23.12.2014 | 09:38
Molar um málfar og miðla 1641
Þorvaldur sendi eftirfarandi (21.12.2014): ,,Var að lesa frétt í vefmogga um franskan bílstjóra sem ók drukkinn. Fjórum sinnum er í fréttinni sagt að maðurinn hafi klesst á eitt og annað. Ekki lausir við barnamálið enn.
Á sömu síðu er sagt af björgun fótbrotins manns úr Esjuhlíðum. Þar segir að skjótum viðbrögðum björgunarliðs hafi verið að þakka að "maðurinn var ekki orðinn kaldur að neinu viti" !!! Ja, hérna, - það er ekki öll vitleysan eins. Þakka bréfið, Þorvaldur.
Í fréttum Stöðvar tvö (20.12.2014) var sagt: Viðbrögðin hafa ekki staðið á sér. Betra hefði verið að segja: Viðbrögðin létu ekki á sér standa.
Ekki heyrði Molaskrifari betur en að í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (22.12.2014) væri sagt að í enska fótboltanum væri annar dagur jóla kallaður Boxing Day! Það var og. Þetta er heitið á öðrum í jólum í Bretlandi!
Góður kunningi Molaskrifara úr blaðamannastétt vakti athygli á þessari frétt á vef Ríkisútvarpsins (22.12.2014): http://www.ruv.is/frett/gedsjukur-fangi-afplanar-a-kleppi
Hann segir meðan annars: ,,Hér er ósköp venjuleg frétt um mann sem er á flæðiskeri staddur, en það sem vekur athygli er að orðið úrræði kemur fyrir átta sinnum, þar af í tveimur tilvikum með forskeytinu búsetu-úrræði. Það má vekja athygli á þessu. Það er hér með gert og þakkað fyrir ábendinguna.
Margt má segja um þessa frétt,sem birist á visir.is (21.12.2014) http://www.visir.is/-helt-ad-velin-hefdi-ordid-fyrir-skoti-/article/2014141229922
Það kom alveg svakaleg birta og lýsti öllu upp. .... birtan lýsti allt upp.
...skilaboð frá flugstjóranum um að það hafi skollið elding á vélina. Eldingu laust í vélina. ... Þar var hann með bangsa sem hann var að versla fyrir jólin ... með bangsa sem hann var að kaupa fyrir jólin. Þarna var það ekki eitt, heldur næstum allt. Enginn les lengur yfir fréttir skrifaðar af viðvaningum áður en þær eru birtar.
Í fréttum nýlega talaði formaður fjárlaganefndar um að stoppa í leka. Við stoppum í göt, stoppum leka eða stöðvum leka.
Í fréttum Ríkissjónvarps (22.12.2014) töluðu bæði fréttamaður og viðmælandi um að Íslendingar þyrftu að samræma löggjöf sína að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Hér hefði Molaskrifari haldið að tala ætti um að samræma löggjöfina flóttamannasamningnum eða laga löggjöfina að flóttamannasamningnum. Ekki samræma að.
Af mbl.is (20.12.2014). Þar segir í fyrirsögn: Skelfilegt ástand í hliðargötum. Sjálfsagt er ástandið ekki gott vegna þess að það hefur snjóað og göturnar hafa ekki verið ruddar. En varla er ástandið skelfilegt. Varhugavert er að gjaldfella svona merkingu orða. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/20/skelfilegt_astand_i_hlidargotum/
Þetta er síðasti Molapistill fyrir jól.
Molaskrifari sendir öllum vinum og lesendum Molanna bestu óskir um,
Gleðileg jól , farsæl og friðsæl jól.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.12.2014 | 09:37
Molar um málfar og miðla 1640
Vel yfirstaðnir aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar,er ekki mjög lipurlega samin fyrirsögn í Garðapóstinum (18.12.2014).Líkast til er átt við að tónleikarnir hafi tekist vel, þetta hafi verið góðir tónleikar, sem Molaskrifari efast hreint ekkert um.
Málfar umsjónarmanna í Virkum morgnum á Rás tvö frá dagmálum til hádegis fyrir neðan virðingu Ríkisútvarpsins. Þátturinn er raunar oftar en ekki undirlagður af auglýsingum, óbeinum ekki síður en beinum. Á fimmtudagsmorgni (18.12.2014) var sagt: Við ætlum að halda áfram í keppnum. Var þetta þó kannski ekki það versta. Einnig komu nokkur bönd (hljómsveitir) við sögu. Þarna vantar metnað til að gera vel.
Lokið er afar misheppnuðum Andraflandursþáttum um Færeyjar (18.12.2014). Lokaþátturinn snerist mikið um að staupa sig. Kjánalegt var að heyra verslun Andreasar í Vágsbotni kallaða Andr. og okkur sagt að hún bæri eiginlega nafn umsjónarmanns Flandursins !!! Skiltið á húsinu ber með sér að Andr. er skammstöfun. Umsjónarmaður hefur ef til vill ekki skilið það. Kappróðurinn á Ólafsvöku var kallaður árabátakeppni og talað var um Ólaf Noregskonung. Hvaða Ólaf? Góður þulur hefur fengið vondan texta til að flytja okkur í þessum þáttum. Molaskrifari ætlar ekki að hafa um þetta fleiri orð, en biður færeyska vini sína afsökunar á þessu sjónvarpsefni,sem ekki gerði mannlífi og menningu í Færeyjum nein skil svo sem verðugt væri. Fram hefur komið í fréttum að þættirnir Óskalög þjóðarinnar kostuðu Ríkissjónvarpið 35 milljónir! Fróðlegt væri að heyra hvað Færeyjaflandrið kostaði. Það hlýtur reyndar að hafa verið keypt óséð. Molaskrifari leggur til að næsta vor eða sumar verði Egill Helgason gerður út af örkinni með sitt góða samstarfsfólk til að sýna Færeyingum, mannlífi og menningu á eyjunum átján þann sóma, sem þessi grannþjóð okkar verðskuldar. Margir Íslendingar, sem heimsótt hafa Færeyjar, hafa nefnt eftirminnilegar gönguferðir um gamla bæinn í Þórshöfn með leiðsögumanni, sem er sannkallaður hafsjór af fróðleik. Sá heitir Sveinur Ísheim Tummasson og talar lýtalausa íslensku og er ógleymanlegur þeim sem njóta leiðsagnar hans um Þórshöfn og eyjarnar.
Okkur var ekki sýnt eða sagt frá neinu slíku í þessum þáttum.
Í Spegli Ríkisútvarpsins var sagt (18.12.2014):,, ... lækkunin svipaði til .... Lækkunin svipaði ekki til... Lækkuninni svipaði til ....
Á vef Ríkisútvarpsins (19.12.2014) var sagt frá harmleik í borginni Cairns í Ástralíu. þar sagði: ,, Óstaðfestar fregnir herma að að kona á þrítugsaldri hafi verið flutt á sjúkrahús með stungusár. Á vef mbl.is kom fram að konan hefði verið 34 ára. Kannski var hér verið að þýða úr ensku þar sem sagt hefur verið að konan hafi verið in her thirties. Það þýðir á íslensku, á fertugsaldri. Endur fyrir löngu var Molaskrifaraskrifa sagt að með þessari málvenju í ensku væri sýnd meiri tillitssemi gagnvart aldri fólks!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.12.2014 | 09:53
Molar um málfar og miðla 1639
Molavin skrifaði (17.1.2014): ,, Veiruvarnir gegn vírusum? Frétt á Pressunni (16.12.2014) hefst á þessum orðum: "Þessa stundina breiðist illskeyttur vírus hratt út á Facebook. Veiruvarnarfyrirtæki vinna nú hörðum höndum að því að reyna að stöðva útbreiðslu vírussins..." Þetta er athyglisvert. Hér er í sömu málsgrein blandað saman enska orðinu vírus og hinni ágætu íslenzku þýðingu, veira. Væri ekki nær að sleppa "ísl-enskunni" og halda sig við hina góðu þýðingu?
Árið 1955 áttu sér stað snarpar deilur um þýðinguna "veira" á enska orðinu "virus." Vilmundur Jónsson landlæknir skrifaði þá eftirminnilega grein í Frjálsa þjóð undir fyrirsögninni "Vörn fyrir veiru" þar sem hann varði þetta nýyrði, sem Sigurður Pétursson, gerlafræðingur hafði mótmælt, m.a. með þessum frægu orðum: "Nafnið veira hefur...ekkert fram yfir orðið vírus nema tilgerðina. Orðið vírus fer vel í málinu og beygist eins og prímus." Vilmundur svarar því með hæðni: "Fyrir rúmum hundrað árum, svo ekki sé litið lengra aftur í tímann, baslaði Jónas Hallgrímsson náttúrufræðingur og skáld við að þýða stjörnufræði á íslenzku. Hann felldi sig einhvern veginn ekki rétt vel við að æter héti á íslenzku blátt áfram eter og nefndi ljósvaka, sem virðist ekkert hafa fram yfir eter nema tilgerðina. Orðið eter fer vel í málinu og beygist eins og barómeter."- Molaskrifari þakkar Molavin kærlega fyrir góða ábendingu og skemmtilega upprifjun. Þessi deila vakti þjóðarathygli á sínum tíma.
Greinina í Frjálsri þjóð má finna hér:
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3640396&issId=259807&lang=da
Hvaða fyrirbæri er þessi Víæpí Hornafjarðarhumar,sem, Ríkisútvarpið er alltaf að auglýsa? Hefur auglýsingadeildin uppgötvað nýja humartegund? Hvað segja fiskifræðingar Hafró? Molaskrifara finnst þetta kjánaleg auglýsing, þó hann þykist vita hvaðan þetta furðulega orðalag í íslenskri auglýsingu sé ættað? Þetta víæpí er enska skammstöfunin VIP (e. very important person, heldri maður, fyrirmenni). Er þessi humar einhverskonar fyrirmenni, eða er hann bara ætlaður fína, mikilvæga fólkinu?
Í kvöldfréttum Útvarps í gærkveldi (18.12.2014) var sagt frá píanóleikaranum Leif Ove Andsnes sem lék (stórkostlega) með Lundúnafílharmóníunni í Hörpu í gærkvöldi. Sagt var að hann hefði hlotið heiðursorðu heilags Ólafs. Tölum við ekki um Ólaf helga?
Molaskrifari leit á dagatalið í morgun (19.12.2014) eftir að hann þóttist heyra umsjónarmann Morgunútgáfu í Ríkisútvarpinu segja að í ár væri aðfangadagur á föstudegi. Nei, aðfangadagur, 24. desember, er á miðvikudegi, eins og Molaskrifari hafði raunar haldið. En ekki heyrði Molaskrifari þetta leiðrétt. En kannski þarf þetta ekki að vera svo nákvæmt. Skemmtilegra er þó að hafa þetta rétt. Kannski var bara enginn þar efra að hlusta.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2014 | 10:05
Molar um málfar og miðla 1638
Hér er gott dæmi um ísl-ensku, ef þannig má taka til orða. Þetta er af mbl.is (16.12.2014): Við erum einnig í mjög góðu samstarfi við Brunavarnir Suðurnesja og störfum saman öxl í öxl í veðrum eins og þessu. Við höfum einnig verið að aðstoða þá í dag við sjúkraflutninga, segir Haraldur sem telur að veðrið sé að skána. Á ensku er talað um to work shoulder to shoulder , að vinna vel og náið saman. Þannig tökum við ekki til orða á íslensku. Við vinnum ekki öxl í öxl. En þegar mikið liggur við, snúum við bökum saman. Vinnum vel og náið saman og bjóðum mótlætinu byrginn.
Kolbrún sendi Molaskrifara línu (16.12.2014): ,,Má ég spyrja þig um eitt, þar sem þú skrifar um íslenskt málfar. Stundum hefur mig langað að spyrja þig áður en nú finn ég ekkert um þetta sem svarar minni spurningu. Í frétt Visis er talað um að útvarpstjóri þurfi að velja burt stóra þætti í starfi RÚV. Það er þetta að velja burt sem ég er ekki alveg sátt við. Ég bjó í Svíþjóð í mörg ár og er vön þessu orðatiltæki þar "att välja bort" en er þetta rétt á íslensku að segja að velja burt. Molaskrifari þakkar Kolbrúnu línurnar og spurninguna. Hann hnaut einnig um þetta. Hefur ekki áður heyrt talað um að velja eitthvað burt þegar þarf að skera niður eða hætta við einhver áform eða áætlanir. Hér er fréttin af visir.is: http://www.visir.is/tharf-ad-velja-burt-stora-thaetti-i-starfi-ruv/article/2014712159989
Mjög margir fréttaskrifarar eru hættir að gera greinarmun á sögnunum að kaupa og að versla. sbr. þessa frétt af mbl.is (15.12.2014):
Þar segir m.a.: Þær fara síðan samferða heim til Íslands á föstudaginn. Helga telur líklegt að þær muni versla saman jólagjafir næstu daga. Hér hefði farið betur á að segja til dæmis : Þær verða síðan samferða til Íslands á föstudaginn. Helga telur líklegt að þær muni kaupa saman jólagjafir næstu daga , eða , - versla saman til jólanna næstu daga. Við kaupum jólagjafir. Verslum ekki jólagjafir. Í auglýsingu sem tönnlast er á í útvarpi um þessar mundir býður N1 fólki að versla matvörur. Molaskrifara finnst þetta málleysa, en auglýsingastofur eru á öðru máli.
Mikið var Molaskrifari sammála umsjónarmanni Morgunútgáfunnar á mánudagsmorgni(15.12.2014) þegar hann sagði við íþróttafréttamann Ríkisútvarpsins að í íþróttafréttum væru alltof mikið fjallað um þjálfara. Íþróttafréttamaður samsinnti þessu með orðinu: Algjörlega. Örstuttu síðar sagði hann aftur algjörlega, þegar hann átti við að hann væri sammála umsjónarmanni, sama sinnis, hefði sömu skoðun. Ofnotkun þessa orðs í þessari merkingu er auðvitað að verða algjörlega óþolandi. Molaskrifari leggur til að umsjónarmenn Orðbragðs taki til sinna ráða gagnvart þessari ofnotkun orðsins, - hafi þeir þá ekki þegar gert það.
Í síðustu Kilju ársins í gærkvöldi (17.12.2014) bar margt á góma. Fróðlegur þáttur að vanda og vel unninn. En þarna var reynt að gera of mörgu skil á of stuttum tíma, - bækurnar, sem þarna bar á góma, áttu mismikið erindi í þáttinn. Molaskrifara finnast svonefnd ,,bóksalaverðlaun orka tvímælis.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2014 | 09:52
Molar um málfar og miðla 1637
Furðu lostinn fylgdist Molaskrifari með úttekt Helga Seljans og starfsfélaga hans í Kastljósi í gærkvöldi (16.12.2014) á vafasömum (að ekki sé meira sagt) viðskiptaháttum, sem viðgengist hafa hjá Vegagerðinni. Þetta var Kastljós eins og það á að vera. Takk og hrós. Lá við að maður vorkenndi reyndar vegamálastjóra í viðtalinu í seinni hluta þáttarins. Vegagerðin er ekki í góðum málum. Það var hún heldur ekki þegar fyrir þrýsting bæjarstjórnarmeirihlutans í Garðabæ var ráðist í allsendis óþarfa vegagerð um Gálgahraun/ Garðhraun, eldhraun á náttúruminjaskrá. Þar hafa verið unnin óbætanleg skemmdarverk. Þar var Vegagerðin í vondum málum vegna þess meðal annars, að umhverfismatið var rúmlega ellefu ára gamalt og miðaðist við aðra framkvæmd og framkvæmdaleyfið var fallið úr gildi. Dæmi um afspyrnu vonda stjórnsýslu hjá okkur Íslendingum.
Kastljósið var fínt dæmi um það aðhald sem fjölmiðlar geta veitt. Og Vegagerðin ætlar greinilega að bregðast við.
Dyggur Molalesandi sendi eftirfarandi (16.12.2014): ,,Í frétt á mbl.is í dag 16. desember segir "...íbúi í Hafnarfirði, hætti sér út í vonskuveðrið nú fyrir skemmstu til að ná í bíl sinn, sem var lagður við kirkjugarð Hafnarfjarðar." Ég vona að bíllinn hafi ekki verið lagður til hinstu hvílu Vonandi ekki. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Rétt er að geta þess að Moggamenn lagfærðu amböguna síðar um daginn.
Kaffihúsið er í nágrenni við skrifstofu forsætisráðherra og höfuðstöðvum helstu banka, var lesið fyrir okkur í hádegisfréttum Ríkisútvarps (15.12.2014). ...í nágrenni skrifstofu forsætisráðherra og höfuðstöðva helstu banka, hefði þetta átt að vera. Enginn yfirlestur?
http://www.ruv.is/frett/hafa-borid-kennsl-a-hrydjuverkamanninn
Á fréttavef Ríkisútvarpsins (15.12..2014) var sagt frá tveimur köppum, sem klifu einn hættulegasta tind veraldar. Það láðist hinsvegar algjörlega að segja okkur hvað tindurinn héti og hvar í veröldinni hann væri. http://www.ruv.is/frett/klifu-einn-haettulegasta-tind-veraldar
Villandi fyrirsögn á bls. 14 í Fréttablaðinu á mánudag (125.12.2014): Stórslysi afstýrt er tvær farþegaflugvélar skullu nærri saman. Í smáletraðri yfirfyrirsögn segir hinsvegar: Rússnesk herþota flaug of nálægt farþegaflugvél. Það er rétt. Þetta er svolítil hroðvirkni. Þarna hefur prófarkalestur ekki verið í lagi.
Rafmagnslaust í Breiðdalsvík, segir í fyrirsögn á bls. 21 í Morgunblaðinu (16.12.2014). Málvenja er að segja á Breiðdalsvík, ekki í Breiðdalsvík. Þeir sem skrifa fréttir eiga að temja sér að læra hvaða forsetningar eru notaðar með staðaheitum á Íslandi. Fréttin hefst hins vegar réttilega á orðunum: Rafmagnslaust varð í Breiðdal ...
Hvað voru fánar EFTA ríkjanna að gera á skjá Ríkissjónvarpsins í seinni fréttum í gærkveldi (16.12.2014)? Fánarnir og nafn EFTA var sett á skjáinn með frétt um innleiðingu reglna ESB í tengslum við EES samninginn. Það mál kemur EFTA ekkert við,- að Molaskrifari best veit. Enda er EFTA ríkið Sviss ekki EES ríki.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.12.2014 | 08:35
Molar um málfar og miðla 1636
Myndbirtingar á vefmiðlum eru stundum kyndugar. Þá fara stundum viðvaningar í myndasöfn og leita. Oft með lélegum árangri. Á laugardag (13.12.2014) birti mbl.is frétt um flóttamann, sem beið bana í Englandi. Hann hafði falið sig undir vöruflutningabíl sem fór frá Frakklandi til Englands. Lést ,,þegar hann gerði tilraun til að koma sér út úr farartækinu sagði í fréttinni. Með fréttinni er birt mynd af litlum flutningabíl og er pallurinn greinilega fullur af snjó. Var verið að flytja snjó frá Frakklandi til Englands? Örugglega ekki. Sjá. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/12/13/stokk_ur_vorubil_og_let_lifid/
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardags (13.12.2014) var talað um selaveiðar og selaveiðimenn. Auðvitað er þetta ekki rangt og engin kórvilla. Skýr málvenja er hinsvegar hjá okkur að tal um selveiðimenn og selveiðar. Ekkert auka a inni í miðju orði. Þetta var lagfært á vef Ríkisútvarpsins. Þar var hinsvegar talað um selstofn, þegar tala hefði átt um selastofn. Og þar er þessi setning: Stuðningsmenn veiðanna segja að nauðsynlegt sé að grisja selstofninn þar sem dýrin éti svo mikinn fisk frá útgerðinni. http://www.ruv.is/frett/endalok-selveida-i-atvinnuskyni-i-noregi
Í sama fréttatíma var talað um karlmenn með breiðar axlir. Kannski eru þetta áhrif úr ensku broad-shouldered. Á íslensku tölum við um herðabreiða menn, herðibreiða og orðabókin nefnir líka axlabreiður.
Í frétt um njósnabúnað,sem fundist hafði í Noregi (Ríkisútvarpið 13.12.2014) var ýmist vitnað í Aftenposten, sem er norskt dagblað eða Aftonbladet, sem er sænskt blað. Í netútgáfu Aftonbladet var ekkert um þetta mál að finna. En þetta var aðalfréttin á forsíðu netútgáfu Aftenposten.
,,En Gunnar Bragi segir að sá gagnrýni sé byggð á misskilningi, var sagt í fjögur fréttum Ríkísútvarps á sunnudag (14.12.2014). Ef fréttaþulir hlusta á það sem þeir lesa, þá leiðrétta þeir svona mismæli.
Úr frétt á dv. is (14.12..2014): http://www.dv.is/frettir/2014/12/14/upplysingafulltrui-rikisstjornarinnar-i-rogsherferd-gegn-verdlaunabladamanni/
,,Rekstarfélagið heyrir undir Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, sem hafði vitneskju um gæðaskort rannsóknarinnar mánuðum saman en aðhafðist ekki. Gæðaskort rannsóknarinnar? Ekki mjög vel orðað
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á mánudag (15.12.2014) var okkur sagt að fimbulkuldi væri um allt land. Eftir málskilningi Molaskrifara var það ekki svo. Frost inni á hálendinu var að vísu 15 stig, en víða í byggðum 5-8 stig, samkvæmt korti Veðurstofunnar, sem er ekkert óvenjulegt á þessum árstíma. En svona leggjum við ólíka merkingu í orð. En er ekki svolítið verið að verðfella orði fimbulkuldi, fimbulfrost, þegar ekki er þó kaldara en þetta?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2014 | 09:47
Molar um málfar og miðla 1635
Rafn benti á þessa frétt á mbl.is (11.12.2014) og segir: ,,Neðanskráð frétt er í Netmogga núna. Það sem vekur furðu mína er tvennt, annars vegar; hver hefur hagsmuni af að bjarga slysi og tryggja þar með framgang þess? og hins vegar; undan hverju var slysinu forðað?
Ég hefði talið eðlilegt að reyna að kæfa slysið í fæðingu, en ekki að forða því undan hremmingum og tryggja þar með framgang þess.
Og hann bætir við:
,,PS: Hvernig fara rafgeymar í gang?? (. . . annar rafgeymirinn hefur eyðilagst og þá fara þeir ekki í gang . . . ),,
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/11/skjot_vidbrogd_fordudu_storslysi/
Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.
Rafn benti einnig á þessa frétt á mbl.is sama dag: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/11/snjor_ut_um_allt_a_akureyri/
Fyrirsögnin er sem sagt: Snjór út um allt á Akureyri.
Hann spyr hvort snjónum hafi verið glutrað niður og segir: ,,Hér segir Netmoggi, að snjór hafi farið út um allt á Akureyri. Þarna hefði ég strax talið skárra, að segja: Snjór úti um allt á Akureyri Enn betur hefði mér þótt fara á að segja: Allt á kafi í snjó á Akureyri,
Eða eitthvað í þeim dúr, en ég er víst bara að verða gamall! Molaskrifari þakkar Rafni og sér engin ellimörk á þessari ágætu ábendingu.
Á fimmtudagskvöld (11.12.2014) sagði íslenskur dagskrárgerðarmaður í Ríkissjónvarpinu við færeyskan stjórnmálamann, lögþingsmanninn, Jenis av Rana: You are also a congressman(!), og fleira í þeim dúr. Svo var talað um jarðgöng. Tvö göng! Ekki gott. Tvenn göng. Ríkissjónvarpið þarf að gera betur en þetta. Vanda ráðstöfun takmarkaðs dagskrárfjár.
Molaskrifari staðnæmdist við fyrirsögn Staksteina Morgunblaðsins á föstudag (12.12.2014) Ábyrgðarlaus stóryrði og della.
Við lestur kom í ljós að Staksteinahöfundur sagði, að í umræðum um Ríkisútvarpið ,,sleppti stjórnarandstaðan sér algjörlega. Hefði talað um ,,beint inngrip í sjálfstæði stofnunarinnar, og það ,,sem hér er að koma í staðinn eru handjárnin ( ... að Ríkisútvarpið skuli rekið innan fjárheimilda) . ,,Skilyrðin væru niðurlægjandi fyrir Ríkisútvarpið. Þetta er eru hin ábyrgðarlausu stóryrði. Út frá merkingu orðsins stóryrði í huga Molaskrifara eru þessar fullyrðingar Staksteina eiginlega hálfgerð della, svo notað sé orðalag Staksteina.
Skemmtilegt Orðbragð í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (14.10.2014). Ekki síst stöfunarkeppnin og örnefnin, staðaheiti, í stafrófsröð umhverfis landið! Fínn þáttur. Mikið hugmyndaflug. Takk.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.12.2014 | 07:21
Molar um málfar og miðla 1634
Ekkert sjóferðaveður næstu daga, var fyrirsögn á mbl.is (09.12.2014). Auðvitað er ekkert rangt við að tala um sjóferðaveður, - þótt málvenja sé að tala um sjóveður. Í fréttinni var talað um að skip og bátar þyrftu að leita skjóls. Málvenja er að tala frekar um að sigla í var eða leita vars, komast á lygnari sjó.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/09/ekkert_sjoferdavedur_naestu_daga/
Af mbl.is (10.12.2014): ,,Augljóst var að sumir bílar áttu erfitt með festa grip á veginum í morgun, nokkrir bílar fóru útaf og einn velti skammt frá Grindavíkurafleggjaranum. Velti hverju? Þannig hefur sjálfsagt einhver spurt, sem þetta las. Bíllinn valt, honum hvolfdi. Skylt er að geta þess að þetta var lagfært síðar. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/10/velti_bilnum_a_reykjanesbraut/
Góður pistill um Magnús Stefánsson , Örn Arnarson, í Kiljunni á miðvikudagskvöld (10.12.2014). Rifjaðist upp að fyrir margt löngu skrifaði menntaskólastrákur ritgerð um skáldið og Illgresi, líklega í 5. bekk hjá Jóni S. Guðmundssyni,sem var ógleymanlega góður íslenskukennari. Þá marglas ég Illgresi og bý að því enn.
Verslaðu jólagjafirnar á einum stað, auglýsir Penninn, Eymundsson í útvarpinu (11.12.2014). Við verslum ekki jólagjafir. Við kaupum jólagjafir. Þess vegna ætti þetta að vera: Kauptu jólagjafirnar á einum stað. Penninn, Eymundsson. Óvönduð vinnubrögð.
Lyfja auglýsir sama dag afslátt af öllum ilmum. Þetta er líka vondur texti . Orðið ilmur er ekki til í fleirtölu. Það er eintöluorð. Auglýsingastofa Ríkisútvarpsins blessar ambögur af öllu tagi og bregst þannig því hlutverki sem Ríkisútvarpið á að gegna: Að standa vörð um íslenska tungu. Það er alvarlegra mál en margur hyggur.
Samkvæmt starfsfólki deildar ... var sagt í fréttum Stöðvar tvö af Landspítalanum. (11.12.2014). Æ algengara er það orðið að heyra þetta orðalag. Einnig er oft sagt í fréttum: Samkvæmt lögreglunni. Molaskrifari kann betur við að sagt sé: Að sögn starfsfólks, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar ... Kannski er það bara sérviska.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2014 | 09:58
Molar um málfar og miðla 1633
Molavin skrifaði (09.12.2014): ,,Talsverðar umræður hafa átt sér stað á fólksmiðlum að undanförnu um skert framlög skattgreiðenda til Ríkisútvarpsins. Um þá staðreynd verður ekki deilt en á móti kemur að RUV stendur heldur ekki við sinn hluta samningsins við ríki og skattgreiðendur, sem lögin eru, meðan það sniðgengur skyldur sínar um meðferð íslenskrar tungu. Ekkert er reyndar að finna beinlínis í lögum um stofnunina um kauðskt og barnalegt málfar en það hlýtur að falla undir þá töluliði 3. gr. laga er segja það hlutverk hennar að Leggja rækt við íslenska tungu og Vera til fyrirmyndar um gæði og fagleg vinnubrögð. .
Og hér kemur önnur hugleiðing frá sama höfundi: ,,Ritstjórnarfulltrúi DV dæmir í dag (9.12.2014) Styrmi Gunnarsson harðlega fyrir upplýsingasöfnun fyrr á árum og dæmir hann úr leik sem blaðamann og ritstjóra fyrir vikið. Þarna gengur ungur blaðamaður í þá gildru að lesa fortíðina með gleraugum samtíðarinnar. Sagnfræðin varar menn við slíku. Um miðja síðustu öld voru öll dagblöð flokksmálgögn; samt störfuðu þar blaðamenn og ritstjórar, sem störfuðu heiðarlega eftir grundvallaratriðum fréttamennsku.
Á kuldaskeiði kalda stríðsins voru persónunjósnir stórveldanna víðtækar hér á landi. Þá tengdist Þjóðviljinn sendiráði Sovétríkjanna líkt og Morgunblaðið var í nánu sambandi við bandaríska sendiráðið. Styrmir og Matthias Johannessen eiga hins vegar undir lok aldarinnar einn merkasta feril íslenzkra blaðamanna er þeir slitu tengsl Moggans við flokkinn og opnuðu blaðið fyrir pennum allra flokka. Þannig bundu þeir enda á daga flokksmálgagna. Þá var blómatíð Morgunblaðsins.
Þeir sem vilja fella dóma um samtímann gerðu vel í því að lesa söguna. Dagbækur Matthíasar eru aðgengilegar á Netinu. Þar má lesa margt fróðlegt um þetta tímabil. Molaskrifari þakkar þessi tvö bréf.
Dagbækur Matthíasar eru skemmtileg lesning og fróðleg heimild um samtímann.
Molaskrifara leiðist heldur, þegar frægir útlendingar, sem komið hafa til Íslands eru oftar en ekki titlaðir Íslandsvinir í fréttum. Finnst einhver minnimáttarkennd kristallast í því. Til dæmis, þegar leikarahjón létu svo lítið að heilsa Vilhjálmi Bretaprinsi og konu hans á körfuboltaleik vestanhafs voru þau í íþróttafréttum (09.12.2014) auðvitað kölluð ,,Íslandsvinir. Verður fólk sjálfkrafa Íslandsvinir, ef það heimsækir Ísland einn dag eða tvo?
Loksins eru heimildamyndir að öðlast eðlilegan sess í dagskrá Ríkissjónvarpsins. Prýðileg mynd um fall Berlínarmúrsins í gærkvöldi (10.12.2014).
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2014 | 10:49
Molar um málfar og miðla 1632
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps og sjónvarps og á vef Ríkisútvarpsins var tekið svona til orða (08.12.2014): ,,Vegagerðin varar við ófærð um Hellisheiði, Þrengsli og Mosfellsheiði í kvöld og að fjallvegir á Austfjörðum loki um miðnætti. Fjallvegir loka hvorki einu né einu. Hér hefur sennilega verið átt við að fjallvegum á Austurlandi yrði lokað um miðnætti, eða að fjallvegirnir mundu lokast um miðnætti.
http://www.ruv.is/frett/illvidri-gengur-yfir-landid
Þetta var betur orðað á mbl.is þar sem vitnað var í heimasíðu Vegagerðarinnar: ,,Þar kemur einnig fram að hætta sé á að fjallvegir á Austurlandi lokist um miðnætti.
Fyrrum starfsfélagi skrifaði:,, Lenti á Keflavíkurflugvelli með látinn einstakling". Þetta er fyrirsögn á dv.is í dag, 8. janúar. Er ekki full mikið í lagt þarna? Hefði ekki verið eðlilegra og betra að tala um mann eða farþega. Einstaklingar hafa fjölgað sér ískyggilega í fjölmiðlum að undanförnu og ekki fjarri lagi að tala um offjölgun í því sambandi. - Molaskrifari þakkar bréfið. Rétt er það, að einstaklingum og aðilum fer nú mjög fjölgandi!
Fróðlegir pistlar um landbúnað á Íslandi hafa verið fréttum Ríkissjónvarps að undanförnu. Þar hefur meðal annars komið fram að aðeins lítill hluti þess lambakjöts, sem fluttur er út héðan er seldur ytra sem íslenskt lambakjöt. Hefur ekki verið varið tugum eða hundruðum milljóna til að selja íslenskt lambakjöt í Bandaríkjunum? Og hver er árangurinn? Hver er ábatinn í hlutfalli við útlagðan kostnað? Fróðlegt væri að sjá upplýsingar um það. Skyrið okkar selst eins og heitar lummur vestan hafs og austan þó ekki sýnist jafn mikið fjármagn hafa verið lagt í að kynna það erlendis og lambakjötið.
Hlustaði, fremur en horfði á Kastljósið í gærkvöldi (09.12.2014). Heyrði ekki betur en ferðamálaráðherra talaði um ,, að fatta upp á. Það fer víða barnamálið, hafi ég heyrt rétt.
Hér hefur dagskrárstundvísi Ríkisútvarpsins, hljóðvarps, útvarps oft verið hrósað. Molaskrifari horfir oft á síðkvöldum á BBC World Service sjónvarpsfréttirnar og hlustar um leið á fréttir Ríkisútvarpsins á heila tímanum. Það bregst yfirleitt ekki, að þegar BBC klukkan sýnir heila tímann, til dæmis klukkan 22 00 eða á miðnætti 00:00, þá hefst fréttalesturinn í Efstaleiti nánast á sömu sekúndunni. Þetta er til mikillar fyrirmyndar.- Reyndar brást þetta eitthvað í gærkveldi, þegar upphaf fréttatímans á miðnætti heyrðist hvorki á Rás eitt né Rás tvö. Hvorki var þetta útskýrt né afsakað. Svo bregðast krosstré ...
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)