Molar um málfar og miðla 1453

 Í fréttum Stöðvar tvö var um síðastliðna helgi sagt frá skógareldunum í Síle. Talað var um kröftuga vinda,sem gerðu að verkum að eldarnir breiddust hratt út. Eðlilegra hefði verið að tala um hvassviðri eða rok. Það er dálítill enskukeimur af því að tala um kröftuga vinda.

 

Fréttamaður Stöðvar tvö (14.04.2014) sagði í frétt af atburðum í Úkraínu: ,, .. en það neita rússnesk yfirvöld alfarið fyrir”. Slæmt orðalag. Enginn yfirlestur. Einfaldara og betra: En því neita rússnesk yfirvöld alfarið.

 

Í frétt um lögreglumál á mbl.is (15.04.2014) segir: ,Síðan var nokkuð um hávaðaköll á öllu höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Iðulega kom áfengi við hönd og reyndist húsráðendum erfitt að hafa stjórn á hljómstyrk tónlistartækjanna.” Hér er greinilega ruglað saman tveimur orðatiltækjum.: ... iðulega hafði áfengi verið haft um hönd , ... iðulega kom áfengi við sögu.

 

Fréttamaður Ríkissjónvarps (14.04.2014) sagði frá skógareldum í Síle og að slökkviliðsmenn berðust enn við að ná niðurlögum eldsins. Hér hefði einhver þurft að lesa handrit fréttarinnar yfir áður en fréttin var lesin fyrir okkur. Við tölum ekki um að ná niðurlögum elds. heldur ráða niðurlögum elds, slökkva eld. Einnig mætti tala um að ná tökum á eldinum, hemja útbreiðslu hans.

 

- Við erum að tala um relative poverty, sagði talsmaður Barnaheilla, upp á ensku sem rætt var við um fátækt meðal barna í fréttum Ríkisútvarps (15.04.2014). Ekki heyrði Molaskrifari að þetta væri skýrt frekar. Líklega var átt við fátækt með hliðsjón af almennri velmegun í tilteknu landi.

 

Í fréttayfirliti kvöldfrétta Ríkisútvarpsins (16.04.2014) var enn einu sinni ruglað saman því að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað. Í fréttatímanum var þetta hinsvegar rétt. Það þarf líka að vanda fréttayfirlitið. Rétt eins og fyrirsagnir í blöðum og á netinu.

 

Rannsóknarlögreglan Tom Thorne ...., segir niðursoðna konuröddin, sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins, aftur og aftur. Hversvegna leiðréttir enginn í Efstaleitinu þessa texta sem niðursoðna röddin er látin lesa yfir okkur? Rannsóknarlögreglumaðurinn Tom Thorne ...

Rafn vitnar í frétt á visir.is (16.04.2014) þar sem segir: Heimilt að vera á nagladekkjum í vissum aðstæðum. Hann spyr: Hvað er að vera í aðstæðum? Ekki er nema von að spurt sé! Molaskrifari þakkar ábendinguna. http://www.visir.is/heimilt-ad-vera-a-nagladekkjum-i-vissum-adstaedum/article/2014140419309

Þótt Molaskrifari sé ekki 100% sammála ákvörðunum útvarpsstjóra um ráðningu yfirmanna í Ríkisútvarpinu (skoðun hans skiptir reyndar ekki máli í þessu sambandi), sem greint var frá á miðvikudag (16.04.2014) er hann samt á því að útvarpsstjóri hafi staðist þetta próf með prýði. Hér held ég að hafi tekist vel til. Öllum   þeim, sem taka nú við  ábyrgðarstöðum, er árnað heilla í störfum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1452

  Hnökrar voru á málfari í fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (11.04.2014). Þar var sagt: ,, ... hvort Fjármálaeftirlitið hefði gengið á eftir sparisjóðunum með þetta”. Rétt hefði verið að segja til dæmis: Hvort Fjármálaeftirlitið hefði gengið eftir því við sparisjóðina að ....

Einnig sagði fréttamaður: ,, ... hversu stuttan tíma þingmönnum var gefinn til ...” Betra hefði verið: Hve skamman, eða stuttan, tíma þingmenn fengu til.....

 

Áskell vakti athygli á eftirandi á mbl.is (13.04.2014): , Hluti af íslensku makrílveiðiskipunum liggur nú bundinn við bryggju í Þórshöfn í Færeyjum vegna brælu en mikið hvassviðri skekur miðin”. - segir á mbl.is. Áskell segir: ,,Að hvassviðri skeki miðin hljómar sérkennilega. Blaðamaðurinn hefði átt að segja punkt á eftir ,,brælu". Það hefði dugað. Gamlir sjómenn, sem rætt var við, höfðu ekki áður heyrt ,,hvassviðri skekur miðin." Molaskrifari þakkar ábendinguna. Þetta var reyndar lagfært síðar.

 

Í naumt skömmtuðum erlendum fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (12.04.2014) var sagt frá mengun af völdum olíuleka í kínverskri borg. Okkur var sagt að unnið væri að því að laga lekann. Var hann bilaður? Betra hefði verið að segja að unnið væri að því að stöðva lekann.

 

Molalesandi benti á eftirfarandi af mbl.is ,,... ekki kemur fram í hvern aðstoðarflugmaðurinn hafi verið að reyna ná sambandi við ”. Hér hefði átt að standa:,,...ekki kemur fram hvern aðstoðarflugmaðurinn var að reyna að ná sambandi við”. Eftir ábendingu þessa ágæta Molalesanda til mbl.is var þetta lagfært, - síðar,- að hluta.

 

Á visir.is (12.04.2014) var fyrirsögnin: Fundu hljóðmerkin aftur á Indlandshafi. Hér hefði verið eðlilegra að tala um að heyra hljóðmerkin á ný, fremur en að finna þau.

 

Birgitta Jónsdóttir alþingismaður sagði í viðtali við Ríkissjónvarpið (12.04.2014) að henni sýndist þingið hefði ekki fattað upp á ...  Barnamál í opinberri umræðu kemur ekki aðeins frá fréttabörnum. Í sama fréttatíma sagði fréttamaður að hylmt hefði verið yfir ásökunum! Talað er um að hylma yfir eitthvað, halda e-u leyndu.

Hraðfréttamaður Ríkissjónvarps sagði okkur, að Eyþór hefði ekki sigrað keppnina. (12.04.2014). Fleiri ambögur voru í þessum stutta þætti. Hversvegna sóar Ríkissjónvarpið takmörkuðu dagskrárfé í þessa vitleysu?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1451

  Molavin skrifaði (10.04.2014): Af vef mbl.is (10.4.14): ,,Alls slösuðust tólf, þar af tveir alvarlega þegar bifreið ók inn í leikskóla í bænum Orlando í Bandaríkjunum." - ,,Hér er óupplýst fréttabarn að verki. Orlando er stór borg en ekki bær, og hún er í ríkinu Flórída, sem er hluti Bandaríkjanna. Fyrir óvönduð vinnubrögð við fréttaskrif er Morgunblaðið búið að glata virðingu sinni”. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Batnandi mönnum er best .... Seinni fréttum Ríkissjónvarps seinkaði um fimm mínútur á fimmtudagskvöld (10.04.2014). Seinkunin var tilkynnt með skjáborða og Bogi baðst afsökunar á seinkuninni í upphafi fréttatímans. Svona eiga sýslumenn að vera, eins og þar stendur.

 

Svandís hreiðrar um sig í hólmanum, er góð fyrirsögn á mbl.is (10.04.2014) um álftina Svandísi sem er að gera sér hreiður í hólmanum á Bakkatjörn. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/04/10/svandis_hreidar_um_sig_i_holmanum/

 

Fréttabörn virðast ekki skilja muninn á því að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað. Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan þrjú á föstudegi (11.04.2014) var sagt að flugvallastarfsmenn mundu kjósa um aðgerðir. Þeir ætla að greiða atkvæði um verkfallsaðgerðir.

Á Alþingi eru greidd atkvæði um tillögur og lagafrumvörp en kosið í ráð og nefndir.

 

Hversvegna tala íþróttafréttamenn í tíma og ótíma um pakka, íþróttapakka?  Fulla pakka, sneisafulla pakka. Hvernig geta pakkar verið sneisafullir? Aftur og aftur heyrum við þetta þegar verið er að tala um eða kynna íþróttaþætti, íþróttafréttir eða pistla? Molaskrifara finnst þetta heldur hvimleitt orðalag.

 

Af mbl.is (09.04.2014): ,,Kevin Federline, fyrrverandi eiginmaður söngkonunnar Britney Spears, tók á móti sínu sjötta barni á dögunum. Federline sem er nú giftur Victoriu Prince, tók á móti stúlkubarni um helgina.” http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/04/09/tok_a_moti_sinu_sjotta_barni/ - Dansarinn, leikarinn og fyrirsætan er sem sagt ljóðsmóðir líka !!!

Hve lengi ætlar Ríkissjónvarpið með ærnum tilkostnaði að misbjóða okkur með Hraðfréttabullinu? Á fimmtudagskvöld (10.04.2014)varð manni eiginlega flökurt, þegar piltarnir töluðu við okkur með troðfullan munn af mat sem þeir hámuðu græðgislega í sig.  Ógeðfellt. Hvað kostar þessi vitleysa Ríkissjónvarpið? Það getur ekki verið leyndarmál. Fulltrúi Hraðfréttanna spurði svo í Útsvari á föstudagskvöld (11.04.2014): Hvaða nögl handarinnar vex hraðast? Og svaraði svo: Það er að sjálfsögðu löngutöngin sem vex hraðast! Ja, hérna. Löngutöngin. Þóra Arnórsdóttir hefði alveg klárað þetta ein. Ríkissjónvarpið á ekki að láta fólk gera hluti sem það ræður ekki við.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1450

  Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (08.04.2014) kom bandaríska ríkið Connecticut við sögu. Íþróttafréttamaður talaði að minnsta kosti fjórum sinnum um /konnektikött/. Með áherslu á k-ið í miðju orðsins. K – ið á ekki að heyrast.  Réttan framburð er auðvelt að finna á netinu. Til dæmis hér:

https://www.youtube.com/watch?v=O8tfEz_KJYU

Nafn ríkisins á ekkert skylt við ensku sögnina to connect, /kon´nekt/ að tengja. Sjá hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Connecticut

 

 

Það var dálítið undarlegt að heyra borgarstjórann í Osló tala við okkur á ensku í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (08.04.2014). Varla hefur hann óskað eftir að ávarpa Íslendinga á ensku. Eða hvað? Var þetta sérstök ósk fréttastofu Ríkissjónvarpsins? Fróðlegt væri að vita það. http://www.ruv.is/sarpurinn/frettir/08042014/ekkert-osloartre

 

 

Í sama fréttatíma var sagt að verkfallsvörðum hefði verið komið fyrir við alla inn- og útganga. Verkfallsvörðum var ekki komið fyrir. Nema þetta hafi verið útklipptar pappamyndir í líkamsstærð. Eins og einu sinni voru gerðar af lögregluþjónum. Verkfallsverðir voru við alla inn- og útganga. http://www.ruv.is/sarpurinn/frettir/08042014/hofdu-ekki-hugmynd-um-verkfallid

 

Rafn bendir á frétt á mbl.is (08.042014) þar sem segir:,, Nýr formaður Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra var kosinn á aðalfundi Heimilis og skóla 7. apríl sl. og hefur Anna Margrét Sigurðardóttir nú tekið við formennsku en Ketill B. Magnússon hefur verið formaður frá aðalfundi 2011. Hún er fyrsti formaður samtakanna af landsbyggðinni en hún býr í Neskaupstað”. Rafn spyr:,, Er það misskilningur minn, að félögin „Heimili og skóli“ hafi verið hugsuð sem samtök eins skóla og margra heimila á viðkomandi skólasvæði?? Nafninu hafi síðan verið haldið óbreyttu við stofnun landssamtaka slíkra félaga. Það færist í vöxt að tala um heimili í eintölu í heiti samtakanna”. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.

Meira frá Rafni um erlenda frétt á mbl.is sama dag. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/04/08/fridhelgi_einkalifs_vegur_thyngra/

Rafn segir: ,,Í fréttinni er meðal annars að finna setninguna:

 „Enn fremur segir dómurinn að ekki sé að finna í tilskipuninni neitt sem skyldar aðildarríkin til þess að tryggja það að upplýsingarnar séu misnotaðar.“

 Þarna er annað tveggja, Evrópudómstóllinn á verulegum villigötum, ellegar það vantar eitt lítið ekki í setninguna. Ég tel það síðara líklegra, enda ólíklegt að dómstóll vilji tryggja misnotkun.” Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1449

  Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (07.04.2014) var talað um ástralskt sjóherskip ! Hver skyldi vera munurinn á sjóherskipi og herskipi? Kannski var þýtt úr ensku þar sem talað var um naval, navy vessel , ship ?

 

KÞ sendi Molum línu (05.04.2014) og spyr: Hvað heita puttarnir? – Það er eins og gleymst hafi að kenna sumum börnunum þetta.

Sjá frétt á visir.ishttp://www.visir.is/ahorfandi-greip-boltann-og-syndi-midfingurinn---myndband/article/2014140409474

Molaskrifari þakkar ábendinguna. Það sem fréttabarnið á visir.is kallar miðfingurinn heitir langatöng. Þumalfingur eða þumall, vísifingur eða bendifingur, langatöng, baugfingur eða græðifingur og litli fingur. Er þetta ungu fólki horfinn fróðleikur? Það væri miður, ef svo er.

 

Ómar Ragnarsson vakti athygli á því á fésbók að fréttatími Stöðvar tvö (09.04.2014) hefði hafist á orðunum ,,Þjóðarbúinu vantar ....”: https://www.facebook.com/eidur.gudnason/posts/10202294378304110?notif_t=wall

Rétt hjá Ómari. Telma Tómasson, fréttaþulur, las án þess að hika:,,Þjóðarbúinu vantar jafnvirði hundrað milljarða króna á ári í erlendum gjaldeyri á næstu fimm árum til að standa undir afborgunum lána í erlendri mynt ....”. Ja, hérna.

 

 

 

Fróðlegt viðtal Arnars Páls í Speglinum (08.04.2014) við forstöðumenn þeirra tveggja stofnana Háskóla Íslands, Hagfræðistofnunar og Alþjóðastofnunar, sem samið hafa skýrslur um ESB aðildarsamninga og samningaferlið. Upplýsandi. Gagnrýni Vigdísar Hauksdóttur (og fleiri stjórnarsinna) á skýrslu Alþjóðastofnunar vegin og léttvæg fundin, án þess þó að þingmaðurinn væri nefndur á nafn.

 

Steini sendi Molum ábendingu vegna þessarar fréttar á vef Ríkisútvarpsins: (07.04.2014): http://ruv.is/frett/sparkadi-i-hredjar-arasarmannsins
Hann segir: ,, Í þessari frétt er mikið svigrúm fyrir framfarir. Þarna er hugsunarlaust blandað saman þátíð og nútíð, endurtekningar á hinu leiðinlega orði "náði" að gera hitt og "náði" að gera þetta. (tókst að...er betra ) Og einnig er óljóst hvernig í ósköpunum viðmælandi fréttarinnar ,,náði" yfirhöfuð að sparka í klof á manni, þá kominn niður á vinstra hnéð. Ég prófaði að sparka út í loftið í þessari stellingu og rétt tókst að slæma fætinum máttleysislega í hnéhæð á ímynduðum óvini. 
Þessi frétt er illskiljanleg og ekki nógu vel stíluð.” Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

KÞ spyr í tölvupósti (08.04.2014) hvort nátthrafnastofninn sé nú loksins fundinn? Hann vísar á meðfylgjandi á svokölluðu Smartlandi mbl.is: http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2014/04/07/naeturuglur_stunda_meira_kynlif/

Góð ábending! Næturuglur! Eftir  öðru sem birt er undir þessu Smartland heiti Morgunblaðsins.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1448

  Í fréttayfirliti Ríkisútvarpsins, bæði á undan og eftir fréttum (05.04.2014), var sagt frá íþróttakappleik, sem fram hefði farið á Ólafsvík. Hvað segja vinir mínir í Ólafsvík? Heyrði aldrei nokkurn mann segja á Ólafsvík, þegar ég átti sem oftast leið þar um. Í fréttinni sjálfri var hinsvegar réttilega sagt í Ólafsvík. Fréttamenn Ríkisútvarpsins eiga að fylgja málvenju heimamanna. Líka þeir sem skrifa íþróttafréttir.

 

Lesandi vakti athygli á þessari frétt á dv.is (05.04.2014): http://www.dv.is/frettir/2014/4/5/taekniskolinn-sigradi-songkeppni-framhaldsskolanna/

Fyrirsögnin er sem : Tækniskólinn sigraði söngkeppni framhaldsskólanna. Hann segir: Eitt lítið í getur gert gæfumuninn.”

Rétt er það.

TH benti einnig á þetta og spyr: ,,Sigraði hann keppnina? Fáum við ekki að vita næst hvernig keppnin tók tapinu?” DV segir okkur áreiðanleg fljótlega frá því ! Molaskrifari þakkar ábendingarnar. Fulltrúi Tækniskólans sigraði í keppninni. Hann sigraði ekki keppnina. Það sigrar enginn keppni.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (05.04.2014) var okkur sagt að kjörstaðir í Afghanistan hefðu opnað. Ekki var sagt hvað það var sem kjörstaðirnir opnuðu. Þeim gengur illa að ná þessu á fréttastofu Stöðvar tvö. Ríkisútvarpið er nú orðið með þetta á hreinu.. Kjörstaðir voru opnaðir. Þeir opnuðu hvorki eitt né neitt.

 

Í sjónvarpsauglýsingu frá fyrirtækinu Allianz er talað um þína stöðu og þína framtíð. Eðlilegri orðaröð á íslensku væri: Stöðu þína og framtíð þína.

 

Ekki amalegt að fá sígilda tónlist, og það ekki af lakara taginu, í Ríkissjónvarpinu undir lok dagskrár í gærkvöldi (07.04.2014), Jaroussky og Concerto Köln. Mættum við að meira að sjá og heyra.

 

Á laugardagskvöld (05.04.2014) seinkaði dagskrá Ríkissjónvarps um 25 mínútur. Söngkeppni framhaldskólanna varð lengri en ráð var fyrir gert. Látum það nú vera. En ekki eitt afsökunarorð eða skýring. Hvorki í skjátexta né þulartexta, - enda ræður niðursoðna konuröddin ekki við slíkt. Í Ríkissjónvarpinu eru menn ekki vel að sér í mannasiðum eða almennri kurteisi. Þetta hefði ekki gerst hjá alvöru sjónvarpsstöð. Áhorfendur eiga skilið að komið sé fram við þá af kurteisi. Það gerði Sigvaldi Júlíusson útvarpsþulur um hádegið á sunnudag (06.04.2014), þegar hann bað hlustendur afsökunar á truflunum í útsendingu guðsþjónustunnar, sem þá var nýlokið. Skylt er  raunar að geta þess að Bogi Ágústsson flutti  alvöru leiðréttingu og afsökunarbeiðni, þegar rangt var farið með nafn í sjónvarpsfréttum  á mánudagskvöld (07.04.2014). Bogi kann þetta.

 

Það er  auðvitað einstök snilld í dagskrárgerð að láta Hraðfréttadrengina kynna Söngkeppni framhaldsskólanna og koma svo strax á eftir með hinar hallærislegu Hraðfréttir. Svo tók við tækniklúður í útsendingu!!!

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1447

  Mikið er gaman þegar fréttatími Ríkissjónvarpsins byrjar með brandara. Þannig byrjuðu seinni fréttir á fimmtudagskvöld (03.04.2014). Sagt var frá myndbandi sem Samtök atvinnulífsins hafa látið gera um að við Íslendingar eigum heimsmet í að verja landið gegn erlendum kjúklingum! Þegar betur er að gáð er þetta fremur dapurlegur brandari um það hvernig arfavitlaus tollverndarstefna í þágu kjúklingaframleiðenda (kjúklingabændur eru ekki til) á Íslandi bitnar á íslenskum neytendum.

 

T.H. vitnar í frétt á mbl.is (03.04.204):
„Við höfum verið að vinna að þessu verkefni frá því í haust. Fyrir áramót byrjuðum við á því að hanna bíllinn og nú frá áramótum höfum við verið að vinna að framleiðslu hans. Nú síðustu misserin höfum við verið að setja hann saman og nú erum við komin að þeim tímamótum að bíllinn er tilbúinn,“

Er ekki misseri hálft ár? Hefur fólkið þá verið að setja bílinn saman frá því löngu áður en byrjað var að hanna hann, hvað þá meira?

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/04/03/honnudu_rafknuinn_kappakstursbil/

Molaskrifari þakkar bréfið og réttmæta ábendingu. Sá sem skrifari þekkir sennilega ekki merkingu orðsins misseri.

 

KÞ vísar til þessarar fréttar (04.04.2014) á mbl.is:
http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/04/03/johanna_sigradi_the_biggest_loser_island_2/

 Hann spyr: ,,Hvað er merkilegt við að sigra einhvern,,lúser", jafnvel þótt stór sé?!” Molaskrifari getur ekki svarað því , en þakkar KÞ bréfið.

 

Keppnin hefur aldrei verið stærri, sagði umsjónarmaður Skólahreysti í Ríkissjónvarpinu á föstudagskvöld (04.04.2014). Hann átti væntanlega við að þátttakendur hefðu aldrei verið fleiri. Ekki gott að tala um stóra keppni eða litla keppni.

 

Í tíu fréttum Ríkisútvarps á föstudagskvöld (04.04.2014) talaði fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson um að stíga áfanga. Menn stíga skref. Ná áfanga. Í sama fréttatía var sagt að fleiri mundu starfa við (undirbúning afnáms gjaldeyrishafta). Fleiri en hvað? Ekki vel að orði komist.


Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1446

  Í auglýsingu, sem nær yfir heila opnu í Fréttablaðinu á fimmtudag (03.04.2014) frá fyrirtækinu LG, sem framleiðir meðal annars sjónvarpstæki, segir: ,,Í þúsundir ára hló fólk af hugmyndinni að jörðin væri kringlótt.” Þessi texti er hrákasmíð. Í fyrsta lagi hlær fólk ekki af hugmyndum. Hlegið er að hugmyndum. Í öðru lagi er jörðin er ekki kringlótt, hún er hnöttótt, hnöttur, kúlulöguð. Þetta er eiginlega of dapurlegt til þess að hægt sé að hlæja að því. Vond vinnubrögð.

 

Í Virkum morgnum á Rás tvö (02.04.2014) töluðu umsjónarmenn um að allt logaði í verkföllum. Síðan upphófst bull um að útvarpsfólk gæti ekki farið í verkall og alls ekki fréttamenn.- sá var tóninn í bullinu. Umsjónarmenn voru greinilega á því að ekkert hafi gerst í veröldinni áður en þau fóru að muna eftir sér. Útvarpsmenn hafa farið í verkfall. Blaðamenn hafa farið í verkfall. Svo á þetta fólk til starfa við fréttaskýringaþáttinn Kastljós!  Gullfiskaminni hentar  illa í Kastljósi.

 

Enskusletturnar smeygja sér víða. Í morgunþætti Rásar tvö (02.04.2014) var rætt um þau kjör sem símafélögin bjóða viðskiptavinum sínum. Umsjónarmaður talaði um ,,verri díl”, - lakari kjör. Gísli Marteinn Baldursson talaði í sama þætti um lókeisjon (e. location) en þýddi slettuna og talaði um staðsetningu. Líka óþörf sletta. Stundum eru þessar slettur kæruleysi og stundum eru menn að slá um sig.

 

Bæði Ríkisútvarpið og frambjóðandi Framsóknarflokksins Óskar Bergsson (03.04.2014) töluðu um að hann ætlaði að stíga til hliðar. Frambjóðandinn ætlar að hætta við að bjóða sig fram, draga sig hlé, þegar við blasir algjört fylgishrun Framsóknarflokksins í Reykjavík samkvæmt skoðanakönnunum. Rétt er að geta þess að síðar var talað um frambjóðandinn ætlaði að draga sig í hlé. Þetta orðalag að stíga til hliðar er orðið óþægilega algengt. Við getum alveg án þess verið, rétt eins og kjósendur í Reykjavík virðast telja sig komast vel af án atbeina Framsóknarflokksins.

 

Það er ansi nálægt því að vera pólitísk misnotkun á Ríkissjónvarpinu hvernig Gísli Marteinn Baldursson auglýsir dag eftir dag að í sjónvarpsþætti sínum á sunnudag (06.04.2014) ætli hann að ræða við einn af þingmönnum og ráðherrum Sjálfstæðisflokksins, Kristján Þór Júlíusson. Verður hann sá eini sem rætt verður við í þættinum? Ekkert annað efni?

 

Í lokin segir Molaskrifari: Svei mér þá ef dagskrá Ríkissjónvarpsins hefur ekki farið svolítið skánandi að undanförnu! Nýr útvarpsstjóri?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1445

 Step your staðreyndatékk upp gott fólk. Þetta skrifar aðstoðarmaður SDG forsætisráðherra, Jóhannes Þór Skúlason, á heimasíðu sína http://www.johannesthor.com/nyjustu-frettir-sannleikur-eda-lygi/ Enda segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar: ,, Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innanlands sem utan.” Aðstoðarmaður forsætisráðherrans er greinilega önnum kafinn við að auka virðingu fyrir íslenskri tungu.

 

Úr frétt af mbl.is (31.03.2014) : Þá var tilkynnt um þjófnað úr herbergi í Reykjavík í dag ásamt því að tilkynnt var um árekstur.  Rétt er að spyrja: Og hverju eru lesendur svo nær?

 

Úr DV (01.-03.04.2014) ... er hann heimsótti Ísland síðastliðinn maí. Beygingafælni eða vankunnátta? Hefði átt að vera : ... er hann heimsótti Ísland í maí síðastliðnum.

 

Í sama tölublaði DV var haft eftir Ögmundi Jónassyni alþingismanni og fyrrum ráðherra, að hann ætlaði að bíða átekta næstu daga og sjá hvort yfirvöld ,,ætli virkilega að láta lögbrjóta komast upp með framferði sitt”. Ögmundur á hér við þá sem innheimta gjald af ferðamönnum sem koma að Geysi. Molaskrifari spyr: Hversvegna sitja Ögmundur og aðrir þingmenn aðgerðalausir hjá, þegar Ríkisútvarpið og Stöð tvö daglega brjóta lög um bann við áfengisauglýsingum?

 

Hann fékk þrenn gull- og tvö silfurverðlaun las fréttaþulur Ríkissjónvarps (01.04.2014) í fréttayfirliti. Rétt hefði verið að segja,  að íþróttamaðurinn hefði hlotið þrenn gullverðlaun og tvenn silfurverðlaun.

 

Rannsóknarlögreglan Tom .... sagði niðursoðna konuröddin í Ríkissjónvarpinu sem enn kynnir okkur dagskrána (01.04.2014). Rannsóknarlögreglumaðurinn Tom ... hefði hún betur sagt. Eða: Lögreglumaðurinn Tom ... Það er brýnt að einhver með sæmilega máltilfinningu lesi þessa kynningartexta konunnar yfir áður en þeir eru lesnir yfir okkur.

Hversvegna segir enginn innanríkisráðherranum að hætta að líma á sig freðið bros í lok allra setninga í sjónvarpsviðtölum? Það væri góðverk.

 

Og að lokum: Hversvegna leggur Ríkissjónvarpið ofuráherslu á það í dagskrárkynningum þessa dagana að rætt verði við Kristján Þór Júlíusson, ráðherra Sjálfstæðisflokksins, í næsta þætti Gísla Marteins Baldurssonar? Verður hann sá eini, sem rætt verður við?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1444

 TH benti á eftirfarandi frétt af visir.is (30.03.2014): http://www.visir.is/vinkonur-johonnu-medal-theirra-fyrstu/article/2014140339992

,,Hjónabönd samkynhneigðra fóru fram í fyrsta skipti í Bretlandi í gær."
Hann segir: ,,Einhvern veginn finnst mér þetta ekki alveg ganga upp, enda er sagt, í fréttinni sjálfri, að hjónavígslur hafi farið fram, sem er dálítið annað.”

 

Meira frá sama um frétt á visir.is: http://www.visir.is/utlit-fyrir-ad-fritt-se-inn-a-geysissvaedid-i-dag/article/2014140339977
,,Enginn gjaldheimtumaður er á svæðinu og fær ferðafólk að ganga inn á svæðið, þeim að kostnaðarlausu."
Ferðafólk fær að ganga, SÉR að kostnaðarlausu. - Að sjálfsögðu.

 

Loks bendir TH á þessa frétt á dv.is (30.03.2014) http://www.dv.is/frettir/2014/3/30/nylidi-sigrar-forsetakosningarnar-i-slovakiu/
,,Nýliði sigrar forsetakosningarnar í Slóvakíu"
Hann segir: ,, Bágt á ég að trúa því. Hann hlýtur að hafa sigrað andstæðinginn í kosningunum.” Molaskrifari þakkar þessar ábendingar. Fréttabörn hafa víða valsað eftirlitslaust um helgina!

 

Ekki kann Molaskrifari að meta það orðalag sem æ algengara er að heyra í fréttum, - að eitthvað sé samkvæmt lögreglu. Síðast heyrðist þetta í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (30.03.2014). betra væri, til dæmis, - samkvæmt upplýsingum lögreglunnar eða að sögn lögreglunnar. Samkvæmt lögreglunni hljómar ekki rétt.

 

Úr fréttum Stöðvar tvö (31.03.2014): Fundarmenn sungu Maístjörnuna og reistu hnefa sína til lofts undir lok fundarins.

Reistu hnefa sína til lofts! Það var og.

 

Öllu er nú landað. Íþróttalið og íþróttamenn landa sigrum, þegar sigrar eru unnir, en utanríkisrásherrum tókst ekki að landa samkomulagi, tókst ekki að semja, náðu ekki samkomulagi segir í fyrirsögn á mbl.is (30.03.2014). http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/03/30/tokst_ekki_ad_landa_samkomulagi/

Ekki treystir Molaskrifar sér til að hrósa þessu orðalagi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband