9.3.2015 | 07:45
Molar um málfar og miðla 1690
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins,sem flutt er á báðum rásum (06.03.2015) sagði umsjónarmaður, að í þættinum yrði okkur flutt slúður frá Alþingi. Íslensk orðabók hefur þetta að segja um orðið slúður: Þvaður, söguburður, þvættingur, kjaftasaga. Ekkert slíkt var flutt. Ekki sæmandi orðalag. Umsjónarmenn þátta í Ríkisútvarpinu þurfa að þekkja merkingu algengustu orða. Í þættinum var hlustendum sagt frá störfum þingsins. Okkur var sagt að þingstörfin væru að ganga hægt, - gengju hægt og að stóru málin væru ekki að koma. Í Hraðfréttum svonefndum í Ríkissjónvarpi sagði yfirhraðfréttamaður stofnunarinnar: Hvernig eru þessar fréttir að fara í starfsmenn álversins? Molaskrifari veit að hann er ekki einn um að mislíka þetta er að orðalag ,sem sækir mjög á í málinu. Þetta mætti taka til umræðu í málfarsmolum þáttarins á morgun, þriðjudag.
Þá var í þættinum talað um brothætt byggðarlög. Líklega var átt við byggðarlög þar sem byggðin stendur höllum fæti, á í vök að verjast.
G.G. vísaði á þessa frétt (06.03.2015)
http://www.visir.is/article/20150306/FRETTIR01/150309385
Hann segir:
,,Ekki virðast fjölmiðlar komnir fyrir vind!
Á RUV notar veðurfræðingur nokkur forsetninguna "fyrir" alveg fyrirvaralaust. Þá birtir ekki yfir öllum! Fyrir vestan merkir hjá viðkomandi allt Vesturland og miðin, eða því er virðist. Visir.is er farinn að éta þetta upp. Reykvíkingar eru ekki "fyrir vestan" skv. íslenskri málvenju. En þeir eru raunar "fyrir sunnan" samkvæmt málvenju. Fyrir vestan merkir, í skilningi nær allra landsmanna eldri en tvævetur, á Vestfjörðum. Ekki orð um það meir. Eða hvað? Molaskrifari þakkar bréfið.
Af mbl.is (05.03.2015): Heimsmarkaðsverð á olíu hefur næstum því helmingast frá því seinasta sumar. Fréttaskrifarar hafa að mestu hætt að nota orðalagið í fyrra sumar. Seinasta sumar ber keim af ensku. Er að verða allsráðandi hjá fréttaskrifurum. Hefur svo sem verið nefnt áður.http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/03/05/oliuverdid_naer_helmingast/
Molalesandi benti á eftirfarandi af pressan.is (05.03.2015): Þessi ungi maður lifði á götunni" skv. greininni (um það bil í miðri grein) http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/bragi-pall-hryllingur-alkohols-og-kannabisefna---fardu-i-medferd - Ekki vel orðað. Þakka ábendinguna.
Lifandis ósköp geta langar íþróttafréttir sem skotið er inn milli frétta og veðurs í Ríkissjónvarpinu verið þunnar og innihaldsrýrar eins og var til dæmis á miðvikudagskvöld (04.03.2015).
Molaskrifari ítrekar tillögu sína um að Egill Helgason og hans fríða föruneyti fari til Færeyja og geri mannlífi og menningu hjá þessum góðu grönnum okkar verðug skil í nokkrum sjónvarpsþáttum. Það þarf að bæta fyrir unnin spjöll.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.3.2015 | 08:58
Molar um málfar og miðla 1689
Ágúst Ragnarsson sendi eftirfarandi (03.03.2015). Hann lét fylgja að hér væri ekki um beina tilvitnun að ræða heldur væri þetta samandregið úr 2-3 viðtölum, en sett fram til að sýna dæmi um óvandað málfar:
,,Dæmi um ofnotkun og aukaorð. Viðmælandinn: HEYRÐU ! liðið inniheldur, hérna, marga frábæra, hérna, leikmenn og framkvæmdu leikmenn mínir , hérna, vel vítaköstin, sem var sterkari aðilinn sko! Hann segir: ,, Þetta "heyrðu" í byrjun viðtals er orðið útbreitt, og svo er mikið um "innihald" og menn "framkvæma" nú alla hluti og "aðilar" eru mjög algengir. Ekki gleyma "sko" í þriðja hverju orði og "hérna" í öðru hverju. Norskur vinur minn sem dvelur stundum á Íslandi spurði mig einmitt um hvað þetta "jénna" þýddi. Svar óskast.
Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta og svipað orðalag hefur maður því miður of oft heyrt.
Íslendingar á tánum vegna silfurvasa, sagði í fyrirsögn á mbl.is. Þessi fyrirsögn er út í hött. Að vera á tánum hefur í vaxandi mæli verið notað að undanförnu um það að vera á varðbergi, hafa gætur á sér eða einhverju. Sú notkun er reyndar ekki til fyrirmyndar eða að smekk Molaskrifara. Í þessari frétt er verið að fjalla um kaupæði sem runnið hefur á fólk vegna silfurvasa af tiltekinni gerð. http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/03/04/islendingar_a_tanum_vegna_silfurvasa/
... þjónustan verði af sem bestum gæðum, sagði ráðherra í fréttum Stöðvar tvö (04.03.2015). Gæði eru ekki misjafnlega góð. Þjónusta getur verið misjöfn að gæðum. Ráðherrann hefði ósköp vel getað sagt, - að þjónustan yrði sem best. Dæmigerð uppskrúfun málsins og ekki til fyrirmyndar.
Úr hádegisfréttum Ríkisútvarps (04.03.2015): Nefndin hefur skilað ráðherra tveimur frumvarpsdrögum. Nefndin hefur skilað ráðherra tvennum frumvarps drögum, hefði þetta átt að vera. Drög er fleirtöluorð. Þessvegna tvenn drög. Ekki tvö drög.
Á Morgunvakt Ríkisútvarpsins er nú (03.03.2015) er nú farið að tala um málfarsmola, þegar málfarsráðunautur kemur að hljóðnemanum til skrafs og ráðagerða undir lok þáttarins. á þriðjudagsmorgnum. Þetta er þarft og áhugavert spjall. Ríkisútvarpið er að sækja í sig veðrið í þessum efnum. Því ber að fagna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.3.2015 | 10:19
Molar um málfar og miðla 1688
Edda sendi Molum eftirfarandi (02.03.2015): ,,Alltof oft sér maður á netinu eða í dagblöðum notkun nafnorðsins, hor í hvk.
Í barnaskóla var manni kennt að orðið hor (úr nefi) væri karlkyns, horinn, en núna virðist það vera komið í hvorugkyn, horið.
Hvað veldur?
Takk fyrir Molana, Edda.
Molaskrifari þakkar Eddu bréfið. Hefur tekið eftir þessu líka. Kann ekki skýringu, en grunar að þetta sé þó alls ekki nýtt fyrirbæri.
Fín eftirfylgni í Kastljósi gærkvöldsins (04.03.2015) á kukli og snákaolíusölum. Molaskrifari saknaði þó þess, að ekki skyldi fjallað nánar um ristilskolun, sem rétt aðeins var nefnd á nafn. Hundruð Íslendinga hafa fallið fyrir auglýsingum um ristilskolun. Læknar sem Molaskrifari hefur rætt við segja hana í besta falli skaðlausa, en í versta falli lífshættulega. Léttir ekkert nema pyngju þess sem kaupir meðferðina.
Viðmælandi fréttamanns í Spegli Ríkisútvarpsins (02.03.2015) notaði orðalagið: Vöxtur í fjölgun ferðamanna .... Það var og. Vöxtur í fjölgun!
Af mbl.is (03.03.2015): ,,Lögreglumenn höfðu sjónpóst á húsinu meðan beðið var eftir liðsafla sérsveitar ríkislögreglustjóra. Lögreglumenn höfðu sjónpóst á húsinu? Hvað þýðir það. Hvað er að hafa sjónpóst á? Þýðir það ekki, að lögreglumenn höfðu gætur á húsinu, fylgdust með mannaferðum við húsið?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/03/sersveitin_yfirbugadi_konuna/
Öllum sem líkar við Heimkaup.is geta unnið svona Acer-spjaldtölvu, segir í auglýsingu á fésbók. Ekki mjög traustvekjandi.
Nýr vefur Ríkisútvarpsins sá dagsins ljós í vikunni. Nokkurn tíma tekur að venjast nýju viðmóti á skjánum, en fljótt á litið virðist þarna hafa tekist heldur vel til. Molaskrifari á þó eftir að kynnast og vonandi venjast vefnum betur og læra að nýta hann.
Í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi (04.03.2015) var talað um sextíu þúsund gleraugu. Hér hefði að mati Molaskrifara farið betur á því að tala um sextíu þúsund gleraugnapör
Úr íþróttafréttum á visir.is (01.03.2015): Bikarinn á Brúnna. Brúna á þetta sennilega að vera, en Molaskrifari játar að hann skilur ekki samhengið. Hann er heldur ekki innvígður og innmúraður í veröld fótboltans. http://www.visir.is/bikarinn-a-brunna---sjadu-morkin/article/2015150309960
Í fréttinni er talað um darraðadans. Á að vera darraðardans. Darraður er spjót.
Af vef Ríkissjónvarpsins (01.03.2015): ,, ... en Edin Dzeko jafnaði metinn fyrir City korteri seinna. Þetta hefði átt að vera jafnaði metin. ,,... en bæði liðin koma einmitt frá höfuðborginni, var sagt í íþróttafréttum Ríkissjónvarps sama kvöld. Liðin voru bæði frá höfuðborginni. Þau voru ekki að koma frá höfuðborginni. Algengt að heyra þetta orðalag.
Í Molum gærdagsins var talað um misyndisfólk. Það átti auðvitað að vera misindisfólk. Þakka vini Molanna ábendingu um villuna. Sjónminnið eitthvað laskað hjá skrifara.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.3.2015 | 09:29
Molar um málfar og miðla 1687
Höggdofa horfði Molaskrifari á Kastljós Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi (03.03.2015). Og var örugglega ekki einn um það. Fátt, ef nokkuð, er svívirðilegra, en að vekja falsvonir hjá dauðvona fólki og hafa það að féþúfu. Þetta var sannast sagna óhugnanlegt. Takk Jóhannes Kr. Kristjánsson og allir sem þarna komu við sögu. Sennilega fer viðskiptavinum Sjónarhóls í Hafnarfirði ekki fjölgandi á næstunni og varla hefur traustið aukist á Heilsutorgi Blómavals. Reynt var að stöðva sýningu þáttarins með lögbanni. Sýslumaðurinn í Reykjavík féllst ekki á það. Það var auðvitað frétt, - nema hjá Stöð tvö, Molaskrifari heyrði þess ekki getið í fréttum þar á bæ.
Að segja frá misyndisfólki, sem stundar starfsemi af þessu tagi, er þjónusta við þjóðina.
Kaupmenn blekki neytendur. Þetta stóð um hríð á skjá Ríkissjónvarpsins í upphafi frétta á sunnudagskvöld (01.03.2015). Þetta var ekki hvatning til kaupmanna að blekkja neytendur, þótt sú sé orðanna hljóðan. Það var verið að vitna til ummæla um að kaupmenn blekktu neytendur. Sá sem samdi þessa skjáborðafyrirsögn þarf að lesa upp og læra betur, - íslenska málfræði.
Verslunin taki of mikið til sín er samkynja fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (01.03.2015) http://www.ruv.is/frett/verslunin-taki-of-mikid-til-sin
Verkefni fyrir málfarsráðunaut.
Þættir Önnu Sigríðar Þráinsdóttur Orð af orði (síðasti þáttur var endurfluttur á mánudagskvöld 02.03.2015) ættu að vera skylduhlustun fyrir fjölmiðlafólk. Þátturinn er skemmtilega uppbyggður og fræðandi. Fínn þáttur.
Orðtakið að leiða ágreining í jörð sem gert var að umtalsefni í síðasta þætti og þingmenn Sjálfstæðisflokksins virðast einir um að nota, er eiginlega bull að mati Molaskrifara. Ekki er þetta gagnsætt og hver er hugsunin? Leiða ágreining í jörð! Þingmennirnir virðast éta þetta upp hugsunarlaust hver eftir öðrum
Minnir Molaskrifara á, að fyrir margt löngu átti Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra það til að flytja áherslu af fyrsta atkvæði orðs á annað eða þriðja atkvæði. Fyrr en varði voru fleiri þingmenn Framsóknarflokksins farnir að gera þetta líka. Á fréttastofu Sjónvarpsins töluðum við í gríni um forsætisráðherraframburðinn!
Af mbl.is (01.03.2015): Fréttastofa AFP hefur beðist afsökunar á því að hafa sagt franska milljarðamæringinn Martin Bouygues, látinn en þær fregnir munu hafa verið stórlega ýktar. - http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/03/01/ekki_latinn_eftir_allt/
Er Netmoggi að reyna að vera fyndinn með vísan til frægra ummæla Mark Twains? http://www.brainyquote.com/quotes/quotes/m/marktwain141773.html
Kannski var þetta bara óviljandi?
Mogginn á það nefnilega til að vera mjög fyndinn, stundum alveg óviljandi.
Fréttastjóra Ríkissjónvarpsins þótti greinilega ekki taka því að biðja okkur áhorfendur afsökunar í gærkveldi (03.03.2015) á því að seinni fréttir hófust meira en fimm mínútum of seint miðað við auglýstan tíma.
Kurteisi kostar ekki neitt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.3.2015 | 08:54
Molar um málfar og miðla 1686
Gamall starfsfélagi skrifaði (01.03.2015): ,, Ætlast fréttastofa Ríkisútvarpsins til þess að fólk taki mark á þessum börnum, sem látin eru lesa innslög í fréttatímum? Þau lesa nákvæmlega eins og grunnskólabörn. Það eru takmörk fyrir öllu, ég segi ekki meir.
Molaskrifari tekur undir að stundum er lestri nýliða í fréttatímum ábótavant, að ekki sé sterkar að orði kveðið. Það var til dæmis talsverður viðvaningsbragur á fréttunum klukkan 16 00 á sunnudag. Í þeim fréttatíma var sagt:,, ...birtir myndir, sem sagt er lýsa aðdraganda morðsins. Í sama fréttatíma var talað um Barnastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNICEF. Þessi stofnun hefur ævinlega verið kölluð Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Í hádegisfréttum á sunnudag var sagt: Allt bendir til að eldgosið í Holuhrauni hafi lokið á föstudaginn. Eldgosinu lauk. Eldgosið lauk ekki. Gæðaeftirlit. Verkstjórn.
Mjög góð umfjöllun í Kastljósi gærkvöldsins (02.03.2015) um aðstæður þeirra sem hafa fengið sjúkdóminn MND, ólæknandi sjúkdóm, sem nefndur er hreyfitaugahrörnun. Við stöndum okkur illa gagnvart þessu fólki og aðstandendum þess. Það kom skýrt fram. Langt að baki grönnum okkar. Í fréttum Stöðvar tvö var einnig prýðileg umfjöllun um stöðu barna með langvinna sjúkdóma, barna sem þurfa mikla umönnun, - oft allan sólarhringinn. Þar stöndum við okkur líka verr en grannar okkar. Eiginlega eigum við að skammast okkar. Faðir langveikrar telpu sagði í viðtalinu á Stöð tvö að Evrópusambandið sinnti þessum málum vel. Þarf utanaðkomandi aðila til að þvinga okkur til þess að gera betur? Það hvarflar að mér.
Tvö kvöld í röð (fimmtudags- og föstudagskvöld) í síðustu viku lagði Ríkissjónvarpið aðalútsendingarrás sína undir boltaleiki frá klukkan 20 00 til 22 00. Til hvers er margumtöluð íþróttarás? Eru útvarpsstjóri og dagskrárstjóri ráðþrota gegn yfirgangi íþróttadeildar?
Af mbl.is (01.03.2015): ,, ... var klukkan farin að ganga í tólf á miðnætti þegar Herjólfur lagðist að bryggju. Hér hefði að mati Molaskrifara verið eðlilegra að segja: Var klukkan farin að ganga tólf um kvöldið, þegar ... , eða, - ... var klukkan farin að halla í tólf, þegar ...
Hér hefur áður verið vikið að bókstafnum -r- inni í miðjum orðum. Þar verður ýmsum hált á svellinu. Í auglýsingu á blog.is (28.02.2015) er boðið upp á ókeypis heyrnamælingu! Margar heyrnir? Hér ætti að tala um ókeypis heyrnarmælingu. Heyrnin er mæld.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (01.03.2015) var fjallað um erlend knattspyrnulið (aldrei þessu vant) Þá var talað um Lundúnarliðin. Lundúnir, um Lundúnir, frá Lundúnum, til Lundúna.
Gamla íslenska heitið á London, Lundúnir, er ekki til í eintölu.
,,...nálægt Kremlhúsinu , sagði fréttamaður Stöðvar tvö (28.02.2015) um morðið á andófsmanninum í Moskvu. Enginn fullorðinn á vaktinni? Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (01.03.2015) sagði Vera Illugadóttir ágætlega: ,, .. við múra Kremlar. Prýðilega máli farin, - svo sem hún á kyn til, leyfir Molaskrifari sér að segja.
Í fréttum Stöðvar tvö (28.02.2015) var sagt að mikill hagnaður bankanna hafi verið undirorpinn gagnrýni. Nú má vel vera að þetta sé rétt, en Molaskrifari hefði sagt, að þessi mikli hagnaður bankanna hafi sætt gagnrýni eða verið gagnrýndur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2015 | 09:06
Molar um málfar og miðla 1685
Hér koma nokkrar línur frá gömlum vinnufélaga, sem stundum gaukar ágætum athugasemdum að Molaskrifara:
,,Fréttablaðið líti í eigin barm.
Í dag (27.02.2014) er ágætur leiðari í Fréttablaðinu um heimskupör foreldra sem hætta lífi barna sinna með því að fá þau ekki bólusett við hættulegum barnasjúkdómum. Þar er líka vikið að stóriðnaði, sem óhefðbundnar lækningar eru orðnar og fer stöðugt vaxandi. Hann felst í því að fólki er talin trú um að alls kyns töfraefni geti læknað hin margvíslegu mein, allt frá vindgangi til krabbameins. Það er hins vegar athyglisvert í þessu sambandi að Fréttablaðið sjálft byggir afkomu sína að talsverðu leyti á þessu trúboði sölumanna snákaolíu. Nær daglega eru margar blaðsíður lagðar undir þetta efni; auglýsingar um allra meina bót, sem settar eru fram sem raunveruleg blaðamennska. Molaskrifari þakkar bréfið. Hverju orði sannara.
Molavin skrifaði (28.02.2015): ,,Í Netmogga (28.2.2015) segir m.a.: "verður Toyota Corolla-bifreið dregin úr potti með nöfnum áskrifenda..." Myndlíkingar eru algengar í máli okkar en ekki eru allir alltaf kunnugir merkingu þeirra. Talað um að detta í lukkupottinn (vera heppinn, t.d. í happdrætti) - og nöfn hinna heppnu eru stundum dregin (úr hatti eða skál). En bifreiðar eru varla dregnar úr potti með auðveldum hætti. Og varla er gott að vera sá heppni, sem er dreginn út (af veitingastað), eins og færist í vöxt að segja þegar matstaðir auglýsa sig á fólksmiðlum. Ef til vill finnst einhverjum þessi aðfinnsla nöldur, en mér finnst betra að fólk, sem starfar við að tjá sig, hugsi það til enda, sem það skrifar. - Molaskrifari þakkar bréfið. Þetta er ósköp hallærislegt orðalag, sem vikið hefur verið að hér í Molum áður.
Þágufallssýkin, sem svo er nefnd er hvimleið , en virðist því miður heldur vera í sókn. Undir lok Morgunvaktar Ríkisútvarpsins á föstudag (27.02.2015) sagði einn umsjónarmanna: Oft langaði manni mest til að vera heima. Er þetta ekki umhugsunarefni fyrir málfarsráðunaut?
Ekki verður annað séð, frá sjónarhóli Molaskrifara, en vel hafi til tekist með úthlutum Blaðamannaverðlaunanna í ár, sem tilkynnt var á laugardag (28.02.2015). Allt hafi það verið verðskuldað. Til hamingju þið öll, sem þarna komið við sögu. http://www.ruv.is/frett/unnu-annad-arid-i-rod-verdlaunamyndirnar
Þegar Ríkissjónvarpið birtir okkur frétt og sagt er að fréttin og myndin séu frá í gær, en efnið er í raun hálfsmánaðar gamalt , þá er eitthvað að í verkstjórn og vinnulagi á þessari fjölmennustu fréttastofu landsins. Þetta gerðist fyrr í síðustu viku.
Góður Landi í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (01.03.2015) og ómetanlegar myndir og ræður frá Kvennafrídeginum 1975 í þættinum Öldin hennar sem kom í kjölfar Landans.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2015 | 07:15
Molar um málfar og miðla 1684
Gamall samstarfsmaður sendi Molum eftirfrandi (26.02.2015): ,,Orðskrípið óásættanlegur veður uppi sem aldrei fyrr og það jafnvel í tilkynningum frá akademískum stofnunum. Ég heyrði þennan ófögnuð fyrst af muni verkalýðsforingja eins fyrir hálfum öðrum áratug eða svo og síðan hefur honum stöðugt vaxið fiskur um hrygg. Við eigum mörg góð orð í íslensku máli sem hægt er að nota í staðinn fyrir þetta skrípi og má þar nefna af handahófi orðin óboðlegur, slæmur, vondur, óframbærilegur o.s.frv. o.s.frv.
Molaskrifari þakkar bréfið og er bréfritara hjartanlega sammála.
Í Víðsjá á Rás eitt (25.02.2015) var talað um ... tilnefndustu mynd Óskarsverðlaunanna að þessu sinni. Tilnefndur , tilnefndari, tilnefndastur ??? Þessa orðmynd er ekki að finna á vef Árnastofnunar http://bin.arnastofnun.is/forsida/
Ekki kann Molaskrifari fyllilega að meta orðið snjóbylur sem skrifað var á skjáinn í veðurfréttum Ríkissjónvarps (24.02.2015). Orðið er vissulega að finna í íslenskri orðabók. Betur kann skrifari við að talað sé um byl, hríð, stórhríð eða snjókomu. Orðið snjóstormur sem stundum bregður fyrir í fréttum er ótækt, hrátt úr ensku (snowstorm).
Það barst í tal í kunningjasamtali á dögunum að óþörf þolmyndarnotkun í fréttaskrifum færi vaxandi. Hér er dæmi af mbl.is (26.02.2015): Hann var sóttur á lögreglustöðina af móður sinni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.
Hér hefði farið miklu betur á því að segja: Móðir hans sótti hann á lögreglustöðina samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.
Germynd er alltaf betri.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/26/mamma_latin_saekja_soninn/
Handbolti í samtals tvær klukkustundir, lungann úr kvöldinu í gærkvöldi í Ríkissjónvarpinu (26.02.2015). Óboðlegt. Svo Molaskrifari segi það nú einu sinni enn. Enn er spurt: Til hvers er svokölluð íþróttarás?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2015 | 07:16
Molar um málfar og miðla 1683
Í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (25.02.2015) var okkur sagt: ,,Haraldur fimmti Noregskonungur varð í gær fyrsti norski konungurinn til að heimsækja Suðurskautslandið og yfirráðasvæði Noregs þar.
Hér er frétt Aftenposten frá 11. febrúar sl. um komu Haraldar konungs til Suðurskautslandsins. Fyrir hálfum mánuði!
http://www.aftenposten.no/nyheter/iriks/Kong-Harald-skrev-historie-i-Antarktis-7895562.html
Af mbl.is (24.02.2015):,, Grunnhugmyndin að baki endurskoðun laga um útlendinga sem nú fer fram hjá innanríkisráðuneytinu er að komið verði á fót móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur. Molaskrifari spyr: Hefði þetta ekki átt að vera, - Grunnhugmyndin að baki endurskoðunar laga .... ?
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/02/24/komi_upp_mottokumidstod_haelisleitenda/
Átakanleg og áhrifarík umfjöllum um átröskun í tveimur Kastljósþáttum fyrr í vikunni. Þetta var vel unnið og þeim til sóma sem að því stóðu. Vinnubrögð til fyrirmyndar. Vekur fólk til umhugsunar um þennan lúmska og lífshættulega sjúkdóm. Einnig þann sæg af svo kölluðum fæðubótarefnum, ,,grenningarlyfjum, Kínalífselxerísum og snákaolíum sem hér er á boðstólum. Heldur er óhugnanlegt að hugsa til þess að hér skuli þrífast svartur markaður með hættuleg efni af þessu tagi.
Molaskrifari verður æ sannfærðari um að það var röng ákvörðun stjórnenda Ríkisútvarpsins að vera með sama morgunþáttinn á báðum rásum í tvær og hálfa klukkustund fimm daga vikunnar. Tilgangurinn með tveimur rásum var að auka fjölbreytni í dagskránni. Það gerist ekki með því að senda út sama efni á báðum rásum.
Líklega fer þeim hlustendum fjölgandi sem á morgnana flytja sig á aðrar stöðvar. Ekki skal úr því dregið að ýmislegt hnýsilegt efni er á boðstólum í Morgunútgáfu, Ríkisútvarpsins en ekki er Molaskrifari til dæmis viss um að firna langt viðtal um kjaramál framhaldsskólakennara, sem flutt var á miðvikudagsmorgni (25.02.2015) hafi höfðað til þorra hlustenda. Það er eins og vanti neista í þáttinn.
Ríkisútvarpið ætti að breyta þessu fyrirkomulagi. Vera með þátt á annarri rásinni, þar sem væri fyrst og fremst tónlist af ýmsu tagi ekki talað orð.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.2.2015 | 09:56
Molar um málfar og miðla 1682
Margt er innihaldið! Í íþróttafréttum Ríkisútvarps (23.02.2015) var hlustendum sagt frá liðum, sem innihéldu ýmist íslenska leikmenn eða þjálfara!
Efni Landans í Ríkissjónvarpi er fjölbreytt og fróðlegt. Molaskrifari hafði gaman af heimsókninni í Byggðasafnið á Garðskaga (22.02.2015). Að skaðlausu hefði mátt gera hinu stórmerka vélasafni, sem Guðni Ingimundarson frá Garðstöðum á allan heiður af, betri skil. Molaskrifari komst meira að segja á skjáinn í nokkrar sekúndur! Sýnd var ljósmynd sem er í safninu. Þar var hann ásamt systkinum sínum og frændum um borð í árabáti afa síns á þurru landi við fiskverkunarhús Guðmundar Jónssonar á Rafnkelsstöðum við Rafnkelsstaðavör, Kópu, innstu vör í Garðinum. Myndin var sennilega tekin 17. júní 1945, - allir í sínu besta pússi. Molaskrifari á matrósafötum við stýrið, Guðjón Björnsson, smiður og sjómaður, í Réttarholti, afi skrifara stendur við stefnið.
Oft er ruglað saman af og að. Hér er dæmi af mbl.is (23.02.2015): Þær hafi ekki mátt yfirgefa íbúðina af vild. Hér hefði átt að standa: Þær hafi ekki mátt yfirgefa íbúðina að vild, - Þegar þær vildu.
Enn einu sinni er vakin athygli á því, að eldsneytissalinn N1 býður fólki í útvarpsauglýsingum (23.02.2015) að versla matvörur. Mælt er með því að N1 skipti við auglýsingastofu þar sem fólk er betur að sér í íslensku. Við kaupum matvörur. Verslum ekki matvörur.
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (23.02.2105) talaði fréttamaður um endurskoðun friðlýsingu. Hefði átt að vera endurskoðun friðlýsingar. Sami fréttamaður talaði í annarri frétt um aðstöðu sjúkrahússins á Akureyri. Væntanlega var átt við aðstöðu sjúklinga og starfsfólks á sjúkrahúsinu á Akureyri.
Mænuskaðastofnun Íslands er sjálfsagt merkasta stofnun og málstaðurinn vissulega góður. Undarlegur er fjáraustur stofnunarinnar í mikla auglýsingaherferð í útvarpi og sjónvarpi. Stundum er sama auglýsingin sýnd tvisvar sama kvöldið. Hvað er verið að auglýsa? Það er ekki utanríkisráðuneytið, sem flytur tillögur hjá Sameinuðu þjóðunum. Tillögurnar eru fluttar, lagðar fram og fyrir þeim mælt í nafni Íslands, - ekki utanríkisráðuneytisins sérstaklega. Starfsfólk utanríkisráðuneytisins vinnur að málinu. Molaskrifari er handviss um að það þarf ekki sjónvarpsauglýsingar til að hvetja utanríkisráðherra og starfsfólk ráðuneytisins til dáða í þessum efnum.
Þess vegna er þetta óskiljanleg auglýsingaherferð.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.2.2015 | 09:51
Molar um málfar og miðla 1681
Í fréttum Stöðvar tvö (20.02.2015) var greint frá fyrirhugaðri gerð kvikmyndar um örlög flutningaskipsins Suðurlands. Í inngangi fréttarinnar las fréttaþulur: ,, ... þar er greint frá hinum þekktu og hrikalegu örlögum flutningaskipsins Suðurlandi og áhöfn þess. Hér er ófullburða hugsun að baki. Þulur hefði betur sagt: ,, .. þar er greint frá hinum kunnu og hrikalegu örlögum flutningaskipsins Suðurlands og áhafnar þess. Fréttamaður bætti um betur og sagði , að ,,margt benti til þess að skipið hafi verið tekið yfir af sovéskum, jafnvel breskum kafbáti. Þetta var ekki skýrt frekar. Við hvað var átt? Réðust sovéskir eða breskir sjóliðar um borð í skipið? Í frétt á fréttavefnum visir.is er hinsvegar talað um að skipið hafi verið tekið niður: ,, Margt bendir til að skipið hafi verið tekið niður af sovéskum eða jafnvel breskum kafbáti. Við hvað er átt? Sjá: http://www.visir.is/hyggst-gera-stormynd-um-skipskada-sudurlandsins/article/2015150229882
Þetta eru ekki fyrirmyndarvinnubrögð.
Ríkissjónvarpið, sem berst í bökkum fjárhagslega og á mjög á brattann að sækja, lætur sig hafa það að halda áfram að sóa milljónum í svokallaðar Hraðfréttir. Í síðasta þætti (20.02.2015) talaði hraðfréttamaðurinn þrisvar sinnum um að sigra keppnina. Þarf að segja margt um það orðalag?
Í dagskrárauglýsingu á laugardagsmorgni (21.02.2015) var talað um sigurvegara íslensku tónlistarverðlaunanna. Það var sem sé sá sem sigraði verðlaunin. Málfarsráðunautur mætti taka þetta til athugunar.
Páll Bergþórsson veðurfræðingur gerði hikorð eins og hérna, þarna og svona ( frb. héddna þaddna og sona) nýlega að umtalsefni á fésbók. Páll er manna smekkvísastur um málfar. Notkun þessara hikorða, eða kækorða, eins og einnig mætti kalla þau var einkar áberandi er rætt var við tvo sérfróða um notkun mynddeiliforritsins Instagram í Morgunútgáfunni (20.02.20156). Annar þeirra sem rætt var við tönnlaðist á héddna og sona í næstum hverri setningu og sletti óspart ensku. Stundum virðist fólk gera þetta næstum ósjálfrátt og því er þá greiði gerður með því að benda á þennan hvimleiða kæk. Áreiðanlega er vel hægt að venja sig af þessu.
Það hvarflar að Molaskrifara að það sé liður í einhverskonar innrætingarstefnu Ríkissjónvarpsins að troða íþróttafréttum milli frétta og veðurfrétta. Á sunnudagskvöldum eru þetta heilar 15 mínútur og sannast sagna ekki allt mjög merkilegar fréttir. Hversvegna má ekki hafa íþróttafréttirnar á undan fréttatímanum, sem hefst klukkan 19 00?
Því miður heyrir það næstum til undantekninga að Ríkissjónvarpið standi við tímasetningar í auglýstri dagskrá? Á sunnudagskvöld (22.02.2015) hófst til dæmis prýðilegur þáttur um eldgosið í Holuhrauni sex mínútum seinna en auglýst var. Auglýstir dagskrártímar eru ekki lausleg viðmiðun. Þeir eiga að standa. Það á að vera hægt að treysta því að auglýstar tímasetningar standist. Stundvísi í útvarpinu, í dagskrá Rásar eitt, er hinsvegar nánast alveg óbrigðul og til fyrirmyndar.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)