4.6.2015 | 08:26
Molar um málfar og miðla 1729
Molavin skrifaði (03.06.2015): ,,Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók konu í annarlegu ástandi á Austurvelli..." segir í upphafi fréttar á Vísi í dag, 3. júní. Þetta er vitaskuld ekki rangt en óþarfa málalenging að nota fullt heiti embættisins. ,,Lögregla handtók konu..." segir nóg. Lipur texti án málalenginga er kostur. Það ættu ritstjórar að brýna fyrir nýliðum. - Hverju orði sannara. Molaskrifari þakkar bréfið.
Þorvaldur skrifaði (01.06.2015): ,,Í Mogga í dag sagði frá kókaínsmygli til Spánar í ananasávöxtum. Þar sagði að ananasarnir hefðu innihaldið kókaín sem komið hefði verið fyrir í ananösunum. Merkileg og áður óþekkt beyging.
Einnig er talað um skip og sagt að skipið gerði út frá tilteknum stað. Skip gera ekki út, það gerir útgerðarmaður. Þetta með skipin sem gera út hefur áður heyrst og verið nefnt í Molum. Molaskrifari þakkar Þorvaldi þarfar ábendingar.
Af mbl.is (02.06.2015): Strandblak hefur á síðustu árum stækkað mikið hér á landi og í dag eru nokkur hundruð manns sem spila íþróttina að jafnaði. Vinsældir strandblaks hafa aukist eða vaxið hér á landi. Íþróttagreinar stækka ekki. Nokkur hundruð manns iðka íþróttina. Ekki spila íþróttina. Molaskrifari heyrir stundum talað um Ísland sem klakann, svona í góðlátlegum hálfkæringi. Orðið á ekki erindin í fyrirsögn í fjölmiðli eins og hér. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/06/02/strandblaksaedi_a_klakanum/
Í fréttayfirliti Ríkisútvarpsins á hádegi á þriðjudag (02.06.2015) var sagt: Meirihluti landsmanna telur að ríkisstjórnin leggi meiri áherslu á afkomu bankanna en heimilin í landinu. Hljómaði undarlega. Ekki nægilega skýr hugsun. Það hefði látið betur í eyrum Molaskrifara, ef sagt hefði verið: - Meirihluti landsmanna telur að ríkisstjórnin leggi meiri áherslu á afkomu bankanna en afkomu heimilanna í landinu. Skýrara.
Eina útvarpsrásin, sem Molaskrifari hlustar á staðaldri á í bílnum (fyrir utan fréttir á öðrum rásum) er Rondó Ríkisútvarpsins. Þar er útvarpað tónlist af ýmsu tagi, lang oftast góðri tónlist. Engar kynningar. (Um það má deila.) Engar ambögur. Þetta er sjálfsagt tölvuvalið af handahófi úr stóru safni. Molaskrifara brá í brún á mánudagsmorgni (01.06.2015), rétt fyrir hádegið, þegar þjóðsöngurinn, Ó, guð vors lands , allt í einu hljómaði á Rondó. Þjóðsönginn á ekki að spila að tilefnislausu. Það á að fjarlægja hann úr tónverkasafninu, sem Rondó nýtir. Þetta hefur gerst áður áður. Þetta hefur líka verið nefnt áður í Molum.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.6.2015 | 10:18
Molar um málfar og miðla 1728
Molalesandi skrifaði (01.06.2015):,, Á vef Kennarasambandsins er spurt: Eru danskir skólar að bregðast börnum innflytjenda? Væri ekki réttara að segja "Bregðast danskir skólar börnum innflytjenda?" Hvað ætli kennarar í íslensku segi? Molaskrifari þakkar ábendinguna. Auðvitað er - er að - rit-tískan óþörf þarna. Já, hvað segja kennarar?
Draumur Íslendinga um Íslendingaslag ( í einhverri handboltakeppni í útlöndum) rættist ekki, var sagt í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (31.05.2015). Var Molaskrifari eini Íslendingurinn sem hafði engar draumfarir, dreymdi ekkert um þetta efni ? Draumur Íslendinga! Stundum er eins og íþrótta- og fréttadeild Ríkisútvarpsins telji þjóðina ekki hugsa um neitt annað en boltaleiki. Þar á bæ ættu menn að reyna að hugsa aðeins út fyrir íþróttapakkann sem talað erum á hverjum einasta degi, - eða því sem næst.
,,...áhafnarmeðlimir þurfi að hvílast..., var sagt í kvöldfréttum Ríkisútvarps (01.06.2015). Skipverjar þurfa að hvílast. Áhafnarmeðlimir er orðskrípi. Áhafnarmeðlimir komu einnig við sögu í fréttum Stöðvar tvö á þriðjudagskvöld (02.06.2015) . Sum orð,sem helst ætti að forðast, eru ótrúlega lífseig í hugum fjölmiðlamanna.
Málfar í fréttum Bylgjunnar er ekki alltaf til fyrirmyndar, ekki frekar en annarsstaðar. Í hádegisfréttum á sunnudag (31.05.2015) var oftar en einu sinni talað um að láta framkvæma undirskriftasöfnun og halda undirskriftasöfnun .Einnig var talað um að halda bindandi kosningu. Enginn með máltilfinningu á vaktinni ? Efna til undirskriftasöfnunar. Boða til kosninga, efna til kosninga.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (01.06.2015) var rætt við Ólaf Örn Haraldsson þjóðgarðsvörð á Þingvöllum. Meðal annars um aukið fé sem nú fæst til lagfæringa í þjóðgarðinum, hátt í 160 milljónir. Fram kom að miklum fjármunum þurfi að verja til lagfæringa við Silfru vegna landskemmda. Fyrirtæki gera út á köfun í silfurtært vatnið í gjánni. Einnig kom fram að tekið er þúsund krónu gjald af hverjum kafara. Hugsið ykkur: Heilar þúsund krónur! Molaskrifara finnst að gjaldið ætti að vera tíu þúsund krónur og fyrirtækin, sem gera út á köfun í þjóðgarðinum, ættu sjálf að kosta lagfæringar á þeim skemmdum á landinu, sem rekja má til starfsemi þeirra. Þau krefja sennilega hvern kafara um talsvert hærri upp hæð en skitinn þúsundkall. Hvað borga fyrirtækin hátt aðstöðugjald fyrir að fá að vera með rekstur af þessu tagi í þjóðgarðinum?
Það ætti sömuleiðis að vera jafn sjálfsagt að greiða bílastæðagjald á Þingvöllum eins og það er í Lækjargötu eða á Njálsgötu. Þarf að ræða það?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.6.2015 | 09:53
Molar um málfar og miðla 1727
Í auglýsingablaði um stóreldhús frá Ekru,sem fylgdi Fréttablaðinu á laugardag (30.05.2015) segir á forsíðu: Það felst mikill sparnaður í því að versla alla matvöru á einum stað. Við verslum ekki matvöru. Við kaupum matvöru.
Þar segir líka: Nýlega hóf fyrirtækið að selja matvöru í erlend skemmtiferðaskip sem stoppa hér á landi yfir sumartímann, en mikill vöxtur er í þeirra þjónustu. Þennan texta hefði þurft að lesa yfir. Æ oftar sést og heyrist röng notkun sagnarinnar að versla. Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (01.06.2015) talaði alþingismaður (efnislega) um að auðvelda fólki að versla þessa vöru. Að kaupa þessa vöru, hefði það átt að vera.
Gæsluvélin bjargar 5000 manns,segir í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (01.06.2015). Fyrirsögnin er ekki í samræmi við það sem segir í fréttinni. http://www.ruv.is/frett/gaesluvelin-bjargar-5000-manns Flugvél Gæslunnar átti þátt í björgun 5000 flóttamanna.
Á fréttavefnum sama dag segir í íþróttafrétt: ,,Landsliðsmaðurinn Alfreð Finnbogason gæti verið lánaður frá spænska liðinu Real Sociedad til enska úrvalsdeildarliðsins Everton á næstu leiktíð. Gæti verið lánaður ! Ekki vel orðað. http://www.ruv.is/frett/alfred-finnbogason-gaeti-farid-til-everton
Bylgjan auglýsir too hot for you sósu (29.05.2015). Hversvegna ekki tala við okkur á íslensku?
Þá er við komin á rúmsjó, sagði formaður fjárlaganefndar í Viklokunum í Ríkisútvarpinu (30.05.2015). Sennilega átti konan við,að þá værum við komin á lygnan sjó. Það er ekki alltaf logn úti á rúmsjó. Þegar notaðar eru myndlíkingar er betra að fólk viti hvað þær merkja.
Undarleg, löng frétt, af mótmælum í Bandaríkjunum þar sem ekkert gerðist, var í átta fréttum Ríkisútvarps þennan sama laugardagsmorgun. Fréttin hefst á 01:55 - http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/morgunfrettir/20150530
Oft veltir maður fréttamatinu fyrir sér. Auðvitað sýnist sitt hverjum.
Enn tala þeir í Ríkissjónvarpinu um íþróttafréttirnar sem íþróttapakka. Ekki bara að pakkarnir séu stórir eða þéttir! Á laugardagskvöld (30.05.2015) að margt væri að gerast í íþróttapakkanum!
Meira um íþróttafréttir þennan sama dag: Í hádegisfréttum sagði íþróttafréttamaður: Einar tryggði sér bráðabana með því að ná fugl á átjándu holu. Að ná fugli er að leika golfbraut á einu höggi undir pari, eins og sagt er á golfmáli. Ættað úr ensku , birdie.
Þetta má heyra á 18:02 http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/hadegisfrettir/20150530
Í þessum sama íþróttafréttatíma var líka talað um að spila stórt hlutverk. Ekki mjög vandað orðalag.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.6.2015 | 08:56
Molar um málfar og miðla 1726
Glöggur Molalesandi sendi eftirfarandi (29.05.2015): ,,Enginn maður hefur gengt ráðherraembættum lengur en Halldór en hann sat á Alþingi í rúm þrjátíu ár," sagði Heimir Már Pétursson í fréttum Stöðvar 2 fimmtudaginn 28. maí þegar Halldórs Ásgrímsson var jarðsettur. ,,Á hverju skyldi hann hafa reist þessa skoðun? Í Handbók Alþingis segir, að Halldór hafi setið næst lengst sem ráðherra, rúm 19 ár, lengst hafi setið Bjarni Benediktsson eldri, rúm 20 ár. Rétt skal vera rétt. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Fréttamenn eiga að fara varlega í fullyrðingum og kanna heimildir, - eins og til dæmis Handbók Alþingis í þessu tilviki. Ekki bara hafa eftir það sem annarsstaðar hefur verið , stundum ranglega -, sagt.
Ef Ísland sigrar Evróvisjón, - auglýsti Netgíró á dögunum. Það lærist seint, bæði fréttastofum og auglýsingastofum, að það sigrar enginn keppni. Er alveg ómögulegt að hafa þetta rétt?
Í Vikulokum Ríkisútvarpsins nýlega talaði ritstjóri um að gera að því skóna. Rétt er að tala um að gera einhverju skóna, gera ráð fyrir einhverju , spá einhverju. Hefur verið nefnt hér áður.
Er Molaskrifari einn um að vera farinn að þreytast svolítið á því að heyra sífellt í fréttum að unnið sé hörðum höndum, að öllu milli himins og jarðar. Þálítið einhæft og þreytandi til lengdar.
Hvað eruð til tilbúnir að ganga langt? Svona spurði fréttamaður samningamann í kjaraviðræðunum í síðustu viku. Hvernig í ósköpunum datt fréttamanni í hug að viðmælandi hans gæti svarað þeirri spurningu?
Með góðum árangri gera hinar hallærislegu Hraðfréttir Ríkissjónvarpsins út á hégómagirnd stjórnmálamanna og þotuliðs. Ótrúlega margir reynast tilbúnir til að láta hafa sig að fífli fyrir augnablik á skjánum.
Skyldi þáttaröðin Glæpahneigð og endalausir þættir um löggur og slökkviliðsmenn vera efni, sem Ríkissjónvarpið er búið kaupa til næstu fimm ára, eða svo? Er þetta endalaust?
Í fréttum Stöðvar tvö var nýlega (14.05.2015) sagt um hópferð hjólreiðamanna: Hópurinn lagði af stað frá versluninni Örninn í Skeifunni. Frá versluninni Erninum í Skeifunni. Beygja. Í gamla daga sögðu börn og unglingar: Hjólið mitt er í viðgerð í Erninum, - eða í Fálkanum. Í sama fréttatíma var sagt: Forseti Íslands mun eiga afmæli í dag. Þar var ekkert mun. Forseti Íslands átti afmæli þennan dag, 14. maí.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.5.2015 | 06:50
Molar um málfar og miðla 1725
Í fréttum Bylgjunnar (25.05.2015) var haft eftir SDG forsætisráðherra , að þingið mundi sennilega starfa eitthvað inn í sumarið. Er ekki álvenja er að segja fram á sumar, ekki inn í sumarið. En aftur og aftur heyrum við þetta orðalag í fréttum ,... inn í sumarið. Næst verður það sjálfsagt inn í haustið , inn í veturinn - eða hvað?
Fleiri hundruð á mótmælafundi, sagði í fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (26.05.2015). Fleiri en hvað? Þarna hefði átt að tala um mörg hundruð , þótt þátttakendur hafi sennilega verið 1500- 2000 að mati trúverðugs áhorfanda. Kannski hræðist fréttastofan Moggann, þegar kemur að því að tala um fjölda mótmælenda. Frægt var í gamla daga,þegar kunnur ljósmyndari Moggans spurði þegar hann var sendur til að taka mynd af fundi: - Á að vera margt á fundinum?
Tilfinningu fyrir beygingu orða í íslensku fer greinilega hnignandi. Tvö nýleg dæmi af fyrirsögnum af vefsíðinni Allt um flug: 350 helíumfylltar blöðrur röskuðu flug um Bombay-flugvöll. Blöðrurnar röskuðu flugi um flugvöllinn. Og: Þriðjungur starfsmanna hjá Malaysia Airlines verður sagt upp störfum. Ætti að vera: Þriðjungi starfsmanna ....
Af mbl.is (27.05.2015): Þetta gerði hann eftir að hafa stungið rúmlega tvítugan samnemanda sinn. Stakk hann ekki skólabróður sinn? Þekkja menn það orð ekki lengur ?
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/05/27/stakk_samnemanda_og_framdi_sjalfsvig/
Nýjasta skip veiðiflotans var vígt á Vopnafirði í dag, sagði fréttaþulur Ríkissjónvarpsins í kvöldfréttum (27.05.2015). Þarna var áreiðanlega rétt að orði komist, því í Morgunblaðinu daginn eftir var mynd frá komu skipsins til Vopnafjarðar. Meðal þeirra sem tóku á móti skipinu var hempuklæddur klerkur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.5.2015 | 09:30
Molar um málfar og miðla 1724
Af visir.is (21.05.2015): Tinna segist hafa séð Ásmund neyta rauðvíns í Keflavík fyrir loftak við reykingarsvæði flughafnarinnar. Fyrir loftak? Hefði ekki verið eðlilegra að segja, til dæmis, - áður en gengið var um borð? http://www.visir.is/asmundur-a-thingi-i-dag---eg-gat-ekki-sed-ad-hann-vaeri-farveikur-/article/2015150529869
Ekki heyrði Molaskrifari betur en að í fréttum Stöðvar tvö um bresku kosningarnar (07.05.2015) hafi fréttamaður sagt þegar kjörstöðum lokaði. Út í hött að taka þannig til orða.. Í Ríkisútvarpi í tíu fréttum sama dag, sagði Vera Illugadóttir hinsvegar réttilega: ... þegar kjörstöðum var lokað.
Undarlegt, en svo sem ekki óvænt, að heyra í fréttum Stöðvar tvö (15.05.2015) sagt að nýtt hvalaskoðunarskip hefði verið vígt. Verið var að gefa gömlu skipi nýtt nafn. Sú athöfn átti ekkert skylt við vígslu.
Í miðdegisfréttum Ríkisútvarps , klukkan 15 00 (19.05.2015) var sagt: ,, ... segir seinaganginn herma algjörlega upp á stjórnarandstöðuna. Rugl. Enginn hefur lesið skrif þessa viðvanings yfir áður en hann las þau fyrir okkur. Segir seinaganginn algjörlega stjórnarandstöðunni að kenna, hefði hann betur sagt.
Af pressan.is (25.05.2015): Í Evrópu minnast menn þess nú að 70 ár eru liðin frá niðurlagi seinni heimsstyrjaldarinnar í álfunni. Fréttabarn eftirlitslaust á vaktinni um hvítasunnuna. Frá lokum seinni heimsstyrjaldar, hefði þetta á að vera. Fleira er raunar athugavert í þessari frétt.
Meira af pressan.is sama dag. Stuttmyndin Gift er ekki nema tæpar fimm mínútur að lengd en hún skilur engan eftir ósnortinn. Lætur engan ósnortinn, hefði verið betra og í samræmi við málvenju. Kannski var hér hugsað á ensku, - ... leaves no one untouched.
Á visir.is sá Molaskrifari grein (25.05.2015) með fyrirsögninni: Gagnsæi stölkun ofbeldi. Molaskrifari hnaut um þetta. Hann þekkir ekki orðið stölkun í íslensku. Það er ekki að finna í þeim orðabókum sem honum eru tiltækar. Hann þekkir hinsvegar ensku sögnina to stalk, sem meðal annars hefur þá merkingu á leggja í einelti. Enska nafnorðið stalk þýðir stilkur. Stölkun er allsendis óþörf enskusletta og á ekkert erindi til okkar.
http://www.visir.is/gagnsaei---stolkun---ofbeldi/article/2015150529662
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (26.06.2015) var talað um að selja í mansal. Selja sem þræl, selja í þrælahald. Fast er í málinu að tala um að selja einhvern mansali, ekki selja í mansal. Það er röng málnotkun. Enginn les yfir. Eða enginn veit betur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.5.2015 | 10:01
Molar um málfar og miðla 1723
Fyrirsögn úr Kjarnanum (23.05.2015): Svíar sigruðu Eurovision söngvakeppnina eftir spennandi stigagjöf - Það er erfitt að hafa þetta rétt. Það sigrar enginn keppni. http://kjarninn.is/2015/05/sviar-sigrudu-eurovision-songvakeppnina-eftir-spennandi-stigagjof/
Svíþjóð sigraði í Eurovision, var réttilega sagt á mbl.is. http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/05/23/svithjod_sigradi_i_eurovision/
Af mbl.is (16.05.2015) : http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/05/16/kindur_og_snjostormur_til_cannes/
Með kindur og snjóstorm til Cannes. Orðið snjóstormur er ljót hráþýðing úr ensku, sem fréttaskrifarar ættu að forðast.
Í Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins (18.05.2015) sagði umsjónarmaður að málflutningar mundu hefjast í umboðssvikamálinu ..... Málflutningur er eintöluorð. Ekki til í fleiritölu. Í sama þætti sagðist umsjónarmaður vonast eftir skandalasögum úr opnununarpartíí í Vínarborg í væntanlegu símtali síðar í þættinum. Í sama þætti daginn eftir sagði umsjónarmaður, - ,,klukkan einhverjar 18 mínútur í sjö. Verðugt verkefni fyrir málfarsráðunaut að kenna dagskrárfólki að tala skammlaust um klukkuna og tímann! Í þessum sama þætti sagði umsjónarmaður líka nýlega, - manni langaði til að sofa. Málfarsráðunautur gæti rætt um ýmislegt fleira en klukkuna og tímann, þegar tækifæri gefst til að spjalla við umsjónarmenn.
Heldur var það fáfengilegt hjá ráðherra í ríkisstjórn Íslands að þiggja boð WOW flugfélagsins um frítt flug og gistingu í fyrstu áætlunarferð félagsins til Baltimore á dögunum. Það er ekki eins og þetta hafi verið einhver áfangi í flugsögunni eða samgöngusögunni. Síður en svo. Icelandair flaug árum saman til þessa sama áfangastaðar. Til sama flugvallar. Ráðherrar eiga ekki að láta nota sig svona.
Málskotinu, pistli málfarsráðunautar um íslenskt mál í Morgunútvarpinu er of þröngur stakkur skorinn. Örfáar mínútur einu sinni viku. Mætti gjarnan vera annan hvern dag. Þetta er nefnilega vinsælt og þakkarvert efni.
Rafn skrifaði (18.05.2015): ,,Sæll Eiður
Hvort ætli fréttabarnið, sem reit fréttina hér fyrir neðan, hafi ætlað að tala um hækkun innan árs eða milli ára. Hækkun á árinu er hækkun frá uppafi árs til loka þess, en hækkun milli ára er hækkun frá einu ári til annars, væntanlega meðalverð til meðalverðs. Að tala um hækkun á síðasta ári milli ára er því endaleysa. Framhaldið bendir til, að um hafi verið að ræða hækkun innan ársins.
,,Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði á síðasta ári um 8,5% milli ára. Það hefur haldið áfram að hækka það sem af er þessu ári og var um 10% hærra á fyrsta fjórðungi ársins miðað við sama tíma í fyrra.
http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/05/17/ibudaverd_haekkadi_um_8_5_prosent_2/
Af mbl.is (19.05.2015): ,,Eurovison-stjarnan María Ólafsdóttir er komin með kærasta. Sá heppni er blaðamaður á Fréttablaðinu og heitir Gunnar Leó Pálsson. Hann er með henni í Vín þar sem hún stígur á stokk í seinni riðlinum á fimmtudaginn. Enn er hér hugtakaruglingur á ferð hjá lítt reyndum fréttaskrifara. María Ólafsdóttir ætlar ekki að stíga á stokk. Hún ætlar að koma fram og syngja. Þeir sem stíga á stokk gera það er þei r strengja þess heit að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert. Það er að verða næsta daglegt brauð að sjá þetta rugl og heyra í fjölmiðlum. http://www.mbl.is/smartland/frettir/2015/05/19/maria_byrjud_med_bladamanni_a_frettabladinu/
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2015 | 10:20
Molar um málfar og miðla 1722
Molaskrifari tekur nú upp þráðinn að nýju. Kannski verða Molarnir strjálli. Sjáum hvað setur.
Molaskrifari þakkar vinum í netheimum af heilum hug einlægar samúðarkveðjur og hlý orð undanfarna daga.
Helgi Haraldsson prof.emeritius í Osló benti á eftirfarandi frétt af mbl.is (07.05.2015): Hann segir: ,,Málið auðgast
http://www.mbl.is/folk/frettir/2015/05/07/blodug_slagsmal_i_kuluspili/ :
"Upphafsmennirnir enduðu á slysadeild eftir að högg sem þeir fengu en reynt var að þaga um atvikið Molaskrifari þakkar Helga ábendinguna.
,,Fjórar magnaðar konur í tónlist stíga á stokk - fjórir laugardagar!
Þetta er fyrirsögn úr fréttabréfi og fjölpósti Listahátíðar í Reykjavík (08.05.2015).
Átt er við, að fjórar magnaðar konur ætli að stíga á svið, ætli að koma fram. Það er slæmt, að þeir sem skrifa fréttabréf Listahátíðar skuli ekki betur að sér en þessi fyrirsögn gefur til kynna. https://mail.google.com/mail/u/0/?shva=1#inbox/14d335fed026ad72
Í miðnæturfréttum Ríkisútvarps (23.05.20159 laugardag fyrir hvítasunnu voru þrjár fréttir. Já, þrjár fréttir.
- Svíþjóð vann. Fáir sem ekki vissu það. Var áfram fyrsta frétt langa lengi.
- Kvikmyndin Hrútar hlaut verðlaun í Cannes. Margsinnis búið að segja frá því áður.
- Gömul frétt um yfirvofandi verkfall á Landspítalanum.
Alvöru fréttastofa?
Greint var frá andláti Halldórs Ásgrímssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, á forsíðu Morgunblaðsins þriðjudaginn 19. maí.
Halldór var lengi í forystuhlutverki í íslenskum stjórnmálum; ráðherra í 19 ár; varaformaður og formaður Framsóknarflokksins í meira en aldarfjórðung. Í morgunfréttum Ríkisútvarpsins klukkan 06 00 þennan dag var fyrsta fréttin um andlát Halldórs. Það var rétt fréttamat.
Í upphafi Morgunútgáfu Ríkisútvarpsins hálfri stundu síðar var ítarlegt fréttayfirlit. Þar var ekki minnst einu orði á að fyrrverandi forsætisráðherra landsins væri fallinn frá, ,- óvænt og um aldur fram. Í fréttum klukkan sjö var fregnin um andlát Halldórs Ásgrímssonar fyrsta frétt. Í átta fréttum Ríkisútvarpsins var fyrsta frétt hins vegar um að Reykjavíkurborg hefði brugðist eftirlitshlutverki sínu gagnvart Ferðaþjónustu fatlaðra. Löngu vitað. Ekki nýtt.
Dómgreindarbrestur og/eða fagleg fákunnátta?
Það var líka dómgreindarbrestur að hefja ekki sjónvarpsfréttir þetta kvöld á því að segja frá andláti fyrrverandi forsætisráðherra landsins. Og hversvegna þurfti Ríkissjónvarpið að endurbirta spádóm hans um aðild Íslands að ESB árið 2015? Molaskrifara fannst eiginlega eins og verið væri að gera lítið úr Halldóri með þessari tilefnislausu tilvitnun.
Kannski er dómgreind og fréttamat Molaskrifara bara gamaldags.
Molaskrifari átti langt og farsælt samstarf við Halldór Ásgrímsson á Alþingi og seinna í utanríkisráðuneytinu, þegar Halldór réði þar húsum. Á það samstarf bar aldrei skugga. Mér reyndist Halldór Ásgrímsson drengur góður í einu og öllu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2015 | 22:41
Molar um málfar og miðla 1721
Molavin skrifaði (05.05.2015): "RÚV bætir þjónustu við börn með Krakka RÚV" segir á Fasbókarsíðu Ríkisútvarpsins. Það sem áður hét Barnatíminn verður þá væntanlega nefnt Krakkatíminn. Það var blæbrigðamunur á merkingu orðanna börn og krakkar (fór svolítið eftir þægð), sem kom fram í máltækinu "börnin mín á morgnana og krakkarnir á kvöldin." Það færi vel á því að sjálft Ríkisútvarpið legði rækt við auðugt málfar í stað þess að nota aðeins "strákar, stelpur og krakkar" um þau. Stofnunin á að vera til fyrirmyndar um málfar, ekki elta lágkúruna. Mæl þú manna heilastur, Molavin. Þakka bréfið.
Trausti benti á þessa frétt á mbl.is , (07.05.2015) http://www.mbl.is/frettir/erlent/2015/05/06/neita_ad_greida_allan_reikninginn/
Í fréttinni segir: ,,Audi-bílaumboð í Watford á Englandi neitar að greiða reikning sem hljóðar upp á ríflega 700 pund sem kona fékk eftir að hafa snætt á veitingastað í Lundúnum, en umboðið hafði boðist til að bjóða henni og einum gesti út að borða eftir að hafa ollið skemmdum á bifreið sem hún hafði keypt.
Hann spyr: Er sögnin "að olla" nú búin að yfirtaka hlutverk sagnarinnar "að valda"? Ekki er nema von að spurt sé. Notkun sagnarinnar að valda vefst fyrir mörgum fréttamönnum.
Skúli benti á þessa frétta á visir.is (04.05.2015) og segir: ,,Sæll. .eiða miklum tíma saman Eru engin takmörk fyrir vitleysunni? Fréttabörn
Í fréttinni segir:
Ég mun alltaf muna eftir tímum okkar saman en því miður þá gera aðstæður okkur ekki kleift að eiða miklum tíma saman.
http://www.visir.is/tiger-woods-og-skidastjarnan-lindsey-vonn-haett-saman/article/2015150509842
Molaskrifari þakkar Skúla ábendinguna.
Það er ekkert nýtt að framburður heitis bandaríska ríkisins Arkansas vefjist fyrir fréttamönnum. Nú síðast á miðvikudag (06.05.2015). Þá var í morgunfréttum Ríkisútvarps ítrekað talað um /arkansás/ - ekki /a:knaso/ Vitleysisframburðurinn /arkansás/ var endurtekinn í hádegisfréttum, en einnig heyrðist /arkansas/ sem er gamall draugur,sem erfitt virðist að kveða niðu .
Molaskrifari hefur verið slakur lesandi og hlustandi undanfarna daga , en lætur ekki hjá hlýða að þakka Speglinum í Ríkisútvarpinu fyrir mjög athyglisverða umfjöllum um málefni vinnumarkaðar, samningagerð og vinnulag á Norðurlöndunum. Bæði á það við um viðtal Jóns Guðna Kristjánssonar við Göran Persson fyrrverandi forsætisherra Svíþjóðar og umfjöllun Arnars Páls Haukssonar í sama þætti í kvöld og í gærkvöldi um stöðu mála og vinnulag í Danmörku. Mjög fróðlegt. En auðvitað vita bæði samtök launafólks og atvinnurekenda á Íslandi miklu betur um besta vinnulagið til árangurs í þessum efnum en hliðstæð norræn samtök. Við erum alltaf bestir í öllu eins og ónefndur maður, segir svo oft við aðrar þjóðir. Eða hvað?
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.5.2015 | 12:08
Molar um málfar og miðla 1720
Síðdegis á laugardag (02.05.2015) átti Molaskrifari leið um sunnanvert Snæfellsnes. Gamalkunnar slóðir úr pólitískum ferðalögum fyrri ára. Þá brunnu þar sinueldar, sunnan vegar. Slökkvilið komið á vettvang og bændur á traktorum með haugsugudælur. Erfitt virtist að komast eldunum. Sendi tvær myndir af brunanum klukkan 19:06 á fréttastofu Ríkisútvarpsins. Mbl.is birti mynd og frétt frá fréttamanni sínum, ágætum vini mínum, Sigurði Boga Sævarssyni ,sem allstaðar er, þar sem eitthvað er að gerast, klukkan 1945. Myndina sem ég sendi, sá ég ekki á vef Ríkisútvarpsins fyrr en klukkan 23:35 um kvöldið og heyrði ekki af brunanum í tíu fréttum útvarps um kvöldið. Það kann þó að hafa farið fram hjá mér. Svona geta menn verið misfljótir að bregðast við eða fréttamatið misjafnt. Ekkert heyrði ég frá fréttastofu Ríkisútvarpsins um að myndirnar hefðu borist þangað. En mynd var birt og ljósmyndara skilmerkilega getið, óumbeðið. Ekki vantaði það. Ekki var sagt svo mikið sem svei þér eða myndasendingin þökkuð. En auðvitað má maður ekki gera of miklar kröfur. Kurteisi kostar reyndar ekki neitt. En það var svo sem ekkert að þakka. Þetta var minn gamli vinnustaður, - í meira en tíu ár. Taugarnar til hans hafa kannski trosnað svolítið, en ekki slitnað. Gaman að þessu í aðra röndina! Kannski fara fréttanæmar myndir bara eitthvað annað næst. Oft með myndsímann á lofti. Hver veit? Fréttabakteríuna er ekki hægt að uppræta. Hún er fjári lífseig. Og eiginlega óviðráðanleg. Rétt eins og pólitíska bakterían!!!
K.Þ. Benti á frétt á pressan.is (02.05.2015). Hann segir:,, Í þessari frétt stendur "Íbúar í bökkunum er brugðið ... ..." Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Hvað eftir annað þessa daga má heyra fréttamenn tala um Laundeyjarhöfn. Landeyjahöfn ætti það að vera,- höfnin er kennd við Landeyjar, ekki Landey. Svo ættu ráðamenn að hlusta meira á þá sem stýra Herjólfi en þá sem sitja við módelsmíðar og grúfa sig yfir excelskjöl, - með fullri virðingu - fyrir öllum. Eins og er, þá er höfnin meira og minna ónóthæf og skiptir nýr Herjólfur með milljarðakostnað í för með sér þar engu máli. Hann breytir ekki sandstreyminu en skattgreiðendur þurfa að borga brúsann. Hlustið á sjómennina.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, - ESG
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)