Molar um málfar og miðla 1660

  

Heldur hefur verið að rofa til í dagskrá Ríkissjónvarpsins að undanförnu og er það þakkarvert. Í liðinni viku voru til dæmis sýndar þrjár prýðilegar íslenskar heimildamyndir; ein um sögu Álafoss og þess merka starfs sem þar var unnið, önnur um Þórð á Dagverðará, þann kynjakvist, og sú þriðja (endursýnd, reyndar) Draumaland Andra Snæs.

Tímasetning Draumalandsins gat ekki verið betri, nánast sama daginn og meirihluti atvinnuveganefndar boðaði nýja virkjanaherferð gegn öræfum og víðernum Íslands.

 Kannski fór það fram hjá Molaskrifari, en hann tók ekki eftir að greint væri frá því í Álafossmyndinni, hvernig harðvítugri Álafossdeilu svonefndri lyktaði, þar sem tekist var á um kjör verkafólks.

 

Úr fréttum Bylgjunnar (23.01.2015): ,, ... strax orðið ljóst alvarleiki málsins”. ... strax orðið ljóst hve alvarlegt málið var. Eða: ... strax orðið ljós alvara málsins. Og: ,, ... kunni að nema 3- 400 milljarða króna”. Hefði átt að vera: ,, ... kunni að nema 3-400 milljörðum króna”. Enginn les yfir.

 

Stuttur eindálkur (gamalt blaðamannamál!) var á forsíðu Morgunblaðsins á laugardag (23.01.2014) um álit umboðsmanns Alþingis um dómgreindarbest , ósannindi og afskipti fyrrverandi innanríkisráðherra af lögreglurannsókn,sem sem leiddi til sakfellingar aðstoðarmanns og afsagnar ráðherra. Molaskrifari sér fyrir sér fyrir sér ,að ef hér hefði átt í hlut ráðherra í fyrri ríkisstjórn, - ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hefði þessi frétt ef til vill verið meira en eindálkur, kannski tvídálkur! Ef ekki talsvert meira. Ítarlegri umfjöllun var um málið inni í blaðinu.

 

Úr hádegisfréttum Ríkisútvarps (23.01.2015): ,, Einn af fjórum Bengalköttum ... tókst að komast undan...”. Þetta las ágætur þulur. Einum af fjórum Bengalköttum ... tókst að komast undan, hefði þetta átt að vera.

 

Sóknargjöld eru innheimt af þjóðkirkjunni, var sagt í morgunfréttum Ríkisútvarps (23.01.2014). Það var ekki átt við, að þjóðkirkjan greiddi sóknargjöld. Hér hefði átt að segja: Þjóðkirkjan innheimtir sókargjöld. Germynd er alltaf betri. Málfarsráðunautur lætti að leggja áherslu á það við fréttamenn.

 

Í svokölluðum Hraðfréttum Ríkissjónvarps (23.01.2015) var sagt: .... gefa hjálma merktum Eimaskipafélaginu. Þetta er bull. Hér hefði t.d. átt að segja: ... gefa hjálma, sem merktir eru Eimskipafélaginu , eða hjálma merkta Eimskipafélaginu. Í þessum þætti var líka sagt: Alþingi var sett í síðustu viku. Það var líka bull. Alþingi kom saman að nýju eftir jólaleyfi. Það er ógerlegt að hafa samúð með Ríkisútvarpi í kröggum, þegar takmörkuðu dagskrárfé er sturtað niður með þessum hætti.

 

Ágæt umræða í Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudagsmorgni (25.01.2015). Undarlegt að heyra hvernig Jón Gunnarsson talaði niður til Katrínar Júlíusdóttur. Ekki hækkaði pundið í þessum þingmanni hjá Molaskrifara eftir þetta samtal. Gaman var að hlusta á þá Egil Helgason og Ólaf Stephensen. Gott samtal.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1659

  

Undarleg fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (22.01.2015): Leikskólastjórar fá vitlausan lífeyri http://www.ruv.is/frett/leikskolastjorar-fa-vitlausan-lifeyri

Þarna hefði einhver þurft að lesa yfir og lagfæra. Í fréttinni er réttilega talað um rangar lífeyrisgreiðslur. Ekki vitlausar!

 

Góður húmor hjá Hauki Holm fréttamanni. Í þrjú fréttum Ríkisútvarps (22.01.2015) sagði hann frá uppákomu á Alþingi. Við heyrðum í tveimur þingmönnum, sem báðir fóru fram yfir leyfðan ræðutíma. Haukur kynnti þá til sögunnar í lok fréttarinnar og bætti við: Forseti Alþingis lék undir á bjöllu! Hárrétt. Uppákoman varð vegna frumhlaups meirihluta atvinnuveganefndar um að breyta svokallaðri rammaáætlun og bæta við umdeildum virkjunarkostum, þar sem meðal annars er gengið á hlut Vatnajökulsþjóðgarðs.

 

Þórhallur Jósepsson skrifaði Molum (21.01.2015): ,, Sæll Eiður.
Mig langar að nefna eitt varðandi málfar sem allmargir, jafnvel þrautreyndir fréttamenn og blaðamenn, virðast ekki kunna rétt skil á.
Í grein á Vísi í dag, svo dæmi sé nefnt, undir fyrirsögninni "Jón Óttar ræður gátuna um Sólborgarmálið" skrifar Jakob Bjarnar: "Í þætti Jóns Óttars Ragnarssonar er leitt að því líkum..."
Forvitnilegt væri að vita hvers vegna svo margir vilja leiða "líkum" að einhverju. Þetta er ekkert öðruvísi en að leiða hvað annað: Leiða börn (ekki börnum), leiða hest (ekki hesti). Kannski hefur þetta ruglast í hugum manna við orðasambandið að eitthvað (t.d. niðurstaða eða dómur) sé leitt af líkum?”. Góð ábending. Kærar þakkir, Þórhallur.

 

Forsíðufyrirsögn í Morgunblaðinu (21.01.2015): Costco opnar á næsta ári. Fréttin er um að bandaríski smásölurisinn Costco muni opna verslun í Garðabæ á næsta ári. Það er sennilega tapað stríð að berjast gegn þessari notkun sagnarinnar að opna. Í huga Molaskrifara er sögnin að opna áhrifssögn,sem tekur með sér andlag í þolfalli.

 

Auglýsing úr Ríkisútvarpinu frá SAM-bíóum, minnir mig.(21.01.2015): ,, Við endursýnum óperuna Merry Widow ....”. Er þetta ekki óperettan, sem aldrei hefur verið kölluð annað en ,,Káta ekkjan “ á íslensku? Kannski misheyrðist Molaskrifara, en  tilhneigingar gætir til að nota ensku í vaxandi mæli í auglýsingum og virðist stjórn auglýsingadeildar ekkert  sjá athugavert það, hvað sem öllum  reglum Ríkisútvarpsins líður.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1658

 

Molavin skrifaði (20.01.2015): ,, Þótt haustannir bænda, svo sem göngur, leitir og réttir séu að venju í fleirtölu, þá á sama ekki við um húsleit. Hún er að hefð eintöluorð, jafnvel þótt leitað sé í fleiri húsum en einu. Netmoggi segir í dag, 20.01.2014: "Þýska lög­regl­an hef­ur fram­kvæmt hús­leit­ir á yfir 10 stöðum í dag..." Þessar "húsleitir" hafa færzt í aukana í fréttum og er enn ein sönnun þess að leiðbeiningar er þörf inni á ritstjórnum. Og talandi um haustannir, þá verður slátrun fjár vonandi ekki orðin að fleirtölu hjá sama unga blaðafólkinu, þótt slátrað sé víða og mörgu fé.” Kærar þakkir, Molavin. Góðar ábendingar.

 

 

Í ágætu spjalli umsjónarmanna Morgunútgáfunnar í Ríkisútvarpinu (20.01.2015) við málfarsráðunaut var þrennt gert að umtalsefni, sem oft hefur verið nefnt í Molum. Í fyrsta lagi sú meinloka að vera sáttur með eitthvað. Sáttur við. Í öðru lagi tölum við ekki um að fara erlendis, eins og svo oft heyrist. Við erum erlendis. Erlendis er notað um dvöl á stað, ekki ferð til staðar. Við dveljumst erlendis (dveljum, var að vísum sagt í spjallinu). Við förum til útlanda. Í þriðja lagi var það gert að umtalsefni að rugla saman eftirmálum og eftirmála. Eftirmáli er kafli eða stutt niðurlagsorð í bókarlok en eftirmál eru afleiðingar einhvers sem gert hefur verið. Til dæmis: Framkoma hans hafði engin eftirmál ... Í eftirmála bókarinnar segir höfundur ...

Örnólfur Árnason, þýðandi og smekkmaður um málfar, hnykkti á þessu á fésbók (20.01.2015). Hann sagði:,, Hver tyggur eftir öðrum þetta hvimleiða orðalag "að fara erlendis". Erlendis táknar dvöl, ekki hreyfingu, eins og "úti" táknar dvöl en "út" hreyfingu. Það er því jafnvitlaust að segja "að fara erlendis" og að segja "að fara úti" en það segir auðvitað enginn. Og hana nú.”

Dropinn holar steininn og aldrei er góð vísa of oft kveðin.

 

Síðan þá hafa félögin og Valitor greint á ... var sagt í fréttum Stöðvar tvö (20.01.2015). Þetta hefði átt að vera: Síðan þá hefur félögin greint á ....

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1657

  

Glöggur Molalesandi skrifaði (19.01.2015): ,,Bíll fór út í Reykjavíkurhöfn.“ Já, svona var fyrirsögnin á vísi.is í gær. Stutt var ambaganna á milli í stuttri frétt. „bíll fór út í höfnina... Maðurinn er talinn hafa verið lengi ofan í sjónum... að draga bílinn upp úr höfninni... þegar bíllinn keyrði fram af brúninni…” . Molaskrifari þakkar ábendinguna. Hér hefur enn einn viðvaningurinn verið að helgarvaktinn og enginn til að lesa yfir, leiðrétta og færa til betra máls.

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (19.01.2015) talaði umsjónarmaður um brjálað veður á höfuðborgarsvæðinu. Það var rok, venju fremur hvasst að vísu, og það var rigning. Í morgun (20.01.2015) sagði  umsjónarmaður okkur í sama þætti að brjálað væri að gera í Múlakaffi. Þar eru starfsmenn önnum kafnir að undirbúa þorrann. Molaskrifari leggur til að brýnt verði fyrir umsjónarmönnum að spara gífuryrðin. Þau missa marks, séu þau ofnotuð. Orðið brjálað er greinilega kækorð hjá þessum umsjónarmanni. Málfarsráðunautur gæti gert kækorð að umtalsefni við tækifæri.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (19.01.2015) heyrði Molaskrifari ekki betur en sagt væri: ,, ... í ljósi þess að engra tekna er til að dreifa.” Hefði átt að vera: ,, ... í ljósi þess að engum tekjum er til að dreifa.”  

 

Úr frétt á visir.is (19.01.2015): Reykjavíkurborg hefur bannað Kiwanishreyfingunni að gefa börnum reiðhjólahjálma merktum Eimskipafélaginu.  Hér ætti fremur að standa: ,,Reykjavíkurborg hefur bannað Kiwanishreyfingunni að gefa börnum reiðhjólahjálma merkta Eimskipafélaginu.” Sjá : http://www.visir.is/grunnskolaborn-i-reykjavik-mega-ekki-fa-hjalma-merkta-eimskipafelaginu/article/2015150118908

 

Trausti spyr (19.01.2015) vegna fréttar á mbl.is (19.01.2015), - ætli hraunið telji eitthvað? Í fréttinni segir:,, Hraunið þekur nú svæði sem er stærra að flat­ar­máli en Man­hatt­an, en það tel­ur yfir 83 fer­kíló­metra.” Auðvitað telur hraunið hvorki eitt né neitt. Þetta hefði á margan annan veg mátt orða betur. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/19/likt_og_svort_und_a_hvitum_feldi/

Einnig bendir Trausti á aðra frétt á mbl.is sama dag og spyr hvort hæðarmetrar séu frábrugðnir öðrum metrum? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/19/barst_hundrud_metra_med_flodinu/

 Í fréttinni segir: ,,Snjóflóðið féll úr hlíðum Eyr­ar­fjalls og var 75 metra breitt og fall­hæðin ná­lægt 350 hæðarmetr­um.” Molaskrifari þakkar Trausta þessar ábendingar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1656

  

Úr tíu fréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (17.01.2015): Einn þeirra sem handtekinn var í Aþenu í kvöld svipar til Abaaoud og hafa lífsýni verið send til Belgíu. Hér hefði að mati Molaskrifara átt að segja: Einum þeirra ... svipar til ...  Einhverjum svipar til einhvers, einhver líkist einhverjum.

 

Útvarpshlustandi skrifaði (17.01.2015): ,,Hlustaði á spurningaþáttinn Gettu betur í útvarpinu í vikunni. Þar var spurt um nafn höfuðborgar Flórídafylkis. Ef ég man rétt þá er talað um Bandaríkin, ekki Bandafylkin”. Molaskrifari þakkar bréfið og minnir á að hann hefur stundum nefnt einmitt þetta sama. Í Banríkjunum eru ekki fylki, heldur ríki, (e. states). Honum hefur þá verið andmælt með þeim rökum, að það væri gömul málvenja að tala um fylki í Bandaríkjunum. Má vera, en Molaskrifari er samt á því að tala eigi um ríki en ekki fylki í Bandaríkjunum. Fylki eru hins vegar í Noregi.

 

Í miðnæturfréttum Ríkisútvarps á laugardagskvöld (17.01.2015) var sagt: Þykknar upp suð- og vestanlands. Þetta rímar ekki við málkennd Molaskrifara. Betra hefði verið að segja, til dæmis: Þykknar upp sunnan- og vestanlands.

 

Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/01/18/24_letust_i_rutuslysi/

Hörmulega illa skrifuð frétt á mbl.is (18.01.2015). Gæðaeftirlit er oft ekki til staðar á þessum fréttamiðli, frekar en öðrum  - allra síst um helgar.

 

Undarleg auglýsing á Rás tvö í Ríkisútvarpinu hefst á aðvörunarpípi eins og í reykskynjara. Er tilgangurinn að skjóta fólki skelk í bringu eða gera því bilt við? Það síðarnefnda tókst hvað Molaskrifara varðar. Auglýsingastofa Ríkisútvarpsins er víða á hálum ís.

 

Úr hádegisfréttum Bylgjunnar (19.01.2015). ,, ... þaðan sem hinar öfgafullu hreyfingar eiga upptök sín.” Þarna hefði átt að segja: ... þar sem hinar öfgafullu hreyfingar eiga upptök sín .

 

,,Þetta er allt undir control”, sagði formaður fjárlaganefndar í útvarpinu. Hún sagði líka að Íslendingar ættu ekki að taka niður fyrir sig með því að sækja um aðild að ESB! Það var og!

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1655

 

1655-15

Sigurður Oddgeirsson skrifaði frá Danmörku (17.01.2014): ,,Hann átti að dæma leik Gróttu og Mílan út á Seltjarnarnesi í gær ásamt Ingvari Guðjónssyni. Þeir félagar misskildu þó málið eitthvað og keyrðu alla leið inn á Selfoss”. Skyldi hér vera átt við AC Milan?

 

,,Þetta hef ég aldrei heyrt fyrr””, segir Sigurður. Sannar fyrir mér að þetta unga fólk, sem sér um fréttaskrif í dagblöðunum á þessum "síðustu og verstu tímum" les yfirleitt aldrei eldri texta en frá 2010”. Alla leið inn á Selfoss??? Undarlegt orðalag, bætir Molaskrifari við.

Molaskrifari þakkar Sigurði bréfið.

 

Úr frétt á visir.is (16.01.2015): ,,Tvö stór Gullegg prýða nú eyjuna á tjörninni og spyr ja menn sig sjálfsagt hvaða stóri fugl hafi verið þar á ferð.” Það sem visir.is kallar eyjuna á tjörninni hefur svo lengi sem elstu menn muna heitið Tjarnarhólminn eða hólminn í Tjörninni. http://www.visir.is/gullegg-a-tjorninni/article/2015150119202

 

Tvo daga í röð heyrði Molaskrifari fallbeygingarvillur hjá fréttamanni/fréttaþul í Ríkisútvarpinu, þegar sagt var: ,, ... einum af stjórnarmanni ...”. Í seinna skiptið (16.001.2015) var sagt: ,,Haft var eftir einum af stjórnarmanni ...”  Rétt hefði verið að segja til dæmis: Haft var eftir stjórnarmanni ,eða, -  haft var eftir einum af stjórnarmönnum ... Málfarsráðunautur ætti að athuga málið.

 

Rafn spyr vegna fréttar á mbl.is (16.01.2015): Hvar er hugsun blaðamannsins?  Fréttin,sem hann bendir á: ,,BMW skaust upp fyr­ir Mercedes-Benz sem sölu­hæsti lúx­us­bílsmiður­inn í Banda­ríkj­un­um á nýliðnu ári. 

BMW hélt þess­um titli 2011 og 2012 en árið 2013 sett­ist Mercedews-Benz í topp­sætið þar til nú. Árið 2014 seldi BMW um 9.000 bíl­um fleira en árið 2013 var for­skot Mecedes-Benz um 3.000 bíl­ar.” http://www.mbl.is/bill/frettir/2015/01/15/bmw_fram_ur_mercedes_benz/

 Í þessari frétt á Moggavefnum kemur fram að BMW hafi haldið titlinum „sölu­hæsti lúx­us­bílsmiður­inn í Banda­ríkj­un­um“ árin 2011 og 2012, sem bendir til að BMW hafi einnig borið þann titil á árunum þar á undan. Síðan hafi Mercedews-Benz (svo!) setzt í toppsætið þar til nú, 2014. Að mínu mati er þetta ekki eðlileg frásögn af því, að M-B hafi skotizt upp fyrir BMW í eitt ár. Hitt er annað mál, að munur bifreiðafjöldans er lítill, 9.000 bifreiða munur árið 2014 en 3.000 árið 2013.

 PS: Hvað skyldi M-B fyrirtækið heita. Í þremur línum Mbl. eru þrjár útgáfur nafnsins: Mercedes-Benz, Mercedews-Benz og Mecedes-Benz. Hvar er yfirlesturinn??” – Von er að spurt sé. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (16.01.2015) var sagt að verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni hefði verið aflýst. Verkfallinu var aflýst.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 


Molar um málfar og miðla 1654

 

Hversvegna þarf að riðla kvölddagskrá Ríkissjónvarpsins á Íslandi þótt Brasilíumenn séu að spila handbolta við Qatar? Ég spyr. Þar var gert í gærkveldi og fréttum seinkað um 15 mínútur. Kastljósið skorið við trog. Svo bættist reyndar við enn meira boltafjas seinna um kvöldið. Sennilega hefur Molaskrifari ekki verið sá eini sem þá gafst upp á Ríkissjónvarpinu. Ekki verður séð að norrænu sjónvarpsstöðvarnar hafi sýnt þessum boltaleik minnsta áhuga. Og ekki sýnist áhuginn mikill í Qatar eftir áhorfendafjölda að dæma. - Hver ræður dagskrá Ríkissjónvarpsins? Ekki fréttastjórinn. Varla útvarpsstjórinn, en örugglega íþróttastjórinn. Þetta er dæmi um það, þegar stofnun, sem fólk ræður ekki hvort það vill eiga viðskipti við, misbeitir valdi sínu. Ríkissjónvarpinu, sem hefur menningar- og fræðsluhlutverki að gegna, hefur tekist að skapa einskonar múgsefjun í kringum boltaleiki. Í dagskrá ríkisrásarinnar hafa boltaleikir forgang umfram allt annað.

 

Lesandi sendi þessa ábendingu (15.01.2015): ,,Á næstu mánuðum mun Krónan opna þrjár nýjar verslanir þar sem nú eru Nóatúnsverslanir. Verslanirnar í Grafarholti, Hamraborg og Nóatúni munu breytast úr Nóatúni í Krónuna." - Þessi venjulega meinloka hér: Krónan opnar ekki nýjar verslanir, en þremur verslunum Nóatúns verður breytt í Krónubúðir. Verslanir fremur en önnur dauðleg fyrirbæri hafa ekki sjálfstæðan vilja til breytinga.” – Mikið rétt. Molaskrifari þakkar ábendinguna: http://www.visir.is/hverfin-gera-krofur-til-reksturs-lagverdsverslana/article/2015701159935

 

Það er hvimleiður siður sumra, stjórnmálamanna og annarra, sem rætt er við í útvarpi og sjónvarpi að ofnota orðið sjálf/sjálfur. Rætt var við félagsmálaráðherra í sjónvarpi í gærkvöldi. Hún sagði: Ég sjálf er þeirrar skoðunar... Hér hefði nægt að segja: Ég er þeirrar skoðunar.

 

Molaskrifari hlustaði stundarkorn á Virka morgna á Rás tvö (15.01.2015). Þar var allt óbreytt. Enn var verið að um hljóstir (hljómsveitir) og eitthvað sem var dáslett (dásamlegt). Ríkisútvarpið á að vera til fyrirmyndar um málfar. Málfar í þessum þætti er það ekki.

 

Ratbjart um miðjan dag, segir í fyrirsögn í Morgunblaðinu (15.01.2015). Ratljóst er gamalt og fallegt orð. Samanber sauðljóst og vígljóst. Fleiri orð í sama dúr?

Þessu skylt eða tengt. Ljósbært veður.

Í bráðskemmtilegri bók Þórðar Tómassonar frá Vallnatúni, Þórðar í Skógum, Veðurfræði Eyfellings, vitnar hann í veðurlýsingu sér Markúsar Jónssonar í Holti frá miðri nítjándu öld:,,Er þá stundum svo lygnt á millum byljanna, að ljósbært er úti millum húsa, en í sjálfum byljunum hringlar og brakar í öllu".

 

Newcastle líklegast til að spreða í janúar, segir í óskiljanlegri fyrirsögn á dv. is (15.01.2015). Annaðhvort kann Molaskrifari ekki íslensku eða sá sem samdi þessa fyrirsagnarómynd er ekki vel að sér um skrif á íslensku. http://www.dv.is/sport/2015/1/13/newcastle-liklegast-til-ad-spreda-i-januar/

 

Fyrsti þátturinn í röðinni Ferð til fjár í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi (15.01.2015) lofar heldur góðu. Skemmtilega fjölbreytt nálgun. Viðfangsefnið ekki einfalt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1653

 

Herrafatabúð Birgis auglýsti í Ríkisútvarpinu á miðvikudag (14.01.2015): Jakkaföt, - tvö fyrir ein. Þetta las þulur athugasemdalaust. Tvö jakkaföt! Enn virðist auglýsingadeild Ríkisútvarpsins taka gagnrýnilaust við öll sem að henni er rétt. Enginn les yfir. Átt var við að tvenn jakkaföt fengjust á verði einna. Þetta var leiðrétt daginn eftir.

 

Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (14.01.2015) sagði íþróttafréttamaður frá manni ætlaði að stíga á stokk á ráðstefnu. Í fréttinni kom fram að maðurinn ætlaði ekki að stíga á stokk og strengja heit. Hann ætlaði að segja frá afrekum sínum.  Ef menn nota orðtök, verða þeir að vita hvað þau þýða. Orðið nokkuð algengt að heyra í fréttum talað um að stíga á stokk, þegar átt er við það að taka til máls, flytja ræðu eða tónlist.

 

Í Garðapóstinum (15.01.2015) segir í fyrirsögn: Biðlistinn telur 500 miða!!. Biðlistinn telur hvorki eitt né neitt. Hér hefði til dæmis mátt segja: 500 manns á biðlista. Í undirfyrirsögn segir: Þeir sem skráðu sig á biðlista vantar tæplega 500 miða. Mig vantar, ekki ég vantar. Þess vegna hefði hér átt að standa: Þá sem skráðu sig á biðlista vantar tæplega 500 miða. Kannski er hér ferð hræðsla við þágufallsýki? Í fréttinni,sem er um miðasölu á þorrablót, segir: ... en bankinn opnaði klukkan 0900.  Bankaði opnaði ekki. Hann var opnaður. Miðarnir voru seldir í bankaútibúi.

 

Í Morgunútgáfunni í Ríkisútvarpinu (15.01.2015) var sagt: ... flutt ykkur erlendis. Verið var að ræða um fyrirtæki, sem hafði flutt starfsemi sína til útlanda. Erlendis er notað um dvöl á stað, ekki ferð eða flutning til staðar. Fyrirtækið starfar erlendis. Málfarsráðunautur ætti að ræða þetta, - og fleira - við umsjónarmenn þessa þáttar.

 

Mikið til er hætt að tala um ársgrundvöll, þegar verið er að miða við eitt ár eða tólf mánuði. Þessi gamli draugur skaut þó upp kollinum í morgunfréttum Ríkisútvarps á fimmtudagsmorgni(15.01.2015) Alltaf er hægt , - og betra að segja á ári, í stað ársgrundvallarins.

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1652

 

Þórarinn Guðnason sendi eftirfarandi (12.01.2015):,,BrúUnum yfir Eyrarsund og Stórabelti var lokað í gærkvöld…". Hann  segir: - ,,Þetta kann að hafa verið mismæli hjá þulnum, sem annars las mjög vel, - kann líka að vera að hann hafi ekki skrifað fréttina sjálfur - en ekki leiðrétti hann sig”. -  Molaskrifari  þakkar ábendinguna.  Brúnum, hefði þetta átt að vera  eins og  Þórarinn bendir réttilega  á.   

 

Fyrrverandi starfsfélagi skrifaði (12.01.2015): ,,Alltaf eru menn að rugla með sögnina að veita, nú síðast í heilsíðu auglýsingu frá ríkisstjórninni. Þar veita menn fjármunum til heilbrigðismála. Hið rétta er að menn veita fjármuni til heilbrigðismála, en verja fjármunum til lausnar læknadeilunni. Svo eyða menn líka fjármunum í alls kyns vitleysu. Það er óþarfi að blanda Flóaáveitunni inn í óskyld málefni!”

Molaskrifari þakkar  ábendinguna.

 

Molalesandi skrifaði (12.01.2015) ,,Í Mogganum í dag segir að Steinullarverksmiðjan á Króknum fagni 30 ára afmæli sínu á árinu. - Þetta er ruglsetning. Verksmiðjan fagnar engu, hins vegar verður afmæli hennar fagnað. - Ótrúlega algengt að dauðum hlutum sé gefið líf, þegar talað er um einhver tímamót ...” Molaskrifari þakkar bréfið. Í Morgunblaðinu á mánudag stendur undir mynd á bls. 12:,,Steinull. Verksmiðjan á Sauðárkróki tók til starfa haustið 1985 og fagnar því 30 ára afmæli á þessu ári”.

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á mánudag (12.01.2015) var sagt frá eldsvoða í bíl í Kópavogi. Sagt var að fólk í bílnum hefði verið að reykja vindlinga. Það er ágætt orðalag, þótt orðið sígaretta sé fyrir  löngu búið að festa sig  í málinu. Svo var sagt að bíllinn hefði verið pakkaður af  flugeldum. Það var ekki eins vel orðað. Átt var við að talsvert eða mikið af flugeldum hefði verið í bílnum.

 

 

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1651

,, Köfunarmenn sem fóru niður að flaki farþegaþotu Air Asia flugfélagsins sem hrapaði í Javahafi fundu í dag flugrita flugvélarinnar.” Þetta mátti lesa á fréttavef Ríkisútvarpsins á sunnudag. Síðar var þetta lagfært  og köfunarmönnum breytt í kafara.   En áfram stóð í fréttinni að flugvélin hefði hrapað í Javahafi. Vélin hrapaði í Javahaf eða Jövuhaf. Fréttastofan þarf að gera betur en þetta.

 

Í áttafréttum Ríkisútvarps (12.01.2015) var talað um þrjú verðlaun. Það virðist vera erfitt að læra þetta. Þrenn verðlaun, hefði þetta átt að vera. Orðavin sendi Molum þetta sama dag: ,,Talandi um fleirtöluorð. Í frétt ríkisútvarpsins http://www.ruv.is/frett/boyhood-sigursael-a-golden-globe

 er þrisvar talað um tvö verðlaun”. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins þennan saman morgun var okkur sagt að færðin í Reykjavík væri agaleg, - það hafði snjóað. Einnig var flest ef ekki allt í sambandi við handboltamót í Qatar sagt bæði stórkostlegt og dásamlegt! Hvernig væri að gæta svolítið meira hófs í orðavali?

 

Af mbl.is (11.01.2015): Voru þau vistuð í fanga­geymslu vegna rann­sókn máls­ins. Beygja, beygja .. Voru þau vistuð í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. Meira af mbl.is sama dag: Bíl­velta varð á Suður­lands­vegi rétt aust­an við gatna­mót­in við Skeiðaveg um sjöleytið í kvöld. Molaskrifari hefur aldrei kunnað að meta það orðalag að bílvelta hafi orðið. Bíll valt á Suðurlandsvegi ....

 

Meira af mbl.is (11.01.2015): ,, Búið er að loka veg­in­um um Sand­skeiði, Hell­is­heiði og Þrengsli. Veginum um Sandskeiði! Það var og! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/01/11/heillisheidi_og_threngsli_lokud/

Vitnað er í heimasíðu Vegagerðarinnar. Þar segir hinsvegar: ,,Lokað er á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum annars er hálka eða snjóþekja mjög víða á Suðurlandi og einhver skafrenningur.” Þarna hefur greinilega viðvaningur, fréttabarn, eins og stundum er sagt, verið á vaktinni. Mbl.is þarf að vanda sig meira.  

 

Borganöfn eru birt á veðurkortum Stöðvar tvö, - bæði austan hafs og vestan. Ríkissjónvarpið ræður líka yfir þessari tækni, en sýnir ekki borganöfn. Skrítið. Minnir þó að Birta Líf veðurfræðingur hafi einu sinni gert það. Sýnt að þetta er mögulegt. Hún hefur brotið upp á nýjungum í veðurfréttum, - sem er af hinu góða.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband