22.6.2015 | 09:31
Molar um málfar og miðla 1739
Aldarártíð kosningaréttar kvenna, er fagnað um land allt í dag. Þetta var okkur sagt í fréttayfirliti Bylgjunnar á hádegi á kvennadaginn, 19. júní. Ótrúlegt. Ártíð er dánarafmæli, dánardægur. Það eiga allir, sem skrifa fréttir að hafa á hreinu.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins, sama dag 19.júni, var Ingibjörg H. Bjarnason kölluð fyrsta alþingiskonan. Í Spegli Ríkisútvarpsins og í fréttum Stöðvar tvö sama dag var hún kölluð þingkona. Ingibjörg H. Bjarnason kallaði sig alþingismann, sjálfsagt í ljósi þess, að konur eru menn. Þessvegna á að kalla hana alþingismann í dag. Það var seinni tíma Kvennalisti, sem innleiddi orðið alþingiskona, þingkona; átti víst að vera einhverskonar jafnréttishugsun, sem fjölmiðlar fóru svo smám saman að éta upp hver eftir öðrum eins og oft gerist.
Í fréttatíma Bylgjunnar (17.06.2015) heyrðist alþingismaður tala um ,,að halda upp á hundrað ára afmæli kosningarétts kvenna. Kosningaréttar kvenna, hefði það átt að vera. Í sama fréttatíma var sagt að Azoreyjar væru undan strönd Portúgals. Eyjarnar eru 1525 km frá strönd Portúgals. Eiginlega úti í miðju Atlantshafi.
Það er ekki sama hvernig þulir lýsa beinum útsendingum í sjónvarpi. Sautjánda júní var okkur sagt. ,, Nú sjáum við að verið er að bera blómsveiginn að styttu Jóns Sigurðssonar. Þetta þurfti ekki segja okkur. Þetta sáum við. Nær hefði verið að segja okkur hverjir báru sveiginn. Það var reyndar gert seinna. Í svona lýsingum falla menn oft í þá gryfju, að segja fólki hvað sé á skjánum í stað þess að bæta einhverjum fróðleik við.
Í heilsíðuauglýsingu frá Húsasmiðjunni og Blómavali í Fréttablaðinu á þjóðhátíðardaginn segir stórum stöfum: Sláum upp fána. Þetta orðalag hefur Molaskrifari aldrei heyrt. ,,Skjótum upp fána, skært lúðrar hljóma, segir í ljóðinu.
Úr frétt á mbl.is (17.06.2015) um húsbíl sem varð eldi að bráð: ,,Tvær tilkynningar um eld bárust slökkviliðinu um fimm leitið í nótt, önnur á Funahöfða og hin í Kórahverfi. Voru tvær stöðvar sendar í Funahöfða og ein í Kórahverfið. Þetta orðalag hefur svo sem sést áður. En hvernig voru stöðvarnar sendar?
Úr frétt á mbl.is (18.06.2015): ,, Þrír hollenskir ferðamenn létu lífið og 31 manns slasaðist alvarlega þegar rúta ók út af veginum í suðurhluta Portúgals í gærkvöldi. Hér hefði verið rétt að segja ,, ... 31 maður slasaðist alvarlega ... http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/06/18/ferdamenn_forust_i_rutuslysi/
Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (18.06.2015) var okkur skýrt og skilmerkilega sagt að seinna í fréttunum yrði rætt við Sigurbjörgu Daðadóttir. Í fréttum Stöðvar tvö sama kvöld var okkur sagt hver hefði sigrað keppnina Sterkasti maður Íslands. Það hallast ekki á.
Verslunin Víðir auglýsti lambalærisútsölu á Bylgjunni (18.06.2015). Vantaði ekkert annað en að bæta við: Fyrstur kemur, fyrstur fær! K.Þ. sendi Molaskrifara línu af þessu tilefni og sagði: ,,Sæll, Eiður. Í útvarpi er nú auglýst "lambalærisútsala". Ég var að hugsa um að fara, en þá var frændi minn búinn að kaupa lærið. Ekki lék lánið við K.Þ. að þessu sinni. Kannski verður annað læri sett á útsölu!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2015 | 06:59
Molar um málfar og miðla 1738
Rafn sendi eftirfarandi (15.06.2015):
,,Sæll Eiður
Hér er dæmi um fréttabarn, sem hvorki kann íslenzku né þekkir mismun á evrópskum og bandarískum talnakerfum.
Gjaldmiðill getur verið verðminnstur slíkra fyrirbæra, en verðlausari en verðlaus getur hann varla orðið.
Síðan er augljóst, að kvadrilljónin er af bandarískum ættum, þar sem 3 núll skilja að milljónir, billjónir, trilljónir o.s.frv. Í talnakerfum Íslands og Evrópulanda skilja hins vegar 6 núll þessar einingar, þannig að hinar 175 bandarísku kvadrilljónir jafngilda 175.000 evrópskum billjónum (175 billjörðum, ef menn kjósa þá einingu).
Bretar hafa á síðari árum ættleitt hin bandarísku talnakerfi, en önnur Evrópulönd halda sig enn við alvörueiningar.
PS: Hvernig skyldu simbabveski líta út (Simbabveski dollarinn)
Sjá:
,,Seðlabanki Simbabve hefur tilkynnt að gjaldmiðli landsins verði skipt út fyrir fimm erlenda gjaldmiðla. Simbabveski dollarinn er einn verðlausasti gjaldmiðill heims. Öllum innlánsreikningum, með innistæðum frá núll til 175 kvaðrilljónum simbabveskra dala, verður skipt út fyrir reikninga með fimm Bandaríkjadölum. Kvaðrilljón er þúsund trilljarðar.
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/06/13/simbabve_skiptir_ut_gjaldmidli_sinum/
Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Snilldarmyndatexti var í miðopnu Morgunblaðsins á þjóðhátíðardaginn með fimm dálka mynd . Hann hófst svona:
Íslenskt mjólk. Jú, hún hefur fylgt okkur Frónbúum og seðjað hungur okkar, blessuð mjólkin. Ja, hérna. Maður getur fátt annað sagt. Sögnin að seðja beygist eins og sögnin að gleðja, seðja,- saddi, - gleðja,- gladdi - ekki eins og sögnin að veðja.
Í íþróttafréttum og fréttayfirliti í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (15.06.2015) var oftar en einu sinni talað um gestgjafa Pólverja. Ekki gat Molaskrifari betur heyrt en verið væri að um pólsku gestgjafana. Pólverjar voru gestgjafar, ekki gestir. Þessi meinloka hefur svo sem áður heyrst í íþróttafréttum. Hvað málfarsráðunautur athugi.
Úr Fréttatímanum,sem borinn var í hús á fimmtudagskvöld (18.06.2015): Kjölur opnar í fyrsta lagi um mánaðamót. Fréttin var um færð, öllu heldur ófærð á fjallvegum. Kjölur opnar ekki neitt. Kjalvegur, vegurinn yfir Kjöl, verður í fyrsta lagi opnaður um mánaðamót. Það er mörgum fréttaskrifaranum erfitt að hafa þetta rétt.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2015 | 09:56
Molar um málfar og miðla 1737
Rafn skrifaði (16.06.2015) um frétt á mbl.is: ,,Samkvæmt fyrirsögninni hér fyrir neðan hafa tveir (eða fleiri) misst útlim. Ég get séð fyrir mér, að einn missi útlimi, en ekki að fleiri missi útlim, nema Þetta hafi verið Síamstvíburar.
Erlent | mbl | 15.6.2015 | 12:23
Misstu útlim eftir hákarlaárás.- Molaskrifari þakkar bréfið. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/06/15/misstu_utlim_eftir_hakarlaaras/
Í fréttum Stöðvar tvö á föstudag (12.06.2015) stóð fréttamaður við stjórnarráðshúsið við Lækjartorg og sagði: ,, Ríkisstjórnin kom saman til fundar hér í stjórnarráðinu .... . Stjórnarráðshúsið er ekki stjórnarráðið. Stjórnarráðið er samheiti yfir öll ráðuneytin. Þetta er ekkert flókið en vefst ansi oft fyrir mönnum, - jafnvel reyndum mönnum. Í Morgunblaðinu í dag (18.06.2015) er greint frá því í frétt á bls. 2 að búið sé að merkja stjórnarráðshúsið. Það er gott framtak og tímabært. Fleiri fréttamönnum tekst þá ef til vill að hafa heiti hússins rétt í framtíðinni. Fréttinni fylgja tvær myndir. Á myndunum eru karl og kona. Þau eru ekki nafngreind. Það hefði blaðið þó átt að gera. Vinnuregla í góðri blaðamennsku.
Í frétt í Morgunblaðinu (12.06.2015) var sagt að samtal verði tekið við foreldrasamfélagið. Hefði ekki verið einfaldara að segja að ræða ætti við foreldra?
Í sama blaði sama dag er fyrirsögnin: Bankar láni í sömu mynt og innkoma. Ekki finnst Molaskrifara þetta vera vel orðað eða vera fyrirsögn til fyrirmyndar.
Meðan Molaskrifari sat á biðstofu heilsugæslustöðvar á Suðurlandi í liðinni viku las hann gamla Viku, - frá í mars. Þar voru áhugaverðar mataruppskriftir, en skrifari hefur lengi haft lúmskt gaman af því að lesa mataruppskriftir Í sömu uppskriftinni var tvívegis talað um feit hvítlauksrif! Þetta hefur svo sem sést áður. Á dönsku er et fed hvidlög, einn hvítlauksgeiri, eða rif, á ensku: clove (of garlic) . Það er ekkert til sem heitir feitur hvítlaukur!
Í fréttum (12.06.2015) talaði ráðherra um að forða afleiðingum verkfalla. Ekki vel að orði komist. Betra hefði verið til dæmis að tala um að draga úr afleiðingum verkfalla. Í sama fréttatíma var enn einu sinni talað um að draga að sér fé, í stað þess að draga sér fé, - ástunda fjárdrátt. Þetta var að líkindum í tíu fréttum að kvöldi föstudags, en ekki gat Molaskrifari sannreynt það því fréttatíminn er ekki aðgengilegur í vef Ríkisútvarpsins.
Æ algegngara er, og hefur oft verið nefnt hér, að heyra talað um að hafa gaman, í merkingunni að skemmta sér. Þetta orðalag var til dæmis notað í fréttum Ríkissjónvarps sl. laugardag (13.06.2015) Í sama fréttatíma var Thorbjörn Jagland kynntur til sögu sem fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs. Hefði ekki verið eðlilegra að kynna hann sem fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, þótt hann hafi vissulega einnig gegnt embætti utanríkisráðherra?
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (14.06.2015) Var sagt frá líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur; árás á mann, sem lá liggjandi. Það var og.
Oftar en einu sinni að undanförnu hefur heyrst talað um sólskinsveður í fréttum. Dugar ekki að tala um sólskin?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.6.2015 | 09:12
Molar um málfar og miðla 1736
Gamall vinnufélagi skrifaði (12.06.2015): Sæll félagi. Engar framfarir hafa orðið í viðræðum AGS og Evrópusambandsins við Grikki, stendur á vefsíðu Kjarnans. Kannast menn ekki lengur við hið ágæta orð árangur? Máltilfinning mín tengir framfarir ekki viðræðum manna í millum heldur eitthvað stærra. Tel mig ekki þurfa að tilgreina dæmi þar að lútandi, en held að þarna sé farið inn á nýjar (og lakari) brautir með notkun framfara.- Molaskrifari þakkar bréfið. Er ekki verið að þýða úr ensku þarna? Er þetta ekki aulaþýðing á , - ,, No progress has been made .... Dettur það svona í hug.
Trausti skrifaði (13.06.2015): ,,Fyrir fáum dögum var á mbl.is sagt frá manni, sem ætlaði að ganga til Hofsósar.
Á sama miðli getur nú að líta eftirfarandi: "Mörg hundruð manns hafa safnast saman í miðborg Stokkhólmar í Svíþjóð í dag ..."
Ekkert lært!. Nei, þetta er erfitt. Ekkert eftirlit. Enginn prófarkalestur.
K.Þ. benti á þessa frétt á visir.is (12.06.2015): http://www.visir.is/grimmilegur-hollenskur-geitungur-veldur-usla/article/2015150619711
Hann spyr: Hvað merkir sögnin að miða?
Í fréttinni segir:
,,Þetta er eins ferskt og hugsast getur, pakkað í Hollandi seint um kvöld og flutningsleiðin, frakt frá Belgíu, og beint hingað. Klárað úti, miðað frá okkur. Við höfum flutt þetta salat inn í að minnsta kosti tíu ár og fólk verið ánægt með það. Vinsælt salat alla tíð. - ;Molaskrifari stendur á gati.
Úr íþróttafréttum Ríkissjónvarps (14.06.2015): ,, ... og tókst mótið afar vel til. Mótið tókst ekki vel til. Það tókst vel. Heppnaðist vel. Vel tókst til með mótshaldið.
Í fréttum Ríkisútvarps (11.06.2015) var ágætlega sagt frá því að kona hefði lokið sveinsprófi í múraraiðn eða múrverki. Þess verður sjálfsagt ekki langt að bíða að málfarsfemínistar lýsi yfir stríði gegn því orðalagi að kona geti lokið sveinsprófi í nokkurri grein. Oft er talað um að í sveinsprófi felist að gera sveinsstykki, vinna tiltekið, oft vandasamt verk Verður það orð ekki bannfært?
Hópkaup auglýsir sólapúður á netinu (15.06.2015). Skyldi það duga á alla skósóla? Auka endinguna?
Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins var með góða ábendingu í pistli sínum í Morgunútgáfunni í morgun (16.06.2015) þegar hann leiðrétti notkun ambögunnar á sautjánda júní. Þarna er forsetningunni á ofaukið. Þetta glymur sífellt í eyrum og er rangt.
Svo talaði umsjónarmaður þáttarins um lógó þjóðhátíðardagsins !!!
Gleðilega þjóðhátíð!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.6.2015 | 09:56
Molar um málfar og miðla 1735
Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins (14.06.2015) er spurning vikunnar: Telurðu nauðsynlegt að setja lögbann á verkfallsaðgerðir? Spurningunni er beint til fjögurra einstaklinga, sem blaðamaður hefur væntanlega hitt á förnum vegi.
Spurningin er ekki bara út í hött, heldur byggð á nokkuð viðamikilli vanþekkingu spyrjanda. Lögbann er fógetaaðgerð, sem beinist oftast gegn því að stöðva eða banna tiltekna framkvæmd eða aðgerð. Ætlun blaðamanns var víst að spyrja hvort fresta ætti eða banna yfirstandandi verkföll með því að samþykkja lög á Alþingi. Þeir sem skrifa fréttir ættu að vita hver munurinn er á lögbanni og lagasetningu. Ritstjórar gætu beitt sér f yrir námskeiðum, sem gætu til dæmis borið yfirskriftina: Almenn lögfræði 101.
Í Staksteinum Morgunblaðsins (10.06.2015) segir: ,, ... ágæt áminning um hve langt ESB-sinnar gengu til að þvinga áhugamál sitt upp á þjóðina. Molaskrifara kann auðvitað að skjöplast, en málkennd hans er að einhverju sé þvingað upp á einhvern ekki eitthvað sé þvingað upp á einhvern.
Gögn sem skattrannsóknastjóri hefur nú keypt af erlendum huldumanni kostuðu 30 milljónir króna. Það er eins og einn og hálfur lúxusjeppi kostar, sem við daglega höfum fyrir augunum hér á höfuðborgarsvæðinu. Sektir frá einum skattsvikara gætu hugsanlega gert betur en að standa undir þessum 30 milljónum.
Glöggir Molalesendur bentu skrifara á að í skjátexta í fréttum Ríkissjónvarps (10.06.2016) hefði mátt lesa að fé dræpist umvörpum. Molaskrifari hnaut reyndar einnig um þetta. Hafði aldrei heyrt það áður, en orðabókin segir að jafngilt að segja umvörpum og unnvörpum, - í merkingunni í stórum stíl eða í miklum mæli. Unnvörpum er sjálfsagt talsvert algengara , en hvort tveggja jafngilt. Verra þótti Molaskrifara að hann þóttist í fréttayfirliti Ríkisútvarpsins klukkan 1800 sama dag talað um móðurharðindi. Fór í Sarpinn og hlustaði á ný og heyrði ekki betur en þarna væri - r - á röngum stað. Verið var að vísa til móðuharðinda, hallærisáranna eftir Skaftárelda 1783.
Fyrirsögn af mbl.is (13.06.2015): Það er ljós við enda gangnanna. Þetta var tilvitnun í orð fjármálaráðherra. Seinna var þetta leiðrétt. Ljósið var við enda ganganna, ekki gangnanna. Göng - ganga. Göngur gangna. Menn flaska ærið oft á þessu.
Á laugardagskvöld (13.06.2015) hlustaði Molaskrifari stundarkorn á þátt í beinni útsendingu á Rás tvö.
Hann veltir því fyrir sér hversvegna útvarpsmaður hélt uppi löngu samtali í síma við hlustanda, sem mjög greinilega var undir áhrifum áfengis. Dómgreindarbrestur. Kannski fannst umsjónarmanni þetta fyndið.
- - ,, En mér langar á minna á kvennahlaupið, sem fer fram í 26. skipti í dag , sagði íþróttafréttamaður í lok íþróttafrétta Ríkisútvarps í hádeginu á laugardag (13.06.2015). Málfarsráðunautur taki til sinna ráða.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.6.2015 | 09:04
Molar um málfar og miðla 1734
Elín Pálmadóttir blaðamaður og rithöfundur hefur verið sæmd æðstu orðu Frakklands fyrir framlag sitt í þágu Frakklands og franskrar menningar og er það að verðleikum. Rifjast nú upp, að fyrir áratugum á fundi í Blaðamannafélagi Íslands varð þeim sem þetta ritar það á að kalla Elínu og Hólmfríði Árnadóttur á Alþýðublaðinu blaðakonur. (Hefur verið nefnt áður í Molum). Þær gáfu honum heldur betur orð í eyra! Sögðust réttilega vera blaðamenn.
Í frétt Morgunblaðsins segir, að Elín hafi unnið í franska sendiráðinu í París (heyrðist og í fleiri fjölmiðlum). Í París er samkvæmt eðli máls ekkert franskt sendiráð. Þar er íslenskt sendiráð og þar starfaði Elín um hríð á sjötta áratugnum, - eins og raunar kemur fram seinna í fréttinni.
Í fréttinni segir einnig: ,,... og var orðuhafinn Elín nær orðlaus yfir þeim mikla heiðri,sem henni var sýndur. Þar hefur þá borið nýrra við. Aldrei upplifði skrifari það á árunum, sem leiðir lágu saman í blaðamennskunni, að Elínu Pálmadóttur yrði orða vant, hvað þá að hún yrði orðlaus. Jafnan meðal hinna fremstu í blaðamannastétt á sínum langa starfstíma. - Hjartanlega til hamingju með heiðurinn, Elín.
Trausti skrifaði vegna fréttar á mbl.is (09.06.2015): ,,Í frétt þessari er sagt frá manni, sem ætlar "að ganga frá Keflavík til Hofsósar" eða "að labba á Hofsós", en ætli ekki geti verið að maðurinn ætli að ganga til Hofsóss?. Molaskrifari þakkar ábendinguna, en skylt er að geta þess að þetta var síðar leiðrétt á mbl.is.
Vertu næs! Svona auglýsir Rauði kross Íslands. Þetta er ekki íslenska. Þetta er enskusletta. Orðið næs er ekki íslenska. Það er enska skrifuð eftir framburði. Hvers vegna þarf Rauði krossinn að sletta á okkur ensku? Eiga ekki auglýsingar í útvarpi/sjónvarpi að vera á ,,lýtalausu íslensku máli? Man ekki betur. Fer Ríkisútvarpið í auglýsingum bara eftir eigin duttlungum, en ekki settum reglum ?
Enn óvíst með opnanir fjallvega, sagði í fyrirsögn á bls. 8 í Morgunblaðinu á þriðjudag (09.06.2015). Molaskrifari hefði látið eintöluna duga. Hann hefði sagt: Enn óvíst með opnun fjallvega.
Í skjáfréttaborða á Stöð tvö sagði (09.06.2015): Nýtt verslunarrými opnar formlega á föstudag (í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli). Rýmið opnar hvorki eitt né neitt. Það verður opnað eða tekið í notkun. Vonandi verður ekki sagt að það hafi verið vígt, þegar það verður tekið í notkun! Er þetta tapaður slagur?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.6.2015 | 09:21
Molar um málfar og miðla 1733
Rafn skrifaði (08.06.2015): ,,Sæll Eiður Opnun maga við keisaraskurð?
Fréttin er ekki alveg ný, en hún er úr DV (15.05.2015). Ég hefði getað skilið að læknir týndi síma í kviðarholi sjúklings eða jafnvel legi, þar sem um keisaraskurð var að ræða. Hvernig honum tókst að koma símanum í maga sjúklingsins er hins vegar ofvaxið mínum skilningi.
Svona var fyrirsögnin:,,Farsími skilinn eftir í maga konu við keisaraskurð -
Fann titring í kviðnum og var skorin upp aftur. Furðuskrif. Þakka ábendinguna, Rafn.
Æ oftar heyrist talað um að hafa gaman, - að skemmta sér. Síðast heyrði Molaskrifari þetta í fréttum Stöðvar tvö (06.06.2015). Hrátt úr ensku, - to have fun.
Stundum finnst Molaskrifara að verið sé að ljúga að honum í auglýsingum. Horfði um daginn á sjónvarpsauglýsingu um innflutt grænmeti. Sá ekki betur en það væri plastpakkað og hraðfryst. En í auglýsingunni var okkur sagt að það væri ferskara en ferskt! Svona glata orð merkingu sinni.
Allt er nú framkvæmt. Í umræðum á Alþingi á mánudag (08.06.2016) talaði þingmaður um að fundur hefði verið framkvæmdur! Fundur var haldinn.
Úr frétt á mbl.is um unga menn í Keflavík sem stálu smábíl í fylleríi. (08.06.2015): ,, ... og óku þeir sem leið lá yfir í Garð. Og aftur: ,, ... þar sem nokkuð langt er úr Keflavík yfir í Garð ... Þarna hefði átt, samkvæmt málvenju að tala um að fara úr Keflavík út í Garð, ekki yfir í Garð. Úr Garðinum fara menn inn í Keflavík. Úr Keflavík fara menn út í Garð.
Af mbl.is is (08.06.2015): Rafmagn á nú að vera komið á alla notendur frá Skipanesi að Höfn ... Fagnaðarefni að rafmagn skuli komið á alla notendur! http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/08/vidgerdum_lokid_vid_skipanes/ Vonandi hefur engum orðið meint af.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2015 | 09:58
Molar um málfar og miðla 1732
Í fylgiblaði Morgunblaðsins (05.06.2015) er hálfsíðu auglýsing frá Málningarverslun Íslands. Þar segir: Þegar hefðbundin málning er ekki að duga ... Þarna hefur verið að verki slakur textahöfundur hjá auglýsingastofu eða fyrirtækinu. Hér hefði verið ólíkt betra að segja: Þegar hefðbundin málning dugar ekki. Þess er-að sýki er smitandi.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps, klukkan átta, (06.06.2015) var okkur sagt að tuttugu ár væru síðan Juventus sigraði meistaradeildina. Ótrúlegt en satt. Sigraði deildina! Þeir sem svona taka til orða og fást við að skrifa fréttir eru ekki á réttri hillu.
Í útvarpsþætti á Bylgjunni (05.06.2015) sagði umsjónarmaður okkur frá bílstjóra á traktor sem hefði farið út af vegi með tuttugu tonn af málningu. Hér er aulaþýðing á ferð. Orðið traktor er á íslensku eingöngu notað um dráttarvélar, landbúnaðartæki. Hér var greinilega verið að þýða úr ensku en í Bandaríkjunum er orðið tractor (trailer) notað um dráttarbíla með sleðatengi, bíla sem draga festivagn. Encarta orðabók Molaskrifara segir: ,, Front part of a heavy truck , a large vehicle, the front section of a truck used to haul heavy loads,with a driving cab, engine and coupling for trailers.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (06.06.2015) var sagt: ,, ... þegar Eastern Star ferjan hvolfdi í Yangsteánni á mánudaginn. Ferjan hvolfdi ekki. Ferjunni hvolfdi á Yangstefljótinu í Kína. Í sama fréttatíma var sagt: ,, Þetta er í þriðja sinn sem maðurinn er gert að sæta nálgunarbanni gagnvart konunni.... Hér hefði betur verið sagt: ,, Þetta er í þriðja sinn,sem manninum er gert að sæta .....
Af mbl.is (05.06.2015): ,,Parið, sem kemur frá Wales, var handtekið fyrir að stunda kynlíf á almannafæri. Hér hefði átt að standa:Parið sem er frá Wales ... http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/06/05/stundudu_kynlif_a_tonleikum_palomu_faith/
Æ algengara er orðið að heyra eða lesa um manninn sem kemur frá Akureyri eða kemur frá Seyðisfirði. Maðurinn er ekkert að koma þaðan, heldur á heima þar, eða á rætur þangað að rekja.
Á visir.is sagði á föstudag (05.06.2015): Verslun opnar aftur í Hrísey á morgun. Ekki var sagt hvað verslunin ætlaði að opna. http://www.visir.is/verslun-opnar-aftur-i-hrisey-a-morgun/article/2015150609284
Verslun verður sem sé starfsrækt í Hrísey að nýju eftir nokkurt hlé.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2015 | 09:13
Molar um málfar og miðla 1731
Molavin skrifaði (05.06.2015): ,, Það heitir víst að bera í bakkafullan lækinn að nefna þetta enn einu sinni, en þeim á Vísi lærist seint að fara rétt með. Í dag, 5.6.2015 stendur þetta í frétt um jökulgöng fyrir ferðafólk: "Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem vígði göngin við hátíðlega athöfn og leist henni vel á." Barnaskapur og fagleysa einkanna því miður skrif of margra, sem hafa af því launað starf að skrifa í fjölmiðla og netmiðla. Metnaðarleysi eigenda og yfirmanna, sem fylgjast hvorki með né leiðbeina er sömu miðlum ekki til vegsauka. Hverju orði sannara. Þakka bréfið.
Um þessi sömu göng var sagt í fréttum Stöðvar tvö (05.06.2015): ,, .. göngin voru opnuð um klukkan milli fjögur og fimm í dag .
Ítrekað var í fréttum Stöðvar tvö á Laugardagskvöld (06.06.2015) að göngin í jöklinum hefðu verið vígð.
Gamall vinnufélagi sendi eftirfarandi (05.06.2015):
,,Hið ágæta heiti lýsi virðist nú eiga í vök að verjast fyrir fiskolíu sem er greinilega bein þýðing úr ensku. Ef til vill þykir ekki orðið nógu fínt í nýmóðins lífstíl að taka lýsi og því þurfi að finna því einhvern fínni búning sem á betur við í heimi sjálfhverfu kynslóðarinnar.Molaskrifari þakkar bréfið. Hann hefur einnig tekið eftir þessu. Lýsi er ljómandi fallegt orð.
Íslenskt skemmtiferðaskip fer jómfrúarferð, sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (03.06.2015). Skipið heitir Ocean Diamond og er nokkurra áratuga gamalt, uppgert. Það á heimahöfn á Bahamaeyjum. Áhöfnin er erlend. Íslendingar mega ekki kaupa sér far eða sigla með skipinu í ferðum þess umhverfis landið. Hvað er svona íslenskt við þetta?
http://www.ruv.is/frett/islenskt-skemmtiferdaskip-fer-jomfruarferd
Í fylgiblaði Morgunblaðsins (05.06.2015) er hálfsíðu auglýsing frá Málningarverslun Íslands. Þar segir: Þegar hefðbundin málning er ekki að duga ... Þarna hefur verið að verki slakur textahöfundur hjá auglýsingastofu eða fyrirtækinu. Hér hefði verið ólíkt betra að segja: Þegar hefðbundin málning dugar ekki. Þess er-að sýki er smitandi.
Þeir á mbl.is komast stundum hnyttilega að orði, viljandi eða óviljandi. Dæmi frá laugardegi (06.06.2015): ,,Pallbíll sást á hvolfi í Ártúnsbrekku um hádegisbil. Það var og.
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/06/pallbill_a_hvolfi_i_artunsbrekku/
Enn einu sinni var sjónvarpsfréttunum fleygt út af sínum stað vegna fremur ómerkilegs boltaleiks á sunnudagskvöldið (07.06.2015). Fámennt var á áhorfendabekkjum. Svo var þetta sent út á tveimur rásum. Minna mátti ekki gagn gera. Er enginn á fréttastofunni með bein í nefinu?
Molaskrifara finnst Tryggvi Aðalbjörnsson , fréttamaður Ríkisútvarps, komast vel frá því að greina okkur frá réttarhöldum og yfirheyrslum yfir fjármálafólkinu sem nú sætir ákærum vegna hrunsins. Það er ekki einfalt mál að koma kjarna máls úr löngum réttarhöldum til skila í stuttu máli svo vel skiljist. Tryggva hefur tekist það með ágætum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.6.2015 | 09:12
Molar um málfar og miðla 1730
Gamall starfsbróðir benti Molaskrifara á eftirfarandi á vef Ríkisútvarpsins: ,, ,, 4000 sjómenn féllu við Íslandsstrendur, segir á vefsíðu Ríkisútvarpsins. Þar er átt við franska sjómenn. Ætli ekki sé átt við að þeir hafi drukknað? Ef svo er, þá er þetta með eindæmum klaufalegt orðalag, greinilega ritað án þess að hugsa. Vanhugsað. Molaskrifari þakkar ábendinguna. http://frettirnar.is/um-4000-sjomenn-fellu-vid-islandsstrendur/
Þetta var seinna lagfært: ,,Um 4000 sjómenn létust við Íslandsstrendur,, Skárra.
Af mbl.is (02.06.2015): ,,Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvað sér hljóðs á þingi í dag og setti fram þá hugmynd ... Ragnheiður kvaddi sér hljóðs. Fréttaskrifarinn kann ekki að greina milli sagnorðanna að kveða og að kveðja. Kveða kvað. Kveðja - kvaddi.
Í kvöldfréttum Ríkissjónvarps (02.06.2015) sagði fréttamaður: Hér fyrir aftan mig má sjá riffilmann sérsveitarinnar ... Í seinni fréttum sama kvöld talaði fréttamaður um riffilmenn lögreglunnar..
Rifilmaður? Er það ekki skytta? Molaskrifari ekki áður heyrt orðið riffilmaður.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (01.06.2015) sagði fréttamaður: ,, .... segir , að heilbrigðiskerfið þoli ekki lengur við. Ekki er þetta vel að orði komist. Betra hefði verið, til dæmis, - segir heilbrigðiskerfið ekki þola meira, segir heilbrigðiskerfið komið að þolmörkum. Sami fréttamaður talaði um millilandsflugvöll. Átti líklega við millilandaflugvöll.
Á Bylgjunni var sagt (03.06.2015) að hinn umdeildi forseti FIFA hefði stigið til hliðar, - hann sagði af sér. Þetta orðalag er algengt í fjölmiðlum um þessar mundir. Menn eru hættir að hætta, hættir að láta af störfum, hættir að segja af sér. Einnig var sagt að hann væri undir rannsókn. Verið er að rannsaka mál hans. Hvort tveggja eru hráar hroðvirkniþýðingar úr ensku., - step aside og be under investigatiion. Enskan skín í gegn.
Einstaklega illa skrifuð frétt á presssan.is (03.06.2015): http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/15-ara-hengdi-sig-i-kjolfar-eineltismyndbands
Dæmi: Vakaðu yfir fjölskyldunni þinni á meðan þau syrgja. Vandalaust að nefna fleiri.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)