8.4.2015 | 08:06
Molar um málfar og miðla 1709
Þórarinn skrifaði (03.04.2015): ,, ... segist heldur betur hafa brugðið í brún þegar hún bað afgreiðslukonuna í greiðasölunni í flugstöðinni á Egilsstöðum um að lækka tónlistina í hátalarakerfinu.
Hann spyr: - Hefði ekki verið betra að hafa þetta: segir, að sér hafi heldur betur brugðið í brún ? Molaskrifari þakkar ábendinguna og svarar: Jú, Þórarinn, þitt orðalag hefði verið betra. Hitt heyrist samt æ oftar. Kannski hafði fréttaskrifari þarna rangt eftir, sem Molaskrifara finnst ekki ósennilegt.
Áskell skrifaði (03.04.2015) Eftirfarandi var að finna í frétt hjá Ríkisútvarpinu: "Louis Jordan fannst ofan á hvolfdum bát sínum rúmum 300 kílómetrum undan strönd Norður-Karólínuríkis í Bandaríkjunum. Þýskt flutningaskip sá hann..." Áskell segir: ,,Ég er ekki alveg sáttur við þennan texta. Venjulega er talað um að skipbrotsmenn komist á kjöl og það voru það skipverjar á þýsku flutningaskipi sem sáu Louis þar sem hann sat á kili bátsins. Auðvitað sá skipið ekki manninn! Þakka ábendinguna, Áskell. Hér er frétt Ríkisútvarpsins: http://www.ruv.is/frett/truin-helt-honum-a-floti
Og hér er frétt mbl.is um sama atburð. http://m.mbl.is/frettir/erlent/2015/04/03/fannst_a_lifi_eftir_66_daga_uti_a_sjo/ - Í frétt mbl.is segir m.a.: ,,Umfangsmikil leit stóð yfir að bátnum og fannst Louis loks, ofan á hvolfdum bát sínum, um 300 kílómetrum frá strönd Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Það voru áhafnarmeðlimir á þýsku flutningaskipi sem komu auga á Louis og komu honum til bjargar,.. Ofan á hvolfdum bát sínum. Samræmt orðalag eða étur hér hver eftir öðrum?
En frétt Stöðvar tvö um þennan sama atburð (03.04.2015) var með því skrautlegasta sem Molaskrifari hefur lengi heyrt. Edda Andrésdóttir, þulur, talaði réttilega um skipverja á þýsku olíuskipi,sem komið hefðu auga á manninn. Fréttamaður talaði hinsvegar um áhafnarmeðlimi á þýsku flutningiskipi,sem komið hefðu auga á manninn. Lífseigt er orðskrípið áhafnarmeðlimur. Síðan sagði fréttamaður okkur að maðurinn hefði vaknaði við að bátinn hvolfdi og hann hafi haldið til uppi á öfugum bátnum síðan. Erfitt er að koma jafnmörgum ambögum fyrir í jafnstuttri setningu. Hér er fréttin af Stöð tvö: http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV4B611943-6E00-4414-A5F3-B09F56FB1AA2
Morgunblaðið sagði frá sama atburði (04.04.2015) ,,,... fannst Louis loks uppi á kilinum á hvolfdum bát sínum , ..... en áhafnarmeðlimir þýsks flutningaskips fundu hann. Enn koma áhafnarmeðlimir við sögu. Maðurinn hafði komist á kjöl eftir að bátnum hafði hvolft. Ef hann hafði komist á kjöl, hlaut bátnum að hafa hvolft.
Ríkissjónvarpið komst ágætlega frá því að segja okkur þessa frétt (03.04.2015) : http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/frettir/20150403
Fartölvuþjófur inn um svalirnar, er undarleg fyrirsögn á mbl.is (02.04.2015) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/02/fartolvuthjofur_inn_um_svalirnar/
Eins gott að hann fór ekki í gegnum hurðina, eins og æ oftar má sjá og heyra í fréttum. Í fréttinni er ágætlega sagt að þjófurinn hafi farið inn í íbúðina af svölunum.
Í gærkvöldi (07.04.2015) horfði Molaskrifari á endursýningu fjögurra ára gamallar bandarískrar heimildamyndar í danska sjónvarpinu DR2. Sá lungann úr myndinni, sem er næstum hálfrar annarrar klukkustundar löng og heitir,, Nauðgað í hernum. Hún er um nauðganir og kynferðislegt ofbeldi, sem viðgengst í herjum Bandaríkjamanna. Það var vægast ógnvekjandi að horfa á þetta; hjá ríki, sem telur sig í fararbroddi í baráttu fyrir frelsi og mannréttindum. Lang oftast sluppu nauðgararnir og oftar en ekki voru þeir hækkaðir í tign í hernum og konurnar niðurlægðar, eftir óbætanlegt tjón á líkama og sálu sinni. Eiginlega skelfilegra en orð fá lýst.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.4.2015 | 07:55
Molar um málfar og miðla 1708
Þáttur Ríkissjónvarpsins um Eddu Heiðrúnu Backman, sem sýndur að kvöldi föstudagsins langa (03.04.2015) er með magnaðasta sjónvarpsefni, sem Molaskrifara lengi hefur séð. Hvílík kona! Hvílík hetja ! Hvílíkt hugrekki og greind! Þessi þáttur var ekki aðeins menntandi. Hann var mannbætandi. Hafið heila þökk. Edda Heiðrún, Egill, Þórhallur og þið öll,sem þarna komuð við sögu.
Rafn benti á þessa frétt af mbl. is 01.04.2015) : http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/04/01/osattur_vid_ad_enginn_svaradi/
Fyrirsögn fréttarinnar er: Ósáttur við að enginn svaraði. Í fréttinni segir: ,,Maður var handtekinn í Hafnarfirði í gærkvöldi eftir að hafa brotið þrjár rúður við lögreglustöð bæjarins. Í tilkynningu lögreglu kemur fram að maðurinn hafi verið ósáttur við að enginn svaraði er hann barði á dyrnar. Rafn spyr: ,,Hvar voru þessar brotnu rúður? Lágu þær lausar á bílastæðinu við lögreglustöðina? Voru þær í nálægum húsum? Eða við þau? Kom gesturinn ef til vill með þær? Von er að spurt sé.
Af mbl.is (31.03.2015): ,,Tvö flutningaskip misstu í desember á síðasta ári sinn hvorn gáminn af gaskútum í sjóinn á milli Íslands og Noregs í slæmu veðri og hafa kútarnir verið að reka á land þar að undanförnu í Norður-Noregi. Og það er samræmi í vitleysunni, því seinna í fréttinni segir: ,, Búist er við að gaskútarnir haldi áfram að reka á land á næstu mánuðum í vaxandi mæli. Ekki fylgir sögunni hvað það var og er sem kútarnir eru að reka á land. Þetta er næsta algeng villa. Segja mætti: Færeyingar ráku grindhvalina, grindina, á land í Sandagerði, skammt frá sjúkrahúsinu. Hræ af grindhval rak á land í Nólsey. Kútana rak á land. Þeir ráku ekki á land. Misstu skipin ekki sitt hvorn gáminn? Molaskrifari hallast að því. Er þó ekki viss. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/03/31/hundrud_gaskuta_foru_i_sjoinn/
Við tækluðum málið, sagði borgarfulltrúi Framsóknarflokksins í Kastljósi (30.03.2015). Ekki vanda allir stjórnmálmenn mál sitt.
Sló annan karlmann á Ísafirði er dálítið skrítin fyrirsögn á mbl.is (31.03.2015). Sló mann með flösku, hefði verið skárri fyrirsögn.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/31/slo_annan_karlmann_a_isafirdi/
Hversvegna þarf Toyota umboðið að sletta ensku í auglýsingum? Í auglýsingu fyrir bílgerðina Yaris Trend er talað um ,,trendset. Enskusletta ( röng að vísu), sem ber ekki vott um góða dómgreind þeirra, sem semja auglýsingar fyrir fyrirtækið.
Hvað á fréttþulur Ríkísútvarps við þegar (05.04.2015) talað er um íþróttafréttirnar,sem ,,feitan pakka? Molaskrifara finnst þetta orðalag ekki til fyrirmyndar. Svo bauð íþróttafréttamaður okkur velkomin í íþróttafréttirnar þennan páskasunnudag! Molaskrifari viðurkennir að orðið páskasunnudagur hefur hann aldrei heyrt áður. Orðabókin mín kannast ekki við það heldur. Hvað segja Molalesendur?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.4.2015 | 14:05
HVE LENGI ENN, SJÁLFSTÆÐISMENN?
Samstarf í tveggja flokka stjórn byggist umfram allt á gagnkvæmu trausti og trúnaði oddvita flokkanna. Þannig var í Viðreisnarstjórninni og þannig var það lengst af í Viðeyjarstjórninni.
Oddvitar flokkanna gefa ekki mikilvægar stefnumarkandi yfirlýsingar, án þess að hafa um það samráð sín á milli.
Þessu er á annan veg farið í núverandi ríkisstjórn. Forsætisráðherra SDG gefur stefnumarkandi yfirlýsingar út og suður án samráðs, að því er virðistr við hinn stjórnarflokkinn. Þetta vekur ekki fögnuð hjá Sjálfstæðismönnum. Þeim þykja þessi vinnubrögð ekki til marks um heilindi og heiðarleika.
SDG vill nýjan Landspítala á frímerkisblettinn þar sem útvarpshúsið er. Málið er á forræði heilbrigðisráðherra. Frá honum heyrist ekki. Ekki tíst. Ekki sem ég hef heyrt að minnsta kosti. Fjármögnun verksins er á forræði fjármálaráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem heldur segir ekki neitt. Bældir menn og beygðir.
SDG hristir rykið af stúdentagarðsteikningu frá námsárum Guðjóns Samúelssonar, seinna húsameistara meistara ríkisins. Þarna áttu stúdentar að búa meðan neðri hæð þinghússins hýsti Háskóla Íslands. (Guðfræðideildin rúmaðist í þingflokksherbergi Alþýðuflokksins) SDG vill klastra þessu húsið við okkar fallega þinghús. Ráðherrar og þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma af fjöllum og klóra sér í hausnum. Þjóðin hélt að þetta væri apríl gabb. Hún áttar sig ekki á því að forsætisráðherra er kannski bara eitt allsherjar apríl gabb.Hélt kannski, að ráðherra hefði fengið heilahristing, en varpaði þeirri hugsun snarlega frá sér.
SDG vill allt í einu nýja Valhöll á Þingvöllum. Hann hefur þar bústað fyrir sig og sína. Ég hef engan hitt, sem vill nýja Valhöll á Þingvöll. Þar er varla pissipláss fyrir þá tugi þúsunda eða þau hundruð þúsunda ferðmanna, sem koma þangað árlega og léleg aðstaða er til að sinna.
Hve lengi ætla Sjálfstæðismenn að halda áfram að láta Framsóknarmenn niðurlægja sig í þessu stjórnarsamstarfi?
Einkunnarorðin virðast sótt í forneskjuna eins og fleira; nefnilega: Ríkið það er ég.
Hve lengi, hve lengi, Sjálfstæðismenn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.4.2015 | 10:02
Molar um málfar og miðla 1707
KÞ skrifaði (30.03.2015): ,,Hér er frétt um afrek nafna þíns:
http://kjarninn.is/2015/03/endurkoma-kongsins-eidur-smari-i-kastljosi-erlendra-fjolmidla/
,,Eiður Smári Guðjohnsen átti sögulega endurkomu í íslenska landsliðið í fótbolta í gær þegar Kasakar voru lagðir af velli ... "
Þetta með að og af reynist mörgum erfitt og dæmin um ranga notkun eru mýmörg. Í þessu tilviki væri þó ráð að reyna að gera sér í huganum mynd af því sem átt er við. Sjá frekar hér: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=1003
Í sömu frétt bendir KÞ á eftirfarandi:,, ... sem innsigldu sigurinn ... " Það var og! Molaskrifari þakkar KÞ þarfar ábendingar. Þarna hafa menn ekki vandað sig, ekki hugsað, eða ekki vitað betur. Sá sem þetta skrifaði þarf aðhald og leiðsögn.
Af visir.is (30.03.2015): Í fréttinni, sem er um slys á jarðlestastöð í Londin, segir: Fólk nálgaðist manninn og það voru öskur. Svo til allt kvenfólk var grátandi og ég stóð þarna með höfuðið í höndum mér. Þetta er heldur klaufalegt orðalag. Höfuð hvers ? Vitnað er í frétt BBC, en þar segir: "People tried to approach him and there were screams. Pretty much every girl was crying and I just stood there head in hands," Mr Brown said.
http://www.visir.is/kom-manni-til-bjargar-en-vard-sjalfur-fyrir-lest-og-do/article/2015150339939 - Maðurinn hélt um höfuðið í örvæntingu. Höfuð sitt.
Af fréttavef Ríkisútvarpsins (30.03.2015): ,,Rafmagnsbilun varð til þess að hluti jarðlestakerfisins í miðborg Kaupmannahafnar lá niðri í sautján klukkustundir frá því í gærkvöld fram yfir hádegi. Hluti jarðlestakerfsins lá niðri! Ekki nýtt að heyra svona til orða tekið. Það var og ! Ekki mjög vel orðað.
Góðvinur Molanna benti á eftirfarandi (30.03.2015): ,,Þú mætti taka fyrir það sem t.d. kom fyrir í fréttum RÚV um helgina, þar var sagt að Vinnueftirlitið hefði eftir heimsóknir gert athugasemdir við aðstöðu í fiskvinnsluhúsum. Þetta er rangt; starfsmenn stofnunarinnar voru á ferð. Og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi segja ekkert í málinu, heldur fulltrúi samtakanna. Það var tönnlast á þessu. - http://www.ruv.is/frett/vinnueftirlitid-hotar-ad-loka-fiskvinnslum
Vinnueftirlitið hótar að loka fiskvinnslum
Um vinnueftirlitið segir RÚV "Á vef eftirlitsins kemur fram að ÞAÐ muni heimsækja fleiri fiskvinnslufyrirtæki." - Leturbr. mín - . ÞAÐ
Svo bjargaði varðskipið Týr fólki, sagði í morgunþætti RÚV. Réttara væri að segja að þetta hefðu verið skipverjar á Tý. Molaskrifari þakkar góðar athugasemdir.
Molaskrifari var að hefja lestur nýjustu bókar Arnaldar Indriðasonar, Kamp Knox. Páskakrimminn, eins og þeir segja í Noregi.
Fyrstu setningarnar í bókinni eru: ,,Hvass vindur blés yfir Miðnesheiðina. Hann kom norðan af hálendinu og yfir úfið hafið á Faxaflóanum og klifraði upp á heiðina, úfinn og kaldur. - Höfundar hafa skáldaleyfi, og víst blæs oft vindur yfir Miðsnesheiðina, satt er það og rétt, - það vita þeir sem eiga rætur að rekja í Garðinn! En Molaskrifari er ekki sáttur við að vindur sem blæs af Faxaflóa komi norðan af hálendinu. Og ekki er nú Miðnesheiðin sérstakt brattlendi til klifurs. En sem sagt skáldaleyfi. Þetta er meira til gamans sagt en gagnrýni, en spennandi er bókin og lipurlega skrifuð eins og höfundar var von og vísa.
Næstu Molar eftir páska.
Skrifari óskar lesendum gleðilegra páska.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.3.2015 | 08:15
Molar um málfar og miðla 1706
Úr ummælum á fésbók (28.03.2015): ,,Leiðréttist það hér með ef einhver hafi verið að spá í þessu. Aftur og aftur sér maður og heyrir að verið sé að spá í einhverju, spá í þessu. Molaskrifari hefur alltaf talað um og heyrt aðra tala um að spá í eitthvað, - velta einhverju fyrir sér. Og hér er önnur tilvitnun af Stundinni sama dag , ,, ......Þannig að við erum ekkert að spá í því, segir Teitur. Hvað segja Molalesendur um þetta?
Gamall skólabróðir og vinur S.O., sem þrátt fyrir búsetu í öðru landi fylgist vel með íslenskum miðlum, benti á þetta: ,,Sá þetta mismæli(?) í frétt á Vísi:
,,Okkur þykir þetta afskaplega leitt og hörmum að mæðgurnar hafi þurft að fara í fýluferð, segir í svari Auðkennis til Fréttablaðsins.
Hann spyr:
,,Hver skyldi skipuleggja slíkar ferðir? Er íslenzkur fararstjóri? Eiga menn að taka með sér nesti? Er um dagsferðir eða lengri ferðir að ræða? Þakka bréfið. Enginn vill fara fýluferð !
Í heldur vaxandi mæli hlustar Molaskrifari á þáttinn Í bítið á Bylgjunni í stað Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins. Þetta er þrátt fyrir dygga hlustun á morgunútvarp Ríkisútvarpsins í áratugi. Molaskrifari reynir þó að missa ekki af Málskoti á þriðjudögum og spjalli þeirra Boga og Óðins á fimmtudögum. Í síðasta spjalli nefndi Bogi John Bercow, forseta neðri deildar breska þingsins. Hann er aldeilis bráðskemmtilegur forseti og fundastjórn hans með miklum ágætum. Breski húmorinn á sínum stað. Ömurlegur auglýsingalestur vinnur gegn Bylgjunni. Nefnt áður. Bylgjumenn hljóta að heyra þetta. Er örugglega hægt að laga með réttri talþjálfun.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri vígði ekki vatnsrennibraut við Árbæjarlaug eins og sagt var í fréttum Stöðvar tvö fyrir helgina. Borgarstjórinn er ekki vígður maður og getur hvorki vígt eitt eða neitt. Hann fór hinsvegar fyrstu ferðina niður nýja vatnsrennibraut í sundlaugina í Árbænum. Það er annar handleggur. Svo var okkur sagt í fréttum Stöðvar tvö í gærkveldi (30.03.2015) að gámar hefðu verið vígðir við Landspítalann. Ekki var þess getið hver vígði. Svo er sagt að Torfi Erlendsson nábúi séra Hallgríms Péturssonar hafi sagt er Hallgrímur var vígður til prestsembættis við Hvalsneskirkju: ,, Allan andskotann vígja þeir. Er það orðtak síðan.
Þetta er sætur angan, sagði viðmælandi í fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (28.03.2015). Angan er kvenkynsorð. Ilmur, sem hefur sömu merkingu, er karlkynsorð. Sæt angan. Sætur ilmur.
Yfirleitt er heldur lítið að græða á viðtölum í beinni útsendingu í kvöldfréttum Ríkissjónvarps. Bein útsending bætir ekki slakt viðtal. Molaskrifari var litlu nær eftir viðtal í beinni útsendingu við húsnæðisráðherra Framsóknarflokksins í gærkvöldi (30.03.2015). Ráðherra vék sér fimlega hjá því með orðaflaumi að svara hvað gera ætti til að greiða götu ungs fólks, sem er að kaupa íbúð í fyrsta skipti. Og komst upp með það. Fréttamaður byrjaði á því að spyrja tveggja spurninga í einu,sem er ekki góður siður.
Á tólfa tímaum í gærkveldi (30.03.2015)heyrði Molaskrifari á tal tveggja eða þriggja kvenna í endurteknum þætti í Útvarpi Sögu. Þar var sagt: ,,Hvað er annars að frétta úr Hveragerðarbæ? Ambagan Hveragerðarbæ, heyrðist tvisvar þá skömmu stund, sem Molaskrifari lagði við hlustir.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2015 | 09:09
Molar um málfar og miðla 1705
Úr frétt á mbl.is (27.03.2015), - haft eftir blaðafulltrúa Eimskipafélagsins: ,, Dýpkun Landeyjarhafnar er ekki á vegum Eimskipafélagsins og þar af leiðandi höfum við ekki lifandi upplýsingar um það hvenær höfnin verður dýpkuð, heldur er okkur tilkynnt um það .... Lifandi upplýsingar? Eru þá til dauðar upplýsingar? Hér er fréttin: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/27/frettin_var_uppspuni_fra_rotum/
Líklega átti blaðafulltrúinn við nýjustu upplýsingar , þegar hann talaði um lifandi upplýsingar.
Molaskrifari heldur sig við sama heygarðshornið. Honum finnst það ósvinna að íþróttadeild Ríkissjónvarpsins skuli troða hálftíma innihaldslausu fótboltafjasi inn í miðja dagskrá á laugardagskvöldi (28.03.2015). Er þetta gert með vitund og vilja útvarpsstjóra? Er meðvitað verið að hrekja þá áhorfendur, sem ekki lifa fyrir fótbolta, yfir til Stöðvar tvö eða til erlendra stöðva? Hversvegna er ekki hin sérstaka íþróttarás Ríkissjónvarpsins notuð? Til hvers er hún? Úrslit leiksins voru kunn. Þetta raus bætti engu við. Óskiljanlegt.
Guðmundur benti á þessa frétt á fréttavef Ríkisútvarpsins (27.03.2015). Molaskrifari þakkar áendinguna. http://ruv.is/frett/sagdur-hafa-reynt-ad-brjotast-inn-med-exi
Í fréttinni segir:,, Þýska dagblaðið Bild heldur því fram í dag að flugstjóri þýsku flugvélarinnar sem fórst í Ölpunum á miðvikudag hafi reynt að brjótast inn í flugstjórnarklefann með öx að vopni. Þetta hefur ekki fengist staðfest af opinberum aðilum.
Talsmaður Germanwings sagði í samtali við AFP fréttastofuna að öx væri meðal öryggisbúnaðar um borð í flugvélinni. Í umfjöllun Bild er vísað til heimildarmanna með aðgang að upplýsingum um málið. Ótrúlegt en satt. Er fólk ekki látið ganga undir próf í íslensku áður en fréttastofan ræður það til starfa? Hér er eitthvað að , - gæðaeftirlitið víðsfjarri. Engin verkstjórn. Enginn les yfir áður en villurnar eru birtar.
Svei mér þá, ef þjóðin var ekki minnt á það í næstum hverjum einasta fréttatíma Ríkisútvarpsins í tvo eða þrjá daga fyrir helgina, að nú ætluðu Íslendingar að fara að spila fótbolta austur í Kasakstan. Og hvað voru margir menn sendir úr Efstaleitinu á staðinn? Voru einhver vandkvæði á að lýsa leiknum héðan , - nú á tímum tækninnar? Það er ekki spurt um kostnað, þegar íþróttir eiga í hlut í Efstaleiti.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2015 | 09:03
Molar um málfar og miðla 1704
Ekki er Molaskrifari sáttur við orðalagið, að eitthvað komi í kjölfarið á einhverju. Of oft heyrist í fréttum, að til dæmis yfirlýsing hafi verið birt í kjölfarið á frétt í dagblaði. Molaskrifari hefði sagt: Yfirlýsingin var birt í kjölfar fréttar í dagblaði. Eitthvað kemur í kjölfar einhvers. Hvað segja lesendur?
Ómar benti á þessa frétt á mbl.is (25.03.2015): http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/03/25/clarkson_yrdi_gullkyr_itv/
Hann segir: ,,Fyrirsögnin er hressandi. Molaskrifari tekur undir. Það má nú segja!
Í dagskrárkynningu í Ríkissjónvarpi (25.03.2015 og raunar oftar) er talað um tveggja þátta röð. Geta tveir verið röð? Ekki í huga Molaskrifara. Tala hefði átt um tvo þætti um tiltekið efni. Þriggja þátta röð gæti staðist.
Á miðvikudagskvöld (25.03. 2015) talaði fréttaþulur í Ríkissjónvarpi um fjárdrátt, það væri að - að draga að sér fé. Molaskrifara var kennt að fjárdráttur væri þegar einhver tæki fjármuni, oftast frá fyrirtæki eða sjóði ófrjálsri hendi með leynd, þá drægi sá sér fé, - ekki drægi að sér fé. En það orðalag heyrist æ oftar og er ekki nýtt af nálinni.
Skyldi fésbókin vera undanþegin íslenskum lögum um bann við áfengisauglýsingum? Þar eru áfengisauglýsingar næstum daglegt brauð. Heyrir þetta ekki undir neinn?
Þegar miklir atburðir gerast úti í heimi, er ómetanlegt fyrir fréttafíkna, gamla fréttamenn að hafa aðgang að erlendu fréttastöðvunum í Sjónvarpi Símans, BBC World, Aljazeera, CNN, CNBC og Sky, svo nokkrar séu nefndar. Sjónvarpsstöðvarnar okkar sinna erlendum fréttum í mjög takmörkuðum mæli, - þótt Bogi Ágústsson geri sitt besta!
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (25.03.2015) var í fréttum af veðri talað um að él yrði á .... Veðurstofan var ekki að spá einu éli, - verið var að spá éljum, éljagangi.
Fréttamat er umdeilanlegt eins og yfirleitt allt mat. Molaskrifara fannst það skrítið fréttamat í fjögur fréttum Ríkisútvarpsins á miðvikudag (25.03.2015) þegar sagt var frá því stuttum fréttatíma, að einhver leikmaður á Englandi hefði verið dæmdur í þriggja leikja bann. En Ríkisútvarpið leggur sig í framkróka með að gera þeim hæfis, sem þyrstir í fótboltafréttir. Enginn hópur fær eins góða þjónustu hjá stofnuninni.
Iðnnám er in(n), auglýsir Tækniskólinn í útvarpi (25.04.2015). Skyldi ekki vera kennd íslenska í Tækniskólanum? Þetta var auðvitað enskuskotin auglýsing. Átt var við að iðnnám væri í tísku, eða vinsælt um þessar mundir.
Ævinlega er gaman að hlusta og horfa þegar Egill Helgason í Kiljunni fjallar um bækur og staði. Bessastaði í vikunni. Hávær píanóleikur, ágætur, reyndar , yfirgnæfði algjörlega flutning á ljóði Þórarins Eldjárns. Gott viðtal á réttum tíma - við Mörð Árnason um nýja útgáfu Passíusálma. Ástæða til að fagna þeirri útgáfu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2015 | 07:33
Molar um málfar og miðla 1703
Fréttaglöggur vinur Molanna benti skrifara á, að fréttin um flugslysið í Frakklandi þar sem 150 manns fórust, hefði verið frétt númer tvö í kvöldfréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (24.03.2015). Molaskrifara er jafn hissa og þessi vinur Molanna. Furðulegt fréttamat. Ríkissjónvarpið var með þetta á hreinu og gerði fréttinni fagmannleg skil.
Fyrsta frétt á Stöð tvö þetta kvöld var gömul frétt um unga konu, sem bjargað var giftusamlega undan bíl , en hún hafði misst stjórn á bílnum og hann oltið. Sagt var í fréttinni, að unga konan hefði verið að tala í síma. Það var svo dregið til baka (enda er slíkt lögbrot) og sagt að hún hefði verið að tala við börn sín í aftursætinu. Áður hafði komið fram í fréttum að unga konan hefði ekki verið í bílbelti, enda kastaðist hún út úr bílnum. Hún var heppin að sleppa lifandi.
Molaskrifari ætlar ekki að hafa um það mörg orð hvað hann hugsar, þegar hann bíður við umferðarljós á fjölförnum og hættulegum gatnamótum (til dæmis Miklubraut/Kringlumýrarbraut, Kringlumýrarbraut/Suðurlandsbraut) og sér hvern ökumanninn af öðrum bruna hjá blaðrandi í síma, stundum á 2-3 tonna jeppum, eða þaðan af stærri farartækjum, með hugann við allt annað en aksturinn. (Dýrleiki bílanna veitir ekki undanþágu frá lögum og reglum). Eða fólkið sem ekur í miðreininni á Hafnarfjarðarveginum á 40-50 km hraða niðursokkið í símtal eða sendingu smáskilaboða (já!) og veit ekkert af veröldinni í kring um sig.
Fælingarmáttur löggæslu og sekta vegna símnotkunar í akstri er greinilega enginn nákvæmlega það sama gildir um að nota ekki stefnuljós.
Hér þarf hugarfarsbreytingu til að auka öryggi í umferðinni og fækka slysum.
Nú er búið að gefa málfarspistlum Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins nafn. Málskot skulu þeirra heita. Ágætt nafn. Molaskrifari hvetur fjölmiðlafólk og raunar alla til að hlusta á þessa pistla á þriðjudagsmorgnum. Gott og þarft efni. Mætti þess vegna vera tvisvar í viku.
Þegar fulltrúi WOW flugfélagsins segir okkur í fréttum (25.03.2015) að flugfloti flugfélagsins sé sá yngsti á Íslandi, er hann þá ekki að segja okkur að félagið noti nýrri þotur en Icelandair? 6300 þotur af gerðinni Airbus A320 eins og WOW notar ( og eins og sú sem fórst í frönsku Ölpunum) eru í notkun hjá meira en 300 flugfélögum. Þær hefja sig til flugs eða lenda með nokkurra sekúndna millibili víðsvegar í veröldinni. Eru í miklum metum sem traustir farkostir. Það eru Boeing þotur Icelandair ekki síður. Í flugheiminum veit Molaskrifari að Icelandair nýtur trausts og virðingar fyrir viðhald- og eftirlitskerfi með flugflota sínum, sem er talið með því besta sem þekkist. Vísbendingar eru nú komnar fram, að það hafi ekki verið bilun í tækjabúnaði, sem olli flugslysinu hörmulega í Ölpunum.
Prýðileg heimildamynd um þann grimma sjúkdóm Alzheimer var sýnd í Ríkissjónvarpinu á þriðjudagskvöld (24.03.2015). Að öðrum ólöstuðum voru viðtölin við Jón Snædal lækni og Sigtrygg Bragason eftirminnilegust. Þættir á borð við þennan eru ekki mjög dýrir í framleiðslu,- aðeins brot af kostnaði við einn svokallaðan Hraðfréttatíma. Ríkissjónvarpið mætti sýna meira af svona efni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.3.2015 | 07:28
Molar um málfar og miðla 1702
Af dv.is (21.03.2015): ,, ...en hún hefur verið ákærð fyrir morð fyrir að hafa ekki stigið inn í til að vernda dóttur sína. Hér er engu líkara en sá sem þýddi fréttina hafi leitað á náðir þýðingarvélar Google. Þetta er ekki boðlegur texti. Hér hefði til dæmis verið hægt að segja, - gripið í taumana - í stað ambögunnar stigið inn í. Vankunnátta og skortur á verkstjórn, - enginn yfirlestur.
Áskell skrifaði (21.03.2015): ,,Orkuveitan ætti að fá einhvern til að lesa yfir auglýsingar. Í Fréttablaðinu er auglýsing frá OR þar sem fyrirtækið auglýsir eftir "þjónustulunduðum og samskiptafærum rafvirkja". "Viðkomandi mun verða staðsettur í starfsstöð ... á Akranesi." Þegar beðið er um samskiptafæran rafvirkja sem verður staðsettur í starfsstöð fær maður nettan hroll.
Molaskrifari þakkar Áskeli ábendinguna. Þessi auglýsing er óttaleg hörmung. Ekki fyrirtækinu til framdráttar.
Í hádegisíþróttafréttum Ríkisútvarps á sunnudag (22.03.2015) var talað um að sigra göngu. Ekkert betra en að sigra keppni. Sem enn heyrist alltaf öðru hverju.
Ekki heyrði Molaskrifari betur en í fréttum Ríkisútvarps klukkan 16 00 á mánudag (23.03.2015), að sagt væri að fjölmiðlar í Ísrael gerðu að því skóna, gæfu í skyn, teldu. Molaskrifari er vanur því að sagt sé að gera einhverju skóna , ekki gera að því skóna. Sjá einnig þá ágætu bók Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson, bls. 767. Nokkuð algengt að heyra misfarið með þetta ágæta orðtak.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (23.03.2015) af kosningum í Frakklandi var talað um stjórnmálaflokk, sem þætti sigursæll í seinni umferð. Hafi þetta verið rétt heyrt þá var þarna ekki notað rétt orð. Nota hefði átt orðið sigurstranglegur, líklegur til að sigra eða farnast vel.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (24.03.2015) var talað um stormana og fjargviðrin ! Það að fjargviðrast hefur ekkert með veðurfar að gera. Fjargviðri er ekki vont veður. Orðabókin segir okkur að sögnin að fjargviðrast, þýði að fjasa, fjölyrða , fjargviðrast yfir einhverju. Það er talsvert um það að fjargviðrast sé í þessum þætti, - þar er of mikið af fjasi, þótt áhugavert efni slæðist þar oft með.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2015 | 08:05
Molar um málfar og miðla 1701
,,Sportaðu nýju lúkki, sagði í heilsíðuauglýsingu frá Útilífi í Fréttablaðinu sl. föstudag (20.03. 2015). Sumar auglýsingastofur , - og fyrirtæki sýna móðurmálinu oft ótrúlega lítilsvirðingu í auglýsingum.
,, Naglinn Vigdís myndi segja: að vera oddviti fyrir Framsóknarflokkinn í tveimur síðustu alþingiskosningum. Haft eftir Vigdísi Hauksdóttur alþingismanni á svokölluðu Smartlandi mbl.is (20.03.2015). Ætti að vera í tvennum síðustu alþingiskosningum. Kosningar er fleirtöluorð. Tvennar kosningar, þrennar kosningar. Hvorki þingmaðurinn, né Smartland, sem svo er kallað, eru kunn fyrir vandað málfar.
Molaskrifari hefur stundum velt því fyrir sér hvort þeir sem ráða ríkjum á Bylgjunni heyri ekki hve auglýsingar eru þar oft hörmulega illa lesnar. Hrynjandin er óeðlileg og lesturinn hvetur síður en svo til hlustunar hvað þá að hann hvetji til viðskipta! Þetta er reyndar ekki nýtt fyrirbæri á Bylgjunni. Hefur viðgengist ótrúlega lengi. Kannski eru menn bara hættir að heyra.
Af mbl.is (20.03.2015): Ný og glæsileg slökkvistöð í Mosfellsbæ var formlega vígð í dag. Stöðin var opnuð, tekin í notkun. Hún var ekki vígð. Til þess að vígja þarf einhvern sem er vígður, hefur tekið vígslu. Enginn slíkur er sjáanlegur á myndinni,sem birt er með þessari frétt á mbl.is. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/03/20/nyja_slokkvistodin_vigd/
Þetta var eitt af því fyrsta manni var innrætt við fréttaskrif hér á árum áður. En þykir kannski ekki lengur góð latína, eins og þar stendur. Þetta sama orðalag var einnig notað í fréttum Ríkisútvarps. Að slökkvistöðin hafi verið vígð. Ekki var sagt hver vígði.
Hvaða tilgangi þjónaði koníaksdrykkja og subbulegt bjórþamb í Hraðfréttum Ríkissjónvarps á föstudagskvöld (20.03.22015.)?
Fulltrúi Framsóknarflokks virtist taka þátt í þessu með mikilli ánægju og utanríkisráðherra Framsóknarflokksins lét endurtekið kjánast með sig í þættinum. Enn er spurt gera stjórnmálamenn hvað sem er til að komast á skjáinn í nokkrar sekúndur?
Hér hefur áður verið spurt hvað þessi þáttagerð kosti? Því fæst ekki svarað, en fróðlegt væri að fá svör við því.
Í þessum sama þætti talaði hraðfréttamaðurinn um seint Patrikks daginn, - sem haldinn væri hátíðlegur til að minnast einum af verndardýrlingum ... Ríkissjónvarpinu tekst ekki alltaf að velja fólk til þáttastjórnunar, sem er bærilega vel talandi. - Til að minnast eins af verndardýrlingum .... Hefði hraðfréttastjórinn betur sagt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)