23.3.2015 | 06:52
Molar um málfar og miðla 1700
Tilvitnun í athugasemd á fésbók (19.03.2015): ,,Það er kannski lýsandi fyrir þessa umræðu hér að hún er framkvæmd af gömlum köllum, ...
Umræðan er framkvæmd! Ja, hérna. Og það meira að segja af gömlum köllum! Þeim er líklega bannað að ræða mál og hafa skoðanir. Eða hvað? Það er stundum gaman að lesa snilldina, sem birtist í athugasemdum við færslur á fésbók.
Á föstudagsmorgni (20.03.2015) var okkur sagt í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins, að fólk væri að ærast ( af spenningi ) vegna sólmyrkvans,sem þá var skammt undan. Seint verður sagt að hógværð í orðavali einkenni þennan útvarpsþátt.
Meira um sólmyrkvann. Fram kom í fjölmiðlum að ferðaþjónustufólk hefði gagnrýnt og verið með ónot út í Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness vegna þess að félagið hefði ekki átt nægar birgðir af myrkvagleraugum! Þetta var fáránlegt. Stjörnuskoðunarfélagið hefur engar skyldur gagnvart ferðaþjónustufyrirtækjum, sem sjálf eiga auðvitað að sjá um sína viðskiptavini. Það er ekki annarra verk. Það má næstum kalla þetta ótrúlega óskammfeilni. Forystumenn Stjörnuskoðunarfélagsins unnu afrek með því að gefa öllum grunnskólabörnum landsins, milli fimmtíu og sextíu þúsund börnum sólmyrkvagleraugu. Snjöll hugmynd. Þeir eiga líka mikið hrós skilið fyrir almenna fræðslu um myrkvann og gott framtak.
Þegar Molaskrifari fór í hinn ágæta Sarp Ríkisútvarpsins til að hlusta á þá Kristin Hallsson og Jón Helgason prófessor flytja 39. Passíusálm, - þá stóð á skjánum: 39 þáttur af 50. Þarna hefði auðvitað átt að standa Passíusálmar, 39. sálmur. Sálmarnir eru 50.
Í Bylgjufréttum á hádegi á laugardag (21.03.2015) sagði fréttaþulur ,, ... til vitundar á heilkenninu .. . Fréttmaður sagði réttilega skömmu síðar: ,, ... til vitundar um heilkennið ...
Molaskrifara finnst það merkileg frétt, að Útvarp Saga skuli hafa orðið gjaldþrota. Það þarf ekki mikla hlustun ( löng hlustun er skrifara reyndar ekki mjög bærileg, þótt honum sé sagt að oft sé þar bitastætt efni síðdegis) til að komast að raun um að launakostnaður er að líkindum frekar lítill, mikið er um endurflutt efni og auglýsingar eru fyrirferðarmiklar og varla ókeypis. Sjá: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/03/18/42_milljona_gjaldthrot_utvarps_sogu_3/
Nýtt fyrirtæki virðist samstundis hafa tekið við rekstrinum af fyrirtækinu, sem lýst var gjaldþrota.
Í fréttinni kemur fram, að ekkert hafi fengist greitt upp í 42,5 milljón króna kröfur í þrotabúið. Molaskrifari var sannfærður um að útvarpsstöðin væri epli berandi fyrirtæki, en svona er það nú stundum.
Es. Á fimmtudagsmorgni (19.03.2015) kveikti Molaskrifari augnablik á Útvarpi Sögu á ferð í bílnum. Heyrði útvarpsstjórann segja eitthvað á þá leið að pabbi og mamma væru svo upptekin af karríer úti í bæ ( að lítill tími gæfist til að sinna börnum). Fór þá aftur að hlusta á Rondó, Ríkisútvarpsins, (FM 87,7) sem er gulls ígildi.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2015 | 07:32
Molar um málfar og miðla 1699
Gaman var að heyra Emil Björnsson, þá fréttamann á fréttastofu útvarpsins, lýsa sólmyrkvanum 1954 austan úr Landeyjum, en það mátti heyra í Spegli Ríkisútvarpsins í gærkvöldi(19.03.2015). Maður hreifst með. Vakti gamlar minningar um yfirmann á fréttastofu Sjónvarpsins og traustan vin. Séra Emil var kröfuharður um málfar, smekkmaður, málvís, einstaklega vel máli farinn. Ræðumaður góður, prestur Óháða safnaðarins um árabil. Flutti jafnan prédikanir blaðalaust. Vinnuþjarkur. Um tíma var hann blaðamaður á Vísi fyrir hádegi. Á fréttastofu útvarpsins frá hádegi og fram að kvöldmat, og prestur um helgar!
Hann gerði miklar kröfur til okkar fréttamanna. Búum held ég öll, sem enn erum á kreiki, að því enn. Það fór engin frétt óyfirlesin til áheyrenda. Hann nestaði okkur vel. Innrætti okkur að umgangast móðurmálið með virðingu. Gott hjá útvarpinu að rifja þetta upp.
Jón Gunnarsson segist ekki reka minni til þess, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps á miðvikudag (18.03.2014). Þetta orðalag heyrist nokkuð oft. Molaskrifari telur að betra hefði verið að orða þetta á annan veg. Kann að vera sérviska, - eins og svo margt fleira hjá skrifara. Til dæmis: Jón Gunnarsson segir sig ekki reka minni til þess ..., eða, - Jón Gunnarsson segist ekki minnast þess ....
Skúli Gunnar Vigfússon sendi Molum ábendingu (19.03.2015) undir fyrirsögninni: Fréttabörn mbl.is . Í þessu tilviki er það sögnin að valda ,sem enn einu sinni veldur óvönum fréttaskrifara vandræðum. Í fréttinni á mbl.is stendur: ,,Þú veist ekki hvaða skaða þú hefur ollið því skaðinn gæti komið í ljós fyrst eftir mörg ár. Þakka Skúla ábendinguna. það er engin sögn til, sem heitir að olla. Hér er frétt mbl.is http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/03/18/stundadi_kynlif_med_nemanda/
Skyldi það hafa verið að beiðni Ríkissjónvarpsins, að Færeyingar töluðu við okkur ensku í fréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (19.01.2015)? Trúi því ekki. Í Morgunútgáfunni í morgun var rætt við Elís Poulsen í Sandey í Færeyjum. Hann talar íslensku,- lærði hana m.a. hjá Halldóri Blöndal, seinna ráðherra, - gekk þá í Lindargötuskólann. Gagnfræðaskólann við Lindargötu í Reykjavík.
Meira af mbl.is (18.03.2015): ,,Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að þeir sem leggja á hjólastígum, eins og sést á meðfylgjandi ljósmynd sem barst lögreglunni, séu að sýna samborgurum sínum ótillitssemi, óhagræði og séu í raun að reka hjólaumferð aftur út á gangstéttir og götur.Hér er talað um að sýna ótillitssemi, - betra væri að tala um tillitsleysi, og svo sýnum við ekki öðrum óhagræði, þegar við sýnum tillitsleysi , getum við valdið öðrum óhagræði. Þegar betur er að gáð, kemur í ljós að þetta er afritað, eða klippt og límt, eins og stundum er sagt beint af vef lögreglunnar. Ekki nægilega vönduð vinnubrögð hjá blaðamanni mbl.is. https://www.facebook.com/logreglan?fref=nf
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2015 | 08:18
Molar um málfar og miðla 1698
Gamall vinnufélagi benti á frétt á visir.is (18.03.2015), en þar segir: Líkúd bandalagið, flokkur Benjamíns Netanjahús forsætisráðherra Ísraels, sigraði þingkosningarnar sem fram fóru þar í landi í gær. - Af visir.is nú í morgun. Segir þetta eitthvað um stöðu móðurmálskennslu í skólum landsins, eða faglegan metnað miðilsins ? Spyr sá sem ekki veit. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Það virðist erfitt að hafa þetta rétt.
Hér er fréttin: http://www.visir.is/netanjahu-for-med-sigur-af-holmi/article/2015150319005
Af mbl.is (17.03.2015) : ,,Tjón á mannvirkjum Landsnets urðu minni en útlit var fyrir í óveðrinu sem gekk yfir landið á laugardag þrátt fyrir umfangsmiklar truflanir og útleysingar í raforkukerfi fyrirtækisins. Hér hefði Molaskrifara þótt eðlilegara að segja að tjón hefði orðið minna, ekki að tjón hefðu orðið minni.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/17/tugir_staurastaedna_brotnudu/
Massaði það í Boston, sagði í fyrirsögn á mbl.is (17.03.2015).
Molaskrifari játar, að hann skilur þetta ekki. Telst þetta vandað mál? Hvað í veröldinni er að massa eitthvað?
http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/03/17/massadi_thad_i_boston/
Jóhannes skrifaði (16.03.2015): ,,Sæll Eiður. Finnst að fréttamenn RUV mættu vanda sig betur í fyrirsögnum sínum.
https://plus.google.com/share?url=http%3A//www.ruv.is/node/876003Hvernig er hægt að stökkva úr fallhlíf? Þakka Jóhannesi rétta ábendingu. Menn eru í fallhlíf, eða með áspennta fallhlíf, þegar þeir stunda fallhlífarstökk. Þeir stökkva hins vegar úr flugvél, eða fram af hárri bjargbrún.
Molalesandi skrifaði sama dag: ,,Ég heyrði auglýsingu á Rás 2 nýverið sem hljómaði eitthvað á þessa leið: Við gerðum Sjónvarp Símans fyrir þig.....
Og þá spyr ég: Hvað þýðir að gera sjónvarp? Ætli það þýði ekki að setja á laggirnar, stofna eða starfrækja? En heldur er þetta klaufalega orðað. Molaskrifari notar Sjónvarp Símans mikið þar bjóðast góðir kostir, - norrænu stöðvarnar , margar evrópskar stöðvar, fjölmargar fréttarásir þeirra á meðal BBC og CNBC, kínverska CCTV stöðin að ógleymdum frönsku Mezzórásunum, þar sem í boði er sígild tónlist. Mikið um úrvalsefni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2015 | 08:50
Molar um málfar og miðla 1697
,,Amma, sem átti að halda á dóttursyni sínum undir skírn í London í dag ,var ekki hleypt um borð í flugvél Icelandair fyrir handvömm. Hún lenti á biðlista og missti af skírninni. Þetta var sagt í fréttaágripinu á undan fréttum í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöld (15.03.2015) Setningin hefði auðvitað átt að byrja svona: Ömmu, sem átti að ... var ekki hleypt um borð. Henni var ekki hleypt um borð. Þágufall. Þorði sá sem skrifaði ekki að byrja setninguna á þágufallinu Ömmu ... eða vissi hann ekki betur? Svo er Molaskrifari vanur því að talað sé um að halda barni undir skírn, en ekki að halda á barni undir skírn. Þetta var endurtekið óbreytt í samantektinni í lok fréttanna.
Þetta leiðindaatvik var ótrúlegur klaufaskapur og viðbrögð Icelandair í Keflavík fyrir neðan allar hellur. En það var dæmi um gengisfellingu orðanna, þegar umsjónarmaður í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á mánudagsmorgni (16.03.2015) kallaði atvikið harmleik. Þetta var afar slæmt, en varla harmleikur eins og við flest skiljum það orð.
Enn og aftur var okkur sagt á Stöð tvö á sunnudagskvöld (15.03.2015) að fólk ætlaði að stíga stokk, þegar fólk ætlaði að syngja eða dansa fyrir framan myndavélarnar. Talað er að stíga á stokk og strengja heit, lofa einhverju hátíðlega.. Ekki stíga á stokk og syngja lag. það er út í hött. Viðmælandi fréttamanns, sagðist búast við rosa sjói! Verið var að kynna þáttinn með ljóta nafninu Ísland Got Talent. - Svo var að sjálfsögðu talað um troðfullan íþróttapakka, þegar sennilega var átt við fjölbreyttar íþróttafréttir. Það er víst ekki lengur hægt að tala um íþróttafréttir nema þær séu kallaðar pakki!
Umsóknir jukust, sagði fréttamaður í hádegisfréttum Ríkisútvarps
(16.03.2015) Umsóknum fjölgaði, hefði verið eðlilegra orðalag.
Beyging orðsins birgir, vefst stundum fyrir fréttamönnum. Á vef Árnastofnunar segir: ,,Orðið birgir er haft um þann sem sér einhverjum, t.d. smásöluverslun, fyrir aðföngum.
Athugið að rétt nefnifallsmynd af orðinu er birgir (þf. birgi) en ekki birgi (þf. birgja):
Birgirinn gefur upplýsingar um vörurnar.
verð á vörum frá birgi
reikningurinn var sendur frá birginum.
Í fréttum hádegisútvarps (16.03.2015) var talað um innflutt hrefnukjöt frá sama birgja. Hefði átt að vera frá sama birgi. Sjá: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=birgir
Ræður hending því í veðurfréttum Ríkissjónvarps hvort okkur er sýnt veðrið í vesturheimi? Það virðist vera dálítið svona hipsum-haps.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.3.2015 | 08:29
Molar um málfar og miðla 1696
Við ætlum að spila lagabút, sagði þáttarstjórnandi á Rás tvö síðdegis á laugardag (14.03.2015) Lagabút, - hluta úr lagi, bút úr lagi. Það var og. Fólk þarf ekki að vera mjög vel talandi til að vera trúað fyrir þáttastjórn í Ríkisútvarpinu. Það er miður að ekki skuli gerðar meiri kröfur þar á bæ.
Skegg atvinnulífsins massar mottumars, segir í fyrirsögn á bls. 10 í Morgunblaðinu á laugardaginn (14.03.2015). Molaskrifari las fréttina,sem fyrirsögninni fylgdi og er litlu nær. Illa komið, ef maður skilur ekki lengur flennifyrirsagnir í Mogga!
Málfari fer ekki mikið fram í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Í gærmorgun (16.03.2015) var talað um ,, nokkur trikk sem bæri að hafa í huga í ræðamennsku. Svo var slett á okkur ensku: ,, .. oft langað til að gera svona give me five. Ómenguð enska. Hversvegna ekki tala íslensku?
Í þrjú fréttum Ríkisútvarpsins á laugardag (14.03.2015) sagði fréttamaður okkur frá gifsplötu sem féll úr lofti salsins í menningarhúsinu Hofi á Akureyri.
Fréttin byrjar á 03:13: http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/siddegisfrettir/20150314
Beyging orðsins salur: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=salur
Þarna virðist skorta nokkuð á kunnáttu í beygingu orðs ,sem þó er ekki mjög sjaldgæft.
Þetta var endurflutt athugasemdalaust í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 1800 sama dag. ...úr lofti salsins. Hlustar enginn í Efstaleitinu?
Ölduhæð verður há, var sagt í aðvörun (13.03.2015) frá Veðurstofunni vegna óveðurs. Ölduhæð verður mikil. Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan 1800 sama dag var einnig talað um háa ölduhæð.
Molaskrifari sá á dögunum hluta úr þáttaröð Stöðvar tvö Margra barna mæður. Um mæður með mörg ung börn. Snjöll hugmynd og vel útfærð, - alla vega sá hluti þáttarins, sem skrifari sá. Hrós fyrir það. Eftir á að hyggja er raunar furðulegt að engum skuli haf dottið þetta í hug fyrr.
Þrjár smávörur fyrir tvær, - var sagt í útvarpsauglýsingu fyrir helgina.
Tvær vörur, þrjár vörur. Nokkuð algengt orðið að heyra þetta. Hefði ekki eins mátt segja , - þrennt fyrir tvennt í smávörunni hjá okkur?
Sennilega er svolítið erfitt fyrir marga að átta sig á hvað30 metra vindhraði á sekúndu er mikill hraði. Ágætt væri, ef veðurfræðingar töluðu stöku sinnum um xx um metra á sekúndu sem jafngiltu xx kílómetrum á klukkustund.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2015 | 08:32
Molar um málfar og miðla 1695
Það var ágætt hjá Ríkisútvarpinu í óveðrinu á laugardagsmorgni (14.03.2015) að tilkynna í níu fréttum að áfram yrðu fluttar fréttir af óveðrinu á Rás tvö. Þær urðu ekki margar að vísu, en þar var okkur sagt skömmu síðar að sendirinn á Skálafelli væri úti. Þulur endurtók þetta svo orðrétt skömmu síðar. Sagði það tilkynningu frá Ríkisútvarpinu. Ekki hefur málfarsráðunautur komið nálægt þeirri textagerð. Sendirinn hafði bilað í óveðrinu. Heldur hvimleiður siður að tala um, að það sem bilar sé úti eða niðri.
Algengt er að heyra sagt að farið sé á Geysi, eða að eitthvað hafi gerst á Geysi. Molaskrifara finnst eðlilegra að segja að farið sé að Geysi. Eitthvað hafi gerst við Geysi, austur við Geysi. Kannski sérviska, en hvað segja Molalesendur?
Hvernig finnst þér að hafa sigrað síðustu heimsmeistarakeppni ... Svona var spurt í neðanmálstexta í íþróttafréttum Ríkissjónvarps í gærkvöldi (15.03.2015). Það virðist illviðráðanlegt að koma því til skila að það sigrar enginn keppni. Menn vinna sigur í keppni. Þetta heyrist aftur og aftur.
Fín fyrirsögn í Morgunblaðinu (13.03.2015): Fjöldi flugferða blásinn af. Fréttin er um truflanir á innanlandsflugi vegna veðurs á undanförnum vikum.
Ekki eins fín fyrirsögn af dv.is (13.03.2015): Von á versta veðri vetursins. Eignarfallið af orðinu vetur er vetrar ekki veturs.
Sjá beygingarlýsinu íslensks nútímamáls á vef Árnastofnunar: http://bin.arnastofnun.is/leit/?q=vetur
Hér er frétt dv.is ásamt fyrirsögn:
http://www.dv.is/frettir/2015/3/13/von-versta-vedri-vetursins-morgun/
... ekki sú hjátrúarfyllsta í bransanum, sagði umsjónarmaður í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (12.03.2015), og talaði skömmu síðar um hönnunarbransann. Ekki mjög vandað málfar. Meira um þennan sama þátt: Hvað þýðir það, þegar umsjónarmaður talar um (eitthvert?) ægilega íþróttahátíð fyrir norðan?
Óskiljanlegt er að það skuli vera fjölmennustu fréttastofu landsins, fréttastofu Ríkisútvarpsins um megn að flytja fréttir, eða að minnsta kosti fréttayfirlit, klukkan tólf á hádegi á laugardögum og sunnudögum. Hvað skyldi valda? Ræður fréttastofan ekki við þetta? Er ekki fólk á vakt um hádegið á laugardögum og sunnudögum? Eða er þetta bara framkvæmdaleysi og slöpp verkstjórn? Eða er bara talið rétt að láta Bylgjunni eftir að flytja ein fréttir klukkan tólf á laugardögum og sunnudögum?
- Það hvarflaði meira að segja ekki að þessari öryggisstofnun alþjóðar, sem Ríkisútvarpið á að vera, að flytja okkur fréttir eða fréttaágrip klukkan tólf á hádegi í vonda veðrinu á laugardaginn (14.03.2014). Í staðinn hringdu bara klukkur Hallgrímskirkju á Skólavörðuholti. Og turnklukkan sló tólf.
Er það klappað í stein að ekki skuli flytja fréttir klukkan tólf á hádegi um helgar?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2015 | 07:52
Molar um málfar og miðla 1694
Þórhallur Jósepsson skrifaði (11.03.2015):
,,Sæll.
Hverjir eru strandarglópar?
Ég spyr því svo virðist, sem alveg nýr skilningur sé kominn í þetta orð, a.m.k. ef marka má fréttamenn Ríkisútvarpsins. Ég hélt að strandarglópur væri sá sem situr eftir bjargarlaus á ströndinni og hefur misst af fari sínu. Í seinni tíð hefur þetta yfirfærst á þá sem á einhvern hátt missa af fari, t.d. ná ekki rútunni norður eða eru of seinir út á flugvöll og missa af flugvélinni, sjá jafnvel á eftir henni taka á loft. Þetta eru sannarlega strandaglópar.
Nú ber hins vegar svo við að fréttamenn Ríkisútvarpsins og stundum líka annarra miðla tala um veðurteppt fólk sem strandarglópa. Að mínum málskilningi er það skilningsleysi á orðinu strandarglópur sem felst í þessu. Í stað þess að tala um að 300 strandarglópar hafi verið eða orðið að hafast við í Staðarskála hefði átt að tala um að 300 manns væru veðurteppt í Staðarskála eða einfaldlega að 300 væru veðurtepptir í Staðarskála. Þarna hefðu fréttamenn átt að staldra aðeins við og velta fyrir sér orðanotkun, jafnvel hefði málfarsráðunautur mátt koma við hjá þeim og ræða málin (það er víst málfarsráðunautur starfandi hjá Ríkisútvarpinu).
Annað: Hvenær ætla Sambíóin að hætta að auglýsa: "Sambíóin kynnir ...."? - Kærar þakkir, Þórhallur.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins á fimmtudag (12.03.2015) talaði einn umsjónarmanna tvisvar sinnum um veðurteppta ferðalanga í Staðarskála sem strandaglópa. Strandaglópur er sá sem verður af skipi eða öðru farartæki. Raunar gefur Íslensk orðabók það sem viðbótarmerkingu að vera tepptur og komast ekki lengra. Það er mér nýtt. Þegar rætt var við staðarhaldarann í þessum þætti (12.03.2015) var spurt hvort í Staðarskála væri fólk, sem veitti áfallahjálp !!!
Rafn benti á þennan myndatexta á mbl.is (11.03.2015): ,,10-15 rútur voru lagðar fyrir utan verslunarmiðstöðina fyrr í dag. Óþarft ætti að vera að hafa mörg orð um þetta. Rúturnar voru ekki lagðar. Þeim var lagt. Hér er fréttin: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/10/verslunarmidstod_vard_neydarskyli/
Rætt var um störf þingsins við alþingismann í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (11.03.2015). ,, Við þurfum að kovera rosalega mikið, sagði þingmaðurinn. Ljót enskusletta. Svolítið seinna kom soldið spes og svo kom aftur spes. Barna- eða unglingamál. Kannski er það gamaldags að ætlast til að þingmenn vandi mál sitt í opinberri umræðu. Molaskrifari ætlast nú samt til þess.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (11.03.2015) var sagt að kosið yrði um verkfall í fjölmennu stéttarfélagi. Eðlilegra hefði verið að segja okkur að atkvæði yrðu greidd um verkfallsboðun. Fréttaskrifarar eiga að kunna að greina á milli þess að kjósa og greiða atkvæði um eitthvað.
Í gærkvöldi (12.03.2015) hófust seinni fréttir Ríkissjónvarps næstum fimmtán mínútum of seint. Sá enga tilkynningu um seinkun fréttanna á skjánum og ekki bað fréttaþulur okkur afsökunar á seinkuninni. Svona gera alvöru sjónvarpsstöðvar ekki. Kurteisi kostar ekki neitt. Er enginn við stjórnvölinn á fréttastofunni? Er öllum bara skítsama, - svo notað sé óheflað orðalag? Skítsama um þá sem, þessi ríkis ohf stofnun á að þjóna?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2015 | 10:03
Molar um málfar og miðla 1693
Stundum misskilur fólk orðtök hrapallega. Eins og þingmaðurinn sem sagði í Morgunútgáfunni (10.03.2015): Ég hef aldrei dregið dulu fyrir það. Hann ætlaði að segja: Ég hef aldrei dregið dul á það. Aldrei leynt því. Sami þingmaður talaði um orsakavald, - orsök. Þingmaðurinn sagðist líka vonast til að það lagaði áfengismenninguna á Íslandi, ef frumvarp hans um sölu áfengis í matvörubúðum yrði samþykkt. Það var og.
Það var kannski mismæli, þegar gestur, lektor í bókmenntafræði í þessum sama þætti (12.03.2015) talaði um farartæki,sem gætu farið bæði um land og láð. Láð er land. Átti við láð og lög. Sjó og land. Láðs og lagardýr.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins í morgun (12.03.2015) var rætt við staðarhaldara í Staðarskála. Útvarpsmaður spurði: Eruð þið farin að hilla upp í (?) vorið? Átti líklega við hvort þess væru einhver merki að vorið væri nánd. Kannski er útvarpsmaðurinn er ekki á réttri hillu.
,,Þéttur íþróttapakki er handan við hornið, sagði fréttaþulur Stöðvar tvö á laugardagskvöld (07.03.2015). Þetta orðalag er svo sem engin nýlunda. Íþróttafréttir eru á báðum stöðvum kallaðar pakkar. Reyndustu fréttamenn Ríkissjónvarpsins segja okkur frá einhverjum íþróttapökkum (10.03.2015) Skrifara finnst þetta út í hött. Pakkar geta verið litlir eða stórir. Þeir eru ekki þéttir eða óþéttir. ,,Íþróttir og veður hér handan auglýsinga, sagði Sigríður Hagalín Björnsdóttir ágætlega í Ríkissjónvarpinu sama kvöld.
Í fréttum Ríkisútvarps (10.03.2015) var sagt frá komu farfugla til landsins. Sagt var að álftir væru komnar á Lón. Er ekki málvenja að segja í Lóni og oft með ákveðnum greini Lónið, þegar talað er um Lónssveitina austan Hornafjarðar? Molaskrifari hefur vanist því. Honum hefði fundist rétt að segja, að álftirnar væru komnar í Lónið.
Í fésbókarauglýsingu frá Samfylkingunni (10.03.2015) segir um fyrirhugaðan fund, að tveir þingmenn flokksins ætli að taka góðan velferðar- og fjárlagatvist og spjall á eftir. Hvað þýðir þetta?
... hugmynd,sem dúkkar reglulega upp, sagði umsjónarmaður í Morgunútgáfunni (10.03.2015). Ekki orðlag, sem hægt er að hrósa.
Fyrirsögn af mbl.is (11.03.2015): Rúturnar áttu að vera komnar í hús. Eru rútur venjulega hýstar á nóttunni? Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/11/ruturnar_attu_ad_vera_komnar_i_hus/
Í fréttum Ríkissjónvarps á sunnudagskvöld (07.03.2015) var talað um hálkusvell. Það orð hefur Molaskrifari ekki heyrt áður. Það er hvorki að finna í Íslenskri orðabók né á vef Árnastofnunar. http://bin.arnastofnun.is/forsida/
Lítur út eins og kélling frá Perú, var mjög smekkleg lýsing á listamanni í morgunþætti Rásar tvö Virkum morgnum á mánudagsmorgni(09.03.2015). Svona daginn eftir alþjóðlegan baráttudag kvenna. Í sama þætti sagði umsjónarmaður: Svo er smá varúð hér. Aðvörun (þetta var um færð) er eitt. Varúð er annað.
Enn einu sinni er lagt til að reynt verði að kenna umsjónarmanni Virkra daga að segja hljómsveit og hætta að segja /hljóst/.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2015 | 07:01
Molar um málfar og miðla 1692
Molaskrifari er ekki mjög hrifinn af orðinu snjóbylur, sem tönnlast var á í Ríkisútvarpinu í gærmorgun (10.03.2015). Hefur verið nefnt hér áður. Virðist sumum fréttamönnum tungutamt. Hvað varð um hið ágæta orð stórhríð? Allir búnir að gleyma því? Ekki allir reyndar. Það kom á skjáinn í veðurfregnum Ríkissjónvarps í gærkvöldi og Birta Líf veðurfræðingur notaði það í veðurfréttum. Plús fyrir það.
Í fréttum Ríkisútvarps á sunnudagskvöld (08.03.2015) var talað um að auka fjármagn á friðlýst svæði og ferðamannastaði. Auka fjármagn á svæði?
Af mbl.is (09.03.2015): Fyrirsögnin er: Fullyrðir að kærastinn sé undir rannsókn . Síðan segir: ,,Leolah Brown, systir Bobbi Kristina Brown, fullyrðir að Nick Gordon, kærasti Bobbi, sé undir rannsókn fyrir að hafa reynt að myrða kærustu sína.
http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/03/08/fullyrdir_ad_kaerastinn_se_undir_rannsokn/
Af netinu: ,,Leolah Brown isn't holding back. Bobby Brown's sister is claiming in a new Facebook post that Nick Gordon is under investigation for attempted murder of her niece, Bobbi Kristina Brown.
Var þetta Google þýðingavélin?
http://www.usmagazine.com/celebrity-news/news/leolah-brown-says-nick-gordon-under-investigation-for-attempted-murder-201573
Í fréttum Ríkissjónvarps (08.03.2015) var talað um að fólk hefði komið saman á minningarathöfnum í dag. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að fólk hefði komið saman við minningarathafnir í dag? Molaskrifari hallast að því. - Ég var við athöfn. Ekki á athöfn.
Á föstudagskvöld (06.03.2015) festist Molaskrifari við áhorf á fréttaskýringaþátt CBS Sixty Minutes í danska sjónvarpinu. Þar var að venju vönduð rannsóknablaðamennska á ferð. Meðal annars var sagt frá baneitruðum gólfborðum , einskonar gerviparketti sem bandarískt fyrirtæki Lumber Liquidators hefur flutt inn frá Kína og selt í stórum stíl í Bandaríkjunum. Við framleiðsluna er notað margfalt leyfilegt magn af krabbameinsvaldandi efnum, m.a. formaldehýdi. Molaskrifari veltir því fyrir sér hvernig eftirliti með innflutningi slíkra gólfefna sé háttað hér á landi, eða hvort nokkurt eftirlit sé með innflutningi af þessu tagi. Þetta var heldur óhugnanlegt á að hlýða og horfa.
Á sunnudagskvöld, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, (08.09.2015) sýndi danska sjónvarpið, DR1, heimildamyndina ,sem gífurlega athygli hefur vakið, Dætur Indlands. Myndin er í senn átakanleg og óhugnanleg. Rót hennar er hópnauðgun og dráp ungrar stúlku, sem skók heimsbyggðina fyrir tæplega þremur árum. Það var erfitt að horfa á myndina. Hún verður sýnd í Ríkissjónvarpinu á sunnudagskvöldið kemur. Rifjaðist upp að þjóðhöfðingi okkar Íslendinga er nýkominn úr milljarðamæringsbrúðkaupi á Indlandi. Veislan stóð í þrjá daga og kostaði jafnvirði rúmlega þriggja milljarða íslenskra króna, að sögn breskra blaða. Þar var víst helsta og ríkasta þotulið heimsins. En það er annað Indland, sem áhorfendur sjá í myndinni Dætur Indlands. Annað land og heldur ógeðfellt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2015 | 08:27
Molar um málfar og miðla 1691
Týndi áttum vegna lélegs skyggnis, sagði í fyrirsögn á mbl.is í gær (09.03.2015). http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/09/tyndi_attum_vegna_lelegs_skyggnis/
Menn týna ekki áttum! Maðurinn sem í hlut átti villtist. Hann varð áttavilltur. ,, Maðurinn hafði samband við lögreglu rétt eftir klukkan 16 í dag þegar hann hafði týnt áttum vegna lélegs skyggnis.Seinna í fréttinni segir: ,,Maðurinn var einn á göngu og það gekk allt vel þar til skyggnið hjá honum gjörsamlega fór allt vegna snjókomu Það var og.
Í Útsvari Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (06.03.2015) var spurt, þegar leikatriðið var að hefjast: Hver ætlar að stíga á stokk? Aftur og aftur heyrist þetta orðtak notað andstætt málvenju. Í vaxandi mæli notar fjölmiðlafólk það til dæmis um listamenn, sem ætla að flytja tónlist. Koma fram. Um þetta orðtak má meðal annars fræðast í þeirri ágætu bók Jóns G. Friðjónssonar Merg málsins (bls.836). Að heita einhverju hátíðlega. Lýsa yfir. Stíga á stokk og strengja heit.
Í fréttum Ríkissjónvarps (06.03.2015) sagði ráðherra: ,, ... sem getur leitt til þess að aflandskrónuvandinn verði fyrir aftan okkur. Ekki finnst Molaskrifara þetta orðalag vera til sérstakrar fyrirmyndar. Enskukeimur af því. Hefði kannski mátt segja , - sem gæti leitt til lausnar á aflandskrónuvandanum.
Í fréttum Stöðvar tvö (07.03.2015) sagði alþingismaður: ,,Þetta er algjörlega mjög óheppilegt.. Ekki til fyrirmyndar heldur.
Molaskrifari hlustaði á hluta þáttarins Sirrý á sunnudagsmorgni á Rás tvö. Þar er oft sitthvað bitastætt og fróðlegt. Ágætt var að fá skýringar Ingólfs Bjarna á nýjum vef Ríkisútvarpsins. Þetta gæti raunar ekki síður verið sjónvarpsefni þar sem okkur væri kennt að nota vefinn. Takið það til athugunar. Athugasemdir Stefáns Jóns Hafsteins, sem hringdi til þáttarins, voru réttmætar. Það á ekki að vera háð duttlungum dagskrárgerðarmanna hvernig efni er skráð á vefinn.
Í þættinum var rætt við háskólakonu, sem sagði frá högum afrískar konu. Sagt var að hún þyrfti að sjá um að dýrin (húsdýrin) fengju að borða. Þarna hefði nægt að tala um að gefa dýrunum eða fóðra dýrin. Ekki er málvenja að tala um að dýr borði. Hreint ekki.
Rétt fyrir auglýsingar á undan fréttum klukkan ellefu sagði þáttarstjórnandi að tilkynning hefði verið að berast. Maður hélt að stórfrétt væri í vændum. Nei. Tilkynningin var löng auglýsing um handverksmarkað á Akureyri. Þetta var ekki tilkynning, heldur hrein og ómenguð auglýsing. Skýr mörk eiga að vera milli dagskrárefnis og auglýsinga. Þarna var sú regla rækilega brotin. (Á 1:54:50) http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-2/sirry-a-sunnudagsmorgni/20150308
Dýrafóðrun, skylt. Í færeyska sjónvarpinu á sunnudagskvöld (08.03.2015) sá Molaskrifari brot úr þætti þar sem verið var að hluta sundur nautshaus. Gamli Færeyingurinn sem það gerði sagði ( með íslenskri stafsetningu): Það heitir ekki munnur á nauti. Það heitir kjaftur!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)