Molar um málfar og miðla 1680

  

 

Í íþróttafréttum í hádegisfréttum Ríkisútvarps (19.02.2015) sagði fréttamaður að af sérsamböndunum væri starfsemi Knattspyrnusambandsins sú umfangsmesta á ársgrund velli. Ársgrundvöllur , títtnefndur, er ævinlega til óþurftar í fréttum.

Svo var okkur sagt að framkvæmdastjóri sambandsins ætlaði að stíga til hliðar. Stíga til hliðar (e. step aside). Það hefði betur farið á því að segja að framkvæmdastjórinn ætlaði að hætta, láta af störfum. Oft hefur verið að þessu hér í Molum áður.

 

Þetta birtist á mbl.is (19.02.2015): „Ég hef jafn­vel haft tæki­færi til að versla lopa­peysu og bragða á staðbundnu lostæti,“ seg­ir Robert C. Barber, sendi­herra Banda­ríkj­anna á Íslandi, í mynd­bandi sem birt var í dag á Face­book-síðu banda­ríska sendi­ráðsins ... “ Ekki er hægt að segja að þetta sé góð þýðing á orðum bandaríska sendiherrans. Hann keypti sér lopapeysu (e. ,,even had the chance to shop for lopapeysa”). Verslaði ekki lopapeysu. Hann bragðaði á íslenskum kræsingum, krásum, góðgæti, - ekki staðbundnu lostæti. (e. ,,local delicacies”) Þýðingar hafa aldrei verið hin sterka hlið Morgunblaðsins.

 

Óskarsverðlaunin fara fram á sunnudaginn, var sagt í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (20.02.2015). Óskarsverðlaunahátíðin fer fram á sunnudaginn , eða Óskarsverðlaunin verða afhent á sunnudaginn, hefði verið eðlilegra orðalag.

 Í fréttum Ríkissjónvarpsins sama dag var okkur sagt, að uppskeruhátíð íslensks tónlistarfólks yrði haldin hátíðleg í kvöld. Hátíðir eru ekki haldnar hátíðlegar. Hér hefði verið einfaldara að segja, til dæmis: Uppskeruhátíð íslensks tónlistarfólks er í kvöld. Svo ræddi fréttamaður sjónvarpsins við mann, sem unnið hafði til ,,fjögurra verðlauna”. Það virðist mörgum erfitt að átta sig á að orðið verðlaun er fleirtöluorð. Rætt var við mann sem unnið hafði til fernra verðlauna. 

 

Gott var að fá kvikmyndina Good Night and Good Luck , Góða nótt  og gangi ykkur vel  á skjá  Ríkissjónvarpsins í gærkveldi (22.02.2015). Merk  saga um góða blaðamennsku og baráttuna gegn öldungadeildarþingmanninum alræmda Joseph McCarthy. Þeir Edward R. Murrow og Fred Friendly  voru í fremstu röð í bandarískri blaðamennsku á síðustu öld.  Til er ágæt bók  sem heitir: Edward R. Murrow and the Birth of Broadcast Journalism. Höfundurinn  heitir Bob Edwards. . Hana  ættu blaðamenn að lesa.

 

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu sl. fimmtudag (19.02.2015) voru flutt tvö verk eftir Ludwig van Beethoven. Þá rifjaðist það upp fyrir skrifara að fyrir margt löngu voru fluttir í Ríkisútvarpinu þættir þar sem Gylfi Þ. Gíslason, fyrrverandi menntamálráðherra, kynnti sinfóníur Beethovens. Þetta var framúrskarandi efni, smekklegar og fróðlegar kynningar og skýringar, eins og Gylfa Þ. Gíslasonar var von og vísa. Séu þessir þættir til í segulbandasafni Ríkisútvarpsins væri ástæða til að endurflytja þá við tækifæri. Sennilega hafa þættirnir verið frumfluttir um eða eftir 1980.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar um miðla 1679

  

Af mbl.is (18.02.2015) : ,Ungt par sem ætlaði að krydda til­ver­una hjá sér í sum­ar­bú­stað í Borg­ar­byggðinni um liðna helgi með því að út­búa sér kanna­bis-ís, eft­ir upp­skrift af Net­inu, beit held­ur bet­ur úr nál­inni þegar það byrjaði að gæða sér á ísn­um”.

Molaskrifari játar að hann áttar sig ekki á þessari notkun orðtaksins að bíta úr nálinni, - bíta þráð í sundur til að losa nálina ( Mergur málsins, bls. 622) Oft er sagt, til dæmis., að einhver sé ekki búinn að bíta úr nálinni með eitthvað, - ekki séu afleiðingar einhvers verknaðar eða aðgerðaleysis komnar í ljós. - Hann er ekki búinn að bíta úr nálinni með framkomu sína gagnvart konunni í gærkvöldi.

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/18/bordadi_hassis_og_hljop_um_nakinn/

 

,,... renni til samfélagsins og uppbyggingu þess.” Þannig var til orða tekið í Speglinum í Ríkisútvarpinu (18.02.2015). Hefði að mati Molaskrifara átt að vera: .. renni til samfélagsins uppbyggingar þess.”

 

Bókstafurinn – r - í miðjum orðuð vefst stundum fyrir fréttaskrifurum. Í Garðapóstinum (19.02.2015) er svohljóðandi fyrirsögn: Lykillinn er hugafar Garðbæinga. Þarna ætti að standa: Lykillinn er hugarfar Garðbæinga, - eins og réttilega er skrifað í fréttinni.

 

Á fimmtudagsmorgni (19.02.2015) var í sjö fréttum Ríkisútvarps vitnað í bandaríska dagblaðið Los Angleles Times. Upp á ensku var það kallað / ell ei tæms /. Þetta var endurtekið í fréttum klukkan átta. Óþarfi. Hversvegna nota enska skammstöfun? Þetta hefur reyndar heyrst áður.

 

Sama morgun var rætt við starfsmann Ríkisútvarpsins, sem staddur var í Leifsstöð. Þar höfðu farangursfæribönd bilað og valdið töfum. Starfsmaðurinn var að detta inn í öryggisleitina og hlustendur fengu að heyra að flugum hefði verið frestað! Vonandi hefur sá sem rætt var við ekki slasast við fallið og flugunum ekki orðið meint af frestuninni. Nú um stundir er það mjög í tísku þegar eitthvað er nýafstaðið eða er í þann veginn að gerast að segja að það sé að detta inn, nýkominn gestur var að detta inn. Heldur hvimleitt finnst málfarsíhaldinu sem þetta skrifar. – Í átta fréttum sagði Haukur Holm fréttamaður að ekki kæmi fram á vef Isavia, að bilunin á færiböndunum  hefði valdið töfum á flugi. Það er gott orðalag.

 

Orðið staðsetning og sögnin að staðsetja heyrast æ oftar, - að tilefnislausu. Í hádegisfréttum (19.02.2015) á fimmtudag var sagt: Staðsetning viðræðnanna hefur þó ekki verið ákveðin. Viðræðustaður hefur ekki verið ákveðinn. Ekki hefur verið ákveðið hvar viðræðurnar fari fram.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1678

 

Molavin sendi þetta ágæta bréf (17.02.2015): ,,Það er trúlega blanda af öllu þessu; þekkingarleysi, hugsunarleysi og eftirlitsleysi. þegar fyrirsagnir af þessu tagi verða til: BETRA AÐ SOFA EN SNÚSA LENGI (Fréttablaðið 17.2.2015). Þessi "ísl-enska" er þó höfð orðrétt eftir formanni Hins íslenska svefnrannsóknafélags. "Snooze" er enska og merkir að dorma áfram, blunda eða sofa létt. Jafnvel "næla sér i kríu". Snúss er hins vegar þekkt og gamalt heiti á neftóbaki og "að snússa" merkir að taka í nefið. Ég held að doktorinn, sem rætt var við, hafi ekki átt við það. Íslenzkan er svo rík af orðum, að óþarfi er að sletta ensku eða reyna að búa til nýyrði með slíkum hráþýðingum.

 

Að öðru: "1 tafla 1 sinnum á dag" segir á lyfjaboxi. Trúlega er þetta prentað úr tölvu, sem verður ekki sökuð um slæma málkennd, en forritarar hljóta að geta gert betur. 

 

"Garbage in - garbage out" var sagt í árdaga tölvutækni, þegar menn kenndu tölvunni um. Norskur háskólaprófessor minn í gamla daga var óspar á svipaðar umvandanir þegar honum fannst einhverjir ekki vanda sig: Sljó hugsun - slæmur texti, sagði hann (þó á norsku) og svipað mættu yfirmenn fjölmiðla iðulega segja nýliðum sínum.”

Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins (18.02.2015) var talað um fjallabelti. Sennilega var átt við það sem hingað til hefur verið kallað fjallgarður á íslensku.

 

Mánaðarblaðið nýja, Stundin, barst Molaskrifara á miðvikudagsmorgni. Efnismikið blað og sýnist heldur lofa góðu.

 

Kiljan á miðvikudagskvöldum í Ríkissjónvarpinu er alltaf skemmtileg blanda af bókmenntum og menningarsögulegum fróðleik af mörgu tagi. Myndvinnsla jafnan vönduð og smekkleg.

Ekki er þó Molaskrifari viss um að það sé rétt hjá Agli að Reykvíkingum sé heldur í nöp við Hallgrímskirkju. Hann hallast að því að þeir hafi fyrir löngu tekið hana í sátt. Ef Molaskrifari er ekki á hraðferð og á leið um Skólavörðuholtið sest hann stundum inn í kirkjuna. Þá kemur fyrir að verið er að leika á hið stórkostlega orgel kirkjunnar. Það eru góðar stundir.

 

Það er misskilingur,sem fram kemur í sjónvarpsauglýsingu frá Mænuskaðafélagi Íslands, að utanríkisráðuneytið flytji tillögur á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ísland flytur tillögurnar.

 

allgrímskui Hallgrímskirkju. Stundumer hann svo heppinn aðp  einhver snmillingurinn er að s kirkjun

 

Forseti lýðveldisins flandrar nú um heiminn og nýtur samvista við ríka og fína fólkið. Það á nú við hana Vindu! Sækir brúðkaup milljarðamæringa og blandar geði við forystumenn ríkja þar sem mannréttindi mest eru fótumtroðin, - eins og til dæmis í Arabísku furstadæmunum. Kom svo við hjá kónginum á Spáni svona í leiðinni. Morgunblaðið gerði þessu flakki forsetans nokkur skil á þriðjudag (17.02.2015). Þar sagði: ,, ... og átt hádegisverð með konungsfjölskyldunni í Bútan”. Forsetinn hafði snætt hádegisverð með konungsfjölskyldunni í Bútan. Hann átti ekki hádegisverð konungsfjölskyldunni. Sennilega er hér um bein áhrif úr ensku að ræða, ... had lunch with the royal family...

En spyrja mætti, - borgar íslenska þjóðin ferð forseta í snobbbrúðkaup á Indlandi? Skrítið, ef sú er raunin.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1677

   

K.Þ. skrifaði (15.02.2015): Sæll Eiður,

Eins og ég hef ítrekað bent á er orðið "tengdur" nánast aldrei beygt rétt í fjölmiðlum. Ég læt hér fylgja tvö ný dæmi.

"Sá sem rann­sakaði spill­ing­ar­mál þeim tengd­um ..."

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/02/13/glaepamenn_fundu_skjol_hja_hsbc/

"Lögmenn ákærðra í hrun-málum, það er málum sem nú hafa verið dómtekin sem tengjast hruni bankanna og viðskiptagjörningum því tengdu ..."

http://kjarninn.is/logmenn-i-hrunmalum-i-sjokki-domurinn-markar-timamot

Molaskrifari þakkar K.Þ. Bréfið Hér hafa áður verið nefnd svipuð dæmi. Þetta þvælist mjög fyrir sumum fréttaskrifurum.

 

Enn eru menn að sigra keppni í fjölmiðlum. Nú síðast Söngvakeppni sjónvarpsins, sjá visir.is (16.02.2015): ,, Sigmar kom færandi hendi og afhenti Ásgeiri Orra risavaxna milljóna króna ávísun sem þremenningarnir í StopWaitGo fengu í verðlaun fyrir að sigra Söngvakeppni Sjónvarpsins um helgina.” Þetta lærist sumum seint og illa .

http://www.visir.is/maria-og-strakarnir-i-stopwaitgo-gleymdu-milljon-krona-avisun/article/2015150219146

 

Í öllum auglýsingum um Stockfish kvikmyndahátíðina, sem fram mun fara hér á landi 19. febrúar til 1, mars http://stockfishfestival.is/ ,er birt mynd af saltfiski, flöttum þorski. Skrítið vegna þess að stockfish er ekki saltfiskur, heldur skreið, sem er allt annar handleggur. Sjá t.d. http://en.wikipedia.org/wiki/Stockfish

 

Prýðilegur málfarspistill í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á þriðjudagsmorgni (17.02.2015).

 

Fróðlegt viðtal Þóru Arnórsdóttur við Evu Joly í Kastljósi (17.02.2015). Ballið er rétt að byrja.

 

Fréttaskýringaþáttur CBS 60 Minutes er að mati Molaskrifara einn besti fréttaskýringaþáttur sem völ er á. Synd að Ríkissjónvarpið skyldi á sínum tíma láta hann sér úr greipum ganga til Stöðvar tvö. Þar var nýlega fróðleg umfjöllun um hvernig tölvuþrjótar geta með aukinni tölvuvæðingu bíla raunverulega tekið stjórnina af ökumanni. Þeir geta gert bremsur óvirkar, aukið hraða bílsins og allt hvað eina og ökumaður getur ekkert gert. Óhugnanlegt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1676

 

Fróðlegt var að hlusta á  Laugardagsviðtal Egils Helgasonar (14.02.2015) við Björn Bjarnason.  Björn er sjór af fróðleik um alþjóðastjórnmál og sögu. Hann fylgist vel með gangi heimsmála og er víðlesinn. Oft er Molaskrifari sammála Birni , en finnst hann þó draga rangar ályktanir af því sem hann les um Evrópumálin! En þetta var fínt viðtal og Egill er góður spyrill.

 

Grindhvalir syntu upp í fjöru á Nýja Sjálandi og drápust allmargir. Í morgunfréttum Ríkisútvarps (14.02.2014) þóttist Molaskrifari heyra að talað væri um lík hvalanna. Það var svona í svefnrofunum og hlýtur að hafa verið misheyrn. Þessi fréttatími er ekki aðgengilegur á netinu.

 

Þetta er svona ,,sing off” sagði formaður einhverrar Evróvisjón dómnefndar í útvarpsviðtali (14.02.2015). Óþörf enskusletta. Menn eiga að slá um sig með einhverju öðru en slettum úr erlendum málum.

 

Veðurfræðingar eiga ekki að nota orðið snjóstormur í veðurfréttum (Ríkissjónvarp 14.02.2015). Þetta orð er hráenska (snowstorm). Við eigum nóg af góðum orðum sem nota má í staðinn, hríð, stórhríð, bylur, snjókoma. Bara ekki tala um snjóstorm.

 

Að skaðlausu hefði Ríkissjónvarpið mátt breyta dagskrá sinni á mánudagskvöld (16.02.2015) og sýna okkur beint frá minningarathöfn í Kaupmannahöfn vegna voðaverkanna, sem þar voru framin. Það var ekki gert. Hvað sem veldur. Kannski datt ráðamönnum það ekki í hug. Kannski er kerfið of þungt í vöfum. Kannski er dómgreindin bara ekki í lagi

 

Umfjallanir komu við sögu í fréttum Ríkissjónvarps á laugardagskvöld (14.02.2014). Umfjöllun er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=Umfj%C3%B6llun

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (15.02.2015) var fjallað um fangelsismál. Í fréttinni var sagt oftar en einu sinni að nýtt fangelsi á Hólmsheiði mundi opna, ætti að opna. Aldrei kom fram hvað fangelsið mundi opna. Molaskrifara var kennd sú regla á sínum tíma að sögnin að opna væri áhrifssögn og henni fylgdi andlag í þolfalli. Þessi regla virðist á undanhaldi. Hún er ekki í hávegum höfð í fjölmiðlum. Ríkisútvarpið er þar ekki eitt á báti. Hvað segir málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins?

 

Marga gimsteina er að finna í segulbandasafni Ríkisútvarpsins. Þeirra á meðal er lestur prófessors Jóns Helgasonar á Passíusálmum Hallgríms Péturssonar. Hljóðritunin er frá árinu 1969. Og ekki spillir söngur Kristins Hallssonar á undan lestrinum. Lesturinn er á dagskrá eftir tíu fréttir á kvöldin, þó ekki á sunnudagskvöldum. Unun á að hlýða. Lesturinn seiðmagnaður.

Þegar vel stendur á fylgist Molaskrifari gjarnan með lestrinum og horfir á textann í fertugustu og fimmtu útgáfu Passíusálmanna frá 1920. Bókin er smá í sniðum, þótt innihaldið sé stórt, í fallegu leðurbandi, svolítið snjáð.  Fremst í bókinni stendur ritað snyrtilegri hendi: Guðni Guðmundsson á að eiga þessa bók á afmælisdaginn 1925. Frá Lóu. – Faðir minn hefur þá orðið 21 árs. Lóa var Ólöf Guðmundsdóttir (1901-1985), systir Guðna föður míns (1904-1947). Þau voru úr hópi þrettán systkina. Af þeim komust átta til fullorðinsára. Þau voru reyndar þremenningar að skyldleika við Jón Helgason, prófessor.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1675

 

Trausti benti Molaskrifara á þessa frétt á dv.is ((12.02.2015):

http://www.dv.is/frettir/2015/2/12/fekk-ofurbil-felagans-lanadan-og-klessti/

Trausti segir:
"Hámarkshraði bílsins eru rúmlega þrjú hundruð kílómetrar á klukkustund.
Töluverðar skemmdir urðu á bílnum en hann var sendur í viðgerð og kostaði hún litlar 261 þúsund pund."

Trausti bætir við:
,,Hámarkshraði (eintala) ... eru (fleirtölumynd) ...
litlar (kvenkynsmynd) ... þúsund (hvorugkyn) ...
Greinilega hugsunarlaust og enginn prófarkalestur.” Orð að sönnu,- hugsunarlaust og enginn prófarkalestur.

 

Einnig bendir Trausti á þessa frétt sama dag á mbl.is.

http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/02/12/italia_er_ad_deyja/

"Alls fædd­ust 509.000 börn á Ítal­íu á síðasta ári, en sam­kvæmt op­in­ber­um töl­um hafa ekki færri börn fæðst í land­inu á einu ári frá 1870 þegar öll ríki sunn­an Alpa­fjalla var sam­einað í eitt ríki, Ítal­íu."
Hann segir: ,,Æ, mér verður illt, víðar en í augunum, við að lesa svona hugsunarleysisgraut.
Öll ríkin voru sameinuð, en þau var ekki öll sameinað.” – Rétt, Trausti. Þakka ábendingarnar.

 

Á föstudagskvöld (13.02.2015) varaði Veðurstofan við mikilli úrkomu. Í fréttum var sagt að ,,sólarhringsrennsli gæti orðið 100 mm”. Sólarhringsrennsli? Á fréttavef  Ríkisútvarpsins stóð: ,,Sólarhringsrennsli þar sem verst lætur gæti farið yfir 100 millimetra. “

http://www.ruv.is/frett/varad-vid-hlaku-og-vatavoxtum

Þetta var ekki mjög skýrt eða auðskilið að mati Molaskrifara. Þetta er hinsvegar skýrt ágætlega á vef  Veðurstofunnar, en þar segir: ,, Búast má við mestri úrkomu í kringum fjöll og jökla sunnan og vestanlands og þar gæti sólarhringsafrennsli (samanlögð úrkoma og snjóbráðnun) farið vel yfir 100 mm (sjá meðfylgjandi kort, smellið á til að fá nánari skýringar). Sjá: http://www.vedur.is/um-vi/frettir/nr/3077

Þetta hefði mátt skýra betur fyrir þeim sem hlustuðu á  Ríkisútvarpið.

 

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (13.02) var greinargott og skilmerkilegt yfirlit yfir málaferli sem nú eru á döfinni vegna ýmissa mála, sem tengjast hruninu. Fróðleg samantekt.

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (13.02.2015) var talað um nýliðna kjarasamninga við lækna. - Nýgerða kjarasamninga við lækna. Í sama fréttatíma sagði annar fréttamaður: Flutt var inn tvö þúsund ... tonn (af kjöti) Flutt voru inn ..... Hefði það átt að vera.

 

Í lok Vikulokanna á Rás eitt sl. laugardag (14.02.2015) greindi Helgi Seljan umsjónarmaður skilmerkilega frá því hverjir þar hefðu rabbað saman. Þannig á það að vera.

 

Kúreki næturinnar (Midnight Cowboy) sem Ríkissjónvarpið sýndi í gærkveldi (15.02.2015) er eðalfín mynd. Dustin Hoffman er óbrigðull.  Minningaþátturinn um Árna Scheving var góður. Nöfn hefðu þó mátt skila sér betur á skjáinn. Í Landanum var hápunkturinn fyrir Molaskrifara heimsóknin í einstæða Einarsbúð á Akranesi. Gaman að sjá góða vini, Einar og Ernu, þar í fullu fjöri. Ólíklegt er að nokkur verslun á landinu eigi jafn tryggan hóp viðskiptavina og Einarsbúð og er það að verðleikum.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1674

 

Það þvælist fyrir sumum að skrifa fréttir um jarðgöng. Í átta fréttum Ríkisútvarpsins á fimmtudagsmorgni  (12.02.2015) var fjallað um vandræðin við gerð Vaðlaheiðarganga, þar sem virðist hafa verið gengið fram af meira kappi en forsjá. Í fréttinni var talað um gangnagröft. Þessi villa heyrist aftur og aftur. Gangagröft, hefði þetta átt að vera. Eignarfallið af orðinu göng er ganga. Eignarfall orðsins göngur, í merkingunni fjárleitir að hausti, er gangna. Gangnamenn. Þeir sem fara í göngur. Oft hefur verið að þessu vikið í Molum.

 

Af mbl.is (11.02.2015): “Kim Kar­dashi­an West er orðinn þreytt á að heyra og sjá um­fjall­an­ir í fjöl­miðlum um kyn­lífs­mynd­band henn­ar ...”

Umfjöllun er eintöluorð. Ekki til í fleirtölu. Muna það næst, mbl.is.

 

Nokkuð algengt er að heyra sagt: Þegar hér var komið við sögu ... (Veðurfréttir í Ríkissjónvarpi  11.02.2015). Hér hefði átt að segja: Þegar hér var komið sögu, - þegar hér var komið. Að koma við sögu er að taka þátt í einhverju, eiga aðild að einhverju. Auk Jóns og Sigurðar komu Pétur og Páll einnig við sögu ... En, þegar hér var komið sögu, tók Jón til sinna ráða.

 

Ríkissjónvarpið byrjar alla jafna útsendingar á virkum dögum  klukkan 16 30, - nema boltaleikir eigi í hlut. Þá er byrjað fyrr. Fram að þeim tíma er Stöð tvö einráð á öldum ljósvakans , til dæmis á sjúkrahúsum , dvalarheimilum og víðar. Ríkisútvarpið ætti alvarlega að íhuga að hefja útsendingar fyrr á daginn, heldur en að vera endursýna þætti eftir miðnætti og stundum langt fram á nótt. Þetta er sett fram svona til umhugsunar.

 

Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (12.02.2015) var rætt við Jakob Frímann Magnússon, sem annast málefni miðborgarinnar í Reykjavík á vegum borgaryfirvalda. Hann ræddi af skynsemi um bílastæðamálin í miðborginni og grennd og verslanir og hótel. Molaskrifari er á því, að Jakob Frímann ætti fremur að vera formaður skipulagsnefndar borgarinnar en sá sem nú gegnir því starfi og virðist einna helst vilja útrýma bílum og að fólk ferðist annaðhvort á hestum postulanna eða reiðhjólum. Jakob leit raunsætt á málin. Engir ofstækisórar gegn bílum og bíleigendum. Molaskrifari áttaði sig hinsvegar ekki á samanburði Jakobs á Reykjavíkurflugvelli og flugvöllunum í Vestmannaeyjum og á Ísafirði.

 

Þegar tíu fréttum seinkar eins og í gærkveldi (12.02.2015) á Ríkissjónvarpið að segja okkur frá því með skjáborða. Það er tæknilega mjög einfalt. Það var ekki gert í gærkveldi. Það eru ekki góðir mannasiðir.

 

Morgunblaðið birtir leiðréttingar. Það er sagt blaðinu til verðugs hróss. Það gera nefnilega ekki allir fjölmiðlar. Á fimmtudag birti blaðið leiðréttingu vegna myndbirtingar í dálknum Þetta gerðist ... þar sem rifjaðir er upp liðnir merkisatburðir. Birt hafði verið mynd af saxófónleikaranum Charlie Parker (einmitt að leika á saxófón) í stað myndar af trompetleikaranum Dizzy Gillespie. Það er klaufaskapur eða víðáttumikil vanþekking að villast á þessum tveimur snillingum, sem vissulega áttu samleið í jassheimum. Molaskrifari hlustaði á Dizzy Gillespie í ausandi rigningu á Newport Jazz Festival árið 1979 og hefur alla tíð haft dálæti á honum. Hlustaði nýlega og horfði á gamla BBC upptöku af Jazz at the Philharmonic á Youtube þar sem hann fór á kostum.

Chromecast er magnað tól til að hlusta og horfa á Youtube myndbönd í sjónvarpi. Góð græja.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


Molar um málfar og miðla 1673

 

Molavin skrifaði: "Tók þrjú ungmenni af lífi" segir í fyrirsögn Morgunblaðsfréttar (11.01.2015) af Bandaríkjamanni, sem myrti þrjú múslímsk ungmenni. Af fyrirsögninni mátti skilja að um aftöku dæmdra hefði verið að ræða en ekki fólskuleg morð. - Rétt athugað, Molavin. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Í Bylgjufréttum klukkan níu (10.02.2015) var sagt: Hálka og hvassviðri eru víða um land. Molaskrifari hefði sagt: Hálka og hvassviðri er víða um land.

 

Af dv.is (10.02.2015): Ljóst er af listanum yfir þá muni sem þau fjarlægðu, að það var engu til sparað við innréttingu heimilisins. 

Hér finnst Molaskrifara tvennt vera athugavert. Í fyrsta lagi er ruglað saman (nokkuð algengt, reyndar) tveimur föstum orðasamböndum. Ekkert til sparað. Engu til kostað. Í öðru lagi er hús ekki sama og heimili. Hús eru innréttuð. Heimili eru ekki innréttuð.

http://www.dv.is/frettir/2015/2/10/rifu-ut-innrettingar-fyrir-fjortan-milljonir/

 

Meira af dv.is sama dag: ,,Ómar segist hafa brugðið við að sjá hræin og hringt strax á lögregluna á Akureyri en fengið engin viðbrögð.”

Ómar segir að sér hafi brugðið við að sjá hræin, hefði þetta til dæmis getað verið. Einnig: Ómar segir að sér hafi verið brugðið við að sjá hræin, eða; Ómar segir sér hafa brugðið við að sjá hræin. Engir ritsnillingar þarna á ferð. http://www.dv.is/frettir/2015/2/10/fann-ruslagam-fullan-af-daudum-dyrum/

 

Fyrirsögn af visir.is (10.02.2015): Notaður reiðbúnaður stöðvaður í tollinum. Orðið reiðbúnaður hefur Molaskrifari ekki heyrt áður. Í fréttinni kemur fram að þetta var reiðfatnaður og reiðtygi.

http://www.visir.is/notadur-reidbunadur-stodvadur-i-tollinum/article/2015150219947

 

Með reglulegu milli verður Ríkisútvarpið okkar heltekið, alveg gegnsýrt af einhverju, og þess sér merki daginn út og daginn bæði í dagskrá útvarps og sjónvarps. Oftast eru þetta íþróttir. Alltaf boltaíþróttir. Stundum er það popp. Nú er það söngvakeppnin Evróvisjón , sem er hamrað á daginn út og daginn inn.

Á miðvikudagsmorgni hlustaði skrifari um skeið á morgunþátt Bylgjunnar. Skipti síðan yfir á Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Þar var þá verið að fjalla um Evróvisjón söngvakeppnina. Nema hvað!

Þetta gengur yfir. Blessunarlega, fyrir þá sem engan áhuga hafa á þessu. En ekki verður langt í að eitthvað annað taki við! Maður verður bara að láta þetta yfir sig ganga! Gerir kannski lítið því úr svo mörgu góðu er að velja í sjónvarpi eftir öðrum leiðum með tækni nútímans. Tækni sem var óhugsandi, þegar sjónvarp hófst hér fyrir tæplega hálfri öld.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1672

Þórarinn skrifaði (09.02.2015) : ,Sæll, 

mig langar að nefna eftirfarandi orðalag sem fréttakona Ríkssjónvarpsins viðhafði í kvöldfréttum í kvöld 9/2, í frétt um Merkel og Obama. Þar sagði hún m.a.: 

,,….takist friðarumleitanir ekki í þetta skiptið, VÍLI sambandið þó ekki FRÁ því að beita harðari refsiaðgerðum”. Ég hef heyrt að menn: víli eitthvað ekki fyrir sér, - en ekki að einhver víli ekki frá einhverju. Er þetta ekki eitthvað skrítið?” Molaskrifari þakkar Þórarni bréfið. Þetta er ekki bara skrítið, heldur rangt.

 

Í morgunfréttum klukkan 06 00 (09.02.2015) var sagt frá verðlaunaafhendingu á Grammyhátíðinni: ,, ... var sigursælastur og hlaut fjögur verðlaun.” Það er erfitt, þetta með fleirtöluorðin. Fleiri hnökrar voru á málfari í þessum fréttatíma.

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (09.02.2015) var fjallað um húsnæði Náttúruminjastofnunar og sagt að stofnuninni hefði verið sögð upp leigan. Þetta hljómaði ekki rétt í eyrum Molaskrifara. Finnst að það hefði fremur átt að vera , að Náttúruminjastofnun hefði verið sagt upp leigunni, eða að leigusamningu stofnunarinnar hefði verið sagt upp.

 

Það er Molaskrifara ævarandi undrunarefni hvað stjórnmálamenn lúta lágt til að komast skamma stund á sjónvarpsskjáinn. Átt er við stjórnmálamenn og Hraðfréttir, svokallaðar, í Ríkissjónvarpi, til dæmis á föstudagskvöldið var (06.02.2015) . Ef stjórnmálamenn halda að þetta sé þeim til framdráttar, þá er Molaskrifari á öndverðum meiði. Þeir eru frekar að gera lítið úr sér.

 

Ekki heyrði Molaskrifari betur í Morgunútgáfunni á mánudagsmorgni (09.02.2015) rétt fyrir klukkan sjö en að leikið væri lag með hinum óviðjafnanlegu Millsbræðrum, sem alltof sjaldan heyrast. Listamannanna var hinsvegar að engu getið, aðeins sagt eftir á að lagið héti. When the Sun Goes Down. .

 

Í Morgunútgáfunni (09.02.2015) sagði umsjónarmaður um veður: Það er búið að stytta upp. Molaskrifari finnst þetta ekki mjög vel orðað. Það er búið að rigna mikið, en nú hefur stytt upp.

Íþróttafréttamaður,sem rætt var í þessum sama þætti er vafalaust vel fær enskumaður. Hann kallaði fjögurra liða úrslit í íslenskri íþróttakeppni final four. Hversvegna sletti á hann á okkur ensku? Kona sem rætt var við um sykurfíkn í þættinum sagði: Móttakararnir döllast. Í staðinn fyrir að sletta ensku ( dull) hefði konan getað talað um að móttakararnir slævðust eða dofnuðu. Hvernig er hægt að tækla þennan vanda, spurði umsjónarmaður. Sögnin að tækla er fengin frá íþróttafréttamönnum. Þeir sem vilja vanda mál sitt forðast notkun sagnarinnar að tækla í merkingunni að vinna bug á, ráða fram úr eða leysa.  

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 

 


Molar um málfar og miðla 1671

 

Sigurður Hreiðar skrifaði (07.02.2015):

,,Eiður -- gaman væri ef þú vildir mola þessa ambögu, -- sem dynur nú á okkur frá Forlaginu í öllum miðlum , - um eitthvað sem sé ávanabindandi. Vanabindandi hefur dugað hingað til.” Molaskrifari þakkar ábendinguna. Vonandi lesa Forlagsmenn þetta.

 

Vandvirknin var ekki allsráðandi í morgunfréttatímum Ríkisútvarpsins klukkan sjö og átta á laugardagsmorgni (07.02.2015). Sagt var frá sölu á málverki eftir listmálarann Paul Gauguin. Hann var kallaður Paul /gúgai! Réttan framburð geta fréttamenn ævinlega fundið til dæmis á Google, eða í tiltækum handbókum. Það er til nóg af framburðarorðabókum. Réttur framburður er í áttina að /gó´gen/ - . Talað var um að lokað væri á Vatnsskarð og að selja ætti Seljalandsskóla og íbúðarhús honum tengdum. Það var svolítill viðvaningsbragur á málfari í fréttum þennan morgun. Vantaði greinilega leiðsögn, yfirlestur. Ríkisútvarpið á að vanda sig.

 

Í Fréttablaðinu (09.02.2015) segir frá því erþota Icelandair lenti á Reykjavíkurflugvelli. Í fréttinni segir: ,,Vélin lenti kl. 1630 í gær og var stödd á Reykjavíkurflugvelli í rúma klukkustund áður en hún flaug aftur til Keflavíkur.” Vélin var stödd (!) á Reykjavíkurflugvelli í rúma klukkustund. Það var og. Vélin var á Reykjavíkurflugvelli í rúma klukkustund.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps þennan sama dag af rafmagnsleysi á Suðurnesjum var okkur sagt í fréttayfirliti að lendingarljós á Keflavíkurflugvelli hefðu verið úti í tvær klukkustundir. Í fréttinni var því bætt við að aðflugsbúnaður hefði líka verið úti. Ekki veit Molaskrifari betur en lendingarljós við flugbrautir séu alltaf úti, utanhúss, og sama gildi um aðflugsljós. Þessi ljós lýstu ekki, þau loguðu ekki vegna rafmagnsleysis. Í sjónvarpsfréttum var bæði sagt að ljósin hefðu verið úti og að þau hefðu verið biluð!

 

 Í lok Vikulokanna á Rás eitt (07.02.2015) gleymdi umsjónarmaður að segja okkur hverjir hefðu setið þar og spjallað. Molaskrifari þóttist þekkja eina rödd, kannski tvær. Það á að vera grundvallar regla í lok umræðuþátta að segja hverjir þar töluðu saman. Svo mikil grundvallarregla, að ekki ætti að þurfa að brýna það fyrir reyndum dagskrárgerðarmönnum það. Í lok laugardagsviðtalsins í Ríkisútvarpinu sagði Egill Helgason okkur frá því við hvern hafði verið rætt.

 

Alþingismaður skrifaði á fésbók (09.02.2015) ,,Margir opinberir aðilar hafa kosið að versla innflutt fullunnið gler”. Þingmaðurinn ruglast á sögnunum að kaupa og að versla. Hann á við að margir opinberir aðilar kjósi að kaupa fullunnið, erlent gler. Of algengt er að þessu sé ruglað saman.

 

 Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband