Molar um málfar og miðla 1463

  Í prentaðri dagskrá Ríkissjónvarpsins í Morgunblaðinu á þriðjudag og í sjónvarpsdagskrá,sem borin var heim til Molaskrifara fyrir nokkru voru Kastljós, framhaldsmyndaflokkurinn Castle og Nýsköpun – íslensk vísindi á kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins á þriðjudag (29.04.2014) . Öllu þessu var hent út og dagskráin ekkert nema boltaleikir. Má nýr útvarpsstjóri sín einskis gegn ofríki íþróttadeildarinnar? En gamall sjónvarpsmaður spyr: Hverskonar vinnubrögð eru þetta eiginlega? Hversvegna er auglýstri dagskrá breytt fyrirvaralaust og að tilefnislausu? Er það skoðun stjórnenda í Efstaleiti að endalaust megi misbjóða viðskiptavinum Ríkisútvarpsins?

 

Óskiljanleg fyrirsögn á mbl.is (29.04.2014) 1500 Glaðir hundar í Hörpu. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/04/29/1500_gladir_hundar_i_horpu/  1500 kátir grunnskólakrakkar komu saman í Eldborgarsal Hörpu. Voru það hundar?

 

Það er ekki gott þegar maður fær á tilfinninguna að fréttamaður geri tiltekin mál að sínum. Molaskrifara finnst þess  nokkuð gæta í umfjöllun Ríkisútvarpsins/sjónvarpsins um málefni hælisleitenda. Nær ævinlega fjallar sami fréttamaður um þau mál. Ekki víst að það sé traustvekjandi hjá öllum sem á hlýða og horfa.

 

Sautjánda júní og á sumardaginn fyrsta er oft farið í skrúðgöngur. Fyrsta maí fara sumir í kröfugöngu. Fráleitt að tala um skrúðgöngu fyrsta maí eins og gert var í morgunþætti í Ríkisútvarpinu á miðvikudag (30.04.2014).

 

,,... að starfsmennirnir hefði verið sagt upp störfum vegna trúnaðarbrests”,. sagði fréttamaður Stöðvar tvö á miðvikudagskvöld (30.04.2014). ... að starfsmönnunum hefði verið sagt upp störfum, hefði verið rétt og eðlilegt orðalag.

 

Útvarp Saga gerði skoðananakönnun meðal hlustenda sinna á miðvikudagsmorgni (30.04.2014). Spurt var hvort rétt væri að setja lög gegn verkfalli flugvallastarfsmanna. Þá var meira en hálfur sólarhringur liðinn frá því að samningar voru undirritaðir og verkfallinu frestað. Það er ekki öll vitleysan eins!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1462

 Molavin skrifaði (29.04.2014): ,,Ríkissjónvarpið sagði frá því í sunnudagskvöldfréttum (27.4.14) að Danir hefðu nú tekið upp þann sið að hafa matarleifar með sér heim af veitingastöðum. Heldur þykir mér þetta ókræsilegt og því ólíklegt, því Danir eru almennt ekki sóðar í matarmálum. Líklegra er að sá siður hafi nú verið tekinn þar upp - sem áður þótti ekki góður á dönskum veitingastöðum - að fá pakkað inn þeim mat, sem borinn hafði verið á borð en ekki verið neytt. Slíkt heitir afgangar en ekki leifar. Matarleifar er það sem komið er á disk en klárast ekki. Það er alsiða í Bandaríkjunum að þjónar bjóðist til að setja þann mat, sem borinn hefur verið á borð en ekki neytt, í plastbakka svo fólk getið tekið með heim. Áður fyrr var þetta oft kallað ,,matur fyrir hundinn" (doggie-bag). Þetta er gott innlegg í baráttuna gegn matarsóun. En fréttafólk þarf að gera greinarmun á afgöngum og leifum.” Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Þáttastjórnandi á Rás tvö notaði (29.04.2014) orðið diva um Björgvin Halldórsson,dægurlagasöngvara. Orðið diva er notað á ýmsum erlendum málum um framúrskarandi óperusöngkonur. Björgvin Halldórsson er ekki óperusöngkona. Þegar þáttastjórnendur sletta erlendum orðum verða þeir helst að vita hvað sletturnar merkja.

 

Fréttamaður Stöðvar tvö (29.04.2014) sagði í frétt um verksfallsfrestun flugvallastarfsmanna, að menn veltu fyrir sér hvort yfirvofandi lögbann á verkfallið ....! Það verður að gera þá kröfu til fréttamanna að þeir kunni skil á einföldum grundvallarhugtökum lögfræðinnar. Það var ekki til umræðu að setja lögbann á verkfallið, enda slíkt  út í hött. Það var hinsvegar rætt, hvort ef til vill yrðu sett lög um frestun verkfallsins. Nýlega ruglaði fréttamaður Ríkisútvarps um setningu bráðabirgðalaga vegna boðaðs verkfalls (Molar 1460). Bráðabirgðalög er ekki hægt að setja þegar Alþingi er að störfum. Þetta eru grundvallaratriði, sem hljóta að vera kennd í fjölmiðlafræðum við háskólana hér.

 

Þið eruð með bakið upp við vegginn, sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins (29.04.2014). Hann átti væntanlega við að þeir sem við var rætt ættu undir högg að sækja, ættu á brattann að sækja eða ættu í vök að verjast, - jafnvel, væru komnir út í horn.

 

Molalesandi sendi eftirfarandi (29.04.2014) ,, Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta.
Tengill við greinina: http://www.visir.is/article/20130503/FRETTIR01/130509686   Draugaleg fréttaskýring.
Hér virðist Sigurður Kristján, sem kvað hafa dáið barnlaus 1940, hafa erft Magnús H. Einarsson. Síðan taka málin að flækjast af því að Sigurður Kristján gerir sér lítið fyrir og eignast fimm börn - og dó aftur 1966. Síðan hafa staðið málaferli...
.http://www.dv.is/frettir/2014/4/28/aettingjar/
Molaskrifari þakkar sendinguna. Birt lesendum til fróðleiks og kannski nokkurrar furðu!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1461

 Ofríki, mér liggur við að segja ofbeldi, íþróttadeildar Ríkissjónvarpsins náði nýjum hæðum í kvöld, þriðjudagskvöld (29.04.2014) þegar ekkert var á boðstólum nema íþróttir frá klukkan 1930 til klukkan 2200. Þetta er óboðleg dagskrárgerð. Nýr útvarpsstjóri verður að stöðva taumlausan yfirgang íþróttadeildar.

 

Eftirfarandi var marglesið yfir okkur í fréttum Ríkisútvarpsins (28.04.2014) og er auk þess að finna á fréttavef Ríkisútvarpsins: Nokkrir menn særðust í borginni Kharkiv í gær þegar að stuðningsmenn sameinaðrar Úkraínu lenti saman við stuðingsmenn Rússa. Sjá: http://www.ruv.is/frett/evropa-herdir-a-refsiadgerdum. Þetta er frekar klaufalega orðað. Þegar að ! Þegar, hefði nægt. Stuðningsmenn lenti ekki saman við ! Stuðningsmönnum sameinaðrar Úkraínu og stuðningsmönnum Rússa lenti saman, - átök urðu milli stuðningsmanna sameinaðrar Úkraínu og stuðningsmanna Rússa.

 

Tilfinningaþrunginn fréttaflutningur Ríkissjónvarps af málefnum f hælisleitanda frá Afghanistan, sem sveltir sig, (28.04.2014) orkar tvímælis. Fram hefur komið að manninum var vísað frá Svíþjóð. Svíar hafa tekið við miklum fjölda hælisleitenda og þykja frjálslyndir í þeim efnum. Enginn fjölmiðill hefur spurt hversvegna þessi hælisleitandi fékk ekki hæli í Svíþjóð. Það eru undarleg vinnubrögð. Á hinn bóginn er það óafsakanlegt að yfirvöld skuli hafa verið með mál mannsins til umfjöllunar í næstum tvö ár!

 

Um helgina birtust borgaheiti á Evrópukorti í veðurfregnum Ríkissjónvarps. Minnir að það hafi verið hjá Birtu Líf veðurfræðingi. Á mánudagskvöld (28.04.2014) voru borgaheitin horfin. Þetta er sem sé hægt, eins og oft hefur verið óskað eftir hér í Molum. En bara stundum. Eða hvað?

 

Menningarhátíð barna, sem svo er kölluð, auglýsir í útvarpi: Reykjavík got talent. Þetta þykir Molaskrifara vond auglýsing.

 

Guðmundur G. benti á þessa frétt á visir.is (28.04.2014): http://www.visir.is/article/20140428/FRETTIR01/704289969

Hann segir: Fjölmiðlafólki gengur illa að læra að:
Menn VINNA keppni og SIGRA andstæðingana
.

 

Undarleg fyrirsögn á smáfrétt í Fréttablaðinu (29.04.2014): 100 eignir seldar í borginni: Handfylli sölu út um landið. Skilur þetta einhver?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1460

  Gríðarlegar rigningar eru taldar orsakavaldar flóðanna, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (26.04.2014). Orsakavaldar? Mikil úrkoma olli flóðunum. Miklar rigningar voru orsök flóðanna.

 

Það vefst fyrir sumum fréttamönnum Ríkisútvarpsins að hafa réttan framburð á heiti ríkisins Arkansas í Bandaríkjunum. Í átta fréttum (28.04.2014) var sagt að skýstrokkar, skýstrókar, eða hvirfilbyljir hefðu þar orðið tólf manns að bana. Ýmist var talað um / arkansas / eða / arkansa /, þegar réttur framburður er nær því að vera / arkanso /. Þetta má heyra hér: https://www.youtube.com/watch?v=We2VJKTvkCA

Í næsta fréttatíma var ekki á þetta minnst. Þá var fyrsta frétt upptugga úr morgunútvarpi um að landbúnaður í veröldinni væri ekki sjálfbær. Það er hreint ekki ný frétt. Í yfirliti hádegisfrétta klukkan tólf var enn talað um / arkansa /!  En Broddi Broddason  og Sveinn Helgason í Washington voru  með þetta rétt og alveg á hreinu í aðalfréttatímanum í hádeginu.

 

Blikarnir fengu blóð á tennurnar, sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarps (26.04.2014). Þetta er danskt orðatiltæki sem á sér ekki hefð í íslensku máli. Leyfum Dönum að eiga það. Blod på tanden, segja Danir. Þarna hefði til dæmis mátts segja að Blikar hefðu allir færst í aukana, þeim hafi hlaupið kapp í kinn. Danir mega áfram vera blóðtenntir.

 

Undarlegt að fréttamaður Ríkisútvarps (28.04.2014)  skuli tala um setningu bráðabirgðalaga , ef til  verkfalls flugvallastarfsmanna skyldi koma. Fréttamenn eiga að vita að ekki er hægt að setja bráðabirgðalög  meðan Alþingi situr. Alþingi situr og er að störfum. Furðuleg fáfræði.

 

Sífellt er talað um íþróttapakka. Það gera íþróttafréttamenn, fréttamenn og nýr fréttastjóri Ríkissjónvarps. Hvað er að því að tala um íþróttafréttir eða íþróttaþætti?

 

Svokallaðir Hraðfréttamenn Ríkissjónvarps sáu ástæðu til að hafa kristna trú í flimtingum í ríkismiðlinum á laugardagskvöld (26.04.2014). Er stjórnendum Ríkissjónvarpsins ekkert heilagt? Hversvegna er fé sóað í þennan vitleysisgang?

 

KÞ bendir á eftirfarandi frétt (27.04.2014) á dv.is: https://www.dv.is/skrytid/2014/4/27/simpansi-kaerir-eiganda-sinn/ Hann spyr: ,,Er þetta nýyrði, lifnaðaraðstæður?

Hvar í heiminum ætli málið sé rekið? Það kemur ekki fram í fréttinni.” Þetta er hálfgerð endemisfrétt, ef þannig má að orði komast.

KÞ vísar einnig til þessarar fréttar (26.04.2014) á fréttavef Ríkisútvarpsins og spyr hvort syndaflóð sé hafið? Sjá http://www.ruv.is/frett/ukrainumenn-haetta-ad-sja-krim-fyrir-vatni

Molaskrifari þakkar KÞ ábendingarnar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1459

  Úr frétt frá forsætisráðuneytinu (25.04.2014): ,,Á fundinum voru tvíhliða samskipti landanna rædd, þ.m.t. eftirmálar Icesave deilunnar og endurgreiðslur úr þrotabúi gamla Landsbankans. “ Þetta er orðrétt úr frétt frá forsætisráðuneytinu. Er enginn sæmilega skrifandi maður eftir í forsætisráðuneytinu? Þetta er til skammar. Eftirmáli er kafli eða pistill í bókarlok.,,Niðurlagsorð ,texti aftan við meginmál”. Eftirmál eru eftirköst afleiðingar af einhverju, - venjulegar neikvæðar. Ætlaði ekki forsætisráðherra að leggja sérstaka rækt við móðurmálið? Hann er heldur betur að gera það

 

Molavin skrifaði (24.04.2014): ,,Það eru ýmsar leiðir til að finna góð nýyrði þegar tæknin kallar eftir slíku. Verst er þó sú leið að gera orðin flókin eða samsett og löng. Í Vísisfyrirsögn segir: "Apple vill stöðva sms skrif við akstur" Hér er í góðu lagi að taka upp orðrétt úr ensku (texting) og segja "textun" í stað þvælinnar langlokunnar sms-skrif. Smáskilaboðin á símanum eru stuttur texti og óþarfi að búa til samsett orð.

Önnur langloka, sem virðist hafa fest sig í sessi er orðið "skemmtiferðaskip." Langt og óþjált. Fyrr á öldum voru vel búin skip fyrirmenna kölluð "lystiskip" sem er hljómfagurt, þjált orð og stutt og á mun betur við það, sem á ensku heitir ,,Cruise". Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Molavin bætti við daginn eftir (25.04.2014): ,,Leikskólamálið nær nú inn á fréttasíður sjálfs Ríkisútvarpsins. Þar segir í dag, 25.04.2014 í fyrirsögn: ,,Mjólkurnammi í mjólkurlausum Freyju-eggjum." Þar mun vera átt við að sælgæti í páskaeggjum innihaldi mjólkurvörur.” Molaskrifari þakkar bréfið. Orðið mjólkurnammi á ekkert erindi á fréttasíður Ríkisútvarpsins. Það er svo sannarlega rétt.

 

Ósmekklegar og ógeðfelldar myndir af einhverju sem kallað var ,,kappát” í fréttum Stöðvar tvö (24.04.2014). Þetta var ekki frétt og átti ekkert erindi í fréttatíma. Minnti á Hraðfréttir og Andra Frey í Ríkissjónvarpinu.

 

Í fréttum Stöðvar tvö var sagt frá verkfallsaðgerðum flugvallastarfsmanna (25.04.2014). Þar var sagt: ,, ... með tilheyrandi raski á flugi”, - kannski sérviska, en Molaskrifari hefði orðað þetta á annan veg og sagt: ,, ... með tilheyrandi röskun á flugi”. Í þessum sama fréttatíma var enn eitt dæmi um óþarfa þolmyndarnotkun þegar sagt var um hóp eftirlitsmanna frá ÖSE í Úkraínu, að þeim hefði verið rænt af hópi aðskilnaðarsinna. Aðskilnaðarsinnar rændu þeim. Germynd er alltaf betri.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1458

 Ljóst er að umfangsmikið verkefni bíður þingmönnum, (!!!) sagði fréttamaður Stöðvar tvö (23.04.2014) í upphafi fréttar um frumvarp til laga um veiðileyfagjald sem rætt verður á Alþingi eftir helgi. Það er slök verkstjórn á fréttastofu Stöðvar tvö að lesa ekki yfir handrit fréttamanna sem hafa ekki betri tök á móðurmálinu en þetta. Umfangsmikið verkefni bíður þingmanna.

 

K.Þ. skrifaði (22.04.2014) og vakti athygli á eftirfarandi orðalagi í frétt á mbl.is: ,, ... og sömu er að segja um Terry en ekki er þó lokum skotið fyrir að hann nái að spila úrslitaleikinn í Meistaradeildinni komist Chelsea þangað”. Ég hélt, að ein nægði, segir K.Þ.- réttilega: http://www.mbl.is/sport/enski/2014/04/22/stadfest_ad_cech_og_terry_spila_ekki_meira_a_timabi/

 

Í seinni fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (24.04.2014) talaði fréttamaður um að setja lög á verkbann í frétt um kjaradeilu flugvallastarfsmanna og Isavia. Óskiljanlegt. Ef til vill  veit fréttamaður ekki hvað orðið verkbann þýðir. Það er þegar atvinnurekendur  banna fólki að mæta til vinnu.

 

Það er fremur dapurlegt að heyra í lok hvers einasta fréttatíma á miðnætti í Ríkisútvarpinu, að næstu fréttir verði klukkan sjö næsta morgun! Ríkisútvarpið hlýtur að geta gert betur. Ef fé skortir, er hægt að forgangsraða að nýju. Til dæmis sleppa hinu heimskulega rugli sem kennt er við Hraðfréttir. Ríkisútvarpið, þjóðarútvarpið, á að flytja okkur fréttir á klukkutíma fresti allan sólarhringinn. Fjölmennasta fréttastofa landsins, sem margt gerir ákaflega vel, hlýtur að ráða við það.

 

,,Nú er ég hætt að plöggaplug á ensku., sagði ung stúlka sem var að enda útvarpsþátt á Rás tvö rétt fyrir klukkan sjö á miðvikudagskvöldi (23.04.2014). Hún átti sennilega við að hún væri hætt að auglýsa væntanlega viðburði eins og þáttastjórnendur óspart gera. Dagskrárstjórar eiga að áminna þáttastjórnendur í Ríkisútvarpinu sem sletta ensku á hlustendur.

 

Molalesandi benti á DV frá því fyrr í þessum mánuði (09.04.2014), en þar segir:
,,
Bíll sem var að koma úr gagnstæðri átt missti stjórn á sér og lenti framan á bílnum þeirra en þau voru á leið út á Keflavíkurflugvöll...” Þótt þetta sé dapurleg frétt er orðalagið óneitanlega kyndugt.

Í kynningu á efni Kastljóss (23.04.2014) var talað um framlag Íslendinga fyrir verndun mannréttinda í Kósóvó .... Rétt hefði verið að tala um framlag Íslendinga til verndunar mannréttinda ... Meiri vandvirkni, takk.

Það er óneitanlega dálítið sérstakt að heyra hve margir þeirra sem flytja okkur veðurfréttið í sjónvarpi hafa tamið sér að flytja áherslu yfir á seinni hluta orða. Tala um SuðurLANDIÐ, suðurSTRÖNDINA. Í íslensku er áhersla jafnan á fyrsta atkvæði. Þetta er aldeilis óþörf og algjörlega ástæðulaus breyting.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1457

  GLEÐILEGT SUMAR!

 

Fréttamenn verða að skilja orðatiltæki sem þeir nota í fréttum. Hvalveiðar Íslendinga hafa verið mikið í deiglunni síðustu misseri, sagði fréttamaður í fréttum Stöðvar tvö á annan í páskum (21.04.2014). Þegar sagt er að eitthvað sé í ídeiglunni, þá er verið að tala um eitthvað, sem er í undirbúningi eða í mótun. Fréttamaður hefur greinilega haldið að þetta þýddi að hvalveiðarnar hefðu verið mikið í umræðunni, mikið til umræðu. Enn og aftur kemur í ljós að gæðaeftirlit með fréttaskrifum er að mestu úr sögunni. Til starfa er komið of mikið af fólki sem ekki hefur nægilega góð tök á móðurmálinu.

 

Rússneskar herflugvélar nærri Íslandi , var villandi fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (23.04.2014) Sjá: http://www.ruv.is/frett/russneskar-herflugvelar-naerri-islandi

Þegar fréttin er lesin, kemur í ljós að vélarnar voru hreint ekkert  nálægt Íslandi. Þær voru skammt norðaustur af  Skotlandi.

 

Villur eru nokkuð algengar í auglýsingum. Í Fréttablaðinu laugardaginn fyrir páska (19.04.22014) auglýsir Hagkaup eftir öryggisvörðum. Í auglýsingunni segir að leitað sé að einstaklingum sem séu ,,... og útsjónasamir”. Á að vera útsjónarsamir. Í auglýsingu frá Faxaflóahöfnum segir:,,Þeir aðilar sem hafa áhuga á að nýta sér þetta og hafa tilskilin rekstrarleyfi er boðið að senda inn umsókn ...” Hér ætti að segja: ,,Þeim aðilum sem .... er boðið að senda inn umsókn”. Enn eitt dæmi um beygingafælni, eða þá trú að upphafsorð setningar verði ævinlega að vera í nefnifalli. Í fasteignaauglýsingu segir:,,Veglegar innréttingar skarta íbúðirnar og stórir gluggar til að njóta útsýnisins”. Hér hefur textahöfundi brugðist bogalistin. Of margar auglýsingastofur láta frá sér fara lélegan texta. Íbúðirnar skarta veglegum innréttingum, hefði verið ögn skárra; þó slæmt.

 

Á fésbókinni fær fréttastofa Ríkisútvarpsins verðskuldað hrós frá Árna Gunnarssyni fv. alþingismanni og fréttamanni (23.04.2014) fyrir umfjöllun um skýrslu rannsóknarnefndarinn sem kannað hrun sparisjóðanna. https://www.facebook.com/arni.gunnarsson.52?fref=nf

Vel mælt.

 

G.G. Benti á þessa frétt á vefnum visir.is (23.04.2014) http://www.visir.is/article/20091219/LIFID01/874263568

Og þessa frétt sama dag á mbl.is og segir: ,,Sennilega hefur Cox rétt fyrir sér ef marka má þessa frétt af mbl.is 23.04.2014. Þar "klikkar" meira en góðu hófi gegnir”,http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/04/23/thad_er_ekki_ad_fara_gerast/ . Þessi skrif eru með ólíkindum. Hvar er gæðaeftirlitið? Enginn prófarkalestur.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1456

  Molavin skrifaði ,,Hugleiðingu um hnignun fréttamáls” (20.04.2014): ,,Þegar ekkert er kennt og engum leiðbeint á ritstjórnum og fréttastofum fer málfarið smám saman að laga sig að lægsta samnefnara. Nýgræðingar éta upp vitleysu hver eftir öðrum; sérstaklega það sem þeim finnst hljóma fínt. Þetta er svolítið líkt því þegar foreldrar apa upp barnamál eftir smábörnum, sem fara þá að halda að það sé rétt. Barnamál eins og,,nammí" eða ,,dingla bjöllunni" er farið að rata inn í fréttir. Málvenjur glatast með þessum hætti en eftiröpun fer vaxandi. 

 

Í fréttayfirliti Ríkisútvarpsins var talað um ísfirzka tónlistarhátíð og sagt að hljómsveitir myndu ,,stíga á stokk." Ekkert var þó minnzt á heit eða loforð. Í sjálfri fréttinni sagði viðmælandinn réttilega að þær myndu stíga á svið. Svona lagað heyrist æ oftar. Eins heyrir það til undantekninga að sagt sé í frétt að menn hafi látizt í slysi. Oftast er sagt að þeir hafi látizt ,,eftir slys." Hver er þá orðin merking orðsins ,,slys"?

 

Ýmsum þykja athugasemdir af þessu tagi smámunasemi ,sem engu máli skipti. Mál verði líka að fá að þróast. Þetta held ég að sé sér-íslenzk afstaða og dæmi um undanlátssemi við fúsk. Nær allar metnaðarfullar útvarpsstöðvar, svo sem BBC, gera kröfur til fréttafólks og þula og gefa út leiðbeingarit um fyrirmyndar málfar. Það þarf ekki að kosta miklu til að bæta þetta - en það þarf hugarfarsbreytingu.” Molaskrifari þakkar þessa ágætu hugleiðingu.

 

Ekki heyrði Molaskrifari betur en fréttamaður Ríkisútvarpsins á Ísafirði talaði um lænuppið í kvöld. (19.04.2014) Efast um að allir hlustendur hafi skilið konuna. Brýna þarf málvöndun fyrir fréttamönnum. Hugleiðing hér að ofan er sannarlega tímabær.

 

Í frétt um umferðarslys í Rússlandi á mbl.is (20.04.2014) sagði: Hann lét skömmu síðar lífið á sjúkrahúsi. Þetta hefði Molaskrifari orðað á annan veg. Til dæmis: Hann lést skömmu síðar á sjúkrahúsi.

 

Vonandi sjá hinir nýju stjórnendur Ríkisútvarpsins til þess að fíflagangi svokallaðra Hraðfrétta linni og fjáraustri verði hætt í þennan vitleysisgang.

 

 Skipið var farið að halla mikið, var sagt í fréttum helgina (- man ekki svo öruggt sé hvar þetta var sagt). Betra hefði verið að mati Molaskrifara að segja: Skipinu var farið að halla mikið, skipið var komið með mikla slagsíðu. Ef til vill er þetta sérviska Molaskrifara.

 

 Í Ríkissjónvarpi (20.04.2014) talaði veðurfræðingur um páskahret sem hefðu riðið yfir landann! Ja, hérna.

 

 Í fréttayfirliti Stöðvar tvö á páskadag (20.04.2014) var sagt að fréttamaður hefði farið í þéttsetna Hallgrímskirkju, en á skjánum sáum við nokkra fremstu bekki kirkjunnar auða. Þetta var svo endurtekið í lok frétta og þá brá fyrir brosviprum hjá fréttaþul,sem vonlegt var. Þetta rifjaði upp þegar Molaskrifari var einhverju sinni að lesa fréttir í árdaga sjónvarps að hann las frétt um hafnarframkvæmdir í Neskaupstað. Sagði, að við hafnargerðina væru notuð stórvirk tæki. Á skjánum var þá mynd af manni með skarexi að höggva til svolítinn spýtukubb! – Eftir á að hyggja hefur þetta líklega verið nefnt áður í Molum!

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1455

  Fyrrum starfsbróðir benti á eftirfarandi á vef Ríkisútvarpsins (18.04.2014): ,,Einn er slasaður eftir gas-sprengingingu í World Class - Laugum við Sundlaugarveg í Laugardal í Reykjavík í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var verið að kveikja upp í gas-arinn þegar að sprengingin varð. Ekkert liggur fyrir um skemmdir eða meiðsl þess sem slasaðist”. - Vönduð vinnubrögð ! Eitthvað mun þetta hafa verið lagfært síðar, þótt ekki væri allt leiðrétt. Molaskrifari þakkkar ábendinguna.

 

Í viðtali við Morgunblaðið (19.04.2014) um skemmdarverk og veggjakrot segir Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ: ,,Krot kallar á meira krot og þessvegna höfum við haft svo kallað ,,zero-tolerance” fyrir öllum eignaspjöllum”. Það er fólgið í því að við hreinsum og lagfærum skemmdir á biðskýlum strax”. Bæjarstjóri slær um sig með ensku, slettir. Það er algjör óþarfi. Hann hefði getað sagt, til dæmis: Við líðum ekki eignaspjöll, við höfum ekkert umburðarlyndi gagnvart þeim, sem skemma eigur borgaranna. Hann kaus hins vegar að nota ensku í stað móðurmálsins. Hefur kannski haldið að það væri áhrifaríkara !!!!

 

Það er ekki sjálfgefið að góðir fréttamenn hafi áheyrilega rödd og þeim láti öllum vel að lesa fréttir. Þetta ætti Ríkisútvarpið að hafa í huga.

 

SAM-bíóin auglýstu kvikmyndina Divergent grimmt á Stöð tvö bænadagana. Ævinlega var nafn myndarinnar borið rangt fram, /dívörtsjent/. Réttan framburð má heyra hér: http://www.macmillandictionary.com/pronunciation/british/divergent

 

Ónákvæmni gætir í myndatexta á bls. 8 í Morgunblaðinu (19.04.2014) ,en þar segir: ,,Halldór Halldórsson oddviti sjálfstæðismanna í borginni kynnir stefnuna ásamt öðrum borgarfulltrúum í Reykjavík”. Halldór er ekki borgarfulltrúi í Reykjavík. Hann verður í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík í komandi kosningum.

 

 Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á laugardag (19.04.2014) var sagt í frétt um ferjuslysið mikla undan strönd Kóreu:,, .... fyrstu fjörutíu mínúturnar eftir að ferjan tók niður”. Ferjan tók ekki niður! Ferjan tók niðri, steytti á skeri. Í sama fréttatíma var sagt um sparisjóðinn Byr: ,,... tilkynnti endurskoðandi Byr eftirlitinu ...” þarna hefði átt að nota eignarfall og tala um endurskoðanda Byrs. Og meira úr þessum sama fréttatíma Ríkisútvarpsins laugardaginn fyrir páska: ,,Mitchell er skotspónn sex þúsund og sex hundruð blaðsíðna skýrslu bandaríska öldungardeildarþingsins um pyntingar..”   Hér hefði fréttamaður átt að tala um öldungadeild bandaríska þingsins, senatið. Nýr fréttastjóri þarf að taka á honum stóra sínum til að bæta málfar í fréttum.

 

Magnaðar Ferðastiklur þeirra feðgina Ómars og Láru úr Vestur Skaftafellssýslu. Undurfagurt landslag og heimsókn að Hólmi, veröld sem var, þar sem er eins og tíminn hafi staðið kyrr. Um þetta mætti segja margt en Molaskrifari segir bara: Takk.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1454

  Frá Molavin:,, Í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag, (17. 04.2014) sagði í frétt um ferjuslys að leit stæði yfir að ,,eftirlifendum." Hér fer fréttamaður rangt með hugtök. Rétt er að leit stóð yfir að farþegum (skólabörnum) sem kynnu að hafa komizt lífs af. En ,,eftirlifendur” eru aðstandendur hinna látnu. Í morgunútvarpi Rásar 2 var í gær, 16. apríl, pistill um málefni brezks ráðherra, sem hafði sagt af sér vegna fjármálamisferlis. Lesari sagði hana hafa skarað ,,eld að eigin könnu." Margir þekkja myndlíkinguna að ,,skara eld að sinni köku." Það hljóta að vera til orðabækur og handbækur á þessum miðlum. Það þarf að kenna fólki að nota þær.” Satt segirðu, Molvin. Nóg er til af handbókum og orðabókum.  Svo er líka hægt að spyrja. Þakka bréfið.

 

Stundum heyrist orðalagið að koma á móts við. Þannig var til dæmis komist að orði í fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (16.04.2014). Molaskrifari er vanur því að talað sé um að koma til móts við, - að verða við óskum einhvers eða einhverra að hluta eða öllu leyti. Kannski er þetta algengt orðalag, þótt það sé ekki Molaskrifara tamt.

 

Í hádegisfréttum á föstudaginn langa (18.04.2014) var sagt frá mannskæðu snjóflóði í hlíðum Everest fjalls, hæsta fjalls í heimi. Það var hinsvegar ekki nægilega vel orðað, þegar sagt var undir lok fréttarinnar að þetta væri mannskæðasta slysið á tindi fjallsins. Slysið var ekki á tindinum. Það var miklu neðan; í fjallshlíðinni.

 

Á miðvikudag (16.04.2014) auglýsti fyrirtækið Heimkaup í tölvupósti til viðskiptavina, að það ætlaði að afnema virðisaukaskatt af snyrtivörum: Við afnemum virðisaukaskattinn af snyrtivörum í dag í flokknum Heilsa og útlit. Þetta er rangt. Það getur ekkert fyrirtæki afnumið virðisaukaskatt, sem ákveðinn er með lögum sem Alþingi hefur samþykkt. Fyrirtæki geta hinsvegar veitt afslátt sem skattinum nemur.

 

Eins og hér hefur áður verið sagt þarf Þóra Arnórsdóttur enga hjálparkokka í Útsvari ( 16.04.2014).. Hið fræga ljóð heitir ekki Raven, eins og hjálparmaður hennar sagði. Það heitir The Raven. Á þessu er munur. Ljóðið orti Edgar Allan Poe. Líklega hans þekktasta verk. Fleira fór þarna í hálfgerðum handaskolum.

 

Margt var gott og meira en bitastætt á boðstólum í sjónvarpi bænadagana. Nefni af handahófi úr Ríkissjónvarpi Þriggja stjörnu tónleika í Berlín, Drauminn um veginn (Erlendur Sveinsson á  þakkir skildar. Óbrigðul smekkvísi hans einkenndi þættina) og kvikmyndina Shawshank-fangelsið. Minnist þess ekki að Ríkissjónvarpið hafi áður sýnt kvikmynd sem IMDb gefur einkunnina 9,3! Ein besta kvikmynd sem Molaskrifari hefur lengi séð.   Á Stöð tvö, sem Molaskrifari hefur lítinn aðgang að, sá hann frábæra minningartónleika um söngkonuna Ellý Vilhjálms. Ein okkar besta dægurlagasöngkona. Hún gerði allt vel.

 

Gleðilega páska !

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband