Molar um málfar og miðla 1631

  

Ýmislegt athyglisvert kom fram í fyrsta þætti Hringborðsins í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (08.12.2014). Samtalið komst þó ekki almennilega í gang fyrr en þátturinn var um það bil hálfnaður. Of löng inngangsræða átti kannski einhvern þátt í því. Svo er það þannig að þegar tveir, eða jafnvel þrír, tala hver ofan í annan, þá heyrum við, sem heima sitjum, ekkert nema hávaða.. En þetta á eftir að slípast og í rauninni hefði þátturinn mátt vera aðeins lengri, þegar samtalið var loksins orðið samtal. Góð tilbreyting í dagskránni, en helsta gagnrýnin á þáttinn fyrir fram var að stjórnendur væru of gamlir! Það kom hreint ekki að sök. Reynsla og minni á sögulegt samhengi skiptir nefnilega máli líka, - að muna lengra til baka en til dagsins í gær eða ársins í fyrra. Fróðlegt verður að sjá næsta þátt í byrjun nýs árs.

 

Í Morgunútgáfunni í morgun (09.12.2014) var ágæt um umræða um málfar, t.d. beygingu ýmissa skyldleikaorða, móður, bróður, föður, systur, til dæmis, sem aftur og aftur sést ranglega farið með. Sömuleiðis var talað um orðtök eins og á sömu nótum og svipuðum nótum. Sífellt stjórnendafliss var samt hálfgerð feilnóta. Undarleg skilaboð sem flutt voru í lok þáttarins voru á þann veg, að ef fólk ætlaði að,,taka veikindadag” væri dagurinn í dag vel til þess fallinn. Á annan veg gat Molaskrifari ekki skilið þetta.  Var þetta bara aulafyndni?

 

Markið var skorað fyrir framan nánast enga áhorfendur. Úr íþróttafréttum Ríkissjónvarps (005.12.2014). Gaman að þessu!

 

Út er komin bók með efni hinna ágætu sjónvarpsþátta Orðbragðs.

Auglýsingar um bókin eru ansi líkar dagskrárkynningum Ríkisútvarpsins um þessa sömu þætti. Molaskrifara finnst þetta vera á mörkum þess sem eðlilegt er í auglýsingum og dagskrárgerð.

En mikið var gaman að viðtalinu við Maríu í síðasta Orðbragðsþætti (07.12.2014). Stúlkuna sem talar átta tungumál, sem svo sannarlega eru ekki öll á hvers manns færi.

 

Hvað eftir annað var fyrir helgina talað um góðan gang í gosinu í Holuhrauni. Sem sagt, eldgosið gekk mjög vel!

 

Í íþróttafréttum á laugardagskvöld (06.12.2014) var rætt við spilandi aðstoðarþjálfara. Hefur heyrst áður. Þar var líka talað um að hamra boltann í netið. Svo var það bavíaninn sem birtist á golfvelllinum. Bavíanum lét sér fátt um finnast, sagði íþróttafréttamaður. Lét ekki bavíaninn sér fátt um finnast? - Honum fannst golfið greinilega ekki mjög merkilegt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1630

 

Úr frétt á mbl.is (05.12.2014): Húsið hef­ur tekið gagn­ger­um end­ur­bót­um og gistu fyrstu gest­ir Apó­tek hót­els þar síðustu nótt. Hér hefði að mati Molaskrifara farið betur á því að tala um að gagngerar eða gagngerðar endurbætur hafi verið gerðar á húsinu. Eða að húsið hafi tekið algjörum stakkaskiptum.  Ekki að það hafi tekið endurbótum.

 

Undirfyrirsögn í Garðapóstinum (04.12.2014): Eldvarnaátak LSS og slökkviliðanna var formlega opnað í Flataskóla í Garðabæ. Átak er ekki opnað. Það hefst.

 

Í síðdegisþætti á Rás eitt á föstudag (05.12.2014) sagðist umsjónarmaður ætla að spyrja Víking Heiðar Ólafsson hvernig díl hann hefði gert ... (væntanlega við nýjan umboðsmann). Ekki til fyrirmyndar að taka þannig til orða.

 Í sama þætti var þjóðsöngurinn leikinn í svolítið óvenjulegri útgáfu Stórsveitarinnar. Allt gott um það, en þjóðsöngurinn var ekki leikinn til enda, heldur var hljóðið dregið niður í miðju kafi til þess að koma að auglýsingum ! Auglýsingadeildin ræður miklu í dagskránni. Molaskrifari er nú svo gamaldags, að hann fellir sig ekki við að Ríkisútvarpið byrji að leika Ó, guð vors lands, en hætti í miðju kafi til að flytja auglýsingar! Ef byrjað er að flytja þjóðsönginn á að flytja hann til enda. Það er bara þannig.

 

Að minnsta kosti ein útvarpsstöð sérhæfir sig í að kynna og auglýsa, beint og óbeint, margs konar kínalífselexíra (snákaolíu, eða platlyf, sem stundum er talað um), og allskyns fæðubótarefni, svokölluð, sem eiga að gera kraftaverk til að bæta hvers kyns mein bæði andleg og líkamleg. Stundum efast maður um þær fullyrðingar, sem hafðar eru uppi um þessar vörur. Í heilsíðuauglýsingu í DV á föstudag (05.12.2014)voru auglýstar töflur sem fullyrt var að bættu skammtíma minnið. Er það rétt? Hefur það verið rannsakað? Er þetta stutt vísindarökum? Í sömu auglýsingu er auglýst efni, sem fullyrt er að auki hárvöxt. Er það rétt? Hefur það verið rannsakað? Eða er þetta skrum eins og de-tox bullið sem reið húsum flestra fjölmiðla fyrir nokkrum misserum, en heyrist nú ekki nefnt?

Neytendur eiga að geta treyst því sem fullyrt er í auglýsingum af þessu tagi.

Það glaðnaði yfir Molaskrifara, og veitti ekki af, segja sjálfsagt sumir, á miðvikudagskvöld (03.12.2014) þegar veðurfréttir komu strax í kjölfar frétta í Ríkissjónvarpinu. Hann vonaðist til að nú væri búið að færa veðurfréttir aftur á sinn gamla stað. Það reyndust falsvonir. Bein útsending frá boltaleik hófst nefnilega strax að veðurfréttum loknum. Þess vegna var sérstökum íþróttafréttatíma sleppt. Molaskrifari hefur það eftir traustum heimildum, að ákveðið hafi verið að troða sérstökum íþróttafréttatíma milli frétta og veðurfrétta til þess að auka áhorf á íþróttafréttir. Kannski hefur það tekist. Við sem heima sitjum erum varnarlaus.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1629

  

Eins og sjálfsagt þorri þjóðarinnar horfði Molaskrifari bergnuminn á Kastljós gærkvöldsins (04.12.2014) þar sem teymi snillinga með Tómas Guðbjartsson skurðlækni í fararbroddi vann afrek á heimsmælikvarða. Þetta var eiginlega ótrúlegara en orð fá lýst. Þau sem þetta afrekuðu mega vera stolt og við stolt af því að eiga þau að. Þetta fólk megum við ekki missa. Afrek á borð við þetta verða ekki til fjár metin. Eitt eftirminnilegasta Kastljós, sem Molaskrifarari minnist að hafa séð. Efnið var líka mjög vel og fagmannlega  framsett og sniðið á skjáinn. Takk.

Í kjölfarið fylgdi ágætt viðtal við Ólöfu Nordal nýjan innanríkisríkisráðherra. Skynsamlegt val hjá formanni Sjálfstæðisflokksins. Kom öllum í opna skjöldu og treysti sig um leið í sessi.

Lokakafli Kastljóssins var hallærislegur antiklímax ( ef Molaskrifara leyfist að nota það orð). Þetta innanhússsamtal starfsmanna, -sjónvarpsfólk talaði við sjónvarpsfólk um sjónvarpsþátt, átti ekkert erindi í fréttaskýringaþátt.

 

Í útvarpsauglýsingum (02.12.2014) er okkur sagt að Hjálparstofnun kirkjunnar byggi brunna. Ekki hefur Molaskrifari heyrt það orðalag áður. Brunnar eru venjulega grafnir. Það er líklega erfitt að byrgja brunn sem hefur verið byggður.

 

Tólf fellibylir, sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (03.11.2014). Fleirtalan af bylur er byljir. Tólf fellibyljir, hefði þetta átt að vera.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (03.12.2014) var rætt um að ef til vill mætti setja svokallað amnesty-ákvæði í íslensk skattalög. Einfaldara hefði verið að tala við hlustendur á íslensku og tala um ákvæði um sakaruppgjöf.

 

Þakka þér fyrir, Jóhanna, sagði fréttamaður, sem las fréttir í Efstaleiti (04.12.2014) við fréttamann sem talaði úr Alþingishúsinu. Gjörðu svo vel, sagði fréttamaðurinn,sem þakkað var. Þetta finnst Molaskrifara ekki til fyrirmyndar en heyrist nokkuð oft ,- of oft, satt best að segja.

 

Mikið af góðum skriffinnum starfar á auglýsingastofum við textagerð. Ekki er hægt að hrósa þeim, sem samdi texta útvarpsauglýsingar, sem hljómar svona: Ví æ pí og Hornafjarðarhumar. Þessi auglýsing er ekki á íslensku nema að hálfu leyti. Það líka ljót sletta, þegar símafyrirtækið Vódafón auglýsir kjör sem kennd eru við red áskrift. Auglýsing í hádegisútvarpi (04.12.2104) hljómaði svona: Við fílum kúlið. Alla vega heyrði Molaskrifari ekki betur . Hversvegna er ekki talað við okkur á íslensku? Mikla sök eiga hér auglýsingastofur og kannski mesta auglýsingastofa Ríkisútvarpsins, sem tekur gagnrýnilaust við öllu sem að henni er rétt.- Eins og hér hefur oft verið sagt. Þar er gæðaeftirlit ekki til staðar og ekki farið eftir þeim reglum sem Ríkisútvarpið hefur sjálft sett sér. Er ekki heiðarlegast að afnema reglurnar fyrst þær eru ekki í heiðri hafðar?

 

Í Morgunútgáfunni (04.12.2014) var sagt að Mótettukór Hallgrímskirkju hefði unnið til þriggja verðlauna. Vann ekki þessi frábæri kór  til þrennra verðlaun?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1628

 

Molaskrifara heyrðist málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins segja í Morgunútgáfunni (02.11.2014) að hún væri ekki á móti slettum! Málfarsráðunautur kann væntanlega skil á málstefnu Ríkisútvarpsins.

Þar segir: ,,Ríkisútvarpið skal samkvæmt lögum leggja rækt við íslenska tungu og menningu og hefur mikilvægu fræðslu- og uppeldishlutverki að gegna á þessu sviði.

  Allt málfar í Ríkisútvarpinu á að vera til fyrirmyndar og allt sem frá því kemur á vandaðri íslensku.

  Erlend orð sem ekki verður komist hjá að nota ber að laga að íslensku málkerfi eftir því sem fært þykir og góð venja býður.

  Starfsmönnum Ríkisútvarpsins ber að kynna sér málstefnuna og haga störfum sínum í samræmi við hana.”

 

Það er eins og notkun viðtengingarháttar sé á undanhaldi. Þess verður stundum vart í fréttaskrifum, að þeir sem skrifa fréttir kunni ekki að nota viðtengingarhátt.

Í leiðara Fréttablaðsins á mánudag (01.12.2014) segir: ,,Reyndar færist í vöxt að til að mynda ráðherrar eru í skjóli aðstoðarmanna sinna”. Hér hefði Molaskrifara þótt eðlilegra að sagt væri: ,, Reyndar færist í vöxt að ráðherrar séu í skjóli aðstoðarmanna sinna.”

 

Hverra hagsmuna ráðherra væri að ganga, sagði fréttamaður í Ríkissjónvarpi (02.12.2014). Hér hefði átt að tala um að gæta hagsmuna ekki ganga hagsmuna. Kannski bara mismæli.

 

Molalesandi skrifaði (02.12.2014): ,,Ágæti molaskrifari.

Mér er lífsins ómögulegt að skilja þessa fyrirsögn sem ég sá á dv.is „Fleiri þurfandi fyrir þennan skilning“. Áttar þú þig á því hvað hún merkir?

http://www.dv.is/frettir/2014/12/2/fleiri-thurfandi-fyrir-thennan-skilning/.

Svarið er stutt og skýrt: Nei.

 

Heimildamyndaval Ríkissjónvarpsins hefur farið stórum batnandi eins og hér hefur verið nefnt áður. Það var nokkur þó nýlunda að sjá finnska heimildamynd (um grísaflutninga) á skjá Ríkissjónvarpsins á þriðjudagskvöld (02.12.2014). Í dagskrárkynningum í Vikudagsránni og í Morgunblaðinu var reyndar sagt að myndin væri sænsk. En eitthvað hefur skolast til í reiknikúnstinni, þegar sagt var í texta að svínabú fyrir  600 gyltur hefði kostar tvo og hálfan milljarð evra! Það eru um 385 milljarðar íslenskra króna. Hótelsvíta fyrir hverja gyltu og grísi hennar hefði ekki kostað svo mikið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1627

 

Gamall skólabróðir og vinur, Sigurður Oddgeirsson, skrifaði frá Danmörku (01.12.2014):

,,Jón Steinar talar um hnífgradda í grein sinni á Eyjunni í dag.
Ég hef aldrei heyrt þetta orð, en hef engin tök á því að staðhæfa að það sé ekki til í málinu.
Graddi er auðvitað til í málinu, en það er þessi samsetning, sem bögglast fyrir brjósti mér.
Aftur á móti hef ég heyrt talað um hnífgrélu í merkingunni bitlaus, og hálf illa farinn hnífur (ryðgaður?).
Skildi Jón Steinar fara þarna orðavillt?”. Molaskrifari kannast vel við að talað sé um hnífgrélu, lélegan hníf. Hnífgraddi hafði hann ekki heyrt áður, en orðabókin geymir líka orðið hnífgraddi í nákvæmlega sömu merkingu, lélegur , slitinn, mjór hnífur. . Þannig að Jón Steinar er hér alveg á réttu róli.

 

(1.12.2014): Atli Rúnar Hauksson skrifaði (01.12.2014),,Sæll vertu og hafðu þökk fyrir eljusemina við að halda úti þessu fína málfarsbloggi ... Auðvitað væri betra að slík skrif væru óþörf ,en þau eru það aldeilis ekki!
Ég hjó eftir því að annar umsjónarmaður hins ágæta sjónvarpsþáttar Orðbragðs sagði við viðmælanda sinn í gærkvöld: Þú rústar HONUM. Heima í stofustólnum velti ég fyrir mér hvort það sé orðin viðurkennd firra, meira að segja á yfirlýstum málvöndunarbæjum að rústa einhverju en ekki eitthvað. Þetta orðfæri sækir hratt á en ég felli mig bara ekki við það. Ef til vill telst máltilfinning mín að þessu leyti vera snertur af sérvisku en ég ætla áfram að rústa eitthvað, hvað sem líður ,,löggildingu" Orðbragðs frá í gær!
Óþægilega margt ber fyrir augu og eyru af furðuverkum. Í morgun las ég auglýsingu frá skemmtistaðnum Rosenberg við Klapparstíg, á ensku og ,,íslensku". Ég velti fyrir mér hvernig miðasölu er þar háttað. Auglýsingatextanum lýkur þannig:
Tickets: 1500 ISK
Tickets are sold at the door 
Miðaverð: 1500 kr.
Miðar eru seldir í hurðinni.

Molaskrifari þakkar hlýja kveðju og er sammála bréfritara um sögnina að rústa, - og telur það ekki neina sérvisku. En oft heyrist þó talað um og skrifað að rústa einhverju. Orðbragðsþátturinn á sunnudagskvöld var reyndar ekki með þeim bestu,  – að mati Molaskrifara.  

Auglýsingin frá Rosenberg er eiginlega dapurlega drepfyndin.

 

Ekki heyrði Molaskrifari betur en í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu í gærmorgun (02.12.2014), undir lok þáttarins, væri sagt í Dalvík. Málvenja er að segja á Dalvík.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1626

 

Fyrirsögn af mbl.is á föstudag (28.11.2014) ,Fljótsdalshérað hafði betur gegn Ölfuss”. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/11/28/fljotsdalsherad_hafdi_betur_gegn_olfuss/

Hafði betur gegn Ölfusi, hefði þetta átt að vera. En þegar sagt er sigraði lið Ölfuss þá er það rétt. Ef fréttaskrifarar eru í vafa um beygingar orða er einfalt og fljótlegt að styðjast við hinn ágæta vef Árnastofnunar, beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. http://bin.arnastofnun.is/forsida/

Sólarhring síðar stóð þetta óleiðrétt á mbl.is.

 

,,Með allar klær úti fyrir Kattholt,” er fín fyrirsögn á baksíðu DV sl. föstudag (28.11.2014). Fréttin er um fjáröflun fyrir Kattholt, athvarf fyrir flækingsketti. Önnur fyrirsögn var í sama blaði um knattspyrnumann sem trúlofaðist kærustunni sinni. Varla telst það nú mikil frétt.

 

,,Skotmörk eru talin beinast að ... “, var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (28.11.2014). Árásir beinast að... Skotmörk beinast ekki að einu eða neinu.

 

,,Þetta er munnleg tillaga, sem sett var fram í gær og hefur ollið talsverðum titringi ..”, sagði umhverfisráðherra í Ríkisútvarpi og sjónvarpi á föstudagskvöld (28.11.2014) . Hefur ollið. Það var og. Það eru fleiri en einstöku fréttamenn sem valda því ekki að nota sögnina að valda.

 

 Í fyrirsögn á visir.s (29.11.2014) var talað um að gefa viðtal.

http://www.visir.is/logreglustjorinn-a-hofudborgarsvaedinu-aetlar-ekki-ad-gefa-stod-2-vidtal-um-lekamalid/article/2014141128806

 Fyfirsögnin var: Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu ætlar ekki að gefa Stöð 2 viðtal um lekamálið. Málvenja er að tala um að veita viðtal eins og réttilega er sagt í fréttinni sem þessari fyrirsögn fylgir.

 

 Í illviðrinu um helgina varð röskun á flugi og aflýsa þurfti, eða fella niður ferðir. Góður vinur Molaskrifara sá á fésbók að tveimur kvöldflugum hefði verið aflýst. Hann velti því fyrir sér hvort hér væri um nýja flugutegund að ræða! Svo mun ekki hafa verið. Átt var við flugferðir að kveldi dags. Kvöldflug.

 

Molaskrifari hnaut um fyrirsögn greinar í Morgunblaðinu á laugardag (29.11.2014): Ert þú búin/búinn að taka samtalið? Taka samtal! Blaðamenn tala um að taka viðtöl, ræða við einhvern/einhverja.

Molaskrifara finnst ekki fara vel á því að tala um að taka samtal. Greinarhöfundur var að spyrja hvort foreldrar væru búnir að ræða við barn/ börn sín um nám og námsmöguleika. Molaskrifara fannst fyrirsögnin og orðalagið í greininni óttalegt klúður.

 

Rétt áður en fréttaþulur Stöðvar tvö setti sig í stellingar til að skipa áhorfendum ,,að fara ekki langt” þegar íþróttafréttir voru að hefjast, stillti Molaskrifari  á danska  sjónvarpið. Þar var verið að endursýna þátt úr gömlu þáttaröðinni ,,Já, ráðherra” (Yes, Minister). Þátturinn bar aldurinn vel. Ríkissjónvarpið mætti gjarnan endursýna þessa þætti.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1625

 

Í Spegli Ríkisútvarpsins (27.11.2014) þar sem fjallað var um vopnabúnað lögreglunnar hér á landi vitnaði fréttamaður í yfirlögregluþjón hjá ríkislögreglustjóra og sagði: Jón segir að vopnin verði ekki neydd upp á þá að svo stöddu. Ekki kann Molaskrifari allskostar vel við þetta orðalag. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að þeir yrðu ekki neyddir til að taka við vopnunum að svo stöddu ?

 

Af visir.is (27.11.2014): Hann segist ekki lítast vel á stöðuna á krabbameinsdeild á Landspítalanum. Hér hefði átt að segja til dæmis: Hann segir að sér lítist ekki vel á ....  eða, - honum líst ekki ekki vel á stöðuna. http://www.visir.is/article/20141127/FRETTIR01/141129119

 

Af mbl.is (28.11.2014): Við vor­um að spila heilt yfir vel bæði varn­ar­lega og sókn­ar­lega. Dæmigert íþróttamál sem oftar og oftar sést í dag

http://www.mbl.is/sport/

 

Aftur og aftur er talað um hljóstina í Ríkisútvarpinu, þegar átt er við hljómsveitina. Þetta var einkar áberandi hjá umsjónarmanni í Morgunútgáfunni (28.11.2014). Í sama þætti sagðist umsjónarmaður vera svona ,,slow learner” (tornæmur, væri ekki fljótur að læra) og aftur og aftur var talað um góða díla ,gera góðan díl. Gera góð kaup. Þennan sama morgun var sagt í þessum þætti: ,,Nú er komið að lífseiga lag dagsins”. Lífseiga lagi dagsins. Það var sönglag, ,,sem varð fljótlega að jassstandard”. Það verður að segjast eins og er, að málfarið í þessum þætti er stundum ekki upp á marga fiska.

 

Auglýsingin: Black Friday, megaútsala, sem hljómaði í í eyrum okkar hlustenda Ríkisútvarpsins á föstudagsmorgni ( 28.11.2014) hlýtur að vera liður í málverndarstefnu Ríkisútvarpsins. Auglýsingastofan í Efstaleiti tekur greinilega gagnrýnilaust við öllu sem að henni er rétt.

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á föstudag (28.11.2014) var sagt frá kosningum í Grænlandi. Um einn frambjóðandann var sagt : ,, hin vel menntaða ...” . Voru hinir frambjóðendurnir ekki vel menntaðir? Hversvegna þurfti að taka það sérstaklega fram um þennan eina frambjóðanda að hann væri vel menntaður ?

 

Hitastigið í Reykjavík og í Þórshöfn í Færeyjum nær ekki inn á Evrópukortið í veðurfréttum norska sjónvarpsins NRK. Ekki heldur inn á Evrópukortið í veðurfréttum BBC World fréttunum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1624

Molaskrifara var svolítið brugðið er hann hlustaði á upphaf kvöldfrétta Ríkisútvarpsins í gærkvöldi (27.11.2014) en í upphafi fréttatímans var sagt: Uppþot varð á Alþingi í dag .... Fyrst hvarflaði að honum að til slagsmála hefði komið í þingsal, enda skilur hann orðið uppþot með sama hætti og orðabókin; óeirðir, upphlaup. Svo kom í ljós að komið hafði til snarpra orðaskipta. Það var nú allt og sumt. Hófstilltara orðalag var í sjónvarpsfréttum seinna um kvöldið, en þar var talað um fjaðrafok.

 

Svo smám saman feidast þetta út, sagði umsjónarmaður Morgunútgáfu í Ríkisútvarpinu (26.11.2014). Hvimleiðar slettur í þessum þætti. Svo minnkar þetta smám saman, svo hverfur þetta smám saman. Í sama þætti var talað um að hindra óeirðir. Betra hefði líklega verið að tala um að koma í veg fyrir óeirðir. En það er kannski sérviska Molaskrifara.

 

Í þessum sama þætti var rætt við vin Molaskrifara í Færeyjum, Baldvin Þór Harðarson, sem sagði frá því að um leið og olíuverð lækkaði á heimsmarkaði lækkaði verð eldsneytis á bensínstöðvum í Færeyjum. Á Íslandi þekkjum við það að verðið hækkar hér um leið og heimsmarkaðsverð á olíu hækkar, en lækkanir skila sér ekki jafn fljótt til neytenda. Hin samræmdu íslensku olíufélög lækka verðið í nákvæmum takti fyrirvaralaust 2-3 sinnum í mánuði. Það stendur í einn dag. Svo samtaka eru þessi samræmdu félög að oftast líða aðeins nokkrar mínútur milli tilkynninga frá þeim um afslátt, verðlækkun. Þessi afsláttur er ekki í neinum tengslum við heimsmarkaðsverð á olíu , en fer stundum eftir velgengni íslenska liða í boltaleikjum erlendis. Samræmdu olíusalarnir á Íslandi hafa okkur neytendur að fíflum.

 

Af mbl.is (26.11.2014): Þess fyr­ir utan var nokkuð ósam­ræmi á milli framb­urða. Ekki er þetta nú tiltakanlega vel orðað. Hér hefði til dæmis mátt segja: Þar að auki var misræmi í framburði vitna. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/11/26/setti_byssuna_sjalfur_i_poka/

 

Úr fréttum Ríkissjónvarps (26.11.2014): ,,Á föstudaginn var greint frá því að Landhelgisgæslan og norski herinn hafi komist að samkomulagi um að vopn, sem bárust hingað til lands frá Norðmönnum, verði skilað”. Vopn verður ekki skilað. Vopnum verður skilað. Í sama fréttatíma var sagt frá óeirðum í Bandaríkjunum og heyrði Molaskrifari ekki betur en tekið væri svo til orða: ,,Í Minneapolis varð fólk heitt í hamsi, þegar akstursleiðum var lokað”. Fólki varð heitt í hamsi, fólk var í uppnámi og var ekki verið að loka götum ? Akstursleiðum?

 

Haldið var áfram að babla ensku við Færeyinga í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (27.11.2014). Í lokin var okkur sagt, að í næsta þætti færu strákarnir í gangnaferð. Hvað er gangnaferð?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1623

 

Málglöggur Molalesandi benti á eftirfarandi frétt á visir. is (24.11.2014).

http://www.visir.is/hardur-arekstur-a-akureyri/article/2014141129488

Í fréttinni segir: ,,Engir farþegar voru í bílunum og var þeim ekið úr andspænis áttum. Báðir voru því á grænu ljósi, en þó lentu bílarnir saman.” Ja, hérna. Úr andspænis áttum !

 

Annar lesandi benti á þetta, sem einnig er af visir.is (23.11.2014) http://www.visir.is/article/20141123/FRETTIR01/141129645

,,Kokklandsliðið býður upp á þorsk og lambamjöðm”! Hann bætir við ef til vill séu litlir bógar með mjaðmahnykk í landsliðinu. En fóru þeir ekki með sigur af hólmi? Molaskrifari man ekki betur. Miklir bógar í matargerð, hvað sem öðru líður..

 

Molaskrifari skorar á Ríkissjónvarpið að fá til sýningar tónleikana sem sýndir voru sl. sunnudagskvöld (23.11.2014) í Hovedscenen á NRK2. Þar söng Jonas Kaufmann með sinfóníuhljómsveit útvarpsins í Berlín lög úr ýmsum óperettum. Dásamlegur söngur og frjálsleg framkoma. Með Jonasi söng í lokin sópransöngkonan Julia Kleiter. Þetta var svo sannarlega góð skemmtun.

 

Þetta er úr frétt um breytingar við Borgartún í Reykjavík af visir.is (25.11.2014) http://www.visir.is/aetlad-ad-styrkja-gotumynd-borgartuns/article/2014141129351:

,, Bílastæði og fyrirkomulag verða í samræmi við borgarmiðað gatnakerfi og heildstæða götumynd en Borgartún hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum ...” Veit einhver Molalesandi hvað  borgarmiðað gatnakerfi er ? Molaskrifari veit það ekki og finnst þetta vera innihaldslaust orðagjálfur. Sandkassastjórar skipulags höfuðborgarinnar hafa gert breytingar til að torvelda umferð bíla um Borgartún. Það hefur tekist nokkuð vel. Sérstakir hjólreiðastígar hafa verið gerðir, en margir hjólreiðamenn kjósa fremur að hjóla á gangstígunum sem ætlaðar eru gangandi vegfarendum. Þessar breytingar hafa sennilega kostað milljónatug eða tvo. Lærðu menn ekkert af Hofsvallagötuvitleysunni? Greinilega ekki.

 

Í Kastljósi (255.11.2014) var fjallað um Stætó bs. Ótrúlegt hvað stjórnendur opinberra fyrirtækja telja sig geta komist upp með. DV stakk á kýlinu. Plús fyrir það. Helgi Seljan spurði stjórnarformann Strætó bs. hvort fyrirtækið bæri kostnað af því að skilað var aftur 10 milljón króna Benzjeppa, sem forstjórinn keypti í leyfisleysi. Þeirri spurningu var ekki svarað. Og ekki gengið eftir svari. Helgi Seljan, bjargaði sér annars með ágætum þegar verið var að lagfæra hljóðnema í beinni útsendingu sem ekki skilaði sínu! Enda vanur maður. – Fyrri hluti Kastljóssins átti ekki augljóst erindi í ,,beittan fréttaskýringaþátt” að mati Molaskrifara.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1622

 

Gaman að beinni útsendingu frá Færeyjum á Rás eitt á laugardagskvöld (22.11.2014), þótt upphafið væri slitrótt ,þegar tæknin brást. Bein útsending var svo að nýju frá Færeyjum í Morgunútgáfunni á mánudag (24.11.2014). Þar var til fyrirmyndar að tala við Færeyinga á íslensku, ekki babla ensku eins og gert er í Flandraþáttunum Ríkissjónvarpinu.

Á sínum tíma, þegar Molaskrifari starfaði í tæp tvö ár í Færeyjum, reyndi hann að vekja áhuga stjórnenda Ríkisútvarpsins á auknu samstarfi við Færeyinga í útvarps- og sjónvarpsmálum. Það tókst ekki. Áhuga skorti hjá yfirstjórninni í Efstaleiti. Nægur áhugi var í Færeyjum. Vonandi er áhugi Ríkisútvarpsins á grönnum okkar nú að vakna. Bogi Ágústsson er sá fréttamaður, sem helst hefur haldið merki Færeyja á lofti í Ríkisútvarpinu.

- Tvisvar sinnum var farið rangt með nöfn í þættinum á mánudag. Þar skorti á vandvirkni. Stjórnendur þurfa að venja sig af slettum. (ideal fyrir fiskeldi, standard Færeyingur). Eftir nokkuð langa Færeyjadvöl veit Molaskrifari ekki hvað standard Færeyingur er. Svo var okkur sagt að skítaveður hefði verið í Færeyjum á sunnudeginum. Molaskrifari upplifði aldrei skítaveður í Færeyjum. Það gat verið hvasst. Það gat rignt. Það gat verið slagveður, - ekki skítaveður.

 

Áður en ferðinni verður haldið til Ítalíu var sagt í íþróttafréttum Ríkisútvarps í hádeginu á mánudag (24.11.2014). Áður en haldið verður til Ítalíu. Sami íþróttafréttamaður sagði okkur frá knattspyrnumanni sem lagði skónna á hilluna. Lagði skóna á hilluna.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (23.11.2014) var talað um að bora fyrir grunnvatni. Hefði ekki verið eðlilegra að tala um að bora eftir grunnvatni?

 

Hver nemandi er þá að leysa prófin á eigin forsendum, sagði forstöðumaður Námsmatsstofnunar í fréttum Ríkissjónvarps (24.11.2014) . Molaskrifari játar að hann skildi þetta ekki.

 

Hestur sigrast á vatnshræðslu á mjög krúttlegan hátt, segir í fyrirsögn á mbl.is (25.11.2014). ???? http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/11/25/hestur_sigrast_a_vatnshraedslu_a_mjog_kruttlegan_ha/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband