Molar um málfar og miðla 1443

  Sóknarlega og varnarlega eru að verða helstu eftirlætisorð íþróttafréttamanna. Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (29.03.2014) var okkur sagt frá manni sem sigraði keppni. Það virðist erfitt að uppræta þessa ambögu. Þar kom líka við sögu kona sem missti andann!!!

 

TH benti á þetta af visir.is (30.03.2014):http://www.visir.is/-thetta-er-natturulega-alveg-gratlegt-/article/2014140339998
,,Kepptust við að lyfta nýþungum steinum upp á tunnur"
Hann spyr: ,,Ætli það sé alveg víst að steinarnir hafi alveg nýlega orðið svona níðþungir?
Læra blessuð fréttabörnin enn ekkert?” Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Þessi endemisskrif eru af dv.is (29.03.2014): Lesandi, K.Þ. benti á þetta og spyr: Hvað er ósiðnaður?

Fyrirsögn: Átta ára stúlka ekki nógu kvenleg til að stunda nám. Undirfyrirsögn: ,,Hin kristinlegu gildi Timberlake skólans krefjast þess að börnin hegði sér eftir ásköpuðum kynímyndum guðs”

,, Hin átta ára gamla Sunnie Kahle neyddist til að hætta í kristinlegum skóla í Virginia fylki í Bandaríkjunum vegna þess að hún var ekki talin nógu kvenleg. Amma hennar og afi fengu fyrir stuttu bréf frá skólastjóra skólans þar sem þeim var sagt að Sunnie stæðist ekki kristinlegu viðmið skólans og biblíunnar vegna þess að hún væri „of mikið eins og strákur.“

Sunnie er með stutt hár og gengur gjarnan í gallabuxum og stuttermabol í skólanum. Jafnframt hefur hún gaman af íþróttum.

„Ef Sunnie og fjölskyldan hennar átta sig ekki á því að Guð skapaði hana sem konu og klæðnaður hennar og hegðun verður að fylgja áskapaðri kynímynd Guðs, þá er kristinlegi Timberlake skólinn ekki hentugur fyrir hana.“

Skólastjórinn bað aðstandendur Sunnie að fá hana til að hegða sér á kvenlegri hátt, eða hún þyrfti að flytja sína menntun annað. Ömmu og afa Sunnnie ofbauð þessi skilaboð og Sunnie hætti í skólanum samkvæmt fréttamiðlinum Independent.

Í bréfinu kom jafnframt fram að skólinn geti neitað hverjum þeim inngöngu sem sagðir eru styðja undir „kynferðislegan ósiðnað,“ samkynhneigð eða breytilega kynímynd.”

Margs fleira mætti spyrja þann blaðamenn dv.is, sem ber ábyrgð á þessum skrifum. Kristinlegur? Ósiðnaður?Flytja sína menntun? Styðja undir?

Það eru gerðar kröfur til fjölmiðla. Fjölmiðlar verða að gera kröfur til þeirra sem skrifa fréttir.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1442

  Í inngangi fréttar í Ríkisútvarpinu (28.03.2014) um atkvæðagreiðslu um heimild til verkfallsboðunar hjá flugvallastarfsmönnum var sagt þeir væru að kjósa um verkfall. Ekki kann Molaskrifari að meta það orðalag. Í fréttinni talaði fréttamaður réttilega um að greiða atkvæði um verkfallsboðun. Þetta var sömuleiðis rétt í fréttinni á vef Ríkisútvarpsins: http://www.ruv.is/frett/fyrsta-vinnustoppid-yrdi-8april

 

Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 16 00 á föstudag  (28.03.2014) var sagt frá því að Jens Stoltenberg  fyrrverandi forsætisráðherra Noregs yrði næsti sendiherra Atlantshafsbandalagsins. Hið rétta er að Jens Stoltenberg verður næsti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. Þetta var ekki leiðrétt í fréttatímanum. Kannski var enginn á fréttastofunni að hlusta, eða að mönnum finnst ekki taka því að leiðrétta svona missögn. Þetta var hinsvegar rétt á fréttavef útvarpsins. http://www.ruv.is/frett/stoltenberg-naesti-framkvaemdastjori-nato

 

Fyrirsögn heilsíðuauglýsingar í Fréttatímanum )28.-30.03.2014) er: Félag Íslenskra Teiknara kynnir sigurvegara FÍT verðlaunanna 2014 Sigurvegari verðlaunanna! Ekki gott orðalag. Þar að auki ætti að skrifa heiti félagsins samkvæmt íslenskum stafsetningarreglum, - Félag íslenskra teiknara.

 

DV greindi frá því í helgarblaðinu (28.-31.03.2014) að Andri Freyr Viðarsson og Guðrún Dís Emilsdóttir, umsjónarmenn Virkra morgna á Rás tvö í Ríkisútvarpinu muni nú ganga til liðs við Kastljós sjónvarpsins. Ágætur maður sagði á fésbók, að nú muni ambögurnar, enskusletturnar og bullið fá að njóta sín í mynd. Dómgreindarleysi stjórnenda Ríkisútvarps virðist stundum óendanlegt.

Á að eyðileggja Kastljósið sem fréttaskýringaþátt?

 

Í fréttum Stöðvar tvö (28.03.2014) var talað um að síðasti kennsludagur færi fram ... Einfaldara og betra hefði verið að segja, að síðasti kennsludagur væri ...

 

 Úr DV (28.-31.03.2014): .. og afleiðingarnar voru að ryð fór að gæta innan dósanna. Klúðurslegt orðalag. Afleiðingarnar voru þær að dósirnar ryðguðu að innan.

 

Endurfluttur þáttur Unu Margrétar Jónsdóttur Á tónsviðinu um Jón frá Ljárskógum (30.03.2014) var sannkölluð útvarpsperla. Eins og reyndar flestir þættir sem hún gerir. Takk.

Sömleiðis skal þakkað það ágæta framtak Ríkissjónvarpsins að sýna okkur Engla alheimsins í beinni útsendingu á sunnudagskvöld (30.03.2014). Kominn tími til að sýna okkur eitthvað annað en boltaleiki í beinni útsendingu. Mættum við fá meira að sjá og heyra. Þessi útsending var listaverk.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1441

  Óralangt er síðan Molaskrifari síðast hlustaði á Virka morgna á Rás tvö í Ríkisútvarpinu. Hlustaði stundarkorn að morgni miðvikudags (26.03.2014). Þáttarstjórnendur höfðu orðið: Þetta er ekkert að gerast fyrir mig, sagði Andri Freyr Viðarsson. Nokkru síðar sagði Guðrún Dís: Maður getur skrikað fótur. Kannski þarf sérstakan málfarsleiðbeinanda við þennan þátt.

 

Af mbl.is (26.03.2013): Ljóst er að almenningur vestan hafs er felmtri sleginn yfir fréttunum að hjónin Gwyneth Paltrow og Chris Martin ætli að skilja. Verðbólga orðanna. Eða, að sá sem skrifaði veit ekki hvað það er að verða felmtri sleginn. Það þýðir að vera gripinn skyndilegri og mikilli hræðslu. Varla hefur fregnin af þessum skilnaði valdið skyndilegum ótta hjá almenningi vestra.

 

Hversvegna þurfa fréttir og veðurfréttir svona oft að láta í minni pokann fyrir íþróttaefni í Ríkissjónvarpinu? Til dæmis á miðvikudagskvöldið (26.03.2014). Er yfirstjórn íþróttadeildar einráð um dagskrána? Þetta þarf nýr útvarpsstjóri að taka til athugunar og endurskoðunar.

 

Bjarni Harðarson, bóksali á Selfossi, og margreyndur frambjóðandi ýmissa flokka skrifaði grein í Morgunblaðið á föstudag (28.03.2014). Þar segir hann:,,Það á ekkert skylt við lýðræði að hrópa á þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvað sem ekki er mögulegt. Það er skrum og tilræði við lýðræðið”. Er það ekki tilræði við lýðræðið, þegar hver stjórnmálamaðurinn á fætur á öðrum, úr tveimur stjórnmálaflokkum, fólk sem nú situr í ráðherrastólum, lofaði kjósendum þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir kosningar, og svíkur svo loforðið eftir kosningar? Það er tilræði við lýðræðið. Það eru svik. Það er óheiðarlegt. Það er nefnilega ekkert ómögulegt við þjóðaratkvæðagreiðslu um að ljúka viðræðum við ESB, - nema það að ríkisstjórnin mundi að líkindum tapa málinu. Getur það gert atkvæðagreiðsluna ómögulega? Er það lýðræði? Það er þá skrítið lýðræði.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1440

  Lesandi ,SIG, skrifaði (24.03.2014) vegna fréttar á dv.is:

 http://www.dv.is/frettir/2014/3/24/kolnar-nokkud-skart-ur-vestri/
,,DV skrifaði upp af vef Vegagerðarinnar um breytingar á veðrinu (24.3). Bæði í fyrirsögn og upphafi fréttarinnar stóð: „Kólnar nokkuð skart úr vestri“.
Þannig stóð þetta þar til eftirfarandi spurning var borin upp í athugasemdakerfinu: „Hvers konar skart er þetta sem kólnar? Armbönd og eyrnalokkar eða bara hálsfestar?“
Til að athuga hvort mistökin fælust í ógætilegri copy/paste vinnu athugaði ég vef Vegagerðarinnar en þar var þetta rétt. Taka ber fram að ég fór inn á vef Vegagerðarinnar örfáum mínútum eftir að frétt DV var birt. 
Blaðamaður DV hefur því líklega ætlað sér að „leiðrétta“ Vegagerðina með þessum árangri og þurfti ábendingu frá lesanda til að leiðrétting yrði gerð. Merkilegt.”  Molaskrifari þakkar bréfið.

 

 Í Molum hefur stundum verið vikið að enskuslettum í auglýsingum. Þær gerast nú æ algengari. Í Fréttablaðinu (21.03.2014) var auglýst: Hættu í megrun vertu fit. Svo fylgdi sögu, að verið væri að auglýsinga Fit kjúklinga-salat.- Hversvegna bandstrik í orðinu kjúklingasalat? Auglýsandi var nefndur  Culiacan. Ekki til fyrirmyndar.

 

Fróðlegt viðtal Þóru Arnórsdóttur við Jón Ólafsson, prófessor við háskólann ´Bifröst um málefni Úkraínu í Kastljósi á mánudagskvöld (24.03.2014). Málið ekki eins einfalt og sumir stjórnmálamenn innlendir og erlendir vilja vera láta.

 

Það segir Molaskrifara afskaplega lítið þegar þáttastjórnendur í sjónvarpi segjast vera með sneisafullan þátt ( til dæmis Gísli Marteinn á Sunnudagsmorgni 23.03.2014). Merkingarlaust orðagjálfur.

 

Í bílablaði Morgunblaðsins (25.03.2014) segir í myndatexta: Engu er til sparað til að gera innarýmið (svo!) í Lexusnum sem vistlegast og veglegast. Betra væri: Ekkert er til sparað til að gera Lexusinn vistlegan og veglegan að innan. Mjög oft er tuglað saman: Engu til kostað og ekkert til sparað.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Fróðlegur lestur

   Mæli með  The  Real Great Escape eftir Guy  Walters. Bókin kom út fyrir ári. Ýmislegt nýtt í henni. Ekki  síst  um viðbrögð Nasista sem myrtu  flesta fangana sem flúðu. Óhugnanlegt.
mbl.is Flugmenn minnast „Flóttans mikla“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Molar um málfar og miðla 1439

  Molavin skrifaði (21.03.2014):,, Úr mbl.is-frétt 21.3: ,,Þýfið hefur ekki fundist, en maðurinn hafði á brott fjármuni úr sjóðsvél." Hér étur blaðamaður upp orðrétt stofnanamál úr lögreglutilkynningu. Orðið ,,sjóðsvél" er aldrei notað í daglegu tali. Þar er átt við peningakassa í afgreiðslu. Það ágæta orð þótti ekki nógu fínt þegar lög voru sett um upptöku virðisaukaskatts og því var notað í staðinn þessi tilbúningur; sjóðsvél, sem átti að þýða peningakassa með búnaði til skráningar með vsk. númeri.”. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Fyrrverandi fréttamaður skrifaði Molum: ,, Eiður, ég sá í Fréttablaðinu (18.03.2014) að N1 var að auglýsa eftir starfsmönnum og tekið var fram að þeir ættu að vera ,,söludrifnir". Ætli þetta hafi ekki átt að vera ,,bensíndrifnir", svona miðað við eðli fyrirtækisins? Góð ábending! Þakka bréfið.

 

Það eru stór og mikil mál að detta hér inn, sagði Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokks í umræðum á Alþingi um skýrslu utanríkisráðherra (20.03.2014) Þingmaðurinn átti við að á næstunni yrðu lögð fram á Alþingi mikilvæg mál. En ósköp finnst Molaskrifara hvimleitt , þegar þingmenn segja hvað eftir annað: Sjálfur tel ég, eða sjálfur er ég þeirrar skoðunar. Þessi ágæti þingmaður ætti að venja sig af þessum kæk.

 

Úrslitin voru samkvæmt bókinni, sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö (21.03.2014). Hvaða bók?

 

Í Spegli Ríkissjónvarpsins (21.03.2014) talaði Sigrún Davíðsdóttir um eftirlaunatengdar fjármálaafurðir. Sjálfsagt vita allir hvað hún átti við, en Molaskrifari er ekki í þeirra hópi.

 

Í prentaðri dagskrá Ríkissjónvarps var Sigmar Guðmundsson sagður umsjónarmaður Útsvars ásamt Þóru Arnórsdóttur. Í inngangi að Útsvari (21.03.2014) var Sigmar Guðmundsson kynntur sem umsjónarmaður. Svo kom í ljós, þegar þátturinn hófst að Gísli Marteinn Baldursson var umsjónarmaður þáttarins ásamt Þóru Arnórsdóttur. Sigmar var sagður í fæðingarorlofi. Ætti það ekki í þessu tilviki að kallast feðraorlof? Kom þetta orlof Sigmars bara eins og þruma úr heiðskíru lofti? Gísli Marteinn er með vikulegan þátt í Ríkissjónvarpinu. Dugar það ekki? Hann komst reyndar alveg prýðilega frá sínu í Útsvarinu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1438

 Molavin skrifaði (19.03.2014): ,,Af Vísi í dag, miðvikudag: (Finnur Thorcaius skrifar)

Hundurinn seldist á uppboði sjaldgæfra hunda í Kína og annar Canine hundur seldist á helming þessarar upphæðar. 

Skyldi blaðamanninum vera ljós merking enska orðsins canine"? Sennilega ekki, segir Molaskrifari.

 

Molaskrifara þótti Magnús Geir Þórðarson, nýr útvarpsstjóri, ágætlega trúverðugur í viðtali í Kastljósi á þriðjudagskvöld (18.03.2014). Allt er það rétt, sem hann sagði um útvarpshúsið í Efstaleiti. Það var monthús síns tíma. Sá sem þetta skrifar gagnrýndi þessa húsbyggingu þegar framkvæmdir hófust. Taldi húsið of stórt og of dýrt. Þáverandi útvarpsstjóri tók þá gagnrýni óstinnt upp. Hann sagði að formaður fjárveitinganefndar (sem skrifari var í eitt ár) teldi Ríkisútvarpinu ágætlega fyrir komið í ,,bárujárnsskúr á blásnum mel”!  Eyjólfur Konráð Jónsson alþingismaður gagnrýndi byggingu útvarpshússins og var óvæginn. Hann taldi hússkrokkinn henta vel sem kartöflugeymslu.

 Nú verður fróðlegt að fylgjast með framvindu mála í Efstaleiti næstu vikur og mánuði.

 

Fréttaþulur las í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins(18.03.2014): ,,Á annan tug bíla eru nú fastir á Möðrudalsöræfum. Verið er að koma bílunum niður af heiðinni með aðstoð björgunarsveitarinnar Jökli frá Jökuldal.” Enda hikstaði lesari aðeins, en leiðrétti ekki.  Með aðstoð björgunarsveitarinnar Jökuls. Eða: Með aðstoð manna úr björgunarsveitinni Jökli.

 

Hvað er að leigja svart í góðri von? Þetta orðalag notaði Þórhildur Þorkelsdóttir fréttamaður í fréttum Stöðvar tvö (18.03.2014). Góðri von um hvað? Er það að leigja á svörtum markaði í góðri trú eða von um að allt muni enda vel? Ekki gott orðalag.

 

Enskuslettum í auglýsingum fjölgar. Nú er auglýst á netinu (19.03.2013) svokallað ,,belly fitness” námskeið.

 

Þetta er ekki að fara að gerast, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (19.03.2014). Það var og.

 

Sennilega er orrustan um notkun sagnarinnar að opna töpuð. Menntamálráðherra talar um að skólarnir opni (19.03.2014).

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1437

  Af dv.is (15.03.2014). Hann þekkir vel til hjólreiða og starfaði meðal annars hjá Örninum í Reykjavík frá árinu 2010 til 2011. Starfaði hjá Örninum! Það var og. Erninum, hefði það átt að vera. Fákunnátta eða beygingahræðsla.

Meira af dv.is: Skúli Gunnar Sigfússon benti á eftirfarandi á dv.is (15.03.2014): Þetta er í fyrsta skipti sem skólinn sigrar keppnina en þeir öttu kappi við Borgarholtsskóla. Það ætlar seint að eldast af fjölmiðlum að sigra keppni. Við tölum um að sigra í keppni, vinna keppni en sigra andstæðing.

 

Rafn bendir á þessa frétt á mbl.is (16.03.2014):

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/03/16/semur_log_baedi_i_starfi_og_fritima/

Rafn segir: ,, Í þessari frétt segir að tónskáld sé ráðherra að aðalstarfi og í því starfi sé hlutverk þess lagasmíð. Í mínum huga er þetta rangt. Ráðherra fer með framkvæmdavald en ekki löggjafarvald. Hins vegar gegnir viðkomandi jafnframt starfi þingmanns og sinnir í því starfi löggjafarstörfum. " Hverju orði sannara, bætir Molaskrifari við og þakkar Rafni sendinguna.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (16.03.2014) var sagt að ef hætt yrði við byggingu fyrirhugaðs háhýsis við Skúlagötu í Reykjavík yrði það bæði dýrt og kostnaðarsamt. Molaskrifara er ekki alveg ljós munurinn á því sem er dýrt og því sem er kostnaðarsamt.

 

Gísli Marteinn þarf ekki að hrópa á okkur, þegar hann er að kynna þátttakendur í Ríkissjónvarpsþætti sínum Sunnudagsmorgni. Svona vinsamleg ábending.

 

Ágætur veðurfræðingur, Birta Líf, ætti að reyna að venja sig af því að færa  áherslu yfir á síðari hluta samsettra orða. Önnur vinsamleg ábending.

 

Af visir.is (17.03.2013): Hún tók spurningum blaðamanns Vísis fremur óstinnt upp þegar frétt Eyjunnar var nefnd. Hér hefði verið rétt, að mati Molaskrifara, að segja: Hún tók spurningar blaðamannsins heldur óstinnt upp. Taka eitthvað óstinnt upp, taka einhverju fálega eða illa. Reiðast einhverju. Viðtalið við aðstoðarframkvæmdastjóra Bændasamtakanna er annars alveg lestursins virði: http://www.visir.is/baendasamtokin-styrkja-tha-sem-theim-synist/article/2014140318987

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1436

  Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (15.03.2014, minnir mig) var tvívegis talað um LÍÚ sem Landssamband íslenska útgerðarmanna. Þetta á ekki að henda þrautreyndan fréttmann eins og Arnar Pál Hauksson. LÍÚ heitir fullu nafni Landssamband íslenskra útvegsmanna. Ástæðulaust er að útrýma því ágæta orði útvegsmaður. Einhverjum kann að finnast þetta smáatriði. Smáatriðin þurfa líka að vera rétt í öllum fréttum. Þetta hefur verið nefnt hér áður.

Í sama fréttatíma var sagt frá gjaldtöku af ferðamönnum sem koma að Geysi. Ævinlega var sagt á Geysi. Molaskrifara finnst eðlilegra að segja við Geysi eða að Geysi.

 

Nokkuð algengt er að sjá villur í auglýsingum,sem eiga rætur að rekja til auglýsingastofa, til þeirra sem semja og hanna auglýsingar. Í Morgunblaðinu á laugardag (15.03.2014) er heilsíðuauglýsing frá fyrirtæki sem heitir Kaupum gull. Í auglýsingunni segir: Kaupum gegn staðgreiðslu eða lánum út á eftirfarandi muni: Vönduðum úrum, skartgripum og demöntum, gull og verðmætum málmum, verðmætum bifreiðum, málverkum og antikmunum. Í upptalningunni ætti allt að vera í nefnifalli: Kaupum gegn staðgreiðslu eða lánum út á eftirfarandi muni: Vönduð úr, skartgripi og demanta, - og svo framvegis. Auglýsingastofur eiga að vanda málfar í auglýsingum.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (15.03.2014) sagði formaður Samfylkingarinnar Árni Páll Árnason (efnislega) að kynslóð genginna stjórnmálamanna stjórnaði gerðum formanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Gengnir stjórnmálamenn eru dánir stjórnmálamenn. Samanber, - góður er hver þá genginn er. Allir eru góðir, þegar þeir eru dauðir!

 

Volkswagen Golf hefur verið valinn sem bíll ársins, segir í sjónvarpsauglýsingu frá Heklu. Hér er tilvísunarfornafnið óþarft. Betra hefði verið að segja: Volkswagen Golf hefur verið valinn bíll ársins.

 

Stjórnandi Gettu betur í Ríkissjónvarpinu heldur ítrekað áfram (15.03.2014) að kalla auglýsingar skilaboð. Það er út í hött. Hann á að kalla auglýsingar auglýsingar.

 

Í prentaðri dagskrá Ríkissjónvarps segir (16.03.2014): ,,Einstaklingar sem hafa verið taldir látnir til nokkurs tíma fara að dúkka upp .... “ Hvar er nú málfarsráðunautur?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1435

  Þessi setning er á forsíðu Fréttablaðsins (14.03.2014): Þingmenn stjórnarandstöðunnar segja ríkisstjórnina hafa verið fíflaða. Sögnin að fífla þýðir að fleka eða tæla til kynmaka.

 

Úr frétt í Morgunblaðinu (15.03.2014): Samtök atvinnulífsins segja framhaldsskólakennara ekki hafa tekist að útskýra launakröfur sinar fyrir almenningi með skiljanlegum hætti. Hér ætti að standa: Samtök atvinnulífsins segja framhaldsskólakennurum ekki hafa tekist að útskýra .... Nema átt sé við einn framhaldsskólakennara. Svo er þó ekki! Í sama tölublaði Morgunblaðsins er fyrirsögn sem Molaskrifara finnst ekki fara vel. Hún er svona: Óhuggandi barn aðstæður sem hann réði ekki við.

 

Molaskrifari var búinn að gleyma því að Fréttastofu Ríkisútvarpsins þóknast ekki að vera með fréttir og fréttayfirlit á sömu tímum um helgar og virka daga. Gamaldags hugsunarháttur og illskiljanlegur. Á laugardagsmorgni (15.03.2014) ætlaði skrifari að hlusta á fréttayfirlit klukkan hálf átta, en greip í tómt. Í staðinn hlustaði hann á gamla, bráðskemmtilega útvarpserlu frá 1970 eða þar um bil. Þátturinn hét Að vera skemmtilegur. Umsjónarmenn voru Árni Þórarinsson og Björn Vignir Sigurpálsson. Rætt var við þá Flosa Ólafsson, Friðfinn Ólafsson og Ómar Ragnarsson. Þeir voru hver öðrum skemmtilegri.

 

Af mbl.is (15.03.2014): Hann segir að samkvæmt upplýsingar úr gervihnöttum og úr ratsjám sýni fram á að vélin hafi síðan breytt um stefnu og að hún gæti hafa flogið áfram í um sjö klukkustundir, --- Hér hefur eitthvað skort á yfirlestur áður en fréttin var birt. Samkvæmt upplýsingum ...

 

Það er heldur slakur fréttadagur (14.03.2014) þegar það nær inn í hádegisfréttir, að garðeigandi á Egilsstöðum sé harmi sleginn  vegna þess að sagað hafi verið af hálfrar aldar gömlu birki tré í garði hans! Hér finnst Molaskrifara eins og verið sé að gengisfella orðatiltækið harmi sleginn, þótt vafalaust hafi garðeigandanum þótt þetta miður.

 

Ástæða er til að vekja athygli á prýðilegum Tungutakspistli Guðrúnar Egilson á bls. 28 í Morgunblaðinu á laugardag (15.03.2014). Pistillinn heitir : Um gelda og ógelda þolmynd. Kærar þakkir, Guðrún. Þörf áminning.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband