2.6.2014 | 11:49
Molar um málfar og miðla 1483
Molavin sendi eftirfarandi (31.05.2014): "Þó nokkur flugfélög hafa þurft að aflýsa öllum sínum flugum..." sagði fréttakona Stöðvar tvö í kvöldfrétt um eldgos. Hér færi betur á að nota orðið "flug" í eintölu; "aflýsa öllu sínu flugi." Venjan hefur verið sú að segja: Öllu flugi aflýst. "Fluga" er ekki sama og "flug." Þetta er svipað og með orðið "verð". Það er eintöluorð. - Molaskrifari þakkar ábendinguna. Ríkisútvarpið talaði réttilega um að mörgum flugferðum hefði verið aflýst.
Fyrrum starfsfélagi benti á frétt á dv.is (31.05.2014): ,, Sveppir eru þarlendum yfirvöldum greinilega hugfangin en síðasta haust var í höfuðborginni Pyongyang opnuð sérstök rannsóknarstofnun um sveppi. Annað hvort er þetta dæmi um að blaðamaður sé að hugsa um eitthvað allt annað en hann ætti að vera að hugsa um, ellegar að hann hafi ekki grundvallarþekkingu á móðurmálinu. Nema hvort tveggja sé, - nema hvort tveggja sé. Fleira er skrítið í þessum skrifum: http://www.dv.is/frettir/2014/5/31/nordur-korea-framleidir-orkudrykk-ur-sveppum/
Eftirfarandi er einnig af dv.is sama dag: ,,Lögreglan á Suðurnesjum stöðvaði ökumann í vikunni sem reyndist langt frá því að vera réttum megin við lögin. Réttu megin við lögin.
,,Er að talsmátinn heyrist víða, - ótrúlega víða. Oftast er þess háttar orðalag óþarft. Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (31.05.2014) var sagt: ,,Það eru átta listar sem eru að bjóða fram í Reykjavík. Átta listar bjóða fram í Reykjavík.
Það sem mbl.is kallar Smartland er á stundum einkennilega skrifað. Þar var (01.06.2014) svohljóðandi fyrirsögn: 90 milljóna hönnunar villa. Greinilega alvarleg villa. Klaufalega orðað, átt var við villu, glæsilegt einbýlishús. http://www.mbl.is/smartland/heimili/2014/06/01/90_milljona_honnunarvilla/ Þakka lesanda ábendinguna.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (31.05.2014) var sagt: ,,Reykjaneshryggurinn er á mótum tveggja jarðskorpufleka sem reka hvor frá öðrum .... Flekarnir reka hvorki eitt né neitt. Flekana rekur hvorn frá öðrum ... Þetta heyrist ærið oft, því miður.
Fyrri hluta laugardags (31.05.2014) voru auglýsingar og tilkynningar í Ríkisútvarpinu lesnar með sömu leiðinda hrynjandi og oft heyrist á Bylgjunni. Vinsamlegast hlífið okkur við þessu.
Molaskrifari ætlaði að hlusta á útvarpsfréttir klukkan 1700 á kjördag, laugardag (31.05.2014) en mundi svo allt í einu að Ríkisútvarpinu þóknast ekki, einhverra hluta vegna, að flytja fréttir klukkan fimm nema á virkum dögum. Furðulegt. Og eiginlega óskiljanlegt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.5.2014 | 09:19
Molar um málfar og miðla 1482
Í kvöldfréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (30.05.2014) töluðu fréttaþulur, fréttamaður og fulltrúi Arion banka allir um að ganga ekki á eftir þeim sem gerðu tilboð í hlutabréf í Granda, en stóðu ekki við tilboðin. Þetta var hæpið orðalag að dómi Molaskrifara. Að ganga á eftir einhverjum er þrábiðja einhvern um eitthvað. Þarna hefði átt að tala um að ganga eftir því við þá, sem tilboðin gerðu, að þeir stæðu við þau. Fá þá til að standa við tilboðin. Krefjast þess að þeir stæðu við tilboðin. Þetta hefur svo sem heyrst áður.
,,Öll sú undirbúningsvinna sem þarf að fara fram er að mestu leyti lokið og þess vegna geta framkvæmdir hafist mjög fljótlega. Þetta sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á föstudag (30.05.2014). Öll sú undirbúningsvinna ... er ekki lokið, heldur er allri þeirri undirbúningsvinnu ekki lokið.
Á baksíðu Morgunblaðsins (29.05.2014) er lítil frétt um sýningu á verkum Karólínu Lárusdóttur listmálara í Duushúsunum í Keflavík,sem nú heitir víst Reykjanesbær. Fréttinni fylgir mynd af málverk,i sem sagt er að heiti Guðmundur kemur með matinn heim. Molaskrifari veltir því fyrir sér hvort myndin heiti ekki: Geirmundur kemur með matinn heim. Í bókinni Karólína eftir Jónínu Michaelsdóttur (1993) segir svo á bls.78: ,,Geirmundur bílstjóri í Feldinum kom á hverjum degi og sótti pottana sem staflað var hverjum ofan á annan eftir stærð. .... þannig hélt Geirmundur á öllum pottunum í einu, fór með þá niður á Hótel Borg og náði í matinn, sem mamma var búin að panta eftir að hafa fengið upplýsingar um hvað væri á matseðlinum og kom með pottana heim . Lárus, faðir Karólínu átti fyrirtækið Feldinn og afi hennar, Jóhannes, átti Hótel Borg. Geirmundur var Jónsson, frá Lækjarbotnum í Landssveit.
Karólína er einn af okkar fremstu listmálurum. Hennar er að engu getið í fimm binda verki um íslenska myndlist sem kom út fyrir nokkrum árum. Það er ritstjórum þess verks til ævarandi skammar og háðungar. Þröngsýni og klíkuskapur hafa sennilega ráðið mestu þar um.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.5.2014 | 10:16
Molar um málfar og miðla 1481
Af mbl.is (25.05.2014): ,,Laxmýringar sáu fyrsta laxinn við staurinn í Kistukvisl í dag. Þar sjást venjulega þeir fyrstu sem ganga í ánna. .. sem ganga í ána, ætti þetta auðvitað að vera. Kistukvísl. http://www.mbl.is/veidi/frettir/2014/05/25/laxinn_maettur_i_laxa_i_adaldal/
Veðurfréttamenn Stöðvar tvö þurfa sumir hverjir að venja sig af því að flytja áherslu yfir á síðari hluta orða. Í íslensku er áhersla jafnan á fyrsta atkvæði. Það á ekki að tala um SuðurLANDIÐ, né austurSTRÖNDINA. Hvimleitt að hlusta á þetta. Hefur verið nefnt hér áður.
Hér hefur stundum verið beint spurningum til Ríkisútvarpsins. Svör hafa aldrei borist. En einu sinni skal þó reynt: Hvernig stendur á því að ekki eru allir fréttatímar Ríkisútvarpsins aðgengilegir á dagskrárvef þess? Er einhver kostnaður slíkri birtingu samfara?
Vikið var að því í Molum (1480) að konuröddin, niðursoðna,sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins, færi ekki rétt með nafn garðyrkjuþáttarins, Í garðinum með Gurrý. Það gerðist ekki einu sinni. Það gerðist kvöld eftir kvöld. Hvað veldur? Ætlast verður til þess að konan viti hvað þættirnir, sem hún er að kynna, heiti.
Kastljósi Ríkissjónvarpsins má þakka marga góða spretti í vetur. Kastljóssfólk kvaddi með kurt og pí í síðasta þætti (28.05.2014) Hversvegna er ekki hægt að hafa Kastljósið áfram á dagskrá í sumar? Ekki þurfa menn sumarfrí alveg fram á haust, - eða hvað?
Í fréttum á miðvikudagskvöld fengu áhorfendur Ríkissjónvarps enn eina útgáfu af íþróttapakkabullinu. Þá var talað um töluvert þéttan íþróttapakka! Hvar endar þetta?
Loks skal hér vitnað í skrif sviðsstjóra menningar og og ferðamála hjá Reykjavíkurborg á fésbók (28.05.2014): En bottomlænið er bara þetta: Kids: komið fram við ALLA aðra eins og þið viljið að ALLIR aðrir komi fram við mömmu ykkar...! Sviðsstjórinn var að verja ummæli oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík um úthlutun lóðar undir mosku í höfuðborginni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2014 | 10:34
Molar um málfar og miðla 1480
Úrslit kosninganna eru varhugaverð, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (26.05.2014). Ekki samræmist það orðalag málkennd Molaaskrifara. Fréttamaðurinn átti væntanlega við að úrslit kosninganna væru áhyggjuefni. Baldur Þórhallsson prófessor, sem rætt var við í fréttatímanum, talaði um varhugaverða þróun. Það er gott og gilt orðalag.
Úr frétt á visir.is (26.05.2014): ,Mengun í landinu hefur mikið verið milli tannanna á fólki í kjölfar hinnar miklu iðnaðaruppbyggingar sem hefur orðið í landinu á undanförnum árum. Það er reyndar fleira skrautlegt í þessari frétt! http://www.visir.is/kinverjar-faekka-bilum-til-ad-sporna-vid-mengun/article/2014140529160
Sífellt tala fréttamenn Ríkissjónvarps um íþróttapakka, - í merkingunni íþróttafréttir. Það koma pakkar á hverju kvöldi í fréttum Ríkissjónvarps. Við erum með þéttan íþróttapakka, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps á mánudagskvöld (26.05.2014). Hvað í ósköpunum er þéttur íþróttapakki?
Utanaðlærðar framboðsræður eins og dengt er yfir áhorfendur í fréttatímum Ríkissjónvarps þessa dagana eiga ekkert erindi í fréttatímana. Þetta eru ekki fréttir.
Huga þarf að orðavali. Í fréttum Stöðvar tvö (27.05.2014) var talað um að láta mál aðgerðalaus. Það finnst Molaskrifara hálfgerð merkingarleysa. Átt var við að láta mál afskiptalaus.
Í fréttum Ríkissjónvarps (27.05.2014) var sagt, - þær eru ekki vongóðar á ... vel má vera að hjá einhverjum sé viðtekin venja að taka svo til orða, en Molaskrifari hefði sagt: , - ekki vongóðar um ...
Það verður fróðlegt að hlusta á samtal fréttamanns og fréttaþular NBC , Brians Williams, við Edward Snowden uppljóstrara. Brian las ekki fréttir nokkur kvöld í röð í liðinni viku. Áhorfendum var sagt að hann væri í fréttaleiðangri. ( Brian is away on an assignment). Hann var sem sé í Moskvu. Vonandi hefur Ríkissjónvarpið döngun í sér til að fá sýningarrétt að þessu efni. Það er umhugsunarefni að enginn virðist sinna erlendum fréttum hjá Ríkisútvarpinu nema Bogi Ágústsson. Hann stendur sig vel. Umfjöllun um erlend málefni er minni í Ríkissjónvarpinu um þessar mundir en þegar það tók til starfa fyrir nær hálfri öld. Það er vegna þess að þar hafa stjórnendur svo lengi haft asklok fyrir himin. http://www.ruv.is/frett/snowden-segist-hafa-starfad-sem-njosnari Um erlendar fréttir á Stöð tvö þarf ekki að ræða.
Ýmsir undrast hvað Mænuskaðastofnum Íslands ver miklum fjármunum í sjónvarpsauglýsingar um þessar mundir og til að hæla einum stjórnmálamanni sérstaklega. Svona stofnanir eiga að vera utan við pólitík. Löng auglýsing frá stofnuninni var birt tvisvar í Ríkissjónvarpinu á þriðjudagskvöld (27.05.2014).
Konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins segir okkur frá þættinum Í garðinum hjá Gurrý. Þátturinn heitir Í garðinum með Gurrý. Smáatriðin verða líka að vera rétt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2014 | 10:27
Molar um málfar og miðla 1479
Molavin sendi eftirfarandi: ,,Bjarki Ármannsson skrifar í frétt á Vísi í dag (25.5.14) "...tveir karlar veittust að þeim og börðu þau í höfuð með flöskum í gærnótt..." Hvaða kemur þetta barnamál, sem einkennir fréttaskrif nú orðið? Það hefur áður verið bent á þetta tiltekna atriði, "í gærnótt" en leiðbeiningar virðast ekki skila sér. Innan um er margt mjög vel skrifandi ungt fólk við fréttaskrif en það er eins og ekkert eftirlit sé á ritstjórnum. Ef til vill endurspeglar það almennt vaxandi kæruleysi og skort á metnaði.. Molaskrifari þakkar sendinguna. Barnamálið gærnótt heyrist æ oftar. Skýringuna má að hluta rekja til stjórnenda sem eru metnaðarlausir og værukærir.
Það var nefnt í Molum gærdagsins sem dæmi um sérkennilega samsetningu dagskrár að setja Ferðastiklur Láru og Ómars og Inn-Djúps þættina hlið við hlið á sunnudagskvöldum. Það liggur við að það sé enn sérkennilegra, þegar Ríkissjónvarpsins loksins sýnir fína bíómynd, Pappírstungl (Paper Moon), að setja hana á dagskrá klukkan að ganga tólf á sunnudagskvöldi (25.04.2014). Það er sjaldgæft að sjá kvikmyndir í sjónvarpinu sem fá einkunnina 8,2 á IMDb. Þessa mynd hefði átt að sýna fyrr í kvölddagskránni.
Í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins (25.04.2014) talaði þulur tvisvar sinnum um bandarríska píanóleikarinn Van Cliburn. Í bæði skiptin bar hann nafnið rangt fram, talaði um /van klíbörn/ sem er rangt. Réttur framburður er / van klæbörn/ . Kannski smáatriði, en þau skipta líka máli og þulir eiga að kappkosta að bera nöfn listamanna rétt fram. Það er reyndar fremur sjaldgæft að heyra mistök af þessu tagi í Ríkisútvarpinu.
Á sunnudagskvöld (25.04.2014) var rúmlega fimmtán mínútna langur sérstakur íþróttafréttatími. Það styttist í það með sama áframhaldi, að íþróttafréttatíminni verði lengri en aðalfréttatíminn.
Úr frétt á mbl.is (25.05.2014): ,,Einn lögreglumaður veitti hinum eftirför á fæti. Ja, hérna. Lögreglumaður ,, á fæti!
Hafa setið á samningsfundi, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (26.05.2014) Talað er um samningafundi, ekki samningsfundi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.5.2014 | 10:15
Molar um málfar og miðla 1478
Úr Viðskiptablaðinu (23.05.2014), - sá sem þetta skrifar, kann greinilega ekki að nota viðtengingarhátt:,, Í tilkynningu vegna viðskiptanna segir að fyrirtækið hefur alla tíð verið í eigu fjölskyldunnar. Ætti að vera: ... segir að fyrirtækið hafi alla tíð verið í eigu fjölskyldunnar.
Dálítið einkennileg fyrirsögn í Morgunblaðinu (23.05.2014) um álftarvarp við Elliðaárnar: Krúttklak Svanhildar við Elliðaár, - eiginlega óskiljanlegt, nema fréttin sé lesin. Einhverjum finnst þetta sjálfsagt fyndið, - jafnvel krúttlegt! Fyrirsagnir eiga að vera skiljanlegar.
Er ekki tímabært að útvarpsstjóri aflétti banni forvera síns á því að nota hið rétta heiti Ríkisútvarpsins? Stofnunin heitir ekki RÚV eins og tönnlast er á. Hún heitir Ríkisútvarpið. Það er er ekki óþjált í framburði, eins og til dæmis heiti norska ríkisútvarpsins, Norsk Rikskringkastning, og enginn tungubrjótur venjulegu fólki. Það er miklu skiljanlegra að Norðmenn tali um NRK en að við tölum sífellt um RÚV.
Það er ekki hægt að búa til ,,kemestrí, segir í fyrirsögn í sunnudagsmogga (25.05.2014). Óskiljanlegt. Jafnvel þeim sem þekkja enska orðið chemistry . Þetta er í svokölluðum Smartland dálki Mörtu Maríu, bls. 41. Þessir dálkar eru jafnan til sérstakrar fyrirmyndar um vandað málfar, eða hitt þó heldur! Þeir eru ekki vandir að virðingu sinni í þessum efnum, þeir Morgunblaðsmenn.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps var nýlega talað um íslenskar heilsugæslur. Ekki kann Molaskrifari að meta það orðalag. Átt var við heilsugæslustöðvar á Íslandi. Hefur reyndar heyrst áður.
Enn setur Ríkissjónvarpið hlið við hlið á sunnudagskvöldum Ferðastiklur þeirra feðgina, Ómars og Láru og þætti un mannlíf í sveitum við Inndjúp. Undarleg dagskráruppsetning. Þetta er hvort tveggja gott efni, enda þó ýmsum þyki nokkur fljótaskrift á Stiklunum og of mikill auglýsingakeimur af þáttunum.
Inndjúpsþátturinn í gærkveldi (25.04.2014) var sérdeilis góður. Eins og innlend dagskrárgerð gerist best. Áhugavert mannlíf, sem nú er á hverfanda hveli. Vel gerður þáttur og vel fluttur texti Þóru Arnórsdóttur. Smekkleg samtvinnun viðtalanna við þetta ágæta fólk. Hljóð hefði mátt vera betra og ekki hefði sakað að texta Ráðskonuraunir Indriða, þótt hann væri sannarlega vel skýrmæltur. En þetta er bara smánöldur um frábæran þátt. Takk.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.5.2014 | 09:27
Molar um málfar og miðla 1477
Ég treysti biskup, sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, í Kastljósi á fimmtudagskvöld (22.05.2014). Tvisvar. Ég treysti biskupi, hefði það átt að vera.
Hvað skyldi hið oft fremur ógeðfellda Hraðfréttarugl Ríkissjónvarpsins kosta margar milljónir á ári? Um það hefur áður verið spurt, en Ríkissjónvarpið skuldar áhorfendum víst hvorki svör við einu eða neinu. Áhorfendur eiga bara að borga og þegja. Ekki spyrja.
Alltaf er maður að læra eitthvað nýtt. Af mbl.is (22.05.2014) : ,,Starf rúningsmanns krefst félagslegrar hæfni og tilþrifin hafa heillað marga konuna í gegnum tíðina. Sjá:. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/22/lagni_skiptir_mali_i_runingi/
Það leynir sér ekki að kosningaskjálftinn hefur heltekið Mogga þegar blaðið gerir úr því þriggja dálka frétt (23.05.2014) hvort verið geti að Dagur B. Eggertsson, sem stundum hleypur í skarðið fyrir borgarstjóra, fái afnot af bíl borgarstjóra, þegar hann sinnir embættisskyldum borgarstjóra! http://www.mbl.is/frettir/kosning/2014/05/23/stadgengill_borgarstjora_hefur_afnot_af_bil_hans/
Flest er hey í harðindum. Hér er gripið í hálmstrá. En nú stefnir reyndar í verstu útkomu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík frá stofnun flokksins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2014 | 09:16
Molar um málfar og miðla 1476
Ótrúlegar tölur sem þarna voru nefndar. Lofsvert að biskup skuli ætla að endurskoða þetta gamla, úrelta og rotna kerfi. Agnes biskup mun mæta harðri andstöðu, trúir Molaskrifari, frá laxa- og dúnklerkum. Hér má hinsvegar ekki láta deigan sígan. Þetta eru gamlar ranglætisleifar sem ber að uppræta. Tölur um tekjur af þessum hlunnindum hljómuðu ekki allar trúlega í eyrum Molaskrifara.
En dettur einhverjum í hug að hlunnindaprestar gjaldi ekki keisaranum það sem keisarans er og guði það sem guðs er? Auðvitað ekki.
Trausti sendi Molum línu og sagði: ,,Þetta stingur í augu: ,,Jarðskjálfti upp á 6,0 átti sér stað á Bengal-flóa út af austurströnd Indlands í dagum klukkan 16:20. Af mbl.is (21.05.2014).Einnig af mbl.is sama dag: ,,Einn var með allar tölur réttar í Víkingalottóinu og fær því fyrsta vinning óskiptan en vinningurinn hljóðar upp á hvorki meira né minna en 1.152.366.140 krónur. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Mikið hljóðað á mbl.is þennan dag !
Af visir.is (21.05.2014) Vesturport hlaut tvö verðlaun á hinum vertu Elliot Norton Awards í gær. Þetta var lagfært síðar og réttilega sagt að Vesturport hefði hlotið tvenn verðlaun. Kannski var eitt af fréttabörnunum,sem svo eru stundum nefnd, á vaktinni.
Á þriðjudagskvöld (20.05.2014) sá Molaskrifari síðari hluta heimildamyndar í norska sjónvarpinu (NRK2) um umsvif Kínverja í námarekstri og málmvinnslu í Afríku. Myndin hét ,,Kínverjarnir koma. Molaskrifari sá ekki betur en hún væri gerð á vegum BBC. Ríkissjónvarpið kaupir mikið af efni frá BBC, en það takmarkast eiginlega alveg við dýralífsmyndir. Þær eru fínar, en einhæfur kostur. Þessi mynd um framsókn Kínverja utan Kína á erindi við okkur.
Rangt var farið með nafn Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra og stjórnarformanns Icelandair í tíu fréttum Ríkisútvarps (22.05.2014). Ekki leiðrétt. Fréttamenn eiga að geta farið rétt nöfn forystumanna í atvinnulífinu. Enn einu sinni: Enginn lesið yfir áður en lesið er yfir okkur.
Fótboltamót. Mesta veisla í heimi, segir Ríkissjónvarpið. Veruleikafirring hins ofur sjálfhverfa íþróttaheims.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.5.2014 | 09:16
Molar um málfar og miðla 1475
Þar talar ráðherrann um ,,leiðréttingu á skuldalækkun, sem þýðir væntanlega skuldahækkun! Óskýr texti. Óskýr hugsun. Sama gildir um grein tveggja frambjóðenda sama flokks, Framsóknarflokksins, í Morgunblaðinu (21.05.2014),, Krefjumst raunhæfra hugmynda og leiða svo hægt sé að byggja Reykjavík fyrir venjulegt fólk, ekki innihaldslaus loforð korter fyrir kosningar. Óskýr texti. Óskýr hugsun. Þegar Molaskrifari þekkti best til var fólk í Framsóknarflokknum sem gat hugsað ágætlega skýrt. Því hefur greinilega fækkað mjög.
Af mbl.is (19.05.2014): Myndirnar um Guðfaðirinn eru hans þekktasta verk en þá tók hann einnig upp kvikmyndir á borð við Annie Hall, Interiors, Manhattan og Stardust Memories. Einu sinni var kennt í barnaskólum og seinna í grunnskólum hvernig beygja ætti orðið faðir. Sú kennsla hefur ekki náð til þess sem þetta skrifaði á mbl.is.
Þeir sem ráða dagsskrá Ríkissjónvarpsins virðast trúa því að íslenska þjóðin hafi ótakmarkaðan áhuga á slökkviliðsmönnum og bráðaliðum í Chicago. Er ekkert betra efni í í boði? Er ekki komið nóg?
Rafn benti Molaskrifara á nýsamþykkt lög frá Alþingi, sem heita, - Lög um framkvæmdarvald ríkisins í héraði Hann spyr: ,,Er þetta eðlileg eintala á framkvæmdarvaldi? Ég hefði notað fleirtöluna, en þetta er komið í lög. Molaskrifari hefði reyndar gert það líka. En þetta mun ekki vera nýtt og íslensk orðabók hefur að geyma bæði orðin framkvæmdavald og framkvæmdarvald.
Er útilokað að Ríkissjónvarpið geti fundið dagskrárkynni,sem talar með eðlilegum áherslum og eðlilegri hrynjandi? Svona eins og venjulegt fólk?
Á annað hundrað manns gengu með Guðný, sagði fréttamaður Stöðvar tvö , Magnús Hlynur Hreiðarsson. (21.05.2014). Tvisvar tókst honum að beygja þetta algenga nafn rangt í stuttri frétt. Fréttastjóri ætti að segja honum til.
Það er röng ákvörðun hjá stjórnendum í Ríkisútvarpinu að fylla fréttatímana í útvarpi og sjónvarpi af umræðum og framboðsræðum um sveitarstjórnarmál. Sú umfjöllun á ekki heima í fréttum, heldur í sérstökum þáttum utan fréttatímans. Hversvegna er svæðisútvarp ekki endurvakið? Svona efni á heima þar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.5.2014 | 08:43
Molar um málfar og miðla 1474
Sagt hefur verið frá því, að Sjálfstæðismenn í Hafnarfirði og fulltrúar Bjartrar framtíðar séu farnir að ræða um myndun meirihluta. Dálítið furðulegt í ljós þess að kosningar fara ekki fram fyrr en 31. maí !
Í íþróttafréttum Stöðvar tvö (19.05.2014) var sagt: Sannarlega gott tilþrif ,um ökumann,sem þótti standa sig vel. Tilþrif er fleirtöluorð. Þess vegna hefði átt að segja: Sannarlega góð tilþrif.
Rafn benti á frétt (19.05.2014) á pressan.is og segir:
,, Í fréttinni hér fyrir neðan og víðar hefir verið rætt um atkvæðagreiðslu í Sviss og sagt, að hún snúist um hækkun lágmarkslauna.
Eftir því, sem ég veit bezt eru engin ákvæði um lágmarkslaun í svissneskum lögum, þannig að tillagan var um upptöku lágmarkslauna, nokkuð hárra að vísu, en ekki um hækkun slíkra launa. Molaskrifari þakkar Rafni ábendinguna. Sjá: http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/05/18/hofnudu-riflegri-haekkun-lagmarkslauna-i-thjodaratkvaedagreidslu/
Hækkun sjávarborðs minna vegna Grænlandsjökuls, segir í fyrirsögn á visir.is (19.01.2014). Sjá http://www.visir.is/haekkun-sjavarbords-minna-vegna-graenlandsjokuls/article/2014140518990
Þetta er rangt. Fyrirsögnin ætti að vera: Hækkun sjávarborðs minni vegna Grænlandsjökuls.
Í frétt um fyrirhugaða nýbyggingu Landspítala (19.05.2014) í Ríkisútvarpinu var sagt: ... að ljúka undirbúningi byggingu ... Hefði að mati Molaskrifara átt að vera: .. að ljúka undirbúningi byggingar ...
Veisla er mikið tískuorð hjá Ríkisútvarpinu um þessar mundir. Talað er um handboltaveislur og fótboltaveislur. Á mánudag (19.05.2014) var á dagskrá Gítarveisla Bjössa Thors. Prýðilegur þáttur. En þarna var enginn Bjössi Thors á ferð heldur Björn Thoroddsen oft kallaður Bjössi Thor. Það var út í hött að segja hann Thors. Eignarfalls s átti ekki heima þarna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)