Molar um málfar og miðla 1473

  Helgarvaktarvilla á vef Ríkisútvarpsins (18.05.2014): ,,Vefurinn leidretting.is hefur verið opnuð og þar er meðal annars hægt að skoða kynningarmyndband um hvernig eigi að sækja um skuldaleiðréttingu”. Hér ætti að standa:,, Vefurinn leidretting.is hefur verið opnaður ... .

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (17.05.2014) var sagt: ,, ... sem situr á forsetastól”. Eðlilegra hefði hér, að mati Molaskrifara, verið að segja: ,, ... sem situr á forsetastóli”.

 

Venjur hafa skapast í fjölmiðlum um framburð sumra erlendra staðaheita. Þannig tölum við um Edinborg, en notum ekki framburð heimamanna, sem er nálægt því að vera /edenborro/. Enska hafnarborgin borgin hefur ævinlega verið kölluð /húll/. Nú heyrist oft, einkum í íþróttafréttum, að heiti borgarinnar er borið fram eins og gert er á ensku /höll/. Það er auðvitað ekkert rangt við það, þótt málvenja hér hafi til þessa verið önnur.

 

Í viðtali við bæjarstjórann í Garðabæ á mbl.is (17.05,.2014) sagði: ,,Þetta er allt að ganga eft­ir, seg­ir Gunn­ar en fyrr í mánuðinum var vígður bíla­kjall­ari und­ir svæðinu sem hýs­ir 135 bíla.” Þess var ekki getið hvaða prestur hefði ,,vígt” bílakjallarann. Auðvitað var kjallarinn ekki vígður, heldur tekinn í notkun eða opnaður.

 

Það á að vera föst regla hjá Ríkisútvarpinu að segja okkur ekki alltaf hvort um endurflutning/ endursýningu á efni sé að ræða. Eins og er, virðist það með höppum og glöppum hvort þetta kemur fram.

 

Útvarpshlustandi spyr (18.05.2014): ,Hvar er borgin „Súrigh“ ? Fréttamaður Ríkisútvarsins sagði rétt í þessu að borgin væri í Sviss. Tel mig sæmilegan í landafræði og kannast ekkert við borg þar í landi með þessu nafni. (Hádegisfréttir 18. maí 2014).” Sennilega viðvaningur á helgarvakt. Enginn til staðar til að veita leiðsögn. Ekki nýtt af nálinni.

 

Ekki kann Molaskrifari að meta orðalagið , ,,dálítil væta gæti verið að falla”, sem stundum heyrist í veðurfréttum Stöðvar tvö (18.05.2014).

Það er skrítið að Ríkisútvarpið skuli ekki sjá til þess að þeir sem lesa fréttir séu sæmilega áheyrilegir. Í erlendum stöðvum heyrir maður ekki óþægilega skræka  eða mjóróma fréttalesara.  Það fer ekki af sjálfu sér saman að vera góður fréttamaður og áheyrilegur þulur. Þarna á fréttastjóri auðvitað að taka af skarið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1472

  Trausti Harðarson benti á eftirfarandi (17.05.2014):

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/17/enginn_lytalaeknir_skiladi_inn/

"Embætti land­lækn­is hafði borist gögn frá nokkr­um lækn­um í gær"
Hér höfðu gögnin borist. Embætti landlæknis hafði ekkert færst úr stað.
Því er setningin rétt þannig:
Embætti land­lækn­is höfðu borist gögn frá nokkr­um lækn­um í gær.
Eða: 
Gögn frá nokkr­um lækn­um höfðu borist
embætti land­lækn­is í gær.” Hárrétt, Trausti. Þakka á bendinguna.

 

Útvarpshlustandi hafði samband (17.05.2014) og sagði: ,,Fréttastofa Ríkisútvarpsins er búin að klifa á því síðan snemma í morgun að Sauðárkróksvöllur sé ekki í leikástandi. Getur þú ekki gert athugasemd við þetta málfar á síðu þinni?” Það er hér með gert og þakkað fyrir ábendinguna. Sennilega þarf að ráða fleiri málfarsráðunauta að Ríkisútvarpinu. Einn gæti helgað sig íþróttadeildinni sérstaklega. Hún er sennilega að verða álíka mikil að vöxtum og fréttastofan.

 

 Sjaldgæft er að sjá málvillur eða ambögur í Kjarnanum. Í nýjasta Kjarna (15.05.2014) er þessi myndatexti:,,Guðrún Johnsen segir að raunveruleg hætta sé á að þátttaka í umræðu hafi áhrif á stöðu viðkomandi sem fræðimaður”. Hér er fallafælni á ferð, - kvilli sem er að vera býsna algengur. Lok þessarar setningar hefðu átt á vera: ,, .... hafi áhrif á stöðu viðkomandi sem fræðimanns”.

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (16.05.2014) tók íþróttafréttamaður þannig til orða , að fimm hundruð manns hefðu verið á höfninni þegar sigurlið Eyjamanna í handknattleik kom með Herjólfi. Molaskrifara hefði þótt betra orðalag að segja, að fimm hundruð manns hefðu verið á bryggjunni.

 

Í veðurfréttum Ríkissjónvarps /16.05.2014) var okkur sagt frá veðri í Færeyjum. Þar hefði verið hvasst og loka hefði þurft einni flugbraut sökum ókyrrðar. Í Færeyjum er bara einn flugvöllur, í Vágum, og þar er bara ein flugbraut. Þar getur hinsvegar verið mikil ókyrrð. Raunar sú mesta sem Molaskrifari hefur nokkru sinni upplifað um borð í flugvél á nokkuð löngum ferðaferli. Í þeirri flugferð þar sem mest gekk á voru tveir Nígeríumenn meðal farþegar. Þeir voru eiginlega hvítir í framan þegar gengið var frá borði og inn í flugstöðina, sem er hundrað sinnum glæsilegri en sú sem boðið er upp á í höfuðborg Íslands!

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1471

 Þórhallur Jósepsson skrifaði (16.05.2014): ,,Sæll Eiður. 

Ég las í þætti 1470 réttmæta athugasemd frá Molavin um endurtekna notkun Fréttastofu Ríkisútvarpsins á orðinu "ferðamannaiðnaði." Mig langar að bæta ögn við þær vangaveltur. 
Enska orðið industry er í orðabókum gefið upp sem iðnaður. En, í enskunni er industry notað um margt fleira: Banking industry, airline industry, shipping industry. Þá er verið að ræða um atvinnugrein, þjónustugrein, alls ekki iðnað. Ég hef oft tekið eftir hjá fjölmiðlamönnum á öllum miðlum að þeim virðist ekki vera kunnug þessi fjölbreytni í merkingu orðsins. 
Svo smitar þetta yfir í fleira. Í enskunni er gjarnan talað um increase þegar atvinnugrein vex og umsvif aukast. Increase merkir einna helst vöxtur eða aukning. Seinni þýðingin virðist hafa sest varanlega að hjá fjölmiðlum, þegar þeir segja fréttir af og ræða um vöxt, líka þegar sagt er frá fjölgun. Ætli það sé ekki úr þessari ensku sem hið fáránlega orðalag "aukning ferðamanna" er komið? 
Mér finnst það í meira lagi furðulegt að fjölmiðlamenn virðast flestir hverjir hafa gleymt eða týnt niður, jafnvel aldrei kunnað, orðalaginu að fólki geti fjölgað eða fækkað. Þannig heyrum við ekki aðeins um "aukningu ferðamanna" sem styrki "ferðamannaiðnaðinn" heldur hafa íbúar hinna ýmsu byggðarlaga aukist líka. Ætli þeir hafi fitnað svo ótæpilega? 
Og fjölmiðlamenn mættu velta því fyrir sér líka, í hverju "ferðamannaiðnaður" felist, ætli sú atvinnugrein fáist við að framleiða ferðamenn? Kveðjur, Þórhallur Jósepsson.” - Molaskrifari þakkar Þórhalli þetta ágæta bréf.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (16.05.2014) var sagt: Fimmtíu og fjögur mál eru á þingfundi í dag... Á mbl.is var réttilega talað um fjölda mála á dagskrá þingfundar í dag. Í sama fréttatíma Ríkisútvarpsins var talað um lögbann á verkfall flugmanna. Þeir fréttamenn sem ekki skilja muninn á lögbanni og lögum eiga á að finna sér önnur störf, eða afla sér fróðleiks um þessi grundvallaratriði. Lögbann hefur ekkert með lagasetningu að gera. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessi rangfærsla heyrist í okkar ágæta Ríkisútvarpi og hefur áður verið nefnt í Molum.

 

Í morgunþætti Bylgjunnar (16.05.2014) sagði fréttamaður, sem stundum kemst undarlega að orði: Hingað liggja allar áttir! Í morgunþætti Rásar tvö sama dag heyrði Molaskrifari ekki betur en umsjónarmaður segði undirbúning hafa miðað vel. Undirbúningi hefur miðað vel.

 

Hvernig vagn er spurningavagn sem fréttamaður talaði um hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á föstudag (16.05.2014)?  Er þetta kannski  spurningalisti? Veit málfarsráðunautur svarið?

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1470

 Molavin skrifaði:,,Enskuskotin hugtök eiga enn sterk ítök í fréttamáli, jafnvel þar sem góð, íslenzk heiti eru til. Á síðu ruv.is segir m.a. í frétt í dag (12.05.14): "Hann segir ferðamannaiðnaðinn á Íslandi í dag einkennast af fagmennsku og sé á heimsmælikvarða. Stacey skrifaði Samtökum ferðaþjónustunnar bréf..." Í fréttinni er í tvígang talað um ,,ferðamannaiðnaðinn" (e. travel industry) á Íslandi þótt svo sé vitnað í Samtök ferðaþjónustunnar. Birna Bjarnleifsdóttir, einn af frumkvöðlum ferðaleiðsagnar á Íslandi, barðist árum saman fyrir því að afnema þessa ensku þýðingu en nota orðið ,,ferðaþjónusta.” Það er leitt að RUV skuli falla í þennan pytt.” Allt er þetta rétt sem Molavin segir. Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Merkileg fréttamennska hjá Ríkissjónvarpinu að segja eingöngu frá ræðu forsætisráðherra SDG í seinni fréttum (15.05.2014). Kom svo sem ekkert sérstaklega á óvart. Sami háttur var hafður á í miðnæturfréttum Ríkisútvarps. Skorti fréttastofuna kjark til að segja frá því hvernig Steingrímur J. hrakti rangar yfirlýsinga SDG lið fyrir lið? Engu líkara.  

 

Úr frétt á mbl.is (10.05.2014): ,,Borg­ar­bú­ar og aðrir góðir gest­ir koma sam­an í miðborg Reykja­vík­ur í dag til að fagna fjöl­breyti­leik­an­um og þá lit­ríku ein­stak­linga sem þar búa, ...” .... og þeim litríku einstaklingum ..... ætti þetta að vera. Svo er líka til orðið fjölbreytni. Í sömu frétt segir: ,, Í Ráðhús­inu er að finna fjölþjóðleg­an markaður í Tjarn­ar­sal ...” Þar er að finna fjölþjóðlegan markað. Fréttabarnið sem þetta skrifaði virðist ekki hafa mikla tilfinningu fyrir móðurmálinu. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/10/fagna_fjolbreytileikanum

/

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (15.05.2014) var tvívegis farið rangt með nafn Önnu Birnu Jensdóttur, forstjóra hjúkrunarheimilisins Sóltúns. Ekki góð vinnubrögð. Ekki heyrði Molaskrifari að þetta væri leiðrétt. Fréttamenn eiga að gæta þess að fara rétt með nöfn þeirra sem rætt er við eða um fjallað. Grundvallarregla.

 

Fyrir nokkrum dögum gekk Molaskrifari svokallaða Frelsisslóð (Freedom trail) í Boston þar sem leiðin liggur fram hjá ýmsum sögustöðum í borginni. Meðal annars húsi Pauls Revere, hetjunnar úr ameríska frelsisstríðinu eða byltingunni. Þar var hópur grunnskólabarna að skoða svefnherbergi á annarri hæð.  Leiðsögmaður fræddi þau um sögu hússins. Sagði að börnin, strákar og stelpur hefðu á sínum tíma sofið sitt í hvoru herberginu og það hefði verið hlutverk yngsta barnsins að hella úr koppunum (chamber pots). Í lokin spurði hann hvort einhver hefði spurningar fram að færa. Eitt barnið rétti strax upp hendina og spurði: What is a chamber pot? Leiðsögumaðurinn útskýrði það. Einskonar klósett, geymt undir rúmi. Á leiðinni út velti skrifari því fyrir sér hvort íslensk grunnskólabörn væru með það á hreinu hvað koppur væri. Sennilega. En líklega þekkja fæst þeirra orðið næturgagn. Þannig er nú það.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1469

  Í fréttayfirliti hádegisfrétta Ríkisútvarpsins sl. sunnudag (11.05.2014) var sagt: Hin austurríska Conchita Wurst sigraði Júróvisjón með yfirburðum í gærkvöld. Sem sagt, söngvakeppnin steinlá. Var gjörsigruð. Enginn les yfir áður en lesið er yfir okkur.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (14.05.2014) frá Tyrklandi var sagt að lögreglan hefði beitt táragasi og vatnsdælum til að leysa upp mannfjöldann. Vonandi hefur fólkið ekki verið leyst upp, heldur hafi lögreglan notað vatnsdælur og táragas til að dreifa mannfjöldanum.

Í fréttum frá Úkraínu á mánudagsmorgni (12.05.2014) var sagt: ,, .. sagðist þó vera reiðubúinn til viðræðna við þá íbúa austur Úkraínu, sem vildu berjast á réttmætan hátt fyrir markmiðum sínum og hefðu ekki blóðugar hendur”.Þetta finnst Molaskrifara ekki vera vel orðað. Til dæmis hefði mátt segja; - sem ekki hefðu stofnað til blóðsúthellinga málstað sínum til framdráttar.

Eftirfarandi er af vef Ríkisútvarpsins  (13.05.2014): ,,Enginn var handtekinn í mótmælum við lögreglustöðina á Hverfisgötu og Innanríkisráðuneytið í dag samkvæmt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu”. Það er  ( að mati Molaskrifara) heldur  klúðurslegt að segja að eitthvað sé  samkvæmt lögreglunni,  - að sögn lögreglunnar væri betra.

 

Gamall skólabróðir Molaskrifara, sem lengi hefur verið búsettur erlendis fylgist með netmiðlum og lætur sér annt um móðurmálið. Hann vísar á þessa frétt á visir.is (11.05.2014) : http://www.visir.is/verslingar-hlutgera-baedi-kynin/article/2014140519882

Verslingar hlutgera bæði kynin

Hann segir: ,,Nú stend ég á gati. Hvað þýðir þetta á mannamáli? Þýddu þetta fyrir mig”. Molaskrifari játar hispurslaust að hann stendur líka gati.   

 

 Rafn benti á þessa frétt á mbl.is (08.05.2014) http://www.mbl.is/frettir/kosning/2014/05/08/meirihlutinn_fallinn_i_reykjanesbae/:

Hann segir: Fréttabörnin enn, - og heldur áfram

,,Hér er fullyrt, að meiri hluti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ sé fallinn. Við lestur fréttarinnar kemur hins vegar í ljós, að enginn af bæjarfulltrúum meirihlutans hefir látið af stuðningi við hann, en líklegt er talið, að viðkomandi flokkur myndi missa meirihluta sinn, ef kosið væri í dag. Þar sem stutt er til kosninga er líklegt að sú niðurstaða verði í komandi kosningum. Núverandi meiri hluti starfar hins vegar til kosninga og enginn hefir mér vitanlega kannað hvort aðrir flokkar vilji ganga til liðs við hann eftir kosningar, ef spáð fylgistap gengur eftir”. Molaskrifari þakkar Rafni línurnar. Þetta er auðvitað rétt ábending.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1468

   

Trausti Harðarson benti á eftirfarandi frá af dv.is (07.05.2014): http://www.dv.is/frettir/2014/5/5/fjoldaframleida-metamfetamin-72H7GG/

 ,,Norður-Kóreumenn fjöldaframleiða metamfetamín".
Hann segir: ,,Já, miklir menn eru Norður-Kóreumenn!
Ætli þeir hafi kannski líka fundið aðferð til að fjöldaframleiða mjöl, loft og bensín?
Til þessa hefur einungis verið unnt að fjöldaframleiða það sem hægt er að telja.
Það sem ekki er teljanlegt, en magnmælanlegt á annan hátt, t.d. í lítrum eða grömmum er engu að síður iðulega hægt að framleiða í miklu magni, magnframleiða.” Molaskrifari þakkar Trausta ábendinguna.

 

Endalaust er ruglað saman af og að. Á visir.is er skrifað (06.05.2015): Gestur varð vitni af árekstrinum. Gestur varði vitni árekstrinum, - ekki af árekstrinum. Sjá: http://www.visir.is/brunadi-inn-a-bilastaedi-og-storskemmdi-sjo-bila/article/2014140509639

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (06.05.2014) var sagt frá leit að olíutanki sem sökk í Mývatn fyrir áratug eða svo: ,,... ekki er vitað hve miklu hefur lekið úr honum”, var sagt í fréttunum. Eðlilegra hefði verið að segja, að ekki væri vitað hve mikil olía kynni að hafa lekið úr tanknum.

 

Lesandi benti Molaskrifara á tölvusíðu flugfélagsins sem kallar sig WOW. Þar er lesendum/viðskiptavinum boðið að velja eitthvað sem félagið kallar WOW beisik. Það mun vera einhverskonar grunnþjónusta, ljót íslenskuð enskusletta. Enska orðið sem vísað er til er basic. Þetta er málfarslegur subbuskapur, - að ekki sé meira sagt.

 

Málglöggur Molalesandi spyr (07.05.2014): ,,Á mbl.is í dag eru tvær fréttir um nýjan útsýnispall sem hefur verið settur upp á Skoruvíkurbjargi.

Í báðum fréttunum er bjargið marg oft nefnt Skoravíkurbjarg.

 

Man ekki eftir að hafa séð þetta fyrr en auðvitað getur verið að þetta sé eitthvað sem er til heimabrúks, - hvað veit ég?”

Hvað segir þú?” Molaskrifari hefur aldrei heyrt annað heiti en Skoruvík og Skoruvíkurbjarg. Það heiti er einnig að finna í örnefnaskrá aftan við Íslandsatlas.

 

 

Verður nú hlé á Molaskrifum um sinn.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1467

  Bændurnir fylgjast með kindum á sængurlegunni, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (05.05.2014) um sauðburð fyrir norðan. Eru nú kindur farnar að leggjast á sæng? Molaskrifari hélt að sér hefðu misheyrst. Glöggur hlustandi vakti athygli hans á þessu. Molaskrifari hlustaði að nýju á fréttirnar. Jú, ekki um það að villast. Sængurlega sauðkinda er nú nýjasta nýtt.  

 

Trausti Harðarson skrifaði (06.05.2014): ,,Dularfullur kínverskur kaupsýslumaður hyggst reisa skipaskurð í gegnum Nigaragua"
Fyrir ekki mjög löngu var skrifað um að ,,reisa" knattspyrnuvelli og flugvelli og var þó ekki meiningin að reisa þá upp á endann. Ég geri ráð fyrir að ekki sé heldur ætlunin að reisa skipaskurðinn upp á endann. En ég held að það sé full ástæða til að rifja upp að vellir eru LAGÐIR, en ekki reistir og að skurðir eru GRAFNIR. – Kærar þakkir Trausti. Rétt. http://einarbb.blog.is/blog/einarbb/entry/1383336/



Af mbl.is (04.05.2014),,Ragn­heiður Grön­dal bauð góðum vin­kon­um heim í kjúk­lingasúpa sem hún fékk upp­skrift að hjá móður sinni. Súp­an er einkar saðsöm og bragðgóð en með því út­bjó hún sum­arsal­at og notaði dress­ingu sem hún hef­ur þróað og gert full­komna að eig­in sögn.” Hér er ekki vandvirkni fyrir að fara. . Dressing er enska. Ekki íslenska.

 

Stigmagnandi, að eitthvað sé að stigmagnast eða fari stigmagnandi heyrist stundum í fréttum. Nýlega var sagt í fréttum Stöðvar tvö að ókyrrðin í Úkraínu færi stigmagnandi! Afleitt orðalag um vaxandi ókyrrð í Úkraínu.

 

Aftur og aftur gerist það að seinni fréttir Ríkissjónvarps hefjast ekki á réttum tíma.(05.05.2014). Hvað veldur? Kunna menn ekki á klukku? Eða er þetta bara kæruleysi og svolítill subbuskapur í stjórn útsendingar? Eins og margsinnis hefur verið sagt hér áður er stundvísin í Ríkisútvarpinu til einstakrar fyrirmyndar.

 

Hér var nýlega gert að umtalsefni veislutal í Ríkissjónvarpi þar sem haldnar eru boltaveislur af ýmsu tagi. Ný veislutegund bættist við á mánudagskvöld (05.05.2014). Þá var talað ,,heljarinnar Evróvisjónveislu”, eða Júróvisjónveislu. Þá heyrðum við einnig nýja útgáfu af hinu sífellda pakkatali í tengslum við íþróttafréttir. Sagt var að við ættum von á þéttum íþróttapakka, hvað í ósköpunum sem það nú þýðir.

 

- Hverjir eru að fara að vinna þetta? Svona var spurt í morgunþætti í Ríkisútvarpinu (06.05.2014) þegar fjallað var um söngvakeppnina í Danmörku. Þetta orðalag heyrist æ oftar. Hversvegna ekki: Hverjir heldurðu að vinni? Hverjir heldurðu að sigri?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1466

  Molavin sendi Molum eftirfarandi: ,,Seinfærir foreldrar fái færri tækifæri" - svona hljóðar fyrirsögn á ruv.is (04.05.14) - og þar með hefur fréttastofa Ríkisútvarpsins, eða amk. vefdeild hennar tekið upp þann ósið sem sézt hefur á öðrum miðlum, að nota viðgengingarhátt þar sem hann á ekki við og verður beinlínis villandi. Þetta er líka sérstakt í ljósi þess að viðtengingarháttur er á undanhaldi í almennum fréttatexta þar sem hann á að vera til að frásögn sé rétt. Ofangreind notkun vth. hefur að venju verið tengd hvatningu: Ökumenn aki varlega; Ráðamenn sýni skilning osfrv. Réttara væri að segja: "Seinfærir foreldrar sagðir fá færri tækifæri." Sú var tíðin að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins fylgdist vel með málfari í fréttum og gaf út fjölritað leiðbeiningarrit, Tungutak, þar sem bent var á hvað mætti laga. Slíkt getur varla kostað mikið í dag; mætti gjarnan birta það á vef RUV. - Molaskrifari þakkar bréfið og þarfa ábendingu.

 

Molalesandi skrifaði (04.05.2014): ,,Merkilegt þegar fréttamenn nota fréttatímana til að koma skoðunum sinum á framfæri eins og í fréttum Bylgjunnar í hádeginu. Magnús Hlynur var með frétt af nýju framboði á Suðurland, sem kynnt var við Skógafoss í dag. Hann tók oddvitan tali, en framboðið er andsnúið byggingu hótels við fossinn og fréttamaður spurði með fullyrðingu: Eru þetta ekki ríkir útlendingar sem ætla að reisa þetta hótel? – Þetta er ekki orðrétt tilvitnun, en efnislega var þetta svona”. Molaskrifari tekur undir. Ekki fagmannlega til orða tekið.

 

Í fréttayfirliti Stöðvar tvö á sunnudagskvöld (04.05.2014) sagði Sindri Sindrason okkur frá ánni Krúnu í Ölfusi sem borið hefði þrettán lömb á þremur árum. Hún var fimmlembd í vor. Hún bar fimm lömbum. Í fréttinni var þetta rétt.

 

Rafn skrifaði (04.05.2014): ,, Í molum 1464 er fjallað um frétt um þyrlu: „af gerðinni TF-HDW Ecur­euil“ og myndatökur hennar.

Ég geri ekki athugasemd við þá umfjöllun. Hins vegar vakti þyrlugerðin athygli mína. Þótt ég sé ekki þyrlufróður þykir mér líklegt, að þyrlan sé ekki af gerðinni : „TF-HDW Ecur­euil“ heldur sé hún af gerðinni Ecureuil, en beri íslenzka skráningareinkennið TF-HDW”. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.

 

Vegna þess sem Molaskrifari gagnrýndi hér fyrir fáeinum dögum, að Ríkisútvarpið sendi ekki út neinar fréttir frá miðnætti til klukkan sjö að morgni segir Molalesandi í tölvubréfi (04.05.2014) ,,Mér sagði starfsmaður Útvarpsins að allar nætur væru þrír menn á vakt, fréttamaður, magnaravörður, man ekki starfsheitið á þeim þriðja. Furðulegt að sé ekki hægt að senda út fréttir, hvað sparast fyrst eru þarna þrjár manneskjur hvor sem er?” Þetta er auðvitað mjög einkennilegt. Kannski er fréttamaðurinn alla nóttina að vinna fréttir fyrir þennan örstutta fréttatíma klukkan sjö að morgni!!!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1465

  

Árni Helgason vakti athygli Molaskrifara á þessari frétt á  dv.is (02.05.2014):,, Frétt úr DV á netinu í morgun:
"... Ein kona reyndist vera í henni og aðstoðuðu slökkviliðsmenn hana út um glugga. Hún var síðan færð á slysadeild Landspítala Íslands til aðhlynningar. Annar íbúi í þessum stigagangi var einnig fluttur á slysadeild grunaður um reykeitrun. ..."
Hann segir: ,,Aldrei hef ég heyrt það fyrr að menn geti verið grunaðir um annað en einhvers konar græsku. En oft leikur grunur á að menn séu sjúkir eða slasaðir og kunni að vera með reykeitrun.”  Molaskrifari þakkar ábendinguna.  Síðdegis þennan sama dag hafði villan ekki verið leiðrétt. Annað hvort les enginn á ritstjórninni það sem skrifað er á vefinn, eða menn sjá þetta ekki! http://www.dv.is/frettir/2014/5/2/slokkvilidsmenn-adstodudu-konu-ut-um-glugga/

 

Í fréttum Ríkisútvarps klukkan 1800 (02.05.2014) var sagt að Rússar hefðu boðað til fundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þetta orðalag er út í hött. Í  fréttum Ríkissjónvarps sama kvöld var sagt að neyðarfundur hefði verið boðaður í öryggisráðinu að kröfu Rússa. Það er rétt orðalag.

 

Ekki kann Molaskrifari við það orðalag sem notað er í auglýsingu frá Hjálparstofnun kirkjunnar, að byggja brunna. Eðlilegra væri að tala um að gera brunna, grafa brunna, eða bora eftir vatni.

 

Íþróttafréttamenn Ríkissjónvarps tala um handboltaveislur og fótboltaveislur þegar boltaleikir skyggja á allt annað efni í dagskránni. Ekki minnist Molaskrifari þess að hafa heyrt í Ríkissjónvarpinu talað um tónlistarveislur, óperuveislur eða menningarveislur yfirleitt. Mikið væri gott ef, þó ekki væri nema helmingur þess tíma, sem nú fer í að sýna boltaleiki í Ríkissjónvarpi allra landsmanna væri notaður til sýna okkur menningarefni og fréttaskýringar og vandaðar heimildamyndir um sögu og þróun heimsmála. Það er ekki til mikils mælst.

 

,, Einnig mun þetta gera okkur kleift að framlengja í þeim starfsmanni sem við erum (með) í Kiev í dag sem fer fyrir einni ÖSE missioninni,..” , sagði utanríkisráðherra lýðveldisins í sjónvarpsfréttum (02.05.2014).

http://www.ruv.is/frett/stjornin-veitir-fe-til-verkefna-i-ukrainu

 

Fréttamaður Ríkissjónvarps sagði (02.05.2014) í viðtali um framtíð Reykjavíkurflugvallar: ,,Friðrik sagði, að ef norðaustur-suðvestur brautin, sem stundum er nefnd neyðarbrautin, verði lokað sé nýtingarhlutfall flugvallarins orðið svo lágt ...” Hér hefði átt að segja; ... ef brautinni yrði lokað.

 

Nöfn veðurfræðinga/veðurfréttamanna í Ríkissjónvarpi og á Stöð tvö, Birta Líf og Vordís, eru bara ágætlega við hæfi!

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1464

  Í fréttum Ríkissjónvarps (30.04.2014) var sagt um uppsagnir starfsmanna hjá tilteknu fyrirtæki, að vonir stæðu til að unnt yrði að endurráða flesta aftur. Hér hefði nægt að segja, að unnt yrði að endurráða flesta eða ráða flesta til starfa að nýju.

 

Trausti Harðarson benti á þessa frétt á dv.is : http://www.dv.is/menning/2014/4/30/gomlum-vatnstanki-breytt-i-listaverk/
Í fréttinni stendur
"Það var síðastliðið sumar sem vatnstankinum, sem staddur er á vinsælu útivistasvæði í Reykjanesbæ, var breytt í útilistaverk en það var með aðstoð listahóps að nafni Toyistar."
Trausti segir: ,,Að VERA STADDUR einhversstaðar felur í sér að hafa áður verið á hreyfingu.
Vatnstankurinn STENDUR, mun hér vera rétt.
Að hann sé STAÐSETTUR í Reykjanesbæ er jafnvel illskárra en að hann sé STADDUR þar.” Líka hefði mátt segja Vatnstankurinn er í Reykjanesbæ. Vatnstankurinn hefur væntanlega gert langan stans á útivistarsvæðinu! Það er á dv.is eins og víðar. Enginn fylgist með því sem viðvaningar skrifa.

 

Mbl.is segir frá því er þyrlu hlekktist á á Eyjafjallajökli (01.05.2014): Þyrl­an, sem er af gerðinni TF-HDW Ecur­euil, var við kvik­mynda­tök­ur á jökl­in­um. Þyrlur taka ekki kvikmyndir. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/01/thyrlu_hlekktist_a_a_eyjafjallajokli_3/

Á vef Ríkisútvarpsins segir hinsvegar réttilega: Farþegarnir voru við kvikmyndatöku, að því er segir í yfirlýsingu frá Norðurflugi. 

 

Sjálfhverfa og kjánagangur einkenna svokallaðar Hraðfréttir Ríkissjónvarps. Nýr útvarpsstjóri leggur þessu lið (30.04.2014). Um þverbak keyrði reyndar þegar eftirfarandi birtist á vef Ríkisútvarpsins á miðvikudag:. „Hinn geðþekki hraðfréttamaður Benedikt Valsson verður stigakynnir fyrir hönd Íslands í Eurovision.“ Lesandi vakti athygli Molaskrifara á þessu og spyr að vonum: ,,Hvurslags framsetning er þetta, Eiður. Þetta er til háborinnar skammar!” Þetta er auðvitað hluti hinnar undarlegu sjálfhverfu sem viðgengst í Efstaleitinu. Þetta var seinna fjarlægt af vefnum. Einhver hefur skynjað að þetta var ekki við hæfi.

 

Í tæknilega rugluðum fréttatíma Ríkisútvarpsins klukkan 2200 á fimmtudagskvöld (01.05.2014) var talað um banvæn vopn. Hrátt úr ensku lethal weapons. Sennilega geta öll vopn  valdið dauða. Eða hvað?

 

Þeir sem vilja vita hvað er að gerast í veröldinni (og skilja ensku) hlusta á BBC World Service á FM 94,3. Þar eru alltaf fréttir á heila tímanum. Það er ekki hægt að reiða sig á Ríkisútvarpið í þessum efnum. Þar eru ekki fréttir á klukkutíma fresti og fréttir á öðrum tímum um helgar en á virkum dögum. Engar fréttir eru fluttar frá miðnætti til klukkan sjö að morgni. Það er óviðunandi. Við eigum skilið að fá betri þjónustu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband