Molar um málfar og miðla 1650

Smáþáttur númer tvö,af fimmtíu og tveimur, í röðinni Öldin hennar var á dagskrá í Ríkissjónvarpinu í gærkveldi. Þátturinn hét Stríðstískan. Árið var 1943, Þessir þættir eru gerðir í tilefni þess að öld er liðin síðan íslenskar konur fengu kosningarétt. Í þættinum var rætt við sagn- og kynjafræðing. Hún sagði okkur að sokkabuxur með saumi að aftan hefðu verið aðalmálið hjá konum á þessum tíma, á stríðsárunum síðari. Molaskrifari er ekki mjög fróður um klæðnað kvenna, en þykist þó alveg viss um að sokkabuxur komu ekki til sögunnar fyrr en talsvert löngu seinna og voru þá einmitt ekki með saum eða saumi að aftan. Þessi sama kona sagði okkur ,að á stríðsárunum hefðu íslenskar konur í fyrsta skipti orðið objects of desire !!! Eftirsóknarverðar. Urðu íslenskar konur ekki eftirsóknarverðar fyrr en upp 1940? Hvaða rugl er þetta og hversvegna þurfti konan að tala ensku við okkur? Vonandi verður vandað betur til þeirra þátt sem á eftir koma. Þarna var ekki vandað til verka. Konur eiga betra skilið.

 

K.Þ. benti á eftirfarandi frétt á visir.is (10.01.2015): http://www.visir.is/leitin-ad-boumeddiene-heldur-afram/article/2015150119976

Þar segir meðal annars: "Coulibaly banaði fjóra viðskiptavini verslunarinnar ..." Ja, hérna!. Þakka ábendinguna.

 

Lögregluaðgerðirnar í Frakklandi eru með þeim stærstu í sögu landsins, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö á föstudagskvöld (09.01.2015). Við tölum ekki um stórar eða litlar aðgerðir. Við tölum til dæmis um umfangsmiklar aðgerðir eins og Þorbjörn Þórðarson fréttamaður réttilega gerði í þessum sama fréttatíma. Umfjöllun Stöðvar tvö um voðaverkin í Frakklandi var stórum betri í fréttum þetta kvöld en umfjöllun Ríkissjónvarpsins.

 

Þessi tvö samtök, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (09.01.2015). Það er erfitt að ná þessu. Samtök er fleirtöluorð. Þess vegna átti að tala um tvenn samtök.

 

Af mbl.is (09.01.2015): Slökkvilið höfuðborg­ar­svæðis­ins kom til hjálp­ar þegar eldri kona valt bíl sín­um á Suður­lands­braut um kl. 15.30 í dag. Fréttabarn á vaktinni? Konan velti bílnum. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/09/bill_a_hlidina_a_sudurlandsbraut/

Bílnum var komið á hjólin, segir einnig í fréttinni.

 

Gervihnattasamband brást, þegar Ríkissjónvarpið ætlaði að hefja útsendingu frá heldur lítilvægum æfingaleik í handbolta í útlöndum á föstudagskvöld (09.01.2015) Þá var skrifað á skjáinn: Bilun er á gervihnattasambandi. Unnið er að lausn. Betra hefði verið að segja að unnið væri að viðgerð.

 

Sögnin að olla, sem ekki er til (nema á stöku fréttamiðli) skýtur hér upp kollinum á mbl.is (09.01.2014): Hef­ur þetta ollið tals­verðum deil­um inn­an fé­lags­ins og þá sér­stak­lega hjá gistiþjón­ustuaðilum. Þetta hefur sem sé valdið deilum. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/09/olga_innan_samtaka_ferdathjonustunnar/

 

Kona sem tók þátt í umræðum í Vikulokum í Ríkisútvarpinu á laugardag (10.01.2015) talaði um lög um skiptingu prestkalla í Reykjavík. Hvernig skyldu menn skipta prestköllum?

 

Útúrdúr í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (11.01.2014) brást ekki frekar en fyrri daginn. Fínn þáttur og fróðlegur. Takk J.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Dæmigert

Er einhver hissa?


mbl.is Þekktist ekki boð Frakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Molar um málfar og miðla 1649

... í miðborg París, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (078.01.2014). Beygja, beygja. .. í miðborg Parísar hefði þetta átt að vera.

 

Í fréttum Ríkisútvarps (07.01.2014) var talað um samskeppnisleg áhrif. Samkeppnisáhrif eða áhrif á samkeppni. Rík tilhneiging til að bæta -leg , -lega, við nafnorð í tíma og ótíma. Samanber viðtekið orðalag í íþróttafréttum nú orðið, - varnarlega , sóknarlega. Nú fær Molaskrifari, ef til vill á baukinn hjá íþróttafréttamönnum Ríkisútvarpsins á fésbókinni. Fréttamenn bregðast misvel við gagnrýni í Molum.

 

Af visir.is (07.01.2014) Harður árekstur rútu og fólksbíls varð rétt fyrir ofan Borg í Grímsnesi á tólfta tímanum í dag. Ekki þekkir Molaskrifari málvenju heimamanna í Grímsnesinu,- en hvað er rétt fyrir ofan Borg? Er það rétt austan við Borg í Grímsnesi?

 

Fyrirsagnir í fjölmiðlum eiga að vera skiljanlegar. Þessi fyrirsögn af visir.is (08.01.2014) er það ekki: Margir gerast vegan í janúar, http://www.visir.is/margir-gerast-vegan-i-januar/article/2015701089955

Fréttin byrjar svona: Í janúar fer fram hið alþjóðlega átak Veganúar (e. veganuary), en átakinu var hleypt af stokkunum af Matthew Glover og Jane Land í fyrsta sinn í fyrra. En hvað er vegan? Það er skýrt svona í fréttinni: Þeir sem eru vegan sneiða hjá öllum dýraafurðum. Molaskrifara finnst þetta hreint ekki vera til fyrirmyndar, - að ekki sé nú sterkar að orði kveðið.

 

í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins að morgni fimmtudags (08.01.2015). var nokkuð löng kynning á ýmsum framleiðsluvörum Apple fyrirtækisins. Látum vera þótt þetta hafi verið nokkuð í námunda við auglýsingamörkin. En okkur hlustendum kemur nákvæmlega ekkert við hvaða skoðun umsjónarmaður hefur á svonefndum snjallúrum. Persónulegum skoðunum eiga að þáttastjórnendur að halda fyrir sig. Hlífa okkur sem hlustum.

 

Í Garðapóstinum (08.01.2015) segir frá nýbyggingu við Garðatorg þar sem verða 42 íbúðir. Þar segir um íbúðirnar: ,, ... og sumar með tveimur svölum”. Svalir eru fleirtöluorð. Þarna ætti að standa: ,, ... sumar með tvennum svölum”. Tvær svölur eru tveir fuglar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1648

 

Í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu (06.01.2015) ræddu tveir umsjónarmanna við málfarsráðunaut. Meðal annars bar á góma sögnina að fokka, að gaufa eða slæpast. Molaskrifari hefur heyrt orðið notað í þessari merkingu alla sína ævi. – Ég veit ekki hvað hann var að fokka, - ég veit hvað hann var að slæpast. Í Orðsifjabók Ásgeirs Blöndals Magnússonar er orðið sagt frá 17. öld líklega úr dönsku frá þeim tíma eða fyrr. Öðru máli gegnir hinsvegar um talsháttinn að fokka upp, að klúðra, mistakast eða gera eitthvað að vandræðamáli. Það er seinni tíma fyrirbæri beint úr ensku (amerískri ensku, að öllum líkindum).

Ekki sér Molaskrifari jafn ríkar ástæður til að amast við áhersluorðinu ansi , frekar mjög, talsvert, ansi gott og gert var í þessu morgunspjalli. Tengingin við orðið andskoti í þessari merkingu er löngu horfin. Á æskuheimili skrifara var lagt bann við blóti. Það sterkasta sem móðir mín heitin sagði, ef henni blöskraði, var einna helst ansans ári, eða bévítans, ef eitthvað gekk alveg fram af henni. Molaskrifari hefur hinsvegar lengi haft þann ósið að nota blótsyrði til áherslu og hefur til dæmis ekki tekist að venja sig af því að segja að eitthvað hafi verið helvíti gott. – Ekkert er að því að starfsmenn Ríkisútvarpsins hrósi hver öðrum,en það á svo sem ekkert sérstakt erindi við hlustendur.

Af vef dv.is (06.01.2015): Á vef ráðuneytisins segir að nýr formaður verður skipaður á næstu dögum. Hér ætti að sjálfsögðu að standa: ,,Á vef ráðuneytisins segir, að nýr formaður verði skipaður á næstu dögum”.

Kvikmyndir tæla ferðamenn, stóð í skjátexta í fréttayfirliti Stöðvar tvö (06.01.2015). Þetta er auðvitað bull. Sögnin að tæla þýði (sjá ísl. orðabók), svíkja blekkja,véla,glepja , draga á tálar. Ekkert af þessu átti við fréttina. En þar var sagt að kvikmyndir teknar á Íslandi ættu sinn þátt í að laða ferðamenn til Íslands.

Í sama fréttatíma var talað um þykkt reipi. Samkvæmt málkennd Molaskrifara tölum við frekar um sver reipi eða tóg, eða gild reipi. En myndirnar báru eiginlega með sér að málið snerist um fremur grannan kaðal. Hann var sverari en trolltvinni, - en líklega skilja fáir það orð nú um stundir.

Af forsíðu Fréttablaðsins (07.01.2015): Á morgun lýkur síðan tónleikaferðalaginu með giggi í Melbourne. Fréttin er um tónleikaferð íslensks listamanns. Orðabókin segir að enskuslettan gigg sé slanguryrði tónlistarmanna um opinberan tónlistarflutning, tónleika, dansleik eða aðra samkomu. Encarta orðabók Molaskrifara segir að orðið gig sé notað um tónleika á stað þar sem  tónlistarmaðurinn (mennirnir) er ekki fastráðinn, eða um tímabundið starf við tónlistarflutning. Enskuslettan var óþörf í fréttinni og alls ekki víst að allir lesendur blaðsins hafi skilið slettuna.

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1647

Í kvöldfréttum (05.01.2015) héldu fréttamenn áfram að spyrja fulltrúa deiluaðila í læknadeilunni spurninga, sem vanir fréttamenn vita að ekki er hægt að ætlast til að sé svarað. Dálítið einkennileg vinnubrögð. Sem betur fer virðist  þessi snúna og erfiða deila nú vera leyst (07.01.2015)

Úr frétt á visir.is (04.01.2015): Áhafnarmeðlimir fundust ekki og var leit frestað þegar myrkur skall á ... sá sem þetta skrifaði hefur sennilega aldrei heyrt talað um skipverja. Áhafnarmeðlimur er óþurftarorð.

Í fréttum undanfarna daga hefur ýmist verið talað um flæðisvið Landspítalans eða flæðasvið Landaspítalans. Molaskrifari er mát. Hann skilur þetta ekki og hefur aldrei heyrt útskýringar eða skilgreiningar á því hvað flæðisvið eða flæðasvið er.

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (04.01.2015) var talað um bíl sem hefði verið drekkhlaðinn af sprengiefnum. Molaskrifari hefur ekki fyrr heyrt orðið drekkhlaðinn notað nema um skip, sem er svo hlaðið að liggur við að það sökkvi.,, Árásarmaðurinn ók bíl, drekkhlöðnum af sprengiefnum, að alþjóðaflugvellinum þar sem friðargæsluliðar Afríkusambandsins og erlendir stjórnarerindrekar hafa aðsetur.”

Stúlkurödd  lauk þætti á Rás tvö rétt fyrir klukkan 19 00 á sunnudagskvöld (04..01.2015) með því að kynna tónleika sem verða í mars, þar sem hún sagði að margir frægir listamenn mundu stíga á stokk! Hún sagði ekki að þeir ætluðu að strengja þess heit að vinna mikil afrek. Getur ekki málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins leiðbeint þáttastjórnendum og sagt þeim, að þegar listamenn koma fram, þá eru þeir ekki að stíga á stokk. Það sem við heyrðum þarna sagt á Rás tvö var út í hött. Ekki í fyrsta skipti sem svo heyrist tekið til orða.

Í morgunfréttum Ríkisútvarps klukkan 06 30 (05.01.2015) var sagt: Fram að þessu hafa ferðalög milli landanna verið að mestu afskiptalaus... Afskiptalaus ferðalög? Hefði ekki verið eðlilegra að segja að ferðalög milli hafi verið að mestu hindrunarlaus? Greiðar samgöngur hafi verið milli landanna. Eða að fram að þessu hafi ferðalög milli landanna verið látin afskiptalaus að mestu.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (06.01.2015) var sagt að heimsmarkaðsverð á olíu hefði hrapað í verði. Heimsmarkaðsverð lækkaði mjög, hrapaði. Í sama fréttatíma var talað um mannnúðarleg sjónarmið. Mannúðarsjónarmið hefði ef til vill verið betra.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1646

Fréttir og veðurfréttir voru í þynnsta lagi í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (05.01.2015). Urðu að víkja fyrir íþróttum. Þær hafa forgang. Alltaf.  Til hvers er sérstök íþróttarás? Hvers eiga þeir að gjalda, sem hafa meiri áhuga á almennum fréttum, innlendum og erlendum og veðurfréttum en íþróttum?

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (02.01.2015) var sagt að sýslumannsembætti yrðu lokuð. Átt var við að skrifstofur tiltekinna sýslumannsembætta yrðu lokaðar. Í sömu frétt var talað um hvar sýslumenn yrðu staðsettir samkvæmt nýrri skipan mála. Skorað er á málfarsráðunaut að kveða nú staðsetningardrauginn niður á nýju ári ,- drauginn, sem ríður húsum fréttastofunnar í Efstaleiti.

Í fréttum Bylgjunnar á hádegi (03.01.2015) Var sagt: ... virðast vöruverð hafa hækkað. Betra hefði verið að segja: ... virðist vöruverð hafa hækkað.

Þegar hópur íþróttafréttamanna velur Íþróttamann ársins, þjálfara ársins, og svo framvegis er það vissulega frétt. Íþróttafrétt. Það er hinsvegar ekki efni í hálfs annars klukkutíma beina útsendingu í aðaldagskrá Ríkis sjónvarpsins á besta tíma á laugardagskvöldi. Við eigum betra skilið. Þetta efni hefði átt að sýna á íþróttarásinni. Hversvegna var það ekki gert? – Þetta dróst á langinn og seinkaði dagskrá sjónvarpsins um tíu mínútur. Vélkonurödd Ríkissjónvarpsins ræður hvorki við að kynna slíkar fyrirvaralausar breytingar né heldur að biðja áhorfendur afsökunar.

Holtaskóli f´ær Gránfánann, segir í fyrirsögn í Garðapóstinum (02.01.2015). Í undirfyrirsögn segir: Heilsuskólinn Holtakot fær Gránfánann í þriðja sinn. Skólinn er áreiðanlega vel að þessum heiðri kominn. En í fréttinni kemur fram að hér er átt við svokallaðan Grænfána. Sem er viðurkenning fyrir  vinnu að átthagaverkefni. Gránfáni er reyndar óskiljanleg orðleysa. Eitthvað vantar þarna upp á að prófarkalesturinn sé í góðu lagi.

 

Í Fréttablaðinu (03.01.2015) segir: ,,Byggja á um tíu þúsund fermetra lón í botni Stóradals.” Þetta er tilvitnun í fundargerð skipulagsnefndar Ölfuss. En hvernig byggja menn lón? Væri ekki eðlilegra að tala um að mynda lón?

Áramótaskaup Ríkissjónvarpsins var endursýnt á laugardagskvöld (03.01.2014). Molaskrifara þótti það stórum betra en frumsýningin á gamlárskvöld. Margt prýðilega gert. Ýmislegt kom í ljós, sem farið hafði framhjá er fyrst var horft. Endurmat: Með betri Skaupum.

James Bond er ágætur í hæfilegum skömmtum. Nýlega sýndi Ríkissjónvarpið Bondmyndina Skyfall og kallaði myndina Skýfall. Undarleg nafngift.

http://www.today.com/popculture/judi-dench-reveals-meaning-behind-new-james-bond-film-title-1C6459064

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1645

 

Molavin skrifaði (04.01.2015): ,,Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins auglýsir blaðið eftir viðskiptablaðamanni. Eftirtektarvert er að þar er tekið fram að "mjög góð íslenskukunnátta" sé nauðsynleg. Þetta er lofsvert og vonandi taka aðrir fjölmiðlar upp þessa stefnu.”

Undir það  tekur Molaskrifari og þakkar bréfið.

 

Haukur Kristinsson skrifaði frá Sviss og bendir á eftirfarandi frétt á mbl.is (31.12.2014):
,,Ólafs Thors minnst á hálfr­ar ald­ar ártíð. 
Bjarni Bene­dikts­son formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins minnt­ist Ólafs og sagði meðal ann­ars: „Ólaf­ur Thors var einn af stærstu stjórn­mála­mönn­um sem Ísland hef­ur alið.” 
Haukur segir: ,,Blessaður Eiður. 
Ertu sáttur við það að tala um "stóran" stjórnmálamann? Á þýsku er það í lagi, t.d. "ein grosser Politiker". 
Væri ekki nær að tala um merkan, mikilhæfan,góðan...... 
Bara vangaveltur. Gleðilegt nýtt ár og kveðjur frá Sviss.”. Molaskrifara þakkar Hauki áramótakveðjur og er sammála honum um að eðlilegra væri að tala um merkan eða mikilhæfan stjórnmálamann. 

Í Morgunblaðinu á gamlársdag var rætt við bókaútgefanda, sem sagði: ,, ... höfum við markvisst unnið að því að útgáfan nái yfir breiðari tíma á árinu, svo eggin séu fleiri í körfunni”. Hefði ekki verið eðlilegra að segja , - svo eggin séu í fleiri körfum, - ekki öll í sömu körfunni, sem er jólabókaútgáfan í þessu tilviki?

 

Nú er glatt á hverjum hól, sagði ung stúlka í lok þáttar rétt fyrir klukkan 19 00 á nýársdag í Ríkisútvarpinu, Rás tvö! Þetta hljómaði ekki svona, þegar Molaskrifari lærði þetta fyrir býsna löngu.

 

Úr frétt á mbl.is (30.12.2014): Slæmt veður var þegar vél­in lenti, en hún fipaðist á flug­braut­inni og endaði í drullu­svaði fyr­ir utan hana. Vélin fipaðist á flugbrautinni! Það var og. Einnig var okkur sagt að enginn hefði slasast í slysinu. Fréttabarn á vaktinni kvöldið fyrir gamlársdag. Hvar er nú metnaðurinn til að gera vel? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/12/30/thota_airasia_for_ut_af_flugbraut_2/

 

Um orðanotkun: Forsætisráðherra, SDG, fékk sig ekki til að taka sér í munn orðið hrun í ávarpi sínu til þjóðarinnar á gamlárskvöld. Hann talaði, held ég fjórum sinnum um það sem hann kallaði fjármálaáfallið. Flokkur hans bar þó vissulega sína ábyrgð á bankahruninu hér. Heldur betur. Það á að nefna hlutina réttum nöfnum. Forsetinn talaði hins vegar um hrun í ávarpi sínu á nýársdag.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1644

 

Gleðilegt ár, ágætu Molalesendur. Kærar þakkir fyrir ánægjuleg samskipti, gagnlegar ábendingar og hlýjar kveðjur á nýliðnu ári.

 

Að morgni nýársdags, þegar Molaskrifari var að hreinsa lausamjöll af stéttinni hjá sér, kom granni, sem hann hefur ekki áður hitt, yfir götuna, kynnti sig og  óskaði Molaskrifara  gleðilegs árs og þakkaði honum skrifin.

Þetta þótti Molaskrifara góð byrjun á nýju ári. Takk.

 

Í þáttarlok á Bylgjunni (29.12.2014) rétt fyrir flutning kvöldfrétta  talaði þáttarstjórnandi um að þennan dag hefðu samtökin Young Men´s Christian Association verið stofnuð í Bandaríkjunum árið 1844  (Wikipedia segir samtökin reyndar hafa verið stofnuð 6. júní það ár). Félagi hans bætti því við, að við þekktum þessi samtök betur sem væemmsíei (YMCA)! Hvorugum þeirra datt í hug að nefna hliðstæð íslensk samtök, KFUM, Kristilegt félag ungra manna.

Þeir félagar töluðu líka um eftirmála tsunami, flóðbylgjunnar miklu, sem banaði á þriðja hundrað þúsund manns í Asíu á jólum 2004. Þarna hefði átt að tala um eftirmál eða afleiðingar. Ekki eftirmála. Eftirmáli er stuttur pistill í lok bókar. Mjög algengt að þessu sé ruglað saman.

 

Í fréttum (29.12.2014) sagðist félagsmálaráðherra telja að ný lög stæðust lög. Ráðherra virtist eiga við að lögin væru ekki andstæð stjórnarskrá.

 

Úr hádegisfréttum Ríkisútvarps (29.12.2014): Afdrif Airbus vélarinnar hefur verið líkt við afdrif ..... Hér hefði betur verið sagt, til dæmis: Afdrifum Airbus vélarinnar hefur verið líkt við afdrif ... , eða .... afdrif Airbus  vélarinnar þykja minna á afdrif ...

 

Á vef Ríkisútvarpsins þar sem kynnt var dagskrá Rásar eitt mátti (29.12.2014) lesa eftirfarandi: Málþing  til heiðurs Margrétar Indriðadóttur. - Margréti hefði ekki þótt þetta góð fyrirsögn. Hún var fréttastjóri fréttastofu útvarpsins um árabil og lagði mikla áherslu á málvöndun. Málþing  til heiðurs Margréti Indriðadóttur, hefði þetta átt að vera.

 

Þakklátt væri, ef eigendur gæludýra héldu þeim inni,. - eitthvað á þessa leið var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (30.12.2014) í frétt um áhrif flugeldasprenginga á dýr um áramótin. Ekki þekkir Molaskrifari þessa notkun orðsins þakklát eða þakklátur. Hér hefði farið betur á að segja, til dæmis;goyy væri,  æskilegt væri , að, eða óskandi væri, að...

 

Hvers vegna er verið að hrópa á okkur? Svona spurði öldruð kona þar sem Molaskrifari var staddur um jólin. Útvarpið var á og beðið var frétta á Rás eitt. Ekki var spurt að ástæðulausu. Í auglýsingum frá Lottóinu, Íslenskri getspá, er til dæmis  hrópað, eða næstum gargað á hlustendur. Það er  Ríkisútvarpinu ekki til sóma að flytja svona auglýsingar.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1643

  

K.Þ. skrifaði (28.12.2014): Hann segir: ,,Sæll Eiður,

Bestu hátíðarkveðjur frá gömlum félaga og kollega!

Ég bendi nú á enn eitt dæmið um sömu málvilluna hjá íslenskum blaðamönnum, ranga beygingu orðsins "tengdur":

"Hvarf þotu Air As­ia er enn eitt áfallið fyr­ir malasísk flug­fé­lög en um er að ræða þriðja óhappið tengdu malasísk­um flug­fé­lög­um síðan í mars."

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/12/28/699_manns_um_bord_i_velunum_thremur/

Ég man ekki til þess að hafa séð þetta notað rétt í fjölmiðlum á seinni árum!” - Molaskrifari þakkar Kristjáni bréfið og hlýja kveðju.. Það reynist mörgum erfitt að fara rétt með þetta.

 

Útúrdúr þeirra víkings Heiðars Ólafssonar og Höllu Oddnýjar Magnúsdóttur í Ríkisjónvarpi á sunnudagskvöld (28.12.2014) brást ekki frekar en fyrri daginn. Gott að eiga nýja þáttaröð í vændum. Þetta er úrvalsefni og vel til þess fallið að leiða fleiri inn í heim sígildrar tónlistar.

 

Úr frétt á visir.is (26.12.2014): ,,Svo var líka búið að brjóta gler í rúðu í forstofunni, segir Ásgerður”. Við tölum ekki um að brjóta gler í rúðu. Við tölum um að brjóta rúðu.

 

Þetta er úr frétt á mbl.is á aðfangadag. Eitthvað hefur verið slegið slöku við gæðaeftirlitið í jólaönnum:

Á meðan lands­menn kepp­ast við að keyra út pakka og und­ir­búa málsvörð kvölds­ins ..... Fjöl­skyld­an, sem sam­an­stend­ur af fimm fjöl­skyldumeðlim­um, ..., og tel­ur Natasha myrkrið á Íslandi spila þar stóra rullu. Þau höfðu rétt lokið sér af við mat­ar­borðið ... Þau eru ekki með elda­vél og seg­ir Natasha að Jay geti eldað nán­ast hvað sem er á pönnu. Hún seg­ir hlýtt og nota­legt í skút­unni, ar­in­eld­ur­inn í gangi .... Þá hef­ur sjó­maður úr höfn­inni boðið fjöl­skyld­unni með sér á jóla­boð norska hers­ins á eft­ir.. Jólaboð norska hersins í Reykjavík??? Það skyldi þó ekki vera átt við Hjálpræðisherinn?

Varla er það svona fréttaflutningur, sem átt er við í Bréfi frá útgefanda í Sunnudagsmogga (28.12.2014). Bréfið er einskonar kveðjubréf útgefanda til lesenda blaðsins , en þar segir: ,,Áskrifendur Morgunblaðsins og lesendur mbl.is ætlast til mikils af miðlum sínum. Þeir sætta sig ekki við annað en vandaðar, hlutlausar fréttir. Þær eiga að vera sanngjarnar, heiðarlegar, skemmtilegar , vel skrifaðar , líflegar og nýstárlegar”. Það var og. Rétt er það,  að margt gera  blaðamenn Morgunblaðsins vel. Molalesendur geta spreytt sig á því að finna hvað af þessum lýsingarorðum á við þessa frétt mbl.is frá aðfangadegi.  Hér er fréttin í heild. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/24/von_ad_halda_jolin_i_skutu/   Þetta er í aðra röndina svolítið broslegt.

Og hér er svo örstutt frétt af mbl.is (29.12.2014) sem hreint ekki stenst þær kröfur sem fram eru settar í kveðjubréfi útgefanda: ,,Slit hef­ur orðið á ljós­leiðara Mílu milli Borg­ar­ness og Ólafs­vík­ur. Slitið varð um kl. 13.20 og eru viðgerðamenn farn­ir af stað á svæðið til viðgerða.” Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/12/29/slit_a_ljosleidara_milli_borgarness_og_olafsvikur/

Betra hefði verið: Ljósleiðari Mílu milli Borgarness og Ólafsvíkur er slitinn. Strengurinn slitnaði klukkan 13:20. Viðgerðarmenn eru lagðir af stað til að laga bilunina. -

Prýðilegt Kastljós á mánudagskvöldi (29.12.2014) með fróðleik um mikilvæga starfsemi björgunarsveitanna sem inna af höndum mikilvæg hjálparstörf í þágu lands og lýðs. Molaskrifari hefur alltaf átt bágt með að skilja hversvegna íþróttafélög, sem njóta hárra ríkisstyrkja m.a. í formi lögverndaðs einkaleyfis á Lottói og getraunum, þurfa að seilast inn á þennan fjáröflunarvettvang björgunarsveitanna.

Ekki var síður fróðlegt að fá að skyggnast inn fyrir klaustursveggi Karmelsystra í Hafnarfirði. Það var gert af smekkvísi og spyrill hélt sig hæversklega til hliðar .Það mætti oftar vera þannig. Kærar þakkir.

 Þetta eru síðustu Molar ársins 2014. Molaskrifari óskar lesendum og velunnurum Molanna gæfu og gengis á nýju ári og þakkar ánægjuleg samskipti á árinu, sem senn er á enda runnið.

Gleðilegt ár, þakka það liðna !

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1642

 

Úr frétt á mbl.is (23.12.2014): Meðal ann­ars höfnuðu tvö ruðnings­tæki Vega­gerðar­inn­ar út fyr­ir veg og var um veru­legt tjón að ræða á öðru tæk­inu. Ekki kann Molaskrifari vel við orðalagið að hafna út fyrir veg. Ruðningstækin, - snjóplógar eða vörubílar með snjótönn fóru út af , höfnuðu utan vegar.

 

Stundum eru nefndar hér einkennilegar myndbirtingar fjölmiðla. Á aðfangdag birti Morgunblaðið frétt um heppin hjón sem unnu 13 milljónir í Lottóspili. - Með fréttinni var birt mynd af forstjóra fyrirtækisins sem rekur lottóspilið!

 

Í frétt í Morgunblaðinu (24.12.2014) segir: ,, Þar hefur tjónstíðni, alvarleiki tjóna og ...” Þarna hefði verið heppilegra að tala um tjónatíðni og hversu alvarleg eða mikil tjónin eru.

 

Fyrir jólin auglýsti Heilsudrekinn stórglæsilega silki- og linenborðdúka. Linenborðdúkar. Eru það ekki hördúkar?

 

Nú sýnum við aftansöng jóla, sagði vélrænkonurödd Ríkissjónvarpsins við okkur á aðfangadagskvöld. Þessa kynningu hefði mátt orða betur.

 

Rétt fyrir jólin sendi Rafn eftirfarandi:,, Ég veit ekki hvernig fyrirsagnahöfundar Mbl. lesa fréttir. Í fréttinni hér fyrir neðan segir að þrefalt dýrara sé að fljúga frá Íslandi en til á jóladag. Fargjald frá Íslandi er sagt um 12.000 kr, en fargjald til Íslands er sagt tæpar 33.000 kr, Það er verð til Íslands er um 2,75 falt verð frá Íslandi og verð frá Íslandi er um 36% af verði frá Íslandi.

Væntanlega eru það þessi verð, sem verið er að bera saman, því 12.000 kr fargjald getur vart verið fjórfalt fyrra fargjald [þrefalt hærra = 1+3 = 4] en fyrri fargjöld frá Íslandi.” Molaskrifari þakkari Rafni sendinguna. Sjá: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/12/22/um_threfalt_dyrara_ad_fljuga_fra_islandi/

 

Í jólablaði DV (23.12.2014) er svohljóðandi undirfyrirsögn: Karlar líklegri en konur til að svolgra í sig skötuna og yngra fólk vill hana síður. Sá sem samdi þessa fyrirsögn veit líkast til ekki ekki að sögnin að svolgra (í sig) þýðir að þamba. Hér hefði verið eðlilegra að nota sögnina að háma ( í sig) eta e-ð græðgislega.

 

Í hádegisfréttum á aðfangadag var talað um að töluverð bílaumferð hafi byrjað að myndast (við kirkjugarðana). Var ekki bara orðin töluverð umferð?

 

Gnótt úrvals efnis var að finna í dagskrá Ríkissjónvarps og Rásar eitt um jólin. Þar lögðu menn greinilega metnað í að gera vel. Þakkir fyrir það.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband