14.6.2014 | 08:39
Molar um málfar og miðla 1493
Forvitnilegra en ég hélt að heimækja þessa útihátíð til þess að hlusta á sunnlensku beljurnar jarma.
Setti því miður ekki á mig nafn mannsins. Var þó örugglega ekki hann Guðni.
- Nei , nei, Guðni hefði aldrei látið sér slíkt um munn fara. Þeir sem standa að þessari hátíð auglýsa líka ,, að þar muni íslenskir kjötframleiðendur skarta sínu fegursta. Kannski er rétt að skreppa og heyra kýrnar jarma og sjá kjötframleiðendur skarta sínu fegursta! Þakka ábendinguna.
Bæði Telma Tómasson fréttaþulur og Birta Björnsdóttir fréttamaður töluðu báðar í fréttum Stöðvar tvö í gærkveldi (13.06.2014) um lögbann á fyrirhugað verkfall flugvirkja. Þetta lögbanns tal í tengslum við boðuð verkföll er bull. Það er ekki hægt að setja lögbann á verkfall. Lögbann er allt annar gjörningur, en lög eða bráðabirgðalög gegn verkfalli, Undarlegt að fólk sem unnið hefur við fréttir árum saman virðist ekki hafa hugmynd um hvað lögbann er. Fjölmiðlun 101. Þarna var líka talað um að fella niður öll fyrirhuguð flug. Betra hefði verið að tala um allt fyrirhugað flug eða allar fyrirhugaðar flugferðir. Þarna hefðu þau mátt vanda sig meira á Stöð tvö. Ágætlega var þetta orðað á vef Ríkisútvarpsins: Sextíu og fimm flugferðir felldar niður á mánudaginn, var sagt þar.
Þetta með lögbannið hefur svo sem verið nefnt áður í Molum. Sjá t.d. Mola 276, 281, 642 og 1462. Stundum finnst mér eins og dropinn holi ekki steininn!
Rafn benti á þessa fyrirsögn á mbl.is (13.06.2014):Hjólareiðaslysum í þéttbýli fjölgaði fjórfalt. Hann segir: ,,Hvort skyldi slysafjöldinn hafa fjórfaldast (t.d. 10 slys fyrra árið en 40 hið síðara) ellegar fjölgunin verið fjórföld (t.d fjölgað um eitt slys fyrra árið, en fjögur hið síðara)?? Fyrirsögnin svarar þessu ekki, en í fréttinni kemur fram, að það er slysafjöldinn, sem er fjórfaldur!! Molaskrifari þakkar Rafni ábendinguna. http://www.mbl.is/bill/frettir/2014/06/13/hjolreidaslysum_i_dreifbyli_fjolgadi_fjorfalt/
Rússneskir skriðdrekar berjast í Úkraínu, var sagt í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (12.06.2014). Ekki mjög góð fyrirsögn að mati Molaskrifara. http://www.ruv.is/frett/russneskir-skriddrekar-berjast-i-ukrainu
Léleg var fréttaþjónusta Ríkissjónvarps þjóðarinnar í gærkveldi (13.06.2014). Tuttugu mínútna fréttir samhliða útvarpsfréttum kl. 1800. Síðan ekki söguna meira. Tuðran hefur forgang fram yfir fréttaflutning. Íþróttadeildinni tekst alltaf að sparka fréttastofunni út af vellinum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.6.2014 | 09:08
Molar um málfar og miðla 1492
Þótt lögregla geti varla skrifað boðlega íslenzku lengur er engin ástæða fyrir fréttamenn að éta orðrétt upp það illskiljanlega stofnanamál, sem frá lögreglu kemur. Sérstaða íslenzks mannamáls byggist á því að nota sagnorð í frásögnum. Nú taka nafnorð yfir. "Að eyða fóstri" er nú kallað "framkvæmd fóstureyðinga." - Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Við erum eins og tíu ára börn, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps í gærkveldi (12.06.2014). Það er mikið til því. Svo bætti hann við: Þetta er spretta á. Það var og!
Í gærkveldi (12.06.2014) hellti Ríkissjónvarpið yfir okkur næstum þremur klukkustundum af fótbolta og fótboltafjasi. Sjálfsagt er að sýna talsvert af leikjum úr þessari heimsmeistarakeppni, sem fangar hug margra. En japl, jaml og fjas svokallaðra ,,sérfræðinga ætti eingöngu að flytja á sérstakri íþróttarás, eða bara í útvarpi. Það bætir engu við að sjá þessa snillinga. Það ætti að bjóða þeim mikla fjölda, sem engan áhuga hefur á þessum samtölum, upp á annað efni í þessu sjónvarpi allra landsmanna.
Loksins var í fréttum Ríkisútvarpsins (12.06.2014) réttilega talað um gestgjafana , Brasilíu, en ekki gestgjafa Brasilíu eins og íþróttafréttamenn Ríkissjónvarpsins hafa tönnlast á undanfarna daga. Gestgjafar Brasilíu er út í hött, þegar talað er um að heimsmeistaramótið í knattspyrnu fari fram í boði Brasilíumanna.
Það er engu líkara en konuröddinni,sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins sé fyrirmunað að fara rétt með heiti garðyrkjuþáttarins Í garðinum með Gurrý. Rangt var enn einu sinni farið með nafn þáttarins á miðvikudagskvöld (11.06.2014). Er alltaf verið að nota gamlar niðursoðnar kynningar? Þetta er ekkert flókið. Bara hafa heiti þáttanna rétt. Þetta er eiginlega bara subbuskapur.
,,Þegar svona stórt skip fer undir gerist ýmislegt sem kennir maður betur um eðlisfræði hafsins Þetta er tilvitnun í síðuna menn.is sem birtist nýlega á fésbók. Verið var að vísa til þess er Titanic sökk . Ja, hérna. http://menn.is/svona-sokk-titanik-nakvaemlega-myndband/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.6.2014 | 08:01
Molar um málfar og miðla 1491
Úr frétt á mbl.is (09.06.2014) um franskan hellakönnuð sem lokaðist inni í helli vegna grjóthruns: ,, Flókið og umfangsmikið gangnakerfi hellisins gerir aðgerðina mjög erfiða,. Hér ætti að standa gangakerfi , ekki gangnakerfi. Göngur eru ekki í hellum. Úr sömu frétt:,, Stefnt er að því að koma upp grunnbúðir fyrir björgunarstarfið á 300 metra dýpi .... Stefnt er að því að koma upp grunnbúðum .... Enginn prófarkalestur frekar enn fyrri daginn. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/06/09/fastur_i_idrum_jardar/
Rottur með skott komu við sögu í fréttum Stöðvar tvö (09.06.2014). Molaskrifari hefur vanist því að tala um rottuhala. Í fréttum Ríkisútvarps sama kvöld sagði dósent við Háskóla Íslands, þegar hálendið opnar. Hálendið opnar hvorki eitt né neitt. Konan, sem rætt var við, átti við það þegar bílaumferð væri leyfð um hálendið. Og í fréttum Ríkissjónvarps var okkur boðið upp á brakandi ferskar íþróttamyndir. Brakandi myndir???
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (09.06.2014) talaði fréttamaður um að kjósa gegn lagafrumvarpi. Enn einu sinni var því hér ruglað saman að greiða atkvæði og kjósa. Það þarf greinilega að skýra muninn á þessu fyrir sumum fréttamönnum. Áður hefur verið vikið að þessu í Molum 33, 299, 818 og 1247. Meðal annars.
Stundum er einkennilegur munur á tölum fjölmiðla um fjölda látinna í slysum eða fjölda fallinna í árásum. Á miðnætti á sunnudagskvöld (08.06.2014) nefndi BBC mun hætti tölur á miðnætti um fjölda fallinna í skotárás á Karachi flugvelli í Pakistan en Ríkisútvarpið á sama tíma. Sama var uppi á teningnum morguninn eftir. Þá sagði BBC kl 0645 að 27 væru fallnir, en 15 mínútum síðar var talan 21 nefnd í Ríkisútvarpinu. Í tíu fréttum sama dag sagði Al jazeera 29 fallna, BBC og CNN nefndu töluna 28, en Ríkisútvarpið 24. Hvað veldur? Hvaða heimildir notar Ríkisútvarpið.
Molaskrifari veltir því fyrir sér hvort umsjónarmenn þáttarins Reykjavík síðdegis á Bylgjunni hafi ráð á því að dylgja um gáfnafar Filippusar hertoga af Edinborg eins og gert var á þriðjudaginn (10.06.2014). Hálf hallærislegt.
Norrænu sjónvarpsstöðvarnar sýndu mikið af vönduðum og mjög fróðlegum heimildamyndum, þegar þess var minnst 5. og 6. júní að 70 ár voru liðin frá innrás bandamanna í Normandí, sem olli straumhvörfum í seinni heimsstyrjöld. Ótrúlegt skipulag og mikinn undirbúning þurfti til að hrinda þessari miklu aðgerð í framkvæmd.. Sjö þúsund skip og 250 þúsund hermenn. Tíu norsk herskip og 50 flutningaskip tóku þátt í aðgerðinni. Herliðinu þurfti að koma á land á einum sólarhring. Íslenska ríkissjónvarpið hefur ekki minnst þessara tímamóta nema í fréttum. Það leggur fram sinn skerf til þess að hér vaxi úr grasi kynslóðir, sem vita lítið sem ekkert um sögu liðinnar aldar. Íþróttadýrkun og áhersla á mismerkilega ameríska myndaflokka setja mestan svip á dagskrá Ríkissjónvarpsins , þótt innan um sé eitt og annað sæmilega bitastætt, þá er það of lítið. Allt, allt of lítið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2014 | 08:10
Molar um málfar og miðla 1490
Konuröddin, sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins, kallaði þann frækna ferðagarp Guðmund Jónasson í gærkveldi (10.06.2014) Guðmund Jónsson. Hve lengi ætlar Ríkissjónvarpið að bjóða okkur upp á þessi vinnubrögð?
Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á hvítasunnudag (08.06.2014) var sagt: ,,Algengt er að öryrkjar eigi ekki pening fyrir mat .... Það er sjálfsagt orðin viðurkennd málvenja að nota eintölu myndina peningur þegar talað er um að um að eiga ekki peninga. Ekki er Molaskrifari fyllilega sáttur við þá orðnotkun í fréttum:
Í sama fréttatíma spurði fréttamaður: ,,Hefur málum eitthvað þokast í samningsátt? Málum hefur ekki þokast. Hefur málum þokað áfram eða hafa mál þokast áfram.
Meira úr sama fréttatíma, en þá sagði fréttamaður: ,,Undirbúningur við hátíðina ( kvikmyndahátíð á Patreksfirði) tekur marga mánuði. Undirbúningur fyrir hátíðina, hefði þetta átt að vera. Svo spurði fréttamaðurinn:,,Hafið þið fengið einhver komment á fiskinn í ár .... Ríkisútvarpið á að hafa metnað til að gera betur en þetta.
Molalesandi benti á fyrirsögn á mbl.is Pórósjenkó vígður í embætti
Hann spyr: ,,Getur verið að forseti Úkraínu sé vígður í embætti? Molaskrifari svarar: Nei, - enda var þetta lagfært síðar á mbl.is. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Steini sendi eftirfarandi (09.06.2014): ,,Sæll Eiður. Öfgafullt gegn yfirvöldum Mér líkar ekki tilvitnuð fyrirsögn.
Árásarfólk, -er bara í lagi með öll samsett orð, þar sem árás er notað sem orðhluti, þótt árásarmaður, og árásarvopn, og -her sé gott og gilt? Árásarkona, og árásarunglingur, eða árásarslanga. Allt getur þetta fólk gert árás, og slangan. En það er ekki þar með sagt að það sé vit í þessum orðum.
Árásarfólkið í fréttinni mætti nefna morðingja, er það ekki?
Öfgafullt -maður er ekki öfgagullur gegn einhverjum, heldur öfgafullur í skoðunum. Eða bara öfgafullur. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/06/09/arasarfolkid_ofgafullt_gegn_yfirvoldum_2/
Molaskrifari þakkar Steina ábendinguna.
Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (07.06.2014) var ítrekað talað um gestgjafa Brasilíu. Ekki heyrði Molaskrifari betur en hér væri einhver misskilningur á ferð. Það eru víst Brasilíumenn sem eru gestgjafar fjölmargra þjóða á heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu, sem senn dynur á okkur. ,,Þar sem gestgjafar Brasilíu mæta Króatíu segir íþróttafréttamaður í dagskrárauglýsingu. Þetta orðalag er út í hött. Rugl. Er málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins alveg búinn að leggja árar í bát?
Bændur eru byrjaðir að hirða hey, var sagt í fréttum Ríkisútvarps (08.06.2014) . Ekkert athugavert við það. Áður fyrr hefði sjálfsagt verið látið duga að segja að bændur væru farnir að hirða.
Svo mikla haglél gerði, .... sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps að kveldi hvítasunnudags (08.06.2014). Svo mikið haglél gerði ... hefði hann betur sagt. Haglél er nefnilega hvorugkynsorð.
Áhugaverðar mannlífsmyndir að venju í Inndjúpi (4:4) á hvítasunnudagskvöld í Ríkisjónvarpi. Ferðastiklurnar voru dálítið of tætingslegar fyrir smekk Molaskrifara. Hvað kemur okkur annars við hvaðan fatnaður Láru Ómarsdóttur kemur? Ekki baun í bala,eins og sagt var í gamla daga.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.6.2014 | 08:48
Molar um málfar og miðla 1489
K.Þ. vakti á athygli á frétt (07.06.2014) á svokölluðu Smartlandi mbl.is, sem virðist undanþegið öllum yfirlestri. Sjá : http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2014/06/07/10_atridi_sem_einhleypir_karlmenn_thurfa_ad_vera_me/
K.Þ. segir: Maður á víst að ...
... borða með lokaðan munninn ...
... nota pentudúk.
Svo er sagt "... líklegt að konunni fari að gruna ... " Molaskrifari þakkar ábendinguna. Mikill fjóluakur þetta Smartland. Endur fyrir löngu var ritstjóri Morgunblaðsins nefndur fjólupabbi, muni Molaskrifari rétt. Það á enn við.
Sigríður benti Molaskrifara á þessa frétt á visir.is (07.06.2014): http://www.visir.is/13-ara-okumadur-stodvadur-af-logreglu/article/2014140609236
,,Lögregla stöðvaði bifreið á Hafravatnsvegi fyrr í dag sem ekin var af þrettán ára dreng. Faðir drengins (svo!) og tveir bræður voru með í för. Bifreiðin var ekin af 13 ára dreng! Einstök snilld!
Fréttabarn á næturvakt á ruv.is 07.06.2014): ,,Eldur kom upp í vörubíl sem er staðsettur í við lóð Gámaþjónustunnar við Berghellu í Hafnarfirði nú rétt fyrir miðnætti. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu er eldurinn bundinn við vörubílinn og ekki hætta á að hann dreifi sér í nærliggjandi hús.
Slökkviliðið var komið á vettvang rétt eftir miðnætti. Greiðlega gekk að slökkva eldinn og var slökkvistarfi lokið á um 20 mínútum. Ágætu útvarpsmenn. Þetta er ekki boðlegt. Sjá: http://www.ruv.is/frett/eldur-vid-berghellu-i-hafnarfirdi
Lesandi, Þórður Sævar Jónsson, benti á illa skrifaða frétt á visir.is (06.06..2014)
Sjá: http://www.visir.is/var-slokkt-viljandi-a-loftraestingunni-/article/2014140609345
Rétt er það, að hér er margt sem betur mætti fara.
Í textuðu samtali við forsætisráðherra Svíþjóðar í fréttum Ríkissjónvarps á mánudagskvöld ((009.06.2014) sagði hann ,,etter midsommar . Það var þýtt, ,,eftir mitt sumar. Molaskrifari er á því að forsætisráðherrann hafi þarna verið að tala um Jónsmessuhátíðina í Svíþjóð um næstu helgi 20. og 21. júní.
Takk fyrir vandaða umfjöllun um atburðina á Tiananmen-torginu í Peking fyrir 25 árum í Víðsjá Ríkisútvarpsins á föstudag. Enginn veit með vissu hve marga friðsama mótmælendur kommúnistastjórnin lét myrða þessa daga. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands og ríkisstjórn Íslands leggja nú sérstaka áherslu á að vingast við valdamenn í Kína. Enn er af opinberri hálfu í Kína farið með þessa atburði eins og mannsmorð. Þá má ekki nefna á nafn. Enda voru þetta morð. Fjöldamorð.
Einnig skulu hér nefndir prýðilegir útvarpsþættir að morgni hvítasunnudags. Það voru þáttur Unu Margrétar Jónsdóttur um séra Friðrik A. Friðriksson og þáttur Brynju Þorgeirsdóttur, sá fyrri af tveimur, um bréf Þórbergs Þórðarsonar á esperanto. Úrvalsefni. Takk fyrir það.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2014 | 09:12
Molar um málfar og miðla 1488
Molavin sendi svo þessa viðbót seinna sama dag: ,,Það mætti halda að börnin, sem nú eru komin í sumarfrí úr skólum sínum hafi fengið vinnu á Vísi. Svo mjög færast málfarsfjólur þar í vöxt. Í dag (5.6.14) segir frá "hryssumjólk" þar sem augljóslega er átt við kaplamjólk. Í annari frétt segir: "...utanvegaakstur er fyrst og fremst framkvæmdur af útlendingum á bílaleigujeppum." Og er hér aðeins fátt eitt talið af síðu dagsins. Molaskrifari þakkar þessar ábendingar.- Það er svo sem eftir þessum útlendingum ,, að framkvæma utanvegaakstur.
Af mbl.is (05.06.2014): ,,Barnabarn hans hefur séð um að hirða bílana saman og undirbúa þá fyrir uppboðið. Hvað er að hirða bíla saman?
Sagt var í fréttum Ríkisútvarps á miðnætti (05.06.2014): ,, ... og forðast ákvarðanir sem geti hamlað möguleika á friðarsamkomulagi. Þarna hefði að mati Molaskrifa fremur átt að tala um að hamla möguleikum á friðarsamkomulagi.
Endalaust rugla menn saman að og af. Glöggur lesandi benti Molaskrifara á eftirfarandi á pressan.is (03.06.2014): ,,Í kvöldfréttur Stöðvar 2 í gær var sagt frá því að lagt hafi verið af forystu Sjálfstæðisflokksins að endurskoða eða slíta samtarfinu til þess að standa vörð um gildi flokksins. Hér ætti að standa: ... lagt hafi verið að forystu Sjálfstæðisflokksins. Þar fyrir utan eru tvær villur aðrar í þessari stuttu setningu. Sjá: http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/06/03/bjarni-segist-finna-fyrir-thrystingi-i-hneinu/
Ágætur fréttamaður Stöðvar tvö virðist eiga erfitt með að segja saksóknari (06.06.2014), segir alltaf saksónari. Heldur hvimleitt. Talþjálfara ætti ekki að verða skotaskuld úr því að lagfæra þetta.
Molaskrifari getur ekki að því gert, en hann veltir því fyrir hversu mikið almennt fréttagildi frásagnir af forræðisdeilu íslenskrar konu og dansks fyrrum eiginmanns hennar hafa. Löngum fréttum af þessu máli hefur verið dengt yfir okkur í velflestum fjölmiðlum. Molaskrifara þykir þetta ekki hafa mikið fréttagildi, nema fyrir þær fjölskyldur sem málinu tengjast.
Í nokkra daga hafa veðurfræðingar spáð blíðviðri á föstudag (06.06.06.2014), laugardag og hvítasunnudag. Í blíðunni á föstudag var skondið að heyra fréttamann Ríkisútvarps ræða við veðurfræðing í hádegisfréttum. Veðurfræðingurinn spáði allt að tuttugu stiga hita inn til landsins. Þá spurði fréttamaður: Og er þetta gott ferðaveður? Og ekki var látið þar við sitja, því svo var spurt: ... Getur fólk farið í útilegur um þessa helgi? Ja, hérna. Það má eiginlega hafa svolítið gaman af þessu!
Molaskrifari ók austan úr Grímsnesi til Reykjavíkur undir kvöldmat í gær, föstudag. Þá var næstum óslitin bílaröð frá Selfossi að Rauðavatni. Sennilega voru einhverjir að fara í útilegu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2014 | 06:59
Molar um málfar og miðla 1487
Það hefur alveg gleymst að segja dagskrárstjórum Ríkissjónvarpsins frá því að í dag (06.06.2014) eru sjötíu ár liðin frá innrásinni í Normandí. Innrásin var heimssögulegur atburður, vatnaskil í seinni heimsstyrjöldinni. Það er eins og enginn í hópi dagskrárstjóra Ríkisútvarpsins viti neitt eða vilji neitt vita um söguna. En því betur eru menn að sér um íþróttir. Það gerðist nefnilega sitt af hverju áður en þetta ágæta fólk var í heiminn borið. Þessara merku atburða hefur þó verið minnst svolítið í fréttum.
Þórhallur Jósepsson skrifaði (05.06.2014) undir fyrirsögninni: Ekki fer Netmogga fram! Hann segir: ,,Mér hnykkti við að sjá þennan ótrúlega texta á mbl.is í morgun. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/06/04/telur_sig_hafa_sed_thotuna_alelda/
Þarna eru held ég flestar tegundir mistaka og subbuskapar í textagerð og ótrúlega margar villurnar. Hér eru aðeins fáein dæmi:
"Á sama tíma er nú rannsakað hvort..." Klaufalega orðað. betra væri annað hvort: "Um leið ..." eða "Einnig er ..."
"... þar sem hljóðmerkið getur alveg eins hafa komið frá... " Betra væri "... þar sem hljóðmerkið gæti hafa komið frá ..."
"... var sofandi inn í bát..." og stuttu síðar aftur sama.
"... eða það er það sem mér sýndist ég sjá ..." Þarna dugir vel: " ... eða svo sýndist mér .."
Af mörgu fleira er að taka í þessari grein, en læt þessi dæmi nægja hér. Vinnubrögðin eru heldur dapurleg hjá mbl.is fólki, ekkert síður þótt þessi texti hafi að mestu verið afritaður að vefnum sem vitnað er til, það afsakar ekki þetta yfirþyrmandi kæruleysi að láta svona subbuskap frá sér fara. Molaskrifari þakkar Þórhalli bréfið.
Skortur á viðbrögðum megi túlka sem mikla stefnubreytingu hjá flokknum, las fréttaþulur Stöðvar allsendis óhikað í fréttum á miðvikudagskvöld (04.06.2014) . Furðulegt hjá reyndum fréttamanni og alvönum lesara að heyra ekki villuna. Þetta hefði átt að vera: Skort á viðbrögðum megi túlka sem mikla stefnubreytingu ....
,,Gæludýrin eru yndisleg og við gröfum þeim. Þannig var til orða tekið í neðanmálstexta með erlendri frétt í Ríkissjónvarpinu (04.06.2014).
Í netkynningu á Menningarkorti Reykjavíkur (04.06.2014) segir:
,, Í tilefni af sameiningar Minjasafns Reykjavíkur (Árbæjarsafn og Landnámssýning), Sjóminjasafns Reykjavíkur, Viðeyjar og Ljósmyndasafns Reykjavíkur undir nýju safni og nafni, Borgarsögusafn Reykjavíkur, bjóðum við fyrrum handhöfum Menningarkortsins 1000 kr. afslátt af endurnýjun á kortinu í júní. Hér ætti auðvitað að standa, annað hvort: Í tilefni sameiningar , eða í tilefni af sameiningu .... Svo er svolítið skrítið orðalag að segja: ... undir nýju safni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.6.2014 | 09:34
Molar um málfar og miðla 1486
Enginn veit í raun og veru hve marga friðsama mótmælendur kommunistastjórnin í Kína lét myrða með köldu blóði þessa daga fyrir 25 árum. Greinargóða frásögn af þessum atburðum er til dæmis að finna í bókinni China Wakes, en hana skrifuðu hjónin Nicholas D. Kristof (margverðlaunaður blaðamaður New York Times) og Sheryl Wudunn en þau voru í Peking þegar þetta gerðist.
Lesandi bendir á þetta á mbl.is (03.06.2014): Vegna frétta kvöldsins er sjálfsagt að greina frá því að eini þrýstingurinn sem ég finn fyrir er í hnéinu. Það er vegna aðgerðar sem ég fór í fyrir nokkrum vikum, segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni. Vitnað mun hafa verið í þessa færslu fjármálaráðherrans á fleiri fréttasíðum. Sá sem á þetta benti segir einnig: ,, Segið svo að það hafi verið vel við hæfi að fela þessum höfundi umsjá með ,,ríkisféinu". Hann ræður a.m.k. ekki við stafsetninguna - hvað sem öðru líður. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Karl Björnsson skrifaði athugasemd (03.06.2014) og spurði hvort Molaskrifari væri ekki orðinn þreyttur á að skrifa sem hrópandinn í eyðimörkinni? Svarið er : Nei. ekki enn. Karl segir líka í athugasemd sinni: ,, Ég held þetta sé tapað mál, þ.e. íslenskan, og þú hlýtur að verða orðinn þreyttur á að hrópa einsamall í eyðimörkinni.
Leiðinlegt fólk talar leiðinlegt mál og það er lítið við því að gera. Íslendingar eru orðnir skelfilega leiðinlegir.
Hér koma nokkur dæmi:
Hvað er að gerast á helginni. Atkvæðið þitt skiftir máli. Þú getur hlustað á tónlistina þína á vefnum okkar. Þú getur greitt reikningana þína í einkabankanum þínum.
Stanslaust vella fram eignarfornöfn og ákveðinn greinir af krafti landans
allt svo yfirmáta hjartnæmt að slepjulegur innileikinn lekur af hverju orði. Ég hef heyrt veðurfræðinga Sjónvarpsins prjóna, hjá okkur eða á landinu okkar, aftan í hverja einustu setningu og nota ákveðinn greini á alla landshluta, t.d. á Vestfjörðunum. Það er einhver vemmileg tilfinningavæðing í gangi
einhverskonar Polliönu disneyfication.
Engu líkara en að menn gleypi í sig gagnrýnislaust allt auglýsingaskrumið, þar sem fyrst og fremst er höfðað til sjálhverfu og barnalegrar eigingirni
allt er fyrir þig og til þín ad infinitum
Sumir viðtalsþættir slá öll met. Dæmi eftir minni: Vilt þú sjá draumana þína rætast , spurði konan. Söngkonan svaraði og sagði, að hún vildi gjarnan láta heyra í röddinni á sér.
Hvernig er lífið þitt í New York?
Og er einhvertíma sem þú efast um verkin þín?
Allt fyrir þig og vinnustaðinn þinn, kosningarnar eru fyrir þig
þínar kosningar og atkvæðið þitt. Og mjólkin þín er með öll næringarefnin sín og svo er það barnastarfið í kirkjunni þinni
Ég væri mun sáttari við að fólk hætti að beygja nafnorð. Það er mun eðlileg þróun tungumálsins en þessi vitleysa. Molaskrifari þakkar Karli bréfið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2014 | 09:38
Molar um málfar og miðla 1485
Lesandi benti á þessa frétt á visir.is (02.06.2014): http://www.visir.is/spanarkonungur-stigur-til-hlidar/article/2014140609863
Hér er talað um að einhver stígi til hliðar , er hann lætur af störfum, sest í helgan stein eða afsalar sér völdum eins og er í þessu tilviki. Að stíga til hliðar er ekki íslenskulegt orðalag. Þar að auki bendir þessi lesandi á þá íslensku venju að tala um Jóhann Karl, Spánarkonung og ríkisarfann, Filippus prins. Ríkisútvarpið notaði þau nöfn í hádegisfréttum þennan sama dag.
Fréttabarn á vaktinni á mbl.is á þriðjudagskvöldi (03.06.2014), dæmigerð viðvaningsfrétt. Þrjár stuttar málsgreinar og eitthvað athugavert við þær allar: ,, Koma þurfti bátnum Skvísu KÓ í land eftir að sjór lak inn á vélarúm bátsins rétt utan við Rif á Snæfellsnesi.
Nærliggjandi bátur fylgdi Skvísu til hafnar, en af öryggisástæðum var Landhelgisgæslan einnig kölluð út
Samkvæmt upplýsingum er nú verið að hirða aflann úr bátnum og verður vatnið losað úr vélarúminu að því loknu.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/06/03/skvisa_i_vanda/
Molaskrifara hefur verið bent á að ekkert sé athugavert við að segja eða skrifa réttum megin. Molar 1483. Sjá: http://malfar.arnastofnun.is/?p=8043
malfar.arnastofnun.is. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan 07 00 (03.06.2014) var sagt: ,, ... gæti ástandið í Evrópu farið að svipa til kalda stríðsins. Gæti ástandinu í Evrópu farið að svipa til kalda stríðsins. Þetta var reyndar lagfært í fréttum klukkan 08 00.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2014 | 07:42
Molar um málfar og miðla 1484
"Að sinnast" þýðir að verða sundurorða. "Að sinnast á" er rugl. "Stjórnun" er fræðigrein um það viðfangsefni "að stjórna". Umferðarstjórn er almennt notað þegar lögreglan á í hlut. "Umferðarstjórnun" er eflaust kennd við einhverjar verkfræðideildir háskóla. Molaskrifar þakkar bréfið.
Í fréttum Stöðvar tvö (31.05.2014) var talað um að kjörstaðir hefðu opnað. Kjörstaðir voru opnaðir. Kjörstaðir opnuðu hvorki eitt né neitt. Ríkisútvarpið er nú orðið ævinlega með þetta rétt.
Nokkur nýlunda var að sjá þrjá innlenda þætti í röð í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (01.06.2014). Fyrst ágæta mynd, Sjómannslíf, svo lokaþátt Ferðastiklna þeirra feðgina Ómars og Láru. Prýðisefni , en þátturinn hefði alveg þolað svolitla styttingu og tónlistarvalið fannst Molaskrifara jafn óskiljanlegt og stundum áður. Í kynningu talaði konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins um Reykjafjörð, en fjörðurinn heitir Reykjarfjörður. Svo kom Inndjúpið. Fróðlegar mannlífsmyndir. En nefnt hefur verið hér áður hve undarleg uppsetning það er að setja Ferðastiklurnar og Inndjúpið hlið við hlið í dagskránni.
Birta Líf, veðurfræðingur hjá Ríkissjónvarpinu, á það til að brjóta svolítið upp hið fasta form veðurfregna þar á bæ. Nú síðast með því að birta ekki bara spá fyrir landið, heldur líka miðin (31.05.2014) daginn fyrir sjómannadaginn. Bara gaman að því, en sennilega hafa ekki margir verið á sjó á sjómannadaginn, frekar en venjulega þann dag.
Er ekki eitthvað nálegt við að verslunin Nettó skuli hvað eftir annað auglýsa svokallaðar návörur í útvarpsauglýsingum ? Hvað er á seyði? Hverskonar vörur eru návörur? Vita auglýsingahöfundar ekki hvað nár er?
Pakkar halda áfram að berast í Efstaleiti. ,, Þá er þessum ítarlega íþróttapakka lokið, var sagt við sjónvarpsáhorfendur á sunnudagskvöld (01.2014). Hvernig lýkur pökkum? Hvað skyldu annars margir starfsmenn sinna því bákni sem íþróttadeild Ríkissjónvarpsins er nú orðin?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)