25.11.2014 | 09:25
Molar um málfar og miðla 1621
Fyrrverandi starfsfélagi úr blaðamennskunni skrifaði (23.11.2014): ,, ,,Frakkar eru nú þegar með níu herþotur staðsettar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Þessi málsgrein er af Mbl.is í dag. Þarna er orðinu staðsettar algerlega ofaukið. Því færri orð því betri stíll í fréttum. Þetta var verið að reyna að kenna okkur ásamt öðru af málfarsráðunautum hér á árum áður. Ég hef áður minnst á orðskrípið meðlimur. Fleira má telja og verður gert síðar. Molaskrifari þakkar gott bréf.
Molavin skrifaði (22.11.2014): "Forsetinn tilkynnti aðgerðaráætlun sína í nótt..." sagði í sjónvarpsfrétt RUV (21.11.2014) um sjónvarpsávarp forseta Bandaríkjanna kvöldið áður. Það er villandi þegar fréttamenn nota íslenskar tímasetningar um erlenda viðburði. Gefur jafnvel til kynna að forsetinn hafi rofið dagskrá sjónvarps að næturþeli. Vitaskuld átti að segja að forsetinn hafi kunngjört áætlun sína "í gær" þótt flestir Íslendingar hafi þá fyrir löngu verið búnir að slökkva á sjónvarpinu og sofnaðir. Réttmæt ábending. Molaskrifari þakkar bréfið.
Halldór Högurður skrifaði (23.11.2014): ,,Sæll vertu. Ég veit ekki hvaða "brydd" þetta er en fannst skrítið að sjá hlekk á facebook með textanum "Íslensk hjón skelltu sér með núll fyrirvara til London til að brydda upp á tilveruna."
Að brydda upp á nýjungum kannast ég við en bryddar maður upp á tilveruna? Nema maður sé kannski löngu skráður látinn og nái undraverðum bata? Molaskrifari kannast ekki við þetta heldur. Þakka fyrir bréfið.
Molaskrifari upplifir það ævinlega sem þvingun af hálfu Ríkissjónvarpsins þegar hann er neyddur til að horfa á eða hafa opið fyrir íþróttafréttir , vilji hann horfa á veðrið. Hversvegna mega veðurfréttirnar ekki fylgja fréttum eins og þær hafa gert frá upphafi sjónvarps á íslandi. Hversvegna var þessu breytt? Er það að neyða fólk til að horfa á íþrótttafréttir?
Í fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (21.11.2014) var okkur sagt að fyrir tveimur árum hefði Hanna Birna Kristjánsdóttir gjörsigrað prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Prófkjörið bara steinlá! Hanna Birna sigraði ekki prófkjörið. Hún vann sigur í prófkjörinu. Í sama fréttatíma var mjög góð samantekt með dagsetningum um feril lekamálsins frá upphafi. Skýrari umfjöllun um málið en var í fréttum Ríkissjónvarps sama kvöld.
Það var ekki nákvæmt sem fram kom í fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (22.11.2014) að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði lýst einróma stuðningi við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Það kom hvergi fram að stuðningurinn hefði verið einróma. Það geta menn séð ef skoðaðar eru fréttir um fundinn og ummæli formanns flokksins eftir fundinn. http://m.visir.is/forsida/Frett?ArticleID=2014141119616
Í þættinum Morgunútgáfan í Ríkisútvarpinu verður klukkan stundum ekki neitt. Heldur dettur klukkan í eitthvað (24.11.2014). Klukkan er að detta í hálf níu! Hvað skyldi málfarsráðunautur segja um þetta?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.11.2014 | 07:14
Molar um málfar og miðla 1620
Molavin skrifaði (22.11.2014) : ,,Í fyrirsögn á Netmogga (21.11.2014) segir m.a.: "Hefur grætt milljónir á nammisölu" Hér eru dæmigerð skrif frá fréttabarni. Þótt barnaorðið "nammí" hafi náð nokkurri útbreiðslu í talmáli, gert af ungbarnahjalinu "nammí-namm" er ástæðulaust að nota það í fréttaskrif í blaði, sem hefur alltaf viljað taka sig alvarlega, sem fréttablað amk. Sælgæti er hið hefðbundna orð. Satt og rétt. Þakka bréfið.
Á vef Ríkisútvarpsins (20.11.2014) segir: ,, Efling hefur sent ræstingarfyrirtækinu bréf þar sem bent er á að fjölmörg atriði sem tengjast kjörum og aðbúnaði sé verulega ábótavant. Hér ætti að tala um að fjölmörgum atriðum væri ábótavant. Ekki að fjölmörg atriði sé ábótavant. Sjá: http://www.ruv.is/frett/keyra-kjorin-nidur-fyrir-botninn
Ætti ekki líka að tala um ræstingafyrirtæki, fremur en ræstingarfyrirtæki?
Í þessari frétt http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/20/mannlaus_trukkur_olli_miklu_tjoni/
á mbl.is (20.112014) segir frá því er mannlaus flutningabíll rann af stað og olli talsverðu tjóni. Í fréttinni segir meðal annars: ,, Flutningabifreiðin rakst á bifreiðar, ók niður brunahana og rakst á endanum á húsnæðið. Molaskrifara finnst það undarlegt orðalag að bifreið segja að hafi rekist á húsnæði. Bifreiðin rakst á hús. Í fréttinni segir enn fremur: ,, Vörubíllinn er töluvert tjónaður ... Átt er við að vörubíllinn hafi skemmst talsvert.
Ný ambaga hefur skotið upp kollinum í vélrænum þýðingum fésbókar: Nú eru menn farnir að líka við athöfnið mitt!!
Íslensk getspá er komin á 2007 línuna í auglýsingum. Fyrirtækið auglýsir, að þeir, sem hljóti veglegan vinning, geti notað andvirði til að snatta innanbæjar á þyrlu. Ósköp er þetta nú eiginlega hallærislegt! https://mail.google.com/mail/u/0/?shva=1#inbox/149d2379c159057d
Molalesandi sendi eftirfarandi (21.11.2014):,, Ölgerð Egils Skallagrímssonar er með úrval af Kristal + drykkjum.
Þar af er einn með eftirfarandi bragði:
Bláberja- og limebragð.
Limebragð? Það er til íslenskt orð yfir frænku sítrónunnar. Það er límóna. Þetta er hárrétt ábending. Molaskrifari þakkar bréfið.
Það er alltaf heldur hvimleitt að heyra spyril spyrja um eitthvað sem viðmælandinn er þegar búinn að segja. Ber með sér að sá sem spyr hefur ekki hlustað. Þetta mátti heyra undir lok Morgunútgáfunnar á föstudag (21.11.2014) er spurt var um útkomutíma geisladisks. Í sama þætti var talað um að ,,stækka vatnsmagnið í Bláa lóninu. Auka vatnsmagnið.
Orðbragð Ríkissjónvarpsins var skemmtilegt og fræðandi að venju í gærkveldi (23.11.2014), - ekki síst þar sem bent var á skiltavillurnar,sem eru ótrúlega víða og ótrúlega margar. En hvaða máli skiptir það hvort fleiri orð eru karlkyns en kvenkyns? Það hefur nákvæmlega ekkert með jafnrétti kynjanna að gera. Það sem Guðrún Þórhallsdóttir málfræðingur sagði um þetta var mjög gott. Kjarni málsins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2014 | 07:22
Molar um málfar og miðla 1619
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins eru of margar misfellur í málfari. Að morgni fimmtudags (20.11.2014) var talað um að versla jólagjafir á netinu og fara í mollin. Við kaupum jólagjafir og moll er hallærisleg enskusletta (shopping-mall). Íslendingar tala um að fara í Kringluna eða fara í Smáralindina. Svo var okkur sagt að klukkan væri alveg að detta í hálf átta. Hún hefur vonandi ekki skemmst í fallinu.
Molaskrifari veit ekki hvaða málfarskröfur eru gerðar til þeirra sem falið er að sjá um fasta þætti í Ríkisútvarpinu. Í þessum hætti hafa ekki verið gerðar strangar kröfur til allra, sem þar koma við sögu.
Grunnhugmyndin á bak við Rás tvö á sínum tíma var að geta boðið hlustendum ólíkt efni á tveimur útvarpsrásum. Nú er sama efnið flutt á báðum rásum Ríkisútvarpsins frá klukkan hálf sjö á morgnana til klukkan níu. Getum við ekki fengið þátt á aðra rásina þar sem er meiri tónlist, minna um innihaldslítið fjas og umfram allt minna um málblóm, færri ambögur?
Kosið verður um vinnumatið, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps (19.11.2014). Skyldu margir listar verða í framboði? Það verða greidd atkvæði um vinnumatið, ekki kosið um það.
Gamall vinur og skólabróðir sem lengi hefur verið búsettur í útlöndum skrifaði (20.11.2014): ,,Sá þetta í bloggheimum:
Guðrún Konný Pálmadóttir · Virkur í athugasemdum · Skóli Lífsins
Ömurð í einu orði sagt!
Hef ekki séð þetta áður. Hreint ágætt orð! Molaskrifari tekur undir og bætir við að Guðrúnu Konnýju þekkir hann að góðu einu frá fornu fari. Ekki hissa þótt hún fáist við orðasmíð.
Af mbl.is (220.11.2014):,, Buster ersex ára springer spanielhundur og starfsmaður lögreglunnar á Selfossi ... Molaskrifari veit að það getur verið hundur í starfsmönnum og menn geta verið með hundshaus, en að hundar séu starfsmenn er nýtt fyrir honum. En sennilega hefur hann ekki hundsvit á þessu.
Í íþróttafréttum Ríkisútvarps (20.11.2014) var sagt um þjálfara að hann væri spenntur fyrir leiknum í kvöld. Að vera spenntur fyrir einhverju hefur í huga Molaskrifara alltaf þýtt að hafa mikinn áhuga á einhverju. Að vera spenntur fyrir einhverjum/einhverri gæti þýtt að vera svolítið skotinn. Þjálfarinn var samkvæmt málkennd Molaskrifara spenntur vegna leiksins í kvöld.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.11.2014 | 08:29
Molar um málfar og miðla 1618
Molaskrifari er ekki sérstaklega viðbrigðinn. En honum verður oft hverft við, þegar hann hlustar á þægilega lesnar tilkynningar / auglýsingar á Rás eitt,meðan beðið er eftir fréttum, en svo er hljóðstyrkurinn allt í einu aukinn og byrjað er að æpa á okkur undir yfirskini auglýsinga. Ríkisútvarpið ætti sem fyrst að láta af þessari hvimleiðu nýjung.
Í málfarsspjalli þættinum Sirrý á sunnudagsmorgni á Rás tvö (16.11.2014) var meðal annars vikið að málfari í auglýsingum. Rétt er það , sem þar kom fram, að margt mætti þar betur fara. Það er eins og of margar auglýsingastofur skorti metnað til að gera vel í þessum efnum. Auglýsingastofur semja auglýsingar þar sem tönnlast er á slettunni Tax-free, sem ekki er íslenska og er líka ósönn fullyrðing, því enginn sleppur við að borga skatt af því sem þarna er auglýst Verið er að veita afslátt, sem nemur ekki einu sinni upphæð virðisaukaskattsins eins og ranglega er gefið í skyn. Auglýsingastofur gætu tekið sig saman um að útrýma þessari slettu. Og öðrum slettum sem þær hafa innleitt eins og bröns. Gæti sem best heitið dögurður, eins og lagt hefur verið til.
Ríkisútvarpið getur líka lagt fram sinn skerf í þessum efnum og fylgt reglunni, sem enn er í gildi um að auglýsingar skuli vetra á lýtalausri íslensku. Þeirri reglu er ekki fylgt. Auglýsingadeild Ríkisútvarpsins virðist taka við öllu sem að henni er rétt og birta allt sem borgað er fyrir. Þessu getur Ríkisútvarpið breytt, ef vilji er til staðar. Það er á valdi Ríkisútvarpsins að bæta málfar í auglýsingum í Ríkisútvarpinu.
Gaman var á þriðjudagskvöld (18.11.2014) að hlusta á dr. Kristján Eldjárn hefja lestur nýrrar kvöldsögu, Eiríks sögu rauða á Rás eitt. Lesin inn á band fyrir meira en hálfri öld. Margar gersemar eru í segulbandasafni Ríkisútvarpsins. Okkur ber skylda til að tryggja varðveislu þeirra. Margt mun nú liggja þar undir skemmdum. Þar er efni sem ekki má fara forgörðum.
Tók málið í eigin hendur, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (19.11.2014).Ekki rangt. En sterkt er í íslensku að tala um að taka málin í sínar hendur. Láta til skarar skríða, hefja verkið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.11.2014 | 07:12
Molar um málfar og miðla 1617
Tvímælalaust hefur kvikmyndaval Ríkissjónvarpsins batnað undanfarna mánuði. Enn meiri framför hefur þó orðið í vali heimildamynda til sýninga þar á bæ. Fjölbreyttara efni, nýrri myndir, fréttaskýringaþættir öðru hverju og áhugaverðara efni þegar á heildina er litið, að ekki sé sagt svona heilt yfir eins og hver fjölmiðlungurinn étur upp eftir öðrum um þessar mundir ! Þetta er skoðun Molaskrifara, sem hættir kannski stundum til að gagnrýna of margt og vera spar á hrósið. En þetta geta flestir sennilega tekið undir.
Steini skrifaði (16.11.2014): "Þetta er ekki eitthvað sem við gerðum illa eða þeir gerðu vel, heldur er þetta sambland af hvoru tveggja." (mbl.is 16. nóv, á degi íslenskrar tungu) -segir þjálfari landsliðs í fótbolta eftir leik við Tékka og er hvorki betri né verri í að tjá hugsun sín á mæltu máli en margir íþróttamenn sem teknir eru tali í fjölmiðlum...
...þegar viðmælendur láta svona speki út úr sér eiga blaðamenn að spyrja hvað verið sé að meina. - Molaskrifari þakkar bréfið.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (18.1l.2014) vitnaði umsjónarmaður í DV og talaði um þrenn símtöl. Á forsíðu DV þennan dag er fyrirsögn með stóru letri: Þrjú símtöl á lekadegi. Umsjónarmaður hefur ef til vill ætlað að leiðrétta DV, en þarna var ekki leiðréttingar þörf. Ekkert við fyrirsögn DV að athuga. Að tala um þrenn símtöl er út í hött og rangt. Gera verður kröfur til umsjónarmanna þátta í Ríkisútvarpinu að þeir hafi betra vald á móðurmálinu, en þetta dæmi sýnir. Því miður fljúga ambögurnar frá þessum þætti um ljósvakann á morgnana.
Af visir.is (17.11.2014): Gangandi vegfarandi í borginni Guadalajara í Mexíkó ofbauð framkoma ökumanna í borginni á dögunum. Hér ætti að standa: Gangandi vegfaranda ofbauð .... http://www.visir.is/ofbaud-framkoma-okumanna/article/2014141119021
Í útvarpsþætti á laugardagskvöld (15.11.2014) var talað um annasamt fólk. Það er ekki rétt notkun þess orðs. Átt var við fólki í önnum, fólk sem átti annríkt, önnum kafið fólk.
Tískuorð spretta upp og hverfa svo , - oftast nær. Mjög er í tísku um þessar mundir að samsinna, jánka einhverju með því að segja algjörlega. Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins notaði umsjónarmaður þetta orð tvisvar sinnum á sömu mínútunni. Í þættinum Sirrý á sunnudagsmorgni á Rás tvö (16.11.2014) var rætt um ofnotkun orðsins geðveikt, sem nú er í tísku sem slanguryrði um eitthvað sem er stórkostlegt eða mjög gott. Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins samsinnti með því að segja: Algjörlega! ,,Geðveikt gaman er fyrirsögn í DV (18.-20.11.2014).
Það var annars fróðlegt og skemmtilegt að hlýða á athugasemdir hlustenda um íslenskt mál í þessum þætti. Þar var minnst á margt sem nefnt hefur verið í Molum og gaman að finna lifandi áhuga fólks á tungunni, - sem Molaskrifari skynjar ærið oft, þegar honum eru þökkuð þessi skrif. Nánari verður vikið að þessu spjalli um tunguna í Molum síðar, - en Molaskrifari hrökk svolítið við þegar sagt var undir lokin að nú þyrfti að setja auglýsingapakka í loftið. Auglýsingapakkar og íþróttapakkar eru pakkar sem við getum alveg verið án. Þeir koma óþarflega oft við sögu í Ríkisútvarpinu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2014 | 08:28
Molar um málfar og miðla 1616
Molavin skrifaði (17.11.2014): ,,Sumar ábendingar þarf að endurtaka einum of oft og virðist samt varla duga. Í kvöldfréttum Útvarps (17.11.2014) gerði fulltrúi Landhelgisgæslunnar með skýrum og góðum hætti grein fyrir ýmsum rekstrarmálum varðskipa - en talaði samt um "áhafnarmeðlimi" þeirra. Þessi samsetningur er óyrði, óværa í málinu þegar við eigum til svo sígilt orð sem "skipverji." Molaskrifari þakkar bréfið og tekur undir það sem þar er sagt. Aldrei er góð vísa of oft kveðin.
Úr frétt á vef Ríkisútvarpsins (14.11.2014) um geimfar sem lenti á halastjörnu:,, Það situr í skugga klettar á halastjörnunni og því ljóst að það fær ekki sólarljós til að hlaða rafhlöðurnar. Eignarfall nafnorðsins klettur er kletts, ekki klettar! http://www.ruv.is/frett/rafhlodur-philae-klarast-liklega-i-dag
Í Fréttatímanum (14.-16.11.2014) segir:,, Konur á aldrinum 16-24 ára versluðu um 85% alls þess fatnaðar ..... Enn einu sinni ruglað saman sögnunum að kaupa og versla. Hér hefði átt að segja að konurnar hefðu keypt um 85% alls þess fatnaðar ...
Stundum rekur mann í rogastans yfir spurningum fréttamanna. Í fréttum Ríkisútvarps (14.11.2014) var aðstoðarlögreglustjóri spurður um það hver væri stefna lögreglunnar í vændiskaupamálum!!! Á viðtalinu öllu var nokkur viðvaningsbragur.
Molaskrifari hefur alltaf gaman af að horfa á Útsvarið,- þótt mörgum þyki það staðnað. Þættirnir renna vel og lipurlega á skjánum. Það góða við svona þætti er að þeir gefa kost á þátttöku þeirra sem heima sitja, - og geta glímt við spurningarnar. Molaskrifari upplifir það oft að hann hefur ekki hugmynd um svör við spurningum, sem yngri þátttakendur fara létt með, en svo koma spurningar sem hann er aldeilis hissa á að þátttakendur skuli ekki svara samstundis !!! Þetta hefur líklega eitthvað með aldurinn að gera.
Úr frétt á mbl.is (15.11.2014): Konan er 23 ára og kemur frá Ítalíu. Æ algengara er að sjá svona tekið til orða. Betra hefði verið: Konan er ítölsk, 23 ára. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/11/15/fell_utbyrdist_og_slasadist_illa/
Sama dag var sagt í sama miðli: Í fyrra seldust 616 lítrar af jólabjór og hefur salan aldrei verið meiri. Sennilega hefur vantað þarna orðið þúsund. En þetta þarf kannski ekki að vera svo nákvæmt. Sólarhring seinna var þetta óleiðrétt á vef mbl.is.
Molalesandi benti á þetta á mbl.is (15.11.2014) : http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/11/15/fann_tviburasystir_sina_a_youtube/
Þarna segir: Fann tvíburasystir sína á youtube. Þetta var leiðrétt síðar.
Í fréttum Ríkisútvarps á sunnudag (16.11.2014) var talað um konungsfjölskylduna í Mónakó. Er ekki Mónakó furstadæmi og þjóðhöfðinginn fursti? Sama dag var sagt: ,,Honum var haldið í sama fangaklefa og breski hjálparstarfsmaðurinn ...... Fljótfærnisvilla: Honum var haldið í sama fangaklefa og breska hjálparstarfsmanninum ...
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.11.2014 | 09:04
Molar um málfar og miðla 1615
Lesandi sem lætur sér annt um móðurmálið þakkar Molaskrifin og segir: ,,Þessi fyrirsögn var á forsíðu Morgunblaðsins á dögunum. http://www.mbl.is/sport/fotbolti/2014/11/05/hjalmar_tekur_eitt_ar_til_vidbotar/
Þetta skrípi, ,,að taka allan fjandann (taka fund, taka göngutúr, taka sturtu) er margtuggið en kolrangt og fer einstaklega mikið í taugarnar á mér. Þó ekki jafn mikið og ,,actually og ,,basically.
Hjálmar verður í eitt ár til viðbótar.
Mér þótti skrítið að sjá þetta á forsíðu dagblaðs. Til skammar, ef ég á að segja eins og er.
Ég hlakka til að fylgjast áfram með síðunni góðu. Molaskrifari þakkar bréfið. Fyrirsögnin sem vitnað er til er af mbl.is (05.11.2014)
Þetta er orðið algengt orðalag: Úr Fréttablaðinu (13.11.2014) um hjón sem fengu vænan lottóvinning: ,,.... þegar í ljós kom að þau höfðu nú loks tekið stóra vinninginn. Tekið stóra vinninginn? Hreppt stóra vinninginn.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (13.11.2014) var sagt að Bandaríkjamenn hefðu boðað til sérstaks neyðarfundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Eðlilegra hefði verið að segja, að Bandaríkin hefðu óskað eftir að boðaður yrði sérstakur neyðarfundur í öryggisráðinu. Bandaríkin boða ekki fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.
Áskell skrifaði (13.11.2014): ,,Vandfundinn er miðill sem gerir jafn litlar kröfur til blaðamanna sinna og visir.is - og er þó samkeppnin umtalsverð. Á visir.is er fjallað um mann nokkurn í New York sem lamdi konu. Vefmiðillinn segir orðrétt um þennan mann: "Pena er fæddur í Dóminíska lýðveldinu til þess að spila hafnabolta".
Það er nokkuð ljóst að blaðamaðurinn sem snaraði textanum var ekki fæddur á Íslandi til þess að starfa við fjölmiðla. Molaskrifari þakkar bréfið. http://www.visir.is/article/2014141119450
Í Útsvari (14.11.2014) var sagt að haldin hefði verið keppni í sjómann. Hefði ekki verið eðlilegra að tala um keppni í sjómanni ?
Af pressan.is (16.11.2014) um ölvaða konu: Konan var látin renna af sér í fangageymslu. Það var og!
Mikill fjöldi sjúkrafluga á árinu, sagði í fyrirsögn á mbl.is (13.11.2014). betra og einfaldara hefði verið: Mörg sjúkraflug á árinu.
Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/13/mikill_fjoldi_sjukrafluga_a_arinu/
Sífellt er verið að rugla saman orðunum húsi, húsnæði og heimili. Síðast í fréttum Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (13.11.2014) Þar var talað um mann sem átti ekkert í heimili sínu. Hann átti ekkert í húsinu eða íbúðinni, sem hann bjó í.
Heilbrigðisráðherra sagði í fréttum Stöðvar tvö (13.11.2014) að hann tæki undir með Kristínu Ingólfsdóttir, háskólarektor. Það var og.
Það var auðvitað afburðasnjallt hjá Ríkissjónvarpinu að senda dagskrárgerðarmann til Færeyja sem hvorki talar færeysku né dönsku, - heldur bablar ensku við Færeyinga. Flandraþættir ,,Edduverðlaunahafans frá Færeyjum eru sama marki brenndir og Kanadaþættirnir á sínum tíma.
Hafðu það reglulega kósí, auglýsti Strætó á degi íslenskrar tungu (16.11.2014).
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.11.2014 | 07:27
Molar um málfar og miðla 1614
Í fréttum að undanförnu hefur aftur og aftur verið talað um að neita fyrir eitthvað í merkingunni að neita einhverju hafna einhverju. Sjá til dæmis Fréttablaðið bls. 4 á fimmtudag (13.11.2014) Kannski er hér verið að rugla notkun sagnarinnar að neita, saman við að þræta fyrir eitthvað. Molaskrifari kannast ekki við þetta orðalag, - að neita fyrir.
Svo hefur undanfarna daga verið talað um lúkningu málsins. Játningu aðstoðarmanns innanríkisráðherrans. Þessa notkun orðsins lúkning hefur Molaskrifari ekki heyrt eða séð áður. Átt var við lyktir máls, málalyktir, málalok. Orðið lúkning hefur hann hingað til aðeins heyrt merkingunni fullnaðargreiðsla, lúkning skuldar.
Rafn skrifaði (13.11.2014): ,,Sæll Eiður.
Tvöföld neitun getur verið viðsjárverð. Samkvæmt neðanritaðri klausu úr Netmogga kom markvörður Belga í veg fyrir að Íslendingar skoruðu ekki meira en eitt mark í tilgreindum boltaleik. Þetta er rangt. Íslendingar skoruðu eitt mark.
Hér hefði átt að segja: kom í veg fyrir að Íslendingar skoruðu meira en eitt mark . . . Þarna var einu litlu ekki ofaukið. Rétt ábending. Kærar þakkir, Rafn. Sjá: http://www.mbl.is/sport/efstadeild/2014/11/12/courtois_island_kom_mer_a_ovart/
Alltaf er fróðlegt að hlusta á Boga Ágústsson fjalla um erlend málefni á fimmtudagsmorgnum. Þar koma löng reynsla og þekking að góðu haldi. Í gær (13.11.2014) var hann með fróðlegt yfirlit um stjórnmál á Grænlandi í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Molaskrifari reynir að missa ekki af þessum pistlum Boga. Þeir eru reyndar einnig aðgengilegir á netinu.
KÞ benti á eftirfarandi og skrifaði (13.11.2014): http://www.visir.is/thurfti-ad-stokkva-vegna-funds-tengdum-fundi/article/2014141119484
Fyrirsögnin er: "Þurfti að stökkva vegna fundar tengdum fundi". Það er eins og blaðamenn geti ómögulega lært að beygja orðið "tengdur" rétt. (Sjá einnig orðalag í vefslóð.)
Stundum fullyrða fréttamenn meira en innistæða er fyrir. Í Kastljósi á miðvikudagskvöld (12.11.2014) var sagt að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði lýst fullkomnum stuðningi við innanríkisráðherra. Fullkominn stuðningur ætti að vera einróma stuðningur allra. Það kom hvergi fram.
Meira um sama mál: Í Síðdegisútvarpi á Rás tvö sama dag var innanríkisráðherra spurð hvort hún stæði við þau ummæli sín að Lekamálið svonefnda hefði verið ljótur pólitískur leikur. Ráðherra kom sér fimlega hjá að svara og spurningunni var ekki fylgt eftir. Að minnsta kosti var það ekki að heyra, þegar efnið var endurtekið í Speglinum. Spyrlar eiga að fylgja spurningum eftir. Ganga eftir svari. Til hvers er annars verið að spyrja?
Karlar hugsa ekkert mikið um jólakort eða jólagjafir, sagði umsjónarmaður í Morgunútgáfu Ríkisútvarspins í morgun (14.11.2014). Fordómar? Sleggjudómur? Er þetta ekki eins misjafnt og mennirnir eru margir?
Miðvikudagskvöldið (12.11.2014) var þriðja kvöldið í röð sem seinni fréttir Ríkissjónvarps ekki hófust á réttum tíma. Sjónvarpsmenn ættu að taka kollega sína á útvarpinu sér til fyrirmyndar. Þar er stundvísin nánast óbrigðul. Sama gildir um þær erlendu sjónvarpsstöðvar sem okkur eru aðgengilegar t.d. í sjónvarpi Símans. Þar er stundvísin í hávegum höfð.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2014 | 09:18
Molar um málfar og miðla 1613
Þegar ferjan fór að halla ískyggilega, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (11.11.2014). Betra hefði verið: Þegar ferjunni fór að hall ískyggilega, eða þegar ferjan fékk ískyggilega mikla slagsíðu. Í sama fréttatíma var sagt: Yfirgnæfandi hluti félagsmanna kaus með verkfallsaðgerðum ... Betra hefði verið: Yfirgnæfandi hluti félagsmanna greiddi atkvæði með verkfallsaðgerðum ...
T.H. sendi eftirfarandi vegna fréttar á mbl.is (12.11.2014): "Þeir Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa 17. maí 2012 veist í sameiningu með ofbeldi á fanga á Litla-Hrauni ..."
Þeir ... hafa ... veist ... á fanga.
Jæja, já. Það var og! Þakka sendinguna. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/12/enn_engir_yfirmatsmenn_domkvaddir/
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (11.11.2014) var talað um að sýkna fyrir. Menn eru dæmdir fyrir ... sýknaðir af ákæru ... Þetta var hárrétt í fréttum klukkan átta þennan morgun. Í ofangreindum þætti var einnig sagt um fréttaritarann í París að hann ætlaði að heyra í okkur. Eðlilegra hefði verið að segja að við ætluðum að heyra í Frey Eyjólfssyni fréttaritara í París. Leggja þarf meiri rækt við vandað málfar í þessum þætti. Umsjónarmenn eru misvel mál farnir.
Allar stöðvar slökkviliðsins hafa verið boðaðar á staðinn, var sagt í fréttum Ríkissjónvarps um eldsvoða í Bankastræti (11.11.2014). Stöðvar eru ekki boðaðar á staðinn! Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað út.
Hér hefur áður verið spurt: Hvað gengur seljendum BKI kaffis til með því að sýna íslenska fánann í hálfa stöng, þegar þeir auglýsa kaffið sitt? Fáni í hálfa stöng táknar fyrst og fremst sorg eða missi. Það er flaggað í hálfa stöng, þegar einhver kunnugur eða nákominn deyr. Það er líka siður að flagga í hálfa stöng meðan útför fer fram. Óskiljanlegt í kaffiauglýsingu og ekki fallegt á skjánum.
Í upp hafi fréttatíma Ríkisútvarpsins klukkan 1600 í gær (12.11.2014) var sagt: Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi fullan stuðning þingflokksins. Þetta var ekki rétt. Rætt var við Bjarna örstuttu síðar. Hann sagðist styðja Hönnu Birnu og kvaðst hafa fundið fyrir miklum stuðningi í þingflokknum. Þetta rímar ekki alveg saman. Ekki nákvæm eða vönduð vinnubrögð. http://www.ruv.is/sarpurinn/siddegisfrettir/12112014-0
Mér langar ..., sagði innanríkisráðherra í sjónvarpsviðtali á miðvikudags kvöld (12.11.2014). Það var og.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.11.2014 | 09:21
Molar um málfar og miðla 1612
Það er fjallað um þetta mál grúndígt í Morgunblaðinu í dag, (10.11.2014) var sagt í Morgunútgáfunni á Rás eitt. Allsendis óþörf sletta. Í sama þætti var einnig talað um bókakaffibókabúð. Molaskrifari hélt að bókakaffi væri bókabúð og kaffihús. Líka var sagt var því að bíll hafi ekið á ljósastaur og starfsmenn Orkuveitunnar hefðu verið kallaðir út til að tryggja ljósastaurinn ! Eru þeir farnir að sjá um tryggingar hjá Orkuveitunni? Voru þeir ekki kallaðir út til að loka fyrir rafmagn í staurinn? Í vaxandi mæli éta fjölmiðlungar þessa notkun sagnarinnar að tryggja hver eftir öðrum og kannski eftir lögreglunni. Bíllinn ók heldur ekki á ljósastaur. Bílnum var ekið á ljósastaur. - Það var fleira athugavert í upphafi þessa þáttar. Umsjónarmaður sagði að samningafundur í Kópavogsdeilunni hefði staðið í alla nótt og verkfalli verið afstýrt. Þarna virtist allt vera í hnúti. Og verkfallið héldi áfram! Deilan var leyst og ekkert var lengur í hnút. Fólk verður að skilja það sem það les eða segir við okkur. Fleira mætti tína til. Til dæmis það sem sagt var um gasdreifingu frá eldstöðvunum eystra. Ef umsjónarmaður hefði skoðað vef Veðurstofunnar ( eins og hvatt var til!) hefði hann ekki sagt að daginn eftir (11.11.2014) væri spáð vestlægri átt og gasmengun á Vestfjörðum! Það var einmitt ekki spáð neinni gasmengun á Vestfjörðum. Þarna skortir því miður stundum árvekni, skilning og vandvirkni. Ríkisútvarpið á að geta gert betur en þetta.
Oft hefur Molaskrifari lúmskt gaman af að lesa víndóma. Í Fréttatímanum (07.-09.11.2014) vakti þessi fyrirsögn athygli hans: Smakkaðu nokkur vín samtímis. Það er líklega einskonar vínblanda, eða kokkteill, eða hvað? Öllu hellt saman? Ekki mjög freistandi. Síðan segir um tiltekið vín: ,, ... úr Carmenereu þrúgunni sem er sólfrek og virðist henta vel til ræktunar þar því þetta er afbragðsvín. Berjaríkt og kryddað, eilítið lokað til að byrja með en klárlega í mildari kantinum og með skemmtilegum vanillukeim sem rúnnar vínið vel upp í lokin. Hentar vel með kjötmeti, jafnvel léttari bitum. . Ef Molaskrifari á að vera hreinskilinn þá finnst honum þetta, eins og víndómar svo oft, hálfgert bull.
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (10.11.2014): Uppgötvunin var gerð fyrir hálfgerða slysni þegar vísindamenn voru að rannsaka vírusa sem finnast í hálsum fólks. Molaskrifari hélt að hver maður hefði bara einn háls.
Eftirfarandi var haft eftir þingmanni Pírata á vef Ríkisútvarpsins í gær (11.11.2014): Ég fæ ekki tilfinningum fyrir heildinum í viðbrögðum ráðherrans - ég vil alltaf gefa fólki séns .... Skilur einhver þetta?
Meira af fréttavef Ríkisútvarpsins. Viðtengingarhátturinn vefst fyrir sumum. Hrafnhildur Ásta Þorvaldsdóttir, forstjóri LÍN, segir í samtali við fréttastofu að ef af verkfalli verði er ljóst að LÍN greiði ekki út námslán fyrr en niðurstöður prófa liggi fyrir. Hér ætti að standa - sé ljóst, - ekki er ljóst. Ekki satt?
Kvöld eftir kvöld seinkar seinni fréttum Ríkissjónvarpsins. Afsakanir í upphafi fréttatíma, en engar skýringar. Hvað veldur? Kæruleysi? Stundvísi í dagskrá er mikið metnaðarmál sjónvarpsstöðva. Ekki þó í Efstaleiti. Undarlegt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)