Molar um málfar og miðla 1511

  Af dv.is (04.07.2014): ,,Mál Justin Ross Harris, föðurs sem ákærður hefur verið fyrir að myrða 22 mánaða gamlan son sinn, verður sífellt undarlegra en svo virðist sem ....”. Í barnaskóla lærðu nemendur forðum meðal annars að beygja orðin faðir, móðir, systir og bróðir. Nú er það væntanlega kennt í öllum grunnskólum. Sá sem skrifaði þetta á vef dv.is hefur sloppið við þessa kennslu eða ekki náð að tileinka sér það sem kennarinn/kennararnir sögðu.

 

Það voru fáránleg vinnubrögð hjá Ríkisútvarpinu í gærkveldi (06.07.2014) að hætta fréttaútsendingu í miðju kafi á Rás eitt þegar yfir stóð eldsvoði, sem er sennilega einn sá mesti á landinu í áratugi. Hvar var dómgreindin? Hvar var fréttamatið? Frammistaða fréttamanns á staðnum, Ragnhildar Thorlacius, var prýðileg. Svo áttaði sig einhver í Efstaleiti því svo kom bein sjónvarpsútsending úr Skeifunni þar sem Björn Malmquist fréttamaður gerði okkur ágætlega grein fyrir stöðunni. Það er greinilega eitthvað að í yfirstjórninni í Efstaleiti.

Það kom reyndar einnig í ljós í gærkveldi, að allt í einu er hægt að nota skjáborða til að flytja okkur upplýsingar. Það hefur ekki verið hægt að undanförnu þegar fótboltinn hefur endalaust ruglað auglýstri dagskrá. Nú hafa menn greinilega náð tökum á tækninni.

 

Girnd er holdleg þrá, ástríða, fýsn. Að líta eitthvað girndarauga er að horfa á eitthvað girndarfullu augnaráði. Það er hæpin orðnotkun að mati Molaskrifara , þegar í grein í DV (04.-07.07.2014) um græðgisvæðingu ferðaþjónustunnar er sagt: ,,Fjölmargir íbúðareigendur horfa girndaraugum á þessa stækkandi köku ....”. Kannski væri nær að tala um ágirndaraugu.

 

Hvað þýðir fyrirsögnin ,,Endilöng biðröð út af landsmótssvæði” sem var á forsíðu visir.is á sunnudag (06.07.2014)? Líklega bara að biðröðin hafi verið löng. Endileysa.

 

GMA sendi Molum eftirfarandi (04.07.2014): ,,Er ekki lágmarks kurteisi að greina fólki frá því hvar fréttnæmir hlutir gerast? 
Í frétt Vísis frá því í morgun (4.7) segir:
Mikið magn af kannabisplöntum var haldlagt í Akralandi í gær. 
Lögreglu var tilkynnt um ræktunina eftir að málari, sem fenginn var til að mála húsið að utan, sá inn um glugga að ekki var búið í íbúðinni og hún aðeins nýtt í kannabisræktun.
Fréttablaðið ræddi við nokkra íbúa í húsinu en enginn þeirra hafði orðið var við ræktunina. Íbúðin mun hafa verið í útleigu og var eigendum hennar gert viðvart í gær. 
Þeir vildu ekki tjá sig við blaðið að öðru leyti en að þeir tengdust málinu ekki neitt.”
GMA segir líka:,,Það skal viðurkennt að skrifari býr á höfuðborgarsvæðinu og telur líklegt, þar sem ljósmyndari Vísis var í grennd, að umrædd aðgerð lögreglu hafi verið á því svæði.
En sá hinn sami hefur ekki hugmynd um hvar Akraland er, hvort það er í Reykjavík, Garðabæ, Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ eða á Seltjarnarnesi. 
Honum datt strax í hug Akranes sem hefði skýrt fréttina um leið. En Akraland, sem er hið ágætasta nafn á sveitarfélagi, er líklega flestum lesendum ókunnugt.”. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Danska sjónvarpið, DR , hefur að undanförnu verið að sýna heimildamyndaflokk sem heitir Gleymdar kvikmyndir úr seinni heimsstyrjöldinni. Mjög athyglisvert og fróðlegt efni.

Það er ámælisvert og skammarlegt að Ríkissjónvarpið okkar skuli næstum aldrei sýna heimildamyndir um merkustu atburði nýliðinnar aldar. Það á sinn þátt í því að hér vaxa úr grasi kynslóðir sem vita ekkert um söguna, en eru því betur að sér um Evróvisjón og fótbolta, aðaláhugamál þeirra sem nú ráða dagskrá Ríkissjónvarpsins.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1510

  Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (04.07.2014) var ítrekað talað um álver Reyðarfjarðar. Heitir álverið ekki Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði? Minnir það.  

 

Í tíufréttum Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (03.07.2014) var talað um hluta flaks skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, sem enn væri undir vatni. Betra hefði verið að segja, - ... sem enn væri undir sjólínu, eða sem enn væri í kafi.

 

Gamall blaðamaður,sem segist hafa verið kallaður ,,eldgamall málfarskverúlant” og þyki bara nokkuð til um það" sendi Molum línu og segir:

(04.07.2014): ,,Geturðu ekki komið vinum þínum á fréttastofu útvarps í skilning um að það sé alveg nóg að lyf séu vanabindandi?” Molaskrifari þakkar ábendinguna. Þetta er rétt. Óþarfi er að segja að lyf séu ávanabindandi. Og bætir því við að hann á nú orðið ekki marga vini á fréttastofunni í Efstaleiti. Í þeim vinahópi er nú orðið líklega aðeins einn, en ekki er hann minna virði fyrir það!

 

Enn einn matreiðsluþátturinn á dagskrá Ríkissjónvarpsins á fimmtudagskvöld (03.07.2014). Er þetta endalaust? Svo golf á besta tíma. Margir spila golf, en þetta efni átti auðvitað að vera á íþróttarásinni. Til hvers annars er hún? Makalaust að frekja Íþróttadeildar skuli endalaust fá að ráða ríkjum í dagskrá Ríkissjónvarpsins við Efstaleiti.

 

Ósköp þykir Molaskrifara hvimleitt að heyra sama þulinn í Ríkisútvarpinu sífellt tala um ljóð sem texta (t.fd. 03.07.2014) , þegar sagt er frá síðasta lagi fyrir fréttir. Telur málfarsráðunautur þetta vandað mál?

 

Molaskrifari setur Morgunblaðið og Bændablaðið í sama flokk, þegar kemur að skrifum um Evrópumál og ESB. Hann trúir ekki einasta orði sem þessir miðlar segja um þau mál. Og ekki að ástæðulausu. Honum finnst reyndar stundum að Morgunblaðið ætti að heita Herópið. Það leggur svo mikla stund á trúboð án tillits til staðreynda.

 

Stundarkorn hlustaði Molaskrifari á morgunþátt Rásar á föstudagsmorgni (04.07.2014). Þar var talað um keppanda sem yrði sælari, þegar hann kæmi í mark. Sælli. – Svo var lesið úr dagblöðunum og gekk það heldur brösuglega.- Seinna var spurt í viðtali: Hvernig lítur þetta við þér? Hvernig horfir þetta við þér? Hvað sýnist þér um þetta ? Það verður að gera meiri kröfur til umsjónarmanna fastra þátta í Ríkisútvarpinu. Þeir verða bæði að vera vel læsir, vel talandi og skrifandi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Gagnrýni var illa tekið

  Þegar ég gagnrýndi byggingu útvarpshússins  á sínum tíma og  sagði að húsnæðisþarfir útvarps og  sjónvarps væru gjörólíkar tók þáverandi útvarpsstjóri það mjög óstinnt upp. Heiðursmaðurinn Andrés Björbsson orðaði það þannig að metnaður   formanns fjárveitinganefndar (sem ég var þá) væri að byggja ,,bárujárnsskúr á blásnum mel"  fyrir  Ríkisútvarpið.  Það var nú ofsagt, en ég var ( og er ) þeirrar skoðunar að húsnæðismál Ríkisútvarpsins hefði mátt leysa með miklu ódýrarari og hagkvæmari hætti en gert var.
mbl.is „Dýrkeypt menningarslys“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Molar um málfar og miðla 1509

 Útvarpsstjóri Útvarps Sögu bauð hlustendum (02.07.2014) í auglýsingu frá Laxdal að versla merkjavöru á góðu verði. Hvað þarf fólk að starfa lengi við fjölmiðlun til að læra þá einföldu reglu að fólk verslar ekki vörur? Fólk kaupir vörur.

 

Úr frétt á mbl.is (02.07.2014): Hæstirétt­ur ógilti dóm­inn í fyrra og vísaði mál­inu aft­ur til und­ir­rétts. Það var og. Til undirrétts! Ja, hérna, Moggi. Búið að reka alla yfirlesara?

 

- Þú ert að koma með stormi inn í þessa mótaröð, sagði golfþáttarstjórnandi á ÍNN (02.07.2014) við unga konu sem vegnar vel í golfíþróttinni

 

Það má orða hlutina á ýmsan veg. Hvalaskoðunarbáti var siglt glæfralega nálægt landi við Lundey á Skjálfanda og báturinn strandaði. Morgunblaðið (03.07.2014). Sem betur fer sakaði engan. Talsmaður hvalaskoðunarfyrirtækisins, sem á og rekur bátinn sagði við Morgunblaðið: ,, ... í þessu tilviki var farið of nálægt landi, sem gerði það að verkum að báturinn festist”. Hann festist sem sé, strandaði ekki! Eigandi hvalaskoðunarfyrirtækisins endurtók svo í hádegisfréttum Ríkisútvarps , - báturinn festist!  Morgunblaðið sagði réttilega í fréttinni, að báturinn hefði strandað. Í tíufréttum Ríkisútvarps (03.07.2014) var sagt að báturinn hefði tekið niður! Báturinn tók ekki niður. Báturinn tók niðri. Málfarsráðunautur. Hvar er hann?

 

Hýmt í helli, stóð í skjátexta í fréttum Ríkissjónvarps (02.07.2014). Hímt í helli hefði þetta átt að vera. Til er ljómandi góð Stafsetningarorðbók, sem kom út 2006 á vegum Íslenskrar málnefndar og JPV útgáfu. Svo er alltaf hægt að leita á náðir netsins.

 

Tískuorðalagið heilt yfir er vinsælt hjá sumum. Í fréttum Ríkissjónvarps (02.07.2014) sagði fréttamaður: Í gegnum tíðina svona heilt yfir.... Þetta þykir ýmsum sjálfsagt gott og gilt. En hér í gamla daga hefði sá fréttamaður, sem hefði látið sér þetta um munn fara í útsendingu aldeilis fengið orð í eyra frá okkar góða fréttastjóra séra Emil Björnssyni. Honum var annt um íslenskt mál. Mér var reyndar kennt strax í gagnfræðaskóla að ekki væri vandað mál að segja í gegnum tíðina. –

Í seinni fréttum Ríkissjónvarps þetta sama kvöld var sagt að þýskir ferðamenn hefðu leitað skjóls í steinhelli. Steinhelli? Þeir leituðu skjóls í helli.

 

Minnugur síðasta sumar, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (03.07.2014). Minnugur síðasta sumars, hefði það átt að vera.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Að rífa fólk upp með rótum

  Í tilefni af Fiskistofuumræðunni og  furðurlegum og vanhugsuðum ummælum   sjávarútvegsráðherrans  varð mér  hugsað aftur í tímann.

Þegar ég var kosinn á þing fyrir Alþýðuflokkinn í Vesturlandskjördæmi 1978 var ég  fljótt spurður: Ætlarðu ekki að flytja í kjördæmið?  Ég spurði á móti: Hvert? Á Akranes, í Borgarnes, í Stykkishólm, í Grundarfjörð í Ólafsvík , á Hellissand, í Búðardal? Svo spurði ég aftur: Þótt ég   sitji á þingi í nokkur ár gefur það mér  þá rétt til að rífa konuna mína úr hennar vinnu og segja henni að leita sér að vinnu  annarsstaðar? Nei. Rífa börnin mín úr skólunum sínum og frá öllum  vinum sínum? Nei. Ég hélt áfram að   eiga heimili og lögheimili í Reykjavík, enda þótt  lögheimilisflutningur  hefði  verulega hækkað greiðslur til mín frá Alþingi. Það var ósköp auðvelt að standast þá freistingu.


Molar um málfar og miðla 1508

  Í DV (0.1-03.07.2014) var smáfrétt um ábyrgð flugfélaga þegar farangur farþega skilar sér ekki. Þar segir:.. Ef að (svo!) taskan finnst ekki innan þriggja vikna er hún formlega ,,týnd” en á meðan er flugfélagið skuldbundið til að sjá farþegum fyrir nauðsynjavöru svo sem salernisvöru, nærfötum og öðrum nauðsynjum sem kunna að vera í töskunni.” Sjá farþegum fyrir salernisvöru! Er átt við salernispappír? Nei, sennilega ekki. Þetta hefur líkast til verið þýtt úr ensku þar sem talað hefur verið um toilet articles (snyrtivörur). Sá sem skrifaði hefur ekki skilið þetta eða notfært sér þýðingavél Google, sem lætur nú í vaxandi mæli til sín taka í íslenskum netmiðlum. Einkum er hún fréttabörnum kær.

Af dv.is (01.07.2014): ,,Þá ná fylgdarmennirnir að tryggja manninn. Lögreglubílar sem voru skammt frá Smáralind komu til aðstoðar og tóku við málinu.” - Fréttin var um árás á konu í Smáralind.,,Að tryggja manninn”, bull ! Væntanlega er átt við að tekist hafi að yfirbuga manninn. Og svo komu lögreglubílar til aðstoðar og lögreglubílarnir tóku við málinu! Ja, hérna! Enginn fullorðinn á vaktinni? Sjá http://www.dv.is/frettir/2014/7/1/logregla-segir-arasina-i-smaralind-tilviljunarkennda/

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (01.07.2014) var fjallað um áhuga bandarísku stórverslunarinnar Costco á að hefja starfsemi á Íslandi.

Í fréttinni var sagt að vöruverð væri almennt ódýrara i Costco ...

Við tölum ekki um dýrt eða ódýrt verð. Við tölum um hátt eða lágt verð.

 

Í tilkynningatíma í Ríkisútvarpi fyrir fréttir (01.07.2014) var sagt að hjálpartækja afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands væri opin frá klukkan 20 30 til klukkan 15 00 ! Þetta var lesið athugasemdalaust og ekki leiðrétt. Þetta var heldur ekki leiðrétt, þegar lesnar voru tilkynningar að fréttum loknum. Þetta eru ekki vönduð vinnubrögð. Af tilviljun hafði Molaskrifari haft samband við þessa stofnun sama dag og fengið þær upplýsingar að afgreiðslan væri opin frá klukkan 12 30 til klukkan 15 00. Ef fólk vill skila hjálpartækjum er þetta sem sagt eini tíminn sem kemur til greina og eini staðurinn þar sem hægt er að skila er á Vínlandsleið sem er næstum í Mosfellsbæ. Fremur slök þjónusta hjá stofnun sem á að þjóna almenningi.

Ekki amalegt að fá þá Wynton Marsalis og Eric Clapton í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi (02.07.2014). Takk fyrir það. Svo er Marsalis sjálfur á sviðinu í Hörpu annað kvöld. Það er tilhlökkunarefni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1507

 Í kvöldfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (29.06.2014) var sagt: Tildrög slyssins eru  óljós samkvæmt lögreglu. Molaskrifara finnst það ekki gott orðalag, þegar eitthvað er sagt vera svona og svona samkvæmt lögreglu. Einhver á fréttastofunni er á sama máli, því seinna var þessu breytt og sagt, að sögn lögreglu, sem er miklu betra.

 

Fólkið gat gengið í burtu frá vélinni, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (30.06.2014) um nauðlendingu lítillar flugvélar á Vatnsleysuströnd. Þetta er mjög enskulegt orðlag. Rétt eins hefði mátt segja: Fólkið komst út úr vélinni af sjálfsdáðum, eða fólkið komast hjálparlaust út úr flugvélinni.

 

KÞ vitnar (28.06.2014) í frétt á visir.is http://www.visir.is/mesti-verdbolgustodugleiki-i-aratug/article/2014140629092

Hann spyr: ,,Væri ekki nær að tala um stöðugt verðlag? "Verðbólgustöðugleiki" vekur einna helst hugsun um stöðuga verðbólgu” Að sjálfsögðu væri það betra orðalag..

 

Úr Bakherbergi Kjarnans (26.06.2014): ,,Í Bakherbergjunum er því haldið fram að 150 til 200 sakamál, sem Símon hefur dæmt í, hafi verið áfrýjað til Hæstarréttar ...”. Hér ætti að standa: ,,... að 150 til 200 sakamálum, sem Símon hefur dæmt í ...” Fallafælni eða kæruleysi.

 

Útvarpsstjóri eða einhver yfirmaður hjá Ríkisútvarpinu þarf að samræma framburð starfsmanna á skammstöfuninni á heiti stofnunarinnar, RÚV. Sumir segja Rúff með tveimur f-um. Aðrir segja Rúúúv , með löngu ú-i og v-hljóði. Þá er það algjörlega á reiki hvað RÚV þýðir. Stundum er það eingöngu notað um Ríkissjónvarpið, en stundum um sjónvarpið og allar útvarpsrásirnar. Það væri gott að koma þessu á hreint. Hætta ofnotkun þessarar skammstöfunar og leyfa starfsfólki á ný að taka sér í  mun hið rétta heiti stofnunarinnar, - Ríkisútvarpið. Forveri núverandi útvarpsstjóra virðist hafa bannað sínu fólki að nefna Ríkisútvarpið réttu nafni.

 

Á mánudagskvöld (30.06.2014) seinkaði seinni fréttum Ríkissjónvarp talsvert vegna þess að framlengja þurfti knattspyrnuleik sem verið var að sýna frá HM. Lítið við því að gera, fyrst ákveðið hefur verið að leggja dagskrá undir fótbolta daginn út og daginn inn. En það hefði verið hægt að sýna okkur áhorfendum kurteisi. Tilkynna seinkunina á skjáborða, sem er tæknilega mjög auðvelt. Fréttastjóri sem las seinni fréttir, hefði líka getað beðist afsökunar á seinkuninni. Fréttastjóri sagði bara: Við erum seinna á ferðinni ... Það er sem sagt engin ástæða til að sýna okkur sem heima sitjum svolitla kurteisi.

Auglýst dagskrá er eins og gefið loforð. Það á að standa við hana. Ef hún riðlast og ekki verður við ráðið á að biðjast afsökunar og skýra málið. Það telur Ríkissjónvarpið sig ekki þurfa að gera.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1506

 Úr frétt á mbl.is (27.06.2014): ,,Hann er 19 ára og hann ætl­ar að verða yngsti flugmaður­inn til að fljúga einn í kring­um heim­inn.”. 

Skyldi fréttabarn þarna hafa notið aðstoðar þýðingarvélar Google? Það skyldi þó ekki vera. Fljúga einn í kringum heiminn. Ef til vill hefur staðið á ensku: fly alone around the world. Þessi ungi maður ætlar að fljúga umhverfis jörðina.

 

Molaskrifari er alveg hættur að vera hissa á því hve dagskrárstjórar Ríkissjónvarpsins eru fundvísir á efni á föstudagskvöldum sem honum finnst allsendis óáhugavert. Mynd um vináttu ,,óttalausrar músar, óhamingjusamrar rottu, einmana stúlku og prinsessu”. Svo kom mynd um sérkennilegt efni; hjarta konu, sem deyr er grætt í aðra konu ,og ekkillinn verður ástfanginn af hjartaþeganum! Ekki gat þetta með nokkru móti vakið áhuga Molaskrifara.

 

Í tilkynningalestri í Ríkisútvarpinu síðdegis á föstudag (27.06.2014) var minnt á herminjasafn á Reyðarfirði, þar sem stríðsminjar lifa við, las þulur, sem sennilega hefur fengið rangt ritaðan texta í hendur. Þarna var greinilega átt við: ... þar sem stríðsminjar lifna við. Í sama tilkynningatíma var minnt á tónleika sem bandaríski tónlistarmaðurinn Wynton Marsalis heldur í Hörpu í næstu viku. Nafn hans var borið fram /vænton/ . Það er rangt. Nafn hans er borið fram /vinton/. Molaskrifari minnist þess að hafa heyrt þessa villu áður. Hversvegna lætur auglýsingadeild ekki framburðarreglur fylgja í þulartexta þegar um ný eða lítt kunn nöfn erlend nöfn eða heiti er að ræða? Það er vandalaust að finna réttan framburð á netinu. Menn þurfa bar að nenna að leita.

 

Orðið gæði er eintöluorð. Þessvegna á ekki að skrifa: ,,Þetta er eitt þeirra gæða, sem menn oft meta miður en skyldi ... “ (Pistill Styrmis Gunnarssonar í Morgunblaðinu (28.06 .2014) . Molaskrifara finnst að þetta hefði átt að orða á annan veg. Til dæmis, - Þetta er meðal þeirra gæða ,sem .... Styrmir Gunnarsson skrifar annars óaðfinnanlegan texta, þótt Molaskrifari sé ekki ævinlega sammála þeim skoðunum sem hann setur fram. En það er allt önnur Ella.

 

Í sunnudagsmogga (29.06.2014) stendur í myndatexta á bls.18:,,Að vetrarlagi leggur ís inn í margar hafnir á Grænlandi.” Hvað þýðir þetta? Þýðir þetta: Margar hafnir á Grænlandi leggur að vetrarlagi? Eða þýðir þetta: Rekís berst inn á margar hafnir á Grænlandi að vetrarlagi. Óljóst.

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (28.06.2014) var talað um mél sem geti valdið áverkum í munnum hrossa. Mollaskrifari hefði haldið að hér hefði átt að segja , - í munni hrossa.

 

Í fréttum Bylgjunnar (28.06.2014) var sagt frá manni sem synti samfellt í heilan sólarhring. Vísað var til síðunnar tuttugu og fjögurra stunda sund, en fréttamaður sagði að nánari upplýsingar væri að finna á síðunni, - tuttugu og fjórir stunda sund. Þarna vantaði hugsunina. Það voru ekki tuttugu og fjórir sem voru að stunda sund. Og á Bylgjunni er menn enn að tala um fylki í Bandaríkjunum.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1505

  Í blaðinu Hafnarfjörður – Garðabær, sem dreift er með Morgunblaðinu (27.06.2014), segir í leiðara: ,,Lífeyrissjóðir eru sagðir vanta um 500 milljarða króna ....”. Ekki málfræðilega rétt. Betra væri: Sagt er að lífeyrissjóði vanti um 500 milljarða króna ...

Í sama blaðið er fyrirsögn (bls.2) Meirihlutinn reyni að stöðva byggingu hjúkrunarheimilis. Óskýrt og villandi. Þetta er ekki hvatning til meirihlutans um að stöðva framkvæmdir við hjúkrunarheimili. Verið er að basla við að segja að meirihlutinn sé að reyna að stöðva framkvæmdir við byggingu hjúkrunarheimilis. Óskýr hugsun. Óskýr skrif.

 

Hvenær var þessi þarsíðasta vika, sem talað var um í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á föstudag (27.06.2014)? Hvaða bull er þetta? Þar síðasta vika? Til hvers er málfarsráðunautur við Ríkisútvarpið?

Í sama fréttatíma var sagt um gosdrykki í pappamálum:,,Skammturinn telur 44 únsur..” Í fyrsta lagi telja skammtar hvorki eitt né neitt og í öðru lagi segir mælieiningin únsa íslenskum hlustendum ákaflega lítið. Þá var sagt í enn sama fréttatíma um upplýsingaskjá, að hann markaði byltingu. Kannski hefði mátt segja að hann væri bylting í upplýsingamiðlun eða markaði tímamót. Varla markaði byltingu. Svo var talað um að standa sig vel á Pisakönnun. Var enginn ábyrgur yfirmaður með sæmilega tilfinningu fyrir móðurmálinu á vaktinni? Greinilega ekki.

 

Furðuleg fyrirsögn í DV (27.-30.06.2014): Best heppnaða hryðjuverk sögunnar. Átt er við morðið á Franz Ferdinand erkihertoga. Það hleypti fyrri heimsstyrjöldinni af stað. Sannarlega vel heppnað, - eða hvað?

Meira úr þessu sama eintaki DV úr viðtali við Jónínu Bendiktsdóttur: ,,Ég hef tileinkað lífi mínu detoxi og hyggst gera það áfram.”. Tileinkað lífi mínu detoxi! Það var og. Margir andstæðingar Framsóknarflokksins munu eiga sjálfsagt þá ósk heitasta að Jónína Benediktsdóttir gangi opinberlega og af krafti til liðs við Framsóknarflokkinn.

 

Fólki hefur verið boðið að tékka sig inn yfir netið, var sagt í fjögur fréttum Ríkisútvarps á föstudag (27.06.2014). Verið var að tala um ferðalanga á Kastrup flugvelli, en þeim stóð til boða að innrita sig í flug á netinu. Ekki mjög vandað orðalag.

 

K.Þ. benti á þessa frétt (26.06.2014) á visir.is. ,,Eru lífshótanir í lagi?”
http://www.visir.is/eru-lifshotanir-i-lagi-/article/2014706279999

Lífshótanir? Hljómar hreint ekki svo illa! Hljómar þó verr á ensku.

Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Í neðanmálstexta í Ríkissjónvarpi (28.06.2014) var skrifað: Fólk fór í bæinn á trukkum. Á skjánum voru venjulegir vörubílar, sem á ensku heita truck. Á íslensku hefur orðið trukkur einkum verið notað um öfluga vörubíla, oft með drifi á öllum hjólum. Þetta orð kom sennilega með Bandaríkjamönnum til landsins í stríðinu, sem komu með öfluga trukka, vörubíla, oft tíu hjóla með drifi á öllum hjólum. Yfirleitt af gerðinni GMC. Trukkarnir sem voru með einum afturöxli voru yfirleitt af gerðinni Chevrolet. Kanadamenn, og Bandaríkjamenn sjálfsagt líka, nota einnig orðið truck um pallbíla,(sem einu sinni voru kallaðir pikkuppar) oftast af stærri gerðinni.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1504

  Í áttafréttum Ríkisútvarps (26.06.2014) var sagt því að stærsta flugvél heims, vöruflutningaflugvél, hefði lent á Keflavíkurflugvelli. Fréttamaður kunni ekki að greina á milli orðanna farms og farangurs, en orðið farangur er venjulega notað um föggur ferðafólks. Hann sagði: ,,.. án eldsneytis og farangurs vegur vélin ...  tonn”. Og seinna í fréttinni var sagt að vélin ætti heimsmet í að flytja ,,þyngsta farangur allra tíma sem var tæp 254 tonn”. Þyngsta farm, hefði þetta átt að vera. Í fréttum Stöðvar tvö var réttilega talað um farm.

 

Í sex fréttum Ríkisútvarps (24.06.2014) var sagt: Farþegum verður flogið suður ... Farþegum er ekki flogið. Farþegar fóru flugleiðis suður. Farþegar fóru suður með flugvél.

 

Úrslitin eru að fara að ráðast, var sagt (26.06.2014 í tuðrutuði Ríkissjónvarps sem þar er kallað HM stofa. Margt snjallyrðið hrýtur mönnum þarna af munni.

 

Enn heyrast tilkynningar lesnar í Ríkisútvarpinu með hvimleiðum ,,Bylgjutóni”. Öllum setningum lýkur á lækkandi tóni. Heyrir þetta enginn í Efstaleiti eða er mönnum bara alveg sama?

 

Það er ekki seinna vænna heldur en að byrja, sagði sjónvarpskokkur (26.06.2014) í dagskrárkynningu á Stöð tvö. Einhver hefði mátt benda manninum á að þetta væri ekki gott orðalag. Betra hefði verið: Það er ekki seinna vænna að byrja.

 

Kafbáturinn Ægir var settur á flot í ánni Silfru á Þingvöllum í dag, sagði fréttaþulur Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (26.06.2014). Í gjánni Silfru á Þingvöllum átti þetta að sjálfsögðu að vera. Engin á á Þingvöllum, nema Öxará. Þar eru vissulega margar gjár en ekki margar ár.

 

,,Á sama tíma og afar viðkvæmt vopnahlé í Úkraínu lýkur”, las fréttamaður hikstalaust í morgun fréttum Ríkisútvarps á föstudagsmorgni (27.06.2014). - Á sama tíma og ... viðkvæmu vopnahléi lýkur”. Viðkvæmt vopnhlé, - ótraust vopnahlé.

 

Í Fréttablaðinu segir (27.06.2014) : ,,Styrmir segir ljóst að forystumenn flokkanna verði að taka sig saman í herðunum og taka ákvörðun ...” Taka sig saman í herðunum??? Þetta hefur Molaskrifari ekki áður heyrt né séð. Stundum er sagt að menn þurfi að taka sig saman í andlitinu, herða upp hugann, koma einhverju í verk. Hafa menn heyrt þetta orðalag áður?

 

Á heimasíðu Ríkisútvarpsins geta menn skoðað dagskrána á nýlegum vef en einnig stendur eldri dagskrárvefur til boða. Eldri vefurinn var og er fínn, engin ástæða til breytinga. Miklu betri en sá nýi, Fréttir eru til dæmis miklu fyrr aðgengilegar á eldri vefnum en þeim nýja. Hvað veldur?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband