Molar um málfar og miðla 1521

Úr frétt á mbl.is (16.07.2014): Kon­an var vistuð í fanga­geymslu vegna máls­ins sem og vegna ölv­un­ar­ástands. Vegna ölvunarástands? Var það ekki vegna ölvunar?

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (16.07.2014) var sagt að fullorðið fólk hefði verið bjargað. Fullorðnu fólki var bjargað.

 

Lagt er til að Ríkisútvarpið freisti þess að ná samningum við norska sjónvarpið NRK um sýningarrétt á einhverju af því ágæta efni sem sýnt er í þættinum Hovedscenen á NRK2 á sunnudagskvöldum.

 

Úr frétt á mbl.is (16.07.2014); Ástæðuna fyr­ir því að málið miðar svo hægt áfram má rekja til deilna á milli full­trúaráðsins og öld­unga­deild­ar þings­ins. Hér hefði Molaskrifari fremur sagt: Ástæðuna fyrir því að málinu miðar svo hægt .... Málinu miðar áfram. Málið miðar ekki áfram. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/16/sendiherra_bidur_enn_stadfestingar/

 

Í sex fréttum Ríkisútvarps (17.07.2014) var sagt frá fjárdrætti. Ítrekað var talað um að draga sér fé. Molaskrifari þykist hafa heyrt þetta áður. Er ekki málvenja að tala um að draga sér fé, þegar einhver notfærir sér aðstöðu sína til að koma höndum yfir fé, sem hann ekki á?

 

Nær undantekningarlaust hefur tekist vel til þegar valdir hafa verið þulir til starfa við Ríkisútvarpið. Þar hefur þó nýlega orðið breyting á. Þar hefur komið að hljóðnemanum þulur, sem les með einkennilegri hrynjandi, óíslenskulegri. Molaskrifari veit, að hann er ekki einn um að finnast hvimleitt að hlýða á þennan lestur. Heyrir þetta enginn þeirra sem ráða í Efstaleiti? Samskonar amalestur heyrist stundum á Bylgjunni. Engin ástæða er til að apa það eftir. – Við þetta má svo bæta mjög undarlegri kynningu þessa sama þular á Rás eitt rétt fyrir klukkan 1800 á fimmtudagskvöldi (17.07.2014) á sumartónleikum evrópskra útvarpsstöðva frá Riga. Þar var þvælt um Latvíu, en Latvia er enska heitið á Lettlandi. Kynning umsjónarmanns í þættinum sjálfum var vönduð og til fyrirmyndar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1520

 Síðastliðinn nóvember sluppu nærri tvö hundruð fullvaxta laxar úr sláturkví ... segir í DV bls. 4 (15.-17.07 2014). Klúðurslegt orðalag. Betra hefði verið; í nóvember síðastliðnum eða í nóvember í fyrra. Ekkert væri hinsvegar athugavert við að segja, - Síðastliðinn nóvember var kaldari en í meðal ári ...  Og hvað eru fullvaxta laxar?

Fleira var athugavert í þessu tölublaðið DV. Í fyrirsögn á bls.17 segir: Garth Brooks gefur úrslitakost. Þetta er út í hött. Garth Brooks setur úrslitakosti, hefði átt að standa þarna. Í annarri  fyrirsögn í blaðinu, á bls. 18 er fjallað um fyrirhugaðan skipaskurð í gegn um Níkaragva. Þar segir: Þrisvar sinnum lengri en . Við lestur fréttarinnar kemur í ljós að þessi fyrirhugaði skurður á að vera þrisvar sinnum lengri en Panamaskurðurinn.

 

Í bílablaði  Morgunblaðsins (15.07.2017) segir um knattspyrnukappa sem gert hefur samning við bílaframleiðanda: Neymar er bundinn til að fara á æfingar í bíl frá VW fjölskyldunni. Varla þarf að binda manninn til þess að fá hann til að fara á æfingar á VW bíl ( frá VW fjölskyldunni!!!)? Átt er við að hann sé samningsbundinn eða skuldbundinn til að nota bíla frá VW þegar hann fer til æfinga.

 

Rafn vitnar í frétt á dv.is (11.007.2014) og segir : ,,Ætli „sjálfræði í peningamálum“ sé nokkuð skylt því, sem á íslenzku er kallað fjárræði?? (af vef DV) Sviptur sjálfræði í peningamálum„Ég kann ekkert á peninga“. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Málglöggur Molalesandi benti á þetta í textavarpi Ríkisútvarpsins (14.07.2014) :

,,Vinnuslys í Vaðlaheiðargöngum     

Vinnuslys varð í Vaðlaheiðargöngum við Akureyri. Lögregla var kölluð út klukkan rétt rúmlega 17 að sögn lögreglumanns á Akureyri. Ekki er vitað hvers eðlis slysið varð en samkvæmt útkalli er einn maður slasaður.” 

 Hann spyr: ,,Hvað varð úr slysinu, og hver hann er þessi útkall?” Von er að spurt sé. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Lesandi benti á þetta á dv.is (15.07.2014): „Hvor þeirra mun sigra bardagann?“ er fyrirsögn á skoðanakönnun á DV.is. - Vesalings bardaginn. -  Rétt er að geta þess að eftir skamma stund var þessu breytt í: Hvor þeirra mun vinna bardagann? Einhver hefur rekið augun í augljósa amböguna. Batnandi mönnum er best að lifa.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1519

 KÞ bendir á þessa frétt á dv.is (13.07.2014): https://www.dv.is/lifsstill/2014/7/13/kuldi-veldur-ekki-kvefi/

Hann spyr;

,,Það er vissulega jákvætt að leitast við að fræða fólk. Hvort skyldi það nú vera baktería eða veira sem veldur kvefi?”. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Nú, þegar fótboltanum linnir, fáum við danska þætti um kökubakstur og eftirréttagerð (15.07.2014). Það gerir ekki endasleppt við okkur, blessað Ríkissjónvarpið. Dásamleg dagskrárstjórn. Þessir þættir eiga ekkert erindi í kvölddagskrá á besta tíma.

 

Haukur skrifaði Molum (14.07.2014):

„Bestu tón­leik­ar sem ég hef séð," skrifar Hallur Már í mbl.is í dag.
Er það rétt að tala um tónleika sem sjónleik? Væri ekki nær að tala um bestu tónleika sem ég hef farið á, upplifað eða jafnvel heyrt. Hvað finnst þér? - Molaskrifari er sammála Hauki. Dálítið skrítið að tala um að ,,sjá tónleika”. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/14/bestu_tonleikar_sem_eg_hef_sed/

 

Molaskrifari játar, að hann náði ekki að skilja nema annað hvert orð og illa það í tveimur fréttum í fréttatíma Stöðvar tvö í gærkveldi , þriðjudagskvöld (15.07.2014). Þetta voru fréttir um skattaeftirlit og nýtt íslenskt snjallsímaforrit. Fréttamaðurinn sem fréttirnar flutti var svo óskýrmæltur að ekki er boðlegt. Annaðhvort þarf fréttamaðurinn raddþjálfun eða annað starf. Það er væntanlega ætlunin að fólk skilji þær fréttir sem fluttar eru.

 

Í ágætri fréttaskýringu um ástandið á Gaza-svæðinu í Speglinum á Rás eitt (14.07.2014) var sagt: ,, ... þar af þrjár herbúðir”. Þarna hefði átt að tala um þrennar herbúðir, - ekki þrjár.

 

Höfnuðu kröfu um ógildu kosninga, var sagt á forsíðu visir.is á þriðjudag (15.07.2014). Það var og. Ógilda? Er það nýtt nafnorð?

 

Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (14.07.2014) var landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins spurður hvort náttúran ætti ekki að njóta vafans þegar beitarálag væri til umræðu. Ráðherrann reyndi ekki einu sinni að svara spurningunni. Fréttamaður lét það bara gott heita og fylgdi málinu ekki eftir. Ekki geta það talist góð vinnubrögð. En ekki ný af nálinni.

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (14.07.2014) var sagt að hópur utangarðsmanna í Reykjavík væri hreyfanlegur. Þetta hafa sennilega ekki allir skilið, enda undarlegt stofnanamál. Sennilega var átt við að ekki væri alltaf sama fólkið í hópnum.

Í frétt Ríkisútvarps (14.07) um að 40 ár væru frá opnun hringvegarins var Sigurður Sigurðsson sagður fréttaþulur. Sigurður var ekki fréttaþulur. Hann var lengi íþróttafréttamaður, frægur af lýsingum knattspyrnuleikja. Hann var fyrsti íþróttafréttamaður Sjónvarpsins og framan af einn á þeim vettvangi. Hann starfaði svo sem fréttamaður á fréttastofu útvarpsins, en þetta vita blessuð börnin á fréttastofu Ríkisútvarpsins í dag auðvitað ekki. Alltaf er betra að afla sér upplýsinga áður en fullyrt er.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1518

 Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardag (12.07.2014) sagði fréttamaður:,,Forsætisráðherra segir að ekki veitir af að ....” Hefði átt að vera: Forsætisráðherra segir að ekki veiti af að ....”

 

Sérkennileg og illskiljanleg mistök ritara Reykjavíkurbréfs í sunnudags mogga (13.07.2014) verða sjálfsagt lengi í minnum höfð.. Bréfritari eignaði umboðsmanni Alþingis undarlega ritsmíð, sem dreift hafði verið í tölvupósti fyrr á árinu til ýmissa á víð og dreif í samfélaginu og lagði út af furðuskrifunum. Þegar mistökin komu í ljós, bað Morgunblaðið lesendur sína afsökunar svo umboðsmann Alþingis! Í mánudags mogga var   örstutt leiðrétting falin neðst á bls. 2, - eins lítið áberandi á síðunni og mögulegt var. Hvernig er eiginlega komið fyrir Morgunblaðinu? Ýmsir sjá efni áður en blað fer endanlega til prentunar. Kannski vogaði sér enginn að gera athugasemd. Undarlegt mál. – Í DV á  þriðjudagsmorgni (15.07.2014)  segir,  að höfundur þessa fræga tölvupósts hafi sent hann  Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni fyrir fáeinum dögum. Var það kannski Hannes Hólmsteinn  sem síðan sendi  skrifara Reykjavíkurbréfs póstinn með þeim orðum að hann væri frá umboðsmanni Alþingis?  Ekki fráleitt að álykta  í þá veru, þegar þessi póstur  sem upphaflega fór á flakk 30. janúar 2014 skýtur nú upp kollinum í Reykjavíkurbréfi Mogga með þeim endemum sem að ofan er lýst.

 

Trausti vakti athygli á þessu á mbl.is (12.07.2014): http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/07/11/vidraedur_vid_easyjet_stodu_i_atta_ar/
"Flug­fé­lagið Ea­syJet mun, ólíkt öðrum flug­fé­lög­um, fljúga til og frá Kefla­vík­ur­flug­vall­ar utan há­ann­ar­tíma næsta árið"
Hann segir: ,,Eitthvað er þetta nú fljótfærnislegt og lítið hugsað” Rétt er það.

 

Stærsti galli rafrænna kosninga, segir Hanna Birna vera, ... Svona var tekið til orða í kvöldfréttum Ríkisútvarps (12.07.2014). Hefði átt að vera: Stærsta galla rafrænna kosninga ,segir Hanna Birna vera ....

 

Margir kváðu sér hljóðs, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (12.07.2014) Margir kvöddu sér hljóðs.

 

Úr dagskrárkynningu í Ríkissjónvarpi (12.07.2014): Hinn heimsfrægi kvikmyndaleikstjóri ..... fékk leyfi til að mynda hellana sem annars eru algjörlega verndaðir! Spillir það hellunum að mynda þá?

 

Molaskrifari var eiginlega búinn að gleyma því hve ,,Börn náttúrunnar” , mynd Friðriks Þórs er fín kvikmynd. Gott handrit,vel tekin,vel leikin, og vel klippt. Vegna fótboltans (13.07.2014) seinkaði sýningu hennar í dagskrá Ríkissjónvarps. Molaskrifari tók hana upp og horfði á daginn eftir, sér til ómældrar ánægju. Myndin er gersemi.

 

Það er undarleg árátta hjá stjórnendum Ríkissjónvarpsins að fylla laugardags og sunnudagsmorgna af barnaefni. Væntanlega er þetta einhverskonar vanhugsuð tillitssemi við foreldra; að þeir geti sofið og haft frið fyrir afkvæmum sínum. Á mörgum, kannski velfelstum heimilum fjölskyldufólks, eru ýmsir möguleikar fyrir hendi til að hafa ofan af fyrir börnum aðrir en að stilla þeim upp fyrir framan sjónvarpið. En sé búið að venja börn á slíkt eru auðvitað til mynddiskar, aðrar rásir og aðrar stöðvar með barnaefni.

Ríkissjónvarpið á að sýna fjölbeytt efni almenns eðlis á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Hugsar Molaskrifari þá ekki síst til eldri borgara ,sem sumir hverjir hafa lítinn félagsskap,eru einstæðingar, fá ekki margar heimsóknir og halla sér helst að sjónvarpinu sér til dægrastyttingar, þegar dagarnir eru lengi að líða. Sumt þetta fólk er ekki tækjaklókt, hefur ekki mynddiskatæki og á í erfiðleikum með að nota 2- 3 fjarstýringar. Þetta fólk byggði upp Ríkisútvarpið og Ríkissjónvarpið. Ríkisútvarpið á því skuld að gjalda. Stjórnendur dagskrár í Efstaleiti sinna þessum hópi skammarlega illa. - Og í lokin, ef góða spennumyndir eru sýndar, eru þær oftar en ekki á dagskrá undir miðnætti og sýningu lýkur ekki fyrr en komið er fram á nótt. Þessar myndir mætti annaðhvort flytja framar í kvölddagskrána, eða auglýsa strax endursýningu fyrri hluta dags daginn eftir eða næstu daga. Eldri borgarar eru gleymdur hópur hjá unga fólkinu sem ræður ríkjum í Efstaleiti. Þetta er bara vinsamleg ábending.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1517

 Gamalreyndur blaðamaður og kollega skrifaði (12.07.2014): ,,Sæll og blessaður, félagi. Enn og aftur vaða meðlimir uppi í fréttum. Sýnist þeim hafa fjölgað ískyggilega upp á síðkastið. Hvar eru nú orðin félagi, skipverji, flugliði og öll þessi fallegu orð sem hægt er að nota. Get ekki að því gert að þetta orðskrípi veldur mér hrolli og sennilega myndu hárin rísa á höfði mér, væru þau einhver, í hvert skipti, sem það ber fyrir augu, Átaks er þörf.” Það er hverju orði sannara. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Í helgarblaði DV (11.-14.07.2014) er viðtal við Samherjamanninn Kristján Vilhelmsson. Þar segir: ,,Kristján á ættir að rekja til Flateyjar við Önundarfjörð, ....” Flateyri er við Önundarfjörð. Þar er engin Flatey. Landafræði er ekki lengur kennd í skólum og efni ekki lesið vandlega yfir áður en það er birt. Ágætt og fróðlegt viðtal.

 

Sjónvarpsstöðvarnar N4 og ÍNN eru oft fundvísar á efni, sem Ríkissjónvarpið og Stöð tvö láta fram hjá sér fara eða hafa ekki áhuga á. Nýlega sá Molaskrifari athyglisvert viðtal við Helga Jóhannesson hæstarréttarlögmann, á N4. Þar var fjallað um 70 blaðsíðna rit , Leiðarvísi ferðaþjónustunnar, sem lögmannsstofa Helga, Lex, hefur tekið saman um lög og reglur sem varða ferðaþjónustu og þá sem þar starfa. Þarft verk. Ritið er aðgengilegt á netinu og hjá Lex og er ókeypis, - sem er ekki algengt um eitt eða neitt nú um stundir. Lofsvert framtak.

 

Konsúll Thomsen keypti bíl, fyrsti þáttur heimildamyndar í þremur þáttum var sýndur í Ríkissjónvarpinu á laugardag (12.07.2014). Þetta mun vera í þriðja sinn sem þessir þættir eru sýndir. Allt gott um það. Mjög fróðlegt efni og vel gerð mynd. Það gat eiginlega ekki heitið að þátturinn væri kynntur í dagskránni á laugardaginn. Hvenær gerir nýr útvarpsstjóri sér grein fyrir því að núverandi fyrirkomulag dagskrárkynninga í Ríkisjónvarpinu er óboðlegt ?

Hversvegna segir Ríkissjónvarpið okkur ekki í prentaðri dagskrá, eða dagskrárupplýsingum á netinu að þetta sé endursýnt efni? Hversvegna þennan sífellda óheiðarleika? Hversvegna að ljúga að okkur með þögninni, þegar verið er að endursýna efni?

 

Það er prýðilega vel til fundið að endursýna frábæra þætti þeirra Brynju og Braga Valdimars, Orðbragð. Þetta er með því besta sem lengi hefur komið frá Ríkissjónvarpinu.

Álitamál hinsvegar hvort endursýningin eigi að vera á besta sjónvarpstíma á föstudagskvöldi. Eins er spurt: Hversvegna er þess ekki getið í prentaðri dagskrá sem birt er í blöðunum að um endursýningu sé að ræða? Kemur hvergi fram á prenti, að því best verður séð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1516

   

Molaskrifari heyrði í Sumarglugganum á Rás eitt í Ríkisútvarpinu (þar sem oft er áhugavert efni) eldsnemma á föstudagsmorgni (11.07.2014) að Íslensku safnaverðlaunin yrðu afhent á sunnudaginn kemur, 13. júlí. Hélt að sér væri farið að förlast. Vissi ekki betur en þessi virðulegu verðlaunin hefðu verið afhent við hátíðlega athöfn á sunnudaginn var (06.07.2014) og að gagnasafnið Sarpur hefði hlotið verðlaunin. Sjá:

http://www.visir.is/sarpur-hlytur-islensku-safnaverdlaunin-2014/article/2014140709293 og http://www.forseti.is/media/PDF/2014_07_06_safnaverdlaun.pdf

Svo var hálfhallærislegt að segja okkur frá spennandi safnadögum sem væru utanbæjar, - í Garðabæ og Hafnarfirði! Líkast til er allt utanbæjar sem ekki er í Reykjavík, - eða hvað? Molaskrifari er búsettur í Garðabæ. Hann er því utanbæjarmaður samkvæmt þessu.

 

Fyrrverandi kollega skrifaði (10.07.2014): ,,Horfði í kvöld, aldrei þessu vant, á fréttir Stöðvar tvö. Mér brá. Aðalþulur kvöldsins var nánast óskiljanlegur og ólæs. Hann dró niður röddina í síðari hluta allra setninga, þannig að einungis skildist fyrri parturinn og þó með naumindum. Þá voru fréttabörn áberandi með barnslegt tungutak. Ég sá að sennilega hef ég ekki misst af miklu eftir að ég hætti að horfa á þessi ósköp.” Molaskrifari þakkar bréfið. Rétt er það að þarna er ekki alltaf vandað tilverka. Síður en svo. Alltaf lætur Molaskrifari það til dæmis fara í taugarnar á sér þegar einn fréttaþulurinn skipar honum að halda kyrru fyrir, þegar íþróttafréttir hefjast. Túlkar það reyndar sem skipun um að skipta um stöð.

 

Af visir.is (10.07.2014), úr frétt um launakjör sveitarstjóra í Rangárþingi ytra: ,, Um tæpa fimmfalda hækkun bílastyrks er að ráða frá því sem áður var að sögn minnihlutans í þinginu.”  Að sögn minnihlutans í þinginu er dálítið langsótt orðalag. Á forsíðu visir.is segir um þetta sama mál: ,, Minnihlutinn í Rangárþingi ytra gagnrýnir breytingu á ráðningarsamningi við Ágúst Sigurðsson sveitarstjóra sem heimili honum að búa utan þinginu.” Enn langsóttara!

 

Í fréttum Stöðvar tvö (10.07.2014) var talað um sprotafyrirtæki sem væru væntanleg til vaxtar. Betra hefði verið að segja: ... sem væru vænleg til vaxtar, eða þætti líklegt að ættu eftir að vaxa.

 

Til þess að fá einhverja nasasjón af því sem er að gerast í veröldinni verða íslenskir áhugamenn um erlendar og fréttir og erlend málefni að leita á náðir erlendra fjölmiðla. Íslenskir fjölmiðlar sinna erlendum fréttum og fréttaskýringum lítið sem ekkert. Það er miður. Gott aðgengi er hér að erlendum miðlum á netinu og í sjónvarpi, - sem betur fer. Ríkissjónvarpið sinnir erlendum fréttum og fréttaskýringum langtum verr en gert var frumbýlingsárunum fyrir  nærri hálfri öld.  Það er merkilegt. Nú er asklok haft fyrir himin í Efstaleiti og sér þess stað í mörgu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1515

  Málglöggur Molalesandi sendi eftirfarandi:

Á textavarpi Ríkisútvarpsins hefur eftirfarandi staðið, það sem af er degi (10.07.2014)

Hér er talað um á í fleirtölu eignarfalli sem ánar. Þetta er tvítekið í þessari stuttu frétt, svo varla er þetta innsláttarvilla.

,,Fólk haldi sig frá Múlakvísl. Óvissustig er enn í gildi fyrir Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi. Lögregla og almannavarnir ráðleggja ferðafólki að halda sig frá upptökum ána, og jökulsporðunum, þar sem flóð geti vaxið með skömmum fyrirvara og brennisteinsvetni berist með hlaupvatninu. Engar breytingar hafa verið á rennsli ána í nótt, og mælar Veðurstofunnar sýna að vatnshæð í Jökulsá er talsvert lægri en á sama tíma í gærmorgun, auk þess sem leiðni vatnsins er á niðurleið – leiðnin segir til um magn jarðhitaefna í vatninu.

- Oftar en ekki er þetta á annan veg og sumir tala gjarnan um ánna, brúnna, - og jafnvel sá ég um daginn að Páli Bergþórssyni var þakkað kærlega fyrir spánna! Í þessu eru reyndar fleiri villur, s.s. komma á undan OG, á tveimur stöðum en ætli einhverjum þyki það ekki óþarfa smámunasemi? (Og, er til eitthvað sem heitir jarðhitaefni?).

– Molaskrifari þakkar ábendinguna. Ekki vandað málfar.

Af mbl.is (09.07.2014): Fram kom fyrr í dag hjá Árna Bald­urs­syni, sem er leigutaki af Stóru-Laxá í Hrepp­um, ... Leigutaki af Stóru-Laxá? Leigutaki Stóru-Laxár. Úr sömu frétt: Einnig kem­ur fram að búið sé að skrá 16 laxa í veiðibók­ina á svæðinu sem eru flest­ir yfir 80 cm lang­ir, en þar opnaði þann 30. júní síðastliðinn. Þar opnaði? Þar hófst veiði, er líklega það sem við er átt.

 

Í fyrirsögn í Morgunblaðinu (10.07.2014) segir: Stórvirkar vinnuvélar sjá um að tryggja brunavettvang. Vinnuvélar tryggja ekki brunavettvang. Í þessu tilviki voru þær notaðar til að fjarlægja steypubita sem ógnuðu öryggi starfsmanna sem könnuðu eldsupptök á brunastaðnum. Vitnað er í rannsóknarlögreglumann:,, ... því það var ekki búið að tryggja strengjasteypubitana.” Hann átti við að ekki væri búið að fjarlægja strengjasteypubitana.

Í fréttum Stöðvar tvö eru flugskeyti eða eldflaugar oftast kölluð loftskeyti. Ekki er Molaskrifari sáttur við þá orðanotkun. Loftskeytastöðin á Melunum í Reykjavík var ekki eldflaugastöð. Hún var fjarskiptastöð. Í Ríkisútvarpinu er réttilega talað um flugskeyti.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1514

 Enginn sammála um ágæti Costco, segir í feitletraðri fjögurra dálka fyrirsögn í DV (8.-10.07.2014). Molaskrifara finnst þessi fyrirsögn ekki í lagi. Finnst að hér sé hugsanavilla á ferð. Betra hefði verið, til dæmis: Enginn einhugur um ágæti Costco. Hvað segja Molalesendur?

 

Pétur Kristjánsson skrifari Molum (09.07.2014): ,,Eitt aðaleinkenni á íslensku talmáli er að áhersla er ávallt lögð á fyrsta atkvæði í orðum. Ekki virðist þessi regla vera öllum fjölmiðlamönnum kunn því æ oftar heyrir maður íslensku orðin úttöluð áherslulaust eða áhersla er lögð á hvaða atkvæði sem er hvar sem það er í orðinu. Sérstaklega er þetta áberandi hjá veðurfréttakonu hjá Ríkissjónvarpinu og einum íþróttafréttamanni á sama stað. Mér finnst að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins Sjónvarps ætti að taka á þessu, nema að íslenskan hafi breyst með þessum hætti. Óþarfi er að nefna dæmi því þetta stingur í eyrun nánast daglega.”. Molaskrifari þakkar Pétri réttmæta ábendingu. 

 

Enn sigra menn keppni  í Ríkisútvarpinu! Hvaða ætla menn þar á bæ að halda lengi áfram að klæmast á þessu? Í morgunfréttum á miðvikudagsmorgni (09.07.2014) var sagt frá tapi Brasilíumanna gegn Þjóðverjum kvöldið áður: Töldu flestir að liðið hefði burði til að sigra heimsmeistarakeppnina. Það er ekki til neins að hafa málfarsráðunaut við Ríkisútvarpið, ef hann ekki getur kennt íþróttafréttmönnum að forðast svona ambögur. Kannski gafst hann bara upp og fór í sumarfrí, þegar fótboltafárið hófst. Í sömu frétt var talað um óeirðarlögreglu. Óeirðalögreglu, hefði Molaskrifari haldið að það ætti að vera.

 

Glöggur lesandi benti á þetta (08.07.2014): Í grein um ,,Sparsama Belga”, segir höfundur:

,,Lenaerts hefur góðfúslega veitt mér leyfi til að birta ritgerð hans og er hægt að nálgast hana á þessari slóð....”

 Einhvern veginn finnst mér að þarna heeði átt að standa: ...ritgerð sína... “ Molaskrifari er sammála og þakkar ábendinguna.

 

 Enn talaði fréttaþulur Ríkissjónvarps um gestgjafa Brasilíu í fótboltafrétt í seinni fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (08.07.2014). Þetta orðalag er rangt og vanhugsað eins og flestir sjá og skilja. Brasilíumenn eru gestgjafar annarra þjóða á HM en þeir eru ekki gestgjafar Brasilíu. Undarleg meinloka sem hefur dunið á okkur aftur og aftur að undanförnu.

 

Ríkisútvarpið auglýsir nú glæsilegt skrifstofuhúsnæði til leigu ,,á útsýnisstað”, les Efstaleiti. Auglýsingunni er greinilega beint til fyrirtækja þar sem meginverkefni fólks er að horfa út um gluggann. Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1513

  Molavin skrifaði: ,,Í frétt DV (07.07.14) um eggjasósufyrirtækið Gunnars Majónes segir svo: "Síðan þá hefur sigið á ógæfuhliðina og er kennitala fyrirtækisins nú komin í þrot." Þetta er ekki aðeins rangt heldur mjög villandi. Kennitala hefur engan rekstur. Það er fyrirtækið, sem er komið í þrot. Það var stofnað nýtt fyrirtæki, sem fékk að sjálfsögðu aðra kennitölu. Fjölmiðlar verða að útskýra mál fyrir fólki, ekki flækja þau. Kennitala er aðeins skráningarauðkenni fólks og fyrirtækja, rétt eins og bílnúmer er auðkenni bíls.”  Molaskrifari þakkar ábendinguna. 

 

Fyrirsögn á bls. 2 í Morgunblaðinu (07.07.2014): Fleiri tonn og hundrað manns með Timberlake. Fréttin er um tónleika Justins Timberlake sem fram fara 24. ágúst. Orðalagið fleiri tonn segir okkur nákvæmlega ekkert um magn farangurs og tækja sem fylgir söngvaranum. Fleiri tonn en hvað? Þetta var eitt af því fyrsta sem manni var kennt að forðast á fyrstu starfsdögunum í blaðamennsku,  hér endur fyrir löngu.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (06.07.2014) fra sagt frá ökumanni sem hætta þurfti keppni í kappakstri vegna vandræða í gírkassa! Þetta var betur orðað í íþróttaþætti Ríkissjónvarps sama kvöld.

 

Borgarstjórinn í Reykjavík skrifaði á fésbók (07.07.2014): ... eftir að hafa kynnt mér aðstæður á vettvangi brunans í Skeifunni í morgun ... Vettvangur brunans. Dæmigert stofnanamál. Borgarstjórinn kynnti sér aðstæður á brunastað. Skoðaði brunarústirnar. Meira stofnanamál úr fréttum Ríkissjónvarps sama dag um sama mál: Slökkviliðið afhenti lögreglu vettvanginn!! Hvernig skyldi sú afhending hafa farið fram?

 

Mistækur þulur(sem er undantekning) sagði í Ríkisútvarpinu fyrir fréttir á mánudag (07.07.2014: Það var kvartettinn Perluvinir sem sungu. Kvartettinn söng.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (07.07.2014) talaði fulltrúi reiknihóps um jarðgangnagerð í tengslum við  fluglest milli Reykjavíkur og flugstöðvarinnar í Miðnesheiði. Hefði átt að vera jarðgangagerð. Göng ef. ganga. Göngur ef. gangna. Það er hægt að reikna hvað sem er. Fyrst velja menn sér fallega útkomu og finna síðan forsendur út frá henni.

 

Í yfirliti á undan og í lok frétta í Ríkissjónvarpi var sagt (um skort  á nautakjöti á Íslandi) að matreiðslumenn á Íslandi neyddust til að bjóða upp á erlent nautkjöt. Það er nú meiri nauðungin! Gildishlaðið orðalag af þessu tagi á ekkert erindi í fréttir. Hvar er fagmennskan, fréttastofa? Í þessum fréttatíma talaði fréttamaður um að forða stórslysi. Molaskrifara var á sínum tíma kennt að forðast þetta orðalag. Hann hefur reynt það eftir bestu getu. Hvað segir málfarsráðunautur?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1512

K.Þ. benti á eftirfarandi úr Viðskiptablaðinu (06.07.2014):

Kennörum skortir sjálfum þekkingu og hæfni til að kenna fjármálalæsi.

Fjármálalæsi unglinga í íslenskum grunnskólum er lítið og þeir hafa litla verðvitund. Það bitnar á getu þeirra til að taka skynsamar ákvarðanir um fjármál þegar þeir eldast. Þetta er meðal niðurstaðna í lokaverkefni Klöru Guðbrandsdóttur við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri.” Hann segir: ,,Hann er víða skorturinn. Það þarf greinilega að efla móðurmálskennslu með áherslu á fallbeygingar. Að því loknu mætti svo hefja kennslu í fjármálalæsi.” – Molaskrifari þakkar KÞ ábendinguna. Það er hverju orði sannara að byrja þarf á málfræði móðurmálsins. Hæpið er að tala um skynsamar ákvarðanir. Skynsamlegar ákvarðanir, er betra. Ótrúlegur texti.

 

- Ég mundi segja það, hestlega séð, sagði kona sem rætt var við í kvöldfréttum Ríkisútvarps (05.07.2014) um hestamannamótið á Gaddstaðaflötum við Hellu. Gangtegundalega séð, bætti hún svo við. Karlmaður, sem rætt var við um sama efni daginn eftir lét ekki sitt eftir liggja og sagði: Hesta- og keppendalega séð og mótslega séð. Mikið eru þessi orðskrípi óþarfur samsetningur.

 

Ekki er mikil rækt lögð við vandað málfar í skrifum mbl.is um veiðar í ám og vötnum. Þetta er frá föstudegi (04.07.2014) ,,Álftá á Mýr­um opnaði á þriðju­dag og miðviku­dag nú í vik­unni. Gekk hún ágæt­lega og komu alls 19 fisk­ar á land á tvær stang­ir.” Álftá var opnuð til veiða. Álftá opnaði hvorki eitt né neitt. Þetta virðist fastur ritháttur hjá þeim sem um þessi efni skrifa(r) á vefinn mbl.is. Hvaða hún gekk ágætlega?? Opnunin? Veiðin?

 

Þetta var Vikulokin, sagði þulur í Ríkisútvarpi (05.07.2014), þegar þættinum Vikulokunum lauk um hádegið. Þetta voru Vikulokin, hefði hann betur sagt.

 

Í fréttum Ríkisútvarps á laugardag (05.07.2014) var aftur og aftur talað um að halda ávarp. Molaskrifari hefur vanist því að talað sé um að flytja ávarp, en að halda ræðu.

 

Það er erfitt að tileinka sér þetta með að sigra, vinna sigur. Í fréttum Stöðvar tvö (05.07.2014) var sagt: ,,Gerði sér lítið fyrir og sigraði barnaflokkinn ....” Barnaflokkurinn steinlá!. Svo í hádegisfréttum Bylgjunnar daginn eftir (06.07.2014) var talað um þá sem sigruðu flokk gæðinga með glæsibrag! Þar var líka talað um fóbolta, en sú íþróttagrein heyrist nú orðið sjaldan nefnd, - sem betur fer! Það er eins og stundum vanti vilja til að vanda sig.

Þessar ambögur heyrast líka í Ríkissjónvarpinu. Á sunnudagskvöld sagði spyrill í íþróttaþætti: Þú sigraðir A-flokk !

 

Yndislegt að hafa ykkur , sagði stjórnandi HM stofu svokallaðrar, í Ríkissjónvarpi (05.07.2014) þegar gestir hans höfðu fimbulfambað fram og til baka um leik sem lokið var. Endalaust fjas varð meðal annars til þess að dagskrá Ríkissjónvarps seinkaði um klukkutíma á laugardagskvöld. Vissulega setti framlenging leiks og vítaspyrnukeppni dagskrána úr skorðum. En þá mátti sleppa fótboltafimbulfambinu linnulausa eða flytja það bara í útvarpinu. Sem hefði verið fínt.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (06.07.2014) var vitnað í sænska blaðið Aftenposten. - Aftenposten er norskt dagblað. Við nánari athugun kom í ljós að verið var að vitna í sænska dagblaðið Aftonbladet. Rétt skal vera rétt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband