1.11.2016 | 09:07
Molar um málfar og miðla 2043
BJÓRAUGLÝSING Á MBL.IS
Sveinn sendi Molum línu. Hann þakkar Molaskrifin og segir (28.10.2016): ,,Sæll Eiður,
Nú álpaðist ég inn á Netmogga (28.10) og sá ofarlega á forsíðunni frétt undir fyrirsögninni Stór jólabjór á 750 krónur. Greip fyrirsögnin athygli mína enda langaði mig að vita hvað væri fréttnæmt við það að stór jólabjór kostaði 750 krónur.
Frétt Netmogga snerist um það eitt að ákveðið kaffihús í miðborg Reykjavíkur hefur ákveðið að bjóða upp á ákveðna tegund af jólabjór og rukka fyrir glasið 750 krónur. Ekkert annað kemur fram í stuttri frétt.
Hvergi kemur fram að um auglýsingu sé að ræða, en blasir það ekki við? Þessu stillir Netmoggi svo upp við hlið aðalfréttar á forsíðu eins og um mikil tíðindi sé að ræða. Hverju sætir?
Eins má setja út á eitt og annað í fréttinni sjálfri. Blaðamaður talar um Ríkið en ekki Vínbúðir Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og segir að jólabjórinn komi í sölu þar fimmtán nóvember (15 nóvember) en ekki fimmtánda nóvember (15. nóvember) og síðar er eigandi kaffihússins sagður fæddur sautján desember. Þá segir: "algengt verð á stórum bjór á krana er allt frá 900 krónur upp í 1600 krónur". Eðlilegra hefði það verið orðað frá 900 krónum upp í 1.600 krónur.
Þakka bréfið og góð orð um Molaskrifin, Sveinn. Þetta er auðvitað ódulbúin bjórauglýsing, en raðtölupunktunum, sem fyrst vantaði virðist hafa verið bætt við seinna. Lögum samkvæmt er bannað að auglýsa áfengi. Fjölmiðlar hafa það bann að engu. Yfirvöld láta það óátalið. Sem er ámælisvert.
http://www.mbl.is/matur/frettir/2016/10/28/stor_jolabjor_a_750_kronur/
TÝND BER
Í klausu á baksíðu Fréttatímans (28.10.2016) segir frá grískri haustjógúrt með íslenskum aðalbláberjum. Þar segir:,,Nú er haustið fáanlegt í 230 gr. glerkrukkum og hefur verið að detta inn í búðir síðastliðna daga. Vonandi hafa glerkrukkurnar þolað fallið. Enn fremur segir: ,, ... á meðan berjabirgðir endast en berin voru týnd í sumar. Berin voru týnd í sumar en fundust í haust. Þeir sem fást við blaðaskrif ættu þekkja muninn á sögnunum að týna, - tapa, , glata og að tína, - safna saman , tína ber, tína blóm.
YNGSTI ÞINGMAÐURINN
Í fimm dálka fyrirsögn í Fréttablaðinu (bls.10 28.10.2016) segir: Fjórir gætu orðið yngsti þingmaðurinn. Samkvæmt hugsun Molaskrifara getur aðeins einn orðið yngsti þingmaðurinn. Er þetta ekki hugsunarvilla hjá skrifara Fréttablaðsins?
Á EINN EÐA ANNAN HÁTT
Í tvö fréttum Ríkisútvarpsins á föstudag (28.10.2016) var sagt frá ráðstefnu um ebólu veiruna, sem hófst í Háskóla Íslands klukkan eitt þann sama dag! Fréttamaður sagði okkur, að fyrirlesarar hefðu rannsakað ebólu faraldurinn á einn eða annan hátt! Las enginn yfir? Enginn las yfir. Fyrirlesararnir höfðu væntanlega rannsakað ýmsar hliðar ebólu faraldursins og veirunnar. Í upphafi fréttarinnar var sagt: Viðbrögð ... hefur reynst... Viðbrögð hafa reynst.
Það er löngu kominn tími til að Ríkisútvarpið taki sig á. Það er margt vel skrifandi og vel máli farið fólk á fréttastofunni í Efstaleiti. Það góða fólk á að lesa og lagfæra fréttir viðvaninganna áður en þær eru lesnar fyrir okkur. Það gerist ekki nema verkstjóri sé á vinnustaðnum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
31.10.2016 | 07:30
Molar um málfar og miðla 2042
ÁDREPA
Ragga Eiríks sendi Molum eftirfarandi (27.10.2016): ,,Eins og þorri þjóðarinnar eyði ég löngum stundum nánast daglega á facebook (og nei, mér finnst óþolandi þegar fólk talar um fésbók, snjáldurskruddu, skvaldurskjóða eða feisbúkk. Eina íslenskunin sem ég sætti mig við er andlitsbók (no kvk), og sögnin að andlitsbóka (so), enda mun það hugarsmíði kollega míns Ágúst Borgþórs, sem er fyndnari en margir). Á þeim tiltekna samfélagsmiðli tjá notendur skoðanir sínar sem er reyndar frábært, því þjóðin er þá í það minnsta að skrifa og nota málið nokkurn veginn filterslaust. Raunar er betra að mál sé notað, en að það sé ekki notað og gleðin yfir því er flesta daga yfirsterkari óþolinu yfir málvillunum sem vaða uppi. En ég get þó ekki orða bundist.
Hér eru níu villur sem ég rekst á ALLTOF OFT á facebook og eru að gera mig sturlaða:
Einhvað/eitthver
Dæmi: Er einhvað stuð í gangi í kvöld? Er eitthver á leiðinni í bæinn?Ástæða: Hvorugt orð er til í íslensku máli. Hins vegar eru orðin einhver og eitthvað til.Rétt notkun: Er eitthvað stuð í gangi í kvöld? Er einhver á leiðinni í bæinn?
Víst að
Dæmi: Ég þarf ekki að fá lánaðan titrara víst að ég fann minn undir rúmi.Ástæða: Kolrangt. Orðasambandið víst að‟ vísar til þess að eitthvað sé víst eða öruggt. Til dæmis mætti segja: Nú er orðið víst að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur verða í stjórnarandstöðu næsta kjörtímabil.‟
Rétt mál: Ég þarf ekki að fá lánaðan titrara fyrst að ég fann minn undir rúmi.
Systir
Dæmi: Ég fór í afmæli með systir minni.Ástæða: Forsetningin með stýrir þágufalli. Í dæminu að ofan er nafnorðið systir í nefnifalli.
Rétt mál: Ég fór í afmæli með systur minni.
Talva
Dæmi: Talvan mín hrundi í gær, ég bugast!
Ástæða: Rétt nafnorð er tölva. Nafnorðið talva er ekki til í íslensku.
Rétt mál: Tölvan mín hrundi í gær, ég bugast!
Að/af
Dæmi: Stelpur, mig vantar tillögur af góðum rjómabollum, ég er búin að leita og leita af þeim.
Ástæða: Kolrangt.
Rétt mál: Stelpur, mig vantar tillögur að góðum rjómabollum, ég er búin að leita og leita að þeim.
Hengur
Dæmi: Flauelsskikkjan mín hengur þarna á snaganum við hliðina á leðurblökunni.
Ástæða: Sögnin heitir að hanga, ekki að henga. Hér er henni ruglað saman við aðra sögn að hengja.
Rétt mál: Flauelsskikkjan mín hangir þarna á snaganum við hliðina á leðurblökunni.
Þágufallssýki í öllum myndum
Dæmi: Mér hlakkar svo til að vita hvort honum langar í sleik í kvöld. Mér vantar reyndar andlegan styrk því mér kvíðir svo fyrir að hitta hann.
Ástæða: Sagnirnar að hlakka, að langa, að vanta og að kvíða taka EKKI með sér persónufornafn í þágufalli.
Rétt mál: Ég hlakka svo til að vita hvort hann langar í sleik í kvöld. Mig vantar reyndar andlegan styrk því ég kvíðisvo fyrir að hitta hann.
Eignarfallsflótti
Dæmi: OMG það er búið að loka þessu mömmubloggi vegna rifrildi.
Ástæða: Forsetningin vegna tekur með sér eignarfall. Vegna EINHVERS. Orðið sem stendur eftir henni á því að vera í eignarfalli.
Rétt mál: OMG það er búin að loka þessu mömmubloggi vegna rifrildis.
Vil/vill
Dæmi: Ég vill betra samfélag, þess vegna er ég femínisti.
Ástæða: Sögnin að vilja í fyrstu persónu eintölu er rituð með einu elli. Hún vill hins vegar eitthvað, og hann vill eitthvað líka. Já og barnið, það vill meira að segja eitthvað.
Rétt mál: Ég vil betra samfélag, þess vegna er ég femínisti.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.10.2016 | 10:42
Molar um málfar og miðla 2040
TAKA ÓSTINNT UPP
Úr frétt á mbl.is (22.10.2016), - hundur hafði gelt að börnum að leik: Faðir eins barnanna ræddi við parið um hegðun hundsins, sem tók athugasemdunum óstinnt upp. Molaskrifari á því að venjast að talað sé um að taka eitthvað óstinnt upp, taka einhverju illa, reiðast einhverju. Ekki taka einhverju óstinnt upp.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/22/hotudu_barsmidum_fyrir_gagnryni_a_hundinn/
- Þegar ég sagði, að frásögn hans væri uppspuni frá rótum, tók hann það mjög óstinnt upp.
AÐ SJÁ EFTIR
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (24.10.2016) var ranglega haft eftir Katrínu Jakobsdóttir að hún sæi mjög á eftir því .... Katrín sá eftir því, að þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi ekki hafa farið fram um aðildarumsóknina að ESB. Eitt er að sjá eftir, iðrast einhvers, allt annað er að sjá á eftir. Ég sá á eftir honum fyrir hornið og sé eftir að hafa ekki elt hann.
Þetta hefur svo sem heyrst áður og áður verið nefnt í Molum.
ER AÐ .....
Í frétt á mbl.is (24.10.2016) sagði: ,, Ég vona bara að við séum allar að fara að mæta, segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, þegar blaðamaður spyr hana hvort að hún ætli að mæta á Austurvöll í dag. Ólíkt hefði nú verið fallegra hefði ráðherra sagt:,, Ég vona bara að við mætum allar. Einfaldara og betra mál.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/24/eyglo_vonar_ad_allar_maeti/
BÍLVELTA VARÐ .....
Úr frétt á mbl.is (24.102016): Bílvelta varð á veginum í Blönduhlíð í Skagafirði á móts við bæinn Flugumýrarhvamm skömmu fyrir klukkan fimm í dag. Þetta er rangt eins og raunar kemur fram bæði í fyrirsögn og fréttinni sjálfri. Það varð engin bílvelta á veginum. Bíll fór út af vegi og endaði á hvolfi ofan í á. Ekki vel unnið. Sem betur fer urðu ekki slys á fólki.
Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/24/for_a_hvolf_ofan_i_hvammsa/
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2016 | 10:14
Molar um málfar og miðla 2039
SLÆM FYRIRSÖGN
Sigurjón Skúlason skrifaði 24.10.2016: ,, Heill og sæll Eiður
Hér er enn eitt dæmið um slæma fyrirsögn á Vísi: 10 mánaða stjórnarkreppu afstýrt á Spáni
http://www.visir.is/10-manada-stjornarkreppu-afstyrt-a-spani/article/2016161029537
Vanalega þegar maður talar um að afstýra einhverju þá merkir það að koma í veg fyrir eitthvað. Ekki þegar ástandi sem staðið hefur yfir í 10 mánuði lýkur, hér hefði farið betur að nota annað orðalag.
Að auki eru svo málfarsvillur í fréttinni sjálfri en fyrirsögnin segir allt sem segja þarf. Kærar þakkir fyrir bréfið, Sigurjón.
AFHENDING VETTVANGS
Vettvangur hefur verið tryggður og afhentur lögreglu. Svona var tekið til orða í hádegisfréttum Bylgjunnar á sunnudag (23.10.2016). Verið var að segja frá eldsvoða. Hvað þýðir að vettvangur hafi verið tryggður og afhentur lögreglu? Á mannamála þýðir það að slökkvilið hefur lokið störfum, eldurinn slökktur og lögreglan tekið við rannsókn málsins Ekki góð málþróun. Í Ríkisútvarpinu var réttilega talað um að lögreglan væri að rannsaka málið.
NÖLDUR
Svolítið nöldur um sjónvarpsauglýsingu. Um liðna helgi horfði Molaskrifari á sjónvarpsauglýsingu frá Skeljungi. Þar sást bílstjóri olíuflutningabíls (bíllinn var ekki af minni gerðinni) með lausan hund við hlið sér í akstri. Hann var að gefa hundinum og gæla við hann.
Um gæludýr í bílum er fjallað á heimasíðu Samgöngustofu: http://www.samgongustofa.is/umferd/fraedsla-og-oryggi/fraedsla/bifreidar-og-almenn-fraedsla/Gaeludyr-i-bil
Það fylgir því ábyrgð að aka bíl. Það fylgir því alveg sérstök ábyrgð að aka bíl með hættulegan farm eins og olíu, bensín.
Skeljungur ætti að athuga sinn gang varðandi þessa auglýsingu.
TAKK
Takk fyrir fróðlegan Ferðastikluþátt þeirra feðgina Láru og Ómars í Ríkissjónvarpi á sunnudagskvöld (23.10.2016). Hlakka til að sjá framhaldið. Margbreytileiki og fegurð íslenskrar náttúru naut sín vel. Þetta eru skrifara áður ókunnar slóðir.. Hvað skyldi þess vera langt að bíða að þarna fari um þúsundir ferðamanna á dag? Ekki langt með sama áframhaldi. Landið verður ekki samt. Gætum okkar.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið 23.10.2016) . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2016 | 09:39
Molar um málfar og miðla 2038
THE VOICE ÍSLAND
Notkun ensku í auglýsingum í íslenskum miðlum fer hraðvaxandi. Þetta er hættuleg þróun. Morgunblaðinu sl. föstudag (21.10.2016) fylgdi auglýsingablað um Sjónvarp Símans. Þar er auðvitað ekki nóg að tala um Sjónvarp Símans heldur heitir það Sjónvarp Símans Premium. Orðið Premium er ekki íslenska. Það er enska.
Verið er að auglýsa sjónvarpsþætti, sem heita The Voice Ísland. Hversvegna ekki Rödd Íslands? Hvað er að því að nota íslensku? Getur Síminn ekki lengur talað við okkur á íslensku? Svo eru lesendur hvattir til að fylgjast með ,,stærsta íslenska sjónvarpsþætti vetrarins. Hvað er stór sjónvarpsþáttur? Hvernig vita símamenn, að ekki komi seinna annar þáttur á annarri stöð , sem er ,,stærri á einhvern undarlegan mælikvarða.
Sími er frábært íslenskt orð yfir tæki , tækni, þar sem flestar aðrar þjóðir nota erlend tökuorð. Þessi lítilsvirðing gagnvart móðurmálinu, - gagnvart íslenskunni, er þeim Símamönnum ekki til sóma.
Hamborgarafabrikkan auglýsir sörf og törf, hvað sem það nú er, - ekki íslenska allavega. Stöð tvö auglýsir Maraþon NOW. Hagkaup auglýsir Outlet í Holtagörðum. Fleiri fyrirtæki nota það enska orð í auglýsingum um útsölur, eða lágvöruverðsbúðir. Óteljandi fyrirtæki sletta á okkur ensku orðunum tax-free, þegar þeim þóknast að veita okkur smávægilegan afslátt, - þau eru ekki að sleppa neinum við að greiða skatt. Það er bara uppspuni.
Er ekki tímabært að hefja átak íslenskunni til varnar í auglýsingum?
LESTUR VEÐURFREGNA
Það gengur á ýmsu með lestur veðurfregna frá Veðurstofu Íslands í útvarpinu. Flestir lesarar eru áheyrilegir, - líka þeir sem lesa með erlendum hreim. Einn íslenskur lesari þarf leiðsögn. Hefur þann leiða ósið að draga seiminn í lok flestra, ef ekki allra setninga. .... norðaustantiiiil, hiti níu stiiiiiig. Hvimleitt, en þetta getur góður talþjálfari örugglega lagfært.
AÐ KAUPA
Enn einu sinni nefnir Molaskrifari sagnirnar að kaupa og að versla. Ótrúlega margir fréttamenn kunna ekki að nota þessar tvær sagnir.
Í fréttum Stöðvar tvö (21.10.2016) var talað um breyttar reglur um áfengiskaup í fríhöfninni. Fréttamaður sagði: ,, Nú er þetta þannig að þú getur valið hér eina tegund , eina sort, til þess að versla .... . Valið þér að kaupa eina tegund, hefði hann betur sagt.
AFREK
Molaskrifari horfði á allan þátt Gísla Marteins á föstudagskvöldið (21.10.2016) þar sem : ,,Allir helstu atburðir vikunnar í stjórnmálum, menningu og mannlífi eru krufnir í beinni útsendingu, svo vitnað sé beint í kynningu Ríkissjónvarpsins á þættinum. Ekki lítið sagt. Þar tókst þó að sleppa því algjörlega að minnast á Seðlabankasímtalið,sem sem enn einu sinni sprakk út í fréttum vikunnar. Og ekki var heldur minnst á Evrópuverðlaunin fyrir fréttaskýringarþáttinn um fv. forsætisráðherra, SDG. Ekki nefnt einu orði. Krufningunni var eitthvað ábótavant. Það verður að passa upp á að rétt efni rati í umræðuna.
Logi Bergmann er ágætur. En vinnur hann ekki á Stöð tvö? Hvað er hann alltaf að gera á Stöð eitt? Halldóra Geirharðsdóttir var best. Takk. - Es. Síðast fékk Bjarni Ben. að skreyta tertu hjá Gísla Marteini. Ég hafði vonast eftir að Sigurður Ingi fengi kannski að steikja kleinur eða baka flatkökur. Sú von brást.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.10.2016 | 09:17
Molar um málfar og miðla 2037
HROÐVIRKNI EÐA FÁFRÆÐI?
Er það hroðvirkni eða fáfræði, vankunnátta í íslensku, sem veldur því að fréttasskrifarar láta frá sér svona texta: ,, Rúmlega fimmtíu lík hafa fundist eftir að farþegaferja hvolfdi á ánni Chindwin í Búrma á laugardaginn. ?
Þetta er úr frétt á mbl.is (19.10.2016). http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/10/19/tugir_letust_thegar_yfirfull_ferja_sokk/
Ferjan hvolfdi ekki. Ferjunni hvolfdi. Hvar er máltilfinningin? Víðs fjarri.
NIÐURSKURÐUR LÖGREGLUMANNA
Úr frétt í Fréttablaðinu (20.10.2016): Lögreglan á Vesturlandi hefur þurft að skera niður um fimm lögreglumenn á árinu til að halda sig innan fjárheimilda. Eðlilegra hefði verið að tala um, að ekki hefði verið hægt að ráða í stöður fimm lögreglumanna á Vesturlandi á þessu ári vegna fjárskorts.
AUKASTAFUR
Auka - r á það til að skjóta sér inn í ýmis orð. Molaskrifari fletti nýjasta tölublaði Stundarinnar (20.10.2016) þar er haft eftir frambjóðanda Dögunar í heilsíðuauglýsingu að heimilið eigi að vera griðarstaður. Á að vera griðastaður, skjól, staður þar sem hægt er að vera í friði fyrir áreiti annarra.
Á öðrum stað í blaðinu er fyrirsögnin Stundarskáin. Þar er getið ýmissa menningarviðburða. Ætti eftir máltilfinningu skrifara að vera Stundaskráin. Kannski finnst þeim sem skrifa Stundina þetta í góðu lagi. Margt forvitnilegt er reyndar að finna í blaðinu, - mikið lesefni.
FLAGGAÐ Í HÁLFA STÖNG
Hversvegna í ósköpunum skyldu þeir sem selja BKI kaffi auglýsa kaffið sitt í sjónvarpsauglýsingum (20.10.2016) með því að sýna íslenska fánann blakta í hálfa stöng? Er þetta kaffi kannski sérstaklega ætlað fyrir erfisdrykkjur?
Íslenska fánanum er flaggað í hálfa stöng á föstudaginn langa , samkvæmt reglunum um notkun íslenska fánans svo og við andlát og jarðarfarir. Þessi auglýsing hefur reyndar sést áður, og fyrr verið nefnd í Molum en tilgangurinn með auglýsingunni er óskiljanlegur. Molaskrifari hélt að fyrir löngu væri búið að fleygja henni í ruslakörfuna.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2016 | 08:28
Molar um málfar og miðla 2036
ÓVANDVIRKNI
Sigurður Sigurðarson skrifaði (18.10.2016):
,Sæll,
Við það steyptist hann fram fyrir sig og féll niður í steypta gryfju fyrir neðan stúkuna með þeim afleiðingum að hann hlaut líkamstjón. Fallið var rúmir þrír metrar og varð þeim mikið niðri fyrir sem vitni urðu að slysinu.
Gera má ráð fyrir að maðurinn hafi slasast við fallið en af hverju er það ekki sagt? Þurftu vitni mikið að tala, vera mikið niðri fyrir eða varð þeim mikið um að hafa séð manninn hljóta líkamstjón?
Í lok fréttarinnar segir:
Að mati dómsins hugði stefnandi ekki að sér og þætti hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem eitt og sér varð til þess að hann féll úr áhorfendastúkunni og slasaðist .
Ekki er ljóst hvort stefnandi hugði ekki að sér· eða gætti ekki að sér. Hið fyrrnefnda er skrýtið en hefði síðarnefnda orðalagið verið nota bendir það til þess að maðurinn hafi verið óvarkár. Ekki er vitað hvort þetta eru skrif blaðamannsins eða dómsins þar sem fyrri hluti gæsalappa finnst ekki. Fréttin virðist öll frekar fljótfærnislega unnin.
Þakka bréfið, Sigurður.
Því er við að bæta , að Molaskrifari hefði í dómsorðum fremur sagt:, Að mati dómsins uggði stefnandi ekki að sér .... gætti stefnandi sín ekki, fór stefnandi ekki varlega, hafði ekki vara á sér.
LÖGREGLA
Í frétt í Morgunblaðinu (18.10.2016) segir: Þá slösuðust tveir alvarlega, þegar lögregla á bifhjóli, sem var að fylgja sjúkrabíl í forgangsakstri með ökumann úr slysinu .... Molaskrifari er ekki sáttur við þetta orðalag. Hér hefði átt að tala um lögreglumann á bifhjóli ekki lögreglu á bifhjóli. Þetta er í raun sambærilegt við að segja að slökkvilið hafi slasast í eldsvoða.
Es. - Þú leikur rannsóknarlögreglu, sagði fréttamaður í viðtali í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi!
ENN EINU SINNI .....
Aftur og aftur sér maður og heyrir sömu villurnar, - því miður. Eftirfarandi er af fréttavef Ríkisútvarpsins á mánudag (17.10.2016): Fagráðinu hefur borist sjö tilkynningar um kynferðisbrot eða áreiti innan skólans frá stofun (vantar n-) , allar í fyrra og það sem af er ári. Svona var þetta lesið í hádegisfréttum sama dag. Fréttamaðurinn sagði reyndar , um sjö tilkynningar ! Þarna var ekki um neitt um að ræða. Tilkynningarnar voru sjö. Ekki sex, ekki átta.
Þetta hefði átt að vera: Fagráðinu hafa borist sjö tilkynningar ...
Broddi Broddason, fréttaþulur í þessum fréttatíma, var með þetta hárrétt bæði í fréttayfirliti og inngangi að fréttinni. Þetta er afar einfalt og augljóst, ef hugsun er að baki því sem sagt er. En sem fyrr er góð verkstjórn ekki til staðar og enginn les yfir eða hlustar áður en lesið er fyrir okkur.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2016 | 09:56
Molar um málfar og miðla 2035
LEIRAN OG LANDAFRÆÐIN
Í bítinu, morgunþætti Bylgjunnar, sagði fréttamaður á mánudagsmorgni (17.10.2016) að hann hefði um helgina farið í golf í Leirunni í Keflavík.
Leiran er ekki í Keflavík. Leiran, þar sem Hólmsvöllur er, golfvöllurinn, , er milli Keflavíkur og Garðs, á leiðinni út í Garð frá Keflavík. Leiran var lengi mikil verstöð. Um aldamótin 1900 bjuggu fleiri í Leirunni en í Keflavík.
Keflavík, ( sem nú er reyndar kölluð Reykjanesbær) var þá í rauninni bara ein jörð. Nú býr enginn í Leirunni, en þar er vinsæll golfvöllur. Oft heyrist í fréttum að landafræðikunnáttu er ábótavant.
RÁÐNINGAR
Í sama Bylgjuþætti var talað um manneklu innan lögreglunnar. Þar var talað um að ráða inn fólk til lögreglunnar. Orðinu inn er þarna ofaukið. Nægt hefði að tala um að ráða fólk til lögreglunnar , ráða fólk í lögregluna, ráða fólk til starfa í lögreglunni, sem er venjulegra og betra orðalag. Fólk er ráðið í störf. Fólk er ekki ráðið inn í störf.
EKKI HISSA
Það kom einnig fram í þessum þætti að umsjónarmenn voru hissa á því hve Stöð tvö og Sýn hefði verið gert hátt undir höfði í afmælisþætti Ríkissjónvarpsins um íþróttir síðastlið laugardagskvöld (15.10.2016). Þeir eru ekki einir um að vera hissa á því. Í sumum þáttunum hefur verið gert mikið, óskiljanlega mikið, með Stöð tvö, lokaða stöð, sem hefur engin tengsl við Ríkisútvarpið. Er ekki Stöð tvö að minnast 30 ára afmælis síns um þessar mundir? Er þar sérstaklega fjallað um Ríkisútvarpið? Sennilega ekki.
Annað var athyglisvert við íþróttaafmælisþáttinn, - þar kom fram einn af frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í komandi þingkosningum, fyrrverandi útvarpsstjóri, sem ekki er vitað til þess að hafi verið íþróttafréttamaður. Þar var brotin gömul meginregla í Ríkisútvarpinu.
Engin sjónvarpsstöð, sem vinnur faglega mundi heldur láta dóttur spyrja föður sinn í sjónvarpsþætti. Það var ófaglegt. Molaskrifari veit að hann er ekki einn um að þykja þetta einkennilega að verki staðið.
Margt er annars gott um afmælisþættina, - en þetta var ekki af því góða.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.10.2016 | 12:57
Molar um málfar og miðla 2034
SPRENGJUSANDUR
Á fréttavefnum visir.is (15.10.2016) er frétt þar sem vitnað er í grein eftir Kára Stefánsson, sem birtist í Fréttablaðinu þann sama dag. Þar skrifar Birgir Örn Steinarsson: Kári vísar í viðtöl við Bjarna í Morgunblaðinu og á Sprengjusandi sér til stuðnings. Fréttaskrifari er hér væntanlega að vísa til útvarpsþáttarins Á Sprengisandi sem Sigurjón M. Egilsson gerði vinsælan á Bylgjunni. En það voru reyndar stundum fréttabombur, skúpp, eða áður óbirtar stórfréttir í þessum þáttum Sigurjóns. Kannski hefði hann átt að kalla þáttinn sprengjusand en ekki Sprengisand.
http://www.visir.is/kari-stefans-hvetur-bjarna-til-thess-ad-segja-af-ser/article/2016161019107
AÐ SÆKJAST EFTIR
Undir þinglokin heyrðist talsmaður Pírata segja: ,,Við sækjumst ekki á eftir völdum. Þetta er ekki rétt. Það er talað um að sækjast eftir einhverju, - ekki sækjast á eftir einhverju. En til hvers er fólk í pólitík, ef ekki til að sækjast eftir völdum til að koma fram breytingum, hrinda stefnumálum sínum í framkvæmd?
ÚR
Fyrirtækið Epli auglýsti (14.10.2016) nýja gerð tölvuúra í Ríkisútvarpinu með orðunum Apple watch. Hversvegna nota ensku? Enn einu sinni brestur dómgreind þeirra, sem taka við auglýsingum í Efstaleitinu.
FÆREYJAR
Hitastigið í í Færeyjum komst inn á Evrópukortið í veðurfréttum Einars Sveinbjörnssonar í Ríkissjónvarpinu á föstudagskvöld (14.10.2006) og er þar áfram.. Takk fyrir það.
MÁLFRELSIÐ
Á sunnudagsmorgni (16.10.2016) hlustaði skrifari stundarkorn á endurfluttan símatíma í Útvarpi Sögu. Þá var í símanum maður, sem fann múslímum ekki allt til foráttu. Eftir svolitla stund sagði símstöðvarstjórinn Pétur, að maðurinn væri búinn með tvöfaldan eða þrefaldan þann tíma, sem símtölum væri ætlaður. Svo kvaddi hann og sleit símtalinu. Síðan kom svolítil tónlist og svo auglýsing frá Útvarpi Sögu þar sem hlustendur voru hvattir til að greiða fé inn á reikning stöðvarinnar í tilgreindum banka til þess að styrkja málfrelsið. Skondið. Má ekki kalla þetta tvískinnung, tvöfeldni?
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2016 | 07:54
Molar um málfar og miðla 2033
ÞARFAR ÁBENDINGAR
JT sendi eftirfarandi (10.10.2016): Úr netmogganum mánudaginn 10. október í frétt af mögulegum morðum á börnum í Kenýju:
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/10/10/stefna_yfirvalda_ad_utryma_bornunum/
Margir neyddust til að hoppa út í ánna. Lögreglumenn reiddu banahöggið þegar þeir skutu táragasi ofan í vatnið.
Margir hoppuðu út í ána ekki ánna. Og fengu sér ekki í tána eða fóru ekki í skóna.
Úr stuttri frétt dv.is mánudag 10. okt.:
http://www.dv.is/frettir/2016/10/10/madurinn-sem-fell-i-hver-fludum-enn-gjorgaeslu/
Slysið varð með þeim hætti að maðurinn fór inn á svæði við Gömul laugina þar sem hverir eru.
Varað er við vatninu á skiltum sem þar eru en virðast hafa farið framhjá manninum.
Svæðið sem maðurinn fór inn á var ekki afgirt að öðru leyti.
Þá segir að vatn hafi skvetts á manninn sem varð til þess að hann féll ofan í hverinn.
Enn eitt dæmi um frétt sem skutlað er inn án yfirlesturs eins og Molaskrifari hamrar svo oft og vel á. Hefði ein mínúta farið í yfirlestur þessarar stuttu fréttar hefðu undirstrikuðu orðin trúlega verið lagfærð.
----
Og mætti alveg hamra á þessu líka:
Að veita verðlaun að afhenda verðlaun. Það er tvennt ólíkt.
Margir veita verðlaun fyrir hitt og þetta og tilkynnt með viðhöfn. Þegar svo kannski kemur að því síðar að afhenda verðlaunin eru fengnir til þess einhverjir góðborgarar sem tengjast málum eða framámenn (framámenn eða frammámenn...??). En þeir VEITA ekki verðlaunin heldur AFHENDA þau. Á því er grundvallarmunur en oft ekki gætt að þessu orðalagi í fréttum.
Kærar þakkir JT fyrir þessar þörfu ábendingar. En rétt er að fram komi að Moggafréttin ,sem vísað er til upphafi var síðar lagfærð og málfar fært til betri vegar.
AÐ HYLMA YFIR
Að hylma yfir eitthvað er að halda einhverju leyndu, þegja yfir einhverju, sem ef til vill væri refsivert. Í hádegisfréttum Ríkisútvarps í vikunni var sagt frá kappræðum forsetaframbjóðenda í Bandaríkjunum. Sagt var að Donald Trump sakaði Hillary um að hylma yfir glæpum. Rétt hefði verið að tala um að hylma yfir glæp eða glæpi. Leyna glæp eða glæpum.
TIL LESENDA
Þeir lesendur, sem vilja senda mér tölvupóst eru beðnir að nota póstfangið eidurgudnason@gmail.com . Eða einkaskilaboð á fasbók.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)