15.3.2014 | 08:49
Molar um málfar og miðla 1434
Um tölu og greini í íslensku:
Það er ekkert rangt við að tala t.d. um Norðurlandið, Vestfirðina og Austurlandið í staðinn fyrir að tala um Norðurland, Vestfirði og Austurland. Það er heldur ekkert rangt við að notað orðið vara ætíð í fleirtölu og tala um vörur en ekki vöru. Þá er talað um t.d. hver sé eigandi varanna í tilteknu vöruhúsi en ekki hver sé eigandi vörunnar.
Það skiptir hins vegar fleira máli í málnotkun en rétt og rangt. Málsmekkur skiptir líka máli. Hann er auðvitað mismunandi á milli málnotenda.
Ef við tökum fyrst ákveðna greininn þá býr íslenska við þann hrylling (t.d. öfugt við ensku) að vera með viðskeyttan greini. Við bætist síðan að íslenskan er mikið beygingamál. Útkoman er ekkert sérlega góð. Við þennan vanda má einfaldlega losna með því að stilla notkun ákveðins greinis í hóf. Ákveðinn greinir er notaður miklu meira t.d. í norsku en íslensku og fer sennilega ágætlega þar. Mér finnst hins vegar notkun ákveðins greinis vera að aukast mikið í íslensku til lítillar prýði fyrir málið.
Mér finnst fallegt að tala um Norðurland, Suðurland og Vestfirði. Mér finnst ljótt þegar fólk getur aldrei nefnt þessi landsvæði nema að klína hinum viðskeytta greini á þessi hugtök. Þá er ætíð talað um Norðurlandið, Suðurlandið og Vestfirðina.
Varðandi orðið vörur virðist fólk hafa gleymt því að til er eintala af þessu orði sem er vara og getur vel táknað meira en einn vöruflokk. Sérstaklega finnst mér eignarfall fleirtölu (eigandi varanna) vera ljótt miðað við eintöluna (eigandi vörunnar).
Því legg ég til að fólk hvíli um sinn Vestfirðina, Norðurlandið og Austfirðina og tali í staðinn um Vestfirði, Norðurland og Austfirði. Jafnframt er yfirleitt alger óþarfi að nota orðið vara í fleirtölu, enda þótt svo vilji til að enska orðið yfir vöru (goods) sé fleirtöluorð.Svo er reyndar til fyrirbærið "verðlagsnefnd búvara." Mér fyndist smekklegra ef þessi nefnd héti "verðlagsnefnd búvöru. Molaskrifari þakkar Einari þennan ágæta pistil.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2014 | 21:04
Molar um málfar og miðla 1433
Í vaxandi mæli er Kastljós Ríkissjónvarpsins lítið annað en eitt viðtal. Ekki ber að lasta þau viðtöl sem flutt hafa verið, en Molaskrifara sýnist sem þrengt sé að Kastljósinu bæði hvað mannafla og fé snertir. Þetta er slæmt og gerist á sama tíma og íþróttadeild Ríkissjónvarpsins blæs út í dagskránni virðist ekki fjár vant. Þar er greinilega úr nógu að spila. Þetta er að mati Molaskrifara röng forgangsröðun, sem nýr útvarpsstjóri ætti að breyta.
Annað sem nýr útvarpsstjóri þarf að kippa í liðinn er að taka upp að nýju fréttaflutning á nóttinni. Veit útvarpsstjóri nokkuð hve margt fólk er að vinna að næturlagi vítt og breitt um þjóðfélagið eða yfirleitt hve margir hlusta á útvarp á nóttinni? Okkur er sagt að maður sé á vakt alla nóttina til að flytja tilkynningar, ef vá ber að höndum. Getur það ekki verið fréttamaður? Það er ekki meira en eins manns verk að skrifa stuttar fréttir sem fluttar eru á heila tímanum alla nóttina. Molaskrifari þekkir fréttaskrif svolítið af eigin raun. Það þarf enginn að segja honum að þessu fylgi mikill kostnaður fyrst starfsmaður er á vakt hvort sem er. Það er bara fyrirsláttur. Það er mikill skortur á þjónustulund af Ríkisútvarpsins hálfu að sinna þessu ekki.
Sk.GS benti á eftirfarandi úr DV (12.03.2014): Sæll. Hvað getur maður sagt við þessu? Eitruð gös? DV í stuði.
,,Eitruð gös myndast þegar þú pissar í sundiNý rannsókn bendir til þess að mjög slæmt sé að pissa ofan í klórblandað vatn. Molaskrifari þakkar sendinguna. Eins gott að gæta sín!
Rangt var farið með nafn Sigurðar Inga Jóhannssonar í fréttum Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (13.04.2014). Hann var sagður Jóhannesson. Slíkt getur alltaf komið fyrir, en þá er bara að leiðrétta. Ekki heyrði Molaskrifari að það væri gert í þessum fréttatíma.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.3.2014 | 10:08
Molar um málfar og miðla 1432
Sjá: http://www.visir.is/farsimar-fartheganna-hringja-enn-/article/2014140319750
Hann spyr og er það að vonum: Hvert skyldi afdrifið vera?
KÞ benti einnig á þessa frétt á visir. is (10.03.2014): http://visir.is/donsku-stelpurnar-skorudu-fimm-mork-a-moti-bandarikjunum/article/2014140319865
Hann spyr:
Hvað getur maður sagt? Molaskrifari svarar: Maður getur eiginlega ekkert sagt eftir að hafa lesið þessi skrif. Þakka ábendingarnar.
Í fréttayfirlit Ríkissjónvarps (10.03.2014) var okkur sagt að forsætisráðherra hefði opnað á að utanríkismálanefnd fjallaði um tillögu stjórnarandstöðunnar. Undarlegt orðalag að ekki sé meira sagt. Varla heldur þingfréttamaður Ríkissjónvarpsins að forsætisráðherra ráði dagskrá og vinnuskipulagi hjá þingnefndum, eða hvað? Framkvæmdavald - löggjafarvald? Þessi fullyrðing var út í hött.
Í áttafréttum Ríkisútvarpsins að morgni þriðjudags (11.03.2014) heyrði Molaskrifari ekki betur en sagt væri um ástandið á Krímskaga að það væri aðkallandi. Ekki er Molaskrifari sáttur við það orðalag. Aðkallandi, áríðandi, er að bregðast við þróun mála á Krímskaga. Í sama fréttatíma var talað um að inna um e-ð. Spyrjast fyrir um e-ð. Venja er að tala um að inna eftir einhverju.
Í veðurfréttum Stöðvar tvö (11.03.2014) var sagt frá veðurfari á Neskaupstað. Molaskrifari hefur vanist því að sagt sé í Neskaupstað, enda fara menn í kaupstað, ekki á kaupstað. Á bernskuheimili skrifara var hinsvegar aldrei talað um Neskaupstað, þar sem tvær afasystur bjuggu og fleira frændfólk. Ævinlega var talað um Norðfjörð. Austur á Norðfjörð.
Einhver ætti að benda Hönnu Birnu Kristjánsdóttur , innanríkisráðherra, á að hætta að ljúka öllum sjónvarpsviðtölum með einhverskonar frosnu brosi. Það er eitthvað svo ósköp kjánalegt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.3.2014 | 18:29
Molar um málfar og miðla 1431
Molaskrifari hefur aldrei heyrt orðið dekkhlaðinn um báta eða skip með fullfermi. Hvað segja aðrir Molalesendur?
Molaskrifari vonar að það verði eitt af fyrstu verkum nýs útvarpsstjóra, sem boðinn er velkominn til starfa, að stöðva vitleysisganginn sem kallaður er Hraðfréttir og verja takmörkuðu dagskrárfé í vitrænni dagskrárgerð.
Þáttastjórnandi á Bylgjunni tók þannig til orða á laugardag (08.03.2014) að símalega væri allt að fara á hliðina í þættinum! Molaskrifari játar að hafa ekki heyrt þetta orðskrípi, símalega, áður. Og saknar þess ekki, þótt hann heyri það aldrei aftur.
Íþróttadeild Ríkissjónvarpsins gerist æ frekari til rýmis í dagskránni. Með sama áframhaldi verður þess vart langt að bíða að íþróttafréttir hefjist klukkan 19 00 og verði til klukkan 19 30. Síðan taki við almennar fréttir frá 19 30 til 19 40!
Fréttabörn fá stundum, - of oft reyndar, að leika lausum hala á netmiðlunum, - einkanlega um helgar. Á visir.is mátti lesa um þotu sem hefði sundrast í miðju lofti! http://visir.is/thotan-gaeti-hafa-sundrast-i-midju-lofti/article/2014140308910
Þetta var eitthvað lagfært síðar, eftir að ábendingar höfðu verið birtar á netinu. Hvar var gæðaeftirlitið?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.3.2014 | 18:51
Molar um málfar og miðla 1430
Hann segir: - Ég skildi ekki einu sinni hvað um var rætt ,,36% auking á hótelum"? Mér sýnist að þarna sé átt við fjölgun hótelgesta og fyrirsögnin átt að vera ,,Hótelgestum fjölgar um 36 prósent". Molaskrifari þakkar réttmæta ábendingu.
Ósveigjanleiki Norðmanna er um að kenna að ekki náðust sögulegar sættir í makríldeilunni, las Logi Bergmann Eiðsson í fréttayfirliti á Stöð tvö (06.03.2014). Hefði átt að vera: Ósveigjanleika Norðmanna er um að kenna að ekki ....
Líkamsárásin á Hallbjörn sem varð í febrúar í fyrra, sagði Þórhildur Ólafsdóttir í fréttum Ríkissjónvarps (06.03.2014). Miður gott orðalag. Árásin varð ekki. Árásin var gerð.
Sumar auglýsingastofur valda spjöllum á íslensku máli, - meðal annars með óþarfa slettum. Í Morgunblaðinu á föstudag ( 07.03.2014) var bílaauglýsing frá BL. Yfirskrift auglýsingarinnar var: Það geta ekki allir verið gordjöss. Orðið gordjöss er ekki íslenska. Það er íslensk framburðarskrift á enska orðinu gorgeous sem þýðir, dásamlegur, dásamlega fagur. Þetta er óþörf og ljótt sletta. Ekkert dásamlegt við hana. Á baksíðu Morgunblaðsins á laugardag (08.03.2014) er svo haft eftir Páli Óskari Hálmtýssyni, söngvara:,,... húsið skreytingarnar,tónlistin, ljósin og dansararnir gordjöss. Ja, hérna!
Er að ... orðalagið heyrist æ oftar. Sagt var í fréttum Stöðvar tvö (07.03.2014): Tiger Woods er ekki að spila vel ... Eins hefði mátt segja: Tiger Woods spilar ekki vel.
Steini sendi eftirfarandi (07.03.2014) : ,,Í frétt mbl. (7.3.) er leikskólamál viðhaft, eða slöpp þýðing: ,,Allt í einu áttaði fólkið sig á því að það var komið í djúpt vatn og sterka strauma."
Þarna grunar mig að deep water sé þýtt beint sem djúpt vatn. Sem er ei boðlegt. Tillaga til úrbóta: "...sundmennina bar út á mikið dýpi og höfðu ekki við sjávarstraumum þótt knálega syntu..."
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/03/07/bjorgun_i_sjo_nadist_a_myndskeid/
Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2014 | 19:47
Molar um málfar og miðla 1429
Samkvæmt þeim fréttum, sem ég hefi séð og heyrt um málið er ágreiningslaust, að hinn ákærði hafi skotið þá látnu. Ágreiningurinn er um hvort það hafi verið ásetningur hans eða slysaskot, það er að hann hafi talið sig vera að verjast innbrotsþjófi.
Það var samkvæmt því ekkert rangt við hinn gagnrýnda fréttaflutning og því hvergi slegið föstu, að um morð hafi verið að ræða. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið. Hann hefur mikið til síns máls.
Prýðilegur pistill í fréttum Ríkissjónvarps (05.03.2014) um meistaraverk þeirra Gunnars Þórðarsonar, óperuna Ragnheiði. Óperan var frumsýnd í Hörpu sl. laugardagskvöld og þar ætlaði fagnaðarlátunum í lokin seint að linna. Ógleymanlegt kvöld. Hversvegna rataði þetta ekki í fréttir fyrr en á miðvikudagskvöld?
Í fréttum Stöðvar tvö (05.03.2014) sagði Þórhildur Þorkelsdóttir, fréttamaður: Það var fjölskrúðlegt mannlífið í Kringlunni í dag ... Fjölskrúðugt hefði alveg dugað.
Getur allt verið stórt? Í frétt á mbl.is is (05.03.2014) segir: Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2014 er sú stærsta í sögu félagsins ... Getur áætlun verið stór? Hefði ekki til dæmis mátt segja að áætlunin væri sú viðamesta í sögu félagsins?
Ekki ber að vanþakka það þegar Ríkissjónvarpið býður upp á nýlegar heimildamyndir um samtímann, eins og gert var í gærkvöldi (05.03.2014). Þá fengum við að sjá mynd um Norður Kóreu. Molaskrifari er sérstakur áhugamaður um það land, sögu þessu og stöðu í samtímanum. Fannst raunar ekki mjög mikið til um þessa mynd. Efnislýsing í prentaðri dagskrá var ekki í góðu samræmi við raunverulegt efni myndarinnar. Minnist þess að hafa nýlega horft á mynd um þetta lokaða pyntingaríki (man ekki á hvaða stöð) sem var miklu áhugaverðari og gaf gleggri mynd að þessu undarlega landi. En takk, samt. Heimildamyndir og fréttaskýringamyndir um heimsmálin mætti alveg sýna tvisvar til þrisvar sinnum í viku. Samtímis mætti draga úr endalausu íþróttadekri Ríkissjónvarpsins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.3.2014 | 09:21
Molar um málfar og miðla 1428
Í frétt á bls. 2 í Fréttablaðinu (04.03.2014) um flug færeyska flugfélagsins Atlantic Airways til Reykjavíkur segir: Flugfélagið mun hætta notkun gamallar Fokker-vélar, einu vélarinnar sem hefur leyfi til lendingar í Reykjavík (svo!), í ágúst næstkomandi. Vélin sem hér um ræðir er ekki gömul Fokker vél. Vélin er fjögurra hreyfla þota af gerðinni BAe146. Í fréttinni er Ásgeir Gunnarsson nefndur sem framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands. Molaskrifari vissi ekki betur en framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands héti Árni Gunnarsson. Alltaf betra að hafa hlutina rétta.
Í DV (04.03.2014) er auglýsing um áskriftartilboð. Þar er boðið upp á fría áskrift út febrúar. Gallinn er bara sá að auglýsingin birtist 4. mars. Þeir fylgjast ekki vel með tímanum sem settu þessa auglýsingu í blaðið.
Margar athugasemdir mætti gera við texta og málfar Kjartans Hreins Njálssonar sem fjallaði um Úkraínu í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld (03.03.2014).
Hann talaði um að róa öldurnar á Krímskaga. Betra hefði verið: Lægja öldurnar á Krímskaga.
Setja úrslitakost. Betra: Setja úrslitakosti.
Reisa brú. Betra: Byggja brú, gera brú.
Ákveðin merki á lofti um ... Betra ákveðin teikn á lofti um...
Það sem kemur út úr Öryggisráðinu verður vafalaust neitað af Rússum. Betra: Rússar munu vafalaust beita neitunarvaldi gegn ákvörðun Öryggisráðsins. Enn eitt dæmi um þolmynd þar sem germynd væri betri.
Mjög fróðlegt og gott viðtal við Jón Ólafsson, prófessor, við Háskólann á Bifröst á Rás tvö á þriðjudagsmorgni (04.03.2014) þar sem hann fjallaði um ástandið í Úkraínu. Sennilega þekkir Jón betur til mála í þessum heimshluta en nokkur annar Íslendingur. Takk.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.3.2014 | 09:53
Molar um málfar og miðla 1427
Fréttastjórar eiga að skikka alla blaðamenn til að lesa Einum kennt, öðrum bent eftir ÞÞ. Það væri skref í rétta átt. - Molaskrifari þakkar Steina bréfið.
Haraldur Ingólfsson segist fylgjast með Molum, en ekki hafa sent línu áður. Hann segir:
,,Svo ég komi mér beint að efninu, þá tók ég eftir einkennilegum fréttaflutningi í kvöld(03.03), en verið var að fara yfir fréttir í lok fréttatíma Stöðvar 2, en þar sagði Telma Tómasson að Oscar Pistorius væri morðingi fyrrverandi unnustu sinnar, en hún sagði jafnframt að Oscar hefði lýst yfir sakleysi sínu.
Orðrétt sagði hún í yfirlitinu:
,,Suður-Afríski hlauparinn Oscar Pistorius sem skaut unnustu sína til bana, lýsti yfir sakleysi við upphaf réttarhalda í morgun''
Svo var líka fullyrt í fréttinni sjáfri af hann hafi skotið hana.
Orðrétt er þetta svona í fréttinni.,,Suður-Afríski hlauparinn, Oscar Pistorius lýsti yfir sakleysi sínu í morgun þegar hann kom fyrir rétt í borginni Pretoriu. Pistorius skaut unnustu sína til bana á síðasta ári og sakaður um morð af yfirlögu ráði,,
Hér er hún að lesa frétt sem e-r skrifaði, og fullyrt er að Oscar hafi skotið konuna. Ef svo fer að hann verði dæmdur sekur, þá er ekki rétt að fara svona frjálslega með staðreyndir í þessu máli á fyrsta degi réttarhaldanna.
Þetta er fréttin,byrjar á 10:20min
http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=SRC7BD2F98B-A1B9-433C-8202-4AB365716657
Ekki er búið að dæma í málinu og maðurinn ekki sekur uns sekt er sönnuð. Molaskrifari þakkar Haraldi bréfið. Réttmæt ábending.
Í fréttum Stöðvar tvö (03.03.2014) var sagt frá því að Ólafur Ragnar Grímsson hefði ungur drengur vestur á Þingeyri orðið óhreinn á höndunum. Kunnugir telja að það sé sennilega í eina skiptið sem það hefur gerst.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2014 | 08:24
Molar um málfar og miðla 1426
Undarlegt er hve mörgum gengur illa að fara rétt með orðtakið að bera gæfu til einhvers. Í þættinum Á Sprengisandi (02.03.2014) sagði Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður: okkur hefur ekki borið gæfu til þess. Við höfum ekki borið gæfu til þess að .... , hefði verið rétt að segja.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan sjö og yfirliti klukkan hálf átta í morgun (03.03.2014) sagði Áslaug Guðrúnardóttir okkur frá veitingu Óskarsverðlauna. Um eina mynd var sagt að hún hefði verið tilnefnd til tíu verðlauna, en ekki fengið eitt einasta. Sem sagt ekki fengið eitt einasta verðlaun! Fleirtöluorðin geta verið erfið. Áslaug var búin að lagfæra þetta í fréttum klukkan átta og talaði réttilega um ekki ein einustu verðlaun. Þá tók við Bjarni Pétur Jónsson með lengri fréttapistil um verðlaunaafhendinguna og talaði enn á ný um eitt einasta verðlaun. Hann sagði líka að eitthvað hefði verið samkvæmt bókinni. Hvaða bók? Enskukennslubókinni. Sennilega.
Molaskrifari hlustaði á drottningarviðtal við atvinnuvegaráðherrann í Á Sprengisandi á Bylgjunni. Lítils vísari. Svo kom viðtal við Guðlaug Þór Þórðarsonar, varaformann þingflokks Sjálfstæðisflokksins og Helga Hjörvar úr Samfylkingu. Guðlaugur Þór sagði okkur að Evrópusambandið hefði verið mikill ófriðarvaldur í Evrópu! Hann þarf að lesa söguna betur. Aðild að ESB hefur verið ágreiningsefni í ýmsum Evrópulöndum, en allt of langt er gengið að tala um þessa samvinnu 28 Evrópuríkja sem ófriðarvald.
Danska sjónvarpið, DR er um þessar mundir að endursýna bresku gamanþættina, Já, ráðherra (Yes, Minister). Þetta voru stórskemmtilegir grínþættir, sem hafa bara elst ágætlega. Ríkissjónvarpið okkar gæti hér tekið það danska sér til fyrirmyndar. Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.3.2014 | 09:49
Molar um málfar og miðla 1425
Molalesandi spurði (27.02.2014):!. ,,Heyrðirðu þessa perlu í íþróttafréttum Ríkisútvarpsins núna kl 12:45:
...sýndi af sér grófa íþróttamannslega framkomu! Molaskrifari heyrði þetta reyndar líka og beið eftir leiðréttingu á mismælinu. Hún kom ekki. Öllum getur orðið á að mismæla sig, en þá er bara að leiðrétta mismælið.
Steingerðir hvalir fundust í jörðu í eyðimörk í Suður Ameríku. Talið er að fyrir milljónum ára hafi hvalirnir drepist vegna eitraðra þörunga í hafi sem einu sinni var. Í fréttum Ríkissjónvarps (27.02.2014) var sagt frá þessu og talað um hvalagrafreit. Ekki er Molaskrifari alveg sáttur við þá orðnotkun.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir skrifar í Fréttatímann (28.02.-02.03.2014) ,, ... annmarka skólakerfisins þar sem reynt er að steypa öllum nemendum í sama mót. Hér ætti að mati Molaskrifara að tala um að steypa alla í sama mót. Gera alla eins. Ekki steypa öllum í sama mót. Ef til vill vefst myndlíkingin eitthvað fyrir Sigríði Dögg.
Sagt var í hádegisfréttum Ríkisútvarps um ástandið í Úkraínu (28.02.2014) að þinghúsið og fleiri byggingar hefðu verið teknar yfir. Ekki vandað orðalag.
Molalesandi skrifaði (28.02.2014): ,,Spáðu í mig, þá mun ég spá í þig," söng Megas hér um árið. Sögnin að spá er í auknum mæli farin að taka með sér þágufall, sbr. þetta af visir.is ,,Sá klúbbur gengur út á það að smakka sem flestar tegundir af bjór hvar sem þú ert í heiminum og spá vel í honum. Ég vona að fólk fari ekki að syngja "spáðu í mér, þá mun ég spá í þér". Molaskrifari þakkar bréfið. Það er rétt. Þessi ambaga sést æ oftar. Því miður.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)