar á Laugavegi 176. Til að koma mynd og hljóði inn á Laugaveg var endurvarpssendi komið fyrir í turni Hallgrímskirkju. Gott ef hann var ekki á vinnupöllunum við turninn. Þegar sjónvarpað var frá þjóðhátíðinni á Þingvöllum 1974 voru fengin tæki að láni frá norska sjónvarpinu NRK. Það var löng og eftirminnileg bein útsending. Nýr, sérhannaður bíll til dagskrárgerðar og beinna útsendinga var keyptur 1986 og var strax notaður til upptöku á dagskrárefni víða um landið auk útsendinga frá stórviðburðum og íþróttaleikjum. En við björguðum okkur sem best við gátum. Dæmi: Talning atkvæði í leikfimisal Austurbæjarskólans eftir þingkosningarnar 1967 er minnisstæð. Við fengum dagskrárlínu frá Símanum úr salnum upp í í Sjónvarp og Markús Örn hafði meðferðis hljóðnema til að nota í beinni hljóðútsendingu þaðan inn í kosningasjónvarpið. Venjan hafði verið sú að fréttamaður útvarps í Austurbæjarskólanum skrifaði niður tölurnar, sem formaður yfirkjörstjórnar las upp, las þær síðan í síma fyrir fréttamann á Skúlagötunni þar sem útvarpið var til húsa og þulur las þær svo upp í kosningaútvarpinu. Markús Örn bað Pál Líndal, kjörstjórnarformann, að koma að hljóðnemanum hjá sér, þegar hann hefði fyrstu tölur tilbúnar og flytja þær beint í sjónvarpinu, hvað hann og gerði. Þetta var mikið skúbb. Við vorum dálítið roggin með það. Þá var hörð samkeppni milli fréttastofanna á Laugavegi og Skúlagötu.
Ögmundur Jónasson rifjaði upp í þættinum um fréttirnar , að þegar hann kom til starfa hjá Sjónvarpinu haustið 1978 hafi erlendar fréttamyndir komið til landsins með flugvélum tvisvar í viku. Þetta er misminni hjá Ögmundi.
Frá upphafi sjónvarps 1966 fékk sjónvarpið daglega erlendar fréttamyndir (16 mm filmur) frá CBS í New York og ITN í London, - seinna frá VisNews (BBC). Ekki tvisvar í viku, heldur daglega, sem og helstu erlendar fréttaljósmyndir dagsins símsendar frá AP í London, alla útsendingardaga.
En svo komst Ísland í gervihnattasamband við umheiminn. Það var mikil bylting í sjónvarpsmálum og um svipað leyti kom liturinn og filman hvarf úr fréttum og dagskrárgerð.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2016 | 08:08
Molar um málfar og miðla 2025
LEIGUHEIMILI !
Afsakið, ágætu lesendur, en mér finnst fáránlegt að tala um leiguheimili. En þar er ekki við mbl.is að sakast. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2016/09/27/bylting_fyrir_folk_undir_medaltekjum/
Ekki er síður fáránlegt að tala um að reisa leiguheimili eins og gert er í fréttinni. Þar segir: ,, Reist verða allt að 2.300 svokölluð Leiguheimili á næstu fjórum árum í nýju almennu íbúðakerfi .... Heimili eru ekki reist.
HUGSANLEGT RIFBROT
Hvernig er hægt að hljóta hugsanlegt rifbrot eins og sagt var í fréttum Ríkisútvarps (27.09.2016)? Af fréttavef Ríkisútvarpsins sama dag: Afleiðingar þessa voru að annar lögreglumannanna hlaut hugsanlegt rifbrot hægra megin framan til og yfirborðsáverka á fótlegg. Hugsanlegt rifbrot er kannski skárra en rifbeinsbrot.
TVEIR TVENNIR
Það er heldur þreytandi að hlusta á sömu villurnar aftur og aftur. Í Morgunþætti Rásar tvö (27.09.2016) var fjallað um jólatónleika á aðventunni. Talað var um tvo tónleika. Tónleikar er fleirtöluorð. Tvennir tónleikar, - rétt eins og tvennar buxur. Undarlegt hvað það þvælist fyrir sumum útvarpsmönnum að hafa þetta rétt.
GERÐIST FYRIR MANNINN
Af mbl.is /28.09.2016). Fréttin er um einstaklega óheppinn mann, sem varð tvisvar sinnum fyrir því að könguló beit hann í typpið. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/09/28/kongulo_beit_mann_i_typpid_aftur/
,,Í frétt BBC segir að maðurinn hafi verið að nota kamar á byggingarsvæði í Sydney í gær er atvikið átti sér stað. Hið sama gerðist fyrir manninn fyrir aðeins fimm mánuðum.
Að segja að hið sama hafi gerst fyrir manninn fyrir fimm mánuðum er málvilla, ambaga. Enginn les yfir. Hið sama kom fyrir manninn ... Nákvæmlega það sama kom fyrir manninn, ... Setning í fréttinni er barnamál. Börn sem eru að læra að tala, hafa ekki náð fullum tökum á málinu gætu ef til vill tekið svona til orða. En svona orðalag á ekki að sjást í fréttaskrifum.
TIL HAMINGJU ÍSLENSKT SJÓNVARP!
Í dag, 30. september, er hálf öld liðin síðan íslenskt sjónvarp tók til starfa. Merkur dagur í menningarsögunni. Þá var tæknin frumstæð. Henni hefur fleygt fram. Molaskrifara er og verður þessi dagur ógleymanlegur. Í kvöld ætlum við hittast og gleðjast, sem unnum við Sjónvarpið fyrstu árin, - svart-hvítu árin , - við köllum okkur í hálfkæringi Svart-hvíta gengið. Með okkur í kvöld verður vonandi Pétur Guðfinnsson, fyrsti starfsmaður Sjónvarpsins, fyrst framkvæmdastjóri, seinna útvarpsstjóri. Hlutur hans í stofnun Sjónvarpsins verður aldrei ofmetinn. Hann réði fólk, kom á samböndum við Norðurlöndin,sem veittu okkur ómetanlega aðstoð við byrjunina. Hann var sá sem raðaði þessu saman, - auðvitað með aðstoð margra eftir því sem á leið. En hans hlutur í þessu hefur ekki verið metinn að verðleikum, enda hefur Pétur aldrei tranað sér fram. Frekar haldið sig til hlés. Hann stóð ævinlega með sínu fólki, þegar á reyndi og í harðbakkann sló. Hann á mikinn heiður skilinn.
Nokkrir eru horfnir úr hópnum, - við hugsum hlýtt til þeirra og rifjum upp gamlar minningar í kvöld. Af nægu er að taka. Þetta voru skemmtileg ár, - einstaklega samhentur og öflugur hópur. Gott fólk og það ríkti góður andi á Laugavegi 176 á frumbýlingsárunum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2016 | 09:17
Molar um málfar og miðla 2024
SINFÓNÍAN OG SJÓNVARPIÐ
Ánægjulegt er hve samskipti Sinfóníunnar og Ríkissjónvarpsins eru góð nú um stundir. Það var ekki svo í upphafi sjónvarps. Ekki var þar alfarið við Sjónvarpið að sakast.
Eins og réttilega kom fram í afmælisþætti sjónvarpsins um Menningu og listir sl. laugardagskvöld var Sinfóníuhljómsveitin upphaflega eiginlega útvarpshljómsveit. Við upphaf sjónvarps fyrir 50 árum fór um það bil þriðjungur af dagskrárfé Ríkisútvarpsins í rekstur sinfóníunnar.
En ekki var allt rétt sem fram kom í þessum þætti. Sumt leiðrétti Maríanna Friðjónsdóttir í ágætum útvarpsþætti á Rás tvö Sunnudagssögum á Rás tvö (2509.2016)
http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/sunnudagssogur/20160925 ( á ca 1:10)
Það andaði reyndar heldur köldu til sjónvarpsins í upphafi frá sumum listamönnum,- tónlistarmönnum og leikurum. Samningar við leikara reyndust til dæmis mjög erfiðir. Lengi vel var ekki hægt að endursýna innlent leikið efni vegna kostnaðar. En allt lagaðist það, er fram liðu stundir.
Áður en útsendingar sjónvarpsins hófust vildi fréttastjórinn séra Emil Björnsson safna efni til að eiga í sarpi til notkunar í fréttum. Meðal annars átti að taka stutt myndskeið af sinfóníunni á æfingu. Þegar myndatakan og hljóðupptakan átti að hefjast gengu tónlistarmenn út. Við þá hafði ekki verið samið.
Svo samdist um, muni ég rétt, að nota mætti tveggja mínútna kafla með leik hljómsveitarinnar, sem tekinn væri upp á æfingu eða við opinberan flutning. Í því sambandi varð fréttamanni á alvarleg skyssa. Hann tók tveggja mínútna regluna ekki allt of bókstaflega. Kannski vegna þess að þannig stóð á tónhendingu. Eða hann gleymdi sér yfir góðri tónlist. Sennilega voru það tvær mínútur og fimmtán sekúndur, sem sýndar voru í fréttum. Úr varð mikil rekistefna og nefndar voru háar fjárkröfur. Allt leystist þetta að lokum, en gott er til þess að vita að nú njótum við vandaðra útsendinga frábærrar sinfóníuhljómsveitar sem úrvalslið tæknifólks færir okkur heim í stofu.
FYRIR RANNSÓKN MÁLSINS
Konanvar vistuð í fangageymslu fyrir rannókn málsins, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (25.09.2016). Hefur heyrst áður. Konan var vistuð í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Kannski er þetta tekið hrátt úr gögnum lögreglunnar.
TÝNDU TÆKFÆRIN
Þetta er fyrirsögn af fréttavef Ríkisútvarpsins (26.09.2016): Katrín: Ríkisstjórn týndu tækifæranna. http://www.ruv.is/frett/katrin-rikisstjorn-tyndu-taekifaeranna . Fréttin er um ræðu Katrínar Jakobsdóttur í eldhúsdagsumræðum. Hvergi í fréttinni er minnst á týndu tækifærin. Katrín notaði það orðalag að vísu á einum stað í ræðu sinni og það var einnig nefnt í sjónvarpsfréttum. En tölum við ekki frekar um glötuð tækifæri en týnd tækifæri? Hefði haldið það.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.9.2016 | 09:46
Molar um málfar og miðla 2023
ÓSKILJANLEG SKRIF
Valdimar Kristinsson skrifaði ( 24.09.2016):
Sæll Eiður.
Vil byrja á að þakka þér fyrir þína sjálfskipuðu varðstöðu um íslenskt mál sem þú hefur tekið þér. Ekki vanþörf á og mættu fleiri skipa sér í lið með þér.
En að efninu.
Var að lesa frétt um mann sem hafði falið gull í endaþarmi á mbl.is og hnaut þá um eftirfarandi í lok greinarinnar:
"Hann var sá starfsmaður sem setti málmleitartækin á staðnum oftast af stað, fyrir utan þá starfsmenn með ígræðslur, en í hvert skipti komst að í gegnum eftiráleit."
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/09/23/faldi_gullmolana_i_endatharminum/
Því fer nú fjarri að ég sé einhver málfræði og stafsetninga snillingur þótt ég hafi unnið á Morgunblaðinu 25 ár (hætti fyrir rúmum áratug). En þessa málsgrein skil ég ekki alveg. Finnst hún lykta mjög af "google translate" þýðingu. Er þetta ekki bara mál- eða setningafræðilegt bull?
Tek undir með þér að um vinnubrögð Morgunblaðsins og mbl.is megi segja að nú sé hún Snorrabúð stekkur. Það er alveg með ólíkindum hvað þessir miðlar láta frá sér fara í dag sbr. það sem tíðkaðist hér áður. Í minni tíð voru alveg grjótharðir prófarkalesarar á Mogganum sem gáfu enga grið þegar maður gerðist frjálslyndur og ætlaði að leyfa sér einhvern töffaraskap í málfari sem þeir á íþróttadeildinni reyndar komust oft upp með.
Í dag eru oftsinnis brotnar allar helstu reglur fyrri tíðar og þar á meðal um fyrirsagnir þar sem höfuð áhersla var ma. lögð á að þær ættu að opinbera sem best efni greinarinnar. Í dag sér maður ítrekað fyrirsagnir sem gefa akkurat engar upplýsingar um efnið og svo ekki sé nú talað um allar aðrar ambögur sem þar getur að líta. Líklegt þykir mér að vinum mínum Magnúsi Finnssyni og Freysteini Jóhannssyni og sjálfsagt öðrum gömlum mbl mönnum svelgist nú oft á við lestur þessara miðla í dag.
Velti fyrir mér hvort þessi óheilla þróun sem virðist eiga sér stað í málfari á fjölmiðlum eigi rót sína að rekja til rekstrarerfiðleika fjölmiðlanna. Menn tími einfaldlega ekki að eyða tíma (peningum) í yfirlestur á efninu. Hitt er annað að ég tel að ungt fólk í dag hafi yfir höfuð mjög litla máltilfinningu og þegar kemur að mál- og orðatækjum séu þau gjörsamlega úti á túni eins og sagt er.
Molaskrifari þakkar lofsamleg ummæli um þessi pistlaskrif. Tilvitnuð málsgrein er óskiljanlegt bull. Enginn prófarkalestur (gæðaeftirlit með framleiðslunni). Enginn les yfir eða leiðbeinir. Slæmt málfar í fjölmiðlum á sér sjálfsagt margar orsakir. Þeirra á meðal erfiðan rekstur fjölmiðla , kröfur eigenda um hagnað, - þess vegna eru laun lág, - ekki síst hjá nýliðum. Minnkandi áhersla á móðurmálskennslu á öllum skólastigum og síðast en ekki síst minnkandi bóklestur barna, unglinga og ungs fólks almennt. Ítreka þakkir til Valdimars fyrir bréfið.
FÆREYJAR
Enn saknar Molaskrifari þess að sjá ekki Færeyjar á Evrópukortinu í veðurfréttum Ríkissjónvarps. Hafði þó orð góðs veðurfræðings fyrir því fyrir nokkru, að búið væri að leysa málið og Færeyjar væru komnar á kortið. En ekki bólar enn á eyjunum átján. Hvað veldur?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)