Molar um málfar og miðla 1531

   Málglöggur hlustandi vakti athygli Molaskrifara á því að í fréttum Ríkisútvarps (28.07.2014) hefði verið tekið svo til orða að það bætti úr sök. Molaskrifari hnaut reyndar einnig um þetta orðalag. Hér hefur fréttaskrifari, að mati Molaskrifara, ruglað saman tveimur orðatiltækjum, sem því miður gerist nokkuð oft. Talað er um að eitthvað komi ekki að sök, eitthvað hafi engin áhrif, breyti ekki neinu. Hinsvegar sagt að eitthvað bæti ekki úr skák, færi mál ekki til betri vegar, sé ekki til bóta.

 

KÞ skrifaði (29.07.2014) og benti á þessa frétt á Eyjunni/Pressunni: http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/07/28/metan-undir-koldum-hofum-getur-ordid-stort-umhverfisvandamal/

,,Hann spyr hvað getur maður sagt um svona fréttamennsku?” Lesendur geta dæmt um það, - en eru þetta nokkuð óvenjuleg vinnubrögð á þessum fjölmiðli? Molaskrifari þakkar KÞ ábendinguna.

 

Úr frétt á mbl.is (29.07.2014): ,,Farþeg­arn­ir í rút­unni voru á leið frá Sviss til Nor­d­kapp, sem er einn af nyrstu bæj­um Nor­egs. Átti sá bær að vera einn af hápunkt­um ferðar­inn­ar. Rút­an var búin að vera á ferðalagi í tíu daga.” Nordkapp er ekki bær. Nordkapp er sveitarfélag á Finnmörku þar sem eru nokkrir smábæir. Stjórnsýslumiðstöðin er í Honningsvåg.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/07/29/helt_i_hondina_a_deyjandi_manni/

 

Af fésbók (28.07.2014): ,,Fyrsta Louise L. Hay vinnustofan á Íslandi ... sem mun bera heitið "Lifum heil" ... verður haldin 12. ágúst nk. kl. 17:29 - 20:29 á höfuðborgarsvæðinu... Já, ég hef nú öðlast kennararéttindi sem Heal Your Life® kennari ... og er reiðubúin að fara hvert á land sem er með vinnustofurnar.”

Halda vinnustofu? Fara með vinnustofu hvert á land sem er? Skyldu þær vera fyrirferðarmiklar? Sennilega er hér verið að reyna að íslenska enska orðið workshop, námskeið eða vinnufund. Orðið vinnustofa hefur til þessa haft allt aðra merkingu í íslensku. Hvað þýðir annars ,,Lifum heil”?

 

Verslunin opnar í Laugardalshöll á morgun, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö (28.07.2014). Þess var ekki getið fremur en endranær hvað verslunin mundi opna.

 

Lesa mátti á visir.is (28.07.2014) að flugfélagið Ryanair væri með jákvæða afkomuviðvörun. Átt var við tilkynningu um að rekstur félagsins gengi betur en vænst hefði verið. Þarf að vara við svo góðum tíðindum? Nýlega sá Molaskrifari lungann úr athyglisverðri heimildamynd á einni af norrænu stöðvunum sem hér er hægt að horfa á. Þar var fjallað um Ryanair og Easyjet, rekstur þeirra og hugmyndafræðina sem reksturinn er byggður á . Afar fróðlegt.

 

Enn er hér spurt: Hversvegna þarf Ríkissjónvarpið alltaf að pukrast með það þegar verið er að endursýna efni? Það er eiginlega bæði fremur ómerkilegt og óheiðarlegt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1530

Síðbúnar þakkir til, Ríkissjónvarpsins fyrir að endursýna 20. júlí þátt um dr. Sigurð Nordal frá árinu 2012. Þátturinn var einstaklega vel og smekklega gerður, - eiga allir þeir sem því verki komu hrós skilið. Molaskrifari ætlaði að horfa á þáttinn í mikið auglýstri tímavél í Sjónvarpi Símans. Það var ekki hægt. Í spjaldtölvu var þátturinn prýðilega aðgengilegur á vef Ríkisútvarpsins þar sem þjónusta er yfirleitt með ágætum.

 

Málglöggur Molalesandi benti Molaskrifara á að í velflestum fjölmiðlum hefði nýtt fiskiskip sem kom til Eyja á föstudag (25.07.2014) verið kallað uppsjávarskip! Hann spurði hvort nauðsynlegt hefði verið að taka þetta fram svo lesendur/hlustendur teldu ekki að hér væri um neðansjávarskip eða kafbát að ræða! Molaskrifari tekur undir , að þetta er dálítið undarlega til orða tekið.

 Svona var þetta á mbl.is: Sig­urður VE er 3763 lesta upp­sjáv­ar­skip, og svona á fréttavef Ríkisútvarpsins: Forsvarsmenn Ísfélags Vestmannaeyja segja að Sigurður VE, sem kom til Eyja í dag, sé stærsta uppsjávarskip landsins.

 

Í helgarblaði DV (26.07-28.07.2014) segir: ,,... sýndi samvinnuþýðu og ber af sér sakir.” Hvað er samvinnuþýða. Hvað þýðir samvinnuþýða? Sennilega er átt við að maðurinn hafi verið samvinnufús, samvinnuþýður.

Í helgarblaði Féttablaðsins sömu helgi segir: ,, Tveimur fluguveiðistöngum af dýru merki var stolið ...” Hér hefði nægt að segja að tveimur dýrum fluguveiðistöngum hefði verið stolið.

 

Skipið var sjósett við mikinn mannfögnuð, sagði fréttamaður Bylgjunnar (27.07.20145). Ekki finnst Molaskrifara þetta vera gott orðalag.

Í fréttum Bylgjunnar þennan sama dag var ýmist talað um Borgarfjörð eystri eða Borgarfjörð eystra. Molaskrifari leitaði sér upplýsinga, því hann velktist í vafa. Sjá: https://visindavefur.hi.is/svar.php?id=6086

 

Skotglös er nýyrði,sem Molaskrifari játar að hafa ekki heyrt áður. Hann rakst á orðið á fréttavef Ríkisútvarpsins. Það er notað yfir það sem einu sinni ( og enn hjá sumum) er kallað snafsaglas. Hvað er að því ágæta orðið. Skotglas er bersýnilega yfirfært, fengið að láni, í íslensku úr ensku, shotglass.

 http://www.ruv.is/frett/skotglos-thakin-hrauni-thottu-best

 

Á mánudagsmorgni (28.07.2014) komu áhafnarmeðlimir enn við sögu í fréttum Ríkisútvarps. Er það nýjum fréttastjóra og málfarráðunaut (sé hann enn við störf) um megn að kenna fréttamönnum að forðast þetta orð?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1529

  Molavin skrifaði (25.07.2014): Hann bragðaði á hákarli og sviði og skoðaði Hallgrímskirkju áður en hann gekk niður að sjó." (Vísir 25.7.14). Fréttabarnið er svo stolt af þessari þekkingu sinni á eintölu sviða, að það setur fullt nafn sitt við fréttina. Kannski er nú hægt að segja að þeir, sem kvíða því að bragða íslenzkan þorramat séu haldnir "sviðsskrekk".- Molaskrifari þakkar sendinguna. Hann spyr: Eru stjórnendur netmiðla svo metnaðarlausir að þeir eru alveg hættir að hafa eftirlit með því sem fréttabörnin skrifa? Allt er látið vaða yfir lesendur, - óskoðað, óleiðrétt,ólesið. Það liggur við að kalla megi slík vinnubrögð skipulögð skemmdarverk gegn íslenskri tungu.

 

Eru menn farnir að tala um orsakavaldinn? Svona spurði fréttamaður Ríkissjónvarps jarðvísindamann um berghlaupið við Öskjuvatn.  Hver skyldi hann vera þessi orsakavaldur? Hans hefur svo sem verið getið áður.

 

KÞ benti á eftirfarandi (26.07.07.2014) á visir.is: "Í borgarstjóratíð Jóns Gnarr hafði staðgengill hans, Dagur B. Eggertsson, núverandi borgarstjóri, afnot af bíl borgarstjóra, öðrum borgarráðsfulltrúum ekki í vil." 

KÞ spyr: Hvað ætli þessi setning eigi að merkja? Molaskrifari er ekki viss. Vanhugsað eða óhugsað. Var hugsanlegt að Dagur hefði afnot af bílnum öðrum borgarráðsfulltrúum í vil? Merkir það að hann hefði þá leyft þeim að fljóta með, sitja í, ef hann brá sér bæjarleið í forföllum borgarstjóra?

http://www.visir.is/telja-dag-hafa-ekid-bifreid-borgarstjora-i-leyfisleysi/article/2014140729279

 

Í fréttum um hæstu skattgreiðendur töluðu ýmsir fjölmiðlar, bæði Ríkissjónvarp og Stöð tvö um útgerðarkonu í Vestmannaeyjum (25.07.2014). Molaskrifara finnst þetta vera viðlíka orð og orðskrípið þingkona,sem Kvennalistakonur komu inn í málið á sínum tíma, illu heillu. Ef Molaskrifari hefði skrifað þessa frétt hefði hann kallað konuna útgerðarmann, minnugur þess að konur eru menn samkvæmt íslenskri málvenju fornri og nýrri, eins og Bjarni heitinn Benediktsson orðaði það í snjallri þingræð fyrir um það  hálfri öld.

 

 

Í þættinum Í sjónmáli Í Ríkisútvarpinu á föstudag (25.07.2014) var talað um súkklaðiverksmiðju. Þessi framburður orðsins súkkulaði hefur til þessa verið bundinn við Útvarp Sögu. Ástæðulaust er fyrir Ríkisútvarpið að apa það eftir.

 

Í gærkveldi (28.007.2014) sýndi Ríkissjónvarpið loksins, loksins, heimildamynd  sem fallaði um  sögu liðinnar aldar, um heimsstyrjöldina 1914 til 1918. Vönduð mynd frá BBC. Takk fyrir það. En kannski veit  Ríkissjónvarpið ekki, að fleiri aðilar gera heimildamyndir en BBC. Það er  góðra gjalda vert að fá myndir þaðan, en leita mætti fanga víðar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1528

  Í fréttayfirliti og fyrstu frétt í hádegisfréttum Bylgjunnar á laugardag (26.07.2014) talaði fréttaþulur/fréttamaður um hæstlaunuðustu (skattgreiðendur). Hæstlaunuðu hefði dugað. Sami fréttamaður las frétt um makrílveiðar og sagði: ,,.. þegar veiðarnar ná hámæli”. Ná hámarki átt hann sjálfsagt við.  Ef eitthvað kemst í hámæli, er það altalað, eitthvað sem allir vita. Fleiri hnökrar voru á lestrinum. Enginn fullorðinn á vaktinni?

Molavin tók eftir þessu líka. Hann skrifaði Molum (26.07.2014) ,,Það eru kannski sumarbörn í afleysingum, sem eiga bróðurpartinn af málvillum í fréttum Bylgjunnar en þar koma líka vanari fréttamenn til sögu. Það var nánast engin frétt villulaus í hádegisfréttum í dag, laugardag, og byrjað á því að tala ítrekað um "hæst launuðustu" skattgreiðendur. Hátt launaður - hærra launaður - hæst launaður. Einnig var talað um að markrílveiðar kæmust brátt í hámæli (næðu hámarki). Vonandi tekur nýskipaður útgefandi 365 miðla á þessum vanda, sem er slíkur að hann rýrir trúverðugleika fréttastofunnar.” Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Á forsíðu helgarblaðs Fréttatímans (25.-27.07.2014) segir:,,Hann flutti tíu ára til Danmerkur með móður sinni, Sigrúnu Davíðsdóttur fréttamanns, en heldur tengsl við systkini sín hér, ...” Hann flutti með móður sinni , Sigrúnu Davíðsdóttur fréttamanni en heldur tengslum við systkini sín ... Fleiri áberandi villur eru í blaðinu meðal annars í fyrirsögn á bls. 7 í SÁA blaðinu sem er lagt inn í Fréttatímann. Þar segir: ,,Ríkið borgar skimum fyrir alla aðra en sjúklinga á Vogi” á vera skimun, ekki skimum.

 

Af visir.is (25.07.2014) . Ósköp er dapurlegt að lesa aftur og aftur að fréttabörn skuli halda að til sé í íslensku sögnin að olla. ,,Slökkt var á útsendingunni á þeim forsendum að hún gæti ollið „pólitískum ágreiningi“.” Gætið valdið.

http://www.visir.is/utvarpsfrett-med-nofnum-latinna-palestinskra-barna-ritskodud/article/2014140729316

Raunar er margt fleira athugavert við þessa stuttu frétt, sem ýmsir hafa orðið til að benda á . Hér er tvennt: ,,...en það kom fyrir ekkert undir lok.” Undir hvaða lok? Og svo þetta: ,, ... og biðja um að banninu verði lyft og þau geti haldið áfram útsendingum sínum.” Lyfta banninu? Væntanlega er hér átt við að aflétta banninu. Afnema bannið.

 

Jón greiðir hæstu skattana er afar innihaldsrík og ákaflega upplýsandi fyrirsögn á mbl.is (25.07.2014) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/25/jon_greidir_haestu_skattana/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1527

  Molum barst eftirfarandi ágæt hugleiðing frá jt:

,,Til eða frá. Stundum má sjá og heyra í fréttum af vegamálum að vegur liggi frá A til B. Betur færi að segja að vegur liggur milli A og B. Yfirleitt er nefnilega hægt að komast í báðar áttir á vegum og götum – nema þar sem er einstefna – og reyndar var Gæsavatnaleið norðan Vatnajökuls lengst af aðeins fær til austurs vegna langrar sandbrekku sem ógjörningur var að aka upp og til vesturs. En yfirleitt liggja vegir sem sagt á milli sveita og byggða.

Meira um samgöngumál. Vegir eða götur, vegamót eða gatnamót. Yfirleitt er talað um vegi um landið, vegi sem tengja byggðir og jarðir. Götur eru hins vegar yfirleitt í þorpum og bæjum og þar af leiðandi eru vegamót yfirleitt úti á landsbyggðinni en gatnamót í þéttbýli. Þess vegna er óeðlilegt að segja til dæmis gatnamót Hringvegar og Landvegar, þar eru hins vegar vegamót. Enda heitir Vegagerðin Vegagerð!

Endanleg ákvörðun – þetta orðalag heyrist oft. Er komin ákvörðun í máli ef hún er ekki endanleg? Menn eru að fjalla um mál og fréttamenn spyrja hvenær niðurstaða liggi fyrir. Þá er oft svarað að endanleg ákvörðun verði tekin á morgun eða hinn. Hvaða ákvörðun er þá tekin fyrst? Kannski bráðabirgðaákvörðun? Ég held að þetta sé einn af þessum hugsunarlausu málkækjum sem eru alltof ríkjandi.

Spurning um þróun í málinu: Er eftirfarandi eðlileg notkun á bandstriki eða tengingu: Samgönguframkvæmdir og –verkefni, fjarskiptakerfi og –þjónusta? Mér finnst æ oftar bera á þessari notkun bandstriksins; yfirleitt hefur strikið verið hengt á fyrra orðið til að spara endurtekningu: Gatna- og vegaframkvæmdir, tré- og járnsmíði, mennta- og menningarmálaráðuneyti. Er þetta æskileg þróun eða á sporna gegn henni?

Tíminn skiptir máli. Enn má minnast á þann ósið að ,,íslenska“ alltaf tímasetningar þegar greint er frá atburðum erlendis. Sagt er að eitthvað hafi gerst klukkan þetta eða hitt að íslenskum tíma. Þetta er til dæmis algengt er í fréttum frá Bandaríkjunum sem sagðar eru í morgun- eða hádegisfréttatímum. Þar virðast atburðir yfirleitt gerast að næturlagi – að íslenskum tíma. Þá er yfirleitt kvöld þar vestra og miklu réttara að segja: í gærkvöld. Það sem getur skipt máli fyrir samhengi fréttar um atburð erlendis er að vita hvað klukkan var þar sem atburðurinn gerðist, staðartíminn. Það má svo sem fylgja hvað klukkan hafi verið hjá okkur en það er algjört aukaatriði
.”

 

Molaskrifari þakkar þessa ágætu hugleiðingu og þarfar ábendingar. Sammála í einu og öllu. Rétt er að bandstriksnotkun sem bent er á, er röng og illskiljanleg. Kærar þakkir, jt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1526

  Ríkissjónvarpið okkar er greinilega komið í harða læknasápusamkeppni við Stöð tvö. Sýnir læknasápu á sömu dögum, nánast á sama tíma, - efnislega er þetta kynnt sem vinsæl þáttaröð um líf og störf skurðlækna sem berjast fyrir lífi sjúklinga sinna. Um það er ekki að deila að þetta er auðvitað mikill menningarauki. En er það svona Ríkissjónvarp sem við viljum?

 

Í fréttum Stöðvar tvö (23.07.2014) var sagt að tvær Herkúles herflugvélar hefðu flutt lík látinna frá Úkraínu til Eindhoven í Hollandi. Myndirnar sem sýndar voru með fréttinni báru það með sér að þetta var rangt. Hollenska vélin var af gerðinni Herkúles C-130, fjögurra hreyfla skrúfuþota. Ástralska vélin var fjögurra hreyfla þota af gerðinni Boeing C-17. Óþörf villa.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (23.07.2014) um berghlaupið eða skriðuna sem hljóp fram í Öskjuvatn var sagt: ... myndin var tekin af landvörðum.

Þurfti að beita afli? Þetta er óþörf og vond þolmyndarnotkun. Germynd er alltaf betri. Landverðir tóku myndina. Í sama fréttatíma var sagt að stjórnvöld í Ísrael hefðu staðfest afhendingu bréfs frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að stjórnvöld hefðu staðfest móttöku bréfsins, staðfest að hafa tekið við bréfinu?

 

Það er engu líka en blessað Ríkissjónvarpið líti á það sem skyldu sína að bjóða okkur upp á bíómyndir af botni ruslakassans um helgar á þessum árstíma. Molaskrifari skoðaði einkunnir, sem þrjár kvikmyndir fá á IMDb, sem sýndar verða um helgina: Ekki glæsilegt, 5,2, 5,3 og 6,3. Það er hægt að gera miklu betur en þetta, - ef vilji er fyrir hendi.

 

Þjófurinn fór í gegnum rúðuna, segir í frétt á mbl.is (24.07.2014) af ,,pínulitlum þjófi” í Reykholti: ,, Litl­ar skemmd­ir urðu á hús­næði versl­un­ar­inn­ar en talið er að þjóf­ur­inn hafi verið smá­vax­inn þar sem hann hef­ur laumað sér inn í versl­un­ina í gegn­um minnstu rúðu henn­ar.” http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/24/pinulitill_thjofur_i_honnubud/

Þetta er eiginlega ,,pínulítil” frétt , eða þannig.

 

Ekki fór Ingvi Hrafn Jónsson sjónvarpsstjóri ÍNN fögrum orðum um framgöngu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði í sjónvarpi sínu í gærkveldi (24.07.2014). Hann líkti framgöngu Ríkisútvarpsins á þeim vettvangi við framferði Ísraelsmanna gegn Palestínumönnum!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1525

  Á bls. 2 í DV (22.07-25.07.2014) segi :,, Ef hann hefði ekki farið í þessa aðgerð til að fjarlægja höfuðkúpuna þá hefði hann bara dáið.” Svo er látið líta út sem þetta sé tilvitnun í frétt, tekið úr frétt á síðunni.  Svo er ekki. Fjarlægja höfuðkúpuna?  Ekkert eftirlit. Ekkert aðhald. Í fréttinni er  talað um ,, ...að fjarlægja hluta höfuðkúpu hans til að létt á bólgum”. Þau eru víða fréttabörnin nú um stundir.

 

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (21.07.2014): ,, Formaður knattspyrnudeildar Sindra segir að félagið líti mjög alvarlegum augum á mál liðsmanns félagsins sem lenti saman við leikmann Snæfellsness í fótboltaleik í gær.” Málvenja er að tala um að líta eitthvað alvarlegum augum , ekki líta alvarlegum augum á eitthvað. Ekki von  til að  óvanir  viti þetta, enda lítið um leiðbeinendur og málfarsráðunautur fjarri góðu gamni. Eftir fréttum að dæma  lenti liðsmanni  félagsins ekki saman við við leikmann, eins og þarna segir. Hann réðist á leikmanninn.

 

Að okkur skyldi hafa haldist þannig á málum, sagði fjármálaráðherra í fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (22.07.2014). Að við skyldum hafa haldið þannig á málum, hefði ef til vill verið betra orðalag.

 

Í síðdegisfréttum Ríkisútvarps á miðvikudag (23.07.2014) var talað um að framkvæma handtöku. Hvað er að því að nota sögnina að handtaka? Ekkert.

 

Er það missýning Molaskrifara að í  kaffiauglýsingu BKI í Ríkissjónvarpinu  sé íslenski fáninn í hálfa stöng?  Hlýtur að vera missýning.

 

Aftur og aftur sýna  sjónvarpsstöðvarnar ÍNN og N4 okkur að hægt er að bjóða áhorfendum prýðilegt íslenskt efni án mikils  tilkostnaðar. Ríkissjónvarpið getur ýmislegt af báðum stöðvum lært.

 

Hvar væri blessað Ríkissjónvarpið ef ekki væri sá breski David Attenborough með allar þær  dýramyndir sem hann gerir fyrir  BBC?   Hann er vissulega góður og oft frábær, en  eins og þar stendur , -  of mikið af öllu má þó gera.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1524

  Molavin skrifaði: ,,Fréttamennskan á RUV rís ekki hátt þessa dagana. Á netsíðu þess stendur nú (21.7.14): "Töluverð fækkun hefur verið meðal bandaríkjamanna sem greinast með HIV-veiruna. Hlutfall þeirra sem greindust féll úr rúmlega 24  prósentum í rúm 16%." Ef leitað er í heimild á bak við fréttina er átt við 16 af hverjum 100.000. Er þetta ónákvæmni eða vanþekking - eða jafnvel alger vanþekking á prósentureikningi? Alla vega er ekkert fylgst með sumarbörnunum.” Molaskrifari þakkar ábendinguna og bætir við: Ótrúlega óvönduð vinnubrögð. Gæðaeftirlit með því sem borið er á borð fyrir þjóðina er ekki til staðar.

 

KÞ skrifaði Molum (22.07.2014) ,,Einkennileg setning í frétt á mbl.is ( http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/07/21/99_olvadir_flugmenn_stodvadir/ )

"Reglu­lega þurfa áhafn­ar­meðlim­ir að gang­ast und­ir handa­hófs­kennda ör­ygg­is­skoðun ... "

Er skoðunin regluleg eða handahófskennd?!” Eðlilegt að spurt sé! Og enn koma áhafnarmeðlimir við sögu !

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (20.07.2014) var sagt: Lík 169 þarþega hefur verið komið fyrir í lestarvögnum nálægt ...

Þetta er óvandað, rangt orðalag. Líkum 169 farþegar hefur verið komið fyrir ... Gæðaeftirliti er ábótavant eins og fyrri daginn. Enginn les yfir.

 

Í fréttum Ríkisútvarps þennan sama sunnudag var talað að Íslendingar ættu að slíta stjórnmálasamstarfi við Ísrael (tvisvar heyrði Molaskrifari það) og einu sinni var sagt að við ættum að slíta stjórnarsamstarfi við Ísrael. Sú aðgerð sem verið var að ræða um hefur í áratugi heitið á íslensku að slíta stjórnmálasambandi við.  

 

Sumir fréttamenn Ríkisútvarpsins kalla stofnunina ævinlega rúff, aðrir segja rúv. Hvaðan kemur þetta rúff ? Hvar er nú margumræddur málfarsráðunautur? Er ekki hægt að hafa samræmi í vitleysunni. ,,System í galskabet” eins og Danir segja.

 

,,.... sem skotin var niður af eldflaug.” Þannig var til orða tekið í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld (21.07.2014). Klúðurslegt orðalag. Þarna hefði t.d. mátt segja, -  sem grandað var með eldflaug, eða -  sem skotin var niður með eldflaug, sem eldflaug grandaði.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1523

 Glöggur lesandi vakti athygli Molaskrifara á grein sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra skrifaði í Fréttablaðið (14.07.2014)

Greinin heitir Aukið samráð og fleiri valkostir og er hið mesta torf. Í tveimur málsgreinum, þeirri þriðju og fjórðu, sem eru samtals tólf línur í útprentun er orðið samráð notað sjö sinnum, - átta sinnum ef talið er líka orðið samráðsferli. Samráð kom reyndar líka fyrir í tveimur fyrstu málsgreinunum. Fyrr má nú aldeilis vera orðgnóttin. Raunar hallast Molaskrifari að því að einhver hjálparkokkur hafi skrifað þessa grein í nafni ráðherrans. Eins gæti höfundur verið hagsmunaaðili. Greinin er þannig skrifuð. Gæti næstum komið beint frá  Landsneti.

http://www.visir.is/aukid-samrad-og-fleiri-valkostir/article/2014707149999

 

Molalesandi benti á eftirfarandi á mbl.is (19.07.2014)

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/07/19/kofnudu_utfra_eiturgufum/

TH spyr:: ,,Hvað eru eiginlega margar villur í þessari grein? 
Hún er greinilega þýdd úr ensku, en þýðandinn virðist ekkert hafa hugsað áður en hann byrjaði verk sitt, ekkert hugsað meðan á því stóð og heldur ekkert hugsað þegar því lauk. Það hlýtur að teljast lágmarkskrafa að þýðendur hafi það tungumál, sem þýtt er yfir á, á valdi sínu.” Molaskrifari segir eins og er. Hann gafst við að telja villurnar. Enn kemur í ljós að bögubósar skrifa og og skrifin eru síðan birt athugasemda- og eftirlitslaust. Allan metnað til að vanda sig virðist skorta.

 

Ég held að þessi árangur megi þakka, sagði Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardag ((19.07.2014) . Ég held að þennan árangur megi þakka .... hefði þingmaðurinn átt að segja.

 

Á mbl.is /19.07.2014) er viðtal við unga stúlku, sem er að safna sér fyrir skólagjöldum við bandarískan háskóla. Í viðtalinu segir: Þar mun Eygló stunda nám við tón­list­arþerapíu. Hvað á blaðamaðurinn við? Þetta orðalag er tvítekið í viðtalinu. Er ekki átt við að stúlkan ætli að stunda nám í tónlistartherapíu? Hún ætli að læra tónlistarþerapíu? Einkennilegt orðalag.

 

Vinir og kunningjar Molaskrifara, sem hlusta svolítið á Útvarp Sögu hafa bent honum á, að útvarpsstjóri og stjórnarformaður þess fyrirtækis hafi að undanförnu gert sér far um að tala illa um og hnjóða í Eið Svanberg Guðnason. Einkum fyrir að sýna Ólafi Ragnari Grímssyni ekki tilhlýðilega lotningu. Verra þætti Molaskrifaraef þau Arnþrúður og Pétur töluðu vel um Eið Svanberg Guðnason. Það væri satt best að segja verulegt áhyggjuefni. En ef það veitir þeim skötuhjúum andlega fullnægingu að tala illa um þann sem þetta skrifar, - þá verði þeim að góðu !

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1522

 Í Molum fimmtudagsins (17.07.2014) var hér vikið að orðaklaginu ,,að draga að sér fé”. Molavin nefnir þetta einnig í bréfi til Molanna. Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Molavin segir: "...aðstandendur þess hafa verið ákærðir fyrir að draga að sér fé..." - svona las fréttakona RUV þetta í kvöldfréttum fimmtudagskvöld (17.7.14) og svona var það lesið aftur í tíufréttum. Og svona stendur það óbreytt á vefsíðu RUV. Það heitir að "draga sér fé" og hefur verið bent á það áður hér í Molum, að mig minnir. Enginn les yfir fréttatexta, þulir endurtaka vitleysurnar hugsunarlaust og vefsíðustjórnin fylgist ekki með. Það er ekki von á góðu þegar haltur leiðir blindan.” Molaskrifari þakkar bréfið. Allt er þetta er þetta rétt.

 

KÞ vitnar (17.07.2014) í frétt á dv. is: ,,Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur á síðasta kjörtímabili og núverandi framkvæmdastjóri Sósíaldemókrata í Norðlenska ráðinu, segir þessa yfirlýsingu forsetans hljóta að marka tímamót í þróun lýðræðis á vesturlöndum.” Hann spyr hvar hefur Norðlenska ráðið aðsetur ? Von er að spurt sé. Fréttabarnið sem þetta skrifaði hefur líklega aldrei heyrt minnst á Norðurlandaráð ! https://www.dv.is/frettir/2014/7/17/i-thessum-ordum-felst-ekki-adeins-valdhroki-heldur-byr-lika-i-theim-frae-einraedis/

 

Annar lesandi, SGS, vitnaði einnig í dv.is (17.07.2014) og segir: ,,Síðan hvenær þarf að taka fram að þotur sem hrapa úr 10 km hæð séu gjörónýtar? Og segja í sömu setningu, en á eftir að allir séu látnir. Kjánalegt og barnalegt.”

"Vél Malaysian Airlines, sem hrapaði yfir Úkraínu í dag og er sögð hafa verið skotin niður yfir átakasvæði í Úkraínu, er gjörónýt og allir farþegar og áhafnarmeðlimir eru sagðir látnir". Satt er það. Hér hefur enn eitt fréttabarnið verið eftirlitslaust við lyklaborð og tölvuskjá.

 

Í Molum (1521) fyrir helgi var vikið að vondum þularlestri í Ríkisútvarpinu. Það er sem betur fer algjör undantekning. Á laugardagsmorgni (19.07.2014) var Anna Sigríður Einarsdóttir þulur á Rás eitt í Ríkisútvarpinu. Hún hefur einstaklega þægilega rödd og viðfelldna. Það var gott að hlusta á hana. Óaðfinnanlegt. Þannig eiga þulir að vera.

Heyra ráðamenn í Ríkisútvarpinu ekki þegar þulartexti er illa fluttur, óáheyrilegur, lætur illa í eyrum ? Engu líkara.

 

 

Af forsíðu visir.is (18.07.2014): Kona frá Ástralíu hefur missti bróðir sinn í hvarfi MH 370 í suður Indlandshafi og stjúpdóttir í MH 17 sem skotin var niður yfir Úkraínu í gær. Rétt beyging orðanna bróðir og systir virðist þeim sem þetta skrifaði algjörlega ókunn, - fyrir nú utan annað. Svo koma fjölskyldumeðlimir einnig við sögu í fréttinni.

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (18.07.2014) var sagt frá fólskulegri líkamsárás á karlmanni. Hefði átt að vera , líkamsárás á karlmann.

 

Jón Hákon Magnússon, framkvæmdastjóri og fyrrverandi fréttamaður lést í Reykjavík föstudaginn 18. júlí , 72 ára að aldri, eftir stutta baráttu við illvígan sjúkdóm. Sá sem þetta skrifar naut vináttu  Jóns í hálfa öld. Í átta ár vorum við vaktfélagar á fréttastofu Sjónvarpsins. Jón sinnti mest erlendum fréttum á sjónvarpsárunum. Á því sviði bjó hann yfir  yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu. Ekki síst var hann fróður um bandarísk stjórnmál. Hann skrifaði óteljandi greinar og fréttir frá Íslandi í erlend blöð og tímarit og stjórnaði sjónvarpsþáttum um erlend málefni. Hann kom víða við og stofnaði ásamt Áslaugu Guðrúnu konu sinni fyrirtækið Kynningu og markað, KOM, sem var brautryðjandi á sínu svið og naut trausts og virðingar.

 Jón Hákon Magnússon var drengur góður og sannur vinur. Hann var vandaður fagmaður sem kunni sitt starf og sinnti því af heiðarleika og trúmennsku. Molaskrifari saknar nú vinar í stað. Það gera margir. Far þú vel, góði vin.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband